Útdráttur úr spennandi bók

Niðri á sextugu

  Hér fer á eftir útdráttur úr bókinni frábæru  Niðri á sextugu:

Samkeppnisvorið 1972

Svo haldið sé á með samvinnu Kjartans Sigmundssonar og frænda hans, Tryggva Guðmundssonar, var það vorið 1972 að Tryggvi er kominn vestur eftir lögfræðinám vetrarins og með honum Þórunn Guðmundsdóttir sem varð eiginkona hans. Kemur þá Kjartan til Tryggva og falar hann með sér í bjargið. Tryggvi brást vel við því og fór konuefni hans með bjargmönnum norður. Þá var svo komið að tvö gengi voru í bjarginu og vantaði Kjartan sárlega mann. Mikið af eggjum hafði verið borið saman í bjarginu og nú þurfti bara að slaka þessu niður og koma því á markað. Með Kjartani voru í liði þeir Brynjólfur Óskarsson og Sigurður Bjarnason frá Ísafirði. Finnbogi Jónasson úr Bolungarvík á Ströndum var foringi fyrir hinu liðinu á Bryndísi sinni og með honum Trausti Sigmundsson, Konráð Eggertsson, síðar hrefnuskytta, Gísli Hjartarson Ísfirðingur og Hálfdán Guðröðarson frá Kálfavík í Djúpi. Voru liðin hvort í sínu húsinu á Horni og ekki laust við að glímuskjálfti gerði vart við sig. Allt var þetta einvalalið hugaðra manna. Nú er þar til að taka að stíf norðanátt hafði ríkt síðustu viku og þungur sjór og hvorugt liðið treyst sér undir bjargið frá sjó til þess að ná í kúlu þá sem jafnan var send niður og vaðurinn var hnýttur við í þeim tilgangi að koma vírnum upp. Slík gnægð eggja hafði verið borin saman í hrúgur í bjarginu að ekki var viðlit að bera það allt á bakinu niður enda hvergi hægt að koma báti að. Vill þá svo til að kemur maður gangandi yfir fjall og er kominn alla leið úr Veiðileysufirði. Er þar kominn Björn nokkur Karlsson leikari sem verið hafði við kennslustörf á Ísafirði. Björn var hörkumaður og hann fer með Kjartani undir bjarg að skoða aðstæður. Skiptir engum togum að Bjössi kastar sér fyrir borð og syndir í gegnum brimgarðinn og kraflar sig upp í grýtta fjöruna. Hinir eru þá álengdar á Bryndísinni stórhneykslaðir í talstöðinni á þessu framferði Bjössa.

Fífldirfska

Einkum hafði Konráð Eggertsson stór orð um þá fífldirfsku að senda mann út í brimgarðinn, eiginlega út í opinn dauðann. Þeim frændum Kjartani og Tryggsinni. Nema að egg voru óborin saman úr Gránefjunum. var kom saman um að Konni hefði ekki hneykslast jafnmikið á þessu atferli hefði það verið honum í hag. Björn hefur engar vöfflur á, tekur kúluna og syndir gegnum brimgarðinn og er halaður upp í bátinn hjá Kjartani. Þar með voru þeir í góðum málum og blasti nú við að þeir hefðu forskot í markaðsmálum á Ísafirði og víðar um land. Þannig stóðu málin þegar Tryggvi Guðmundsson kom norður með Þórunni heitkonu Nema að egg voru óborin saman úr Gránefjunum.

Gáfaðasti fuglinn

Nú þótti liði Finnboga Jónassonar í nokkurt óefni komið og líklegt að þeir yrðu að láta í minni pokann fyrir Kjartani Sigmundssyni og félögum. Endaði með því að Trausti Sigmundsson lagðist undir feld og kom ekki undan honum fyrr en hann hafði upphugsað aðferð til þess að koma vírnum upp við ófærar rætur Hælavíkurbjargs. Fara þeir nú upp í bjargið og skipaði Trausti Hálfdáni Guðröðarsyni að færa sér lifandi svartfugl sem nóg var af í bjarginu. Dáni hafði vaðið fyrir neðan sig og kom með fjóra fugla í fanginu. Virti hann fyrir sér andlitssvip hvers og eins og einkum gogg og augnaráð, hver mundi gáfaðastur af þessum fuglum. Loks valdi hann einn sem hann taldi fluggáfaðan. Bundið var netagarn í fætur fuglsins og garnrúllan sett upp á sívala járnstöng sem tveir menn héldu á milli sín. Þegar allar tilfæringar voru klárar kastaði Hálfdán Guðröðarson fuglinum upp í loftið og hann flaug náttúrlega fram af bjarginu eins og eðli hans sagði honum. Féll hann brátt lóðrétt niður þegar tók í bandrúlluna og kom niður rétt hjá bátnum Bryndísi þar sem Finnbogi Jónasson var um borð. Var nú léttur eftirleikurinn að koma upp talíu við bjargið. Á þessum tíma voru komnar handstöðvar svo menn gátu talað saman í bjarginu á meðan eitthvert rafmagn leyndist á rafhlöðum. Hálfdán Guðröðarson barnaði aðeins söguna eins og hans var von og vísa. Finnbogi Jónasson, sem alltaf hefur verið seigur til aðdrátta, hafði víst ekki sleppt hinum gáfaða fugli og verið kominn með hann hálfa leið í pottinn þegar Hálfdán greip í taumana gegnum kalltæki sitt. Dáni sagðist mundu snúa Finnboga úr hálsliðnum ef hann dræpi fuglinn eftir afrek hans að fljúga með spottann og bjarga þar með heiðri allra í liðinu.

  Framhald í næstu færslu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband