Furðulegur hundur

  Fyrir mörgum árum var fjáreyski píanóleikarinn Kristian Blak að spila með hljómsveit fyrir dansi í Þórshöfn.  Úti var rigning og leiðindaveður.  Fyrir dansleikinn þurfti að bera hljóðfærin inn í hús.  Þá tók Kristian eftir stórum skoskum fjárhundi sem fylgdist með.  Hundinn langaði greinilega inn í hlýtt húsið en vissi ekki hvort hann væri velkominn. 

  Kristian bauð hundinum inn í hús sem hann glaður þáði.  Þegar dansleikurinn hófst lá hundurinn á sviðinu og fylgdist með fólkinu dansa.  Einn af hljóðfæraleikurunum átti erindi út í sal.  Hundurinn elti hann.  Þegar hljóðfæraleikarinn stansaði gerði hundurinn sér lítið fyrir og rétti sig upp framan á manninn.  Alveg eins og hann vildi dansa.  Maðurinn tók því að minnsta kosti þannig og steig dansspor með voffa. 

  Hundurinn var ekki góður dansari.  En reyndi sitt besta.  Er maðurinn ætlaði aftur upp á svið mótmælti hundurinn.  Maðurinn breiddi þá út faðminn og spurði hvort hundurinn vildi dansa meir.  Hvutti var fljótur að reisa sig aftur upp framan á manninn. 

  Þetta vakti mikla kátínu.  Maðurinn dansaði marga dansa við hundinn og allir höfðu gaman að.

  Þegar dansleik lauk leyfði Kristian hundinum að fara heim með sér.  Veðrið var ennþá leiðinlegt og Kristian vildi ekki vita af hundinum úti.  Hann útskýrði þó fyrir hundinum að konan sín - sem var kasólétt - vildi ekki hafa hund á heimilinu.  Hundurinn yrði að fara út um morguninn áður en konan vakni.

  Hvutti virtist skilja þetta.  Hann lagði sig við útidyrnar.  Þegar Kristian vaknaði um morguninn hleypti hann hundinum út sem var hinn sáttasti.  Seint næsta kvöld tók Kristian eftir að hundurinn beið fyrir utan.  Þar sem ennþá var leiðinlegt veður sá Kristian aftur aumur á honum.  Næstu nætur endurtók sagan sig:  Hundurinn gisti inni yfir blánóttina og fór út áður en konan vaknaði.

  Að nokkrum dögum liðnum hringdi konan i vinnuna til Kristians.  Hún sagði að stór skoskur fjárhundur mændi inn um gluggann hjá sér.  Hún velti því fyrir sér hvort að þetta væri svangur flækingshundur sem hún ætti að bjóða í bæinn og gefa eitthvað að borða.  Kristian tók vel í það.  Eftir þetta gekk hundurinn inn og út með því að opna útidyrahurðina sjálfur.  Taldi sig greinilega vera kominn með heimili.

  Konan var ekki alsátt við þetta.  Fljótlega fundu þau hjón út hver átti hundinn og komu honum til síns heima.  En hundurinn strauk strax aftur til Kristians og frú.  Þetta endurtók sig nokkrum sinnum.  Þá var hundinum komið fyrir úti í sveit.  Á stað sem heitir Kirkjubær.  Sá staður er eins og blanda af Árbæjarsafni og Hólum í Hjaltadal.

  Á Kirkjubæ tók hundurinn upp á því að leggjast flatur á veginn fast við smá hæð á veginum.  Bílstjórar urðu hundsins ekki varir fyrr en um þær mundir sem þeir óku yfir hann.  Um leið og bíllinn var kominn yfir hundinn spratt hann á fætur,  hristi sig og gekk á braut.  Mörgum bílstjóranum var illa brugðið en tók gleði sína fljótt þegar ljóst var að ekkert amaði að hundinum. 

  Einhverra hluta vegna lék hundurinn ekki þennan leik við bíla heimamanna á Kirkjubæ.  Og einhverra hluta vegna tókst honum að staðsetja sig þannig á veginum að hann lenti ekki undir hjólunum.  Nema í eitt skiptið.  Þar með voru dagar hans taldir.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Góðar sögur mega bara ekki enda svona illa... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.3.2008 kl. 16:39

2 Smámynd: Jens Guð

  Já,  ævi þessa sérkennilega hunds fékk snöggan endi.  En þakka þér fyrir upptökuna með Eivöru.

Jens Guð, 26.3.2008 kl. 16:49

3 identicon

Ég hef tekið eftir því að í sólskini kemur alltaf köttur inn um opinn stofugluggann hjá mér, kemur sér makindalega fyrir uppi í rúmi og sefur þar í nokkra klukkutíma. Fer svo aftur sömu leið og hann kom, án þess að kveðja eða gera grein fyrir sér að nokkru leyti, svona svipað og akureyrsk standpína, án nokkurs sérstaks tilefnis, hefur hann Magnús Geir sagt.

Steini Briem (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 17:11

4 identicon

( Sagt með stundinni okkar röddu ) "Þessi saga sýnir okkur það, að við megum aldrey leggjast á götur sem ætlaðar eru bílum."

Siggi Lee Lewis (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 17:58

5 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ég á svona hund sem dansar við mig af og til þegar minn elskulegi nennir ekki að hreyfa sig. 

 Hann á það líka til að liggja á miðri götu fyrir framan hús sveitastjórans þegar hann strýkur að heiman og bíður síðan bara sallarólegur þangað til yfirvaldið kippir honum upp í bílinn sinn og keyrir hann heim til föðurhúsanna.  Hann nennir einfaldlega ekki að tölta heim þennan kílómeter svo hann bara bíður eftir heimkeyrslu en alltaf út á miðri götunni. 

 Veit, þið þurfið ekkert að segja mér það, þetta á eftir að enda með ósköpum þess vegna fór ég með hann í svona snip, snap, fix um daginn.  E.t.v. hunskast hann núna til að halda sig heima. 

Ía Jóhannsdóttir, 26.3.2008 kl. 18:52

6 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Hundar eru bara merkisskepnur!

Móðir mín sveitamærin átti eitt sinn hund sem elskaði hana svo mikið, að hann grét alltaf þegar hún fór af bæ, var honum alltaf haldið inni þegar hún fór eitthvert, ella elti hann hana hvert fótmál.

Það er því engin tilviljun að talað sé um að vera hundtryggur, né að hundarnir margir hverjir séu nefndir Tryggur!

Magnús Geir Guðmundsson, 26.3.2008 kl. 19:05

7 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og kveðjur til þín Jens minn

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 26.3.2008 kl. 19:45

8 identicon

Blessaður Jenni, var það ekki Siggi Einarss. sem eitt sinn bauð hundkvkindi með sér á ball í Þórskaffi og þurfti að borga fullt verð fyrir hann eða var það Bauni?

viðar (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 20:25

9 identicon

Sæll Jens

Alltaf gaman að fylgjast með blogginu hjá þér, enda er ég ekki ein um þá skoðun að þar sé mikill penni á ferð

Þetta er skemmtileg saga um hund, enda langar mig að eignast einn sjálf... Svona til þess að hafa frá einhverju að segja

Svo að ég fari nú úr einu skemmtilegu í annað súrara, þá langar mig til að vita skoðun þína á einu máli.

Inn á visir.is er fjallað um grófa líkamsárás sem átti sér stað aðfaranótt laugardags sl. Þar sem Böddi söngvari Dalton var skorinn á háls eftir ball á Höfn í Hornafirði.

Persónulega finst mér þetta afar grimmilegt athæfi, og að það vanti algjörlega að fjallað sé um þetta í öðrum fjölmiðlum.

Afhverju ætli þetta mál sé þaggað svona niður? Hver er þín skoðun?

Bestu kveðjur og þakklæti fyrir gott blogg

HS

Halldóra S (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 22:23

10 Smámynd: Róbert Tómasson

Magnaður hundur Jens, aldrei áður heyrt af svona dansóðum hundi, en oft af hundum sem vilja skaka sér á því sem þeir eiga ekki að skaka sér á, varð vitni að einu slíku atriði þegar ég var gutti og læt söguna fljóta með. 

Þetta var í þá daga þegar vörur voru bornar heim í bréfpokum, bæjarstjórafrúin okkar ákaflega myndarleg og fínleg kona var að koma útúr matvöruverslun bæjarins með úttroðna bréfpoka í hvorri hendi, þetta var ákaflega fallegur dagur og hún var í frekar stuttu pilsi, þó ekki pínupilsi, þegar hundur sem hét Kolur, af einhverju risa krulluhunda kyni, kemur askvaðandi, skellir sér á annað lærið á frúnni og byrjar að skaka sér eins og líf hans liggi við.  Ég man ennþá svip bryggðin á þeim báðum, fryggðarsvipur á hundinum og skelfingarsviður á frúnni, óborganlegt verst að ég var ekki búinn að eignast fyrsta Kodacin minn þá.

Róbert Tómasson, 26.3.2008 kl. 22:39

11 Smámynd: Jens Guð

  Steini,  "kötturinn fer sínar eigin leiðir," segir orðatiltækið réttilega.

  Siggi,  mæl þú manna heilastur.

  Ingibjörg,  Kristian Blak var síðar sagt að skoskir fjárhundar hafi mikla hreyfiþörf.  Þess vegna hafi verið óþægilegt fyrir hundinn að liggja hreyfingarlaus uppi á sviði og horfa á allt fólkið dansa.  Þinn hundur er sennilega ekki skoskur fjárhundur fyrst að hann nennir ekki að ganga heim.

  Maggi,  hundar eru svo tryggir eigendum sínum að það jaðrar við geðveiki.

  Linda,  takk fyrir innlitið.

  Viðar,  ég man ekki eftir þessu með hundinn.  Hinsvegar man ég eftir því þegar ég,  Siggi Einars,  Bauni og Óli Þór vorum á fylleríi á Sauðárkróki.  Einhverra hluta vegna flæktumst við inn á verbúð um miðja nótt þó að ég muni ekki til að við þekktum neinn þar.  Einhver hastaði á okkur og bað um að tillit yrði tekið til þess að þarna væri sofandi fólk sem þyrfti til vinnu um morguninn.  Siggi tók skammirnar svo nærri sér að gráti nær stundi hann:  "Fyrst að ég er svona leiðinlegur þá skal ég bara skríða undir rúm."  Sem hann og gerði.  Þurfti maður að ganga undir manns hönd til að dekstra Sigga undan rúminu. 

  Jóhann,  láttu mig kannast við þetta.  Á skólaárum mínum sögðu kennarar mínir höstuglega "Jens Kristján" ef þeir töldu sig þurfa að aga mig.

  Halldóra,  ég heyrði að Markús Þórhallsson tók viðtal við söngvara Dalton í dag út af þessu.  Einnig heyrði ég að dægurmálaútvarp rásar 2 auglýsti umfjöllun um þetta sama mál.  Til viðbótar las ég frétt í einhverju dagblaði um þetta.  Ég held að það hafi verið lítil klausa í Fréttablaðinu (frekar en DV). 

  Mér heyrist að þarna hafi í raun verið um morðtilraun að ræða.  Kannski var árásin ekki hugsuð þannig af hálfu ofbeldismannsins.  En litlu mátti muna að illa færi.  Söngvarinn missti 2 lítra af blóði og höfuðið var fest á hann aftur með 50 saumsporum eftir að honum hafði verið flogið til Reykjavíkur í sjúkraþyrlu.

Jens Guð, 26.3.2008 kl. 23:04

12 Smámynd: Jens Guð

  Robbi,  ég sé þetta fyrir mér.  Hehehe!  Aumingja frúin.

Jens Guð, 26.3.2008 kl. 23:42

13 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Hann er reyndar af skosku og  írsku sem er bland af Labrador og Irish setter og kallast Golden Retriver. Á að elska að synda í ám en hann hefur aldrei dýft loppunni hér ofan í ána sem liggur hér við túnfótinn.  Held bara að honum finnist hún of gruggug. En hann elskar að láta baða sig í baðkarinu. 

 Ég segi stundum að hann sé eini fjölskyldumeðlimurinn sem sé aristokrat.  Hann drekkur ekki bjór en getur þambað kampavín. Hann ennir ekki í langa göngutúra, ef ég fer með hann út í meir en klukkutíma þá leggst hann bara niður og neitar að standa upp þar til honum sýnist svo. Þrjóskari en ....... samt algjör dúlla.    

Ía Jóhannsdóttir, 27.3.2008 kl. 00:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband