Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Hryllingur

  Ég mæli ekki með dvöl í rússnesku fangelsi.  Það er ekkert gaman þar.  Fangaverðir og stjórnendur fangelsanna eru ekkert að dekra við fangana.  Það geta úkraínskir stríðsfangar staðfest. 

  Á dögunum skiptust Rússar og Úkraínumenn á stríðsföngum.  215 úkraínskir fangar fengu frelsi og 55 rússneskir.  Hér eru ljósmyndir af einum úkraínskum.  Hann var tekinn til fanga í Maríupól ftrir nihhrun vikun,.  Þannig leit hann þá út.  Á hægri myndinni sést hvernig fangelsisdvölin fór með hann.  

Russ-Fangi


mbl.is Erna Ýr ekki allslaus í Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minningarorð

 

  Söngvari Baraflokksins, Ásgeir Jónsson, féll frá núna 3ja maí.  Hann var 59 ára.  Baraflokkurinn stimplaði Akureyri rækilega inn í rokksöguna á nýbylgjuárunum upp úr 1980.  Árunum sem kennd eru við "Rokk í Reykjavík".  

  Geiri var laga- og textahöfundur hljómsveitarinnar og allt í öllu.  Frábær söngvari og frábær tónlistarmaður.  Hann vissi allt og kunni í músík. Hljómsveitin átti sinn auðþekkjanlega hljóm;  blöndu af pönkuðu nýróman-kuldarokki.  

  Ég kynntist Geira þegar hann var hljóðmaður Broadway á Hótel Íslandi um aldamótin (þekkti hann reyndar lítillega áður til margra ára).  Ég bjó í næsta húsi.  Þar á milli var hverfispöbbinn Wall Street.  Þegar færi gafst frá hljóðstjórn brá Ásgeir sér yfir á Wall Street.  Þar var bjórinn ódýrari og félagsskapurinn skemmtilegri.    

  Vegna sameiginlegrar músíkástríðu varð okkur vel til vina.  Stundum slæddist Ásgeir heim til mín eftir lokun skemmtistaða.  Þá hélt skemmtidagskrá áfram.  Það var sungið og spilað.  Einnig spjölluðum við um músík tímunum saman.  Einstaka sinnum fékk Ásgeir að leggja sig heima hjá mér þegar stutt var á milli vinnutarna hjá honum, skjótast í sturtu og raka sig. 

  Geiri var snillingur í röddun.  Sem slíkur kom hann við á mörgum hljómplötum.  Hann var einnig snillingur í að túlka aðra söngvara.  Það var merkilegt.  Talrödd hans var hás (að hans sögn "House of the Rising Sun").  Engu að síður gat hann léttilega sungið nákvæmlega eins og "ædolin" David Bowie og Freddie Mercury.

  Eitt sinn fór Bubbi Morthens í meðferð.  Upptaka af hluta úr söng hans á plötunni "Konu" glataðist.  Búið var að bóka pressu í Englandi en ekki mátti ræsa Bubba út.  Geiri hljóp í skarðið.  Söng það sem á vantaði.  Það er ekki séns að heyra mun á söngvurunum.  Þetta er leyndarmál.

  Geiri var einstaklega ljúfur og þægilegur náungi.  Eftir að Broadway lokaði vann hann á Bítlapöbbnum Ob-La-Di.  Það var gaman að heimsækja hann þar.  Hann lék ætíð við hvurn sinn fingur. 

  Fyrir nokkrum árum urðum við samferða í geislameðferð vegna krabbameins.  Ég vegna blöðruhálskirtils.  Hann vegna krabbameins í raddböndum og síðar einnig í eitlum.  Við kipptum okkur lítið upp við það.  Við töluðum bara um músík.  Ekki um veikindi.  Enda skemmtilegra umræðuefni. 

      


Hámark letinnar

  Leti er listgrein út af fyrir sig.  Það þarf skipulag til að gera ekki neitt.  Eða sem allra minnst.  Skipulag og skapandi hugsun.  Margar af bestu uppfinningum mannsins urðu til vegna leti.  Líka margt spaugilegt. 

  Ástæða getur verið að smella á myndirnar til að átta sig betur á hvað er í gangi.

leti aleti eleti fleti  gleti gleti h


Eru býflugur fiskar?

   Erlingur Ólafsson skordýrafræðingur var í viðtali hjá Frey Eyjólfssyni á Rás 2. Umræðuefnið var að býflugurnar í Bandaríkjunum eru horfnar eins og dögg fyrir sólu. Þegar býflugnabændur hugðu að hunangsbyrgðum sínum gripu þeir í tómt. Það eru nánast engar býflugur lengur í Bandaríkjunum. Enginn veit ástæðuna.

  Freyr spurði Erling hvort hið dularfulla hvarf býfluganna hafi ekki keðjuverkandi áhrif á lífkeðjuna. Hvort að býflugan hafi ekki gegnt lykilhlutverki í frjóvgun jurtaríkisins og svo framvegis. Erlingur svaraði: "Það eru nú fleiri fiskar í sjónum en býflugan." Og rakti hvernig aðrar flugur og skordýr gera sama gagn.

 Samkvæmt þessum orðum Erlings er vænlegra fyrir býflugnabændur að leita að býflugum í sjó fremur en á þurru landi.


Töfrar úðans

  Ég var að selja snyrtivörur,  alnáttúrulegar heilsusnyrtivörur úr Aloe Vera plöntunni að uppistöðu til.  Aldraður maður á Egilsstöðum hringdi í mig.  Hann bað mig um að senda sér í póstkröfu sólarolíu sem heitir Dark Tanning Oil Spray.  Ástæðuna sagði hann vera þreytu í augum.  Hann grunaði að úðaspreyið gæti gert sér gott.  Einkum vegna þess að Aloe Vera var uppistöðuhráefnið.

  Nokkrum vikum síðar hringdi maðurinn aftur til að fá fleiri úðabrúsa.  Hann sagði að reynslan væri svo góð við að spreyja í augun að hann væri byrjaður að spreyja í eyrun líka.  Með jafn góðum árangri.  Eyrun hvíldust vel útspreyjuð.  

  Nokkrum vikum síðar hringdi hann enn í mig.  Hann vantaði fleiri úðabrúsa.  Nú var hann byrjaður að spreyja upp í munninn á sér undir svefninn.  Allt annað líf.  Hann svæfi eins og kornabarn.  Að auki væru draumfarir ljúfari.    


Ósætti út af kjúklingavængjum

  Ofbeldi tíðkast víðar en í bandarískum skemmtiþáttaseríum.  Stundum þarf ekki mikið til.  Jafnvel að gripið sé til skotvopna þegar fólki mislíkar eitthvað.  Það hefur meira að segja hent á okkar annars friðsæla Íslandi;  þar sem flestir sýna flestum takmarkalausa ást og kærleika. 

  Í Vínlandinu góða,  nánar tiltekið í Utah-ríki,  vildi umhyggjusamur faðir gera vel við þrítugan son sinn.   Á heimleið úr vinnu keypti hann handa honum vænan skammt af kjúklingavængjum.  Viðtökurnar voru ekki jafn fagnandi og pabbinn bjóst við.  Stráksa mislíkaði að kallinn hafði ekki keypt uppáhaldsvængina hans heldur einhverja aðra tegund.  Mönnum getur sárnað af minna tilefni.  Hann stormaði inn á baðherbergi.  Þar var ein af byssum heimilisins geymd.  Kauði nýtti sér það.  Hann tók byssuna og skaut á kallinn.  Sem betur fer var hann ekki góð skytta í geðshræringunni.  Kúlan fór yfir í næsta hús og hafnaði þar í uppþvottavél. 

  Kallinn stökk á strákinn og náði að afvopna hann.  Áður tókst drengnum að hleypa af tveimur skotum til viðbótar.  Bæði geiguðu að mestu en náðu samt að særa kallinn. 

  Einhver bið verður á að gaurinn fái fleiri kjúklingavængi.  Hann er í fangelsi.  

vængir

           

  .    


Frábær lögregla

  Í fyrradag missti tæplega fertugur maður vitið.  Óvænt.  Enginn aðdragandi.  Hann var bara allt í einu staddur á allt öðrum stað en raunveruleikanum.  Ég hringdi í héraðslækni.  Til mín komu tveir kvenlögregluþjónar sem hóuðu í sjúkrabíl.  

  Þetta fólk afgreiddi vandamálið á einstaklega lipran hátt.  Minnsta mál í heimi hefði verið að handjárna veika manninn og henda honum inn á geðdeild eða löggustöð.  Þess í stað var rætt við hann á ljúfu nótunum.  Að hluta til fallist á ranghugmyndir hans en um leið fengið hann til að fara á fætur og koma út í sjúkrabíl.  

  Þetta tók alveg 2 klukkutíma.  Skref fyrir skref:  Að standa á fætur,  að fara í skó og svo framvegis.

  Að lokum tókst að koma honum í sjúkrabílinn.  Hálftíma síðar hringdi önnur lögreglukonan í mig.  Vildi upplýsa mig um framhaldið frá því að maðurinn fór í sjúkrabílinn.  Sem var töluverð dagskrá sem náði alveg til dagsins í dag. 

  Þvílíkt frábær vinnubrögð.  Ég hafði ekki rænu á að taka niður nöfn.        


Færeyingar skara framúr

  Í fréttum af erlendum vettvangi er iðulega tíundað hvernig norrænu þjóðunum vegnar í baráttunni við kóróna-vírusinn.  Gallinn við þennan fréttaflutning er að Færeyingar eru taldir með Dönum.  Fyrir bragðið fer glæsilegur árangur Færeyinga framhjá flestum.  Nú skal bætt úr því:

  Í Færeyjum er enginn smitaður.  Enginn er að bíða eftir niðurstöðu úr skimun.  Enginn er í innlögn.  Enginn er í sóttkví.  

  Færeyingar hafa skimað um 240 þúsund manns.  Það er mikið fyrir þjóð sem telur 53 þúsund.  Skýringin er margþætt.  Meðal annars hafa margir Færeyingar búsettir erlendis átt erindi til Færeyja oftar en einu sinni frá því að Covid gekk í garð fyrir tveimur árum. Sama er að segja um marga útlendinga sem þurfa að bregða sér til Færeyja vinnutengt.  Einnig hefur verið töluvert um að Íslendingar og Danir sæki Færeyjar heim í sumar- og vetrarfríum.  Erlend skip og togarar (þar af íslenskir) kaupa vistir í Færeyjum og landa þar.  Svo eru það erlendu skemmtiferðaskipin.  

  Sjálfir gera Færeyingar út glæsilegt skemmtiferðaskip,  Norrænu,  sem siglir til og frá Færeyjum,  Íslandi og Danmörku.  Í þessum skrifuðu orðum er tveir Danir í sóttkví um borð í Norrænu.  

  Færeyingar hafa gefið 10 þúsund bólusprautur.  Þar af hafa 11% af þjóðinni fengið fyrri sprautuna og 7,7% seinni sprautuna. 

  Danskur ráðherra, að mig minnir Mette Frederiksen,  sagði í viðtali að Danir gætu lært margt af Færeyingum í baráttunni við Covid-19.  Íslendingar geta það líka.  Og reyndar lært margt annað af Færeyingum.

   


Lulla frænka í stimpingum

 Lulla föðursystir mín var ekki eins og fólk er flest.  Hennar andlega heilsa var ekki sem best.  Hún sagði og gerði margt óvenjulegt.  Oft var það eitthvað broslegt.  Hún var ljúfmenni og vildi öllum vel.  Okkur í fjölskyldunni þótti vænt um hana.  Það var ætíð gleðiefni að fá hana í heimsókn.

  Lulla ók allra sinna ferða;  hvort sem hún var með ökuskírteini í lagi eða ekki.  Það var allur háttur á.  Og aldrei borgaði hún sektir sem hlóðust upp í þykkum bunkum.  Hún fylgdi ekki alltaf umferðareglum.  Fyrir bragðið var bíll hennar jafnan dældaður á öllum hliðum.  Hún kippti sér ekkert upp við það.  Þess vegna vakti undrun þegar hún tók afar nærri sér að sjá dæld farþegamegin á bíl móður minnar.  Hún var alveg miður sín.  

  Svo bar við að þær mágkonur fóru til Dalvíkur á jarðarför.  Er þær nálguðust kirkjuna gaf Lulla mömmu ströng fyrirmæli um að leggja bílnum þannig að enginn sæi dældina.  Að útför lokinni óskaði kona nokkur eftir að fá far með þeim.  Lulla tók því illa.  Sagði að það væri lykkja á leið þeirra,  þær væru að flýta sér og þetta hentaði ekki.  Mamma hinsvegar tók vel í ósk konunnar og bauð hana velkomna í bílinn.  

  Er konan hugðist ganga að bílnum farþegamegin stökk Lulla í veg fyrir hana.  Var hún þó stirð til gangs.  Lulla tók á henni og hrinti í aftursætið bílstjóramegin.  Mömmu dauðbrá og reyndi að gera gott úr þessu með því að ræða eitthvað skemmtilegt við konuna.  Skutlið var innan Dalvíkur og tók stutta stund.  Er konan hafði yfirgefið bílinn spurði mamma Lullu:  "Hvers vegna í ósköpunum lentuð þið í stimpingum?"  Hún kveikti sér í sígarettu og svaraði síðan sallaróleg:  "Ég vildi akki að hún sæi dældina."    


Hve langt á að ganga?

  Ég er frekar andvígur Covid-19.  Eða eiginlega alveg andvígur kvikindinu.  Ég hallast að viðhorfi Kára Stefánssonar um að gripið verði til harkalegra varna.  Jafnvel að öllum verslunum verði lokað tímabundið - nema matvöruverslunum.  Vissulega sársaukafull aðgerð fyrir marga.  Á móti vegur að dragist Covid-faraldurinn á langinn þá mun hann valda ennþá fleirum harm.  Þetta er eins og valið á milli þess að rífa sársaukafullt af sér plástur hægt og bítandi eða kippa honum af og finna sársauka í 1 sekúndu.  

  Einu mótmæli ég harðlega:  Það er lokun lyfjaverslana.  Ég þarf að kaupa þar mínar daglegu gigtarpillur.  Ég ætla að fleiri þurfi nauðsynlega að kaupa lyf.  

   


mbl.is Vill loka fyrir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband