Besta íslenska hljómsveitarnafnið?

  Ég hef sett í gang skoðanakönnun um besta íslenska hljómsveitarnafnið.  Aldrei þessu vant ákvað ég að gæta hlutleysis við að fá fram raunhæfa niðurstöðu um mat á því.  Þess vegna byrjaði ég á því að óska eftir tillögum frá ykkur.  Viðbrögð voru góð og ég tók saman lista yfir þau nöfn sem fengu flestar tilnefningar. 

  Næsta skref var að birta þann lista og óska eftir vangaveltum um hann,  frekari stuðning við nöfnin á honum og bauð upp á fleiri tillögur.  Út úr því ferli kom sá listi sem ég hef sett hér saman í formlega skoðanakönnun með atkvæðagreiðslu.  Formlega skoðanakönnunin er þess vegna 3ja skref í leit að besta íslenska hljómsveitarnafninu.

  Skoðanakannanakerfið hérna á blog.is býður einungis upp á val á milli 15 nafna.  Þar eru þau 15 nöfn sem fengu flest atkvæði í forkönnunum tveimur.  Ég hefði viljað setja á listann nokkur nöfn sem ég kann vel við:  Gyllinæð,  Frostmark,  Jarlar,  Bisund og svo framvegis.  En vegna þess að ég vil fá marktæka niðurstöðu þá held ég mig alfarið við þau nöfn sem mestan stuðning fengu í forkönnunum.  

  Gaman væri að fá hjá ykkur rök fyrir stuðningi við það nafn sem þið teljið vera besta íslenska hljómsveitarnafnið.  Sömuleiðis væri gaman að fá rök fyrir nöfnum sem þið teljið að eigi ekki heima á þessum lista.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Trúbrot, það finnst mér langbesta hljómsveitarnafn sem ég man eftir. Skrítið að sjá það ekki.

Ingi (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 23:48

2 Smámynd: Jens Guð

  Það kom mér á óvart að nafn Trúbrots hlaut ekki þann stuðning sem ég ætlaði að óreyndu.  Flott nýyrði sem féll vel að hippastemmningunni undir lok sjöunda áratugarins.  En kannski túlkar það samt ekki vel fyrir hvað sú frábæra hljómsveit stóð fyrir.  Hefði ef til vill hentað betur hljómsveit með trúarlegu ívafi?

Jens Guð, 3.3.2008 kl. 00:00

3 identicon

Sæll veri Jens!

Samkvæmt þessari síðu heitir hljómsveitin ekki Sauðfé á undir högg að sækja í landi Reykjavíkur, heldur Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur.

Annars kaus ég nafnið Purrkur Pillnikk, því mér finnst það einfaldlega lang svalasta hljómsveitarnafn íslenskrar tónlistarsögu. Líka skemmtileg hljómsveit.

LMR (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 00:06

4 identicon

Man ekki betur en Árni kallinn Johnsen, a friend of spring and flowers, hafi lagt til bæði Trúbrot og Brimkló.

Ég kaus hins vegar Unun. Stutt og laggott nafn.

Steini Briem (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 00:07

5 identicon

Jú, kannski mótast afstaða manna eftir aldri og tíma. Ég man þegar ég sá hljómsveitina Trúbrot í Silfurtunglinu, uppi í Austurbæjarbíó. Þarna stóð maður dáleiddur yfir þessum snillingum sem þar komu saman. Mér fannst þá nafnið strax snilld og hæfa þessari undrahljómsveit vel. En því miður varð þessi hljómsveit ekki langlíf.

Ingi (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 00:14

6 Smámynd: Jens Guð

  LMR,  ég hélt reyndar að það væri nafnið en þeir sem mæltu með nafninu slepptu orðinu mjög.  Ég laga þetta.  Takk fyrir ábendinguna.

  Steini,  það er rétt hjá þér að Árni er höfundur þessara 2ja.  Ég persónulega kann betur við nafn Trúbrots.  En það hefur kannski eitthvað að gera með það að ég er meiri aðdáandi Trúbrots en Brimklóar.  Eða réttara sagt þá er ég aðdáandi Trúbrots - mikill aðdáandi - en ekki Brimklóar.  En ég ákvað að láta mitt persónulega viðhorf til hljómsveita ekki hafa áhrif á niðurstöðuna. 

Jens Guð, 3.3.2008 kl. 00:20

7 Smámynd: Jens Guð

  Ingi,  ég man líka eftir þessari stemmningu í kringum Trúbrot.  Nafnið var hluti af ævintýraljóma einhvers sem var framandi.  Furðulegt og ferskt nafn hljómsveitar sem gat afgreitt Led Zeppelin án þess að blása úr nös og bæta ofan á brjálæðislegum orgelleik Kalla Sighvats við sem margtrompaði einfalt hljómborðsgutl Johns Pauls Johns.  Það var "æði". 

Jens Guð, 3.3.2008 kl. 00:29

8 identicon

það vantar þarna inn Vinir Dóra mjög sérstakt og gott nafn.

Skagfirðingur (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 00:30

9 Smámynd: Ómar Ingi

Sigur Rós enda ekki bara með besta nafnið heldur besta hljómsveitin. 

Ómar Ingi, 3.3.2008 kl. 00:30

10 identicon

Já, þetta eru tímar þar sem heimurinn var að verða til Jens. En er það ekki rétt munað hjá mér að sá með kjuðanna hét Gunnar Jökull og var talin með bestu trommurum heims.

Ingi (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 00:59

11 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Ég kaus Brimkló enda mjög fallegt nafn.

Jens Sigurjónsson, 3.3.2008 kl. 01:19

12 identicon

Mér dettur nokkur nöfn í hug en langar að nefna hljómsveit vina minna sem er nú eiginlega óþekkt ennþá en mér finnst nafnið mjög flott - Spirit of Moonflower

Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 01:22

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Var ekkert stungið upp á "Hinn íslenski Þursaflokkur"?

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.3.2008 kl. 01:28

14 Smámynd: Jens Guð

  Skagfirðingur,  Vinir Dóra er ágætt nafn.  Það segir samt ekki mikið um að þar fari öflug blúshljómsveit.  En fyrir forvitnissakir:  Ég er Skagfirðingur,  fæddur og uppalinn í útjaðri Hóla í Hjaltadal,  Hrafnhóli.  Hver er maðurinn?

  Ómar,  mikið er ég sammála þér.  Þrátt fyrir aðdáun á mörgum íslenskum hljómsveitum þá hefur Sigur Rós það fram yfir alla íslenska tónlist að dáleiða mig og staðsetja á eitthvað sem ég skilgreini sem æðra stig.

  Ingi,  Gunnar Jökull gjrösamlega trompaði sem snýr að trommuleik.  Mín fyrstu persónulegu kynni af honum voru ekki skemmtileg.  Ég bað hann um eiginhandaráritun og hann hellti sér yfir mig fyrir frekju og truflun á tilveru.  Síðar kynntist ég honum smá þegar hann var að selja umbúðir fyrir myndbandsspólur í slagtogi með Hauki Haralds og Dr.  Guðmundi Rúnari Ásmundssyni sem á þeim tíma gerðu út á póstverslun með hjálpartæki ástarlífs,  Pan.  Gunnar bað mig afsökunar á ókurteisi á meðan hann var poppstjarna í Trúbroti og sagðist hafa ofmetnast af frægð Trúbrots.  Þá var hann orðinn verulega veikur og dó nokkrum árum síðar.   

Jens Guð, 3.3.2008 kl. 01:37

15 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Spilverk Þjóðanna.  Íslenskt þjóðlegt nafn en samt með tilvísun útávið, til allra þjóða heimsins.  Sem er reyndar lýsandi fyrir tónlist þeirra sem í grunninn var með sterkar íslenskar rætur en samt undir greinilegum áhrifum héðan og þaðan utan úr heimi sem einhvernveginn erfitt var að festa fingur á.

 Annars finnst mér Utangarðsmenn vera nafni sem stendur uppúr.  Nafn sem við fyrstu sýn er afar óhljómsveitarlegt, en í viðkomandi tilfelli smellpassaði svo inní heildardæmið.  Komandi askvaðandi inní íslenskt tónlistarlíf með algjörlega nýja stefnu og festa hana í sessi, ögrandi boðskap og skoðanir  á þeim tíma.  Nafnið lýsandi fyrir hrjúfa tónlistina og orðið öðlaðist sjálfstætt líf einhvernveginn.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.3.2008 kl. 01:42

16 Smámynd: Jens Guð

  Gunnar,  nafn Þursaflokksins kom til greina en lenti í 16.  sæti og datt því út fyrir 15 nafna listans.  Ég vissi ekki fyrirfram að skoðanakannanakerfið næði bara til 15 nafna.  En nafn Þursaflokksins lenti í 16.  sæti og náði því ekki inn á listann.  Mér þykir þó persónulega það nafn flott þegar mið er tekið af þjóðlegu afturhvarfi til menningararfsins.  Ásamt aðdáun minni á flottum plötum Þursaflokksins.  Þeim allra flottustu í kringum árið 1980. 

Jens Guð, 3.3.2008 kl. 01:47

17 Smámynd: Jens Guð

  Ómar,  ég er aðdáandi Utangarðsmanna frá A-Ö.  Ég kvitta undir allt jákvætt sem snýr að Utangarðsmönnum.  Margir af liðsmönnum Utangarðsmanna eru góðir vinir mínir og hljómsveitin hefur alla mínu mestu viðskiptavild.  En mér til vonbrigða náði nafn Utangarðsmanna ekki inn á þennan lista.  Ég bara bít í það súra epli. 

Jens Guð, 3.3.2008 kl. 01:52

18 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég er kannski ekki hæfur í umræðunni en stóðst ekki mátið. hlaut nafnið 'Hljómsveit Ingimars Eydal' tilnefningu sem besta nafnið? hefur ekki einhver verið að misskilja? er það flottara en 'Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar'? eða 'Hljómsveit Ólafs Gauks'?

burt séð frá hver hljómsveitanna var best, enda ekki kosið um það.

Brjánn Guðjónsson, 3.3.2008 kl. 02:18

19 identicon

Fyndið frá því að segja að nafnið Trúbrot kemur frá Árna Johnsen

Ari (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 02:22

20 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er búinn að svara - farðu nú að fá þér bjór

Gunnar Helgi Eysteinsson, 3.3.2008 kl. 08:12

21 Smámynd: Kjartan Pálmarsson

Hef skilað inn mínu atkvæði

Kjartan Pálmarsson, 3.3.2008 kl. 08:46

22 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Brimkló hefði átt að vera gargandi þungarokkhljómsveit....

Markús frá Djúpalæk, 3.3.2008 kl. 09:45

23 Smámynd: Gulli litli

Trúbrot og Brimkló eru flott nöfn.  Árni Jhonsen er höfundurinn og hefur þau virkilega íslensk. Er hann ekki höfundurinn af Mannakornum líka? Spilverk þjóðanna og Búdrýgindi mjög gott..

Gulli litli, 3.3.2008 kl. 10:12

24 Smámynd: Bragi Einarsson

Hundur í óskilum, hefur það nokkuð komið fram?

Bragi Einarsson, 3.3.2008 kl. 10:27

25 identicon

Ég ætla ekki að blanda mér í umræðuna um íslensk hljómsveitarnöfn, heldur að skrifa aðeins um meistara John Paul Jones, bassaleikara og hljómborðsleikara Led Zeppelin, af því að Jens nefnir hann hér að ofan og ber hljómborðsleik hans saman við hljómborðsleik annars mikils meistara, Karls heitins Sighvatssonar. Karl Jóhann Sighvatsson nam orgelleik í Austurríki eftir að hann starfaði með Trúbrot og var starfandi kirkjuorgelleikari í nokkrum kirkjum fyrir austan fjall þegar hann lést. John Paul Jones nam orgelleik og tónfræði ungur að árum og var m.a. orðinn kirkjuorgelleikari og kórstjóri aðeins 14 ára gamall, auk þess sem hann lék í danshljómsveit föður síns. Aðeins 18 ára gamall var hann orðinn einn allra eftirsóttasti útsetjari Englands og útsetti bæði fyrir rafmagnshljóðfæri og strengjasveitir. M.a. útsetti hann á árunum fyrir Led Zeppelin fyrir: Rolling Stones ( She's a Rainbow, 2000 Light Years From Home ) , Herman Hermits, Yardbirds, Tom Jones, Donovan, Lulu, Cliff Richard, Cat Stevens, Nico, Jeff Beck, Marc Bolan og Dusty Springfield. Þá spilaði hann á bassa og hljómborð inn á margar plötur sem sessionmaður og við þau störf kynntist hann Jimmy Page og þeir stofnuðu svo saman Led Zeppelin 1968 þegar JPJ var 22 ára. Eftir Led Zeppelin setti JPJ upp eigið studio og hefur unnið fyrir marga tónlistarmenn sem upptökustjóri, hljóðfæraleikari og útsetjari. Má m.a. nefna: Paul McCartney, Peter Gabriel, Brian Eno, Robert Fripp, Jon Anderson, Lenny Krawitz, King Grimson, R.E.M og Foo Fighters. Einnig hafa komið nokkrar sólóplötur frá JPJ. Kalli heitinn Sighvats.var líka eftirsóttur útsetjari eftir að hann nam erlendis og útsetti tónlistina á mörgum plötum, jafnólíkum og m.a: Olga Guðrún, Ási í Bæ og Emil í Kattholti. Orgelleikur þessara tveggja snillinga var vissulega ólíkur og oft minnir orgelleikur JPJ á agaðan kirkjuorgelleik.        

Stefán (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 10:31

26 Smámynd: Adda bloggar

hljómar.

sá að þú svaraðir einum að þú værir frá skagafirði.yndislegur staður skagafjörðurinn, amma mín er frá sæmundarhlíð.ég á fullt af ættingjum í skagafirði, pálína gamla á skarðsá var til dæmis frænka mín.

Adda bloggar, 3.3.2008 kl. 10:41

27 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Búin að merkja við, og sýnist að sú hljómsveit hafi mestan fjölda á bak við sig. Ég er greinilega svona Common people.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.3.2008 kl. 11:37

28 Smámynd: Halla Rut

Það vantar líka "Sjálfsfróun" en mér fannst það alltaf svo fyndið að þeir fengu spila bann á rás 1 og 2 hér í gamla daga vegna nafnsins. Þeir treystu sér ekki til að kynna hljómsveitna. Þeir breyttu þá nafninu fyrir útvarp í "Handriði" og var það leyft og kynntu bandið með sóma.

Halla Rut , 3.3.2008 kl. 12:31

29 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Sigur Rós er nógu frábært nafn fyrir mig (og ekki spillir tónlistin). Mjög ánægjulegt vandamál að ekki skuli vera pláss fyrir öll þau frábæru nöfn sem íslenskar hljómsveitir hafa fundið upp (ásamt Árna Johnsen). Sýnir bara gróskuna í þessu fína tungumáli sem við eigum.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 3.3.2008 kl. 12:46

30 identicon

Jens, Árni vinur minn Johnsen kom á útgáfutónleika Soundspell í haust. Ég vissi ekki að hann hefði svona mikinn áhuga á tónlist. Þú hefur kannski tekið eftir honum. Ég hitti hann nýlega og þá sagðist hann vera hættur í teppaflutningunum en ég gleymdi alveg að spyrja hann að því hvað hann gerir núna. Hlýtur að vera eitthvað spennandi. Hann er þannig maður.

En óttalega þykir mér "ábreiða" vera klént orð yfir "cover". Ég er að spá í að leggjast undir feld og reyna að finna eitthvað annað orð yfir ábreiðu.

Steini Briem (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 13:36

31 identicon

Forgarður helvítis ætti vel heima í þessari könnun, sem og Dys, Botnleðja og Stuðmenn.

 Aldrei hafði ég gert mér grein fyrir því hvað það eru mörg flott hljómsveitanöfn til á Íslandi. 

LMR (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 16:35

32 Smámynd: Ari Björn Sigurðsson

Mitt atkvæði fær hljómsveitin "Hross í haga, með gras í maga, og rafmagnsgirðing allt í kring" sem keppti í músíktilraunum um árið.

Ari Björn Sigurðsson, 3.3.2008 kl. 17:00

33 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ef ég man rétt hentirðu fram beiðni nýverið um tilnefningar á nöfnum og þetta er líkast til þau nöfn sem urðu efst á blaði.Skal hér gerð örlítið grein fyrir skoðun undirritaðrar á nöfnum þessum burtséð frá þeirri tónlist sem viðkomandi hljómsveitir flytja/fluttu.Unun  -  fínt nafn, jákvætt orð  - orðabókin segir:  yndi, mikil ánægja, gleði; það sem vekur yndi.

Hljómsveit Ingimars Eydals - þessi tilefning hlýtur að hafa komið frá Akureyringum á vissum aldi. Með fullri virðingu fyrir hjómsveitinni, sem var fín, finnst mér þetta nafn ekki eiga heima á þessum lista. Tek undir með Brjáni í #18.

Purrkur Pillnikk  -  eftir því sem ég best fæ séð er þetta ekki íslenska og á því ekki heima á lista yfir íslensk hljómsveitarnöfn. Eyði ekki fleiri orðum á það en endurskoða matið ef einhver sýnir mér fram á að orðin séu íslenska.

Brimkló - ófrumlegt og frekar flatneskjulegt nafn.

Dátar - hefði passað prýðilega á danshljómsveit á borginni í seinni heimsstyrjöldinni.

Spilverk þjóðanna - íslenskara gerist það varla, saman hafa orðin líka sérstakan hljóm og fallega hrynjandi. Auk þess að þýða hljóðfæraleikur þýðir spilverk gaman, gáski, kæti, gantaháttur, leikaraskapur. Glaðlegt og flott nafn.

Mínus - þetta nafn er í  tómum mínus, neikvætt og gerir ekkert fyrir mig.

Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur - hér er rembst við að vera fyndinn með litlum árangri. Þetta er ekki einu sinni frumlegt. Ég myndi sennilega enda með því að kalla þá bara me-me.

Búdrýgindi - hljómar eins og gömludansahljómsveit. Kosturinn við þetta nafn finnst mér afleidda merkingin á því - búhnykkur - sem þýðir ráðstöfun til að bæta hag sinn. Er það ekki oft tilgangur hljómsveitarmanna - að vinna sér inn aukapening?

Hljómar - tær klassík sem gæti átt við hvaða hljómsveit sem er, hvaða tónlist sem er.

Tennurnar hans afa - þeir sem gáfu þessari hljómsveit nafn hljóta að vera barnungir með táningahúmor. Höfðar ekki til mín.

Bara-flokkurinn - hvað er svona "bara" við þessa hljómsveit? Hljómar eins og verið sé að biðjast afsökunar á sjálfum sér og sinni tónlist. Ekki uppörvandi nafn.

Morðingjarnir - ég eyði ekki orðum á svona fíflagang.

Sigur Rós - spilað til sigurs, ilmandi eins og rós. Tvö merkingarlega falleg orð og góð, en það fer aldrei alveg nógu vel að byrja seinna orðið á sama bókstaf og fyrra orðið endar á.

Kamarorghestar - þetta nafn finnst mér skemmtilegt og frumlegast af öllum nöfnunum á þessum lista. Gefur til kynna að hljómsveitarmeðlimir taki sig mátulega alvarlega.

 Ætli ég láti þetta ekki gott heita. Varstu ekki annars að biðja um rökstuðning, Jens? Ég er búin að kjósa en segi ekki hvað ég kaus þótt þetta séu hvorki alvöruþrungnar né leynilegar kosningar.

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.3.2008 kl. 17:04

34 Smámynd: Haukur Viðar

Jahérna!

Haukur Viðar, 3.3.2008 kl. 17:25

35 Smámynd: Jens Guð

  Ása,  ég einskorða könnunina við íslensk nöfn.  Góð nöfn á þýsku,  grænlensku eða ensku eru þess vegna ekki gjaldgeng.

  Brjánn,  eins og þú set ég spurningamerki við nafnið Hljómsveit Ingimars Eydals.  En margir telja - einhverra hluta vegna - það nafn bera af íslenskum hljómsveitanöfnum.  Núna er það með 5,8 % atkvæðamagn á bak við sig.

  Markús,  ég er sammála því að nafnið Brimkló rímar betur við þungarokk en létt kántrý-popp.

  Gulli,  ég er nokkuð viss um að Árni Johnsen kom ekki nálægt nafngift Mannakorna.  Ég hef einhvertímann heyrt hvernig það nafn kom til.  Man þó ekki söguna þó að ég muni að Árni kom ekki við sögu.

  Bragi,  Hundur í óskilum kom til greina en nafnið hlaut ekki stuðning.

  Halla Rut,  nafnið Sjálfsfróun er snilld fyrir hljómsveit sem gerði út á hugmyndafræðina um að það sé spurning um að gera hlutina fremur en geta.  Bara kýla á dæmið,  gera hlutina sjálfir fremur en bíða eftir því að einhverjir aðrir geri eitthvað.  Ein af mínum uppáhaldshljómsveitumm í gegnum tíðina.

  Steini,  ég sá Árna ekki á Soundspell hljómleikunum.  En ég sá að hann skrifaði lofrullu um plötu hljómsveitarinnar í Mbl. 

  Ég er þér sammála með að orðið ábreiða er til vandræða.  Það gengur til að mynda ekki upp þegar talað er um að einhver "coveri" þetta eða hitt lagið.  Ég hef reynt að finna heppilegt orð.  En á engan feld til að leggjast undir.

  Bjarni,  rétt er það að mörg nöfn á listanum orka tvímælis.  Í mínum huga er gott hljómsveitarnafn það sem styður ímynd hljómsveitarinnar og það sem hún stendur fyrir.  Hljómsveitarnafn er vörumerki og þarf sem slíkt að vera þjált í munni og eftirminninlegt.

  Lára Hanna,  takk fyrir þessa skemmtilegu og áhugaverðu hugleiðingu.  Purrkur er algeng stytting á orðinu svefnpurkur.  Pillnikk er hinsvegar nafn a-evrópsks skáksnillings.  Nafnið stendur því fyrir svefnpurkur Pillnikks.  Auka-r í Purrkur á að vera brandari sem gengur út á framburð á nafninu.     

  Ef ég man söguna rétt þá var Bara-flokkurinn ráðinn sem upphitunarband fyrir Þursaflokkinn áður en norðlenska hljómsveitin fékk nafn.  Af virðingu og auðmýkt fyrir Þursaflokknum þá skilgreindu Norðlendingarnir sig sem bara-flokk.

Jens Guð, 3.3.2008 kl. 18:21

36 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

-Hvaða grúbba er þessi Mínus, sem nú tröllríður hverju Kerrang blaðinu eftir öðru hér í Englandi?

Ps. Mamma sagði að þú hefðir farið á kostum í Kastljósi um daginn, hefðir logið svo grafalvarlegur að allir hefðu keypt það eins og nýtt net... þ.e. allir þeir sem þekktu þig ekki.  -Hvar get ég séð þáttinn?

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 3.3.2008 kl. 18:27

37 identicon

Helga Guðrún:

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4365617/1

Steini Briem (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 18:53

38 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Takk Steini, var að horfa á hann, ágætur viskýdjókurinn hjá kallinum. :) Fínn þáttur.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 3.3.2008 kl. 19:09

39 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég get að mörgu leiti tekið undir með Láru Hönnu, þótt eðli málsins samkvæmt, geti ég ekki kommentað á allt.

mér finnst t.d. nafnið Brimkló meira henta harmonikku-sjóaraslagara-hljómsveit en þeirri sem hún var í raun.

Spilverk Þjóðanna (aka Spilverkið) er tær snilld. Spilverk getur einnig þýtt hljóðfæri, eða spiladós (allavega hef ég heyrt það notað þannig).

ég er einnig sammála LH um að seinasti stafur í fyrra orði megi ekki vera sá sami og sá fyrsti í hinu síðara. það gerir nafnið mun óþjálla í framburði.

Hljómar finns mér engu skárra en dátar. þarna er greinilega smekkur fólks fyrir tónlistinni sem viðkomandi fluttu, vera að lita skoðunina. munum að hér er EKKI verið að spá í hvernig tónlist viðkomandi hljómsveita var (Hljómsveit Ingimars Eydal !?!).

ég er ósammála því að nöfnin þurfi að skoðast í ljósi ímynda hljómsveitanna. nöfnin verða, þvert á móti, að duga ein og sér til að vekja athygli á hljómsveit. ég hafði t.d. alls engan áhuga á að hlusta á þá hljómsveit sem kallaði sig Botnleðju. fannst það afar 'lame' nafn. seint og um síðir heyrði ég í sveitinni og hljómaðu hún þá allt öðruvísi en það endaþarmsrokk sem ég hafði gert mér í hugarlund að sveit með þetta nafn flytti.

er ekki bara 'cover' einskonar álegg?

Brjánn Guðjónsson, 3.3.2008 kl. 19:38

40 identicon

Helga Guðrún. Jamm, Jens er nú ekki í vandræðum með að snúa sig fljótt og örugglega út úr erfiðum aðstæðum, frekar en aðrir Skagfirðingar.

Jens. Fyrst Árni Johnsen skrifaði vel um Soundspell er sjálfsagt að fyrirgefa honum þetta með teppið. Hann sagði líka si svona: "Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum!" En þeir sneru sig út úr því með því að setja hann bara í steininn, déskotans amlóðarnir. Og þá hefndi Árni sín á þeim með því að selja fullt af steinum sem hann hafði með sér úr steininum. En hann slapp þó við að vera innan um óheiðarlegt fólk á Litla-Hrauni.

Steini Briem (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 19:47

41 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Bogga Fer Á Kostum, Krumpreður, Soðin fiðla, Púff ... þessir góðkunningjar Músíktilrauna hafa allir snilldarnöfn til að bera. 

Jón Agnar Ólason, 3.3.2008 kl. 20:53

42 identicon

Tempó,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,var ekki Þorgeir Ástvaldsson í þeirri grúppu.

Númi (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 23:31

43 Smámynd: Jens Guð

  Helga Guðrún,  takk fyrir góða umsögn ykkar mæðgna á bullinu í mér í Kastljósi.   Mínus er besta hljómsveitin á Íslandi.  Hún hefur starfað í tæpan áratug,  sigraði í Músíktilraunum ´99 eða 2000 og fór fyrir hreyfingu sem kallaðist harðkjarni (hardcore).  Framan af var músíkstíll Mínusar "noisecore" en hefur mýkst dálítið í áranna rás.  Söngvari Mínusar,  Krummi,  er sonur Bjögga Halldórs, söngvara.

  Steini,  ég er fyrir löngu síðan búinn að fyrirgefa Árna þetta með teppið.  Og reyndar með kantsteinana líka ef út í það er farið. 

  Númi,  Þorgeir var í Tempó.

  Brjánn,  Hljómar var fyrsta hljómsveitin af síðan mörgum sem báru nafn er endaði á ar (Taktar,  Mánar,  Dátar,  Tatarar,  Geislar...).  Þessi tíska varð til í kjölfar vinsælda The Beatles og bylgju útlendra hljómsveitanafna sem enduðu á s (The Turtles,  The Byrds,  The Kinks,  The Hollies...).

Jens Guð, 4.3.2008 kl. 00:05

44 identicon

Lára Hanna þjáist af einhvers konar alvöruheilkenni. Guð veri með henni.

En svo ég endurtaki mig, þá ætti nafnið Forgarður helvítis heima í þessari könnun. Það er einfaldlega svo flott og lýsandi. 

LMR (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 00:16

45 Smámynd: Jens Guð

 LMR,  ég er harlínuaðdáandi hljómsveitarinnar Forgarðs helvítis.  Ég hefði gjarnan viljað sjá það nafn á listanum.  En það hlaut ekki þann stuðning sem til þurfti.  Forgarðurinn er á mínum lista yfir Topp 5 skemmtilegustu rokksveitir íslensku dægurlagasögunnar.  Ekki síst sem hljómleikahljómsveit.  Siggi Pönk er frábær sviðsmaður,  hvort sem er með Forgarðinum og DYS.

  Ég kann ekki skýringu á því hvers vegna g vantar í Sauðfé á mjög... G-ið er í texta mínum á stjórnborðinu en skilar sér ekki í textanum eins og hann birtist í skoðanakönnuninni. 

Jens Guð, 4.3.2008 kl. 01:38

46 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég þakka LMR góðar kveðjur og Guðs blessun. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 4.3.2008 kl. 02:11

47 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  takk fyrir fróðleikinn um JPJ.  Eins og mér þykir hann vera frábær bassaleikari þá hefur mér þótt orgelleikur hans vera afskaplega hófstilltur og yfirlætislaus.  Kannski er ég að oflofa Kalla Sighvats þegar ég skilgreini hann sem besta orgelleikara rokksögunnar.  Hann réði við að gera orgelleik kraftmikinn og að sumu leyti ófyrirséðan.  Þá vísa ég til að mynda til plötunnar Á bleikum náttkjólum.

  Ég gef ekki mikið fyrir framlag hans til annars ágætra platna með Ása í bæ,  Olgu Guðrúnar eða Emils í Kattholti.  Hinsvegar átti hann það til að fara á flott flug með Trúbroti og Þursum.

Jens Guð, 4.3.2008 kl. 02:32

48 identicon

Til Láru Hönnu í athugasemd nr: 34 og til meistara Jens í athugasemd nr: 36.

Samkvæmt gömlu viðtali við Purrk Pilnikk að þá var útskýring meðlima þessi á nafni hljómsveitarinnar þessi. Orðið Purrkur er dregið af nafni á eyju á Breiðafirði sem heitir Purkey. Orðið Pilnikk er vísun í áðurnefndan austur evrópskan skáksnilling sem Jens minnist á. Semsagt, útkoman var og er Purrkur Pilnikk. Hálf íslenskt nafn sem á heima á þessum lista að mínu mati, en er með ljótari og leiðinlegri hljómsveitarnöfnum, enda fannst mér þessi hljómsveit bæði leiðinleg og skemmtileg í senn. Svolítið skrýtið. Leiðindin voru sviðsframkoma, textar og rödd Einars Arnar, en skemmtilegheitin voru þau að hinir þrír grúfuðu vel og áttu nokkur góð lög. Skrýtin upplifun af hljómsveit sem heild. Alltof heimsborgaralegt, djúpviturt og innhverft pönk fyrir minn smekk Enda vanur skemmtilegra sveitamanns + úthverfa pönki úr Kópavoginum í anda Fræbbblanna, Snillinganna og Taugadeildarinnar, sem eru allt gamlar og góðar Kópavogshljómsveitir. Já, svona var nú það.   

Steinn Skaptason (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 03:41

49 identicon

Mikið rosalega er ég sammála þér Steinn varðandi Einar Örn Benediktsson, því að sviðsframkoma hans og vita laglaus röddin hefur alltaf pirrað mig. Ekki bara varðandi það sem hann gerði með Prurrki Pillnikk, heldur líka það sem mér finnst hann hafa eyðilagt fyrir þeirri annars ágætu hljómsveit Sugarcubes. 

Stefán (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 09:20

50 identicon

Nokkur nöfn minni spámanna sem hefði mátt taka með:

Ljótu hálfvitarnir (virkar eiginlega bara upp á norðlensku) 

Ripp, Rapp og Garfunkel (einn undanfara Ljótu hálfvitanna. Og þetta er víst íslenska!) 

Urmull 

Hraun

Múgæsing 

Gummi (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 10:22

51 Smámynd: Kristín Erla Kristjánsdóttir

kolrassa krókríðandi klikkar ekki!!

nefrennsli finnst mér líka alltaf soldið sætt hljómsveitarnafn...

Kristín Erla Kristjánsdóttir, 4.3.2008 kl. 14:53

52 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

200000 naglbítar, finnst mér ófrumlegt nafn. það minnir um of á 10000 maniacs.

Brjánn Guðjónsson, 4.3.2008 kl. 15:48

53 identicon

Vonbrigði er vissulega eina hljómsveit landsins sem aldrei stóð undir nafni. Nefrennsli er líka minnisstætt.

Grétar (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 17:51

54 identicon

Kuml var ágætt nafn, bæði þjóðlegt og pönkað.

Gunnar Hrafn Jónsson (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 18:32

55 identicon

Hljómsveitin Hugsýki fær atkvæðið mitt! Þetta er alveg hrykalega töff nafn á bandi!

Dóri (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 22:36

56 Smámynd: Jens Guð

  Brjánn,  nafnið 200.000 naglbítar er sótt í bók eftir Halldór Laxness.  Pabbi Villa "naglbíts" var í hljómsveit með þessu nafni fyrir daga hinnar ágætu hljómsveitar 10.000 Maniacs.  Naglbítarnir kölluðu sig fyrst einhverju nafni upp á ensku en yfirtóku síðan nafn hljómsveitar pabba gamla þegar þeir fóru að semja sönglög með íslenskum textum.

Jens Guð, 5.3.2008 kl. 00:15

57 Smámynd: Jens Guð

  Kristín,  ég tek undir það að nafnið Nefrennsli var/er "töff fyrir pönksveit.  Rifjast þá upp þegar bassaleikari Nefrennslis,  Jón Gnarr,  flutti til Ísafjarðar og spreyjaði nafn hljómsveitarinnar á vegg á Ísafirði.  Heimamenn áttuðu sig ekki á að þetta var nafn á hljómsveit heldur héldu að Jón væri að hæðast að líkamlegum viðbrögðum Vestfirðinga við köldu veðri.  Ísfirskir togarasjómenn voru hóaðir í land til að lemja Jón.  Sem þeir og gerðu.

Jens Guð, 5.3.2008 kl. 00:20

58 identicon

Ég veit það samkvæmt frásögn Villa Naglbíts að hljómsveitin 200.000 Naglbítar hét áður Gleðitríóið Ásar.

Þannig að þetta er þriðja hljómsveitin sem ég veit um, sem bar nafnið Ásar. Allar þessar þrjár Ásahljómsveitir áttu það sameiginlegt að hafa verið gleðitríó, samt mjög ólík bönd og frá ólíkum tímabilum.

Eitt þeirra var early 60´s hljómsveit frá Akranesi, (gat hafa verið kvartett). Ég á alveg stórkostlega mynd af því bandi. Líklega dansvænt tvist og rokkabillý band.

Svo var annað sem var mjög sjarmerandi brennivíns gömludansa gleðitríó (gítar, rafmagns harmónikka með orgelsándi og svo trommusett), svo sungu allir og voru í eins hljómsveitar búningum/jakkafötum. Ásar gerðu það gott á árshátíðum, þorrablótum og í einkasamkvæmum, spiluðu mikið á Röðli og í Glæsibæ, sem og víðar. Þetta band sendi frá sér tvö fín lög á safnhljómplötunni Hrif árið 1974, Ámi sjálfur = ÁÁ Records gaf út. Þetta er á milli 1970 og 1980. Gömlu góðu brennivíns tríóin voru athyglisverð sérgrein í íslensku tónlistar og dansleikjalífi, skemmtistaða og félagsheimila á tímabilinu 1965 - 1980. Lengi lifi stemningin með Steina Spil !!!

Síðan kemur röðin að enn einu gleðitíói sem hét Ásar, sem hétu síðar 200.000 Naglbítar og komu frá Akureyri.

 Nú er spurning hvað hljómsveit föður Villa Naglbíts hét sem Jens minnist hér á að ofan, en Naglbítapabbinn var meðal annars meðlimur í söng og gleðisveitinni Randver, sem mér fannst mér nú ekki beinlínis skemmtileg eða athyglisverð á árum áður (1975 - 1978), en almenningur kunni vel að meta.

Það er spurning hvort Naglbítapabbi þeirra Naglbítabræðra hafi verið orginal meðlimur í Randver forðum daga (1975 - 1978). En hann var allavega með í Randver þegar bandið var endurvakið og gaf út safndisk fyrir nokkurum árum. En ég læt öðrum um frekari Randverspælingar, vegna þess að Randver hafa aldrei verið fyrir minn smekk.

Steinn Skaptason (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 04:56

59 identicon

Mér finnst þið eitthvernveginn vera að gleyma nafninu Lokbrá. Heyrði í þeim á rás 2 nokkru sinnum og fanst nafnið alveg frábært, þjóðlegt og flott.

Guðmundur Einarsson (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband