Hrikalegar lýsingar á fjölskylduillindum

  Eftirfarandi texta rakst ég áðan á fyrir tilviljun.  Hann er skrifaður af konu sem heitir Fanney.  Bróðir hennar virðist hafa verið í fréttunum að undanförnu og fram kemur að móðir þeirra lét hafa eitthvað eftir sér í DV.  Ég veit ekki hvaða fólk þetta er en þetta er ákall um hjálp.  Ég stytti textann mikið en meðal þess sem Fanney segir er eftirfarandi:


  "Þetta byrjaði þegar að þessi kona,  sem ég vil ekki lengur kalla móður mína,  henti bróður mínum út.  Við (hjónin) vorkenndum honum og gátum ekki hugsað okkur að hann væri á götunni.  Við tókum hann inn til okkar, veittum honum húsaskjól, fæði og þvoðum af honum.  Hjálpuðum honum einnig með peninga.  Ég reyndi að tala við móður okkar um að taka strákinn aftur heim, en hún sagðist aldrei vilja sjá hann aftur og hótaði öllu illu ef hann myndi gista hjá okkur.  Hún gaf í skyn að hún myndi láta skemma bílinn sem hann var á og lét fylgja að ég ætti að vita hvers hún væri megnug.

  Sama kvöld hringdi hún í móður sína (sem ég ólst upp hjá) alveg brjáluð út af því að ég skyldi taka við bróðir mínum og leyfa honum að vera hjá okkur.  Hún sagðist skyldi hefna sín og láta skemma bílinn.
 

  Næsta morgun er bróðir minn ætlaði til vinnu var búið að brjóta afturrúðuna í bílnum. Við hringdum á lögregluna sem sá strax á ummerkjunum að þetta var skemmdarverk.


  Upp frá því höfum við fengið hótanir og ljót sms sem ég geymi öll,  meðal annars morðhótun frá einu systkina minna.

  Við reyndum allt til að hjálpa bróðir mínum.  Í eitt skiptið fór hann til mömmu að ná í eitthvað dót sem hún neitaði honum um.  Hann fór til lögreglunnar sem talaði við mömmu. Svona heldur þetta áfram;  ljót sms og hótanir frá móður minni í gegnum ömmu.  Lýsingarnar eru hrikalegar.  Ömmu leið illa og var hrædd um okkur eins við sjálf. 


  Svo lendir bróðir minn upp á spítala og þá hringir eitt systkinanna og biður mig að koma (þetta var að nóttu til um helgi) og sagði að foreldrarnir neituðu að koma.  Þau voru búin að vera á djamminu . Við vorum sjálf niðrí í bæ með vinum okkur og fórum beint upp á spítala.


  Þar mætir mér góð hjúkrunarkona og segir að móðir drengsins hafi beðið um það að við myndum ekki hitta hann.  En að foreldrarnir ætluðu að koma.  Við kærastinn minn fórum fljótlega heim. Þegar bróðir minn kom af spítalanum var hann farinn að vera í einhverju sambandi við foreldra sína sem var gott mál.  Við ýttum á eftir því við hann að fara heim til þeirra en vorum ekkert að reka hann á dyr.

  Hann fór að umgangast þau meira en hætti að vera eins og hann á að sér að vera.  Það var augljóst að hann var undir áhrifum einhverra efna.  Hann fór að lána öðrum bílinn okkar.  Við höfðum talað um að selja honum bílinn.  Það var hálf milljón áhvílandi á bílnum og bróðir minn var búinn að borga 140 þúsund inn á hann.  Við vildum fá bílinn heim en bróðir minn neitaði.  Þá tilkynntum við bílinn stolinn.

  
  Þetta lagðist illa í bróðir minn.  Hann kom heim til mín eitt kvöldið - þar sem við vorum með vinafólk í mat ásamt börnum okkar.  Hann var að ná í föt og eitthvað dót. Hann var í vondu skapi og hrinti litlu dóttir minni og hún fór að gráta.  Þá vísuðum við honum út.  Hann brást við með hótunum og kjafti og neitaði að skila bílnum.

   Við sögðum að hann mætti taka bílinn til að flytja dótið sitt og koma með hann aftur.  Hann sagðist þá ætla að skemma bílinn,  velta honum og rústa. Svo fór hann út með lyklana.  Kærastinn minn og kunningi okkar fóru á eftir honum.  Þegar út er komið, keyrir bróðir minn á manninn minn með opna hurð, með þeim afleiðingum að hann dettur næstum.  Þeir báðu bróðir minn um að róa sig niður en hann réðist þá á manninn minn.  Kunningi okkar þurfti að taka hann af manninum mínum.  Síðan fóru þeir inn með bíllyklana og við öll í sjokki.  Á meðan við biðum eftir lögreglunni þá heyrum við brothljóð og læti og bróðir minn kemur stökkvandi yfir grindverkið hjá okkur (erum á jarðhæð) og ræðst að okkur þar með kjaft.  Enginn af okkur gerði honum neitt,  öfugt við það sem móðir hans segir á dv.is.


  Bróðir minn braut rúðu fyrir utan heimilið og sparkaði í bílinn fyrir framan lögregluna. Eftir það byrjuðu handrukkarar á vegum mömmu og hans að hringja og hóta okkur. Komið var niður í vinnu til kærasta míns og honum hótað.  Það var ráðist á hann og voru vitni að því.  Hann slapp ómeiddur en með í för voru þessi bróðir minn,  systir mín og vinir þeirra.


  Í eitt skipti var ég stödd fyrir utan vinnuna hjá manninum mínum að bíða með barnið í bílnum.  Við ætluðum að fara saman og fá okkur að borða.  Þá kemur hópur af strákum,  opnaði dyrnar hjá mér og ógnuðu mér.  Barnið mitt var hrætt aftur í bílnum svo ég steig út úr bílnum því ég var hrædd um barnið.  Þá kom maðurinn minn út og þeir hótuðu okkur og voru með skæting.  Ég kallaði á lögregluna og einn af þessum "handrukkurum" - eins og bróðir minn kallaði þá - var handtekinn.


 Fleiri menn voru látnir hringja og hóta og oftar en ekki þurfti ég að hringja á lögregluna. Við erum orðin þreytt á þessum árásum á okkur og að þurfa að vera með annan fótinn inni á lögreglustöð.  Við viljum fá frið.

  Kærastinn minn sagði við bróðir minn frá upphafi að 140 þúsund kallinn fengi hann aftur þegar bíllinn væri seldur. En það er búið að skemma bílinn fyrir hátt í 300 þúsund kall.  Í eitt skipti var ég að keyra ömmu heim af spítalanum og barnið var með í bílnum.  Þá kom þessi bróðir minn á skellinöðru með hótanir og gefur í þannig að bæði amma og barnið urðu svo hrædd að þau hágrétu bæði og hann rak hjólið í fótinn á mér.  Ég hringdi á lögguna.  Þá fór hann og eftir vorum við þarna miður okkar grátandi til skiptist.
 

  Það nýjasta er að bílnum var stolið af bílasölu núna síðasta föstudag.  Gaur á vegum bróðir míns og þeirra fór að reynsluaka bílnum og skilaði honum ekki aftur en hringdi í mig og sagðist vera með bílinn og hann sé að innheimta fyrir þetta fólk.  Ég fengi bílinn ekki fyrr en skuldin væri greidd og núna væri hún orðin 380 þúsund, samkvæmt þeim. Bílinn fannst en þá var búið að skemma skottið/læsinguna og gera brunagöt í innréttinguna.

  Þessi svokallaða móðir mín er búin að hringja í ömmu með svívirðingar, hótanir og stæla og láta hana bera skilaboð/hótanir í okkar garð. Öll fjölskyldan er komin í málið.  Amma og afi eru aldraðir sjúklingar og sárt að horfa upp á þetta og að fá hótanir og fleira.  Reglulega er eitthvað af þessu liði að rúnta fyrir utan heima hjá okkur. Og svo þessar ósönnu yfirlýsingar frá mömmu á dv.is.


  Það er ekki okkar sök hvernig komið er fyrir bróðir mínum og að hann var handtekinn fyrir þjófnað.
Í stað þess að taka á vandanum og vera til staðar fyrir barnið sitt þá er reynt að snúa vandamálinu yfir á okkur og verið að skemmta sér allar helgar og sífellt reynt að gera fólki illt.

  Það er ekki gaman að fá reglulegar hótanir um að einn daginn muni við hverfa eða lýsa því sem á að gera við okkur.
  Við viljum koma þessu á framfæri þar sem búið er ljúga upp á okkur hér og  þar og gera okkur illt. Við viljum engum illt og engan særa.  Bara fá fjölskyldufrið."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er alveg rosalegt að heyra.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.3.2008 kl. 21:27

2 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ég segi nú bara aumingja fólkið.  Hvernig er það ætli sé ekki hægt að fara fram á lögregluvernd eða setja umgengisákvæði gagnvart svona yfirgangi?

Ía Jóhannsdóttir, 24.3.2008 kl. 21:33

3 identicon

Sjúkt ástand þarna.Ekki veit ég um nein ráð þegar svona er en þau eiga alla mína samúð.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 21:42

4 Smámynd: Hagbarður

Þetta eru yfirleitt aumingjar þetta hyski sem níðist á öðru fólki. Skárri kostur að standa upp og berja frá sér, þó að maður fái högg á móti, heldur að en að láta þessa ræfla stjórna sínu lífi.

Hagbarður, 24.3.2008 kl. 21:47

5 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur,  ég hrökk við þegar ég las þetta.

  Ingibjörg,  ég þekki dæmi um það þegar menn ofsækja fyrrverandi konur sínar.  Það er meiriháttar mál að fá nálgunarbann og lögregluvernd.  Hótanir og eignaspjöll duga ekki til.

  Birna Dís,  ég kann því miður ekki heldur nein ráð.

  Hagbarður,  það er klárlega eitthvað mikið að.  Ég sá ekki viðtalið við mömmu stelpunnar í DV þannig að þetta er eina hlið málsins sem ég hef heyrt.   

Jens Guð, 24.3.2008 kl. 22:07

6 identicon

Samkvæmt 110. grein Laga um meðferð opinberra mála er heimilt að leggja bann við því að maður komi á tiltekinn stað eða svæði, veiti eftirför, heimsæki eða setji sig með öðru móti í samband við annan mann, ef rökstudd ástæða er til að ætla að hann muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á. Lögregla gerir kröfu um nálgunarbann. Nálgunarbanni skal markaður ákveðinn tími, þó ekki lengur en eitt ár, og það verður ekki framlengt nema til komi nýr dómsúrskurður.

Í 232. grein Almennra hegningarlaga segir að ef maður brýtur gegn nálgunarbanni varði það sektum eða fangelsi allt að einu ári, og ef brot er ítrekað eða stórfellt, geti refsing orðið fangelsi allt að tveimur árum.

Nýjasta nýtt í dularfulla Frank og Jóa-hausskúpumálinu:

Samkvæmt lögreglumanninum Grana var rætt við konu í kveld sem segist vera eigandi hauskúpunnar, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum frá því í gærkveldi. Konan, sem ekki vildi láta nafns síns getið, þvertók fyrir að eitthvað gruggugt væri við hauskúpuna eða við það hvernig hún komst í hennar hendur. Konan segir að hauskúpan hafi verið í eigu tengdasonar síns en hann hafi erft hana frá afa sínum, sem hafi verið læknir, og hann hafi fengið hauskúpuna til rannsókna.

Að sögn Grana er höfuðkúpan líklega úr konu eða barni sem lést fyrir tíu til þrjátíu árum. Konan sagði að einhvern veginn hafi hauskúpan ratað frá tengdasyninum til sín. Hún hafi svo haft hauskúpuna til skrauts og sem öskubakka í hjólhýsi í sínu í Kjósarhreppi, í hlaðvarpanum hjá Bubba Morthens.

Steini Briem (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 22:31

7 Smámynd: Ómar Ingi

Nota hauskúpu sem öskubakka

Ojjjjjjjjj

Ómar Ingi, 24.3.2008 kl. 22:45

8 Smámynd: Jens Guð

  Steini, takk fyrir þennan fróðleik.  Lögin um nálgunarbann hljóma betur en raunveruleikinn.  Þó að heimild fyrir nálgunarbanni sé til staðar í lögum þá er henni ekki beitt nema ofbeldismaðurinn sé búinn að hálfdrepa fórnarlambið ítrekað.  Miðað við þau dæmi sem ég þekki - og ekki hefur tekist að ná fram nálgunarbanni - þá hef ég grun um að þau tilfelli þar sem gripið hefur verið til nálgunarbanns á Íslandi nái ekki einum tug. 

  Varðandi Frank og Jóa-hauskúpumálið:  Ég veit ekki hvort að það er umrædd kona - eða annar eigandi hauskúpunnar - sem segist við lögreglu hafa staðið í þeirri trú að hauskúpan væri af hundi eða kind.  Og bætti við að sér þætti viðbjóðslegt að hafa haft hauskúpu af manneskju í sínum hýbýlum.

   Ómar,  forfeður okkar,  víkingarnir,  höfðu þann hátt á að drepa fólk eitt árið og vitja beinagrinda af því næsta ár og skála í mjöð í hauskúpunum.  Það er orðið upphrópunin "Skál!" komin og samstofna enska orðinu scalp.

Jens Guð, 24.3.2008 kl. 23:11

9 Smámynd: Jens Guð

  Jóhann,  þessar fjölskylduerjur í fjölmiðlum fóru framhjá mér.  Kannski vegna þess að þær fóru fram á meðan ég var í Fjáreyjum.  En lýsing Fanneyjar sló mig.  Það er kannski óraunhæf óskhyggja að halda að svona dæmi séu sjaldgæf. 

  Allt annað:  Ég sá út undan mér bút úr þætti með Jay Leno áðan.  Ég veit svo sem ekki hvað Jay Leno er góð heimild.  Mér er þó kunnugt um að hann sé republikani en ekki harðlínuaðdáandi Brúsks fremur en aðrir þokkalega vel gefnir Bandaríkjamenn.  Jay sagði frá því að Brúskur hafi aðspurður um að bensínverð á Hawai væri í sögulegu hámarki svarað því til að hann hefði meiri áhyggjur af bensínverði í Bandaríkjunum.  Brandarinn hjá Jay gekk greinilega út á það að Hawai er í Bandaríkjunum. 

Jens Guð, 24.3.2008 kl. 23:47

10 identicon

Þetta er verulega undarleg frásögn, svo vægt sé til orða tekið.  Ég þekki nákvæmlega ekkert til málsins sem hér er vísað til, né fólksins sem um ræðir - og verð að segja að ég er litlu nær eftir lesturinn. Á "Fanney" mann, eða á hún kærasta? Eða á hún mann OG kærasta, sem skiptast á að verja hana og hennar heimili og bíl? Eru þau Fanney og "bróðir" hennar samfeðra, sammæðra, eða eru þau alsystkini? Afhverju var bróðirinn fyrst óvelkominn á heimili móður sinnar (og jafnvel Fanneyjar, þótt það sé ekki alveg á tæru), en skömmu síðar orðinn þar heimagangur og versti óvinur (hálf?)systur sinnar, sem þó á að hafa reynst honum svo vel þegar hann var hjálpar og húsaskjóls þurfi? Hvað er hægt að skemma einn bíl oft áður en hann verður að verðlausri druslu? Hversvegna lánar "Fanney" bróður sínum bílinn aftur, eftir að hafa gert það einusinni og ekki fengið hann aftur og meiraðsegja tilkynnt hann stolinn eftir að hún lánaði hann í fyrra skiptið? Hvernig knýr maður vél skellinöðru svo ógnvænlega að gamalmenni og börn verða skelfingu lostin? Hverjum skuldar "Fanney" 380 þúsund og fyrir hvað? Ef það er bróðir hennar sem skuldar 380 000, hversvegna eru það þá menn "á hans vegum" sem eru að rukka "Fanneyju" og manninn hennar - eða kærastann - eða báða - um þá upphæð? O.s.frv.

Það sem skelfir mig mest við þessa frásögn er hve óskiljanleg hún er - og hvað það eru margir tilbúnir að skilja hana engu að síður - á versta veg - og trúa henni.

Ævar (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 00:13

11 identicon

Dularfulla hauskúpumálið, Part 2:

Jamm, "eiganda" hauskúpunnar fannst það "algjör viðbjóður" að hauskúpan skyldi vera hauskúpa, eftir að eigandinn komst að því að hauskúpan væri hauskúpa, það er að segja eftir að búið var að segja eigandanum að hauskúpan væri hauskúpa. Rannsóknarlögreglumaðurinn Grani bað mig hins vegar um að koma því á framfæri að hann sé ekki eigandi hauskúpunnar.

Þýskur kvenlæknir (ekki kvensjúkdómalæknir) sem ég var með einu sinni, Gudrun Mengele, sem lærði læknisfræði í Þýskalandi og var læknir á Lansanum, sagði undirrituðum í óspurðum fréttum að strangar reglur giltu í Þýskalandi um meðferð á þeim líkamspörtum sem gefnir hefðu verið af eigendum sínum læknanemum til rannsóknar, og stöðugur skortur væri á slíkum eigendum, og fyrrverandi eigendum, í Þýskalandi.

Ég man nú ekki hvað íslensku kvenlæknarnir, sem undirritaður var með, Gerður og Elsa, sögðu um þetta atriði, en ég geri ráð fyrir að það sama sé uppi á teningnum hjá íslenskum læknanemum.

Aftur á móti stillti eistnesk læknastelpa, sem ég var með einu sinni, Piret, sér upp við hliðina á einum slíkum eiganda, sem hafði ekki gefið sig til læknanema, heldur verið hirtur upp af götu í Tartu sem dauður flækingur, eistneskum læknanemum til happs, og sendi undirrituðum mynd af sér og hinum dauða flækingi í tölvupósti, báðum glaðlegum á svipinn. Ég geri því ráð fyrir að reglur um meðferð opinberra en látinna líkamsparta séu á einhvern hátt á annan veg hjá Eistum en þýskum og íslenskum læknastelpum og þar séu hauskúpur ekki undanskildar.

Steini Briem (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 00:19

12 Smámynd: Pétur Kristinsson

Mér finnst þetta með  "manninn" og "kærastan" hártoganir hjá þér Ævar. Skiptir akkúrat engu máli. Reyndu að finna aðalatriðin í sögunni og þú færð út dæmigerða sögu frá fórnarlambi fíkniefnaheimsins. Þetta er alltof algengt í dag. Eins sagði Jens að hann hefði stytt textann mikið og það kannski slítur hann eitthvað úr samhengi en engu að síður er þarna trúverðug frásögn enda hef ég heyrt þær mun verri úr þessum ljóta heimi, því miður.

Pétur Kristinsson, 25.3.2008 kl. 00:26

13 identicon

Vatt mér í að lesa mér til um málið á dv.is og svo á vef Fanneyjar - og er engu nær.

Þetta er eitt allsherjar rugl frá a-ö, og erfitt að fá nokkurn botn í þetta mál annan en þann, að á báðum bæjum er eitthvað mikið að. Og svo þann, auðvitað, að báðir málsaðilar, og flestir, ef ekki allir, sem eitthvað hafa til málanna að leggja á bloggsíðu Fanneyjar, eru svo gott sem óskrifandi á íslensku. Hvaða máli sem það nú skiptir.

Ævar (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 00:30

14 Smámynd: Jens Guð

  Ævar,  er kærasti ekki það sama og eiginmaður?  Ég ætla að þetta sé sambýlisfólk og foreldrar ungs barns.  Það les ég út úr textanum. 

  Það kemur ekkert fram í textanum hvort að Fanney eða bróðir hennar eða önnur systkini eru samfeðra eða hálfsystkini.  Það breytir heldur engu um málið.

  Ég get alveg fallist á að ég þurfti stundum að hugsa mig um tvisvar til að átta mig á atburðarrásinni.  Jafnframt umskifaði ég hluta af textanum til að hann yrði skiljanlegri.  Ég var blaðamaður í þrjá áratugi og vann við að semja auglýsingatexta í 15 ár.  Ég kannast mæta vel við að það er ekki öllum gefið að skilja á milli þess sem viðkomandi er að reyna að koma á framfæri og því að setja aðra í þeirra spor.  Fanney er klárlega "amatör" í því og texti hennar ber þess merki.  Hinsvegar kem ég ekki auga á ástæður til að draga hennar orð í efa af því hvernig hún upplifir atburðarrásina.  Ef ég væri hennar blaðafulltrúi þá myndi ég setja textann fram allt öðru vísi.

  Steini,  þetta virðist stefna í flókið mál.  Það sem eigandinn hélt að væri afétinn sviðakjammi er allt í einu orðið 10 ára gömul hauskúpa af barni eða manneskju. 

  Pétur,  mín stytting á löngum textanum hefur þann eina tilgang að gera textann læsilegri.  Ég stend í þeirri trú að ég hafi ekki slitið neitt úr samhengi.  Heldur þvert á móti reynt að setja atburðarrás í betra samhengi.  Án þess að ég vilji gera lítið úr frumtexta Fanneyjar þá er hann dálítið þannig að hún reiknar með að lesandinn þekki til málsins.  Ég þekki ekki til málsins og laga textann að því að aðrir lesendur þekki heldur ekki til málsins.

  Ævar,  af því að ég þekki ekki aðra hlið á málinu og kann ekki að leita það uppi (ég kann ekkert á tölvu eða internet) þá ertu kannski til í að vísa á málflutning mömmunar.      

Jens Guð, 25.3.2008 kl. 01:02

15 Smámynd: Pétur Kristinsson

Enda sagði ég "gæti hafa slitið hann úr samhengi" til þess að skýra út fyrir Ævari af hverju textinn var svona. Ég gerði mér reyndar grein fyrir ástæðu styttingarinnar og fannst hún góð enda skildi ég innihald textans. Ég vona að ég hafi ekki verið að móðga þig með þessu enda var tilgangurinn með þessu commenti alls ekki hugsaður sem slíkur.

Pétur Kristinsson, 25.3.2008 kl. 01:17

16 identicon

Almenn hegningarlög, 124. grein. Ef nokkur raskar grafarhelgi eða gerist sekur um ósæmilega meðferð á líki, varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.

Steini Briem (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 01:21

17 Smámynd: Jens Guð

  Pétur minn,  þú móðgar mig ekki með þínu innleggi.  Mér leikur líka forvitni á að heyra hina hlið málsins. Aftur á móti eins og Fanney lýsir sinni upplifun þá býr hún við skelfilegar aðstæður.  Það jaðrar við að ég bjóði henni að lemja þessa svokölluðu "handrukkara". 

  Steini,  er konan sem notaði hauskúpuna fyrir öskubakka í vondum málum? 

Jens Guð, 25.3.2008 kl. 01:41

18 Smámynd: Ylfa Lind Gylfadóttir

Skelfileg, skelfileg og enn og aftur skelfileg lesning, hræðilegt þegar svona pakk getur haldið fjölskyldu í heljargreipum, vinkona mín var einu sinni svo óheppin að leigja af svona rugludöllum og var með barn með sér, og alltaf að míga í sig úr hræðslu þegar eigendur íbúðarinnar fóru á fillerý, sem gat verið hvenar sem er, enda bjó hún þarna ekki lengi. Ekki gaman að fá útúrdópaðann brjálaðann spaða inn í stofu hjá sér hvenar sem honum hentar að hóta manni sjálfum og barni, ég var komin í fullt starf sem lífvörður, þar sem maðurinn af einhverjum ástæðum hlustaði á mig frekar en hana.

Þoli ekki þegar fólk seigjir, núhh ef hann borgar ekki þá á bara að senda handrukkara....... já það er akkúrat þroskaða leiðin til að taka á málonum þegar fólk getur ekki borgað skuldir sínar....hækkum skuldina og berjum viðkomandi í þokkabót

Átti áhugavert samtal um þetta um daginn, þar sem ég gaf í skyn að þetta væri nú bara alls ekki rétta leiðin, og svarið sem ég fékk var "Já en fólk fær viðvörun áður en það er lamið" Ég átti ekki orð........

Enn verra er þegar fólk er að monta sig af því að þekkja þennann og þennann spaða sem lemur mann og annann...... Hrikalega töff  æl æl æl

Ylfa Lind Gylfadóttir, 25.3.2008 kl. 02:32

19 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þetta er svona hjólhýsagarðs drama, á bara heima hjá Jerry Springer.  Hljómar of Amerískt.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.3.2008 kl. 02:47

20 identicon

Það eina sem ég hef séð af málflutningi mömmunnar (stjúpmömmunnar?) er að finna í fréttinni sem vísað er til og hún finnst á dv.is - það þarf ekki mikla tölvukunnáttu til að finna hana. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég tek ofan fyrir ykkur, sem skiljið til hlítar hvað þarna hefur gengið á, og skil satt að segja ekkert í því hvernig ykkur tekst það.

Jens, fyrir mér er (eigin)maður og kærasti alls ekki sami hluturinn. Og Pétur: Þetta eru engar hártoganir. Í sjálfu sér má einu gilda hvort viðkomandi ("Siggi") er kvæntur Fanneyju eða ekki, ég var eingöngu að vísa til framsetningarinnar og þetta var bara eitt  af fjölmörgum atriðum  sem ég tíndi til sem dæmi um endalausan ruglinginn sem finna má í þessum texta. Það gildir jafnt um styttri útgáfu Jens, sem upprunalega textann á bloggsíðu Fanneyjar (þar sem kommentin eru síst til þess fallin að varpa ljósi á það sem raunverulega gerðist, hvað sem það nú var).

Þarna er farið þvers og kruss og kruss og þvers, þessi gerði hitt og hinn þetta og svoleiðis og hinsegin en samt ekki og þó og svo framvegis.

Ég efast ekki um að þarna er heljarinnar drama í gangi. Ég efast heldur ekki um að þarna sé heljarinnar rugl í gangi. En hvernig nokkur maður þykist þess umkominn að skilja og vita hvaða drama og hvaða rugl það er út frá þessu bulli öllu saman, það er ofar mínum takmarkaða skilningi. Enn síður átta ég mig á því hvernig nokkur getur tekið afstöðu með öðrum aðilanum fremur en hinum út frá þessari endemis steypu.

Þá á ég afskaplega erfitt með að skilja hversvegna þú tekur þetta upp á þinni síðu, Jens. Ég þekki þig auðvitað bara af bloggum þínum og afspurn, en hafði sem sagt ekki á tilfinningunni að þú værir maður sem tæki svonalagað á innsoginu og blésir síðan upp í hneykslan og "guðminngóðurhvaðþettaerhræðilegt"-gírnum að óathuguðu máli.

Óskiljanlegast af öllu finnst mér þó að ég skuli yfirhöfuð vera að blanda mér í þessa lágkúrulegu umræðu - sem mér finnst einhvernveginn að ætti líka að vera fyrir neðan þína virðingu - og set hér minn lokapunkt.

ævar (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 03:50

21 Smámynd: Óskar Arnórsson

Eins og Pétur segir hér að ofan, er þetta klassísk lýsing á fíkli. Móðirinn virðist vera sú eina sem bregst rétt við..

Óskar Arnórsson, 25.3.2008 kl. 04:21

22 Smámynd: Ylfa Lind Gylfadóttir

Fann fréttina inni á dv.is og þaðan bloggsíðuna sem virðist vera búið að loka og gat ég því ekki séð hvernig færsla þessarar stúlku var, en ég ætla samt að halda áfram að signa og halelúja mig Ævar, verst að ég veit ekki yfir hverjum..... furðuleg aðstaða, en það sem mér finnst verst við þetta allt saman er að þarna er algerlega verið að brjóta á einhverjum, það er deginum ljóstara, hverjum veit ég bara ekki, en hef áhuga á því að komast að því.

En eins og Jens benti á Ævar minn þá hefur hann bara eina hlið á málinu og skrifar út frá því

Merkilegast finnst mér að það skuli vera hægt að komast með fjölskyldurerjurnar í blöðin bara si svona, maður ætti kanski að senda inn mynd af sér með tárin í augonum og grein með yfirskriftinni "fékk ekki bollastellið" fréttin gæti verið um erfðarmál.....

Ylfa Lind Gylfadóttir, 25.3.2008 kl. 04:50

23 Smámynd: Óskar Arnórsson

Algjör snilld Ylfa! Svona geta t.d. erfðamál litið út milli ættingja..Munchy

Óskar Arnórsson, 25.3.2008 kl. 05:27

24 identicon

Jens. Rannsóknarlögreglumaðurinn Grani segir að það sé allt í lagi að nota hauskúpuna á honum sem öskubakka þegar hann er dauður, til að heiðra minningu hans sem lögreglumanns. "Mér finnst þetta dáldið krúttleg hugmynd. Ég vil hins vegar að úrið mitt fái virðulega útför, ef það hættir að ganga á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar."

Steini Briem (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 11:55

25 Smámynd: Kjartan Magnússon

vá, aumingja fólkið.

Kjartan Magnússon, 25.3.2008 kl. 11:59

26 Smámynd: Ómar Ingi

Já rétt er það , en forfeður okkar , það er nú soldið langt síðan , ég er svosem ekkert agalega hneyklsaður aðalega finnst mér þetta svo ósmekklegt og creepy

Ómar Ingi, 25.3.2008 kl. 12:11

27 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Ég er sammála Ævari, þetta er engin frásögn. Það litla sem okkur er sagt er í hrópandi mótsögn.

Svo hef ég spurningu fram að færa: ef handrukkari ímyndar sér að þú skuldir honum pening, borgarðu?

Elías Halldór Ágústsson, 25.3.2008 kl. 12:58

28 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Hvernig á friðsæll einstaklingur að ganga óhrærður frá svona heimskulegri framkomu.  Og halda þessir menn að þeir fái lífið ókeypis og geti gengið um heiminn, lamið, limlest, frussað og sprengt og komist upp með það. Þvílíkir asnar. PEACE

Eva Benjamínsdóttir, 25.3.2008 kl. 13:05

29 identicon

Þessi frásögn er óskiljaleg vegna þess að þetta er frásögn úr heimi fíknar og vímuefna.Að ætla sér að botna í söguþræðinum er ekki hægt og efa ég að sögupersónurnar botni í honum sjálfar.Að DV birti þetta segir allt sem segja þarf um DV.

Jon Mag (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 17:43

30 identicon

Finnum nýja eyju til að platna þessu pakki á.

Það gerðu bretar, og viti menn, liðið spjaraði sig bara þokkalega.

Með aðsökunarbeiðni til allra þeirra, sem voru sendir fyrir brauðstuld til að fóðra börnin sín.

Það eru allir velkomnir í garðinn minn, ef þeir ætla að safna fóðri fyrir dýrin sín.

Laufeyb

laufeyb (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 20:50

31 Smámynd: Adda bloggar

ágætt hjá þér jens að fjalla um þetta mál!gott að lesa bloggið þitt

Adda bloggar, 25.3.2008 kl. 23:17

32 Smámynd: Heiða  Þórðar

ja hérna hér! ekki var þetta nú beint "beisinn" lestur fyrir svefninn...takk samt Jens minn.

Heiða Þórðar, 26.3.2008 kl. 00:23

33 identicon

ævar...góð regla er fyrir þá sem ekki vita að við venjulega fólkið tökum alltaf afstöðu með þeim sem sæta þurfa einhversskonar ofbeldi af hendi annars. Það er ekki rétt að hóta fólki, skelfa það, ræna það, ógna því osv.frv. Er það ekki ljóst? Harmleikur.

Annað mál: Spíttflippaðir líkamar með lítið hjarta eru gangandi tímasprengjur í okkar samfélagi og ekki skánar geðveikin þegar skotið er í rassgatið á sér einhverjum sterum. Sé strax í þeim tómarúmið og starandi geðveikina. Stórhættulegir bolir á ferð.

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 00:58

34 Smámynd: Jens Guð

  Ylfa Lind,  fyrir mörgum árum sá ég smáauglýsingu í dagblaði frá manni sem sagðist taka að sér að rukka afskrifaðar skuldir.  Þetta var áður en orðið handrukkun varð til.

  Ég hringdi í viðkomandi og sagðist eiga í vandræðum með að fá borgað frá manni úti á landi.  Ég hafði selt manninum slatta af vörum.  Hann lenti í vanskilum við mig.  Var formlega gjaldþrota og borgaði ekki þrátt fyrir að taka alltaf erindi mínu vel og lofa að borga.

  Rukkarinn sagði þetta ekki vera neitt mál.  Hann kynni tökin á svona gaurum.  Sagðist taka þá á sálfræðinni.  Ég lét rukkarann fá ógreiddu reikningana og ljósrit af þeim til að kvitta á handa skuldaranum við uppgjörið.  Hann fór út á land að spjalla við skuldarann.

  Nokkru síðar lagði rukkarinn inn á mig töluvert hærri upphæð en skuldin var.  Um svipað leyti hringdi skuldarinn í mig,  alveg í sjokki.  Sagði að brjálæðingur hafi brotið niður hjá sér útidyrahurðina,  lamið sig og neytt sig til að skrifa ávísun fyrir tvöfalldri þeirri upphæð sem hann skuldaði. 

  Ég hringdi í rukkarann og sagði að þetta væri ekki uppskrift að innheimtu sem ég kynni að meta.  Jú,  hann sagði að þetta væri trixið:  Að láta skuldaranum bregða,  fá sjokk og vilja allt til vinna að komast klakklaust frá vandræðunum.

  Hvað varðaði tvöföldu upphæðina þá hafði rukkarinn í ógáti gleymt því að ljósritin voru afrit af reikningunum.  Hann lagði í fljótfærni óvart saman upphæðirnar á þeim og reikningunum. 

  Ég endurgreiddi skuldaranum þá upphæð sem hafði verið ofrukkuð og eftir stóð þá lítið vegna þess að rukkarinn hélt eftir - að mig minnir 50% - af því sem hann hafði rukkað,  samkvæmt upphaflegu samkomulagi.  Ég batt þar með enda á frekari viðskipri við rukkarann.  Vinnubrögð hans voru ekki mér að skapi.

Jens Guð, 26.3.2008 kl. 01:26

35 Smámynd: Jens Guð

  Jóna Kolbrún,  sem betur fer er svona fjölskyldudrama mér framandi.

  Ævar,  ég hef tekið fram að ég þekki ekki til málsins umfram það sem Fanney ber á borð.  Jafnframt hef ég undirstrikað að það sé sú eina hlið á málinu sem ég hef lesið.  Ástæðan fyrir því að ég tók þetta upp er sú að mér var brugðið við yfirlýsingu Fanneyjar og vegna þess að hún sagðist telja brýnt að koma sínu sjónarmiði á framfæri,  ákalli um frið,  þá þótti mér gustuk að bregðast við því ákalli.  En samt með því að setja fyrirvara um að þar komi einungis fram ein hlið á málinu. 

  Mér þykir frásögn Fanneyjar átakanleg og lít á hana sem neyðarkall frá manneskju sem býr við mikinn vanda.  Bloggsíða mín er ekkert með háan standard og endurbirting á neyðarkalli Fanneyjar er ekki fyrir neðan mína virðingu.  Öll birtingarmynd ofbeldis er betur komin uppi á borði en sópuð undir teppi.

  Óskar,  ef við lítum framhjá þeim ofsóknum sem Fanney lýsir þá gerði hún sennilega rangt í því að hýsa fíkilinn,  bróðir sinn,  í stað þess að úthýsa honum.  Þar með var hún orðin meðvirk og auðveldaði honum að taka ekki á sínum málum.

  Kje,  þetta er vissulega harmleikur.

  Ómar,  þetta er "krípí". 

  Elías,  maður á aldrei að borga handrukkara.  Maður á bara að lemja hann. 

  Eva,  Give Peace a Chance.

  Jon Mag,  vissulega er þetta dálítið ruglingslegt.  En tilveran er líka ruglingsleg.

  Einar,  fólk á aldrei að samþykkja neinar kröfur frá handrukkurum.

  Laufeyb,  hvar er garðurinn þinn?

  Adda,  takk fyrir góð orð.

  Heiða,  það er bara hressandi að lesa um vandamál annarra.

  Axel,  mæl þú manna heilastur.

Jens Guð, 26.3.2008 kl. 01:53

36 Smámynd: Ylfa Lind Gylfadóttir

Jahérnahér Jens, ekki gaman að lenda í svona spöðum, hvað á maður líka að halda þegar einhver auglýsir í blöðum, býst kanski ekki alveg við neinu gruggugu þar, ég seigji bara grey kallinn sem lenti í honum, og gott hjá þér að endurgreiða manninum....... allt er nú til

Ylfa Lind Gylfadóttir, 26.3.2008 kl. 17:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband