Af hverju hagar fólk sér svona?

  Á mínum fyrstu hjúskaparárum á áttunda áratugnum bjuggum við litla fjölskyldan á rishæð.  Á neðri hæðinni bjuggu önnur ung hjón.  Íbúðirnar höfðu sameiginlegar útidyr og litla forstofu.  Úr henni var gengið inn í sitthvora íbúðina.  Á svo gott sem hverju kvöldi og allar helgar mátti heyra hjónin á neðri hæðinni rífast heiftarlega. 

  Það var öskrað og hrópað,  lamið í borð orðum til áréttingar,  hurðum skellt og stundum var glerdiskum,  glösum eða öðru grýtt í veggi með tilheyrandi brothljóðum. 

  Rifrildin gátu staðið klukkustundum saman.  Oft með stuttum hléum á milli og svo blossuðu þau upp aftur.  Við í risinu reyndum að leiða þetta hjá okkur.  Settum bara róandi pönk með Sex Pistols eða The Clash á fóninn á meðan hamagangurinn stóð sem hæst.  Þó fór ekki framhjá okkur að ágreiningurinn á neðri hæðinni snérist oft um fjármál.  Maðurinn gargaði á konuna að hún væri heimsk eyðslukló og bruðlari.  Hún öskraði á hann eitthvað um óþolandi svíðing og nirfil. 

  Það voru engin samskipti á milli hæðanna.  Aldrei orðaskipti hvað þá spjall.  Einungis kinkað kolli í þau örfáu skipti sem við mættumst utan húss.  Ein undantekning varð á.  Þá bankaði maðurinn upp hjá okkur og spurði:

  -  Eigið þið eitthvað vantalað við mig?

  -  Nei,  hvað áttu við? 

  Hann dró fram blað þar sem á var skrifað stórum stöfum:  "Farðu til helvítis,  Nonni nískupúki!".  Hann benti á blaðið og spurði:

  -  Er þetta ekki frá ykkur?

  -  Nei,  við erum ekki með neinn svona fíflagang.

  -  Nú,  jæja.  En ef þið eigið eitthvað vantalað við mig þá vil ég að þið ræðið það við mig fremur en að hengja svona á hurðina mína.  

  Með það fór hann frekar vandræðalegur inn til sín.  Ég kunni ekki við að benda honum á að á miðanum væri konan hans áreiðanlega með innlegg í síðasta rifrildi þeirra.

  Það einkennilegasta við illvíg átök hjónanna var að utan húss voru þau áberandi ástfangin.  Þau ýmist leiddust eða föðmuðust,  hlógu og hamingjan geislaði af þeim.  Ein frænka mín vann á sama vinnustað og þau.  Þar á bæ hafði fólk aldrei séð jafn ástfangið fólk.  Hjónin notuðu hvert tækifæri til að faðmast,  kjassast og hlægja saman.      

  Ég hef lengi velt vöngum yfir þessari algjörlega tvískiptu hegðun hjónanna.  Í sumum hjónaböndum kemur upp ágreiningur sem getur þróast út í rifrildi.  En daglegt heiftarlegt rifrildi árum saman innan húss og ekkert nema hamingja utan húss er eitthvað sem ég á erfitt með að botna í.  Kannist þið við svona?  Eða áttið þið ykkur á hvaða sálfræði liggur þarna að baki?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Nei, þetta get ég hvorki skilið né útskýrt. En ætli þau séu gift enn þann dag í dag?

Lára Hanna Einarsdóttir, 27.3.2008 kl. 13:50

2 identicon

Þegar ég leigði eitt sinn íbúð á Baldursgötunni bjó ungt par fyrir ofan mig, sem gerði það alltaf á nákvæmlega sama tíma, klukkan 22 til 22.20 á sunnudags-, miðvikudags- og föstudagskvöldum. Brakið í lélegu rúminu barst um allt húsið og íbúarnir stilltu klukkuna sína eftir því. Sumum fannst þetta hins vegar óþægilegt þegar þeir voru með gesti.

Þetta atriði hafði því bæði kosti og galla í för með sér fyrir aðra íbúa hússins. En einhverra hluta vegna var þetta mál aldrei tekið upp á húsfundum, sumsé hvort meirihlutinn vildi að parið héldi þessu fyrirkomulagi eða breytti því á einhvern hátt, byrjaði til að mynda seinna, stytti tímann, fengi sér betra rúm, flytti úr húsinu eða sliti samvistir.

Steini Briem (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 14:16

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég hef aldrei heyrt um svona fyrr.  En eitthvað er sjúklegt við svona hegðun. Ætli hamingjan út á við hafi ekki verið leikaraskapur af því að hjónabönd eiga jú að vera fullkomin ekki satt.  Alveg eins og maður þarf að eiga rétta bílinn, réttu fötin og réttu vinina til að fitta inn í staðalinn.  Svona dettur það í hug. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.3.2008 kl. 14:56

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Kannski hefur þetta verið staðbundið vandamál, þ.e. að reiðin hafi blossað upp inn í íbúðinni og allt verið í sómanum utandyra.  Hm.. ef svo er þá vona ég að þau séu löngu flutt og búi hamingjusöm annars staðar.

En þetta er þó ekki líklegt.  En ég vona.

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.3.2008 kl. 15:06

5 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Kannski hafa þetta bara verið leikarar að æfa sig svona mikið á kvöldin. Ég vona það annað er 'crazy'.

Eva Benjamínsdóttir, 27.3.2008 kl. 15:56

6 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

Held svona hegðun sé ekkert einsdæmi og má svo sannarlega segja að maður veit aldrei hvað fram fer fyrir lokuðum dyrum.

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 27.3.2008 kl. 16:09

7 identicon

Þetta sem var utanhúss hefur kannski verið bara svona "sýnisamband", þ.e. þau vildu ekki láta á því bera hversu óhamingjusöm þau voru í sambandinu...?

Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 16:37

8 identicon

Já ég kannast við þetta heldur betur. Þetta getur ekki verið betri lýsing á hjónabandi foreldra minn. Nema að þau hötuðust alla tíð. Þó sérstaklega móðir mín.  Ég man aldrei eftir einu einasta augnabliki þar sem þau sátu á sárshöfði. Ekki einu sinni á jólunum. Þremur vikum eftir að faðir minn var jarðaður fyrir nokkrum árum kom móðir mín til mín og spurði hvort ég vildi fá hitt og þetta sem hann hafði átt. Ég spurði hana blíðlega af hverju hún vildi losna við þetta, sumt fallegir gripir. Þá var svarið, hún vildi ekki hafa neitt inn á sínu heimili sem minnti hana á þennan helvítis mann sem hún hefði búið með. Hún var að tala um föður minn og átti með honum 7 börn. Hún er afskaplega sérkennileg manneskja. Vond. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 17:21

9 identicon

Ég er alltaf að sjá það betur og betur hversu normal ég er... sem er soldið fúlt ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 17:38

10 identicon

Nei heyrðu nú og heyrðu nú!! Ert þetta þú Jens? Aldrey grunaði mig að það væri þú sem værir héldir þessu bloggi uppi. Snilldarblogg í alla staði! Heyr Heyr.!

En við Gugga erum alveg hætt að rífast. Enda er hún dáin blessunin. Þetta með miðaskrípið á hurðinni hafði ég nú sett sjálfur á hehe. Ætlaði að skira Gugga eyðslukló, en var svo kófdrukkinn að ég setti óvart mitt nafn í staðinn. Afsakaðu þetta með að hafa sakað þig. Það var ekki ætlunin. Ég vildi bara ekki viðurkenna þennan kjánaskap minn hehehe. Jæja, haltu nú áfram að blogga og gangi þér allt í haginn.

P.S Er plastkindin sem ég lánaði þér nokkuð sprungin? Væri gott ef þú færir að skila henni kallinn minn.

Anton Skúlasson (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 18:03

11 Smámynd: Ómar Ingi

Makeup Sex ?

Ómar Ingi, 27.3.2008 kl. 19:15

12 Smámynd: Gísli Tryggvason

Skemmtileg - eða a.m.k. athyglisverð - saga um "margbreytilega" mannlífsins - og miðað við aths. nr. 11 er þetta líka skemmtileg saga um möguleika bloggsins og smæð landsins okkar. Burtséð frá því er kvenfrelsi búið að vera tryggt nokkuð vel formlega í lögum í um 80 ár og vonandi hyllir undir raunverulega tryggingu þess þannig að ekki þurfi að hafa áhyggjur af svona í framtíðinni.

Gísli Tryggvason, 27.3.2008 kl. 20:02

13 Smámynd: Jens Guð

  Lára Hanna,  þetta dæmi er um það bil 3ja áratuga gamalt.  Ég flutti í annað hverfi og hef ekkert heyrt né séð af þessu fólki síðan.  Ég er ekki viss um að ég myndi þekkja þau í sjón í dag. 

  Steini,  svipað dæmi var í gangi í húsinu við hliðina á Þjóðleikhúsinu fyrir mörgum árum.  Um hálf 12 á kvöldin fór ljósakrónan í stofunni á jarðhæðinni iðulega að rugga í takt við taktfast brak í loftinu.  Íbúunum á jarðhæðinni þótti þetta svo neyðarlegt að þeir reyndu alltaf að koma gestum sínum úr húsi fyrir klukkan hálf 12. 

  Ásthildur og Ása Ninna,  það er einn möguleikinn:  Að framkoman utan húss hafi verið uppgerð.

  Jenny,  vandamálið var klárlega staðbundið.  Að vísu veit ég ekki hvort þau rifust líka ef þau voru tvö ein í bíl.  Hinsvegar voru bara hlátur og glaðværð þegar gestir voru í heimsókn hjá þeim.

  Fullur,  ég kannast við mörg dæmi þess að flottustu brúðkaupsveislurnar eru oftar en ekki ávísun á stutt hjónaband. 

  Eva,  þau voru að minnsta kosti ekki atvinnuleikarar.  En kannski voru þau samt að æfa leiklist?

  Erna,  vissulega veit ég af fleiri tilfellum þar sem fólk hagar sér á tiltekinn hátt heimafyrir en allt öðru vísi utan húss.  Ég kannast við hjón þar sem maðurinn lúbarði börnin þeirra og var og er meira og minna froðufellandi af pirringi og reiði heimafyrir,  bölvandi, ragnandi og skammandi allt heimilisfólkið daginn út og inn.  Konan hans er taugaveikluð og öll á nálum að gera kallinum til hæfis.

  Utan húss er kallinn ljúfur og brosmildur,  ávarpar viðmælendur með orðunum "vinur" eða "góða mín".  Konan fær aftur á móti útrás við að sýna afgreiðslufólki í verslunum og fleirum ókurteisi,  kvarta yfir hlutum og fussa.

   Bumba,  æ,  þetta er dapurlegt og það hlýtur að valda móðir þinni vanlíðan að burðast með svona viðhorf.

 DoctorE,  það eru forréttindi að vera án þess hlutverks að rífast á hverjum degi.

  Antonminn kæri,  ef þú hefðir rambað á að skrifa undir öðru og mun algengara nafni,  sem sagt nafni þess sem sagt er frá í færslunni,  þá hefði ég keypt "comment" þitt.  Nafn konunnar skiptir ekki máli vegna þess að ég er búinn að gleyma því. 

  Er þetta kind?  Ég hélt að þetta væri köttur. 

  Ómar,  kunningjafólk mitt,  par,  nefndi eitt sinn að toppurinn í kynlífi þeirra væri svokallað "sáttar-sex".  Það er að segja þegar þannig árekstrar urðu þeirra á milli að jaðraði við sambandsslit en svo náðust sættir sem voru innsiglaðir með kynlífi.  Ef til vill var eitthvað slíkt í gangi hjá hjónunum í færslunni minni. 

Jens Guð, 27.3.2008 kl. 20:05

14 Smámynd: Jens Guð

  Gísli,  hann Anton er kunningi minn að galsast. 

Jens Guð, 27.3.2008 kl. 20:07

15 Smámynd: Gísli Tryggvason

OK, kemur ekki á óvart en kjarninn er þessi með áhyggjurnar og meint kvenfrelsi!

Gísli Tryggvason, 27.3.2008 kl. 20:10

16 identicon

Já, ég hef stundum verið kallaður Nonni Skúla.

Anton Skúlasson (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 20:14

17 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Jamm og jæja Jens minn en af því þú spyrð, þá kannast ég vel við svona hegðun hjóna.  Vinir okkar, harðgift, gátu bara ekki séð af hvort öðru þegar þau voru á meðal fólks, kjassandi og knúsandi hvort annað í tíma og ótíma, notuðu hvert tækifæri til að vera útaf fyrir sig, jafnvel tróðu sér inn í kústaskápinn ef hann rúmað þau bæði, nei bara jók. Þetta var orðið að hlátursefni á meðal okkar vinanna og ansi hvimleitt í kultiveruðum matarboðum svo einu sinni datt út úr mér:  Hvurslags eiginlega leikaraskapur er þetta? Það hlýtur að vera eitthvað að á þessu heimili." 

Þessi hjón eru blessunarlega gift enn þann dag í dag svo e.t.v. hafði ég rangt fyrir mér enda alltaf með munninn opinn en fer samt ekki ofan af því og stend og segi, það var alveg á tæru þarna var eitthvað mikið að og ég var ekki svo sem ein um þá soðun!!!!    

Ía Jóhannsdóttir, 27.3.2008 kl. 20:42

18 identicon

Mér líst mjög vel á að hann Gísli Tryggvason hér að ofan sé orðinn talsmaður neitenda. "Nei takk!", segir hann við öllu rugli. Geysilega klár náungi. Nú vantar bara talsmann játenda, þeirra sem játa til dæmis kristna trú og sakargiftir.

Eitt sinn kallaði Tryggvi Gíslason, þá skólameistari MA, faðir Gísla, undirritaðan á beinið á skrifstofu skólameistara, en þar er stórt hvalbein og þaðan er komið orðatiltækið "að taka einhvern á beinið". 

- Af hverju færðu bara einn í stærðfræði en tíu í öllu öðru, Steini minn?

- Ég er kominn með ofnæmi fyrir núllum. Fæ alltaf útbrot af þeim. Get til dæmis engan veginn haldið á þúsund kalli.

- Ég skal athuga hvað ég get gert.

Undirritaður lærði því aldrei stærðfræði í MA. Og ég mæli með blogginu hans Gísla Tryggvasonar. Það er bæði skemmtilegt og fræðandi. Segjum nei takk! við öllu rugli og leiðindum.

Steini Briem (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 21:05

19 Smámynd: Heiða  Þórðar

Mjög skemmtileg frásögn en engan botn í þetta færðu frá mér...

Heiða Þórðar, 27.3.2008 kl. 21:58

20 Smámynd: Jens Guð

  Gísli,  ágætt að hafa smá áhyggjur.  Þær halda manni við efnið.

  Anton,  þú ert aðeins of seinn að redda gerasxt staðgengill Nonna "nískupúka".

  Ingibjörg,  það rifjast upp fyrir mér blaðagrein í Mogganum eftir ræðismann Íslands í Flórida.  Ég man ekki hvað hann heitir.  Fullorðinn maður með ættarnafn (kannski Stephensen?).  Hann hélt smá hóf heima hjá sér í Flórída.  Þangað mættu eldri hjón sem voru í stöðugum faðmlögum og kossaflensi.  Ræðismaðurinn óttaðist að þau myndu þá og þegar skella sér í kynmök.  Þau virtust vera á næsta leiti.  Ræðismaðurinn varð feginn þegar þau yfirgáfu partýið áður en það gerðist en nokkuð var liðið á nóttu.  Nokkrum mínútum eftir að þau yfirgáfu partýið mætti karlinn aftur.  Sagðist hafa gleymt gleraugunum sínum þarna.  Hann gaf þá skýringu að hann væri með nýja skemmtilega bók heima sem hann ætlaði að lesa fyrir svefninn.  Ræðismanninum þótti þetta stangast á við "forleik" þeirra hjóna í partýinu og áttaði sig á að þar var um einhversskonar leiksýningu að ræða.

  Steini,  já,  svo Gísli er sonur þess merka manns og þjóðsagnarpersónu,  Tryggva Gíslasonar.  Þá verð ég að bera nokkra virðingu fyrir Gísla.

  Heiða,  gott að þú þekkir ekki svona uppskrift að sambandi.

  Erlingur,  ég er að velta því fyrir mér að taka saman pistil um brosleg færeysk orð.  Ég er ekki góður í fjáreysku en kannast samt við fjölda skemmtilegra orða.  Leikfimikennari er reyndar ekki "kroppatemjari" heldur "kroppavenjari". 

  Önnur dæmi:

  Píka/píkur = gaddar (píkudekk eru negld dekk)

  Spýgjugrís = sjóveikur

  Mótorpassari = vélamaður

  Að hafa samræði =  sættast

  Svínatippi = svínastía

  Ástargerð = kynmök

  Mella = löt stelpa    

Jens Guð, 27.3.2008 kl. 23:06

21 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Hehehhe já þetta gæti verið haft eftir vini mínum á Florida.  Hann heitir Þórir Gröndal einn albesti ræðismaður okkar Íslendinga.

Ía Jóhannsdóttir, 27.3.2008 kl. 23:41

22 identicon

Íslenska orðið mella er dregið af frönsku skammstöfuninni Mlle. fyrir Mademoiselle (Ungfrú). Franskir skútudrengir, sem  voru við veiðar hér við land og kynntust stelpum hér, skrifuðu þeim stundum bréf frá Frakklandi með utanáskriftinni Mlle. og þær voru þar af leiðandi kallaðar mellur hér af öfundsjúkum íslenskum karlmönnum.

Þetta er besti brandari sem allir franskir vinir mínir hafa heyrt.

Steini Briem (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 23:58

23 Smámynd: Jens Guð

  Ingibjörg,  það er nafnið á manninum.

  Steini,  takk fyrir þennan fróðleik.  Þú veist þá kannski líka að orðið "peysa" er komið frá frönsku "duggurunum".  Það þýðir "bóndi".  En þegar Frakkar bentu á bændur og sögðu "peysa" þá héldu íslensku kotbændurnir að þeir frönsku vildu peysur Íslendinganna.  Íslendingarnir rifu sig úr peysunum og gáfu þeim frönsku.  Og fengu hveit/mjólkurkex í staðinn.

Jens Guð, 28.3.2008 kl. 00:15

24 identicon

"Alla badda rí, fransí, biskví, koppur undir rúmi til að pissa í!" sungu krakkarnir hér en biskví (biscuits) voru kexkökur, sem frönsku skútukallarnir höfðu með sér hingað frá Frakklandi. Orðið biscuit er komið úr latínu og merkir upphaflega "eldað tvisvar".

Steini Briem (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 01:01

25 identicon

Aldrei getur maður þagað. En af því ég ber nú talsverðar taugar til Færeyja, enda kvæntur þarlendri konu og á meira að segja færeyska tengdamóður sem er meira en margur hér á spjallinu getur sagt, langar mig til að kveða niður fáeinar flökkusögur um færeyskt mál. Skv. Íslensk-færeyskri orðabók og annarri Ensk-færeyskri sem ég á er „leikfimikennari“ stundum „kropsvenjari“ en aðalorðið sem þarlendir brúka er „fimleikalærari“ og „svínastía“ er á máli þarlendra „svínastíggjur“. Og það sem mönnum verður kannski helst harmdauði: Skv. bókinni er „sæði“ ekki „afgangur“ heldur „ísáð, sáð, spin (lat. semen, gr. sperma)“. Mér þykir frekar leiðinlegt að ljóstra þessu upp. En svona er þetta. Og svo flökkusagan með bóndann og peisuna. Ef við flettum upp í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar er upprunaskýringin þessi: Orðið er líklega tökuorð og stytting úr miðlágþýsku eða miðhollensku wambeis sbr.holl. wambuis „bolflík“....tæpast í ætt við fr. paysan „bóndi“. Svo mörg voru þau orð. Fyrirgefið. En kannski var þetta bara ekki klám hjá Erlingi fyrrum félaga mínum eftir allt saman enda er „afgangur“ á færeysku „avlop“ eður „rest“.

Tobbi (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 16:37

26 identicon

Við Erlingur bjuggum saman um hríð á Gamla Garði. Og svo ég haldi áfram að brjóta niður gamlar flökkusögur þá er „mella“ miklu eldra í málinu en svo að það geti erið upprunnið hjá frönskum; Íslendingar töluðu um mellur í upphafi Íslands byggðar og þá talaði enginn maður frönsku í nútímaskilningi á jarðríki og þaðan af síður að einhverjir þeirra ættu í bréfaskriftun við íslenskar dömur; enda hefði það komið fyrir lítið því engin þeirra var læs. Hins vegar er Ása-Þór stundum kallaður mellu dólgur í fornkvæðum. Áður á minnstur Ásgeir Blöndal segir að mella í nútímaskilningi muni hugsanlega komið af malla=sulla í eða tengjast því að tík með hvolpa var stundum kölluð mella.  Og mér er persónulega kunnugt um að hann kannaðist við nútímaskýringuna með ungfrúna í frönskum bréfum og hrakti hana næsta auðveldlega einhverju sinni í tíma í orðsifjafræði. 

Leiðindastelpa á færeysku er hinsvegar gella, flenna, flogfyl.  Mella í merkingunni löt stelpa sem Jens segir frá er sennilega tökuorð úr íslensku og merkingin skolast aðeins til á leiðinni en hóra, þurfi einhver á slíkri að halda þar um slóðir, er kölluð skökja, púta, hórkona.

Lifið svo heilir

Tobbi (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 20:02

27 identicon

Æri Tobbi fer hér mikinn í orðskýringum öllum. Mella getur nú þýtt ýmislegt, til dæmis móðir, skækja, tík með hvolpa eða læða með kettlinga, flagmeri eða grasmeri, sem er fyrsta torfa úr flagi, skessa eða tröllkona, kartöflumóðir, loka eða slagbrandur og sprunga í jörðu. Mellingur merkir jötunn og Þór er melludólgur, sumsé óvinur tröllkvenna. Og þessi orð voru væntanlega öll til hér áður en franskir skútukallar komu hingað fyrst.

Sú skýring að öfundsjúkir íslenskir pörupiltar hafi kallað íslenskar dömur mellur eftir að hafa séð bréf til þeirra með utanáskriftinni Mlle., vegna þess að hórur voru einnig kallaðar mellur, er hins vegar mjög sennileg og ég rengi hana því ekki, enda skrifaði undirritaður:

"Franskir skútudrengir, sem  voru við veiðar hér við land og kynntust stelpum hér, skrifuðu þeim stundum bréf frá Frakklandi með utanáskriftinni Mlle. og þær voru þar af leiðandi kallaðar mellur hér af öfundsjúkum íslenskum karlmönnum."

Að íslenska orðið mella sé beinlínis dregið af frönsku skammstöfuninni Mlle. fyrir Mademoiselle er hins vegar meira en lítið ósennileg, en Æri Tobbi náði því nú ekki hjá undirrituðum, enda var vart hægt að ætlast til þess, þar sem Æri Tobbi bjó að eigin sögn með Gamla graði.

Blæs eg svo bylur í lási og blístra af mannsístru,
fjandinn með fúlum anda fast í lásinn blási,
tröll upp togi mellur, taki á púkar allir,
fetti við fótarjárni fjandans ósjúkir púkar,
lyftið upp lásnum allir lifandi fjandans andar.

Steini Briem (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 21:18

28 identicon

„Íslenska orðið mella er dregið af frönsku skammstöfuninni Mlle. fyrir Mademoiselle (Ungfrú).“

Hvernig gat ég misskilið þetta og haldið að þú héldir því fram að íslenska orðið mella sé dregið af frönsku skammstöfuninni Mlle. fyrir Mademoiselle (Ungfrú)? Ég sé núna að þú heldur því hvergi fram heldur næstum hinu  gagnstæða.  Og sennilega hlæja þá franskir kunningjar þínir í framtíðinni sérstaklega að þeirri fyndni að mella eigi ekkert skylt við franskar dömur.

Ja, svona getur manni yfirsést.

Tobbi (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 22:47

29 Smámynd: Jens Guð

  Tobbi,  það er ekki nóg að eiga fjáreyska tengdamömmu til að hafa víðtæka þekkingu á fjáreysku. 

  Þau orð sem ég taldi upp hef ég heyrt Fjáreyinga nota og fengið staðfestingu á skilningi mínum á flestum þeirra í bókinni Föroysk orðabók.  Um svínatippi segir meðal annars: 

  tippi:  1) staður el.  stöða ið ikki slepst úr 2) inngirðing,  teir settu haftseyðin inn í eitt tippi um náttina... 7) kyrringartippi,  ræðartippi,  svínatippi...

  Í umræddri bók segir um afgang að hann standi meðal annars fyrir úrslit,  endahnút eða ljúka eitthverju.  Vera má að um slanguryrði sé að ræða þegar þetta orð er notað yfir sæði (og þá kannski dregið af því þegar karlmenn ljúka sér af í kynlífi/"fá það"?).  Það var einmitt að koma út færeysk slangurorðabók fyrir nokkrum dögum.  Ég á eftir að fá mér hana.

  Fyrir mörgum árum hitti ég fjáreyskan dreng sem var á íslenskum togara.  Við fórum að tala um brosleg fjáreysk og íslensk orð.  Þá nefndi hann að sér þætti ólystugt þegar kokkurinn á bátnum talaði um að hafa bara afganga frá hádeginu í kvöldmatinn og sagði mér að í Fjáreyjum væri talað um sæði sem afgang.

  Í annað sinn var ég að "gæda" fjáreyska skólakrakka í heimsókn til Ásatrúarfélagsins.  Tekið var á móti krökkunum með pönnukökum.  Í lok heimsóknarinnar sagði hvatti einn ásatrúarmanna krakkana til að drífa sig klára afganginn.  Þeir fóru að flissa og einn sagði við mig að hann vissi greinilega ekki hvað afgangur þýddi á fjáreysku.  Af frásögn sjómannsins áðurnefnda taldi ég mig vita hvað hann átti við.

  Eitt sinn var ég með Fjáreyingum á skemmtistað.  Þar bar að mann sem tók einn fjáreyskan kunningja minn tali.  Sá spurði hvernig nýja stelpan væri í heimilishjálp hjá hinum.  Svarið var:  "Hún er mella."  Eftir samtal þeirra spurði ég út í þetta orð og fékk sömu útskýringu og stendur í orðabókinni:  "Ódugnaligt,  dovið konufólk". 

  Fyrir mörgum árum var vinsælt lag í Fjáreyjum sem heitir Melluskotin.    

Jens Guð, 28.3.2008 kl. 22:52

30 identicon

Æri Tobbi gapir hér enn eins og þorskur á þurru landi og finnst greinilega gott að láta rassskella sig, hvar svo sem rassboran á honum er. Það er engan veginn hægt að útskýra brandara fyrir þeim sem ekki skilja brandara, elsku kallinn minn. Þú tekur allt bókstaflega, svona svipað og trúarofstækismenn skilja Biblíuna.

Ég held að þú ættir að finna þér eitthvað annað til dundurs. Ég á fjöldann allan af bókum um íslenskt mál á öllum tímum og franska skútukalla hér við land, ítem þorskhausa með lélegar kvarnir og leiðinlega í samkvæmum eins og þig. En frönsku skútukallarnir veiddu þá hér í massavís.

Í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu er eftirfarandi klappað í stein og þú hefðir gott af því að hugleiða þín mál við bauta þann:

Il ne revint jamais. Une nuit
d’août, là-bas, au large de la sombre Islande, au milieu d'un grand bruit de fureur, avaient été célébrées ses noces avec la mer.

Steini Briem (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 23:34

31 identicon

Ég átti einu sinni segulbandsspólu með upptöku af melluskotin Þar fer Geir Haarde á kostum þar sem hann syngur: ,, Ég er svo ofsalega skotinn í mellu"... En ég var að spá, er Mella ekki líka kvennmannsnafn í Færeyjum??

Ég þekki því miður nokkur dæmi um sýningar-hjónabönd, þar sem rifist er og slegist inn á við en út á við er allt fullkomið

Bestu kveðjur

Halldóra S (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 00:24

32 Smámynd: Jens Guð

  Halldóra S,  eins og Geir Haarde syngur oft kántrý og þá hef ég aldrei heyrt hann syngja lagið Melluskotin.  Ég á lista yfir fjáreysk manna/kvenna nöfn.  Þar er nafnið Mella ekki.

Jens Guð, 29.3.2008 kl. 00:32

33 identicon

Ja svona er þetta líf.  Auðvitað veit ég að utanáskrift ungfrúa er brandari.  Ég veit það líka að umræða um meint gáfnafar ljóshærðs kvenfólks er brandari.  En þegar brandarar eru settir fram eins og þeir séu sannleikur getur grandvart fólk lent á villigötum. 

Ég þakka Jens svörin.  Hann svarar málefnalega og stóryrðalaust eins og skynsömum manni og Skagfirðingi sæmir.  Svör annarra særa mig ekki.  Þau sýna hins vegar inn í sálarkirnuna á viðkomandi. Og nú fer að verða mál að linni.

Tobbi (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 09:42

34 identicon

Það er nú gott að Æri Tobbi gengur ósærður frá þessari orrustu með sína skagfirsku sálarsturla alla, kirnur og koppa, sem Skagfirðingarnir Glámur og Skrámur hafa ótakmarkaðan aðgang að. Ólafur Briem á Álfgeirsvöllum, langafi minn og sýslumaður í Skagafirði, neyðist hins vegar til að reka þig þaðan fyrir ósæmilega hegðun á almannafæri, þannig að þú getur byrjað að pakka saman, kallinn minn, flutt til tengdó í Fjáreyjum og lifað þar á fjáreyskum afgöngum.

Steini Briem (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 11:03

35 identicon

Hin fjáreyska eiginkona Æra Tobba, Torfhildur Túkall, hringdi í mig áðan og spurði hvort ég gæti ekki lagað ástandið á milli okkar Æra Tobba, því hann væri orðinn vita getulaus út af þessu öllu saman. Það er sjálfsagt að verða við þessum frómu óskum og ég sendi honum því eftirfarandi lag með von um skjótan bata:

http://www.youtube.com/watch?v=1rAsoLm1Ges&feature

Steini Briem (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.