Hugljúf jólasaga

  Sveinn hét maður. Hann var stórskorinn, brúnaþungur en hokinn í herðum;  nefið breitt og eyru útstæð.  Hann var náfrændi fjarskylds ættingja síns vestur á fjörðum. Þeir þekktust ekkert og eru nú báðir úr sögunni.

  Víkur þá sögu að vinnufélögunum Kolla og Tóta. Að löngum vinnudegi loknum plataði Kolli Tóta til að skutla sér heim. Gulrótin sem hann notaði var að lofa Tóta að bjóða honum upp á kaffi og döðlu. Sem hann sveik þegar á reyndi. Hann átti ekki einu sinni döðlu. Komnir heim að hrörlegum tveggja hæða kofa Kolla sótti hann stiga sem lá við húshliðina og reisti hann upp við framhliðina.

  - Viltu styðja við stigann, Tóti minn? Hann á það til að renna út á stétt.

  - Ekkert mál. Tóti greip þéttingsfast um stigann.

  Kolli brá við skjótt og sparkaði í gegnum rúðu í kjallaraglugga. Hún mölbrotnaði. Hann gerði sig líklegan til að skríða inn um opið. Tóti kallaði:

  - Ertu ekki með lykil að útidyrunum?

  - Jú, en mér þykir skemmtilegra að fara svona inn í húsið. Reyndar eru útidyrnar ólæstar. Nú fæ ég nóg að gera við að setja nýja rúðu í kjallaragluggann. Alltaf gott að hafa eitthvað fyrir stafni. Vinna göfgar.

  - En hvað með stigann?

  - Það er ekkert með hann. Bara reisn yfir því að sjá myndarlegan mann styðja við stiga sem enginn er að nota.

  Í þeim töluðu orðum stakk Kolli sér inn um gluggann. Hann veinaði skrækum rómi er glerbrotin skáru í útlimi. Svo hlunkaðist hann blóðrisa á gólfið. Samstundis spratt hann upp eins og stálfjöður; stangaði vegg, rotaðist í tæpar tvær mínútur og stakk síðan ringluðu höfðinu út um gluggann. Þeir félagarnir brustu þegar í stað í kröftugan söng svo undir tók í fjöllunum: "Bráðum koma blessuð jólin..."

jólatré


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætla hann fari svo ekki að klifra í jólatrénu.?

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 24.10.2018 kl. 08:20

2 identicon

Heyrðu mig nú Jens. Er þetta nokkuð í tilefni af kvennafrídeginum? 

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 24.10.2018 kl. 10:27

3 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Alltaf í boltanum???

Sigurður I B Guðmundsson, 24.10.2018 kl. 10:37

4 Smámynd: Jens Guð

Jósef Smári,  pottþétt!

Jens Guð, 24.10.2018 kl. 16:50

5 Smámynd: Jens Guð

Sigurður Bjarklind,  jú,  þetta er einmitt út af kvennafrídeginum!

Jens Guð, 24.10.2018 kl. 16:51

6 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  það væri saga til næsta bæjar ef ég fengi áhuga á boltanum.

Jens Guð, 24.10.2018 kl. 16:52

7 identicon

Jens, þessi útlitslýsing á Sveini virðist reyndar smellpassa við mann sem ræktar þyrnum stráð tré og hefur þess á milli pirrað hlustendur Útvarps Sögu í símatímum, en virðist nú loks hafa verið settur í bann þar samkvæmt nýjustu fréttum. Það kalla ég nú snemmbúna jólagjöf hjá þeirri ágætu útvarpsstöð. 

Stefán (IP-tala skráð) 24.10.2018 kl. 21:44

8 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  góður!

Jens Guð, 25.10.2018 kl. 16:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband