Athyglin er "of" dreifð fyrir nýja rokkbyltingu

  Um miðjan sjötta áratuginn kom rokkið til sögunnar af miklum þunga.  Þetta var alvöru bylting.  Bylting sem aðgreindi kynslóðir.  Það hafði ekki áður gerst í tónlistarsögunni.  Skyndilega varð til bandaríks tónlistartegund,  rokk,  sem höfðaði til svo gott sem einungis til ungs fólks.  Skoðanakönnun í Bandaríkjum-Norður Ameríku leiddi það í ljós.  

  Rokkið fór eins og stormsveipur um heimsmarkaðinn (eða að minnsta kosti vestræna hluta hans).  Þetta var "æði".  Rokkkvikmyndir fóru mikinn og voru sýndar undir lögregluvernd.  Líka á Íslandi.  Þetta þótti geggjun.  Margir höfðu áhyggjur af ástandinu.  Bandarísku rokkararnir urðu stærstu stjörnur heims.  Og eru enn í hávegum:  Bill Haily,  Elvis Presley,  Chuck Berry,  Jerry Lee Lewis,  Little Richard...  Eldra fólki þótti villimennska út í eitt að hvítir söngvarar væru að farnir að beita öskursöngrödd og skaka mjöðmum  

  Á þessum árum voru fáar útvarpsstöðvar og ennþá færri sjónvarpsstöðvar.  Á Íslandi var engin sjónvarpsstöð og ein útvarpsstöð.  Þegar rokkkvikmynd var sýnd í kvikmyndahúsi á Íslandi þá fjölmenntu ungmenni. Þegar rokklag var spilað í íslensku útvarpi lögðu ungmenni við hlustir.  Rokkæðið fór ekki framhjá neinni ungri manneskju.  Ekki heldur eldra fólki.  Það fordæmdi villimennskuna.

  Næst gerist það að ensk hljómsveit,  Bítlarnir,  koma bratt til leiks 1963.  Þeir voru ennþá geggjaðri en bandarísku rokkararnir.  En sóttu margt í smiðju bandarísku frumherja rokksins.  Bítlarnir voru svo aðsópsmiklir að talað var um Bítlaæði.  Það var ekkert smá.  Bítlarnir lögðu undir sig markaðinn svo rækilega að aldrei verður endurtekið. Sem dæmi um Bítlaæðið má nefna að í júní 1964 áttu þeir 6 af 6 vinsælustu lögum á bandaríska vinsældalistanum.  Þetta verður aldrei endurtekið. Í árslok kom í ljós að 60% af allri plötusölu í Bandaríkjunum var sala á Bítlaplötum.  

  Bresku Bítlarnir opnuðu fyrir flóðgáttir á enskri "bítlatónlist".  Ómar Ragnarsson söng samantekt á Bítlaæðinu

  Bítlaæðið ól af sér hipparokk,  þungarokk og framsækið tilraunarokk (prog).  Svo færðist þreyta yfir markaðinn er leið undir miðjan áttunda áratuginn.  Þá,  1976,  spratt fram breska pönkið.  Því fylgdi svokölluð nýbylgja.  Pönkið stokkaði öllu upp. Það urðu kynslóðarskipti. Forystusveitirnar voru Sex Pistols og The Clash.       

 

 Hérlendis voru það Fræbbblarnir,  Q4U,  Utangarðsmenn,  Sjálfsfróun,  Þeysarar og allt sem kvikmyndin Rokk í Reykjavík gerði skil.

  1991 sendi bandaríska Seattle-hljómsveitin Nirvana frá sér plötuna "Nevermind".  Liðsmenn hennar höfðu sérkennilega sýn á tónlistarsenuna.  Þeir þekktu ekki vel til pönksenunnar en aðhylltust það sem þeir höfðu lesið um hana.  Þeim var ekkert gefið um þungarokk.  Að vísu var forsprakki Nirvana,  Kurt Cobain,  aðdáandi fyrstu platna Black Sabbath.  En hann var líka aðdáandi rythmagítarleiks bítilsins Johns Lennons.  Mat rythmagítarleik meira en sólógítarleik (vissi sennilega ekki að Lennon afgreiddi fleiri gítarsóló en Harrison á seinni plötum Bítlanna).  

  Brengluð viðhorf Nirvana til pönks ól af sér tónlistarstílinn grugg (grunge).  Vinsældir Nirvana opnuðu allar hurðir upp á gátt fyrir aðrar hljómsveitir í Seattle í Bandaríkjunum sem voru á svipuðu róli.  Það varð til gruggbylgja með risanöfnum til viðbótar við Nirvana.  Pearl Jam er nærtækasta dæmi.  Svo og Soundgarden.

  
  Víkur þá sögu að stöðunni í dag.  Bara á Íslandi hefur frá 1982 útvarpsstöðvum fjölgað úr einni í kannski 15 eða 20.  Í Færeyjum hefur útvarpsstöðvum fjölgað á einu ári úr 3 í 5.  
 
  Í dag er athygli á músík dreifð út um allt.  Það er af sem áður var þegar flestir hlustuðu á sömu útvarpsþætti.  Núna hlustar fólk á músík úr öllum áttum.  Ekki aðeins dreifist athygli á milli hinna mörgu og ólíku útvarps- og sjónvarpstöðva.  Fólk hlustar einnig á sína eigin "playlista" á Spotify,  tonlist.is o.s.frv.  Það er ekkert sem sameinar músíkástríðufólk.  Þess vegna er ólíklegt að til verði ný rokkbylting á borð við rokkbyltinguna 1955/6,  Bítlaæðið 1964 og hipparokkið þar á eftir;  svo og pönkbyltinguna 1976/7 eða gruggið 1991. Kalt mat: Það verður aldrei ný rokkbylting.   
 

      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já, nú er ekkert sem hindrar fólk í að hlusta á hvað sem er, hvenær sem er og við þær aðstæður er lítill grundvöllur fyrir rokkbyltingu eða öðrum byltingum. En ætli það verði ekki bara hægfara þróun með nostalgísku ívafi inn á milli, eins og verið síðustu 20 ár. 

Emil Hannes Valgeirsson, 24.11.2014 kl. 23:55

2 identicon

Góð grein um áhrifamestu, bestu og mestu tónlistar/skemmtikrafta heimsins á síðustu öld. Hvort það verður einhver meiriháttar bylting í tónlistinni aftur er ekki gott að segja, örugglega þó ekkert í líkingu við bítlabyltinguna. Persónulega finnst mér rokkið hafa verið steindautt síðan gruggið leið að mestu út af. Það segir t.d. ansi mikið að þegar gamlir rokkarar eins og t.d. Rolling Stones, Sir Paul, Bob Dylan og David Bowie senda frá sér góðar plötur, sem eru þó varla nema í meðallagi góðar á þeirra mælikvarða, að þá skuli þær lenda ofarlega eða efst á uppgjörslistum tónlistartímarita síðustu árin.   

Stefán (IP-tala skráð) 25.11.2014 kl. 09:28

3 identicon

Snýst þetta ekki bara um stóra rassa/"nekt" og annað í þeim dúr í dag, sýnist það

DoctorE (IP-tala skráð) 25.11.2014 kl. 13:44

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Góð grein.  Aðalatriði máls.

En joú, það hlýtur að koma ný bylgja einhvernvegin - og þó.  Kannski ekki.

En þetta með sem DoctirE segir, að þá er það alveg umhugsunarvert per se, að allt frá dögum frumrokksinns þá var svona kynferðislegur undirtónn einn þátturinn í dæminu.  En bara einn þáttur.  Einn þráður í flóknum vef o.s.frv.

Það er líkt og búið sé að einangra þann þátt útúr dæminu og gera hann sjálfstætt atriði.  Þetta nektar og rassa dæmi í dag er fyrir neðan allar hellur og sérkennilegt ef einhver fæst til að horfa og hlýða á það eða barasta nennir því.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 25.11.2014 kl. 14:00

5 Smámynd: Rúnar Már Bragason

 Rétt greining hjá þér og það má alveg bæta á hana með að benda á tónlist í tölvuleikjum, kvikmyndum, lyftum og söngþáttum. Þetta er farið að hljóma allstaðar og þar með missir tónlistin marks sem sérstakt fyrirbæri.

Rúnar Már Bragason, 25.11.2014 kl. 19:12

6 Smámynd: Jens Guð

  Emil Hannes,  ég met stöðuna þannig að engin rokkbylting sé möguleg í framtíðinni vegna þess hvað athygli og 

áheyrslur á músík sé dreifð.  

Jens Guð, 25.11.2014 kl. 22:57

7 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  góðir punktar.  

Jens Guð, 25.11.2014 kl. 22:58

8 Smámynd: Jens Guð

  DoctorE,  þetta er dæmi um það hvað athygli er dreifð í músík í dag.  Stundum á Fésbók sé ég að rassamyndbönd tiltekinna poppara eru gagnrýnd.  Ég fylgist ekki með músíksjónvarpsstöðvum (þar er pönk og dauðarokkið mitt spilað).  Rassakastamyndböndin hafa þess vegna alveg farið framhjá mér.    

Jens Guð, 25.11.2014 kl. 23:07

9 Smámynd: Jens Guð

  Ómar Bjarki,  það er rétt hjá þér að kynferðislegur undirtónn hefur alltaf fylgt rokkinu.  Elvis Presley þótti vera með klámfengna sviðsframkomu.  Sjálft hugtakið rokk og ról var tilvísun í kynlíf.  Svo og lagatitlar á borð við Tutti Frutti. Líka Bítlalagið "Happiness is a Warm Gun".  Og svo framvegis.   

Jens Guð, 25.11.2014 kl. 23:13

10 Smámynd: Jens Guð

 Rúnar Már,  góð ábending.  

Jens Guð, 25.11.2014 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband