Færsluflokkur: Samgöngur

Vandræði við að rata

  Ég átti leið í Costco.  Flest þar er á svipuðu verði og í Bónus.  Fólk getur þess vegna sparað sér 5000 króna félagsgjald í Costco.  Þó má komast í ódýrara bensín og smakk á ýmsum matvælum.

  Samferða mér inn í Costco var ungur maður og öldruð kona.  Maðurinn gekk greitt.  Konan dróst afturúr.  Hún kallaði á eftir honum hvellri röddu:  "Erum við núna í Keflavík?"

  Maðurinn umlaði eitthvað sem ég náði ekki.  Rifjaðist þá upp fyrir mér þegar mæðgur á Akureyri þurftu að bregða sér til Reykjavíkur.  Þær rötuðu ekkert í höfuðborginni.  Þetta var fyrir daga tölvunnar.  Þær ákváðu að keyra vel inn í Reykjavík áður en spurt yrði til vegar.  Allt gekk vel.  Svo komu þær að sjoppu og spurðu afgreiðsludömuna:  "Hvert er best að fara í átt að Krummahólum?"

  Daman snéri sér að annarri afgreiðsludömu og spurði:  "Eru Krummahólar ekki einhversstaðar í Reykjavík?"

  Áður en hún náðu að svara spurðu mæðgurnar:  "Erum við ekki í Reykjavík?"

  - Nei,  svaraði daman.  Við erum í Hafnarfirði!

krummaholar


Smásaga um flugferð

  Haukur var háaldraður þegar hann flaug í fyrsta skipti með flugvél.  Tilhugsunin olli honum kvíða og áhyggjum.  Hann áttaði sig á að þetta var flughræðsla á háu stigi.  Til að slá á kvíðakastið leitaði hann sér upplýsinga um helstu ástæður fyrir flugslysum.  Það gerði illt verra.  Jók aðeins kvíðakastið.

  Áður en Haukur skjögraði um borð deyfði hann sig með koníaki sem hann þambaði af stút.  Það kom niður á veiklulegu göngulagi fúinna fóta.  Hann fékk aðstoð við að staulast upp landganginn.  Allt gekk vel.

  Nokkru eftir flugtak tók hann af sér öryggisbeltið og stóð upp.  Hann mjakaði sér hálfhrasandi að útihurð vélarinnar. Í sama mund og hann greip um handfangið stökk flugfreyja fram fyrir hann og kallaði höstuglega:  "Hvað heldurðu að þú sért að gera?"

  "Ég þarf að skreppa á klósett," útskýrði hann. 

  "Ef þú opnar dyrnar hrapar flugvélin og ferst!" gargaði flugfreyjan æstum rómi.

  Kalli var illa brugðið.  Hann snérist eldsnöggt á hæl og stikaði óvenju styrkum fótum inn eftir flugvélinni.  Um leið hrópaði hann upp yfir sig í geðshræringu:  "Hvur þremillinn!   Ég verð að skorða mig aftast í vélinni.  Þar er öruggast þegar vélin hrapar!"        

flugvél  


Brosleg fjölbreyttni á flugvöllum

  Mannfólkið er (næstum því) eins misjafnt og það er margt.  Það sést oft á skemmtilegan hátt á flugvöllum.  Þar birtist fjölbreytt mannlíf í öllum hornum.  Ekki síst þegar kemur að því að hvílast vel og lengi fyrir langt flug;  nýta tímann sem best.  Þá kemur sér vel að hafa hengirúm í farangrinum. 

  Háaldraðir flugfarþegar gera sér ekki alltaf grein fyrir því hver staða þeirra er á rennibeltinu.  Þeir taka sér plássið sem þarf og hafa ekki hugmynd um að þeir séu að stífla beltið.  Palli er einn í heiminum.

  Mörgum flugfarþegum reynist kúnst að hafa ung börn með í för.  Börn sem eru á ókunnugum slóðum og langar til að fara út um allt.

  Önnur börn leyfa sér að sofna á ferðatöskunni.  Enn önnur dunda sér við að líma miða á sofandi pabba.  Gott á hann.  Það er óábyrgt að halda sér ekki vakandi þegar ferðast er með ung börn.  

  Út um glugga á flugstöðvum má stundum sjá vonda meðferð á flugvélum.  Svona eins og þegar rennihurð slær flugvél niður.  

  Árlega kemst upp um flugfarþega sem tíma ekki að borga fargjald heldur lauma sér í tösku og borga yfirvigt fyrir miklu lægri upphæð.

  Að venju eru myndirnar skýrari og skilmerkilegri ef smellt er á þær.    

 

flugvellir 1flugvellir 2flugvellir 3flugvellir 4flugvellir 5flugvellir 6flugvellir 7flugvellir 8flugvellir 9


Hlálegur misskilningur

  Miðaldra íslensk kona var búsett erlendis.  Einn góðan veðurdag ákvað hún að fljúga til Íslands til að heimsækja vini og ættingja.  Það hafði hún vanrækt í alltof langan tíma.  Aldraður faðir hennar skutlaðist út á flugvöll til að sækja hana.  Hún var varla fyrr komin í gegnum toll og heilsa honum er hún áttaði sig á klaufaskap.

  "Bölvað vesen,"  kallaði hún upp yfir sig.  "Ég gleymdi tollinum!"

  "Hvað var það?" spurði pabbinn. 

  "Sígarettur og Jack Daniels," upplýsti hún.

  "Ég næ í það,"  svaraði hann,  snérist á hæl og stormaði valdmannslegur á móti straumi komufarþega og framhjá tollvörðum.  Hann var áberandi,  næstum tveir metrar á hæð,  íklæddur stífpressuðum jakkafötum,  með bindi og gyllta bindisnælu. 

  Nokkru síðar stikaði hann sömu leið til baka.  Í annarri hendi hélt hann á sígarettukartoni.  Í hinni bar hann Jack Daniels.

  Er feðginin héldu af stað til Reykjavíkur sagði konan:  "Ég skipti gjaldeyri á morgun og borga þér tollinn."

  "Borga mér?" spurði öldungurinn alveg ringlaður.

  Í ljós kom misskilningur.  Hann hélt að dóttir sín hefði keypt tollvarninginn en gleymt að taka hann með sér.  Gamli var svo viss um þetta að hann borgaði ekkert. 


Stórbrotin hrollvekja

 - Titill:  MARTRÖÐ Í MYKINESI - íslenska flugslysið í Færeyjum 1970

 - Höfundar:  Magnús Þór Hafsteinsson og Grækaris Djurhuus Magnussen

 - Útefandi:  Ugla

 - Einkunn:  *****

  Eins og kemur fram í titlinum þá segir bókin frá hræðilegu slysi er íslensk flugvél brotlenti í Færeyjum fyrir hálfri öld.  Hún lenti á lítilli einangraðri og fámennri klettaeyju,  Mykinesi. Um borð voru þrjátíu og fjórir.  Átta létust.  Margir slösuðust illa.  

  Aðstæður voru hrikalegar;  blindaþoka, hávaðarok og grenjandi rigning.  Flak vélarinnar fannst ekki fyrr en mörgum klukkutímum síðar.  Aðstæður við björgunaraðgerðir voru hinar verstu í alla staði.  Að auki höfðu fæstir björgunarmanna reynslu af björgunarstörfum.  Þeir unnu þrekvirki.  Því miður hafa Íslendingar aldrei þakkað þeim af neinum sóma.

  Bókin er afskaplega vel unnin.  Ráðist hefur verið í gríðarmikla heimildarvinnu.  Lýst er tilurð flugfélagsins og öllum aðdraganda flugferðarinnar til Færeyja.  Við fáum að kynnast mörgum sem komu við sögu.  Þar á meðal eru ný viðtöl við suma þeirra. Fjöldi ljósmynda lífgar frásögnina.            

  Forsaga slyssins og eftirmálar gera það sjálft mun áhrifaríkara.  Öllu sem máli skiptir er lýst í smáatriðum.  Þetta er hrollvekja.  Lesandinn er staddur í martröð.  Hann kemst ekki framhjá því að þetta gerðist í raunveruleika.

Martröð í Mykinesi   


Hrikaleg bók

  Haustið 1970 brotlenti íslensk flugvél í Færeyjum.  Af 34 um borð létust átta.  Aðstæður voru afar erfiðar.  Nú er komin út stór og mikil bók um slysið.  Hún heitir Martröð í Mykinesi.  Undirtitill er Íslenska flugslysið í Færeyjum 1970. Höfundar eru Magnús Þór Hafsteinsson og Grækaris Djurhuus Magnussen.  

  Ég er nýkominn með bókina í hendur.  Á eftir að lesa hana.  En er byrjaður að glugga í hana.  Hún er svakaleg.  Ég geri betur grein fyrir henni þegar ég hef lesið hana.  Það verður ekki gert á einum degi.  Letur er frekar smátt og textinn spannar yfir á fimmta hundrað blaðsíðna.

Martröð í Mykinesi  


Skelfileg upplifun í bíl

  Bíllinn minn er 14 ára.  Reyndar eiginlega 13 ára.  Hann á 14 ára afmæli eftir nokkra daga.  Hann ber aldurinn frekar illa.  Hann hefur áráttu til að bila.  Það er eins og þráhyggja hjá honum að komast sem oftast á verkstæði.  Iðulega ljómar mælaborðið eins og jólasería.  Ljósin eru rauð og gul og appelsínugul. Aðallega rauð.  Það er flott yfir jól og áramót. 

  Í dag átti ég erindi í bílinn.  Um leið og ég startaði honum hentist hann til og frá.  Ég sannfærðist þegar í stað um að nú væri sá gamli að gefa upp öndina.  Mér var mjög brugðið.  Maður sem hefur atvinnu af því að selja sólkrem er ekki vel staðsettur í Covid-19 launamálum.

  Mér fannst hamagangurinn standa yfir í hálfa mínútu.  Kannski varði hann skemur.  Síðar kom í ljós að um jarðskjálfta var að ræða.  Þá tókum við bíllinn gleði á ný.  

bíll 

 

 

      


Keypti í ógáti 28 bíla

  Eldri Þjóðverji hugðist uppfæra heimilisbílinn;  skipta gamla bensínsvolgraranum út fyrir lipran rafmagnsbíl.  Hann hélt sig innanhúss vegna Covid-19.  Nógur tími var aflögu til að kynna sér hver væru heppilegustu kaup.  Þegar hann var kominn með niðurstöðu vatt hann sér í að panta bílinn á netinu.  

  Tölvukunnátta er ekki sterkasta hlið karlsins.  Allt gekk þó vel til að byrja með.  En þegar kom að því að smella á "kaupa" gerðist ekkert.  Í taugaveiklun margsmellti hann.  Að lokum tókst þetta.  Eiginlega of vel.  Hann fékk staðfestingu á að hann væri búinn að kaupa bíl.  Ekki aðeins einn bíl heldur 28.  1,4 milljónir evra (220 milljónir ísl. kr.) voru straujaðar af kortinu hans.  

  Eðlilega hafði kauði ekkert að gera við 28 bíla.  Bílaumboðið sýndi því skilning og féllst á að endurgreiða honum verð 27 bíla.  Tók hann þá gleði sína á ný og staðan á korti hans hrökk í betra hrof.  

tesla 


Svínað á Lullu frænku

  Mín góða og skemmtilega frænka úr Skagafirðinum,  Lulla, var ekki alveg eins og fólk er flest.  Oft var erfitt að átta sig á því hvernig hún hugsaði.  Viðbrögð hennar við mörgu voru óvænt.  Samt jafnan tekin af yfirvegun og rólegheitum.  Henni gat þó mislíkað eitt og annað og lá þá ekki á skoðun sinni.

  Hún flutti ung til Reykjavíkur.  Þar dvaldi hún af og til á geðdeild Borgarspítala og á Kleppi í bland við verndaða vinnustaði.  Henni var alla tíð afar hlýtt til Skagafjarðar og Skagfirðinga.

  Aksturslag hennar var sérstætt.  Sem betur fer fór hún hægt yfir.  1. og 2. gír voru látnir duga.  Aðrir bílstjórar áttu erfitt með að aka í takt við hana.  

  Á áttunda áratugnum var mágur minn farþegi hjá henni.  Þá tróðst annar bíll glannalega fram úr henni.  Lulla var ósátt og sagði:  "Þessi er hættulegur í umferðinni.  Hann svínar á manni."

  Mágur minn benti henni á að bílnúmerið væri K.  Þetta væri skagfirskur ökuníðingur.  Lulla svaraði sallaróleg:  "Já, sástu hvað hann tók fimlega framúr?  Skagfirðingar eru liprir bílstjórar!"

Fleiri sögur af Lullu frænku:  HÉR

 


Svívirðilegur áróður gegn Íslandi

  Á Norðurlöndunum er gríðarmikill áhugi fyrir því að sækja Ísland heim.  Ástæðurnar eru margar.  Þar á meðal að íslenska krónan er lágt skráð.  Einnig að Íslendingar hafa staðið sig sérlega vel í baráttunni gegn kórónaveiruna.  Þar að auki þykir íslensk tónlist ævintýraleg og flott,  sem og íslenskar kvikmyndir og sjónvarpsþættir.

  Ekki eru allir sáttir við þetta.  Norska dagblaðið VG hvetur fólk til að heimsækja EKKI Ísland.  Bent er á að Ísland þyki svalt og íbúarnir ennþá svalari.  Vandamálið sé yfirþyrmandi ferðamannafjöldi:  Sex ferðmenn á móti hverjum einum Íslendingi og það sé eins og allir ætli í Bláa lónið á sama tíma og þú.

  VG segir að til sé vænni valkostur.  Þar séu reyndar hvorki jöklar né eldfjöll.  Hinsvegar öðlast fólk þar sálarró og frið í afskekktum óspilltum sjávarþorpum og fordómaleysi. 

  Staðurinn sé óuppgötvaður eyjaklasi sem svo heppilega vill til að er landfræðilega nær Noregi en Ísland.  Hann heiti Færeyjar.  

Færeysk eggjatýnsla 

 

 

  

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.