Ungur og efnilegur tónlistarmaður - sonur rokkstjörnu

  Fátt er skemmtilegra en að uppgötva nýtt, efnilegt og spennandi tónlistarfólk;  ungar upprennandi poppstjörnur.  2015 kom út hljómplatan "Void" með ungum rappara.  Listamannsnafn hans er Andsetinn,  hressilega frumlegt nafn.  Raunverulegt nafn er Arnar Jóhann Þórðarson.  Hann hefur verið að kynna ný lög á samfélagsmiðlinum Soundcloud.  

  2015 fór platan "Void" alveg framhjá mér.  Samt reyndi ég að hlusta á flestar plötur þess árs. Meðal annars vegna þess að fjölmiðlar óska jafnan eftir mati mínu á bestu íslensku plötum ársins.  Áreiðanlega vissu aðrir álitsgjafar fjölmiðla ekki af plötunni heldur.  Þetta er dálítið snúið.  Það koma kannski út 500 plötur.  Við sem erum álitsgjafar í áramótauppgjöri heyrum varla helming af þeim.

  Andsetinn á fjölmennan og harðsnúinn aðdáendahóp.  Myndbönd hans hafa verið spiluð hátt í 28 þúsund sinnum á þútúpunni.  Lögin hafa verið spiluð 100 þúsund sinnum á Soundcloud.  

  Þegar ég kynnti mér nánar hver þessi drengur væri þá kom í ljós að hann á ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana.  Faðir hans,  Þórður Bogason (Doddi Boga),  var áberandi í rokksenu níunda og tíunda áratugarins.  Einkum þeirri sem var með annan fótinn í söngrænu þungarokki.  Hann var söngvari hljómsveita á borð við Foringjana, Rickshaw, Skytturnar,  Þukl,  Þrek,  Rokkhljómsveit Íslands,  DBD og Warning.  Eflaust er ég að gleyma einhverjum.  Hann rak jafnframt vinsæla hljóðfæraverslun,  Þrek,  á Grettisgötu.  Hún gekk síðar inn í Hljóðfærahús Reykjavíkur.

  Þórður er ennþá að semja og syngja tónlist.  Á til að mynda besta jólalag síðustu ára,  "Biðin eftir aðfangadegi".  Það hentar ekki að blasta því hér í mars.  En fyrir þá sem átta sig ekki á um hvaða lag er að ræða þá er hægt að hlusta á það með því að smella HÉR   

  Mig rámar í slagtog Dodda með bandarísku hljómsveitinni Kiss.  Með aðstoð "gúggls" fann ég þessa ljósmynd af þeim Paul Stanley.     

 Paul-Stanley-Thordur-Bogason

     

       


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þórður Bogason barnastjarna á fjölum Þjóðleikhússins, rótari hjá hljómsveitinni Paradís, kveikti elda með kraftmikilli rokkrödd í fjölda hljómsveita, slökkti svo elda sem varðstjóri hjá Slökkviliðinu og er margrómaður ökukennari: Jú, allt sami Doddinn.

Stefán (IP-tala skráð) 17.3.2017 kl. 18:09

2 Smámynd: Jens Guð

 Stefán,  ég man að Doddi söng sem barn í söngleiknum "Oklahóma" í Þjóðleikhúsinu og bakraddir á fyrstu plötu eða plötum Harðar Torfasonar.  Svo var hann rótari Pelican, Paradísar og einhverra fleiri hljómsveita Péturs Kristjáns.  Gott ef einhverjar hétu ekki Póker og Picasso. 

Jens Guð, 17.3.2017 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband