Heimsfræg bandarísk poppstjarna syngur færeyskt lag inn á plötu

  Höfundur lags sem vinsælar og heimsfrægar poppstjörnur syngja og gefa út á plötum er í góðum málum.  Fyrir það fyrsta gefur það ágætan pening í aðra hönd.  Oft kemur það sér vel að fá marga peninga í vasann.  Í annan stað er það öflug kynning fyrir lagahöfundinn.  Aðrir flytjendur sjá nafn höfundarins.  Ef þeir kunna vel við lagið geta viðbrögð orðið þau að kynna sér fleiri lög eftir sama höfund.  Margar af skærustu poppstjörnum heims hófu feril sinn sem höfundar laga sem poppstjörnur sungu og gáfu út á plötu.  Þannig var það með Kris Kristofferson.  Lag eftir hann rataði inn á plötu með Jerry Lee Lewis.  Í kjölfarið pikkuðu Johnny Cash,  Janis Joplin og fleiri lög hans upp og gáfu út í sínum flutningi.  Svipaða sögu má segja um Willie Nelson og ótal aðra.  

  Í þriðja lagi er þetta mikil viðurkenning á hæfileikum höfundar.  Vinsælar og heimsfrægar poppstjörnur hafa úr milljónum laga að velja þegar þær syngja inn á 12 - 14 laga plötu.  Hvert lag sem þær syngja eftir aðra en sjálfa sig þarf virkilega að heilla viðkomandi.

  Núna í lok september sendir bandaríska söngkonan og leikarinn Cher frá sér sína fyrstu plötu í 12 ár.  Platan heitir Closer to the Truth.  Hún inniheldur 14 lög.  Þar af eitt færeyskt.  Það heitir My Love og er eftir Gretu Svabo Bech.  

  Lagið var upphaflega samið fyrir og flutt af hljómsveitinni Picture Book sem Greta var í fyrir nokkrum árum.  

  Greta var stödd inni í mátunarklefa í fataverslun í London þegar síminn hringdi.  Á línunni var starfsmaður Cher.  Hann spilaði lagið í flutningi Cher og spurði hvort að Greta væri sátt við útkomuna.  Greta varð svo undrandi að hún varð ringluð og spurði sjálfa sig:  Hver er ég?  Hvað er þetta? 

  Cher hefur átt fjölda laga á toppi vinsældarlista.  Fyrst sem dúettinn Sonny & Cher.  Síðan undir eigin nafni sem sólósöngvari.  

  Greta rekur sitt eigið hljóðver í Miðvági í Færeyjum.  

  Á myndbandinu fyrir neðan syngur Greta með Picture Book (lagið hefst ekki fyrr en á 38. sek).  

  Sennilega er Believe þekktasta lag Cher til þessa.  Svo tekur My Love eftir Gretu Svabo við. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er klárlega ekkert rusl þarna á ferðinni Jens.  En Sigurður G Guðjónsson lögfræðingur er búinn að stofna heimasíðu ,, Rusl í Reykjavík ".  Gott framtak hjá honum að benda á rusl hér og þar, en mesta ruslið eru samt skjólstæðingar hans sjálfs og það er rusl sem þyrfti sko að fjarlægja, s.s. sjálft ,, Icesave-skrýmslið ".  Það er ekki nóg að Sigurður G hringi hálfgrátandi inn í sína gömlu vinnufélaga á 365 / Bylgunni yfir því hve erfitt sé að verja þessa ,, krimma sína ", heldur þarf hann líka að hjálpa til við að losa þetta síðasta útrásarvíkingarusl úr landi. 

Stefán (IP-tala skráð) 5.9.2013 kl. 10:04

2 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  ég þarf að tékka á þessu rusl dæmi.

Jens Guð, 5.9.2013 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband