Færeyingar eru yndislegt fólk

rasmus og jón gnarr 

  Ég kom fyrst til Færeyja 1993.  Þá var kreppa í Færeyjum.  Ég skrapp með Norrænu í helgarferð ásamt syni mínum.  Vegna kreppunnar var lágt ris á Færeyingum. 

  .
  Næst fór ég til Færeyja 1998.  Það bar þannig til að færeyskur tómstundaskóli fékk mig til að halda þar námskeið í skrautskrift.  Það var fyrir tilstilli færeyskrar konu sem var við nám í Háskóla Íslands.
.
  Elskulegheit Færeyinga voru næstum yfirþyrmandi.  Eitt lítið dæmi.  Á lokakvöldi námskeiðs tilkynntu nemendur að þeir vildu gefa mér jólagjöf (þetta var í desember).  Orgeli var rúllað inn í kennslustofuna og námskeiðshópurinn söng fyrir mig raddaða útgáfu af "Heims um ból" (sem á færeysku heitir "Gleðileg jól").  Námskeið mitt var kvöldnámskeið.  Hópurinn hafði tekið sér frí um daginn til að æfa sönginn með organista.
.
  Um það leyti sem námskeiðinu lauk þetta kvöld birtist Rasmus Rasmussen og félagar hans í þungarokkshljómsveitinni Diatribes.  Þeir höfðu heyrt útvarpsviðtal við mig.  Þar kom fram að ég væri áhugasamur um þungarokk.  Þeir buðu mér á hljómleika með Diatribes í æfingarhúsnæði hljómsveitarinnar.  Ég var eini áheyrandinn.  Þetta voru einkahljómleikar fyrir Íslendinginn.  Þar tókst góður vinskapur við Rasmus og félaga hans í hljómsveitinni sem varir enn.
.
  Annað dæmi:  18 ára stelpa sem var á námskeiðinu bankaði upp hjá mér á sunnudeginum (frídegi).  Hún og mamma hennar vildu sýna mér Kirkjubæ, sem er fornt setur skammt frá Þórshöfn.  Þar vörðum við síðdeginu.
  Ég hef kennt skrautskrift á námskeiðum á Íslandi í 32 ár.  Sjaldnast næ ég að kynnast þátttakendum utan námskeiðstímans.  Þessu er öðru vísi varið í Færeyjum.  Fjöldi þátttakanda hefur haldið góðu sambandi við mig alla tíð eftir að námskeiði lauk.
.
  Enn eitt dæmi:  Ég heimsótti plötubúðina Tutl.  Fann þar ýmsar áhugaverðar rokk- og djassplötur. Sennilega hátt í 20 plötur. Þegar ég ætlaði að borga fyrir plöturnar sagði afgreiðslumaðurinn:  "Það er svo gaman að Íslendingur hafi áhuga á færeyskri músík að búðin gefur þér þessar plötur."
  Ég tók það ekki í mál en sagðist þiggja magnafslátt.  Niðurstaðan varð sú að ég fékk 20% afslátt.
.
  Svona hafa samskiptin við Færeyinga verið.  Síðar hafði ég milligöngu um að færeyska þungarokkshljómsveitin Hatespeech hélt hljómleika á Íslandi.  Og 2002 hafði ég milligöngu um að hljómsveit Rasmusar,  Makrel, tók þátt í Músíktilraunum Tónabæjar.  Einnig tók ég þátt í því að koma hérlendis á kopp "Færeysku bylgjunni" með Tý, Clickhaze,  Eivöru,  pönksveitinni 200 og fleirum.  Það var Kiddi kanína sem bar hita og þunga af því dæmi öllu.  Ég bara hjálpaði til.  Kiddi var potturinn og pannan í "Fairwaves".
.
  Það var reiðarslag þegar Rasmus varð fyrir hrottalegri líkamsárás á skemmtistaðnum Glitni í Þórshöfn 2006.  Sú saga er kunn.  Heift sumra Færeyinga í garð samkynhneigðra stangast á við elskulegheit Færeyinga almennt. 
.
  Við Íslendingar höfum ekki efni á að berja okkur á brjóst í fordæmingu á Færeyingum.  Það er ekkert svo langt síðan Hörður Torfason þurfti að flýja land vegna kynhneigðar.  Hann sætti morðtilraun ásamt öðrum grófum ofsóknum.  Ég man ekki hvort það var á þessu ári eða í fyrra sem trans-manneskja var lamin á Íslandi.  
.
  Í "kommentakerfi" á íslenskum netsíðum, á fésbók og víðar hafa menn fordæmt Færeyinga vegna þess sem Rasmus mátti þola.  Menn hafa krafist stjórnarslita við Færeyja og annað í þá veru.  Fordæmt Færeyinga sem svartnætti miðalda.  
.
  Það hefur orðið gífurleg viðhorfsbreyting í Færeyjum frá 2006.  Kúvending.  Mjög hröð kúvending.  
  .
  Dæmi:  Fyrsta Gay Pride gangan í Færeyjum var 2007.  Aðeins örfáir tugir mættu í gönguna.  Flestir búsettir erlendis (Íslendingar og Danir).  Í sumar þrömmuðu á sjötta þúsund Gay Pride í Færeyjum.  Það er sennilega hæsta hlutfall íbúafjölda í heimi utan Gay Pride á Íslandi.  Íbúar Færeyja eru 48 þúsund.
.
  Í desember 2006 var lögum breytt í Færeyjum.  Nýju lögin banna ofsóknir gegn samkynhneigðum.  Lögin voru samþykkt með 17 atkvæðum gegn 15.  Þeir 17 lögþingsmenn sem samþykktu nýju lögin eru fulltrúar meirihluta Færeyinga.
.
  Öll rokkmúsíksenan í Færeyjum studdi nýju lögin ásamt meginþorra ungra Færeyinga. 
.
  Sá færeyskur lögþingsmaður Færeyja sem telst vera í forsvari fyrir ofsóknum gegn samkynhneigðum,  Jenis av Rana, hefur tapað verulegu fylgi í prósentum talið.  Hans flokkur var með 3 lögþingsmenn en er nú aðeins með 2.  Jenis nýtur aðeins 6% fylgis í dag.  Það er af sem áður var.
.
  Fyrir tuttugu árum voru 90% Færeyinga andvígir því að samkynhneigðir gætu skráð sig í sambúð (skrásets parlags samkyndra).  Í dag eru 3/4 Færeyinga fylgjandi því að samkynhneigðir geti skráð sig í sambúð.  Það er borðliggjandi að lög þar um verði samþykkt.
...
  Það segir margt að á annað þúsund manns fylgdi Rasmusi til grafar á laugardaginn í Þórshöfn á laugardaginn. 
..
  Við megum ekki heimfæra þær ofsóknir sem Rasmus mátti sæta yfir á Færeyinga almennt.  Alls ekki.  Færeyingar eru yndislegt fólk.  Í Færeyjum eru svartir sauðir alveg eins og á Íslandi.   Meginþorri Færeyinga er gott fólk..
.
  Á myndinni fyrir ofan eru Rasmus og borgarstjóri Reykjavíkur,  Jón Gnarr.  Lagið á myndbandinu hér fyrir neðan er flutt af færeysku söngkonunni Dortheu Dam


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjördís Vilhjálmsdóttir

Takk fyrir þetta Jens Guð, þurfti á þessu að halda, viðurkenni ég, góður pistill og í stíl við það sem mér hefur þótt um Færeyjar, en skugga hefur sett á vegna viðhorfs þeirra.

Þessi setning snerti mig sérstaklega og ég næ vonandi fyrra áliti mínu á Færeyjum og skelli mér þangað einn fagran veðurdag ;)

,, Við Íslendingar höfum ekki efni á að berja okkur á brjóst í fordæmingu á Færeyingum.  Það er ekkert svo langt síðan Hörður Torfason þurfti að flýja land vegna kynhneigðar."

Takk fyrir þetta

Hjördís Vilhjálmsdóttir, 16.10.2012 kl. 22:40

2 Smámynd: Steingrímur Helgason

Verulega vel & fallega skrifaður piztill hjá þér ven, & minn hattur ætíð ofan fyrir þér & þreyjunni þinni við frændur vora fjáreyjínga.

Steingrímur Helgason, 16.10.2012 kl. 23:20

3 Smámynd: Jens Guð

  Hjördís,  þér er óhætt að kynnast Færeyingum með heimsókn þangað og kynnast hlýhug þeirra og elskulegheitum.  Mér telst til að ég sé búinn að fara um 40 sinnum til Færeyja.  Ég hef aldrei stoppað þar lengi við.  Oftast er þetta vikustopp.  Í mesta lagi 10 dagar.  Stundum aðeins helgarferð.  Færeyingum tekst ótal oft að trompa öll elskulegheit og fyrri kynni af þeim.

  Dæmi:  Eitt sinn gisti ég yfir helgi (á G!Festivali) í Götu (1000 manna þorpi).  Þar er ekkert gistiheimili.  Ég dvaldi í heimahúsi hjá fólki sem ég hafði ekki áður hitt.  Ég var varaður við því að fólkið væri mjög trúrækið og afskaplega andvígt áfengisneyslu. Ég var beðinn um að drekka ekki áfengi svo heimilisfólkið yrði þess vart.  Slíkt væri alveg þvert á þess lífsviðhorf.

  Þegar ég mætti á staðinn sögðu hjónin mér frá því að heimilið væri að öllu jöfnu áfengislaust.  Þau væru sjálf andvíg áfengi.  En þau hefðu heyrt að ég væri dálítið fyrir bjór.  Þess vegna væru þau búin að fylla ísskápinn af bjór.  Mér væri velkomið að ganga í hann eins og ég væri heima hjá mér.  Svo var dregið fram bjórglas og um leið og grynnkaði í glasinu var nýr bjór sóttur.  Ekki nóg með það heldur skenktu þau jafnharðan í "snafs" með Gammel Dansk og Jagermaster.  Þannig var það alla helgina.

  Algjörlega yndislegt fólk.  

  Ég hef aldrei leynt því í Færeyjum að ég sé í Ásatrúarfélaginu.  Bæði á þessu heimili og fleirum færeyskum þar sem Jesú er í hávegum hefur það aldrei truflað samskipti.  Færeyingar eru dálítið forvitnir um ásatrú og láta ekkert trufla sig að þeir sjálfir séu á Jesú-línunni.  

  Engu að síður:  Einstaka Færeyingar hafa komið mér stundum á óvart með því að verja árásina á Rasmus út frá biblíutexta.  Jafnvel hinir ólíklegustu.  En það á líka við um Íslendinga.  Þó að við Íslendingar almennt veltum ekki fyrir okkur kynhneigð fremur en hárlit eða augnlit þá eru sumir Íslendingar verulega uppteknir af kynhneigð annarra.  Snorri í Betel er dæmi um það ásamt Árna Johnsen og mörgum öðrum.  Samt sem áður er það þannig að Íslendingar og Færeyingar sem þurfa ekki að velta fyrir sér kynhneigð eru almennt ekkert að pæla í kynhneigð annarra.    

Jens Guð, 16.10.2012 kl. 23:35

4 Smámynd: Jens Guð

  Steingrímur,  takk fyrir það.

Jens Guð, 16.10.2012 kl. 23:36

5 Smámynd: Hjördís Vilhjálmsdóttir

Kannski eru þeir bara duglegri, margir hverjir, að sýna það sem aðrir þora rétt svo bara að hugsa; einægari, hvort sem er uppá gott eða slæmt ? Og kannski sést bara betur í enn minna samfélagi, hvernig hlutir eru ? Hef stundum velt því fyrir mér t.d. í tenglsum við þetta endalausa hrun tal, að það sást kannski bara enn betur í smækkaðri mynd hvernig fjárglæpamenn hegða sér, að heimurinn meira og minna er eins, en náði að fela það aðeins lengur en við ?

En ég vona að það verði gott að búa fyrir alla í Færeyjum, burtséð frá því hvað fólk gerir sem er löglegt, í einrúmi og einkalífi sínu ;)) Og mig langar að fara...takk Jens Guð ;))) 

Hjördís Vilhjálmsdóttir, 16.10.2012 kl. 23:53

6 identicon

Alveg sammála/"Púra samdur".

Fannst velviljinn mikill í minn garð þegar ég fór þangað 2010. Var þar í 11 daga með bróður mínum og öll ferðin var eiginlega fullkomin (eitt af því fáa sem ég var ósáttur með var að þegar ég ætlaði að fara uppá Slættaratind þá var þoka og við hættum við... já það og smá matareitrun í Klaksvík). Ég leigði ódýrasta bílinn þarna sem ég fann enda kreppuhrjáður frónbúi en þegar ég kom í bílaleiguna þá sögðust þeir ekki eiga bílinn til þar sem þeir leigðu hann til þýskra en "öppgreiduðu" bílinn og ég fékk rúmgóða sjálfskipta glæsikerru! Ferðaðist um eyjarnar á bíl í viku út um allt nánast (nema eyjarnar sem þarf að fara með bílferju) og það var stórkostlegt, Eivör-Larva var nýkominn út og hann var settur á rípít innan um stórkostlegt landslagið en einnig keypti bróðir minn Transcend með Makrel í tutl þar sem hann átti hann ekki (bara heyrt hann hjá mér). hann var einnig spilaður og sérstaklega fannst mér setningin í laginu Cure: "these mountains they hold me, surround me..." passa svo einstaklega vel þegar maður keyrði um fjöll og sund   http://www.youtube.com/watch?v=1XHbOYFPNsg 

Eina sem ég sá sem var bókstafstrúarlegt var einhver hress hljómsveit niðrí þórshöfn að tralla um Jesú, fannst það bara fyndið og krúttlegt þó mér finnist það líka rugludallalegt. Færeyingar eru ekkert með minni eða meiri lesti en Íslendingar eða aðrar þjóðir, bara öðruvísi, eins og t.d. þessi trúarlega íhaldssemi sem finnst hjá sumum þeirra, það er löstur en hér á Íslandi eru lestir víða, haga sumir landsmenn sér eins og dónar bara í einhverjum öðrum sviðum lífsins en því trúarlega, hér er spilling, hér er agaleysi, græðgi os.frv. , það verður hægt að finna e-ð neikvætt og jákvætt um allar þjóðir.

p.s.   Vil reyndar láta þig vita að þessar "tölur" sem ég gaf þér eru eftir minni en eru ekki áreiðanlegar svo sem, ég sá þessa frétt í vor held ég í Degi og viku og þetta var ekki formleg skoðanakönnun heldur fréttamaður að ganga um í SMS og spyrja ca. 20 manns hverju sinni, reiknaði enga % en fékk á tilfinninguna hvað %-an væri, þó % sé ekki vituð þá var niðurstaðan samt sláandi þegar maður sá mismunandi viðbrögð, mun fleiri voru jákvæðari í ár en f. 20 árum.

Ari Egilsson (IP-tala skráð) 17.10.2012 kl. 00:21

7 Smámynd: Jens Guð

  Hjördis, að sumu leyti er færeyskt samfélag opnara en hið gjörspillta Ísland.   Færeyskt samfélag er gegnsærra.  Það er alveg klárt.  Allir þekkja alla.  En það á ekki við um samkynhneigð.  Þar hefur allt verið í felum.  Það hefur einnig komið í ljós að barnaníð er algengara í Færeyjum en í nágrannalöndum.  Ég vil ekki fara út í þá sálma.  Þar kemur einnig kirkjan illilega við sögu.  Áðurnefndur Jenis av Rana, hatursmaður samkynhneigðra, hilmdi yfir með barnaníði.  En ég endurtek að ég ætla ekki út í það dæmi. 

Jens Guð, 17.10.2012 kl. 01:09

8 Smámynd: Jens Guð

  Ari,  góðar þakkir fyrir þitt innlegg.  Þú hefur sennilega heyrt í hljómsveitinni I´am.

Jens Guð, 17.10.2012 kl. 01:12

9 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir þennan góða pistil Jens, holl og góð lesning okkur öllum. Ekki langt síðan Íslendingar voru á sama stað og Færeyingar, vona svo sannarlega að samkynhneygðir muni búa við gott atlæti í Færeyjum í framtíðinni. Ég er alltaf á leiðinni til Færeyja, hlakka mikið til.

Ásdís Sigurðardóttir, 17.10.2012 kl. 12:15

10 identicon

Ég dvaldi talsvert bæði í Færeyjum og Vestmannaeyjum fyrir allnokkru síðan og varð var við óvenjumikið og sérstakt trúarlíf á báðum stöðum, sem kann hugsanlega að stafa að einhverju leiti bæði af einagrun og fáfræði, en það var líka það eina sem mér virtist sameina þessa eyjaskeggja og þá að öllu leiti færeyingum í vil.      

Stefán (IP-tala skráð) 17.10.2012 kl. 12:16

11 identicon

Nei það hef ég ekki Jens, upplýsingar?

Ari (IP-tala skráð) 17.10.2012 kl. 13:05

12 identicon

Já Jens, føroyngar er ekkert smá indæl þjóð og ef ég réði öllu í einn dag :) muni ég stinga uppá sameiningu beggja landanna. Ég er viss um að ég ætti marga sem væru sömu skoðunar, munum svo þegar eitthvað kemur uppá að vera fyst til að aðstoða í einu og öllu.

Og eitt í lokin, ég var með fóbíu gagnvart samkynhneigðu fólki, í dag sé ég að um algera fávisku og fordóma mína var að ræða, hinsvegar skil ég ekki margt enn hjá samkynhneygðum, mér finnst nefnilega að þegar blessaða fólkið kemur út úr skápnum, flassar það hér og þar sem endar árlega flass Gay Pride göngu og skilur okkur hin eftir með eitt stórt spurningarmerki á enninu. Það er ekki gott, kanske er þess vegna sem allt þetta vesen og sársauki er enn eins og Rasmus þurfti að þola sem enda svo með ósköpum.

Takk fyrir Jens að koma þessu að og linka við lög Rasmus R, hef hlustað á þau, þau eru listaverk...................

Kristinn J (IP-tala skráð) 17.10.2012 kl. 15:58

13 Smámynd: Jens Guð

  Ásdís,  þú munt hitta fyrir í heimsókn til Færeyja einstaklega gott fólk.

Jens Guð, 18.10.2012 kl. 00:44

14 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  Vestmannaeyjar og Færeyjar eiga það sameiginlegt að þar hafa verið tíðir sjóskaðar.  Allir þekkja alla.  Fólk grípur til þeirra plástra sem hendi eru næst.  Í þessum tilfellum Biblíunnar. 

Jens Guð, 18.10.2012 kl. 00:47

15 Smámynd: Jens Guð

  Ari,  þetta er Jesú-hljómsveit.  Það er svo sem ekki neinu við það að bæta.

Jens Guð, 18.10.2012 kl. 00:49

16 Smámynd: Jens Guð

  Kristinn,  ég nálgast sextugs aldur.  Mín kynslóð var í bullandi fordómum gagnvart samkynhneigðum.  Ég er fæddur og uppalinn í Skagafirði.  Þar vissi eiginlega enginn af því að til væru samkynhneigðir.  Svo flutti ég suður til Reykjavíkur og leigði herbergi hjá homma.  Hann var að vísu í afneitun og þóttist ekki vera hommi.  Það var brandari því að allir vissu að hann væri hommi. 

  Mér hefur samt aldrei þótt skipta máli kynhneigð neins.  Fyrir mér er það ekki meira mál en hárlitur eða skóstærð.  Þó að ég sé gagnkynhneigður þá er kynhneigð annarra svo mikið aukaatriði að ég skil ekki hvað hún skiptir suma miklu máli.  

Jens Guð, 18.10.2012 kl. 00:59

17 identicon

Jens! Nálgastu sextugsaldurinn? Erum við ekki jafngamlir eða svo? Og ég er hátt á sextugsaldri enda orðinn 56 ára.  Á það sama ekki við um þig?

Ég er nefnilega hálfhræddur um að sjötugsaldurinn sé rétt handan við hornið. Jamm.

Tobbi (IP-tala skráð) 18.10.2012 kl. 15:20

18 Smámynd: Jens Guð

  Tobbi,  við erum jafnaldrar.  Ég hélt reyndar að ég væri 58 ára á þessu ári og var farinn að huga að umsókn á elliheimili á Sauðárkróki.  Svo fóru að berast til mín afmæliskveðjur með öðrum upplýsingum.  Þá keypti ég reiknivél og reiknaði þetta út. 

Jens Guð, 19.10.2012 kl. 02:52

19 Smámynd: Siggi Lee Lewis

Í þessu bloggi er nokkuð vægt tekið til orða tekið. Ég fór með þér Jens til Færeyja hér um árið og kynntist elskulegheitum og hlýju þessa fólks af egin raun. Sjálfur hélt ég að þú værir alltaf að ýkja þegar þú talaðir um færeyjinga og framkomu þeirra, en annað kom á daginn. Þú hafðir verið hógvær í máli. (Sennilega svo einhver tryði þér) :-)

Siggi Lee Lewis, 19.10.2012 kl. 20:03

20 Smámynd: Jens Guð

  Ziggy,  takk fyrir þessa umsögn.

Jens Guð, 19.10.2012 kl. 23:22

21 Smámynd: Siggi Lee Lewis

Rétt skal vera rétt.

Siggi Lee Lewis, 20.10.2012 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband