Færsluflokkur: Fjármál
18.2.2010 | 22:03
Snúið að endurheimta góss úr undanskoti frá þrotabúi
Það getur verið snúið að ná aftur eignum sem skotið hefur verið undan þrotabúi. Nema viðkomandi tilheyri aðli útrásarvillinga. Fyrir aðra er eignin í raun stolið góss. Það er varlegt að treysta öðrum fyrir stolna góssinu. Það fékk fyrrverandi frambjóðandi kristilegra stjórnmálasamtaka, sem buðu fram til alþingis fyrir nokkrum árum, að reyna fyrir tveimur árum.
Náunginn rak verslun með húsgögn frá Spáni. Reksturinn gekk brösulega og endaði með gjaldþroti. Þegar að þeim tímapunkti kom hafði kauði laumað lagernum í felur hjá trúbróðir sínum, syngjandi sjónvarpstrúboða spilandi á gítar. Skiptastjóra var vísað á tómt lagerhúsnæði og fattaði ekki að húsgagnalager upp á margar milljónir króna var falinn í Hveragerði.
Að nokkrum mánuðum liðnum hugðist húsgagnasalinn ná í lagerinn. Sá syngjandi neitaði að afhenda lagerinn, var byrjaður að selja úr honum og hinn kátasti. Taldi það vera guðs vilja og blessun að lagerinn væri í sínum höndum. Sá sem upphaflega átti lagerinn gat ekkert gert - annað en slíta vinskap við trúfélaga sinn og ofbjóða óheiðarleiki hans.
![]() |
Krafði dótturson sinn um 9 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
14.2.2010 | 13:58
Ósvífni í Vitaborgaranum
Fátt er betra í helgarþynnku en storma í Vitaborgarann í Ármúla og fá sér steikt svínaflesk (beikon) með spældum eggjum og ristuðum brauðsneiðum. Nýverið var verðið á þessum ágæta veislurétti hækkað úr 800 kalli í 900. Það er reisn yfir því. Verra er nú hefur verið tekið upp á því að afgreiða matinn með 8 beikonsneiðum í stað 12 áður. Það er hneyksli.
Að venju fylgja tvær brauðsneiðar í pakkanum. 6 beikonsneiðar smellpassa með hvorri brauðsneið. En 4 beikonsneiðar með einni brauðsneið er alveg vonlaust dæmi. Það er ekki um annað að ræða en finna annan veitingastað í snatri sem hefur metnað til að afgreiða 6 beikonsneiðar á móti hverri einni brauðsneið.
Hvar finn ég hann á höfuðborgarsvæðinu? Það er of langt að keyra í Fitjagrill í Njarðvík.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
12.2.2010 | 22:57
Ótrúleg framkoma Sophiu Hansen
Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með málaferlum Sophiu Hansen gegn Sigurði Pétri Harðarsyni. Málið teygir anga sína aftur til níunda áratugarins. Þá var Sophia gift ljúfmenninu Halim Al. Þau áttu tvær dætur. Að sögn Halims var Sophia leiðinleg við hann. Dró meðal annars Sigurð Pétur inn á heimilið. Eða eins og Halim orðaði það þá var Sigurður Pétur eins og köttur í húsi þeirra (frekar en að hann hafi bara verið eins og köttur. Man það ekki alveg).
Þetta leiddi til þess að kjarnafjölskyldan leystist upp. Halim flutti sunnar á hnöttinn. Dæturnar fóru þangað líka. Þá upphófst leiðinleg togstreita. Sigurður Pétur stóð undir nafni. Nafnið Sigurður þýðir verndari/vörður. Nafnið Pétur þýðir klettur.
Sigurður Pétur fórnaði næstu árum ævi sinnar í að styðja Sophiu í bak og fyrir. Hann fórnaði meðal annars sambandi við dætur sínar og fjölskyldu, fjármunum og öllum þeim tíma og fyrirhöfn sem hann gat í þágu Sophiu. Sendi henni meðal annars Prince Póló í ábyrgðarpósti til Tyrklands.
Sigurður Pétur stóð fyrir fjársöfnun meðal landsmanna til handa Sophiu. Hluti af söfnunarféinu fór í fataverslun sem Sophia rak en gekk illa. Annar hluti söfnunarfésins fór í tíð ferðalög Sophiu á milli Íslands og Tyrklands. Fötin í verslun Sophiu voru tyrknesk.
Þegar söfnunarfé þraut voru útbúin veðskuldabréf, skuldaviðurkenningar, viðskiptabréf og tryggingabréf upp á 42 milljónir sem voru undirrituð nafni Sophiu. Í stað þess að standa við skuldbindingar sínar kærði Sophia sinn dygga stuðningsmann, Sigurð Pétur, fyrir að hafa falsað undirskriftir hennar. Þetta gerði hún til að skuldir hennar myndu lenda óskiptar á Sigurði Pétri.
Sænskir rithandarsérfræðingar sáu glöggt að undirskriftir Sophiu eru ófalsaðar. Rithönd er nánast eins og fingraför.
Sophia kom kjánalega fyrir í réttarhöldunum. Reif kjaft og hagaði sér eins og illa uppalinn léttruglaður krakki í frekjukasti.
Nú hefur hún verið dæmd fyrir að bera rangar sakargiftir á Sigurð Pétur. Það er sérkennilegt að stinga hnífasetti í bak hans á þennan hátt eftir fórnfýsi hans og einarðan stuðning. En segir heilmikið um þá persónu sem Sophia hefur að geyma. Ég tek fram að ég þekki ekkert til neins af þessu fólki annað en það sem komið hefur fram í fjölmiðlum og fyrir dómstólum.
Halim Al, alltaf brosmildur og vinalegur Íslandsvinur. Fyrir neðan: Konan sem var ótrú og svikul í hjónabandi og einnig óþokkaleg gagnvart þeim sem ofaldi kálfinn. Þrátt fyrir að hún sé dæmd fyrir að bera rangar sakargiftir á sinn einlæga og fórnfúsa stuðningsmann er það henni refsilaust. Óskilorðsbundinn hálfs árs dómur snertir hana hvergi þar sem hún býr ljúfu lífi í Tyrklandi.
![]() |
Í skilorðsbundið fangelsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt 13.2.2010 kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)
5.2.2010 | 23:00
Veitingahússumsögn
- Staður: Shalimar, Austurstræti 4
Fjármál | Breytt 6.2.2010 kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.2.2010 | 10:30
Hvað varð um allar fréttirnar af gengisvísitölum?
Fyrir örfáum árum voru allir fréttatímar í útvarpi og sjónvarpi undirlagðir glóðvolgum fréttum af vísitölum og gengi á hinum ýmsu hlutabréfum, verðbréfum og öðru því tengdu. Aðrar fréttir voru hornreka á meðan þessar markaðsfréttir þóttu þær merkilegustu. Að sjálfsögðu gáfu dagblöðin ljósvakamiðlum hvergi eftir í fréttaflutningi af gengisvísitölum.
Almenningur var svo spenntur fyrir þessum fréttum að vinna lagðist niður í flestum fyrirtækjum á meðan í fréttatímum var þulin löng upptalning á því að gengi í FL-group, Glitni, De Code og hvað þetta heitir allt hafði hækkað eða lækkað um 0,1% frá því daginn áður eða fyrir lokun markaða. Minnisblokkir og pennar seldust eins og heitar lummur því fólk var viðþolslaust að skrifa hjá sér hverja hreyfingu á gengi hlutabréfa.
Einhverra hluta vegna eru þessar fréttir horfnar úr fréttatímum. Renningar með upplýsingum um gengi hlutabréfa sjást ekki lengur neðst á sjónvarpsskjá í fréttatímum. Í útvarpsfréttum er ekki lengur haldið úti sérstöku fréttahorni um gengisvísitölur. Hvert er farið blómið blátt? Fréttir eru ekki lengur svipur hjá sjón. Það er ekkert gaman að þeim lengur.
Hér er smá upprifjun til að ylja sér við:
Hlutabréf í deCODE genetics inc. hafa lækkað um 20% frá í gær á NASDAQ. Þetta er þvert á væntingar hluthafa. Gengi hlutabréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar hækkaði um 0,13 prósent í Kauphöllinni í dag og Marel um 0,11 prósent. Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,14 prósent í dag. Gengi hlutabréfa í Bakkavör ruku upp um 0,5 prósent í Kauphöllinni í dag. Gengi bréfa í Century Aluminum féll um 2,33 prósent í gær, gengi bréfa Færeyjabanka lækkaði um 0,83 prósent. Gamla Úrvalsvísitalan (OMXI15) stendur óbreytt frá í gær. Hækkanir voru í Asíu í nótt. Í Evrópu hefur breska FTSE-vísitalan hækkað um 0,1%, franska CAC um 0,5% og þýska Dax hlutabréfavísitalan um 1%. Í Bandaríkjunum hefur Dow Jones og Nasdaq vísitölurnar hækkað um 0.06%
.
![]() |
Netherferð til að bjarga bankamanni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.2.2010 | 00:56
Spilling og barátta gegn spillingu
Ólafur F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóri, hefur farið fremstur í flokki gegn spillingu í íslenskum stjórnmálum. Fyrir þá sem misstu af verulega áhugaverðri umræðum í borgarstjórn í dag birti ég hér fundargerð dagsins (örlítið stytta. Hlaupið yfir óþörf formlegheit):
Ár 2010, þriðjudaginn 2. febrúar, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Hermann Valsson, Þorleifur Gunnlaugsson, Dofri Hermannsson, Björk Vilhelmsdóttir, Oddný Sturludóttir, Dagur B. Eggertsson, Ólafur F. Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Sif Sigfúsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Óskar Bergsson og Marta Guðjónsdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
1. Í upphafi fundar kveður Ólafur F. Magnússon sér hljóðs og ræðir fundarsköp.
2. Lögð fram tillaga að hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska bókað:
Með samþykkt fyrstu hjólreiðaáætlunar Reykjavíkurborgar, Hjólaborgin Reykjavík, eru stigin stór græn skref í átt að umhverfisvænni borg. Markmiðið er að gera fólki kleift að ferðast um borgina á þann hátt sem það kýs. Góð aðstaða til hjólreiða á að hvetja borgarbúa til að njóta útivistar jafnframt því að sinna erindum sínum á reiðhjólum. Þúsundir Reykvíkinga hjóla nú þegar á hverjum degi enda er Reykjavík að mörgu leyti mjög hentug hjólaborg. Reykjavíkurborg hefur það nú að leiðarljósi að huga að hjólreiðum við gerð allra umferðarmannvirkja. Það er eitt af Grænu skrefunum í Reykjavík að stórauka hlutdeild hjólreiða með því að leggja fleiri og betri hjólastíga og bæta aðstöðu fyrir hjólreiðafólk. Áætlunin Hjólaborgin Reykjavík leggur drög að framkvæmdum fyrir næstu ár. Borgarstjórn samþykkti í september 2007 tillögu Árna Þórs Sigurðssonar fyrrverandi borgarfulltrúa um að vinna ætti sérstaka hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík til að gera hjólreiðar að fullgildum og viðurkenndum samgöngumáta fyrir Reykvíkinga. Hjólaborgin Reykjavík er afrakstur vinnu starfshóps meiri- og minnihluta, sem vann að áætluninni í samráði við hagsmunaaðila og fagfólk.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Tillaga um hjólreiðaáætlun í Reykjavík er í sjálfu sér hið besta mál. Um árabil hef ég barist einn á vettvangi Borgarstjórnar Reykjavíkur fyrir breyttri forgangsröðum, þar sem velferðar- og sérstaklega öryggismál eru höfð í öndvegi. Forgangsröðun fjórflokksins hefur ætíð verið önnur. Ég sit því hjá.
3. Fram fer umræða um fjárhagslega hagsmuni borgarfulltrúa.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Að minni ósk fer hér fram umræða um fjárhagslega hagsmuni borgarfulltrúa, þar með talið eignastöðu þeirra og fjárhagsleg tengsl. Eins og segir í auglýsingu borgarmálafélags F-listans í Fréttablaðinu í dag þá mun ég gera ýtarlega grein fyrir eignastöðu minni á borgarstjórnarfundi í dag og krefjast þess að aðrir borgarfulltrúar geri slíkt hið sama. Mikill fjáraustur sumra sigursælla frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins rennir stoðum undir vísbendingar um að fjárhagsleg tengsl og eignastaða þeirra gerir þá vanhæfa til að gegna trúnaðarstörfum sem kjörnir fulltrúar Reykvíkinga. Um sl. áramót var eignastaða mín með eftirfarandi hætti:
1. Fasteignin Vogaland 5 í Reykjavík, helmingseignarhluti. Fasteignamat eignarinnar skv. mati sem tók gildi 31. desember sl. var kr. 71.250.000 og er helmingshluti þess 35.625.000. Á eigninni hvíla tvö lán, frá Lífeyrissjóði lækna annars vegar og frá Spron, síðar Kaupþing og Arionbanki hins vegar. Upphafleg staða lánanna við kaup á húsinu var kr. 3.800.000 en er nú um kr. 1.000.000 og verða lánin fullgreidd á þessu ári.
2. Bifreiðin KEK 56 sem er af gerðinni Toyota Rav 4, árgerð 2007. Kaupverð í nóvember 2007 var um kr. 3.300.000.
3. Launareikningur minn hjá Arionbanka nr. 554482 vegna borgarfulltrúastarfsins. inneign um sl áramót var kr. 583.000.
4. Viðskipta- og launareikningurinn hjá Arionbanka nr. 004482 vegna læknisstarfsins. Staða reikningsins um sl. áramót var kr. 277.000 að teknu tilliti til yfirdráttarheimildar, sem er kr. 1.500.000, þannig að raunstaða reikningsins var neikvæð um rösklega kr. 1.200.000.
Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að frambjóðendum til borgarstjórnar í vor ásamt sitjandi borgarfulltrúum sé gert skylt að gera grein fyrir eignastöðu sinni, bæði fasteignum, bifreiðaeign og bankainnistæðum.
Samþykkt með samhljóða atkvæðum að taka tillöguna á dagskrá.
Tillögu Ólafs F. Magnússonar er vísað til forsætisnefndar með 15 samhljóða atkvæðum.
Að beiðni Ólafs F. Magnússonar ákveður forseti að fresta umræðu skv. 3. lið útsendrar dagskrár þar til í lok fundar og umræðu skv. 4. lið til næsta fundir.
4. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 22. og 28. janúar.
5. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 29. janúar, framkvæmda- og eignaráðs frá 25. janúar.
6. Fram fer umræða um ráðstöfun styrkja til stjórnmálasamtaka og upplýsingaskyldu þar um.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Árið 2007 lét fjórflokkurinn í Borgarstjórn Reykjavíkur hækka framlög til sín frá borginni úr kr. 13.900.000 í kr. 32.750.000 eða um 130% eða 2,3 földun. Á tímabilinu 2006-2010 ætlar fjórflokkurinn sér 90% af áætluðum framlögum borgarinnar til stjórnmálasamtaka, sem eru 90% af kr. 143.000.00 eða kr. 129.000.000. F-listinn í borgarstjórn hefur þegar lagt fram reikninga sína í borgarráði vegna einu greiðslunnar sem hann hefur fengið á kjörtímabilinu um kr. 3.400.000. Farið er fram á að önnur framboð taki borgarstjórnarflokk F-listans til fyrirmyndar á þessu sviði sem öðrum. F-listinn vill að framlög sem honum voru ætluð vegna árann 2009 og 2010 renni til líknar- og velferðarmála og skorar á hin framboðin að gera slíkt hið sama.
Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að öllum borgarstjórnarframboðum sé gert skylt að gera grein fyrir því hvernig framlögum borgarinnar til þeirra hefur verið varið á þessu kjörtímabili, nánar tiltekið framlög borgarinnar árin 2006-2009.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka tillöguna á dagskrá.
Borgarfulltrúar Vinstri grænna óska bókað:
Borgarfulltrúar VG lögðu það til við gerð fjárhagsáætlunar í desember að styrkir Reykjavíkurborgar til stjórnmálaflokka yrði lækkaðir um helming en þeir nema nú tæplega 30 milljónum. Tillagan er til afgreiðslu í forsætisnefnd. Fram hefur komið að greiðsla Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka hækkaði úr 13,9 milljónum króna árið 2006 í 32,75 milljónir árið 2007. Undanfari þessarar hækkunar var að árið 2006 var ákveðið að ýmis kostnaður sem áður féll á sveitarfélög við alþingis- og forsetakosningar skyldi framvegis greiddur af ríkissjóði en vafasamt er að réttlæta það að þessar breytingar leiddu af sér færslu fjármuna til stjórnmálaflokka í Reykjavík. Það hefur einnig komið fram að framlög Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka eru meira en helmingi hærri en framlög annarra sveitarfélaga, svo sem Kópavogs, Akureyrar og Garðabæjar ef miðað er við höfðatölu. Það er hinsvegar ljóst að Reykjavíkurborg er skylt skv. lögum að veita þeim stjórnmálasamtökum, sem uppfylla skilyrði ákvæðisins, fjárframlög til starfsemi sinnar, og skal heildarfjárhæðinni skipti milli þeirra í hlutfalli við atkvæðamagn í næstliðnum borgarstjórnarkosningum en í lögum er ekki getið um upphæð framlagsins. Færa má rök fyrir því að borgarstjórnaflokkar, sérstaklega þeir sem eru í minnihluta, þurfi á fjárframlögum að halda til þess að sækja sérfræðiaðstoð en sú mikla hækkun sem orðið hefur á framlögum undanfarin ár er langt umfram þá þörf. Lækkun framlaga til stjórnmálaflokka svarar kalli tímans þegar mikill niðurskurður kallar á forgangsröðun í þágu velferðarmála. Skerðing á fjármagni til stjórnmálaflokka, hvort sem það er frá einkafyrirtækjum eða opinberum aðilum, færir þá nær þeim tíma þegar starfsemin var fyrst og fremst byggð á félögunum í flokkunum sjálfum.
Tillögu Ólafs F. Magnússonar er vísað til forsætisnefndar með 15 samhljóða atkvæðum.
![]() |
Vísar ásökunum um lygar á bug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
31.1.2010 | 21:26
Hver á hvað og hvað er hvurs?
Eftir því sem meira kemur fram í dagsljósið um útrásarvillingana og íslenska efnahagsviðundrið fjölgar spurningamerkjunum. Það er eins og allt hafi verið meira og minna í tómu rugli. Orð eins og misskilningur, mistök, sýndarviðskipti, "ég vissi ekki að þetta væri ólöglegt", "ég skrifaði bara undir en vissi ekki hvað stóð í skjalinu", "ég veit ekkert um þetta. Spurðu einhvern annan" og annað eftir því einkenna útskýringar þeirra sem fremstir fóru.
Allt er svo flókið og fljótandi að maður verður ringlaður af að reyna að átta sig á hver seldi hverjum hvað, hver átti hlut í hvaða fyrirtæki, hvaða fyrirtæki áttu hlut í sjálfum sér og öðrum fyrirtækjum sem síðan áttu hlut hvert í öðru, hver hefur yfirfært eignir yfir á maka og ættingja, hver á hvað og hvað er hvurs...
Örlítið dæmi sem vegur létt í heildarmyndinni snýr að málverkum er voru í eigu Skeljungs en enduðu uppi á vegg hjá Pálma Haraldssyni, kenndum við Fons. Þessi málverk höfðu áratugum saman glatt augu starfsfólks Skeljungs og viðskiptavina. Einn góðan veðurdag voru þau horfin. Pálmi fjarlægði þau að næturlagi. Þau voru skráð úr og í önnur fyrirtæki tengd Pálma.
Nú hefur komið í ljós að við fyrstu eignarfærslu úr eigu Skeljungs voru málverkin skráð á verulegu undirverði. Uppgefin skýring á því er þessi: Sá sem verðmat verkin fékk - fyrir mistök - í hendur að hluta til önnur málverk en þau sem átti að verðmeta. Þegar Pálmi greiddi fyrir verkin var allt í rugli. Vegna misskilnings keypti hann meðal annars nokkur ódýr málverk sem hann þegar átti. Önnur og dýrari málverk greiddi hann ekki fyrir vegna þess að hann vissi ekki að hann væri að eignast þau. Hann bara átti þau allt í einu án þess að hafa hugmynd um að hann hafði ekki borgað fyrir þau. Jafnframt eignaðist hann nokkur málverk sem hann þegar átti en vissi ekki að hann hafði átt. Eftir stendur að hann á í dag gott og verðmætt málverkasafn. Það hefur gengið kaupum og sölum á milli fyrirtækja Pálma án þess að færast til á veggjum hans. Pálmi er listunnandi. Safnar hvorki einkaþotum, þyrlum, lúxussnekkjum né lúxusbílum. En kann vel að meta góð málverk. Það er virðingarvert. Ég er alltaf á leiðinni að fara að dusta rykið af penslunum mínum. Þegar af því verður er gott að vita af mönnum eins og Pálma í Fons.
Málverkið af Mónu Lísu var upphaflega passamynd fyrir ökuskírteini. Núna er þetta eitt frægasta málverk heims. Pínulítil mynd.
.
![]() |
Nýr bavíani nær langt í viðskiptum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt 1.2.2010 kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.1.2010 | 11:42
Kolbrenglaðar mælingar á útvarpshlustun
Mér hefur borist til eyrna að á morgun muni Samkeppniseftirlitið halda fund. Helsta fundarefni verður hvernig Capacent Gallup stendur að mælingu á hlustun á útvarpsstöðvar og gón á sjónvarp. Vandamálið er að núna eru þessar mælingar rafrænar. Þrír aðilar eiga rafrænu græjurnar. Það eru RÚV, 365 miðlar og Skjár 1.
Útvarps- og sjónvarpsstöðvar í eigu annarra geta verið með. En það kostar 4 milljónir fyrir hverja þeirra. Útvarp Saga, Kaninn, Flash, Lindin, alkastöðin og hvað hún heitir útvarpsstöðin á Selfossi hafa ekki fjárhagslegt svigrúm né vilja til að afhenda keppinautunum 4 milljónir. Áreiðanlega er sama staða uppi hjá ÍNN, Omega og N4.
Fyrir bragðið mælir Capacent Gallup ekki gón á litlu sjónvarpsstöðvarnar eða hlustun á fjölda útvarpsstöðva. Þar með er niðurstaða hlustunar á útvarpsstöðvar skökk. Auglýsingastofur og aðrir stórir auglýsendur sitja uppi með villandi upplýsingar þegar verið er að reikna út snertiverð auglýsinga í útvarpi. Þessum aðilum vantar inn í reikningsgögnin rétta mynd af útvarpshlustun landsmanna.
Skortur á heildarmyndinni veldur því að auglýsendur sniðganga útvarpsstöðvar sem hvergi er minnst á í gögnum Capacent Gallup. Þetta þýðir að RÚV og 365 miðlar halda keppinautunum úti í kuldanum. Beita fjárhagslegu svigrúmi sínu til þess að halda keppinautunum frá auglýsingamarkaðnum.
Samkeppniseftirlitið hlýtur að taka þetta föstum tökum.
.
.
![]() |
Samruni sendur aftur til Samkeppniseftirlitsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
19.1.2010 | 12:48
Hanna Birna tekur "Árna Johnsen" á þetta
Fyrir nokkrum árum spurði fréttamaður RÚV háttvirtan alþingismann, Árna Johnsen, um kantsteina sem Þjóðleikhúsið hafði greitt fyrir en ekki skilað sér þangað. Árni sagði steinana vera á brettum úti í bæ. Þegar fastar var gengið á Árna viðurkenndi hann hægt og bítandi að steinarnir væru niðurkomnir í kartöflugörðunum heima hjá honum sjálfum. Fréttamaðurinn sakaði Árna um að hafa skrökvað að sér í upphafi viðtalsins. Þá hrökk þetta gullkorn upp úr Árna:
"Ég sagði ekki beinlínis ósatt heldur sagði ég ekki allan sannleikann."
Hanna Birna, nýjasti borgarstjóri Reykjavíkur, viðhefur sömu vinnubrögð. Fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, Ólafur F. Magnússon, óskaði eftir upplýsingum um utanlandsflandur Hönnu Birnu á kostnað borgarbúa. Hanna Birna lagði fram upplýsingar um 6 ferðir upp á 800 þúsund króna heildarkostnað.
Ólafur taldi sig þekkja vinnubrögð Hönnu Birnu og hafði grun um að hún væri ekki að segja allan sannleikann. Hún hefði farið í fleiri utanlandsferðir. Nú hefur Ólafi tekist að grafa upp eina af þeim ferðum. Það var ferð sem Hanna Birna fór til Feneyja. Sú ferð kostaði borgarbúa 340 þúsund.
Til gamans má geta að í borgarstjóratíð sinni fór Ólafur F. aðeins í eina utanlandsferð. Það var ódýr boðsferð til Færeyja.
Á borgarstjórnarfundi kl. 14 í dag flytur Ólafur F. vantraust á Hönnu Birnu. Fundinum verður útvarpað á fm 98,3 og á www.reykjavik.is. Sjá ennfremur heilsíðuauglýsingu á bls. 7 í Fréttablaðinu í dag.
Á ljósmyndinni efst er Hanna Birna þessi til hægri. Hin manneskjan heitir Óskar Bergsson. Sá fékk háðuglega útreið í prófkjöri framsóknarmanna á dögunum. Var hafnað svo glæsilega að lengi verður í minnum haft.
Næsta víst er að fundurinn verði fjörlegur og í anda myndbandsins sem þessi færsla er tengd við.
![]() |
Slagsmálaþing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.1.2010 | 15:21
Frétt vikunnar
Nýverið tók hver stórmarkaðurinn á fætur öðrum upp á því að hækka verð á innkaupapokum úr 15 krónum í 20. Í Morgunblaðinu var þetta afgreitt sem stórfrétt. Enda um verulega mikla verðhækkun að ræða í % talið. Það er góð fréttamennska að "fókusera" frá hinu almenna yfir á tiltekið dæmi. Vond fréttamennska er þegar sagt er frá því að 13 íssalar í Reykjavík hafi orðið uppvísir af því að selja óhreinan (gerlamengaðan) ís án þess að fram komi neitt um það hvaða íssalar eru sekir og hverjir saklausir..
![]() |
Fjármálakreppa yfirvofandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)