Skipti um andlit og fann ástina

  2018 sat Joe DiMeo í bíl í New Jersey í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Þetta var ungur og hraustur drengur,  24 ára.  Þá lenti hann í hroðalegu bílslysi.  Á augabragði breyttist bíllinn í skíðlogandi eldhaf.  Joe brenndist illa.  80% líkamans hlaut 3ja stigs bruna.  Andlitið varð ein klessa og læknar þurftu að fjarlægja nokkra fingur.

  Læknar reyndu hvað þeir gátu að lagfæra andlitið.  Þeir sóttu húð, bandvefi og fleira en varð lítið ágengt í 20 tíma aðgerð.  Nokkrum árum síðar var afráðið að taka andlit af nýdánum manni og græða á Joe.  140 manns tóku þátt í 23ja tíma aðgerð.  Þetta voru skurðlæknar,  hjúkrunarfræðingar og allskonar. 

  Aðgerðin tókst eins og bjartsýnustu menn þorðu að vona.  Að vísu er nýja andlitið of stórt og af 48 ára manni.  Joe þykir þetta skrýtið.  En það venst.  Mestu skiptir að vera kominn með andlit.  

  32 ára hjúkrunarfræðingur í Kaliforniu,  Jessy Koby, frétti af aðgerðinni.  Starfandi á sjúkrahúsi heillaðist hún af uppátækinu.  Til að fá nánari vitneskju af þessu setti hún sig í samband við Joe.  Eftir því sem þau kynntust betur kviknuð tilfinningar í garð hvors annars.   

  Nú er hún flutt inn til hans og ástin blómstrar.         

nýtt andlitný ásjóna


Aldraðir glæpamenn

  Ég átti erindi í bókasafn.  Þar sátu tveir aldraðir karlar og ein gömul kona.  Ég giska á að þau hafi verið um eða yfir áttrætt.  Spjall þeirra barst að forréttindum aldraðra.  Þau könnuðust við að komast upp með eitt og annað vegna þess að almenningur standi í þeirri trú að gamalt fólk sé heiðarlegt.  Þau flissuðu og karlarnir nefndu dæmi.

  Annar sagðist ekki lengur aka bíl.  Þess í stað taki hann strætó - án þess að borga.  Hann tekur upp símann,  leggur hann á lesarann en borgar ekki.  Bílstjórarnir fatta ekki neitt.

  Hinn hafði unnið hjá stóru fyrirtæki.  Starfsmenn fengu skírteini sem veitir afslátt á ýmsum vörum og þjónustu.  Skírteinið er löngu útrunnið.  Hann notar það samt stöðugt og enginn fattar.    

  Þeir komust upp með að hnupla smáhlutum í verslunum.  Öryggisverðir og afgreiðslufólk vaktar bara ungt fólk.  Þeir eiga líka til að fara á matsölustaði sem rukka eftir á.  Þeir stinga af þegar komið er að borgun.  Trixið er að fara út í rólegheitum.  Ef þeir eru nappaðir þá leika þeir sig ringlaða.  Þykjast ekki skilja upp né niður.  Allir sýna því skilning. 

  "Ég myndi alddrei þora neinu svona,"  sagði konan og staulaðist út.


Banki rassskelltur

  Um eða eftir miðjan níunda áratuginn var hraðbanki kynntur til sögunnar.  Sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi á,  eins og skáldið orðaði það.  Nýjungin var kynnt með öflugri auglýsingaherferð.  Sú kostaði skildinginn.   

  Maður nokkur átti bankanum grátt að gjalda.  Hann hafði skrifað upp á ábyrgð fyrir bankaláni ættingja.  Ábyrgðin var upp á 500 þúsund.  Lánið lenti í vanskilum.  Bankinn skuldsetti manninn.  Verra var að bankinn uppfærði upphæðina til samræmis við verðbólgu þess tíma.  Maðurinn var ósáttur og fór með málið fyrir dómstóla.  Þar tapaði hann málinu.

  Maðurinn stofnaði fyrirtækið Hraðbanki og festi sér nafnið í firmaskrá.  Því næst gekk hann á fund bankastjóra.  Gerði honum grein fyrir því hver ætti nafnið Hraðbanki.  Næsta skref væri að fá lögbann sett á auglýsingaherferðina.  Eða - það sem hann væri líka til viðræðu um - að bankinn keypti af sér nafnið.  Það væri falt fyrir 1200 þúsund krónur. 

  Maðurinn var ekki með frekju.  Þetta var sú upphæð sem hann hafði tapað í viðskiptunum við bankann.  Upphæðin var aðeins brotabrot af því sem auglýsingaherferð bankans kostaði.  Bankastjórn stökk með snatri á tilboðið. 

   


Galdrar Bítlanna

 

  Breska hljómsveitin Bítlarnir (The Beatles) átti skamman feril á sjöunda áratugnum.  Plötuferill hennar spannaði sex ár.  Á þeim tíma sló hún hvert metið á fætur öðru.  Svo rækilega að um tíma átti hún samtímis sex vinsælustu lög á bandaríska vinsældalistanum.

  Hljómsveitin hafði á að skipa tveimur bestu lagah0fundum sögunnar.  Áður en yfir lauk var sá þriðji kominn í hópinn.  Allir ágætir textahöfundar.  Þar af einn sá allra besti,  John Lennon.  Þarna voru líka saman komnir tveir af bestu rokksöngvurum sögunnar.

  Bítlarnir voru leikmenn;  sjálflærðir amatörar.  Þeir kunnu ekki tónfræði né nótnalestur.  Samt stóðust þeir samanburð við hvaða hljómsveitir sem var. Eða réttara sagt:  skákuðu öllum hljómsveitum.

  Þó að enginn Bítill hafi lært á hljóðfæri þá léku þau í höndum þeirra.  Allir spiluðu þeir á gítar,  hljómborð,  trommur og allskonar.  Einn spilaði listavel á munnhörpu.  Annar á indverskan sítar.  Þannig mætti áfram telja.  

  Upptökustjóri Bítlanna,  George Martin,  var sprenglærður í klassískri tónlist.  Af og til benti hann Bítlunum á að eitthvað sem þeir voru að gera stangaðist á við tónfræðina.  Jafnóðum varð hann að bakka því það sem Bítlarnir gerðu "rangt" hljómaði betur.  

  Einn af mörgum kostum Bítlanna var að þeir þekktu hvern annan svo vel að þeir gátu gengið í hlutverk hvers annars.  Til að mynda þegar John Lennon spilaði gítarsóló í laginu "Get Back" þá fór hann í hlutverkaleik.  Þóttist vera George Harrison.  Síðar sagði George að hann hefði spilað sólóið alveg eins og John.  

  Hér fyrir ofan er síðasta lag sem Bítlarnir spiluðu saman,  "The End" á plötunni Abbey Road.  Í lokakafla lagsins taka John,  Paul og George gítarsóló.  Þetta er óæfður spuni.  Eitt rennsli og dæmið steinlá.  

  Fyrir neðan eru gítarsólóin aðgreind:  Paul til vinstri,  George til Hægri,  John fyrir neðan. 


Klaufalegt mont

  Ég hef efasemdir um að fólk verði gáfaðra af hassreykingum.  Hvað þá að það verði miklu gáfaðra af þeim.  Kannski er það einstaklingsbundið.  Sumir hasshausar virðast ekki burðast með meiri gáfur en gerist og gengur. 

  Unglingspiltur í Bandaríkjunum tók upp á því að rækta kannabis.  Fljótlega varð hann stórtækur.  Árangurinn steig honum til höfuðs.  Hann kom sér upp netsíðu.  Þar hældi hann sér af velgengninni.  Var meðal annars duglegur við að sýna ljósmyndir af plöntunum.

  Lögreglan var ekki lengi að bruna heim til hans.  Hann var færður fyrir dómara.

  - Hvernig í ósköpunum datt þér í hug að auglýsa glæpinn á opinni netsíðu?  spurði dómarinn.

  - Ég hélt að löggan hefði annað og þarfara við tímann að gera en hanga á netinu,  svaraði kauði og uppskar 4ra ára fangelsisvist.

hass   


Íslendingar verðlaunaðir í Ameríku

  Woody Guthrie (1912-1967) er stundum kallaður faðir bandarísku þjóðlagatónlistarinnar (folk music).  Hann var trúbador,  flakkari, söngvari og söngvaskáld.  Hans hljóðfæri voru kassagítar og munnharpa.  Eftir hann liggja mörg hundruð söngvar.  Mörg lög er gleymd.  Aðeins niðurskrifaðir textar standa eftir.      

  Fjöldi rokkstjarna skilgreinir sig sem lærisveina Woodys og hafa hljóðritað lög hans.  Allt frá Bob Dylan og Bruce Springsteen til U2 og Wilco.  Hann söng um lítilmagnann og baráttu gegn fasisma.  Í seinni heimsstyrjöldinni barðist hann með bandaríska hernum gegn Hitler,  Mussolini og þeirra kónum.  Um það orti hann ófáa söngva.  Á gítarinn var letrað stórum stöfum "Þetta tól drepur fasista".

  Í Oklahoma er myndarlegt Woody Guthrie safn.  Árlega heiðrar það - verðlaunar - einhverja sem starfa í anda Woodys.  Á dögunum var Íslendingum og stöllum þeirra í kvennapönksveitinni Pussy Riot afhentur verðlaunagripurinn 2023 sem er smækkuð eftirgerð af gítar Woodys á stalli.  Pussy Riot einbeitir sér að afhjúpun á fasistatilburðum Putins.  Fyrir það hafa stelpurnar verið fangelsaðar í Rússlandi og sætt harðneskjulegri þrælkun.

pussy-riot-woody-guthrie-award


Ævintýraleg bílakaup

  1980 útskrifaðist ég úr MHÍ.  Þá lauk blankasta kafla ævi minnar.  Nokkru síðar fór ég að skima eftir ódýrum bíl.  Enda kominn með fjölskyldu.  Í gegnum smáauglýsingu í dagblaði bauðst mér að kaupa gamla Lödu.  Tvær systur áttu hann.  Sökum aldurs treystu þær sér ekki lengur út í umferðina.  Þær höfðu reyndar aldrei keyrt nema smávegis yfir hásumarið.  Bíllinn var ótrúlega lítið keyrður. 

  Ég skottaðist til systranna.  Þær bjuggu á efstu hæð í lyftulausri blokk.  Eftir spjall fylgdi önnur þeirra mér út að bíl.  Hún átti erfitt með gang.  Við vorum svo sem ekkert að flýta okkur.

  Bíllinn leit út eins og nýr.  - Hvað sagðir þú að hann væri gamall?  spurði ég.

  - Hann verður 12 ára núna 7. september,  svaraði hún án umhugsunar.

  Ég hrósaði lakkinu.  Hvergi ryð að sjá.  - Jú,  því miður,  andvarpaði konan.  Hún hafði fundið ryðblett.  Hún mundi ekki hvar hann var.  Hófst þá leit.  Ég leitaði líka.  -  Hann er neðarlega,  útskýrði hún.  Að nokkrum tíma liðnum fannst hann neðan við framhurð farþegamegin.  Þetta var smá bóla.  Varla stærri en einn mm í þvermál. 

  -  Ég var heppin að vera komin með ný gleraugu,  sagði hún.  - Ég sé svo miklu betur með þau.

   Ég spurði hvort bíllinn hafi sloppið við óhöpp.  Nei,  það kom dæld á frambretti.  Hún var löguð á verkstæði.  Sást ekki að utan en hún bauð mér að þreifa á brettinu að innanverðu.  Þar mátti finna örlitla ójöfnu.  Jafnframt sýndi hún mér smáa saumsprettu á fóðri fyrir ofan aftursæti.  Aldrei hafði neinn setið í aftursætinu.  Þetta væri framleiðslugalli.  Ég hefði ekki tekið eftir saumsprettunni sjálfur.

  Ég nefndi að gaman væri að setja bílinn í gang og sjá hvernig hann hagaði sér í umferðinni.  Sú gamla dró upp bíllykla.  Í stað þess að rétta mér lyklana þá settist hún undir stýri,  lokaði dyrum og startaði.  Ég bjóst að setjast inn farþegamegin en hún brunaði af stað.  Hún tók stóran sveig á bílaplaninu og ég horfði síðan á eftir henni hverfa fyrir horn blokkarinnar.  Að nokkrum mínútum liðnum kom hún brunandi aftur,  drap á bílnum, kom út skælbrosandi og sagði: -  Það held ég nú að hann mali fallega.  Hann er eins og hugur manns í umferðinni! 

  Ég keypti bílinn án þess að hafa sest inn í hann.  Konan tók af mér loforð um að fara vel með hann.  - Hann þekkir ekkert annað. 

  Hún fékk símanúmer mitt:  - Til að fylgjast með hvernig honum reiðir af.  

lada


Rangur misskilningur

  Til margra ára var sjoppulúgan á BSÍ umferðamiðstöðinni fastur áfangastaður á djamminu.  Þegar skemmtistöðum var lokað á nóttunni var notalegt að renna upp að lúgunni og fá sér kjamma með rófustöppu undir svefninn.   Á skemmtistöðunum neytti fólk ekki fastrar fæðu en þeim mun meira af fljótandi vökvum.  Oft áfengum. 

  Á daginn var veitingastaður inni í umferðamiðstöðinni.  Þar var boðið upp á gamaldags heimilismat á ágætu verði.  Líka hamborgara.

  Eitt sinn var ég staddur á veitingastaðnum.  Þangað inn kom par,  á að giska 17-18 ára.  Parið fór skoðunarferð um staðinn.  Svo spurði stelpan:  "Eigum við að fá okkur hamborgara?"  Strákurinn svaraði:  "Við skulum frekar fá okkur hamborgara í bílalúgunni." 

  "Viltu frekar borða út í bíl?" spurði hún undrandi.  

  "Borgararnir eru miklu betri í lúgunni," fullyrti kauði.  

  Stelpan bendi honum á að þetta væru sömu borgararnir.  Strákur þrætti.  Hélt því fram að lúgan væri á allt öðrum stað í húsinu.  Hann gekk út af staðnum en ekki stelpan.  Eftir nokkra stund kom hann aftur inn og spurði afgreiðslumanninn:  "Það eru ekki sömu hamborgarar seldir hér og í lúgunni,  er það?"

  Afgreiðslumaðurinn útskýrði:  "Þetta er sama eldhúsið og sömu hamborgarar."

  Pilturinn horfði undrandi og afsakandi á stelpuna og tautaði:  "Skrýtið.  Mér hefur alltaf þótt borgararnir í lúgunni miklu meira djúsí."

bsí


Tímafrekt að rekast á ölvaðan mann

  Það var föstudagskvöld.  Að venju ekkert að gera hjá lögregluþjónunum tveim í Klakksvík,  höfuðborg norðureyjanna í Færeyjum.  Einskonar Akureyri þeirra.  Um miðnætti var farið í eftirlitsferð um bæinn.  Þá rákust þeir á ungan mann vel við skál.  Hann var með nýtt smávægilega blóðrisa fleiður.  Enga skýringu kunni hann á tilurð þess.  Kom af fjöllum. 

  Lögum samkvæmt verður læknir að gefa út vottorð um að óhætt sé að láta mann með áverka í fangaklefa. Lög eru lög.  Lögreglan ráðfærði sig við neyðarlínuna.  Úr varð að ekið var með manninn í neyðarvakt sjúkrahússins í Klakksvík.  Vakthafandi læknir treysti sér ekki til að skrifa upp á vottorð á meðan engar upplýsingar væru um tilurð fleiðursins. 

  Lögreglan ók þá með manninn sem leið lá til Þórshafnar,  höfuðborgar Færeyja.  Vegna veðurs og slæms skyggnis tók ferðin fjóra tíma.  Maðurinn var skráður inn á bráðamóttöku borgarspítalans.  Vakthafandi læknir gaf þegar í stað út vottorð um að óhætt væri að hýsa manninn í fangaklefa.  Hann hvatti jafnframt til þess að maðurinn fengi að sofa úr sér vímuna í Þórshöfn. Gott væri að gefa honum kaffibolla.  Var hann því næst sendur með leigubíl frá borgarspítalanum með fyrirmæli um að leggja sig í fangaklefa hjá Þórshafnarlögreglunni.   

  Lögregluþjónarnir snéru aftur til Klakksvíkur.  Sælir eftir óvenju erilssama nótt.  Upp var runninn sólbjartur morgunn.  

      


Naflaskraut

  Við höfum heyrt út undan okkur að töluvert sé um að ungar konur fái sér naflaskraut.  Þetta er svo gott sem tískufyrirbæri.  Jafnan eru það nettir "eyrnalokkar" sem fá að prýða naflann.  Þeir passa samt ekki öllum.  Þá er þetta ráðið.

naflaskraut


Dvergur étinn í ógáti

  Þetta gerðist í Norður-Taílandi.  Dvergur var með skemmtiatriði í sirkuss.  Hann sýndi magnaðar listir sínar á trampólíni.  Eitt sinn lenti hann skakkt á trampólíninu úr mikilli hæð.  Hann þeyttist langt út í vatn.  Næsta atriði á dagskrá var að flóðhestur í vatninu átti að kokgleypa melónu sem var kastað til hans úr töluverðri fjarlægð.  Við skvampið frá dvergnum ruglaðist flóðhesturinn í ríminu.  Hann gleypti dverginn undir dynjandi lófaklappi 2000 áhorfenda.  Þeir héldu að þetta væri hápunktur skemmtunarinnar. 

flóðhestur      


Fólkið sem reddar sér

  Fjórar fjölskyldur í Essex á Englandi urðu heimilislausar eftir að íbúðir þeirra brunnu til kaldra kola.  Þetta atvikaðist þannig að húsbóndinn á einu heimilinu tók eftir því að útimálningin var farin að flagna af.  Honum hraus hugur við að þurfa að eyða sólríkum degi í að skafa málninguna af.  Til að spara sér puð brá hann á ráð:  Hann úðaði bensíni yfir húsið og kveikti í.  Málningin fuðraði upp eins og dögg fyrir sólu.  Líka húsið og nálæg hús.

  Orkuboltinum Christina Lamb í Cornwall á Englandi datt í hug að reisa verönd við hús sitt.  Hún hófst þegar handa við að grafa grunn.  Í ákafa tókst henni að höggva í sundur gasleiðslu bæjarins sem stóð eftir í ljósum loga.

  Mike Howel í Bristol á Englandi var ekkert að æsa sig yfir því að festa fingur í smíðabekk sínum.  Fingurinn var pikkfastur.  En hann var svo sem ekki að fara neitt.  Mike hafði fátt betra að gera þann daginnn en rölta með fingurinn og smíðabekkinn 3ja kílómetraleið á sjúkrahús.  Það tók aðeins 8 klukkutíma.  Hefði tekið styttri tíma ef vegfarendur hefðu ekki stöðugt verið að stoppa og spyrja út í dæmið.  

       


Smásaga um trekant sem endaði með ósköpum

  Jonni átti sér draum.  Hann var um trekant með tveimur konum.  Þegar hann fékk sér í glas impraði hann á draumnum við konu sína.  Hún tók því illa.

  Árin liðu.  Kunninginn færði þetta æ sjaldnar í tal.  Börnin uxu úr grasi og fluttu að heiman.  Hjónin minnkuðu við sig.  Keyptu snotra íbúð í tvíbýlishúsi.  Í hinni íbúðinni bjuggu hjón á svipuðum aldri.  Góður vinskapur tókst með þeim.  Samgangur varð mikill.  Hópurinn eldaði saman um helgar,  horfði saman á sjónvarp,  fór saman í leikhús, á dansleiki og til Tenerife.

  Einn daginn veiktist hinn maðurinn.  Hann lagðist inn á sjúkrahús.  Á laugardagskvöldi grillaði Jonni fyrir þau sem heima sátu.  Grillmatnum var skolað niður með rauðvíni.  Eftir matinn var skipt yfir í sterkara áfengi.  Er leið á kvöldið urðu tök á drykkjunni losaralegri.  Fólkið varð blindfullt. 

  Þegar svefndrungi færðist yfir bankaði gamli draumurinn upp hjá Jonna.  Leikar fóru þannig að draumurinn rættist loks.  Morguninn eftir vaknaði kappinn illa timbraður.  Konurnar var hvergi að sjá.  Sunnudagurinn leið án þess að málið skýrðist.  Á mánudeginum hringdi frúin loks í mann sinn.  Tjáði honum að þær vinkonurnar hefðu uppgötvað nýja hlið á sér.  Þær ætluðu að taka saman.  Sem þær gerðu.  Eftir situr aleinn og niðurbrotinn maður.  Hann bölvar því að draumurinn hafi ræst.

Threesome      


Best í Færeyjum

  Flestallt er best í Færeyjum.  Ekki aðeins í samanburði við Ísland.  Líka í samanburði við önnur norræn lönd sem og þau helstu önnur lönd sem við erum duglegust að bera okkur saman við.  Nægir að nefna að meðalævilengd er hæst í Færeyjum;  atvinnuleysi minnst;  atvinnuþátttaka mest;  hjónaskilnaðir fæstir;  fátækt minnst og jöfnuður mestur;  sjálfsvíg fæst;  krabbameinstilfelli fæst;  glæpir fæstir;  barneignir flestar;  fóstureyðingar fæstar;  hamingja mest;  heilbrigði mest og pönkrokkið flottast.  Bara svo örfá atriði séu tiltekin.

  Ekki nóg með það heldur eru færeyskar kindur frjósamastar.  Hérlendis og víðast eignast kindur aðallega eitt til tvö lömb í einu.  Færeyskar kindur eru meira í því að bera þremur lömbum og allt upp í sjö!  Það er heimsmet.  

kindur

 


Keypti karl á eBay

  Staurblankur enskur vörubílstjóri,  Darren Benjamin,  sat að sumbli.  Hann vorkenndi sér mjög.  Bæði yfir blankheitunum og ennfremur yfir að vera alltaf einn.  Það er einmanalegt.  Eftir margar og miklar vangaveltur yfir stöðunni fékk hann hugmynd.  Hún var sú að auglýsa sig til sölu á uppboðsvefnum eBay.  Hann hrinti henni þegar í framkvæmd.  Hann lýsti söluvörunni þannig:  "Kynþokkafullur en blankur vörubílstjóri til sölu."

 Viðbrögð voru engin fyrstu dagana.  Síðan fór Denise Smith að vafra um eBay.  Hún rakst á auglýsinguna.  Henni leist vel á ljósmyndina af kallinum.  Hún bjó í Milton Keynes eins og hann.  Henni rann blóðið til skyldunnar.  Yfir hana helltist vorkunn vegna aðstæðna hans.  Jafnframt blossaði upp í henni löngun til að veita ummönnun. 

  Denise bauð 700 kr. í kauða.  Hún var viss um gagntilboð.  Það kom ekki.  Tilboðinu var tekið.  Hann flutti þegar í stað inn til hennar.  Enda lá það í loftinnu.  Hann var orðinn eign hennar.  Þar með gat Darren sagt leiguíbúð sinni upp.  Það sparaði pening.

  Umsvifalaust var blásið til formlegs brúðkaups.  Eða eiginlega brúðgumakaups. 


Smásaga um flugferð

  Haukur var háaldraður þegar hann flaug í fyrsta skipti með flugvél.  Tilhugsunin olli honum kvíða og áhyggjum.  Hann áttaði sig á að þetta var flughræðsla á háu stigi.  Til að slá á kvíðakastið leitaði hann sér upplýsinga um helstu ástæður fyrir flugslysum.  Það gerði illt verra.  Jók aðeins kvíðakastið.

  Áður en Haukur skjögraði um borð deyfði hann sig með koníaki sem hann þambaði af stút.  Það kom niður á veiklulegu göngulagi fúinna fóta.  Hann fékk aðstoð við að staulast upp landganginn.  Allt gekk vel.

  Nokkru eftir flugtak tók hann af sér öryggisbeltið og stóð upp.  Hann mjakaði sér hálfhrasandi að útihurð vélarinnar. Í sama mund og hann greip um handfangið stökk flugfreyja fram fyrir hann og kallaði höstuglega:  "Hvað heldurðu að þú sért að gera?"

  "Ég þarf að skreppa á klósett," útskýrði hann. 

  "Ef þú opnar dyrnar hrapar flugvélin og ferst!" gargaði flugfreyjan æstum rómi.

  Kalli var illa brugðið.  Hann snérist eldsnöggt á hæl og stikaði óvenju styrkum fótum inn eftir flugvélinni.  Um leið hrópaði hann upp yfir sig í geðshræringu:  "Hvur þremillinn!   Ég verð að skorða mig aftast í vélinni.  Þar er öruggast þegar vélin hrapar!"        

flugvél  


Varasamt að lesa fyrir háttinn

  Fátt gleður meira en góð bók.  Margur bókaormurinn laumast til að taka bók með sér inn í svefnherbergi á kvöldin.  Þar skríður hann undir sæng og les sér sitthvað til gamans og til gagns.  Þetta hefur löngum verið aðferð til að vinda ofan af erli dagsins í lok dags.  Svífa síðan á bleiku skýi inn í draumaheim. 

  Þetta getur verið varasamt á tækniöld.  Bækur eru óðum að færast af pappír yfir í rafrænt form.  Vandamálið er að á skjánum glampar blátt ljós svo lítið ber á.  Það ruglar líkamsklukkuna.  Þetta hefur verið rannsakað.  Sá sem les af skjá er lengur að falla í svefn en þeir sem lesa á pappír.  Svefn þeirra er grynnri og að morgni vakna þeir síður úthvíldir.

Tómas Tómasson

 

.

 

 

 

 


Með 19 skordýrategundir í hári og hársverði

  Um nokkurt skeið hefur tíðindum af líki reggí-konungsins,  Bobs Marleys, verið póstað fram og til baka á samfélagsmiðlum.  Þar er fullyrt að við líkskoðun hafi fundist í hári hans og hársverði 19 tegundir af skordýrum.  Aðallega lús en einnig köngulóm og fleira.  Samtals töldust dýrin vera 70. 

  Litlu skiptir þó að vísað sé til þess að um falsfrétt sé að ræða.  Ekkert lát er á dreifingu fréttarinnar.  Þannig er það almennt með falsfréttir.  Miklu meiri áhugi er á þeim en leiðréttingum.

  Bob Marley dó 1981 eftir erfiða baráttu við krabbamein í heila,  lungum og lifur.  Í krabbameinsmeðferðinni missti hann hárið,  sína fögru og löngu "dredlokka".  Hann lést með beran skalla.  Þess vegna voru engin skordýr á honum.  Síst af öllu lús.  Þar fyrir utan hafði hann árum saman þvegið hár og hársvörð reglulega upp úr olíu.  Bæði til að mýkja "dreddana" og til að verjast lús.  Hún lifir ekki í olíubornu hári.

  Til gamans má geta að Bob Marley var ekki aðeins frábær tónlistarmaður.  Hann var líka góðmenni.  Þegar hann samdi lagið "No Woman, No Cry" þá vissi hann að það myndi slá í gegn og lifa sígrænt til frambúðar.  Hann skráði fótalausan jamaískan kryppling,  Vincent Ford,  fyrir laginu.  Sá hafði hvergi komið að gerð þess.  Uppátækið var einungis til þess að krypplingurinn fengi árlega ríflegar höfundargreiðslur.  Bob skráði einnig konu sína,  Ritu Marley,  fyrir nokkrum lögum af sömu ástæðu.  

      

 


Smásaga um viðskipti

  Þegar skólasystkinin byrjuðu í unglingavinnunni hannaði Nonni barmnælur með myndum af lunda og kind.  Nælurnar lét hann fjöldaframleiða í Kína.  Sumarið fór í að koma vörunni í túristasjoppur.  Einnig í sjoppur í fámennari þorpum þar sem fátt var um minjagripi.

  Er haustaði var salan orðin hálf sjálfvirk.  Pantanir bárust í tölvupósti og voru sendar með Póstinum.  Ágæt innkoma,  lítil vinna en einmanaleg.  Tíminn leið hægt.  Nonni saknaði þess að hitta fólk og spjalla. 

  Svo rakst hann á auglýsingu.  Heildverslun með ritföng óskaði eftir lagermanni í hálft starf.  Hann hringdi og var boðaður í viðtal.  Reksturinn var í höndum ungs manns og 17 ára systur hans. 

  Nonni sagði vinnuna henta sér vel til hliðar við nælurnar.  Maðurinn sýndi þeim áhuga.  Spurði mikils og hrósaði framtakinu.  Hann fékk hugmynd:  Hvernig væri að sameina þessi tvö fyrirtæki í eina öfluga ritfanga- og næluheildsölu?  Hann kallaði á systurina og bar þetta undir hana.  Hún fagnaði.  Nonni líka.  Ekki sakaði að hann var þegar skotinn í henni.  Hún var fögur og hláturmild. 

  "Drífum í þessu,"  skipaði bróðirinn.  "Þið tvö skottist eftir nælulagernum á meðan ég geri uppkast að samningi."  Þau ruku af stað.  Stelpan ók á rúmgóðum sendibíl.  Eins gott því Nonni var nýkominn með stóra sendingu.  Nú var gaman.  Fegurðardísin daðraði við hann.  Þau ferjuðu lagerinn inn í vöruhús heildsölunnar.  Bróðirinn kom með skjal til undirritunar.  Mikill og torskilinn texti á flóknu lagamáli.

  "Ég get ekki kvittað undir þetta,"  kvartaði Nonni.  "Ég skil ekki helminginn af þessu.  Þetta hljómar eins og ég sé að afsala mér nælunum til ykkar."

  "Já, það er rétt,"  viðurkenndi maðurinn.  "Við þurfum að umorða textann.  Þetta er  bráðabirgðauppkast. Á morgun semjum við í sameiningu nýtt skjal og fáum lögfræðing að þínu vali til að yfirfara það.  En við skulum öll krota undir uppkastið svo þetta sé komið í ferli."

  "Ég á erfitt með að skrifa undir þetta,"  mótmælti Nonni. 

  "Kanntu ekki að skrifa nafnið þitt?"  flissaði stelpan og ýtti skjalinu að honum.  Fallegt bros hennar sló hann út af laginu.  Eins og ósjálfrátt undirritaði hann en sá um leið eftir því.  Stelpan dró blaðið snöggt til sín og hallaði hlæjandi höfði á öxl hans:  "Ég var að stríða þér!"  

  "Sofum á þessu í nótt og innsiglum samrunann með handabandi," stakk bróðirinn upp á og rétti fram hönd. 

  "Eða með knúsi," bætti stelpan við um leið og hún faðmaði Nonna þéttingsfast.   

  Morguninn eftir mættu Nonni og daman á slaginu klukkan 9.  Hún heilsaði honum með knúsi og sagði "Gaman að sjá þig!  Bróðir minn er lasinn.  Hann var með ælupest í nótt.  Við getum dólað okkur á meðan við að uppfæra viðskiptamannalistann.  Slá inn símanúmer, netföng og það allt.  Eða hvort við byrjum á að senda þinum viðskiptavinum póst um að héðan í frá sendi þeir pantanir á netfang ritfangasölunnar.  Já,  gerum það fyrst."

  Dagurinn leið hratt.  Stelpan var stríðin.  Það var mikið hlegið.  Nonni sveif um á bleiku skýi.

  Bróðirinn var frá vinnu í 2 daga.  Svo kom helgi.  Á mánudeginum mætti hann strangur á svip.  "Ég hef legið undir feldi," sagði hann.  "Þú gagnast ekki nógu vel í vinnu hér.  Þú ert ekki með aldur til að fá bílpróf.  Plan okkar gengur ekki upp."

  Þetta var reiðarslag.  Nonni reyndi að bera sig vel.  Lán í óláni var að kynnast stelpunni.  Þau gætu áfram verið í sambandi ef hann tæki tíðindunum án leiðinda.  "Hún skutlar þá lagernum til mín á eftir," lagði hann til.

  "Nei,  höldum honum hérna!"  mótmælti bróðirinn höstuglega.  "Þú afsalaðir þér honum til mín.  Ég þinglýsti skjalinu.  Þetta eru einföld viðskipti.  Ekki illa meint.  Sumir eru lúserar.  Aðrir sigurvegarar.  Þeir hæfustu lifa!"                   

 

lundikind


Metnaðarfullar verðhækkanir

  Um þessar mundir geisar kapphlaup í verðhækkunum.  Daglega verðum við vör við ný og hærri verð.  Ríkið fer á undan með góðu fordæmi og hærri álögum.  Landinn fjölmennir til Tenerife   Allt leggst á eitt og verðbólgan er komin í 2ja stafa tölu.  Hún étur upp kjarabætur jafnóðum og þær taka gildi. Laun hálaunaðra hækka á hraða ljóssins.  Arðgreiðslur sömuleiðis.  Einkum hjá fyrirtækjum sem nutu rausnarlegra styrkja úr ríkissjóði í kjölfar Covid.

  Túristar og íslenskur almúgi standa í röðum fyrir framan Bæjarins bestu.  Þar borga þeir 650 kall fyrir pulluna.  Það er metnaðarfyllra en borga 495 kall fyrir hana í bensínsjoppum.

pylsa


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband