Óvenju hefðbundin, viðurkennd og yfirveguð handtaka

  Íslenskir lögregluþjónar,  þjónar fólksins,  hafa lært og tileinkað sér háþróaða aðferð norskra stéttarbræðra við að handtaka ósjálfbjarga, hálf rænulausa og áttavillta ofur ölvi konu.  Þetta er gríðarlega vandasamt verk.  Kona í þannig ásigkomulagi getur verið lögregluþjónum stórhættuleg.  Til að mynda gæti hún fyrirvaralaust lognast út af.  Við það er hætta á að hún örmagnist utan í lögreglubíl.  Konan gæti gubbað.  Þá er lögreglubíllinn í ennþá meiri hættu.  Það gæti slest á hann.  

  Hefðbundin og viðurkennd staða sem íslenskir lögregluþjónar standa frammi fyrir og hafa lært af norsku lögreglunni er; að á vegi þeirra verði ósjálfbjarga og ringluð kona.  Á miðjum vegi þeirra.  Þar liggur hún í götunni fyrir utan heimili sitt.  Nauðsynlegt er í þessari stöðu að lögregluþjónarnir séu þrír og fílefldir í öruggu vari í stórum löggubíl.  Þannig geta þeir af yfirvegun metið þá gríðarlegu hættu sem þeim stafar af konunni.  

  Þegar konan bröltir ringluð á fætur og skjögrar til hliðar - svo að bíllinn komist framhjá (á göngugötu, vel að merkja) - þá er brýnt,  viðurkennt og hefðbundið að bruna af stað á bílnum.  Trixið er að hættulega konan sé ekki búin að víkja meira en svo að spegillinn á löggubílnum skelli á andliti hennar.  Sú aðferð kallast "klappe kvinnen på kinnet" (að klappa konunni á kinn).

  Þessu er fylgt eftir með "nå kvinnen med dören".  Það er óvenju hefðbundin og viðurkennd norsk aðferð.  Hún felst í því að hurðinni er hrint upp og skellt framan á ringluðu konuna.  Við það verður konan ennþá ringlaðri.  Þá er lag að endurtaka hurðartrixið.  Skella hurðinni aftur á konuna.  Þá er hún orðin þrefalt ringlaðri.

  Þegar hér er komið sögu tekur við hættulegasti kaflinn fyrir lögregluþjónana þrjá.  Þeir verða að telja í sig kjark og yfirgefa öryggið inni í bílnum.  Þeir verða að sýna sitt allra mesta snarræði.  Sá sem er næstur konunni þarf að stökkva á hana,  kippa í handlegg á henni og fella hana hratt og kröftuglega á bakið á járnhandrið.  Járnhandriðið þolir þetta.  Er eins og nýtt.  En konan dasast og nær ekki andanum.  Í sveiflunni snýst konan á magann í götuna.  Lögregluþjónninn má hvergi gefa eftir.  Hann verður að draga konuna á maganum um það bil tvo metra.  Nákvæm hefðbundin og viðurkennd norsk vegalengd er 1.95 metrar.  Það mega vera skekkjumörk upp á 8 cm + -.  Ef drátturinn er innan skekkjumarka er skráð í lögregluskýrslu "að meðalhófs hafi verið gætt við handtökuna".

  Næst rífur lögreglumaðurinn hendur vankaðrar konunnar aftur fyrir bak.  Hún er handjárnuð með 90 kg lögregluþjón sitjandi ofan á baki hennar og hálsi.  Annar lögreglumaður hleypur undir bagga.  Það er rosalega mikil hætta af konunni og allt getur gerst.  Þriðji lögreglumaðurinn verður að standa yfir þeim,  tilbúinn til alls ef ringlaða konan rankar við sér og fer að beita grófu ofbeldi.   

  Hættan er hvergi liðin hjá.  Þessu næst þarf að henda konunni eins og hveitipoka inn í skott á löggubíl.  Þar sem hún er handjárnuð með hendur fyrir aftan bak skellur hún með andlitið í gólfið.  Á eftir henni og ofan á hana henda sér tveir lögregluþjónar.  Sá þriðji stendur vaktina tilbúinn að grípa inn í.

  Hefðbundnari,  viðurkenndari og yfirvegaðri getur handtaka á ósjálfbjarga ringlaðri konu ekki verið.  Formaður Landssambands lögreglumanna vottar það.  Hann viðurkennir undanbragðalaust að þessi óvenju hefðbundna aðferð líti ALDREI vel út á myndbandi.  Aldrei.  Þess vegna var óheppilegt að svona hefðbundin og viðurkennd handtaka á blindfullri konu rataði á myndband. 

  Hinsvegar lítur handtakan glæsilega út í lögregluskýrslu um þá skelfilegu ógn sem að lögregluþjónum steðjaði.  Ásamt því hvernig þeim tókst að afstýra yfirgripsmiklu hættuástandi fyrir land og þjóð með óvenju hefðbundinni, viðurkenndri og yfirvegaðri handtöku á ósjálfbjarga ringlaðri konu.   

 

  


mbl.is Beitti viðurkenndri handtökuaðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Auðvelt fyir þig að sitja við tölvuna og seigja mönnum hvernig best er að gera hlutina.. vissiru að maðurinn er komin með sýkingu eftir þessa belju? Fékk hrákan úr kellinguni í augað. það sem á að gera er að ákæra þessa konu núna formlega fyrir árás á lögreglumann.

gummi (IP-tala skráð) 9.7.2013 kl. 20:04

2 Smámynd: Guðmundur Pétursson

Sammála Gumma. Kerlingin gat sjálfri sér um kennt.

Guðmundur Pétursson, 9.7.2013 kl. 20:10

3 Smámynd: Már Elíson

Hver segir að hann sé kominn með sýkingu ? - Lögreglan, sem hyglir sínum ? - Það fær enginn sýkingu á augabragði við smá-fruss sem hittir illa í meters fjarlægð, kjáninn þinn.

Hættu svo að kóa með þessum hrottum og hugsaðu um öll videóin sem EKKI eru til af þessum hrottum.

Eiina verst þótti mér að sjá að "lögreglu"kona var í hrotta-hópnum og hafðist ekki að.

Það hefði mátt róa þessa máttlausu, dauðadrukknu konu, setjast með henni á umræddan bekk og fara yfir málin. Jens lýsir þessu á frábæran hátt og ég kipptist til þegar bakið á konunni fór á stálhandriðið á bekknum. Svo er þetta þekktur (innan lögreglunnar) fantur og fúlmenni, siðblindur hrotti sem er búinn að fá aðvörun áður. Hvernig ætlar gummi, aumingja gummi, að svara því ?

Már Elíson, 9.7.2013 kl. 20:14

4 identicon

Þetta var virkilega flott handtaka. Það eina sem að vantaði var rafbyssan og smá skvettu af piparúða.

Grrr (IP-tala skráð) 9.7.2013 kl. 20:17

5 identicon

goður  Jens

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 9.7.2013 kl. 20:30

6 Smámynd: Jens Guð

  Gummi,  ég hef EKKI sagt þessum mönnum hvernig best er að gera hlutina.  Þvert á móti tek ég ítrekað fram að þessi vinnubrögð þeirra séu ótrúlega hefðbundin og viðurkennd.  Það er nákvæmlega svona sem á að handtaka blindfulla konu.  Meira að segja formlaður Landssambands lögreglumanna hefur staðfest það.

  Lögregluþjónninn sem stóð sig best er ekki bara sýktur í auga eftir að konan hóstaði á hann.  Það er alveg gríðarlega mikið meira að.  Ég veit ekki hvar á að byrja upptalninguna.

  Góðu fréttirnar eru þær að það amar ekkert að konunni.  Sér varla á henni ef undan er skilið að hún er marin, blá, bólgin og allt þetta venjubundna smáræði sem fylgir því að vera handtekin á viðurkenndan og hefðbundinn mát.  Svo er hún í taugaáfalli,  bara eins og gengur eftir svona ævintýri.  

  Auðvitað á að kæra hana fyrir að hafa sett þrjá lögregluþjóna í svo hættulega stöðu að þeir urðu viti sínu fjær af skelfingu.  Voru nauðabeygðir til að beita viðurkenndri og hefðbundinni aðferð við handtöku.  Það hressir kellu að vera lögsótt.    

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 21:02

7 Smámynd: Jens Guð

  Guðmundur,  algjörlega.  Ef hún hefði ekki mætt hefbundinni og viðurkenndri aðferð við handtöku á þessum tímapunkti er næsta víst að hún væri búin að fremja hryðjuverk í dag gegn íslensku þjóðinni og byrjuð að ofsækja nágrannaþjóðir.  Svo hættuleg er hún.  Greinilega. 

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 21:05

8 identicon

Það var ekkert að þessu hjá lögreglunni eftir að maður sá þetta umtalaða mynband. Það hefði hvergi verið gert á jafn vægan hátt nema kannski í Færeyjum Jens minn? Sendu skjáskotið á færeysku lögguna og kannaðu viðbrögðin. :-)

Baldur (IP-tala skráð) 9.7.2013 kl. 21:07

9 Smámynd: Már Elíson

Og ef þetta eru "viðurkennd vinnubrögð"...er þá bekkurinn alltaf með ?

Ég er nú hræddur um einhverjir af þessum hálf-heilum hér fyrir ofan segðu eitthvað ef dóttir þeirra (eða villuráfandi konan þeirra) hefði lent í þessum hrotta / hrottum.

Meiri ömurðin að sjá þessi "comment" hérna fyrir ofan.

Að "halda með" þessum hrottum, er mér óskiljanlegt og sýnir hugsanlega tillitsemi þessara bloogara heima hjá sér, svei mér þá,.

Már Elíson, 9.7.2013 kl. 21:14

10 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég hefði ekki þorað í þessa konu með eða án bekks.

Björn Heiðdal, 9.7.2013 kl. 21:31

11 Smámynd: Jens Guð

  Már,  vissulega hefði mátt róa konuna með vingjarnlegri framkomu.  Setjast með henni á bekkinn,  bjóða henni far.  Það er bara ekkert fútt í svoleiðis.  Það er óhefðbundin og ekki viðurkennd aðferð.

  Fyrir margt löngu vann ég við Bindindismótin í Galtalæk.  Þar var ströng gæsla í hliði.  Gestir voru teknir í yfirheyrslu,  það var leitað hátt og lágt að áfengi í bílum og svo framvegis.  Margir reyndu að smygla áfengi inn á svæðið.  Það var reyndar spaugilegt að maður var fljótur að átta sig á tilteknum töktum hjá þeim sem stóðu í tilraun til smygls.  Það er önnur saga.

  Eitt árið sótti ungur maður um að vera í gæslu við hliðið.  Hann hafði verið í námi í norskum lögregluskóla.  Fyrsta kvöldið (fimmtudag),  einmitt þegar allt er rólegast og aðallega fjölskyldufólk að koma sér fyrir,  var gæslumaðurinn tvívegis kominn í áflog við bílstjóra.  Eða réttara sagt þá réðist hann á þá, kippti þeim með haustaki út úr bílnum og læsti þá með fangabragði.  Gæslumaðurinn sakaði bílstjórana um að hafa rifið kjaft og logið.

  Það hafði aldrei áður gerst í sögu Bindindismótsins að slegist væri við gesti í hliðinu.  Gæslumaðurinn ákafi var leystur frá störfum eftir seinna skiptið.

  Næst gerðist það að frændi mannsins útvegaði honum vinnu hjá Tollpóststofunni.  Daginn sem hann mætti til vinnu þar hringdi yfirmaður Tollpóstsstofunnar í frændann.  Sagðist ekkert lítast á nýja starfsmanninn.  Sá hefði mætt með handjárn dinglandi með síðunni og löggukylfu.  Greinilega vel búinn undir átök.  Yfirmaður Tollpóstsstofunnar tilkynnti frændanum að hann hefði sent manninn heim.  

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 21:38

12 Smámynd: Jens Guð

  Grrr,  svo sannarlega hefði stuðbyssan komið sér vel í þessu bráðatilfelli ógnvænlegrar hættu af ringlaðri konu.  Já, og gusa úr piparúða.  

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 21:47

13 Smámynd: Jens Guð

  Helgi,  takk fyrir það. 

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 21:47

14 identicon

http://grooveshark.com/#!/s/L+g+Og+Regla/2N3ge4?src=5

Ekki benda á mig (IP-tala skráð) 9.7.2013 kl. 21:49

15 Smámynd: Jens Guð

  Baldur,  þarna mátti ekki tæpara standa.  Ég hef ekki reynslu af lögregluþjónum í öðrum löndum.  Ég þarf að benda færeysku löggunni á þessa viðurkenndu hefðbundnu aðferð norsku og íslensku lögreglunnar á að handtaka fulla og ringlaða konu.  Það gæti komið færeysku löggunni vel að vita af þessu.  Vandamálið er að ég hef aldrei séð blindfulla konu í Færeyjum.  Hef ég þó verið kannski 30 eða 40 sinnum í Færeyjum.  Þar á meðal verið oft á fjölmennum skemmtunum á borð við Ólafsvöku (20 þúsund manns) og G!Festival (7500 manns).  Einhverra hluta vegna bara ber ekkert til tíðinda varðandi ölvað fólk.  Og engin vandræði með eitt né neitt.    

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 21:56

16 Smámynd: Jens Guð

  Már (#9),  bekkurinn er ekki alltaf til staðar.  En þegar um svona bráðatilfelli er að ræða og gríðarleg hætta á ferð má brúka það sem hendi er næst:  Bekkur,  handrið,  lágreistur veggur...

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 21:59

17 Smámynd: Jens Guð

  Björn,  ég hefði ekki heldur þorað í konuna.  Löggurnar,  eins vel þjálfaðar og þær eru,  þorðu varla heldur.  En það var upp á líf og dauða að tefla og allt lagt undir.  Það bjargaði því sem bjargað varð að löggurnar voru þjálfaðar í hefðbundinni handtöku á ringlaðri konu.  Handtöku að norskri fyrirmynd í kringumstæðum sem ógnuðu þjóðaröryggi. 

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 22:03

18 identicon

nu verdur tad gert ologlegt ad minda logreglu vid storf .ekki spirja ut af kverju

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 9.7.2013 kl. 22:34

19 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð lýsing, það sem er hrollvekjandi í þessu dæmi eru svona apar eins og hér að framan sem verja þetta ofbeldi.  Ég er yfirmig hneyksluð og vona að þessi norsklærða lögga fái reisupassann og fái aldrei aftir að tilheyra lögreglunni.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.7.2013 kl. 22:56

20 Smámynd: Jens Guð

  Helgi,  það er eiginlega bannað að mynda lögregluþjóna,  þjóna fólksins,  beita hefðbundinni og viðurkenndri norskri aðferð við að handtaka hálf rænulausa konu.  Myndband af því lítur aldrei vel út.  Aðeins skýrslur um framvindu máls líta vel út. 

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 23:01

21 identicon

Sýking getur komið á örfáum mínútum herra Már Elísson,og ef þú hefðir kynnt þér málið betur að þá er búið að koma fram í fjölmiðlum að lögreglumaðurinn fór uppá slysó til að fá við sýkingunni,er hann var komin með. Ef þú ert sá rétti Már Elísson sem ég held að þá getur verið að þú þekkir til hvernig lögreglan á Spáni tæki á svona máli.?Már þú ert nokkuð reiður virðist gagnvart lögreglunni,hefir hún ekki verið þér hliðholl.?

Númi (IP-tala skráð) 9.7.2013 kl. 23:07

22 identicon

Þetta var það sem að hún kallaði yfir sig, vanvirðing gagnvart opinberum starfsmönnum, truflar þá í starfi og er með 'derring' og hrækir framan í starfsmanninn.
Fullkomnlega réttlætanleg, harkaleg handataka, sem ætti að kenna hálf heilunum að hugsa sig um áður en þeir fara að 'bögga' löggusvínin í sínu illa launaða, vanþakkláta starfi.

lrrr (IP-tala skráð) 9.7.2013 kl. 23:08

23 identicon

Jens,síðuskrifari,breyttu um sígarettutegund eða hættu að fá þér svona í tána,meiri steypan sem kemur frá þér,lestu þig betur til áður en þú fullyrðir,Ps:Jú harkaleg var handtakan,en það er ekki öfundsvert starf að vera lögreglumaður í dag,áreiti gagnvart þeim er gífurlegt.

n (IP-tala skráð) 9.7.2013 kl. 23:10

24 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  það er rífandi stemmning fyrir því að lögreglumaðurinn verði heiðraður formlega fyrir að beita svona óvenju hefðbundinni og viðurkenndri aðferð við að handjárna ringlaða fulla konu.  Umbunin er að fella úr gildi aðfinnslur við að hann hefur í tvígang hlutast til um ölvunarakstur kærustu sinnar.  Hann er umhyggjusamur og fyrirgefandi í þannig tilfellum.  Það er til eftirbreytni. 

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 23:14

25 Smámynd: Jens Guð

  Helgi,  það er brýnt.  Myndband af risamikilli hefðbundinni handtöku á blindfullri konu lítur ekki vel út.  Það er að segja fyrir leikmenn.  En fagmennskan virkar vel á pappír. 

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 23:17

26 Smámynd: Már Elíson

Ágæti Númi (hver sem þú ert hinsvegar) - Ég þekki ekkert til lögreglunnar á Spáni frekar en í öðrum löndum. Lögreglan, yfirleitt allstaðar í þeim löndum sem ég hef ferðast (nema USA) er fólki hliðholl og hef ég ekkert þurft að díla neitt sérstaklega við hana frekar en þú...eða hvað ?. Lögreglan í hinum siðmenntaða heimi myndi í svona tilfelli taka öðruvísi á þessu / svona máli nema hér á Íslandi þar sem agaleysi nær til lögreglunnar í miklu meira mæli en almennt gerist.

En...Þessi meinta sýking sem þú lepur upp eftir einhverjum vænissjúkum persónum hér í bloggheimum, er rakið kjaftæði og engan vegin möguleiki í þessari stöðu. Þetta er bara vælubíll örrfárra handbenda hrottans sem hafa komið þessu á kreik til að "vernda" orðspor hans. - Þú veist þetta inns inni sjálfur og þarft ekki að vera með svona bull, ágæti Númi.

Már Elíson, 9.7.2013 kl. 23:19

27 Smámynd: Jens Guð

  N,  þetta er súkkulaði sígaretta.  Ég fellst á að það sé ekki öfundsvert starf að vera þjónn fólksins,  lögregluþjónn.  Samt er stundum fjör og gaman.  Alveg assgoti mikið fjör og mikið gaman. 

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 23:23

28 Smámynd: Jens Guð

  Númi,  sýking er aldrei góð.  Ég mæli ekki með henni. 

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 23:26

29 Smámynd: Jens Guð

 Irr, það er ljótt að uppnefna löggur svín.  Jafnvel þó að George Harrison og Bítlarnir hafi gert það:    http://www.youtube.com/watch?v=sXdKlpBOvs0

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 23:30

30 Smámynd: Jens Guð

  Már (#26),  Númi veit þetta alveg.  Hann er að vinna úr þessum upplýsingum.  Það er ekkert áhlaupaverk. 

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 23:34

31 Smámynd: Jens Guð

  Ekki benda á mig,  takk fyrir ábendingu. 

Jens Guð, 9.7.2013 kl. 23:36

32 Smámynd: Már Elíson

Góður, Jens - Þetta er frábært blogg hjá þér. - Þegar líða fór á athugasemdirnar, þá sá maður að menn skildu ekki (og sumir ekki enn) hvert þú varst að fara, og það gerir bloggið þitt lifandi og skemmtilegt.

Keep on, gamli, og prufaðu mynd af þér með pípu ! - Það virðist margir taki jafnvel betur eftir myndinni af þér en að setja gáfulegar athugasemdir. - En það er líka partur af þessu öllu saman, er það ekki ?

Már Elíson, 9.7.2013 kl. 23:41

33 identicon

Már,(trommuleikari,?) lestu fjölmiðla,en þar er sagt frá sýkingunni,ég er ekki að''lepja''eftir neinum ,stóð í fjölmiðlum.Róa sig svo,þú ágæti Már.

Númi (IP-tala skráð) 10.7.2013 kl. 00:02

34 identicon

hehehe dásamleg lýsing á atvikinu ;) þú ert snillingur kemst alltaf i gott skap við háðskann humorinn ;)

sæunn guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 10.7.2013 kl. 00:23

35 identicon

Maður bíður skjálfandi á beinum og með öndina í hálsinum eftir að fá frekari fréttir af skelfilegum augnskaða þessa ljúfa lögregluþjóns. Vonandi kemst hann til heilsu á ný, enda megum við ekki við því að missa svona menn úr lögreglunni sem vinna hetjudáðir eins og þá sem hann gerði þarna. Manninn ætti auðvitað að sæma heiðursorðu fyrir fádæma hugrekki og skjóta hugsun og fyrir að loka ekki augunum þegar á hann var ráðist. Án hans hefði konan vafalaust orðið mörgum fleirum að fjörtjóni með munnvatninu.

Bergur (IP-tala skráð) 10.7.2013 kl. 05:54

36 identicon

Að brjóta tvær greinar Lögreglusamþykktar Reykjavíkur er nóg til að vera handtekinn, ég býst við að það dygði í Færeyjum líka.

sing (IP-tala skráð) 10.7.2013 kl. 06:56

37 Smámynd: Már Elíson

Nema, kæri sing-sing...Löggumann í Færeyjum hefði ekki verið svo heimskur að horfa á hendina á sér (þar sem frussið frá stúlkukindinni lenti) áður en hann fór inn í bílinn...og lagaði spegilinn sem hafði aflagast þegar hann (í annað sinn) reynda að taka hana með hurðinni. Þeir myndu hugsanlega tala við fólk, enda mannlífið gott í Færeyjum. - En ekki íslenskur, margfaldur hrotti. Þeir eru bara svona heimskir.

Már Elíson, 10.7.2013 kl. 07:50

38 Smámynd: Óskar

Hræktu framan í lögreglumann í Usa, nú eða bara nánast hvar sem er og kannaðu viðbrögðin!  Hef bara nákvæmlega enga samúð með þessari konu sem hagaði sér eins og fífl.  Henni var marggefinn séns á að koma sér í burtu , lét sér ekki segjast og endaði á að hrækja á lögreglumanninn.  Við hverju býst fólk eiginlega sem  hagar sér svona?

Óskar, 10.7.2013 kl. 07:50

39 identicon

Vissulega var dauðadrukkin konan ekki til nokkurar fyrirmyndar þarna og vonandi er hún ekki hrækjandi framan í fólk dags daglega.  Hún hefur hins vegar fullan rétt til þess að kæra viðkomandi lögreglumann fyrir að hafa slasað sig með því að henda henni utan í þennan forljóta bekk sem Jón Gnarr er búinn að koma fyrir þarna í óþökk lögreglunnar miðað við orð Snorra Magnússonar formanns Landssambands lögreglumanna. Það er þá væntanlega lögreglunnar að kæra borgarstjóra fyrir að drita forljótum og stórhættulegum bekkjum út um götur miðbæjarins svo að lögreglan getur varla handleikið fólk á ,, norskan máta " án þess að það slengist utan í þessa bekki og hljóti skaða af.  Norska lögreglu-aðferðin gerir væntanlega ráð fyrir meira svigrúmi, enda er allt stærra í Noregi og lögreglan þar klárlega á fjórföldum launum íslenskra lögreglumanna sem verða bara geðillir og pirraðir af því að þurfa að kljást við hrækjandi dóna á lágum launum. Nei, ekki eru allir ríkisstarfsmenn svo heppnir að geta veifað flokksskírteinum Framsóknarflokksin og komast í vel launuð störf hjá Íbúðalánasjóði og það án þess að þurfa að bera nokkra ábyrgð á störfum sínum eða að kunna nokkuð fyrir sér í meðhöndlun fjármuna. Það þarf hins vegar enginn að öfundast út í íslenska lögreglumenn, sem eru illa launaðir og undirmannaðir og það er fylgst með störfum þeirra í gegn um nálaraugu og myndavélar, öfugt við störf annara opinberra starfsmanna sem sumir hverjir gera varla mikið meira en naga blíanta inni á lokuðum skrifstofum.

Stefán (IP-tala skráð) 10.7.2013 kl. 08:51

40 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jens. Það á að ráða þig í vinnu hjá íslensku þjóðinni við að æsa svona apaketti upp. Það er besta leiðin til að losa um spennuna hjá fólkinu sem er að á barmi sameiginlegs hjartaáfalls vegna bjánagangs í stjórnsýslunni.

Það tekur mig áreiðanlega ekki nema svona þrjá-fjóra daga að ná mér eftir hláturskastið.

Kærar þakkir meistari fyrir skemmtunina!

Árni Gunnarsson, 10.7.2013 kl. 10:52

41 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Ég hallast að því að þessi umrædda sýking sem blessaður lögreglumaðurinn fékk í augað sé "útópísk" og stórhættuleg veira sem í daglegu tali kallast íymyndunarveiki. Ekkert ósvipuð plága og þessi grátbölvaða mánudagsveiki sem hrjáir ansi marga í þessu samfélagi.

Brynjar Jóhannsson, 10.7.2013 kl. 12:59

42 identicon

Sæll Jens!

Kann að vera að þú lesir ekki rétt í hlutina og sú
sé skýring að þú sjáir ekki hið augljósa að 
allt þetta snérist um bekkinn og að unnt væri
að komast í þá stöðu að nota hann sem brynvörn
gegn djöfulóðri konunni.

Húsari. (IP-tala skráð) 10.7.2013 kl. 13:18

43 identicon

Enntha med hiksta.

Frabaer grein og lysiniginn a thessu

 atviki gaeti ekki verid betri

Sigurdur Hjaltested (IP-tala skráð) 10.7.2013 kl. 13:43

44 identicon

Sæll aftur!

Það voru engir þöngulhausar sem mátu
stöðuna til sigurs við Stalingrad. (Volgograd)

Og jafnvíst er að tæpast hefði þurft að spyrja að
leikslokum ef þetta skaðræði í kvenmannsmynd
hefði náð að sveifla bekknum í kringum sig og
drepa allt er á vegi hennar varð.

Síðan er það stórundarlegt að landskunnur
tónlistarrýnir sem gert hefur för sína til Færeyja
í ekki færri en 157 skipti skuli ekki sjá að
það sem tekið hefur verið á mynd lítur aldrei eins vel út
eins og á þeirri mynd sem aldrei hefur verið tekin.

Húsari. (IP-tala skráð) 10.7.2013 kl. 15:19

45 identicon

Þetta er í 1 skiptið sem ég skrifa athugasemd hjá þér kæri Jens. En færslan þín er svo frábær og full af kaldhæðnum húmor sem virkilega fellur í kramið hjá mér. Alltsvo er ég sammála þínum skoðunum á þessu ofbeldismáli.

Ég les alltaf það sem þú skrifar. Bestu kveðjur, Inga.

Ingibjörg Kristrún Einarsdóttir (IP-tala skráð) 10.7.2013 kl. 16:42

46 identicon

Ég spyr mig líka eftir að hafa séð færslur sem réttlæta þessa aðgerð lögreglumannsins gagvart "snar-óðu konunni" og þeir vitna í hvernig aðrar þjóðir eru að handtaka fólk. Þá vil ég benda þeim á að við búum á Íslandi og þetta snýst um íslensku lögregluna. Rökin fyrir því hvernig aðrar þjóðir sem eru með miklu fleyri íbúa en við hér á skerinu og eru að takast á við önnur og stærri mál en íslenska lögreglan finnst mér rökleysa hvað þetta mál varðar. En þakka þér Jens fyrir færsluna og hvernig þú setur hana upp, einmitt svona öfugmæli geta verið önnur hlið á málinu.

Margrét (IP-tala skráð) 10.7.2013 kl. 18:41

47 identicon

passaðu þig Jens kanski koma þeir a eftir þer

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 10.7.2013 kl. 21:58

48 Smámynd: Jens Guð

  Már (#26),  myndin er hluti af sprellinu.  Uppástungan með pípuna er góð og gæti virkað vel ásamt Sherlock Holmes hatti. 

Jens Guð, 10.7.2013 kl. 22:25

49 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Þú ert kaldhæðni-húmorssnillingur, Jens minn. Þetta er sannur og sárgrætilegur kaldhæðni-húmor!

Aumar eru karl-löggurnar, sem ekki þekkja þá staðreynd, að karlmenn eru líkamlega sterkari en konur, og þurfa ekki að ráðast á vanmáttuga konu, eins og hún sé stórhættulegt karl-steratröll.

Skömmin er einungis þessa löggu-níðings, sem beitir vanmáttuga konu svona níðingsmeðferð.

Hvernig eigum við að geta borið virðingu fyrir svona ofbeldis-lögreglu-yfirvöldum?

M.b.kv. 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 10.7.2013 kl. 23:03

50 Smámynd: Hörður Þórðarson

Ég kíkti á myndbandið og dást að snilld þessara lögreglumanna. þeir sýna þarna ýmsar góðar aðferðir. Hóta konunni með bílnum (true med automobilen) og aðrar sem Jens hefur lýst mjög vel. Þeim tókst að ná henni með speglinum, og tvisvar með hurðinni án þess að hún dytti niður! Þetta er auðvitað ekkert annað en tær snilld vegna þess að manneskjan var svo ölvuð að hún stóð varla í lappirnar.

Ég sakan þess þó að þeir gleymdu piparsprei (pepperspray paa kvinden) og rafbyssu (electrosjokkere kvinden með taser). Þessi atriði ættu þeir að þjálfa með sér og vera tilbúnir að beita, næst þegar þeir hitta mannveru á ferð sem er svo full að hún veit ekki hvað hún heitir. Þeir ættu að láta aðra vera, vegna þess að eins og íslenskur bardagalistaaður kvuð hafa sagt, þeir kunna ekki að handtaka fólk rétt og myndu líklega verða lamdir (faa en paa luderen) og það er alveg ómögulegt (umulig)...

Hörður Þórðarson, 10.7.2013 kl. 23:13

51 Smámynd: Jens Guð

  Númi (#33),  það er óheppilegt fyrir alla að konan hafi spúð eitri.  Það er ekki til fyrirmyndar.  Góðu fréttirnar eru þær að löggan fékk stífkrampasprautu og getnaðarvarnarpillu.  Honum verður ekki meint af þegar moldin sest í logninu.  

Jens Guð, 11.7.2013 kl. 01:11

52 identicon

Það er gott að viðkomandi lögreglumanni hafi verið vikið úr starfi, allavega tímabundið. Konan ætlar að kæra eða er búin að því, en ekkert hefur frést af því hvort hún sé farin í áfengismeðferð eða ætli sér að gera eitthvað í sínum málum. Mér finnst jafn eðlilegt að þjóðin fái að fylgjast með því eins og því að lögreglumanninum hafi verið vikið úr starfi.

Stefán (IP-tala skráð) 11.7.2013 kl. 08:17

53 identicon

Margar mannvitsbrekkurnar hérna...Lúkas gengur aftur...og aftur...og aftur...

Hitt blasir við að það hefði verið best fyrir lögregluna að handtaka einfaldlega konunakvölina strax fyrir þær sakir einar að vera ölvuð á almannafæri og þannig forðast að eiga nokkur "mannleg" samskipti við hana.

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 11.7.2013 kl. 09:25

54 identicon

Sæll Jens og aðrir góðir gestir hérna

Takk fyrir góða grein, þetta er reyndar mjög góð lýsing

"... Næst rífur lögreglumaðurinn hendur vankaðrar konunnar aftur fyrir bak.  Hún er handjárnuð með 90 kg lögregluþjón sitjandi ofan á baki hennar og hálsi...."

Hvernig er það, þar sem þrjár löggur voru þarna á staðnum og hún þessi konan svona full, var það svona áríðandi fyrir lögguna að henda þessari konu þarna í götuna, var alls ekki hægt að handtaka hana án þess að henda henni í götuna? 

Er fræðilegur möguleiki fyrir því hjá þessari íslensku löggu, að hægt sé að handtaka mann eða konu án þess að henda henni beint í götuna, er einhver möguleiki á því hjá löggunni að hún gæti slysast til þess að handtaka konu eða mann án þess að henda einstaklingnum beint í götuna?

Er það því ekki eðlilegt að Umboðsmaður Alþingis og almenningur fái að sjá þessar   verklagsreglur hjá Lögreglunni í Reykjavík? 

Er það ekki bara tóm vitleysa og rugl að láta þessa löggu hafa rafbyssur?

Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 11.7.2013 kl. 12:52

55 Smámynd: Samúel Úlfur Þór

Ef þetta er viðurkennd aðferð og fólki þykir það í lagi, þá ættum við kannski að fara í dálitla naflaskoðun, sem þjóðfélag. Í mörgum löndum eru framin gróf mannréttindarbrot, er þá í lagi að viðhalda slíku hér heima? Eitt sinn var þrælahald leyft með lögum, flestir eru sammála um að slíkt sé ekki við hæfi í dag, svona mannréttindana vegna.

Varðandi sýkingu í augað, ég hef nú lent í ýmsu, þar á meðal að hrækt hafi verið á mig, já, ég hef meiraðsegja lent í því að ælt hafi verið yfir mig er ég var að aðstoða sótölvaðan einstakling. Aldrei hvarflaði að mér að fara uppá bráðamóttöku, og hef samt ekki fengið sýkingu í augað til þessa. Nóg að skola þetta með augnskoli (sem er til staðar í sjúkrakössum í lögreglubifreiðum). Viðkomandi lögreglumaður (ekki þjónn, enda eru þeir ekki þjónar lengur) kláraði sína vakt að mér skilst, áður en leitað var aðstoðar við sýkingunni, getur verið að þetta sé uppspuni lögregluembættisins? Maður spyr sig.

En við skulum bara horfa á skýrsluna, hún lítur betur út en sannleikurinn.

Samúel Úlfur Þór, 11.7.2013 kl. 16:20

56 identicon

Átta mig engan vegin á fólki sem fær allt af því kikk við verða vitni að óförum ANNARA! Huxanlega gæti dóttir - eiginkona/maður - frænka/frændi eða vinur lent í einhverju svipuðu, en þá er hljóðið annað! Þessi handtaka var óeðlileg. Við sáum það öll, oft! Löggur eiga að halda cool-inu í akkúrat svona tilfellum, en ekki fá KAST yfir að þurfa að sinna vinnunni sómasamlega!! Frábær grein, en sumir sem commenta koma mér á óvart með illsku sinni. Peace & Love (ef viðurkent er)

Erna Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 11.7.2013 kl. 16:46

57 identicon

Frábærlega hnyttinn og hnitmiðaður pistill.

Eina sem skyggir á eru athugasemdir þeirra sem vilja styðja við þessa hegðun hjá Lögreglunni.

Miðað við að flestar þeirra eru nafnlausar, þá finnst mér líklegast að einhverjir laganna verðir kunni að leynast meðal commentera... Vona samt ekki, því það væri svo sannarlega sorglegt ef sú væri raunin...

Eitt að lokum; Sýking,my ass!!!

http://www.dv.is/frettir/2013/7/11/thetta-er-ekkert-annad-en-aras/

Björgvin Mýrdal (IP-tala skráð) 11.7.2013 kl. 19:57

58 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já það eru grunsamlega margir hér sem verja lögreglumennina.  Einhver spyr af hverju handtóku þeir hana ekki vegna þess að vera ölvuð á almanna færi? er bannað að vera ölvaður á almannafæri?

Fjandinn hafi það, þá fer nú að verða vandlifað í voru landi.  En þetta er lögreglumönnunum til háborinna skammar, og líka fyrir alla þá hvort sem eru lögreglumenn, lögguskólamenn eða bara þeir sem yfirleitt reyna að verja þessa handtöku, hún er ekkert annað en samfelld valdníðsla af versta tagi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.7.2013 kl. 21:18

59 identicon

Hvaða helvítis kjaftæði er þetta. Við lifum orðið í fjölmenningarsamfélagi og hvar í heiminum fær löggan ekki leyfi til að taka á svona fábjánum sem eru ráfandi um Reykjavík um helgar? Lið með leiðindi skítandi og mígandi á allt og drullandi yfir alla eins og fólki dettur í hug hverju sinni á þess að það séu einhverjar afleiðingar ? Nákvælega eins og fullt af bloggurum inni á MBL og DV. Sama helvítis skítapakkið eins og þetta þjóðfélag er og er að verða enn meir með hverju árinu.

Benni (IP-tala skráð) 11.7.2013 kl. 22:10

60 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mikið áttu Bágt Benni

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.7.2013 kl. 22:27

61 identicon

Ásthildur min. Ég hef lesið allnokkur komment hjá þér hérna á MBL og allnokkrum öðrum. Það er eins og að horfa ofan í rotþró.

Benni (IP-tala skráð) 11.7.2013 kl. 22:38

62 Smámynd: Jens Guð

  Sæunn,  takk fyrir það.

Jens Guð, 11.7.2013 kl. 22:54

63 Smámynd: Jens Guð

  Bergur,  þú hittir naglann á höfuðið.

Jens Guð, 11.7.2013 kl. 22:56

64 Smámynd: Jens Guð

  Sing,  ef einhver í Færeyjum brýtur tvær greinar Lögreglusamþykktar Reykjavíkur sýnir færeyska lögreglan honum gula spjaldið og segir ákveðinn:  "Einki at gera.  Lögreglusamþykkt Reykjavikur er ikki fuglur!"

Jens Guð, 11.7.2013 kl. 23:05

65 identicon

Þetta var ekki nógu harkalegt hjá lögreglunni. Það hefði þurft að taka mun harkalegra á þessum róna.

Hugrún (IP-tala skráð) 11.7.2013 kl. 23:22

66 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það áttu algjörlega við sjálfan þig Benni, margur heldur mig sig.  En ég vorkenni þér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.7.2013 kl. 23:52

67 identicon

Jens, þú gleymdir algjörlega að þessi handtaka var líka fumlaus. Finnst að það þurfi að koma fram.  En voru allir að horfa á sama myndbandið? Ég sá t.d. engan æsing hjá konunni.  Svo er ég mjög rugluð í hver hrækti á hvern.... sá sem tók myndbandið segir t.d. hátt og skýrt HANN hrækti á HANA.  Í fjölmiðlum kemur hins vegar fram að konan hafi hrækt.

Jórunn (IP-tala skráð) 12.7.2013 kl. 01:08

68 identicon

flott hehehe, en ég hef unnið á spítölum,hjúkrunarheimilium og sambýlum og nokkrum sinnum orðið fyrir því að fá hráka í andlitið það er frekar fúltt en því miður stundum partur af starfinu. Mig langar alveg rosalega mikið til þess að vita hvaða sýkingu maður getur fengið við það að fá svona hráka á sig. Ef fólk er með svona veikt ónæmiskerfi á það þá ekki að vinna við meira sterilar aðstæður.

En já hann er náttúrulega óskaplegt fórnarlamb að vera komin með sýkingu í augað ég finn mikið til með honum og vona að sýkingin í auganu hans fari nú að lagast.

Elfa (IP-tala skráð) 12.7.2013 kl. 01:45

69 Smámynd: Jens Guð

  Már (#37),  ég hef kannað málið.  Færeyskur lögreglumaður hefur aldrei lent í því að eiturspúandi ósjálfbjarga ölvuð kona hafi eitrað auga í færeyskum lögreglumanni.  Ég bar þetta undir færeyskan fyrrverandi lögreglumann.  Hann lagði til að íslenskir lögregluþjónar fengju sér hlífðargleraugu af sömu gerð og margir brúka þegar þeir skjóta upp flugeldum á gamlárskvöldi.  Færeyingurinn spurði hvaða eitur íslenskar konur hósti á lögreglumenn.  Ég sagðist halda að það væri eitthvað eins og eiturslöngur eða köngulær í S-Ameríku spúa á óvinveitta.  

Jens Guð, 12.7.2013 kl. 01:58

70 Smámynd: Jens Guð

  Eitt sinn sat ég sem unglingur í skólarútu.  Við hlið mér sat skólabróðir sem hrekkti systir sína í næsta sæti fyrir framan.  Hún brást við með því að skyrpa í átt að bróðir sínum.  Ekki tókst betur til en svo að skyrpið lenti í auganu á mér.  Ég var skotinn í stelpunni og tók þessu feilskyrpi ekki illa.  Þar fyrir utan varð mín lélega sjón betri í kjölfarið.  Eftir á að hyggja hefði ég átt að biðja stelpuna um að skyrpa oftar og í bæði augun á mér til að fá ennþá betri sjón. 

Jens Guð, 12.7.2013 kl. 02:16

71 Smámynd: Jens Guð

  Óskar,  ég ætla ekki að taka þinni áskorun um að hrækja framan í lögregluþjón í USA.  Fyrir tveimur árum var ég í New York  Ég var að rölta heim á gistiheimili og sötra bjór á leiðinni.  Lögregluþjónn sparkaði bjórdósinni úr hendi mér.  Hún var reyndar næstum tóm. 

Jens Guð, 12.7.2013 kl. 02:23

72 identicon

Gífurlegt áreiti fylgir löggæslustörfum og fólk treystir á að dyraverðir og lögreglumenn verndi almenning fyrir fólki sem er orðið hættulegt vegna dópneyslu eða ofurölvunar.  Ef þið sem hér bloggið verðið fyriráreiti eða árásum á skemmtistöðum eða úti við á götum bæjarins eða annarsstaðar þá er gott að geta kallað til dyraverði eða lögreglu.  Þó að ég hafi aldrei starfað sem lögreglumaður þá veit ég að fæst ykkar mynduð nokkurn tíma þurfa að upplifa margt af því sem löggæslufólk þarf að upplifa og það er ekki að ástæðulausu sem þarf gæslufólk á sjúkrahús um helgar til að vernda lækna og hjúkrunarfólk fyrir snaróðu dópuðu og ofurölfi fólki sem fært er slasað inn á sjúkrahúsin og veitist að starfsfólkinu sem reynir að hlúa að þeim. Það sama gildir á móttökudeildum geðdeilda þar sem gæslufólk verndar hjúkrunarstarfsfólk fyrir sjúklingum sem geta verið stórhættulegir og eru viti sínu fjær.  Það gildir um öll slík gæslustörf að þau eru hættuleg og illa launuð.  Lögreglan þarf að fást við þetta fólk á götum úti og fólk sem hér hæðist að lögreglunni gæti þurft á aðstoð hennar að halda strax í dag, munið það.  Hins vegar eru störf lögreglunnar og umrædd handtaka að sjálfsögðu ekki hafin yfir nokkra gagnrýni frekar en önnur störf og fólk hefur að sjálfsögðu fullan rétt til að tjá sig um það sem aflaga fer.          

Stefán (IP-tala skráð) 12.7.2013 kl. 09:10

73 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Ég verð eiginlega að taka undir hjá Stefáni. Hins vegar ætla ég ekki að tjá mig um þetta mál.
Lögreglumenn eru yfirleitt fyrstir á vettvang - hvort sem það eru bílslys, eldsvoðar eða ofbeldisverk (líka í heimahúsum). Það eru ennþá 12 tíma vaktir hjá lögreglunni. Einn og sami lögreglumaðurinn getur lent í því að halda á sex ára stúlku um borð í sjúkrabíl og fylgja uppá sjúkrahús (því hún treystir honum aðeins á meðan hann talaði við hana stórslasaða). Svo næsta að fást við einhverja mótorhjólagutta sem virða ekki umferðarreglurnar. Því næsta fást við brjálaða konu sem segir köttur sinn sé haldinn illum anda. Svo passa uppá að erlendir ráðherrar komist á milli staða. Lenda í því að einhverjir dóp-stera gaurar ný sloppnir úr fangelsi hóta fjölskyldu manns. Bjarga fólki úr brennandi húsi áður slökkviliðið kemur o.s.frv.

Það má alls ekki dæma alla lögregluna út af einstökum málum. Án lögreglu væri Íslandi ekki til í dag. Við megum ekki hætta að bera virðingu fyrir lögreglunni út af einstökum málum.

Sumarliði Einar Daðason, 12.7.2013 kl. 15:42

74 identicon

Sumarliði, það er ekki verið að fordæma lögregluna út af einstökum málum, það er verið að fordæma hvítþvottinn og siðblinduna sem yfirmenn eru í forsvari fyrir, og þar með þessa stofnun sem heild. Þetta er mjög svipað því hvernig kirkjan missti virðinguna, það var ekki vegna einstakra mála, heldur vegna þess að siðblindir og stundum fárveikir yfirmenn sáu um hvítþvott og afneitun.

símon (IP-tala skráð) 12.7.2013 kl. 16:59

75 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Ég er sannfærður um að Stefán Eiríksson lögreglustjóri reiti hár sitt og skegg yfir þessu - og heldur reiðulestur yfir sínum mönnum. Yfirmenn lögreglunnar þurfa ekki bara að bera ábyrgð á þjónustu við borgara heldur líka á mannvali og rekstri lögreglunnar.
- - - - - -
(Þó ég segi menn þá á ég að líka við lögreglukonur.)

Sumarliði Einar Daðason, 12.7.2013 kl. 17:13

76 Smámynd: Jens Guð

  Stefán (#39),  vel mælt.

Jens Guð, 12.7.2013 kl. 19:00

77 Smámynd: Jens Guð

  Árni,  takk fyrir það.

Jens Guð, 12.7.2013 kl. 19:01

78 Smámynd: Jens Guð

  Brynjar,  þetta er alveg líkleg tilgáta hjá þér.

Jens Guð, 12.7.2013 kl. 19:04

79 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Jens félagi. Takk fyrir síðast

Glæsileg grein hjá þér. Ég sprakk af hlátri.

Ég sé hvað þú ert duglegur að svara öllum aths. Velti því fyrir mér hvort þú þurfir nokkuð að vera að því þegar að þær eru svona margar. Og sérstaklega má alveg sleppa þeim sem eru ekkið skráðir á IP-tölu.

Guðni Karl Harðarson, 12.7.2013 kl. 19:07

80 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Ég hef aldrei orðið var við þetta sem Benni #61 skrifar um Ásthildi.

"Ásthildur min. Ég hef lesið allnokkur komment hjá þér hérna á MBL og allnokkrum öðrum. Það er eins og að horfa ofan í rotþró."

Og hef ég lesið mjög mikið eftir hana.

Guðni Karl Harðarson, 12.7.2013 kl. 19:10

81 identicon

Sumarliði, hvers vegna heldur þú að umræddur hrotti hafi alltaf haldið vinnunni þrátt fyrir endurtekin spillingarmál? Vegna þess að Stebbi yfirmaður er svoddan sómagaur? Þú hefur rétt á því að trúa því sem þú vilt, en Stefán hefur opinberað sinn innri mann og skammast sín ekkert fyrir það: http://www.dv.is/frettir/2013/2/11/logga-fekk-langan-starfslokasamning/ Lestu þig nú til um hvað þessi vibbi gerði (ekki) í máli varðstjórans sem var sakaður í þriðja sinn um barnaníð, og reyndu að halda aftur ælunni.

símon (IP-tala skráð) 12.7.2013 kl. 21:53

82 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir það Guðni minn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.7.2013 kl. 23:15

83 identicon

Dettur einhverjum vitringnum hér að ofan, sem verja ofbeldis árásir opinberra starfsmanna á borgara, að konan hefði kannski ekki hrækt ef hún hefði einfaldlega verið látin í friði?

Helga Volundar (IP-tala skráð) 13.7.2013 kl. 00:43

84 identicon

Sæl Helga Volundar

Þeir eiga kannski eftir að svara þessu, að konan lá svo vel við höggi þarna við spegillinn og svo við hurðina líka, nú og þar sem að “Norska aðferðin” er svona viðurkennd þá verður að beita henni við allar kringumstæður sama hvað fólk segir, því að hún er viðurkennd, ekki satt?

Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 13.7.2013 kl. 07:48

85 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

@símon (IP-tala skráð) 12.7.2013 kl. 21:53:
Við þurfum á svona hrottum að halda innan lögreglunnar til þess að fást við alvöru glæpamenn. Ég held að flestir eru sammála því að hann missti sig og farið "yfir strikið".

Sumarliði Einar Daðason, 13.7.2013 kl. 12:20

86 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Ps. hann verður ekki upphækkaður frá ground level það sem eftir er.

Sumarliði Einar Daðason, 13.7.2013 kl. 12:35

87 identicon

Sumarliði, nei það gengur ekki upp að hafa glæpamenn í lögreglunni til að uppræta glæpastarfsemi.

Og ekki halda að smá ofbeldisbrot hindri frama þessa hrotta; Barnaníðingur Varðstjóri hefur t.d. ekki þurft að þola neina hindranir í starfi sínu.

Það þarf að moka út flórinn á Hverfisgötunni, og svo koma upp virku innra eftirliti.

símon (IP-tala skráð) 13.7.2013 kl. 17:48

88 Smámynd: Jens Guð

  Húsari (#42),  það er nokkuð ljóst að ég les ekki rétt í hlutina.

Jens Guð, 13.7.2013 kl. 18:16

89 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður Hjaltested,  takk fyrir það.

Jens Guð, 13.7.2013 kl. 18:17

90 Smámynd: Jens Guð

  Húsari (#44),

  "það sem tekið hefur verið á mynd lítur aldrei eins vel út
eins og á þeirri mynd sem aldrei hefur verið tekin."

  Þessum orðum þínum er ómögulegt að neita.

Jens Guð, 13.7.2013 kl. 18:20

91 Smámynd: Jens Guð

  Ingibjörg Kristrún,  bestu þakkir fyrir þetta. 

Jens Guð, 13.7.2013 kl. 18:21

92 Smámynd: Jens Guð

  Margrét,  takk fyrir ábendinguna.  Hún er réttmæt. 

Jens Guð, 13.7.2013 kl. 18:22

93 Smámynd: Jens Guð

  Helgi,  takk fyrir frábæra auglýsingu.

Jens Guð, 13.7.2013 kl. 18:23

94 Smámynd: Jens Guð

  Guðni Karl (#79),  ég tek þig á orðinu.  Það er of tímafrekt að svara öllum þegar svona margir tjá sig á þessum þræði.  Mér finnst sjálfsagt að kvitta fyrir athugasemdir - svona til að staðfesta að ég lesi þær.  En þegar fjöldinn er svona mikill þá er það orðin vinna að svara hverjum og einum.  Engu að síður les ég allar athugasemdir.  Og þakka hér með fyrir þær. 

Jens Guð, 14.7.2013 kl. 22:45

95 identicon

halló,
Hönd Nicom Marketing Service Ég vil votta að þetta er leyfi lán fyrirtæki, við erum staðfest lánveitanda auk engli fjárfesta við höfum verið í útlána sem Angel og við höfum góða höfuð fyrir þurfandi ekki steal.We eru á viðskiptavini okkar þurfa að hjálpa fátækum Þetta lán kemur frá Nicom Marketing Service (COMMON Auður)
Í lán áætlun mína, eru vextir lágir, en í stuttu máli-termcash. Vextir þurfa lánið er 2% fyrir lengd ekki meira en 360 mánaða (31 ár), en getur verið lægri.
Lágmarks lengd fyrir þessa láns er 24 mánaða, sem er 2 ára. Í þessum 24 mánuðum, er lántaka gert ráð fyrir að gera lán greiðslur sem gerir það enn auðveldara að borga. nicommarketingservice@yandex.com til
svara, senda mér símanúmerið þitt.

Ég bíða svarið ASAP. Fyrir fyrirspurnir, ekki hika við að spyrja.

bestu kveðjur

Albert Grace (IP-tala skráð) 7.9.2013 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband