Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Páskagaman

  Páskarnir eru allskonar.  Í huga margra eru þeir forn frjósemishátíð með einkennandi frjósemistáknum á borð við kanínur, egg, unga og páskalamb.  Síðar blandaði kristna kirkjan sögunni af krossfestingu Jesú inn í páskana.  Dagsetningin sveiflast til og frá eftir tunglstöðu.

  Fyrir nokkrum árum var Hermann heitinn Gunnarsson með páskaþátt í sjónvarpsseríunni "Á tali hjá Hemma Gunn".  Hann ræddi við börn á leikskólaaldri.  Meðal annars spurði hann dreng hvers vegna væru páskar.  Hann sagði það vera vegna þess að Jesú hafi verið krossfestur. 

  "Hvers vegna var hann krossfestur?"  spurði Hemmi.

  Stráksi svaraði að bragði:  "Menn voru orðnir leiðir á honum!

 

egg

 

 


Allir góðir saman!

  Fyrir nokkrum árum stálpuðust barnabörn mín.  Þau lærðu að lesa og lásu mikið;  allskonar blöð,  tímarit, bækur og netmiðla.  Gaman var að fylgjast með því.  Nema að mér varð ljóst að margt í fjölmiðlum er ekki til fyrirmyndar.  Þá datt mér í hug að setja sjálfum mér reglu:  Að skrifa og segja aldrei neitt neikvætt og ljótt um neina manneskju.

  Þetta var U-beygja til góðs.  Það er miklu skemmtilegra að vakna og sofna jákvæður og glaður heldur en velta sér upp úr leiðindum.  Til viðbótar ákvað ég að hrósa einhverjum eða einhverju á hverjum degi.  Svoleiðis er smitandi og gerir öllum gott.

        


Maður með nef

  Margir kannast við ævintýrið um Gosa spýtukall.  Hann er lygalaupur.  Hann kemur jafnóðum upp um sig.  Þannig er að í hvert sinn sem hann lýgur þá lengist nef hans.  Þetta er ekki einsdæmi.  Fyrir áratug fór að bera á svona hjá breskum hermanni á eftirlaunum,  Jóa lygara,  Þegar hann laug bólgnaði nef hans.  Að því kom að nefið formaðist í stóran hnúður.  Þetta hefur eitthvað að gera með taugaboð og örari hjartslátt þegar hann fer með fleipur.  

  Þetta lagðist þungt á 64 ára mann.  Hann einangraði sig.  Læddist með Covid-grímu út í matvörubúð að nóttu til þegar fáir eru á ferli.  Fyrir tveimur árum leitaði hann til lýtalæknis.  Sá fjarlægði hnúðinn, lagaði nefið í upprunalegt horf og gaf Jóa ströng fyrirmæli um að láta af ósannindum..  

Nef

    


Lán í óláni

  Kunningi minn er á áttræðisaldri.  Hann á orðið erfitt með gang.  Þess vegna fer hann sjaldan úr húsi.  Nema ef frá er talið rölt í matvörubúð.  Hann býr við hliðina.  Tilvera hans er fábrotin.  Sjón hefur dofnað.  Hann les ekki lengur.  Bækur voru honum áður besti félagsskapur.

  Fyrr í þessum mánuði ákvað hann að rjúfa einangrun sína.  Hann fékk sér sjónvarp og sjónvarpspakka,  internet,  ráder,  myndlykil,  prentara,  snjallsíma og allskonar.  Hann kunni ekkert á þetta.  Hann fékk ungan mann til að tengja allt og kenna sér á helstu aðgerðir.  

  Ekki gekk þjónustumaðurinn vel um.  Hann skildi eftir á gólfinu hrúgu af snúrum af ýmsu tagi.  Á dögunum vaknaði gamlinginn utan við sig.  Hann flæktist í snúrunum;  sveif á hausinn og rotaðist.  Það síðasta sem hann man var að horfa á eftir stóra flatskjánum skella á næsta vegg.

  Margar snúrur höfðu aftengst.  Með aðstoð 8007000 tókst honum að tengja þær upp á nýtt.  Honum til undrunar stóð flatskjárinn af sér höggið.  Hann virkar.  Ekki nóg með það;  myndin á skjánum er ennþá skýrri og litir skarpari en áður.  Jafnframt örlar núna á þrívídd.

  Allra best þykir honum að sjónvarpsdagskráin á skjánum er betri en fyrir óhappið.

innmúrað sjónvarp 

    

 

 

 


Smá smásaga

  Í vor fæddist stór og myndarlegur drengur.  Honum var gefið nafnið Jónas.  Hann var 1,90 á hæð og þrekvaxinn eftir því.  Stærðin er ekki hið eina einkennilega við strákinn.  Aldur hans vekur undrun.  Hann fæddist 27 ára.

  Fæðingar eru svo sem af ýmsu tagi.  Kona nokkur fæddi frosk.  Önnur eignaðist eingetið barn.  Sumir eiga erfitt með að trúa þessu.  Jónas fæddisst 2023.  Samt er kennitala hans 080596.  Hann er jafn gamall og Janis Joplin, Jim Morrison,  Jimi Hendrix og Brian Jones voru er þau féllu frá.  Öll með J sem upphafsstaf í fornafni eða eftirnafni.  Eða hvorutveggja.  Kurt Cobain er undantekning af því að hann féll fyrir eigin hendi.  Upphafsstafur hans er næsti stafur á eftir J.

  Jónas hefur lokið námi í lögfræði.  Prófskírteini hans vottar það.  Einkunnirnar eru frekar lélegar. 

  Þrátt fyrir stærðina hefur hann engan skugga.  Sama hvort ljós,  sól eða önnur birta fellur á hann.  Kannski er hann bara skugginn af sjálfum sér. 

shadow


Smásaga um borð

  Skemmtiferðaskipið vaggar mjúklega.  Mikið er að gera á barnum.  Fastagestirnir mættir.  Mörg ný andlit líka.  Þétt setið við hvert borð.  Margir standa við barinn.  Músíkin er lágt stillt.  Barþjónarnir skynja að fólkið vill masa.  Masið hljómar eins og niður aldanna.  Jafn og þéttur kliður sem er brotinn upp með einstaka hlátrarsköllum. 

  Skyndilega rjúfa þrjú hvell bjölluslög stemmninguna.  Það er síðasta útkall á barinn.  Gestirnir þekkja þetta.  Örtröðin við barinn þéttist.

  Hálftíma síðar eru öll ljós tendruð.  Samtímis er slökkt á músíkinni.  Raddsterkur barþjónn kallar:  "Góðir gestir,  takk fyrir komuna.  Góða nótt!"

  Barþjónarnir hefja tiltekt á meðan gestirnir tínast út og halda til kauju.  Svo slökkva þeir ljós og loka á eftir sér.

  Allt er hljótt.  Að nokkrum tíma liðnum hvíslar borð næst útidyrunum:  "Psss,  psss.  Hey,  þið borð.  Ég þarf að ræða við ykkur."  Engin viðbrögð.  Þá áttar borðið sig á að borð hafa ekki eyru;  engan munn og talfæri.  Þau hafa ekki heila;  ekkert taugakerfi.  Þau geta ekki einu sinni sýnt ósjálfráð viðbrögð.  Við þessa hugsun roðnar borðið af skömm.  Svo fyllist það yfirlæti.  Það hnussar og tautar hæðnislega:  "Þetta mættu fleiri vita um borð!"  

bar  


Skipti um andlit og fann ástina

  2018 sat Joe DiMeo í bíl í New Jersey í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Þetta var ungur og hraustur drengur,  24 ára.  Þá lenti hann í hroðalegu bílslysi.  Á augabragði breyttist bíllinn í skíðlogandi eldhaf.  Joe brenndist illa.  80% líkamans hlaut 3ja stigs bruna.  Andlitið varð ein klessa og læknar þurftu að fjarlægja nokkra fingur.

  Læknar reyndu hvað þeir gátu að lagfæra andlitið.  Þeir sóttu húð, bandvefi og fleira en varð lítið ágengt í 20 tíma aðgerð.  Nokkrum árum síðar var afráðið að taka andlit af nýdánum manni og græða á Joe.  140 manns tóku þátt í 23ja tíma aðgerð.  Þetta voru skurðlæknar,  hjúkrunarfræðingar og allskonar. 

  Aðgerðin tókst eins og bjartsýnustu menn þorðu að vona.  Að vísu er nýja andlitið of stórt og af 48 ára manni.  Joe þykir þetta skrýtið.  En það venst.  Mestu skiptir að vera kominn með andlit.  

  32 ára hjúkrunarfræðingur í Kaliforniu,  Jessy Koby, frétti af aðgerðinni.  Starfandi á sjúkrahúsi heillaðist hún af uppátækinu.  Til að fá nánari vitneskju af þessu setti hún sig í samband við Joe.  Eftir því sem þau kynntust betur kviknuð tilfinningar í garð hvors annars.   

  Nú er hún flutt inn til hans og ástin blómstrar.         

nýtt andlitný ásjóna


Fólkið sem reddar sér

  Fjórar fjölskyldur í Essex á Englandi urðu heimilislausar eftir að íbúðir þeirra brunnu til kaldra kola.  Þetta atvikaðist þannig að húsbóndinn á einu heimilinu tók eftir því að útimálningin var farin að flagna af.  Honum hraus hugur við að þurfa að eyða sólríkum degi í að skafa málninguna af.  Til að spara sér puð brá hann á ráð:  Hann úðaði bensíni yfir húsið og kveikti í.  Málningin fuðraði upp eins og dögg fyrir sólu.  Líka húsið og nálæg hús.

  Orkuboltinum Christina Lamb í Cornwall á Englandi datt í hug að reisa verönd við hús sitt.  Hún hófst þegar handa við að grafa grunn.  Í ákafa tókst henni að höggva í sundur gasleiðslu bæjarins sem stóð eftir í ljósum loga.

  Mike Howel í Bristol á Englandi var ekkert að æsa sig yfir því að festa fingur í smíðabekk sínum.  Fingurinn var pikkfastur.  En hann var svo sem ekki að fara neitt.  Mike hafði fátt betra að gera þann daginnn en rölta með fingurinn og smíðabekkinn 3ja kílómetraleið á sjúkrahús.  Það tók aðeins 8 klukkutíma.  Hefði tekið styttri tíma ef vegfarendur hefðu ekki stöðugt verið að stoppa og spyrja út í dæmið.  

       


Best í Færeyjum

  Flestallt er best í Færeyjum.  Ekki aðeins í samanburði við Ísland.  Líka í samanburði við önnur norræn lönd sem og þau helstu önnur lönd sem við erum duglegust að bera okkur saman við.  Nægir að nefna að meðalævilengd er hæst í Færeyjum;  atvinnuleysi minnst;  atvinnuþátttaka mest;  hjónaskilnaðir fæstir;  fátækt minnst og jöfnuður mestur;  sjálfsvíg fæst;  krabbameinstilfelli fæst;  glæpir fæstir;  barneignir flestar;  fóstureyðingar fæstar;  hamingja mest;  heilbrigði mest og pönkrokkið flottast.  Bara svo örfá atriði séu tiltekin.

  Ekki nóg með það heldur eru færeyskar kindur frjósamastar.  Hérlendis og víðast eignast kindur aðallega eitt til tvö lömb í einu.  Færeyskar kindur eru meira í því að bera þremur lömbum og allt upp í sjö!  Það er heimsmet.  

kindur

 


Varasamt að lesa fyrir háttinn

  Fátt gleður meira en góð bók.  Margur bókaormurinn laumast til að taka bók með sér inn í svefnherbergi á kvöldin.  Þar skríður hann undir sæng og les sér sitthvað til gamans og til gagns.  Þetta hefur löngum verið aðferð til að vinda ofan af erli dagsins í lok dags.  Svífa síðan á bleiku skýi inn í draumaheim. 

  Þetta getur verið varasamt á tækniöld.  Bækur eru óðum að færast af pappír yfir í rafrænt form.  Vandamálið er að á skjánum glampar blátt ljós svo lítið ber á.  Það ruglar líkamsklukkuna.  Þetta hefur verið rannsakað.  Sá sem les af skjá er lengur að falla í svefn en þeir sem lesa á pappír.  Svefn þeirra er grynnri og að morgni vakna þeir síður úthvíldir.

Tómas Tómasson

 

.

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband