Færsluflokkur: Menning og listir

Afleiðing lagastuldar

  Í annars bráðskemmtilegum og fróðlegum útvarpsþætti á dögunum barst tal að laginu "Come Together".  Það er opnulag síðustu hljóðversplötu Bítlanna,  "Abbey Road".  Flott lag þar sem Bítlarnir fara á kostum í söng og hljóðfæraleik. 

  Í umræðunni um lagið var nefnt að lagið væri stolið úr lagi Chucks Berrys "You Can´t Catch Me".  Það hafi hinsvegar ekki haft neinar afleiðingar.

  Hið rétta er að það hafði miklar afleiðingar.  John Lennon samdi lagið og textann.  Sem ákafur aðdáandi Chucks Berrys vildi hann heiðra hann með tilvísun í bæði áðurnefnt lag og texta þess.  John var svo mikill aðdáandi að rétt áður en þeir áttu að hittast í fyrsta sinn þá varð hann svo stressaður og nervus að hann ældi eins og múkki.

  Chuck var aðdáandi Bítlanna og einkum Johns.  Enda voru þeir með fjölda laga hans á hljómleikaskrá sinni.  Mörg þeirra rötuðu inn á plötur þeirra. 

  Chuck áttaði sig á heiðruninni í "Come Together" og var upp með sér.  Plötuútgefandi Chucks sá aftur á móti í hendi sér að hægt væri að gera sér mat úr þessu.  Hann kærði John fyrir lagastuld og dró hann fyrir dómstóla.  Sátt náðist í málinu.  Hún fólst í því að John myndi senda frá sér plötu með þremur lögum sem útgefandi Chucks átti útgáfurétt á.  Þetta voru Chuck Berry lögin "You Can´t Catch Me" og "Sweet Little Sixteen" ásamt laginu "Ya Ya" eftir Lee Dorsey.   

  Til að uppfylla sáttina ákvað John að senda frá sér plötu með þessum lögum í bland við önnur gömul rokk og ról uppáhaldslög.  Plötuna kallaði hann "Rock n Roll".  Þetta var á því tímabili sem John kallaði "týndu helgina".  Eiginkona hans,  Yoko Ono",  hafði hent honum út og hann var hálfur út úr heimi blindfullur samfellt í 18 mánuði.    

  Allt gekk á afturfótunum.  Upptökustjórinn snarklikkaði Phil Spector (sem nú er í fangelsi vegna morðs) týndi upptökunum af sumum laga rokk-plötunnar og skaut úr byssu kúlu sem nánast strauk eyra Johns.  Hann var með hellu fyrir eyranu það sem eftir lifði dags. Þetta varð til þess að blindfullur Lennon þjófstartaði sáttinni með því að senda frá sér plötudrusluna "Walls and Bridges" með laginu "Ya Ya".  Rokk-platan þurfti að bíða betri tíma. 

  Útgefandi Chucks skilgreindi þetta sem rof á sáttinni.  Stefndi Lennoni aftur fyrir dómstóla.  Aftur náðist sátt.  Svo kom rokk-platan út.  Hún hefur vaxið í áranna rás.  Þegar hún kom út gáfu gagnrýnendur henni 2 og hálfa stjörnu.  Nokkrum árum síðar voru það 3 stjörnur.  Síðan 3 og hálf.  Í dag fær platan 4 stjörnur á allmusic.com.

  Útgefandi Chucks gaf rokk-plötuna út undir nafninu "Roots".  Það kallaði á enn ein málaferlin. 

  Til gamans:  Ýmsar heimildir herma að Paul McCartney syngi bakröddina í "Come Together".  Meðal annars sú vandaða heimildabók "Beatlesongs".  Paul hefur þó upplýst að John raddi með sjálfum sér.  Paul hafi boðist til að radda en John svarað Því til að hann græji þetta sjálfur.  Paul sárnaði þetta en var of stoltur til að láta John vita af því.   


Ljúf plata

Titill:  Þúsund ár

Flytjandi:  Guðmundur R

Einkunn: ****

  Guðmundur R. Gíslason varð fyrst þekktur sem söngvari hljómsveitarinnar Sú Ellen frá Norðfirði.  "Þúsund ár" er ný sólóplata með honum.  Hún inniheldur tíu frumsamin lög 0g texta.  Lögin eru öll hin snotrustu og notalega söngræn.  Textarnir eru alþýðlegir og ljóðrænir.  Það er að segja ortir á venjulegu alþýðumáli án rembings; án stuðla og höfuðstafa en iðulega með endarím.  Yrkisefnið er samskipti fólks og smá pólitík.  Í rokkaðasta laginu,  "Best í heimi",  er deilt á íslensku spillinguna.  Fyrir minn smekk er það skemmtilegasta lag plötunnar ásamt lokalaginu,  "1974".  Þar segir frá snjóflóðinu sem féll á Neskaupstað umrætt ár.

  Guðmundur er góður,  blæbbrigðaríkur og lipur söngvari með breitt raddsvið.  Sveiflar sér léttilega á milli söngstíla.  Bregður jafnvel fyrir sig snyrtilegri falsettu til spari.  

  Allflest lögin eru á millihraða.  Heildar yfirbragð plötunnar er milt.  Áferðin er mjúk.  Allur flutningur er snyrtilegur, fágaður og að mestu án eiginlegra klisjusólókafla.  Það er kostur.      

Þúsund ár    

  


Orðuhafar

  Ég er alveg fylgjandi því að fólki sé umbunað fyrir gott starf með fálkaorðu.  Það er hvetjandi fyrir viðkomandi.  Jafnframt öðrum hvatning til að taka orðuhafa sér til fyrirmyndar.  

  Núna samfagna ég nýjustu orðuhöfunum Andreu Jónsdóttur og Hilmari Erni Hilmarssyni.  Bæði virkilega vel að orðu komin.  Andrea hefur til næstum hálfrar aldar verið ötul við að kynna íslenska tónlist í útvarpi, á diskótekum og á prenti. 

  Hilmar Örn hefur sömuleiðis verið duglegur við að kynna og varðveita gömlu íslensku kvæðahefðina.  Meðal annars með því að blanda henni saman við nýrri tíma rapp.  Einnig hefur hann farið á kostum í eigin músíkstílum.  Fyrir þá fékk hann evrópsku Felix-verðlaunin fyrir tónlistina í "Börn náttúrunnar".  Einn merkasti tónlistarmaður heims.

  Elsku Andrea og Hilmar Örn,  innilega til hamingju með orðurnar.  Þið eigið þær svo sannarlega skilið.  Þó fyrr hefði verið.  

andrea


mbl.is Fjórtán hlutu fálkaorðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stónsari með móral yfir að hafa svindlað

 

 

  Hljótt fór að fyrir síðustu áramót boðaði gítarleikari the Rolling Stones,  Keith Richards,  söngkonuna Marianne Fathful á sinn fund í París.  Ég veit ekki af hverju í París.  Kannski er annaðhvort þeirra búsett í Frakklandi.  Eða kannski bæði. 

  Á fundinum játaði Keith fyrir henni að hann væri með bullandi móral yfir að hafa hlunnfarið hana um höfundarlaun fyrir lögin "Symphaty for the Devil",  "You Can´t Always Get What You Want" og "Sister Morphine".  Allt lög sem náðu miklum vinsældum í flutningi the Rolling Stones og haún átti stóran hlut í að semja með þeim Keith og Mick Jagger.

  Á þessum tíma sem lögin komu út á plötum var Marianne kærasta söngvara the Rolling Stones,  Mikka Jaggers.  Hún var jafnframt hálf út úr heimi vegna gríðarlegrar eiturlyfjaneyslu.  Fjölskylda hennar var og er vellauðug.  Marianne hefur aldrei þurft að pæla í peningum.  Réttskráð lög hennar og plötur hafa selst í bílförmum og skilað henni góðum tekjum.   

  Keith gerði sér þó lítið fyrir og endurgreiddi Marianne þau höfundarlaun sem hún hafði orðið af vegna þess að vera ekki réttilega skráð meðhöfundur áðurnefndra laga.  Jafnframt lét hann leiðrétta höfundarskráningu á þessum lögum.

  Marianne og Keith hafa alltaf talað hlýlega um hvort annað en ekki verið í miklu sambandi eftir að upp úr sambandi hennar og Jaggers slitnaði.  Klárlega hefur Keith fengið samþykki Jaggers fyrir því að leiðrétta höfundarlaun hennar.  Mick passar alltaf vel um sín fjármál.

keith

      


Harðfisksúpa víðar en á Íslandi

  Harðfisksúpa Baldurs Garðarssonar hefur vakið verðskuldaða athygli.  Ekki síst eftir að hún sigraði með glæsibrag í hugmyndasamkeppninni Þjóðlegir réttir á okkar veg.  Atti harðfisksúpan þar kappi við 106 aðra rétti. 

  Svo skemmtilega vill til að harðfisksúpa er elduð víðar.  Heimsþekktur og margrómaður færeyskur sjávarréttakokkur,  Birgir Enni,  hefur til margra ára lagað harðfisksúpu.  Ég hef gætt mér á henni.  Hún er góð. 

birgir enni

 

súpa


Paul Watson leiðir mótmælastöðu gegn Tý

  Fyrir sléttum mánuði skýrði ég undanbragðalaust frá því að færeyska þungarokksveitin Týr væri að leggja upp í hljómleikaferð til Bandaríkja Norður-Ameríku og Kanada.  Um það má lesa með því að smella H É R

  Hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd blésu þegar í stað í herlúðra.  Af fullum þunga hófu þau öfluga herferð gegn Tý.  Skoruðu á almenning að sniðganga hljómleikana með öllu.  Markmiðið var að hljómleikunum yrði aflýst vegna dræmrar aðsóknar.  

  Ef markmiðið næðist ekki þá til vara myndu samtökin standa fyrir fjölmennri mótmælastöðu við hljómleikasalina.

  Svo skemmtilega vill til að mæting á hljómleikana hefur verið hin besta.  Sama er ekki að segja um mótmælastöðuna.  Hún er spaugilega fámenn.  Auk leiðtogans; Pauls Watsons,  er þetta 8 eða 9 manns.  Eru hljómleikarnir þó í fjölmennustu borgunum.

  Bassaleikari Týs,  Gunnar Thomsen,  ræddi í smástund við Paul fyrir utan hljómleikahöllina í San Diego.  Þeir voru ósammála.  Gunnar benti honum á að baráttan gegn hvalveiðum Færeyinga væri vonlaus og skili engum árangri.  Paul sagðist samt ætla að halda baráttunni áfram svo lengi sem hann lifi.

SS-mótmælastaðatýrGunnar Thomsen ræðir við Watson 

 


Hvað finnst þér?

  Glyvrar er 400 manna þorp á Austurey í Færeyjum.  Það tilheyrir 4000 manna sveitarfélaginu Rúnavík.  Eins og almennt í Færeyjum skipar kirkjan háan sess í tilveru íbúa Glyvrar.  Kirkjubyggingin er næstum aldargömul.  Hún er slitin og að lotum komin.  Á níunda áratugnum var púkkað upp á hana.  Það dugði ekki til.  Dagar hennar eru taldir. 

  Eftir ítarlega skoðun er niðurstaðan sú að hagkvæmasta lausn sé að byggja nýja kirkju frá grunni.  Búið er að hanna hana á teikniborði og stutt í frekari framkvæmdir.  Verra er að ekki eru allir á eitt sáttir við arkitektúrinn.  Vægt til orða tekið.  Sumum er heitt í hamsi.  Lýsa honum sem ljótustu kirkjubyggingu i heimi,  hneisu og svívirðu.

  Öðrum þykir ánægjuleg reisn yfir ferskum arkitektúrnum.  Þetta sé djörf og glæsileg hönnun.  Hún verði stolt Glyvrar.  

  Hér eru myndir af gömlu hvítu kirkjunni og nýju svörtu.  Hvað finnst þér?

gamla kirkjanGlyvra-kirkja    


Íslenskur kór og færeyska drottningin

  God of War heitir vinsæl tölvuleikjasería.  Hún hefur rakað að sér tilnefningum og verðlaunum á verðlaunahátíðum á borð við The Game Awards,  Game Critics Awards og IGN´s Best of E3 Awards.  Jafnframt slegið sölumet út um allan heim.

  Á dögunum kom út áttundi leikurinn í seríunni. Fyrri leikir fjalla um grísku goðafræðina.  Þessi gerir út á norræna goðafræði.  Sögusviðið er Miðgarður, Álfheimar, Hel, Jötunheimar,  Niflheimur,  Ásgarður,  Yggdrasil,  Bifröst o.s.frv.

  Söguhetjurnar eru feðgar og móðir drengsins.  Hún er fallin frá.  Feðgarnir leggja upp í mikið og viðburðaríkt ferðalag.  Tilefnið er að uppfylla ósk móðurinnar um það hvar eigi að dreifa öskunni af henni.

  Tónlistin í leiknum er samin af Bear McCreary.  Hann er best þekktur fyrir að vera h0fundur tónlistar í sjónvarpsseríum,  svo sem The Walking Dead og The Battlestar Galactica.  Eini flytjandinn sem hvarvetna er nafngreindur er færeyska álfadrottningin Eivör.  Hún syngur þemasöng móðurinnar og er hlaðin lofi fyrir frammistöðuna.  Meðal annarra flytjenda er ónefndur íslenskur kór. 

  Allir gagnrýnendur helstu dagblaða og netmiðla gefa útkomunni 5 stjörnur af 5 eða 10 af 10 með tveimur undantekningum.  Í öðru tilfellinu er einkunnin 9,5 af 10.  Í hinu tilfellinu er einkunnin 9,75 af 10.

  Eivör hefur átt lög og plötur í 1. sæti vinsældalista á Íslandi, í Noregi, Danmörku og Færeyjum.  Samanlögð sala á þeim bliknar í samanburði við söluna og spilun á God of War.  Þar erum við að tala um hundruð milljónir.

 


Gríðarmikill uppgangur í færeyskri ferðaþjónustu

  Lengst af aflaði sjávarútvegur um 97-99% af gjaldeyristekjum Færeyinga.  Svo bar til tíðinda að sumarið 2015 og aftur 2016 stóð 500 manna hópur hryðjuverkasamtakanna Sea Shepherd vakt í Færeyjum til að hindra marsvínadráp.  Aðgerðir þeirra voru afar klaufalegar.  Skiluðu engum árangri nema síður væri.  Varð þeim til háðungar.  

  500 manna hópur SS-liðanna klaufaðist til að auglýsa og kynna á samfélagsmiðlum út um allan heim fagra náttúru Færeyja.  Með þeim árangri að ferðamannaiðnaður tekið risakipp.  Í dag aflar ferðamannaiðnaðurinn 6,4% af gjaldeyristekjum Færeyinga.  Vöxturinn er svo brattur að gistirými anna ekki eftirspurn.  Þegar (ekki ef) þú ferð til Færeyja er nauðsynlegt að byrja á því að bóka gistingu.  Annars verða vandræði.

  Inn í dæmið spilar að samtímis hafa færeyskir tónlistarmenn náð sterkri stöðu á alþjóðamarkaði.  Mestu munar um álfadrottninguna Eivöru,  þungarokkshljómsveitina Tý,  trúbadúrana Teit,  Lenu Anderssen og Högna,  pönksveitina 200,  kántrý-kónginn Hall Jóensen,  heimstónlistarhljómsveitina (world music) Yggdrasil og marga fleiri.    

 


Hryðjuverkasamtök í herferð gegn rokkhljómsveit

  Bandarísku hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd eru Íslendingum að vondu kunn.  Kvikindin sökktu tveimur íslenskum bátum á síðustu öld.  Á undanförnum árum höfum við fylgst með klaufalegri baráttu þeirra gegn marsvínaveiðum Færeyinga 2015 og 2016.  500 SS-liðar stóðu sumarlangt sólarhringsvakt í færeyskum fjörðum.  

  Þegar Færeyingar ráku marsvínavöður upp í fjöru reyndu SS-liðar af spaugilegri vankunnáttu - og ranghugmyndum um hegðun hvala - að fæla vöðuna til baka.  Það skipti reyndar litlu máli því að færeyska lögreglan kippti þeim jafnóðum úr umferð.  Snéri þá niður, handjárnaði og flaug með þá á brott í þyrlu.  Gerðu jafnframt báta þeirra og verkfæri upptæk;  myndbandsupptökuvélar,  tölvur, ljósmyndavélar o.þ.h.  Sektuðu að auki einstaklingana um tugi þúsunda kr. svo undan sveið.  

  Brölt SS í Færeyjum misheppnaðist algjörlega.  Varð þeim til háðungar, athlægis og að fjárhagslegu stórtjóni.  Færeyingar uppskáru hinsvegar verulega góða landkynningu.  Hún skilaði sér í túristasprengju sem færeysk ferðaþjónusta var ekki búin undir.  Gistirými hafa ekki annað eftirspurn síðan.  

  Eftir hrakfarirnar hafa hnípnir SS-liðar setið á bak við stein, sleikt sárin og safnað kjarki til að leita hefnda.  Stundin er runnin upp.

  Forsagan er sú að fyrir nokkrum árum náði færeyska hljómsveitin Týr 1. sæti norður-ameríska CMJ vinsældalistans.  Hann mælir plötuspilun í öllum útvarpsstöðvum framhaldsskóla í Bandaríkjunum og Kanada.  Hérlendis er CMJ jafnan kallaður "bandaríski háskólaútvarpslistinn".  Það vakti gríðarmikla athygli langt út fyrir útvarpsstöðvarnar að færeysk þungarokkshljómsveit væri sú mest spilaða í þeim.  

  Færeyska hljómsveitin nýtur enn vinsælda í Norður-Ameríku.  Í maí heldur hún 22 hljómleika í Bandaríkjunum og Kanada.  Allt frá New York til Toronto.

  SS hafa hrint úr vör herferð í netheimum gegn hljómleikaferðinni.  Forystusauðurinn,  Paul Watson,  skilgreinir hljómsveitina Tý sem hneisu í rokkdeildinni.  Hún lofsyngi morð á hvölum.  Forsprakkinn Heri Joensen, söngvari, gítarleikari og söngvahöfundur, hafi að auki sjálfur myrt yfir 100 hvali.  

  SS hafa virkjað öll sín bestu sambönd og samfélagsmiðla gegn hljómleikaferð Týs.  "Stöðvum Tý!  Stöðvum hvaladráp!" hrópar Paul Watson og krefst sniðgöngu.  Forvitnilegt verður að fylgjast með framvindunni.  Skipta hvalveiðar norður-ameríska þungarokksunnendur miklu máli?  Kannski spurning um það hvað umræðan verður hávær og nær inn á stærstu fjölmiðla vestan hafs.  

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband