Færsluflokkur: Lífstíll

Aldraðir glæpamenn

  Ég átti erindi í bókasafn.  Þar sátu tveir aldraðir karlar og ein gömul kona.  Ég giska á að þau hafi verið um eða yfir áttrætt.  Spjall þeirra barst að forréttindum aldraðra.  Þau könnuðust við að komast upp með eitt og annað vegna þess að almenningur standi í þeirri trú að gamalt fólk sé heiðarlegt.  Þau flissuðu og karlarnir nefndu dæmi.

  Annar sagðist ekki lengur aka bíl.  Þess í stað taki hann strætó - án þess að borga.  Hann tekur upp símann,  leggur hann á lesarann en borgar ekki.  Bílstjórarnir fatta ekki neitt.

  Hinn hafði unnið hjá stóru fyrirtæki.  Starfsmenn fengu skírteini sem veitir afslátt á ýmsum vörum og þjónustu.  Skírteinið er löngu útrunnið.  Hann notar það samt stöðugt og enginn fattar.    

  Þeir komust upp með að hnupla smáhlutum í verslunum.  Öryggisverðir og afgreiðslufólk vaktar bara ungt fólk.  Þeir eiga líka til að fara á matsölustaði sem rukka eftir á.  Þeir stinga af þegar komið er að borgun.  Trixið er að fara út í rólegheitum.  Ef þeir eru nappaðir þá leika þeir sig ringlaða.  Þykjast ekki skilja upp né niður.  Allir sýna því skilning. 

  "Ég myndi alddrei þora neinu svona,"  sagði konan og staulaðist út.


Rangur misskilningur

  Til margra ára var sjoppulúgan á BSÍ umferðamiðstöðinni fastur áfangastaður á djamminu.  Þegar skemmtistöðum var lokað á nóttunni var notalegt að renna upp að lúgunni og fá sér kjamma með rófustöppu undir svefninn.   Á skemmtistöðunum neytti fólk ekki fastrar fæðu en þeim mun meira af fljótandi vökvum.  Oft áfengum. 

  Á daginn var veitingastaður inni í umferðamiðstöðinni.  Þar var boðið upp á gamaldags heimilismat á ágætu verði.  Líka hamborgara.

  Eitt sinn var ég staddur á veitingastaðnum.  Þangað inn kom par,  á að giska 17-18 ára.  Parið fór skoðunarferð um staðinn.  Svo spurði stelpan:  "Eigum við að fá okkur hamborgara?"  Strákurinn svaraði:  "Við skulum frekar fá okkur hamborgara í bílalúgunni." 

  "Viltu frekar borða út í bíl?" spurði hún undrandi.  

  "Borgararnir eru miklu betri í lúgunni," fullyrti kauði.  

  Stelpan bendi honum á að þetta væru sömu borgararnir.  Strákur þrætti.  Hélt því fram að lúgan væri á allt öðrum stað í húsinu.  Hann gekk út af staðnum en ekki stelpan.  Eftir nokkra stund kom hann aftur inn og spurði afgreiðslumanninn:  "Það eru ekki sömu hamborgarar seldir hér og í lúgunni,  er það?"

  Afgreiðslumaðurinn útskýrði:  "Þetta er sama eldhúsið og sömu hamborgarar."

  Pilturinn horfði undrandi og afsakandi á stelpuna og tautaði:  "Skrýtið.  Mér hefur alltaf þótt borgararnir í lúgunni miklu meira djúsí."

bsí


Naflaskraut

  Við höfum heyrt út undan okkur að töluvert sé um að ungar konur fái sér naflaskraut.  Þetta er svo gott sem tískufyrirbæri.  Jafnan eru það nettir "eyrnalokkar" sem fá að prýða naflann.  Þeir passa samt ekki öllum.  Þá er þetta ráðið.

naflaskraut


Best í Færeyjum

  Flestallt er best í Færeyjum.  Ekki aðeins í samanburði við Ísland.  Líka í samanburði við önnur norræn lönd sem og þau helstu önnur lönd sem við erum duglegust að bera okkur saman við.  Nægir að nefna að meðalævilengd er hæst í Færeyjum;  atvinnuleysi minnst;  atvinnuþátttaka mest;  hjónaskilnaðir fæstir;  fátækt minnst og jöfnuður mestur;  sjálfsvíg fæst;  krabbameinstilfelli fæst;  glæpir fæstir;  barneignir flestar;  fóstureyðingar fæstar;  hamingja mest;  heilbrigði mest og pönkrokkið flottast.  Bara svo örfá atriði séu tiltekin.

  Ekki nóg með það heldur eru færeyskar kindur frjósamastar.  Hérlendis og víðast eignast kindur aðallega eitt til tvö lömb í einu.  Færeyskar kindur eru meira í því að bera þremur lömbum og allt upp í sjö!  Það er heimsmet.  

kindur

 


Keypti karl á eBay

  Staurblankur enskur vörubílstjóri,  Darren Benjamin,  sat að sumbli.  Hann vorkenndi sér mjög.  Bæði yfir blankheitunum og ennfremur yfir að vera alltaf einn.  Það er einmanalegt.  Eftir margar og miklar vangaveltur yfir stöðunni fékk hann hugmynd.  Hún var sú að auglýsa sig til sölu á uppboðsvefnum eBay.  Hann hrinti henni þegar í framkvæmd.  Hann lýsti söluvörunni þannig:  "Kynþokkafullur en blankur vörubílstjóri til sölu."

 Viðbrögð voru engin fyrstu dagana.  Síðan fór Denise Smith að vafra um eBay.  Hún rakst á auglýsinguna.  Henni leist vel á ljósmyndina af kallinum.  Hún bjó í Milton Keynes eins og hann.  Henni rann blóðið til skyldunnar.  Yfir hana helltist vorkunn vegna aðstæðna hans.  Jafnframt blossaði upp í henni löngun til að veita ummönnun. 

  Denise bauð 700 kr. í kauða.  Hún var viss um gagntilboð.  Það kom ekki.  Tilboðinu var tekið.  Hann flutti þegar í stað inn til hennar.  Enda lá það í loftinnu.  Hann var orðinn eign hennar.  Þar með gat Darren sagt leiguíbúð sinni upp.  Það sparaði pening.

  Umsvifalaust var blásið til formlegs brúðkaups.  Eða eiginlega brúðgumakaups. 


Með 19 skordýrategundir í hári og hársverði

  Um nokkurt skeið hefur tíðindum af líki reggí-konungsins,  Bobs Marleys, verið póstað fram og til baka á samfélagsmiðlum.  Þar er fullyrt að við líkskoðun hafi fundist í hári hans og hársverði 19 tegundir af skordýrum.  Aðallega lús en einnig köngulóm og fleira.  Samtals töldust dýrin vera 70. 

  Litlu skiptir þó að vísað sé til þess að um falsfrétt sé að ræða.  Ekkert lát er á dreifingu fréttarinnar.  Þannig er það almennt með falsfréttir.  Miklu meiri áhugi er á þeim en leiðréttingum.

  Bob Marley dó 1981 eftir erfiða baráttu við krabbamein í heila,  lungum og lifur.  Í krabbameinsmeðferðinni missti hann hárið,  sína fögru og löngu "dredlokka".  Hann lést með beran skalla.  Þess vegna voru engin skordýr á honum.  Síst af öllu lús.  Þar fyrir utan hafði hann árum saman þvegið hár og hársvörð reglulega upp úr olíu.  Bæði til að mýkja "dreddana" og til að verjast lús.  Hún lifir ekki í olíubornu hári.

  Til gamans má geta að Bob Marley var ekki aðeins frábær tónlistarmaður.  Hann var líka góðmenni.  Þegar hann samdi lagið "No Woman, No Cry" þá vissi hann að það myndi slá í gegn og lifa sígrænt til frambúðar.  Hann skráði fótalausan jamaískan kryppling,  Vincent Ford,  fyrir laginu.  Sá hafði hvergi komið að gerð þess.  Uppátækið var einungis til þess að krypplingurinn fengi árlega ríflegar höfundargreiðslur.  Bob skráði einnig konu sína,  Ritu Marley,  fyrir nokkrum lögum af sömu ástæðu.  

      

 


Metnaðarfullar verðhækkanir

  Um þessar mundir geisar kapphlaup í verðhækkunum.  Daglega verðum við vör við ný og hærri verð.  Ríkið fer á undan með góðu fordæmi og hærri álögum.  Landinn fjölmennir til Tenerife   Allt leggst á eitt og verðbólgan er komin í 2ja stafa tölu.  Hún étur upp kjarabætur jafnóðum og þær taka gildi. Laun hálaunaðra hækka á hraða ljóssins.  Arðgreiðslur sömuleiðis.  Einkum hjá fyrirtækjum sem nutu rausnarlegra styrkja úr ríkissjóði í kjölfar Covid.

  Túristar og íslenskur almúgi standa í röðum fyrir framan Bæjarins bestu.  Þar borga þeir 650 kall fyrir pulluna.  Það er metnaðarfyllra en borga 495 kall fyrir hana í bensínsjoppum.

pylsa


Poppstjörnur á góðum aldri

 

  18. febrúar komst japanska myndlista- og tónlistarkonan Yoko Ono á tíræðisaldur.  Þá var kveikt á friðarsúlunni í Viðey til að samfagna með henni.  43 ár eru síðan hún varð ekkja Johns Lennons er hann var myrtur úti á götu í New York. Svona er lífið.

  Árlega höfum við ástæðu til að fagna hverju ári sem gæfan færir okkur.  Um leið gleðst ég yfir yfir hækkandi aldri poppstjarna barns- og unglingsára minna.  

  Kántrý-útlaginn Willie Nelson kemst á tírðisaldur í apríl.  Þessi eiga líka afmæli í ár (aldurinn innan sviga): 

  Tína Turner, Grace Slick (Jefferson Airplane) og Ian Hunter (Mott the Hoople) (84)

  Ringo Starr og Smokey Robinson (83)  

  Bob Dylan, Joan Baez, Eric Burdon (Animals), Paul Simon og Neil Diamond (82) 

  Paul McCartney,  Roger McGuinn (Byrds) og Brian Wilson (Beach Boys) (81)

  Mick Jagger,  Keith Richards, Roger Waters (Pink Floyd) og Steve Miller (80) 

  Rod Stewart,  Ray Davies (Kinks), Roger Daltrey (Who) og Carly Simoon (79)

  John Fogerty (Creedence Clearwater Revival),  Debbie Harry (Blondie),  Robert Wyatt,  Neil Young,  Pete Townshend (Who) og Eric Clapton (78)

  Patti Smith,  Linda Ronstadt, Donovan og Dolly Parton (77)

  Arlo Guthrie,  Elton John,  Carlos Santana,  Emmylou Harris,  Joe Walsh og Iggy Pop (76)

  Rober Plant  (Led Zeppelin),  Stevie Nicks (Fleedwood Mac) og Alice Cooper (75)

  Bruce Springsteen og Hugh Cornwell (Stranglers) (74)

  Peter Gabriel,  Stevie Wonder og Billy Joel (73)

 


Drottning sveitasöngvanna hellir sér í rokkið

  Dolly Parton er stærsta nafn kántrý-kvenna.  Hún hefur sungið og samið fjölda sívinsælla laga.  Nægir að nefna "Jolene",  "9 to 5" og "I will always love you".  Síðast nefnda lagið er þekktara í flutningi Whitney Houston.  Fyrir bragðið vita ekki allir að höfundurinn er Dolly.

  Á dögunum fagnaði hún 77 ára fæðingardegi.  Að því tilefni datt henni í hug að söðla óvænt um og hella sér í rokkið.  Ekki seinna vænna.  Hún ætlar að vanda sig við umskiptin.  Gæta þess að verða ekki að athlægi eins og Pat Boone.  Sá sætabrauðskall reyndi um árið að endurheimta fyrri vinsældir með því að skella sér í þungarokk.  Útkoman varð hamfarapopp.

  Rokkplata Dollyar verður ekkert þungarokk.  Hún verður léttara rokk í bland við kraftballöður.  Þetta verða lög á borð við "Satisfaction" (Rolling Stones),  "Purple Rain" (Prince),  "Stairway to heaven" (Led Zeppelin) og "Free Bird" (Lynyrd Skynyrd). 

  Dolly dreifir ábyrgð yfir á gestasöngvara.  Þeir eru:  Paul McCartney, John Fogerty (Creedence Clearwater Revival),  Steven Tyler (Aerosmith),  Pink,  Steve Perry (Journey),  Stevie Nicks (Fleetwood Mac), Cher og Brandi Carlili. 

  Vinnuheiti plötunnar er "Rock star". 

 


Ást í háloftunum

  Ég brá mér á pöbb.  Þar var ung kona.  Við erum málkunnug.  Við tókum spjall saman.  Hún var í flugnámi og ætlaði að taka próf daginn eftir.  Hún var með bullandi prófskrekk.  Sú var ástæðan fyrir pöbbarölti hennar.  Hún var að slá á skrekkinn.  

  Við höfðum ekki spjallað lengi er ungur maður settist við borðið hjá okkur.  Hann þekkti okkur ekki en var hress og kátur.  Hann sagðist vera nýskilinn að Vestan og það væri eitthvað eirðaleysi eða einmannleiki í sér. Tal beindist fljótlega að prófskrekknum.  Maðurinn sagði að prófið væri ekkert mál.  Hann væri flugmaður og gæti leiðbeint konunni daginn eftir.  Tók hún þá gleði sína og skrekkurinn fjaraði út.  Vel fór á með þeim og að lokum leiddust þau út í leigubíl.

  Nokkru síðar sagði bardaman mér að snurða hafi hlaupið á hjá skötuhjúunum.  Konan hafði komið grátandi á barinn og sagt farir sínar ekki sléttar.  Þau höfðu að vísu átt góða nótt.  En að lokinni heimaleikfimi um morguninn flýtti maðurinn að klæða sig.  Hann sagðist vera of seinn út á flugvöll.  Hann þyrfti að sækja konuna sína þangað.

  Bólvinkonan benti honum á að hann hefði sagst vera fráskilinn að Vestan.  "Ég var bara að vitna í dægurlag með Önnu Vilhjálms," svaraði hann hlæjandi.  "En hvað með flugprófið?"  spurði hún.  "Það var spaug,"  svaraði hann.  "Ég veit ekkert um flugvélar.  Ég er strætóbílstjóri!"    

flugvél


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.