Brosleg saga af Önnu á Hesteyri - VI

  Fyrir nokkrum árum hringdi Anna á Hesteyri í Mjóafirði í fullorðna frænku okkar í Reykjavík.  Anna tíundaði fyrir frænku okkar það helsta sem borið hafði til tíðinda hjá músum og gæsum á Hesteyri.  Að nokkrum tíma liðnum segist reykvíska frænkan þurfa að skola lit úr hárinu á sér.  Hún hafði nefnilega verið í miðju kafi að lita á sér hárið þegar Anna hringdi.   

  Eftir að hafa skolað litinn úr hárinu ók sú reykvíska til næsta stórmarkaðar.  Þar gerði hún hefðbundin innkaup fyrir kvöldmat.  Þegar hún renndi aftur heim í hlað mætti hún lögreglubíl og sjúkrabíl með blikkandi ljósum í innkeyrslunni.  Henni var eðlilega verulega brugðið og spurði hvað væri í gangi.

  Henni var sagt að það væri stórslösuð eldri kona þarna inni.  Við nánari athugun kom í ljós að Anna á Hesteyri hafði reynt að hringja í reykvísku frænkuna aftur á meðan sú reykvíska var í matvöruversluninni.  Anna hafði viljað bæta einhverju við frásögnina af austfirskum músum og gæsum.  Þegar reykvíska frænkan svaraði ekki í símann lagði Anna saman tvo og tvo.  Útkoman varð þess eðlis að hún hringdi í neyðarlínuna og tilkynnti eftirfarandi:

  Að fullorðin kona hafi verið að þvo lit úr hárinu á sér og runnið til á blautu gólfinu.  Hún hafi skollið með höfuð og skrokk utan í vask og vegg og væri svo illa slösuð að hún gæti sig hvergi hrært.  Væri sennilega steinrotuð.  Henni myndi blæða út ef læknir væri ekki snöggur á staðinn og lögregla til að brjóta upp útidyrnar.

  Sú reykvíska útskýrði fyrir lögreglu og lækni hvað í raun hafði gerst.  Hún sýndi þeim inn á baðherbergið þar sem engin manneskja lá slösuð.

  Þegar gestirnir voru horfnir á braut hringdi reykvíska frænkan fjúkandi reið í Önnu og skipaði henni að senda aldrei aftur lögreglu og sjúkrabíl heim til sín.  Minnti hana á að þau hjón væru nýflutt í glæsilegt einbýlishúsahverfi og það væri neyðarlegt að kynna sig fyrir nágrönnunum umkringd lögreglu og blikkljósum.

  Anna svaraði:  "Ef ég hef vitneskju eða grun um að einhver sé slasaður þá á ég að hringja í neyðarlínuna.  Þú værir ekki svona reið við mig ef þú hefðir dottið í baðherberginu og slasast.  Þá værir þú að þakka mér núna en ekki skamma mig."   

  Fleiri sögur af Önnu á Hesteyri:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/423296


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Takk elsku vinur,fyrir þessa skemmtilegu sögu.og hafðu það sem allra best

Ps.þekkir þú Þorstein Magnússon-Gítarleikara,frábær drengur þar að ferð.

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 3.3.2008 kl. 22:48

2 Smámynd: Haukur Viðar

Hahahaha, besta sagan hingað til

Haukur Viðar, 3.3.2008 kl. 22:52

3 Smámynd: Rannveig H

Hún Anna er frábær,mikið vildi ég að hún ætti fleiri sína líka

Er sammála besta saga hingað til.

Rannveig H, 3.3.2008 kl. 23:03

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahahaha flott saga, og frábær kona greinilega hún Anna frænka þín frá Hesteyri.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.3.2008 kl. 23:10

5 identicon

Þakka fyrir sögu þessa,mikið þykir manni vænt um hana Önnu á Hesteyri.

Númi (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 23:18

6 identicon

Já, mér er farið að þykja vænt um hana Önnu, greinilega eðalkona hér á ferð! Frábærar sögur af henni, sem og afa þínum, elska þegar þú kemur með þessar sögur.

Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 23:25

7 Smámynd: Jens Guð

  Einar,  hún Anna bregst svo skemmtilega við öllum hlutum.  En það er líka rétt að taka fram að þetta var fyrir tíma almennrar útbreiðslu farsíma.

  Anna,  ég man bara að reykvíska frænkan var ansi svekkt út í nöfnu þína í langan tíma.

  Linda,  ég þekki Þorstein Magnússon og hef hannað fyrir hann plötuumslag.  Þú hefur kannski tekið eftir því að bróðir hans bloggar á www.jakobsmagg.blog.is.

  HaukurRannveig Ásthildur og Númi,  takk fyrir innlitið og gaman að því að ykkur þykir þessi saga jafn skemmtileg og mér.

Jens Guð, 3.3.2008 kl. 23:33

8 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þarna er sko Önnu rétt lýst. Hún má ekkert aumt sjá og vill ekki vita af neinum í vandræðum. Oft er hún misskilin vegna þessa og sjálf fer hún svoldið geyst í hlutina. Í ótal ferðum mínum til Mjóafjarðar hef ég kynnst hennar kostulegheitum og heyrt af henni margar góðar sögur. Já Anna Marta Gurmundsdóttir er engum lík.   

Haraldur Bjarnason, 4.3.2008 kl. 00:08

9 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég finn til andlegs skyldleika við Önnu, frænku þína, eftir að hafa lesið nokkrar sögur um hana hjá þér. En ekki við afa þinn þótt hann sé engu síðri karakter.

Lára Hanna Einarsdóttir, 4.3.2008 kl. 00:13

10 Smámynd: Jens Guð

  Haraldur,  gaman væri að heyra frá þér sögu/r af kynnum þínum við Önnu Mörtu frænku. 

  Lára Hanna,  það er gaman að þú skulir finna til andlegs skyldleika við Önnu.  Hún er yndislegur persónuleiki.  Stefán afi var töluvert öðruvísi karakter.  En ekki síður skemmtilegur eins og ég kynntist honum.  Hinsvegar tróð hann illsakir við fleiri en Anna.  Þetta er reyndar ekki rétt orðað hjá mér vegna þess að flestum eða öllum þykir vænt um Önnu sem kynnast henni.

Jens Guð, 4.3.2008 kl. 00:44

11 Smámynd: Kolgrima

Ég hef nokkrum sinnum heimsótt Önnu frænku þína. 

En í fyrsta skipti sem ég hitti hana, stökk hún skyndilega út á veginn skammt frá Hesteyri og miðaði á okkur með byssu! Mér var um og ó (lesist skelfingu lostin) en unnusti minn snarstoppaði, steig rólegur úr bílnum og heilsaði henni með virktum.

Þá hafði hún legið þarna í hvarfi (meira eða minna allan sólarhringinn í nokkra daga),  - reiðubúin til að verja varpið með vopnavaldi ef ekki vildi betur til.

Þegar við kvöddumst viku síðar, vildi hún gefa mér hawai-rós að skilnaði sem ég þáði. Við komum við á Hesteyri á leiðinni suður en þá var þessi yndislega fallega rós á stærð við frumskóg - teygði sig upp um alla veggi, næstum því hringinn í kringum stofuna. Svona hawai rós hef ég aldrei séð, hvorki fyrr nér síðar.

Það var ekki nokkur leið að koma henni inn í bílinn og svo fór að ég varð að afþakka þessa gjöf, sem var gefin af svo góðum hug. En það fyrirgaf hún mér ekki í mörg ár.

Kolgrima, 4.3.2008 kl. 03:32

12 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Önnusögur klikka aldrei með morgunsopanum.  Takk Jens minn

Ía Jóhannsdóttir, 4.3.2008 kl. 09:12

13 Smámynd: Kjartan Pálmarsson

Spurningin er: Hvort margur ætti ekki að taka Önnu á Hesteyri sér til fyrirmyndar?

Kjartan Pálmarsson, 4.3.2008 kl. 09:14

14 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

þetta er upplyfting í lagi -  takk

Pálmi Gunnarsson, 4.3.2008 kl. 09:57

15 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Skemmtileg saga.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 4.3.2008 kl. 10:47

16 Smámynd: Ragnheiður

Hehehe já og svo ég missi ekki af Önnu og afasögum í framtíðinni þá smelli ég á bloggvináttu sem áður var.

Ragnheiður , 4.3.2008 kl. 19:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband