Afi gestrisinn

  V-íslensk frænka mín í Kanada,  Deb Ísfeld,  hefur boðað komu sína til Íslands.  Hún tilheyrir ekki rótgrónu íslensku Ísfeldsættinni.  Langafi hennar,  Guðjón Ísfeld,  tók upp Ísfeldsnafnið er hann flutti vestur um haf í byrjun síðustu aldar.  Margir gerðu það.

  Guðjón var bóndi á Hrafnhóli í Hjaltadal.  Þá bjó Stefán afi minn á Nautabúi í Hjaltadal.  Kindurnar hans fenntu í kaf og drápust.  Við það snöggreiddist afi og hafði vistaskipti við Guðjón frænda sinn. 

  Þegar ég var krakki á Hrafnhóli á sjöunda áratugnum kom Gísli sonur Guðjóns í heimsókn.  Afi var upprifinn af heimsókninni.  Gísli talaði íslensku með enskuívafi.  Er Gísli sat við eldhúsborðið heima tók afi eftir því að kaffibollinn hans tæmdist.  Afi brá við snöggt og sótti kaffikönnuna.  Hún stóð á eldavélarhellu hinumegin í eldhúsinu.

  Afi átti erfitt um gang vegna brjóskeyðingar í mjöðmum.  Utan húss studdist hann við tvo stafi.  Innan húss studdist hann við borð,  bekki og stóla.  Hann fór því hægt yfir með kaffikönnuna.  Í þann mund er hann byrjaði að hella í bolla Gísla spurði pabbi að einhverju.  Gísli svarði snöggt:  "No, no, no!".  Afi hélt að hann ætti við kaffið og væri að segja:  "Nóg, nóg, nóg!".  Afi tautaði:  "Þú ræður því."  Hann brölti með kaffikönnuna til baka.  Gísli horfði í forundran til skiptis á eftir afa og í rétt botnfullan kaffibollann. 

kaffi 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Góður Jens..Góður !!

Már Elíson, 18.8.2018 kl. 09:21

2 Smámynd: Jens Guð

Már,  takk fyrir það.

Jens Guð, 18.8.2018 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband