Ríkisrekna mannanafnalöggan rassskelt eina ferðina enn

  Það er að verða dálítið staglkennt hjá mér að fjalla um ríkisreknu íslensku mannanafnalögguna.  Hún er brandari út í eitt.  Súrrealískt dæmi um leikhús fáránleikans.  Á dögunum átti ég samtal við kanadískan mann.  Íbúar Kanada eru rösklega 35 milljónir.  Þar hafa ekki komið upp nein vandamál með mannanöfn - þrátt fyrir að samfélagið sé blessunarlega laust við ríkisrekna mannanafnalöggu. Hann sagði mér að besti brandari sem hann geti sagt í Kanada sé af ríkisreknu íslensku mannanafnalöggunni. Þá leggjast þarlendir í gólfið í hláturskrampa yfir fáránleikanum.

  Íslenskur vinur minn,  búsettur í N-Karólínu,  hefur sömu sögu að segja.  Kaninn skríkir úr hlátri þegar honum er sagt frá ríkisreknu íslensku mannanafnalöggunni.  

  Fyrir helgi hnekkti Héraðsdómur Reykjavíkur banni mannanafnalöggunnar á millinafninu Gests.  Mannanafnalöggan taldi brýna nauðsyn á takmörkun svo léttúðugs nafns.  Almannahagsmunir væru í húfi.  Skipti engu að drengurinn var nefndur í höfuð á móðurbróðir sínum.  Jafnframt gekk einn þekktasti plötuútgefandi,  grínari,  trommuleikari og hljómsveitarstjóri Íslands áratugum saman undir nafninu Svavar Gests.  Gott ef stjórnmálamaðurinn Svavar Gests,  fyrrum ráðherra og sendiherra, er ekki einnig í daglegu tali kallaður Svavar Gests.  

  Íslenska ríkisrekna mannanafnalöggan er út í hött.  Hún hefur tapað hverju einasta dómsmáli bæði hérlendis og erlendis.  Það undirstrikar ruglið. En fyrst og síðast snýst málið um það að mannanafnalögga er í toppsæti yfir fáránlegustu ríkisreknu óþurftarfyrirbæri samfélagsins.    

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Endilega ekki hætta að pönkast í þessari ríkisreknu brandaramannanafnalögreglu, eins og þú segir réttilega leikhús fáránleikans og algjör tímaskekkja. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.4.2015 kl. 00:53

2 identicon

Smá Googl og hókus pókus:

Quebec Canada the Registrar of Civil Status will "invite" parents to change their child's name if it feels the moniker might result in future bullying. If parents disagree, the issue can be taken to court.

British Columbia Canada the Vital Statistics Act also allows the court to reject baby names they feel will cause ridicule,

...parents tried in New Zealand, and they have been blocked. That country has put forward its list of baby names rejected by the Department of Internal Affairs, which is the agency that signs off on baby names.

...wanted to name is his son after the government secret-spilling website “WikiLeaks.” The German government said no.

The name Nutella recently got a grande “Non!” from a judge in France....the judge renamed the sweet bundle of joy “Ella.”.  Little Ella was not the only French baby whose name was recently rejected. After the courts threw out the name Fraise (French for strawberry), the parents renamed their bundle of joy Fraisine, a name popular in the 19th century.

Denmark: Under the Law on Personal Names, parents are limited to a list of some 7,000 names. To choose a name not on the list, the local church has to approve it, followed by a review by government officials. Names must indicate gender, and surnames or "the unusual" cannot be used.

Swedish first names "shall not be approved if they can cause offense or can be supposed to cause discomfort for the one using it, or names which for some obvious reason are not suitable as a first name."

Italy: Ridiculous or shameful names are barred by law.

Vagn (IP-tala skráð) 27.4.2015 kl. 01:34

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þar féll mítan um sérstöðu íslensku mannanafnanefndarinnar.

Ragnhildur Kolka, 27.4.2015 kl. 08:48

4 identicon

Er ekki allt í lagi að hafa þessa nefnd?? Hún þarf bara að vera strangari, mér finnst hún ver farin að leyfa allskonar nöfn , sem hefðu jafnvel ekki verið sett á hundan í sveitnni. En hvað um það, það er bara mín skoðun. En mér finnst hinsvegar alveg út í hött að hún sé eitthvað að strögla, þegar fólk vill nota nöfn sem sannarleg hafa verið notuð hér á landi, þó að þau séu kannski á topp 10 listanum 

Bjarki (IP-tala skráð) 27.4.2015 kl. 11:03

5 identicon

Ég vil nú frekar hafa Mannanafnanefnd starfandi hér heldur en Framsóknarflokkinn, sem veldur þjóðinni mun meiri skaða og sársauka. Það er bara ekki eðlilegt að nöfn eins og Sigmundur, Davíð, Gunnar, Bragi og Vigdís séu hreinlega ekki notuð lengur á börn hér og hverfi líklega með öllu. 

Stefán (IP-tala skráð) 27.4.2015 kl. 13:18

6 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  takk fyrir hvatninguna.

Jens Guð, 27.4.2015 kl. 17:38

7 Smámynd: Jens Guð

  Vagn,  í sumum löndum - jafnvel mörgum - eru reglur eða lög um mannanöfn.  Til að mynda um að nafn sé ritað með bókstöfum (en ekki tölustöfum eða táknum).  Einnig að nafn sé ritað með bókstöfum stafrófs viðkomandi lands (ekki útlenskum stöfum).  Í öðrum tilfellum eru reglur fyrir hendi án þess að almenningur verði var við þær.  Þeim er ekki beitt;  enginn til að hafa eftirlit með því að þeim sé fylgt; eða þá að þær eru það rúmar að ekki reynir á þær.

  Í einhverjum ríkjum Bandaríkjanna er sá háttur hafður á að nýtt nafn þarf að tilkynna á auglýsingatöflu á skrifstofu sýslumannsembættisins.  Ef enginn gerir athugasemd við nýja nafnið þá telst það vera samþykkt að mánuði liðnum.  Málið er að enginn skiptir sér af nýjum nöfnum.  Á borði eru þetta því svo gott sem óvirk lög.  Samt.  Ég veit ekki hvort að það var samkvæmt þessum reglum sem bandarískum nasistaforeldrum hefur verið meinað að nefna barn sitt Adolf Hitler.  Síðast þegar ég vissi stóð til að barnið yrði tekið af þeim og komið í fóstur - á forsendum þess að nafngiftin sýndi óhæfi þeirra sem foreldra.

  Í sjálfu sér skiptir ekki máli hvort að forræðishyggja sé meiri eða minni eða álíka í öðrum löndum.  Mannanafnanefnd er sama óþurftar ríkisrekna nafnalöggan hvernig sem staðið er að málum í öðrum löndum.  Í Saudi-Arabíu mega konur ekki sitja undir stýri á bíl.  Það hefur engin áhrif á réttindi íslenskra kvenna til að keyra bíl.  Allt mjakast vonandi í frjálsræðisátt.  Nokkrum árum síðar hlæja menn að höftum gamla tímans.  Eins og þegar ekki mátti drekka bjór,  ekki mátti hafa búðir opnar á sunnudögum,  ekki mátti selja áfengi á miðvikudögum...  Nýverið var í Saudi-Arabíu aflétt banni við því að konur mættu ríða kameldýri.    

Jens Guð, 27.4.2015 kl. 18:30

8 Smámynd: Jens Guð

  Ragnhildur Kolka,  eitt er að hafa lög og reglur um mannanöfn.  Annað er að hafa starfandi ríkisrekna mannanafnalöggu. Löggu sem ítrekað er dæmd af dómstólum óhæf.    

  Í Norður-Kóreu er bannað að gefa drengjum nafnið Kim Jong-Il.  

Jens Guð, 27.4.2015 kl. 18:34

9 identicon

Og hver á að sjá um að menn verði ekki látnir heita qwerty logandi? Eða r2d2? Eða Satanía?

Eða, hverju Guð forði, Guð?

Þarf ekki eitthvað apparat til þess? Sem sagt; án mannanafnanefndar af einhverju tagi er vandséð að komist verði af. Og svo þetta með forræðishyggju.  Forræðishyggja er góð og nauðsynleg. Án hennar væri ég löngu farinn að praktísera sem tannlæknir með gamla naglbítinn hans afa.  Og ekki halda því fram að það sé ekki raunhæft dæmi; mjög margir hafa einmitt reynt slíkt eða sambærilegt, og verið stöðvaðir.  Almannahagsmunir eru nefnilega ríkari en hagur einstaklingsins til að ryðjast fram með offorsi til hvers sem honum þóknast. Gleymum því ekki að gólf eins er loft annars.

Forræðishyggjunni er það að þakka, eða kenna eftir atvikum, að við Jens erum á lífi; að einhver hafði vit fyrir okkur og kom í veg fyrir að við færum okkur að voða.

Tobbi (IP-tala skráð) 27.4.2015 kl. 18:43

10 Smámynd: Jens Guð

  Bjarki,  það er eitt vandamálið sem fylgir svona mannanafnalöggu:  Að hún lendir ítrekað í þær ógöngur að vera ýmist of ströng eða eftirlát.  Það sem nefndin bannaði í gær er allt í einu leyft í dag og öfugt.  Þetta ræðst af þeim sem sitja í nefndinni hverju sinni.  Ég vísa í nafn Ásthildar Cesil (sem á hér komment #1).  Henni var harðbannað að rita millinafnið með C.  Henni var gert að skrifa það Sesil.  Þrátt fyrir að vera nefnd í höfuð á ættingja sem fékk að stafsetja nafn sitt Cesil.  Eftir áratuga baráttu og mannabreytingar í mannanafnanefnd var seint og síðar meir fallist á ritunina Cesil.  

Jens Guð, 27.4.2015 kl. 18:45

11 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  vissulega er dapurlegt að þessi nöfn skuli hafa gjaldfallið.  

Jens Guð, 27.4.2015 kl. 19:25

12 Smámynd: Jens Guð

  Tobbi,  er ekki eitthvað að þegar úrskurður mannanafnanefndar er ítrekað felldur úr gildi af dómstólum?  Eða þegar nefndin bannar eitt nafn í gær en leyfir það í dag.  Eða leyfir eitt nafn í gær og leyfir það í dag.  

  Óvitar þurfa forsjá þeirra sem vita og kunna.  Svo kemst óvitinn til vits og ára.  Þá er honum ekki sama nauðsyn á forræðishyggju.  Fólk öðlast sjálfræði.  Það er góð þróun.    

Jens Guð, 27.4.2015 kl. 19:42

13 identicon

Vissulega. En hvað ætti að taka við? Og ítrekað:  Í dómasafni finnast tveir dómar. Tveir.  Það er að vísu ítrekað.  Og í öðrum þeirra var málinu aftur vísað til nefndarinnar.  Galli við gagnrýni á störf nefndarinnarer að oft er hún ósanngjörn; nefndin starfar eftir lögum.  Viji menn eitthvað annað væri nær að breyta lögunum.

Vissulega er forræðishyggja því nauðsynlegri sem fólk er meiri óvitar.  En í ljósi þess að á Alþingi sitja bæði píratar og framsóknarmenn verður seint sagt að háttvirtir kjósendur séu allir svo litlir óvitar að aldrei gerist þörf á að hafa vit fyrir fólki.

Hverskonar forræðishyggja er það annars að banna að aðrir en til þess hafa menntun og réttindi starfi að tannlækningum?  Eða leggi rafmagn? Eða kenni í framhaldsskólum?  Eða...? Eru kaupendur þeirra þjónustu ekki yfirleitt fólk með sjálfræði (í sumum tilvikum þó fyrir hönd ósjálfráða einstaklinga?

Tobbi (IP-tala skráð) 27.4.2015 kl. 20:00

14 identicon

Jens, það skiptir vissulega ekki máli hvort að forræðishyggja sé meiri eða minni eða álíka í öðrum löndum. Það sem skiptir máli er að þú hefur látið eins og hún sé allt að því sér Íslenskt fyrirbæri.

..."Á dögunum átti ég samtal við kanadískan mann.  Íbúar Kanada eru rösklega 35 milljónir.  Þar hafa ekki komið upp nein vandamál með mannanöfn"  augljós rangfærsla sem smá upplýsingaöflun hefði forðað þér frá og fær mann til að efast um aðrar fullyrðingar þínar. Þú mættir skoða sannleiksgildi fullyrðinga þinna áður en þú skellir snilldinni á bloggið þó það sé freistandi að láta skáldagyðjuna taka völdin.

Vagn (IP-tala skráð) 28.4.2015 kl. 00:50

15 Smámynd: Jens Guð

  Tobbi,  ég er ekki búinn að komast að niðurstöðu með lögverndaðar greinar.  Hef velt því fyrir mér og er enn að velta því fyrir mér.  Kaninn kemst af með þessar greinar án sveinsprófs og meistararéttinda.  Menn og fyrirtæki í þeim geira fá starfsleyfi í tilteknum ríkjum með því að þreyta einskonar próf sem snýr minnst að faginu sjálfu.  Þegar þeir skila af sér verki - til að mynda í byggingariðnaði - er gerð úttekt á verkinu.  Að vísu ekki endilega af fagmönnum heldur embættismönnum - stundum (oft) í embætti vegna fjölskyldutengsla.  Samt.  Þetta er allavega.  Fyrst að þú nefnir tannlækningar þá er útskrift úr háskóla ekki trygging fyrir fagmennsku.  Á Sauðárkróki varð tannlæknir uppvís af því að rota skólabörn í stað þess að deyfa.  Hann var,  jú,  kærður og rekinn. Áður afgreiddi hann gervigóm upp í konu í Hjaltadal.  Þegar gómurinn reyndist of stór snéri hann kellu niður í gólfið með hálstaki og tróð gómnum upp í hana.  Við það rifnuðu munnvik konunnar.  Í miðjum átökum kom í ljós að kappinn var með vitlausan góm í höndum.  Karlmannsgóm sem hann var með í hreinsun.  Þetta var kært (eða klagað).    

Jens Guð, 28.4.2015 kl. 19:46

16 Smámynd: Jens Guð

  Vagn,  ég er þarna að vísa til frásagnar kanadísks manns.  Föður sem hefur gefið sínu barni nafn.  Bróðir hans gaf sínu barni nýverið nafn.  Bræðurnir eiga ættir að rekja til Íslands.  Þeir fengu báðir íslensk nöfnm,  Kristján og Árni.  Ég þarf ekkert að leggjast í google-rannsóknarvinnu til að segja frá því hvernig íslenska mannanafnalöggan blasir við Kristjáni.  Ég einfaldlega bara vitna í hann.  Hann og hans ættingjar og vinahópur hefur ekki orðið var við kanadíska mannanafnalöggu að hætti þeirrar íslensku.

Jens Guð, 28.4.2015 kl. 19:56

17 identicon

Þótt hægt sé að finna einn tannsa, hvers nafn byrjaði á Ó og endaði á r, er það hæpinn samnefnari fyrir tannlækna almennt.  Og iðnaðarmannakerfi þeirra í BNA er lítt til eftirbreytni, enda sitja þeir sem glæpast á að kaupa þjónustu af ófaglærðum þar uppi með sitt tjón.  Hér er þó trygging fyrir því að þeir sem hafa pappír kunna á skrúfjárn og hamar. Annars þarf svosem ekkert heldur að gúggla lengi tilo að finna að Kanadamenn halda úti mannanafnalöggu og gefa meirac að segja út lista með bönnuðum nöfnum. Það að vitna í eina fjölskyldu og færa reynslu hennar yfir á almennt ástand er ekki sérlega vísindalegt.  Með sama hætti mætti halda því fram að mannanafnalöggan á Íslandi væri hvers manns hugljúfi; enda hef ég eða mín fjölskylda ekkert upp á hana að klaga og teljum hana með öllu nauðsynlega. Var þetta ekki vísindaleg nálgun?

Svo veit ég svo sem ekki nema kvartanir séu á sérkennilegum grunni reistar. Eitt af því sem þú, ágæti Hrafnhælingur, kvartar yfir er (sbr. athugasemd nr. 12) að mannanafnanefnd leyfi eitt nafn í gær og leyfi það svo aftur í dag. Ég á dáltið erfitt með að sjá vandamálið. En vafalaust er þetta forræðishyggja á hæsta stigi.

Tobbi (IP-tala skráð) 28.4.2015 kl. 21:24

18 Smámynd: Jens Guð

  Tobbi,  þetta átti að vera:  "...leyfir eitt nafn í gær og bannar það í dag."

Jens Guð, 30.4.2015 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband