Samkoma í Krossinum

heavy_metalkrossinn

Staður:  Krossinn,  Hlíðasmára 5 - 7,  Kópavogi,  6.  júlí

Skemmtikraftar: Hljómsveitin G.I.G.,  söngkonan Íris,   Ron Botha frá S-Afríku,  Gunnar Þorsteinsson og fleiri

Einkunn: **** (af 5)   

  Ég missti af blábyrjun samkomunnar.  Þegar ég mætti á svæðið var hljómsveitin G.I.G. á útopnu.  Hún flutti hart metal-rokk og náði upp gífurlega öflugri stemmningu.  Lögin eru þannig upp byggð að það skiptast á harðir háværir kaflar og mildir.  Í mildu köflunum spilar kannski eitt eða tvö hljóðfæri undir sönginn,  síðan koma hin hljóðfærin inn og byggja upp spennu sem stigmagnaðist upp í kröftugan hávaða. 

  Þetta skilaði sér á þann hátt að um 30 áheyrendur hópuðust upp að sviði.  Þar dönsuðu þeir og lyftu höndum.  Nokkrir tóku á sprett og hlupu eins hratt og fætur toguðu fram og til baka fremst í tröppunum sem liggja upp á svið. 

  Ég átta mig ekki á tilgangi hlaupsins.  Sumir höfðu varla heilsu í svona spretthlaup.  Þeir stóðu á öndinni eftir sprettinn.  Hugsanlega hjálpa hlaupin fólkinu að komast í eitthvert tiltekið hugarástand.

  Mér heyrðist lögin með G.I.G. vera í raun eitt og sama lagið flutt með mismunandi textum.  Líklega hef ég rangt fyrir mér.  Lögin hljóma bara lík hvert öðru við fyrstu hlustun. 

  Frekar skrítið er að íslensk hljómsveit skuli semja og syngja enska texta fyrir íslenska áheyrendur á samkomu í Krossinum í Kópavogi.  Söngkona hljómsveitarinnar sagði mér eftir samkomuna að ástæðan sé sú að íslenski markaðurinn sé svo lítill að stefnan er sett á alþjóðamarkað.  Það er skiljanlegt og skýrir málið.  Björk lætur sig þó ekki muna um að snara sínum ensku textum yfir á íslensku þegar hún syngur á Íslandi.  En það er ekki til nema ein alvöru Björk.

  Vonandi mun G.I.G. ná rækilega inn á alþjóðamarkaðinn.  Hljómsveitin hefur alla burði til þess.

  Það er ástæðulaust að rekja hér í smáatriðum hvern dagskrárlið samkomunnar.  Dagskráin var fjölbreytt.  Þar skiptust á fagmenn og leikmenn.  Gaman var að heyra vitnisburð 7 ára drengs.  Hann sagðist vera kominn upp á lag með að spila á píanó.  Ekki nóg með það.  Hann væri nýlega farinn að æfa sig í að spila með báðum höndum.  Að auki sagðist hann spila á trommur.  Ég verð líka að nefna hugljúfan og virkilega fallegan söng Írisar um ungan mann sem er fallinn frá.

  Gunnar Þorsteinsson kann öll "trixin" í bókinni og notar óspart þetta:  "Eru ekki allir í stuði?  Má ég heyra betur?  Ég sagði:  Eru ekki allir í stuði?"  Að vísu notar hann ekki nákvæmlega þetta orðalag.  Þess í stað spyr hann:  "Ætlum við ekki að sigra?" og eitthvað álíka.

  Blökkumaðurinn Ron Botha frá S-Afríku flutti magnaða predikun.  Hann kom víða við og sagði margt merkilegt.  Meðal annars það að Íslendingar hafi verið fátækir kotbændur alveg þangað til her Ísraels rústaði herjum nágrannaríkjanna í 6 daga stríðinu á sjöunda áratugnum.  Nákvæmlega á þeim tímapunkti sem her Zíonista sigraði þá umpólaðist hagur Íslendinga.  Eins og hendi væri veifað náðu Íslendingar einum mestu lífsgæðum allra þjóða.  "Hvers vegna?"  spurði Ron og svaraði:  "Vegna þess að Íslendingar einir allra þjóða stóðu með Ísrael."

  Ron varð tíðrætt um blessun.  Hann lauk sinni dagskrá með því að bjóðast til að blessa þá sem pabbar okkar gleymdu að blessa.  Það var ekki ónýtt að fá blessun.  Innifalið í blessuninni er að hver sá sem bölvar mér hér eftir hann mun einungis sjálfur hljóta bölvun.  Farið þess vegna varlega í að bölva mér,  elskurnar mínar.

  Niðurlag samkomunnar varð heldur endasleppt.  Rann eiginlega út í sandinn.  Eftir heilmikla stemmningu,  fjör,  hart metal-rokk,  blessanir og þess háttar lauk Gunnar samkomunni með vel völdum orðum en endaði á því að segja að næsta samkoma væri á þriðjudaginn.  Þetta var klaufalegur endir hvað það varðar að allt var dottið í dúnalogn.  Þarna hefði ég viljað heyra G.I.G. reka endahnút með kröftugu rokklagi,  vælandi gítarsólóum og öðru slíku sem hefði skilið salinn eftir í iðandi hallelújahrópum,  dansi og fjöri.

  Þegar fólk yfirgaf samkomuna var bara eftir að kaupa á leiðinni út harðfisk,  lakkrís,  klósettpappír og kók fyrir það klink sem ekki hafði ratað í söfnunarbauka Krossins sem voru látnir ganga á samkomunni.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: arnar valgeirsson

þetta hefur verið hress helgistund og ég vona að þú hafir skemmt þér vel.

fatta ekki fremur en þú hlaup og þetta "rétta upp hendur" dæmi, en hvað veit ég sosum..

en harðfiskur og lakkrís. ekki fattað það. fullkomið jafnvægi....

arnar valgeirsson, 6.7.2008 kl. 22:53

2 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Þetta er greinilega mikil upplifun. Selja þeir lakkrís og klósettpappír til að styðja hljómsveitina til utanfarar eins og íþróttafélögin gera?

Helga Magnúsdóttir, 6.7.2008 kl. 22:59

3 Smámynd: Jens Guð

  Arnar, ég skemmti mér vel.  Ef ég væri ekki tímabundið illa haltur hefði ég prófað að taka á sprett með liðinu til að átta mig betur á þeirri stemmningu.  En ég var ólatur við að lyfta höndum,  hrópa "hallelúja",  og taka á annan hátt á fullu þátt í fjörinu.  Ég er í Ásatrúarfélaginu og var þess vegna á samkomunni ekki á nákvæmlega sömu forsendum og aðrir þarna.   

  Það var bara ágætur liður í stemmningunni þetta með söluborðið í anddyrinu.  Á samkomunni var reyndar beðið um uppástungur um fleiri vörur sem ástæða væri til að selja þarna.

  Helga,  það er rétt til getið hjá þér að vörusalan er til styrktar því að G.I.G.  er að leggjast í víking til Bandaríkja Norður-Ameríku.

Jens Guð, 6.7.2008 kl. 23:16

4 Smámynd: Jens Guð

  Hinricus,  ég er ekki með það alveg á hreinu hvað "shamanismi" er.  Ég var giftur indíánakonu í næstum aldarfjórðung og mig minnir að orðið "shaman" sé notað yfir töfralækna.  Jafnframt kannast ég við indíánamúsík sem kennd er við "shaman" og er "trans" kennd.

  Tónlistin hjá G.I.G. er mjög "trans" kennd þó hún sé hart rokk.  Ég á auðvelt með að átta mig á að þeir sem dönsuðu ákafast við þessa músík komust í einhverskonar "trans".

Jens Guð, 6.7.2008 kl. 23:27

5 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og bestu kveðjur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 6.7.2008 kl. 23:27

6 Smámynd: Ómar Ingi

Já ertu Ásatrúar

Góður

Ómar Ingi, 7.7.2008 kl. 00:01

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sálir í bás þeir selja,
sjötíu búnir að telja,
forhertan Jens,
í flösku er séns,
með 80% afslætti að velja.

Þorsteinn Briem, 7.7.2008 kl. 00:40

8 Smámynd: Jens Guð

  Ómar,  ég er uppalinn á mjög kristilegu heimili.  Pabbi var meðhjálpari á Hólum í Hjaltadal.  Móðurbróðir minn,  Jón Kr.  Ísfeld,  var frægur og vinsæll prestur.   Þegar ég var barn gerðu trúboðar Fíladelfíu út frá æskuheimili mínu í Skagafirði.

  Á unglingsárum lenti ég í slagtogi með vinahópi sem var mjög upptekinn af trúmálum.  Einn besti vinur minn á skólaárum í Myndlista- og handíðaskóla Íslands,  Guðjón Hafliðason,  var og er í Fíladelfíu.  Til margra ára sá ég um auglýsingar fyrir Jötuna,  útgáfufélag og verslun Fíladelfíu.  Jafnframt blandaðist minn vinahópur inn í hljómsveitina Þey.  Hugmyndafræðingar Þeysara voru Guðni Már Agnarsson sem nú er prestur í Svíþjóð og Hilmar Örn Hilmarsson núverandi allsherjargoði Ásatrúarfélagsins.  Bróðir Guðna,  Hilmar bassaleikari Þeysara,  er nú kirkjuorganisti fyrir austan fjall.   

  Þáverandi allsherjargoði Ásatrúarfélagsins,  Sveinbjörn heitinn Beinteinsson,  var einn af aðal töffurum pönksenunnar á níunda áratugnum.  Hann hreif okkur flest í pönksenunni inn í Ásatrúarfélagið.  Þar á ég heima en fylgist jafnfram með því sem er að gerast í Fíladelfíu,  Omega,  Krossinum og víðar.  Hebbi Guðmunds poppstjarna hringdi í mig í kvöld einmitt þegar ég var á samkomu hjá Krossinum og ég ætla að kíkja með honum á samkomu hjá Samhjálp þar sem Maggi Stefáns fyrrum Utangarðsmaður og vinur minn býður upp á góða dagskrá.   

Jens Guð, 7.7.2008 kl. 00:40

9 Smámynd: Jens Guð

  Steini,  takk fyrir enn eina góðu limruna.

Jens Guð, 7.7.2008 kl. 00:44

10 Smámynd: Fríða Eyland

Fríða Eyland, 7.7.2008 kl. 01:13

11 identicon

Jens! Er það ekki hámark ruglsins að yfirgefa almáttugan geimgaldrakall fyrir nokkra minni spámenn eins og Óðinn og Þór...  Hin almáttugi er með þetta allt á hreinu en valdsvið hinn er takmarkað..

En er það ekki rakalaus þvættingur að halda lífi sínu sé betur borgið með trú á  "Fantastic four (Ásatrú)" hópinn því hann sé mun öflugri en "Harry Potter" (Guð og Jesú)...  Halló halló ..  þetta er allt í plati.....

Idiots!..

Tinni (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 08:55

12 Smámynd: Linda

Þakka þér þessa lesningu, það er gaman að vita af þínum tengslum við kirkjuna.

mk.

Linda, 7.7.2008 kl. 13:03

13 Smámynd: Ómar Ingi

Já alltaf er maður að fræðast um kallinn :)

Ómar Ingi, 7.7.2008 kl. 14:56

14 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Haha, hefði viljað vera með þarna, en auðvitað hafðir þú vit á að vera haltur þegar þú mættir, en skrítið að þjónn guðs hann Gunnar skildi ekki taka eftir því og heimta að þú kæmir upp til að læknast!?

Og í einu segir þú mér fréttir, vissi ekki að Guðni Rúnar væri prestur! Hins vegar vantar þann ágæta mann ekki mælskuna, gæti trúað að hann væri magnaður predikari miðað við orðkyngi hans frá fyrstu hendi í Áföngum með Ása í gamla daga og svo síðar í ágætum þáttum hans um tónlist á norðurlöndum!

Magnús Geir Guðmundsson, 7.7.2008 kl. 15:46

15 Smámynd: Jens Guð

  Fríða,  takk fyrir innlitið.

  Tinni,  þeir ásatrúarmenn sem ég þekki best hafa jafn mismunandi viðhorf til ásatrúar og þeir eru margir.  Sumir taka ásatrúna mjög hátíðlega og eru nokkurskonar bókstafstrúar.  Aðrir hugsa um ásatrú sem heimspeki eða hugmyndafræði frekar en eiginleg trúarbrögð.  Enn aðrir eru með sína útgáfu einhversstaðar þarna á milli.  Sumir ásatrúarmenn eru kristnir.  Margir kristnir eru áhugasamir um ásatrú,  sækja blót ásatrúarmanna og hafa mikinn áhuga á álfum,  huldufólki og öðrum góðum vættum.

  Linda,  ójá,  ég er fæddur og uppalinn í dómkirkjunni á Hólum í Hjaltadal.

  Ómar,  ég dæli upplýsingum um mig inn á bloggið í slumpum.

  Maggi,  hann Guðni Rúnar vígðist til prests fyrir nokkrum árum.  Ég man ekki ártalið en það er ekkert voðalega langt síðan.  Hann hefur starfað sem prestur í Svíþjóð um nokkurra ára skeið.

Jens Guð, 7.7.2008 kl. 19:51

16 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Fór einu sinni til að kynna mér samkomuhald í Krossinum, Gunnar ætlaði ekki að hleypa mér út .. og ég var alltof sein í matarboð, hef ekki þorað síðan!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 7.7.2008 kl. 20:33

17 Smámynd: Jens Guð

  Jóhanna,  ég veit ekki hvers vegna en Gunnar var alveg til í að hleypa mér út.

Jens Guð, 7.7.2008 kl. 21:59

18 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

væri ekki amalegt að eiga háandlegan klósettpappír. hentar örugglega vel við páfatafl

Brjánn Guðjónsson, 7.7.2008 kl. 22:24

19 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Hahaha, nú skellti ég hressilega upp úr að lesa línur Jóhönnu og enn frekar viðbrögð þín!

Hann "Rauðskeggur" (kannski grá núna, hvað veit ég!?) hefur bara séð "Syndina í augunum svamla" eins og þar stendur og því verið snöggur að hleypa þér út!

En karlinn hefur bara fallið fyrir fögru kvennskinni Jóhönnu gæti ég nú best trúað!

Magnús Geir Guðmundsson, 7.7.2008 kl. 22:33

20 identicon

Jens Sumir taka ásatrúna mjög hátíðlega og eru nokkurskonar bókstafstrúar.  Aðrir hugsa um ásatrú sem heimspeki eða hugmyndafræði frekar en eiginleg trúarbrögð.  Enn aðrir eru með sína útgáfu einhversstaðar þarna á milli.  Sumir ásatrúarmenn eru kristnir.

Held að þú sért að leika þér að eldinum...  láttu trúarbrögðin algerlega eiga sig.. Þú getur ekki nálgast logann án þess að brenna þig..

Tinni (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 13:41

21 identicon

Sæl verið þið, Emil heiti ég og er gítarleikar í GIG. Gaman að lesa skriftir þínar Jens. Við lítum nú reyndar ekki á okkur sem metalband og erum alls ekki með þá stefnu í tónlistinni, en það var skemmtilegt hvernig þú setur þetta upp:) Tónlistin okkar er vissulega dínamísk og það er okkar aðal! :) Endilega kíktu á okkur aftur, við verðum með grill og fjör á laugardaginn kl. 16:00 til styrktar ferðinni okkar til USA. ALLIR VELKOMNIR!!!!!!!!!!

Emil Hreiðar Björnsson (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband