Færsluflokkur: Lífstíll

Allir góðir saman!

  Fyrir nokkrum árum stálpuðust barnabörn mín.  Þau lærðu að lesa og lásu mikið;  allskonar blöð,  tímarit, bækur og netmiðla.  Gaman var að fylgjast með því.  Nema að mér varð ljóst að margt í fjölmiðlum er ekki til fyrirmyndar.  Þá datt mér í hug að setja sjálfum mér reglu:  Að skrifa og segja aldrei neitt neikvætt og ljótt um neina manneskju.

  Þetta var U-beygja til góðs.  Það er miklu skemmtilegra að vakna og sofna jákvæður og glaður heldur en velta sér upp úr leiðindum.  Til viðbótar ákvað ég að hrósa einhverjum eða einhverju á hverjum degi.  Svoleiðis er smitandi og gerir öllum gott.

        


Ánægjuleg kvikmynd

  -  Titill:  BOB MARLEY: One Love

  -  Einkunn:  **** (af 5)

  Bob Marley ólst upp í mikilli fátækt á Jamaica.  Hann vann sig upp í að verða skærasta,  stærsta og í raun eina ofurtónlistarstjarna þriðja heimsins.  Súperstjarna ofarlega á lista yfir merkustu tónlistarmenn sögunnar. Kvikmynd um 36 ára ævi hans var fyrir löngu tímabær.

  Kvikmyndin stendur undir væntingum.  Í og með vegna þess að músíkin er yndisleg.  Hljóðheimur (sánd) Kringlubíós er frábær.  Sérlega skilar hann bassagítar flottum.

  Einstaka sena er allt að því full róleg.  Þannig er það með myndir sem byggja á raunverulegum söguþræði.  Enski leikarinn Kingslay Deb-Adir túlkar Marley.  Hann er ágætur.  Honum tekst þó ekki fullkomlega að fanga sjarma Bobs.  Það er ómöguleiki.     

  Blessunarlega upphefur myndin Bob ekki sem breyska guðlega veru.  Né heldur ofhleður hana með rasta-trúarbrögðum hans.  Sem samt voru stór þáttur í lífi hans.  

  Margt má segja um myndina gott og misgott.  Eftir stendur að ág mæli með henni sem skrepp í kvikmyndahús og upplifa "feel good").

marley     

 


Kallinn reddar

  Í samfélagi mannanna má jafnan finna kallinn sem græjar hlutina; lagar það sem úrskeiðis fer.  Hann er engin pjattrófa.  Hann grípur til þess sem hendi er næst og virkar.   Það eitt skiptir máli.  Útlitið er algjört aukaatriði.  Sama hvort um er að ræða stól,  handstýrða rúðuþurrku,  flöskuopnara,  farangursskott með læsingu,  klósettrúllustatíf eða hurð í risinu.  Það leikur allt í höndunum á honum.

kallinn sem reddar stæði fyrir stólinnkallinn reddar handstýrði rúðuþurrkukallinn reddar upptakarakallinn reddar farangursskotti með læsingukallinn kom klósettrúllunni snyrtilega fyrirkallinn græjar hurðina í risinu


Jólatiktúrur afa - 3ji hluti

  Afi keypti ekki jólakort fyrr en á milli jóla og nýárs.  Þá fékk hann þau á góðum afslætti í Kaupfélaginu á Sauðárkróki.  Hann hældi sér af því hvað hann náði að kýla verðið niður.  Jafnframt sagði hann:  "Ég ætla ekki að spandera jólakorti á einhvern sem sendir mér ekki kort.  Það kemur ekki til greina!"  

  Eftir borðhald á heimilinu,  uppvask og frágang voru pakkar opnaðir.  Um það leyti fékk afi alltaf spennufall - eftir margra daga stanslausa tilhlökkun.  Hann hnussaði og hneykslaðist yfir öllum gjöfum.  Það var skemmtiefni fyrir okkur hin að fylgjast með fussinu í afa:  "Hvaða endemis rugl er þetta?  Hvað á ég að gera með bók?  Ég hélt að allir vissu að ég væri löngu hættur að lesa.  Ég á ekki einu sinni bókahillu.  Ég hef ekkert geymslupláss fyrir bækur!"  

  Ein jólin fékk afi pakka með sokkum og nærbuxum.  Hann ætlaði að springa úr vanþóknun:  "Hvaða fíflagangur er þetta?  Hvað á ég að gera við stuttar nærbuxur?  Ég hef aldrei á ævi minni farið í stuttar buxur.  Þetta eru unglingabuxur.  Þvílíkt og annað eins.  Er fólk að tapa sér?"

  Við gátum ekki varist hlátri er afi dró upp úr næsta pakka forláta síðar nærbuxur.  "Þú hefur verið bænheyrður," skríkti mamma í stríðni.  Afi hafði ekki húmor fyrir þessu:  "Hverjum dettur í hug að ég fari að ganga í útlendum bómullarbuxum?  Ég hef aldrei klæðst nema íslenskum prjónanærbuxum.  Ég breyti því ekki á grafarbakkanum.  Hvað eiga svona heimskupör að þýða?"  

  Ég man ekki hvort það var úr næsta eða þar næsta pakka sem afi fékk dýrindis prjónanærbuxur.  Mamma hrópaði:  "Þetta er þitt kvöld.  Þú ert stöðugt bænheyrður."

  Afi varð vandræðalegur.  Hann skoðaði buxurnar í bak og fyrir;  stóð upp og mátaði við sig stærðina og annað.  Allt virtist eins og best var á kosið.  Pabbi grínaðist með þetta:  "Þetta eru söguleg tíðindi.  Það er ekkert að buxunum."

  Afi hafði ekki sagt sitt síðasta:  "Hverjum dettur í hug að hafa svona frágang á buxnaklaufinni?  Hún er hneppt eins og skyrta.  Ég hélt að allir vissu að á prjónanærbuxum á að vera áfast stykki sem er hneppt þvert yfir til hægri.  Á þessum buxum er eins og hálfviti hafi verið að verki.  Þvílíkt klúður!  Það er eins gott að fólk sjái mig ekki í þessari hörmung.  Ég yrði að athægi!"


Slegist í Húnaveri

  Um og upp úr miðri síðustu öld var landlægur rígur á milli næstu byggðarlaga.  Hann birtist meðal annars í því að í lok dansleikja tókust menn á.  Ólsarar slógust við Grundfirðinga,  Reyðfirðingar slógust við Eskifirðinga,  Skagfirðingar slógust við Húnvetninga og svo framvegis.  Þetta voru ekki hrottaleg átök.  Lítið var um alvarleg beinbrot eða blóð.  Liggjandi maður fékk aldrei spark í höfuðið.  Þetta var meira tusk.  Í mesta lagi með smávægilegu hnjaski.  

  Skagfirðingur einn lét sig sjaldan vanta í tuskið.  Hann var jafnan drjúgur með sig.  Mundi framgöngu sína hetjulegri en aðrir.  Eitt sinn tuskaðist hann við Húnvetning fyrir aftan Húnaver.  Sá felldi hann í jörðina og hélt honum niðri.  Sama hvað okkar maður ólmaðist þá var hann í skrúfstykki.  Hann kallaði á félaga sína:  "Strákar, rífið mannhelvítið af mér áður en ég reiðist!" 

tusk

 

 


Bílpróf Önnu frænku á Hesteyri

  Anna frænka á Hesteyri í Mjóafirði var komin yfir miðjan aldur er hún tók bílpróf.  Góður höfðinglegur frændi okkar gaf henni bíl og bílpróf í Reykjavík.  Ökuréttindin og bíllinn veittu einbúanum mikla gleði. 

  Anna hringdi til Akureyrar í mömmu og færði henni tíðindin.  Þær voru bræðradætur.  Mamma samgladdist og hvatti hana til að bruna norður í heimsókn.

  - Er hringtorg á Akureyri?  spurði Anna.

  Jú.  Mömmu taldist til að þau væru fimm.

  - Þá get ég ekki komið til Akureyrar,  svaraði Anna döpur í bragði.  Ástæðan var heiðursmannasamkomulag sem hún gerði við prófdómarann.  Í prófinu festist hún inni í innri hring á hringtorgi.  Hann tilkynnti henni að ökumaður sem kæmist ekki út úr hringtorgi fyrr en eftir sjö hringi væri óhæfur í umferðinni. 

  Anna upplýsti hann um að í Mjóafirði væri ekkert hringtorg.  Líkast til ekki á öllum Austfjörðum ef út í það væri farið.  Bauðst hún til að gera við hann heiðursmannasamkomulag um að aka aldrei til neinna staða með hringtorg.  Hún rétti honum hönd sína upp á það.  Hann tók boði hennar.  Hún stóð við sitt alla ævi. 

anna

    

         


Smásaga um einbúa

  Lengst vestur á Vestfjörðum býr Jósafat.  Hann er fjárbóndi og einbúi.  Hann er heimakær.  Fer ekki af bæ nema nauðsyn kalli á.  Einsetan hefur ágerst með árunum.  Á unglingsárum kunni hann að skemmta sér.  Hann eignaðist son eftir einnar nætur gaman.  Samband við barnsmóðurina er ekkert.  Samband feðgana er stopult.  Sonurinn er í Reykjavík og hringir einstaka sinnum í pabba sinn.  Eiginlega bara þegar eitthvað fréttnæmt,  svo sem eins og þegar hann trúlofaðist og gerði kallinn að afa.  

  Verra er að sjónin er farin að daprast.  Jósafat ber það undir héraðslækninn.  Sá pantar fyrir hann tíma hjá augnlæknastöð í Reykjavík.  Í þetta sinn hringir hann í soninn.  Beiðist gistingar í tvær nætur.  Það er velkomið.  Kominn tími til að hann hitti tengdadótturina og 5 ára afastrákinn.

  Yfir kvöldmat fær tengdadóttirin hugmynd:  Krakkinn verður búinn á leikskólanum klukkan fjögur daginn eftir.  Þá er kallinn laus.  Spurning hvort hann geti sótt strákinn.  Hann tekur vel í það.  Minnsta mál!

  Hann mætir í skólann á réttum tíma.  Gleðstur að sjá strákinn kominn í úlpuna sína og stígvél.   Hann þrífur í drenginn og arkar af stað.  Kauði berst um á hæl og hnakka.  Jósafat er vanur að draga ólm lömb og þetta er ekkert öðruvísi.  Greinilega er strokárátta í gutta.  Til að hindra strok skellir afinn honum flötum á gólfið og sest ofan á hann.

  Skömmu síðar koma foreldrarnir æstir og óðamála.  Spyrja hvað sé í gangi.  Leikskólastjórinn hafði hringt í þau.  Sagt að maður hafi komið og rænt einum pabba sem var að sækja barn sitt.  Barnið væri enn í skólanum ásamt barni hjónanna.  

  "Hvernig tókst þér að ruglast á skeggjuðum þrítugum manni og fimm ára barni?"  hrópar sonurinn.

  "Þetta skýrir margt,"  tautar afi skömmustulegur.  "Það var ekki einleikið hvað barnið var tregt í taumi"    

 

langdreginn


Fjölskylduvænt framhjáhald

  Frönsk kona,  tveggja barna móðir,  vann lengst af sem einkaspæjari.  Meðal algengra og vinsælla verkefna var að njósna um fólk sem lá undir grun um að halda framhjá maka sínum.  Í vinnunni lærði hún hægt og bítandi hver eru helstu mistök fólks sem heldur framhjá og hvers vegna upp um það kemst.

  Hún tók æ oftar nærri sér hverjar urðu afleiðingar starfsins.  Iðulega kom til harðvítugs uppgjörs,  hjónaskilnaðar, upplausnar fjölskyldu og heimilis.  Sárast þótti henni að horfa upp á grátandi niðurbrotin börn í áfallastreituröskun. 

  Að því kom að hún þoldi þetta ekki.  Hún ákvað að snúa við blaðinu.  Hún lokaði á njósnir og stofnaði fyrirtæki sem býður upp á sérhæfða framhjáhaldsþjónustu.  Það skipuleggur framhjáhaldskvöld,  nætur eða helgarpakka.  Hún afgreiðir platsímtöl,  plat-sms,  útbýr og sendir út platboðskort eða fundarboð,  sviðsetur hverskonar atburði,  falsar hótelreikninga,  kvittanir frá veitingastöðum,  leigubílum; falsar ljósmyndir og önnur "sönnunargögn".

  Starfsemin gengur vel.  Nú leggst hún til svefns án samviskubits.  Ekki hefur komist upp um framhjáhald svo mikið sem eins kúnna.  Þetta eru fjölskylduvæn framhjáhöld.   

framhjáhald        


Aldraðir glæpamenn

  Ég átti erindi í bókasafn.  Þar sátu tveir aldraðir karlar og ein gömul kona.  Ég giska á að þau hafi verið um eða yfir áttrætt.  Spjall þeirra barst að forréttindum aldraðra.  Þau könnuðust við að komast upp með eitt og annað vegna þess að almenningur standi í þeirri trú að gamalt fólk sé heiðarlegt.  Þau flissuðu og karlarnir nefndu dæmi.

  Annar sagðist ekki lengur aka bíl.  Þess í stað taki hann strætó - án þess að borga.  Hann tekur upp símann,  leggur hann á lesarann en borgar ekki.  Bílstjórarnir fatta ekki neitt.

  Hinn hafði unnið hjá stóru fyrirtæki.  Starfsmenn fengu skírteini sem veitir afslátt á ýmsum vörum og þjónustu.  Skírteinið er löngu útrunnið.  Hann notar það samt stöðugt og enginn fattar.    

  Þeir komust upp með að hnupla smáhlutum í verslunum.  Öryggisverðir og afgreiðslufólk vaktar bara ungt fólk.  Þeir eiga líka til að fara á matsölustaði sem rukka eftir á.  Þeir stinga af þegar komið er að borgun.  Trixið er að fara út í rólegheitum.  Ef þeir eru nappaðir þá leika þeir sig ringlaða.  Þykjast ekki skilja upp né niður.  Allir sýna því skilning. 

  "Ég myndi alddrei þora neinu svona,"  sagði konan og staulaðist út.


Rangur misskilningur

  Til margra ára var sjoppulúgan á BSÍ umferðamiðstöðinni fastur áfangastaður á djamminu.  Þegar skemmtistöðum var lokað á nóttunni var notalegt að renna upp að lúgunni og fá sér kjamma með rófustöppu undir svefninn.   Á skemmtistöðunum neytti fólk ekki fastrar fæðu en þeim mun meira af fljótandi vökvum.  Oft áfengum. 

  Á daginn var veitingastaður inni í umferðamiðstöðinni.  Þar var boðið upp á gamaldags heimilismat á ágætu verði.  Líka hamborgara.

  Eitt sinn var ég staddur á veitingastaðnum.  Þangað inn kom par,  á að giska 17-18 ára.  Parið fór skoðunarferð um staðinn.  Svo spurði stelpan:  "Eigum við að fá okkur hamborgara?"  Strákurinn svaraði:  "Við skulum frekar fá okkur hamborgara í bílalúgunni." 

  "Viltu frekar borða út í bíl?" spurði hún undrandi.  

  "Borgararnir eru miklu betri í lúgunni," fullyrti kauði.  

  Stelpan bendi honum á að þetta væru sömu borgararnir.  Strákur þrætti.  Hélt því fram að lúgan væri á allt öðrum stað í húsinu.  Hann gekk út af staðnum en ekki stelpan.  Eftir nokkra stund kom hann aftur inn og spurði afgreiðslumanninn:  "Það eru ekki sömu hamborgarar seldir hér og í lúgunni,  er það?"

  Afgreiðslumaðurinn útskýrði:  "Þetta er sama eldhúsið og sömu hamborgarar."

  Pilturinn horfði undrandi og afsakandi á stelpuna og tautaði:  "Skrýtið.  Mér hefur alltaf þótt borgararnir í lúgunni miklu meira djúsí."

bsí


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband