Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ástarsvik eða?

  Hann er á sjötugs aldri.  Á enga vini og er ekki í samskiptum við neina ættingja.  Skapgerðarbrestir eiga hlut að máli.  Hann pirrast af litlu tilefni,  snöggreiðist og verður stóryrtur.  

  Hann er heilsulítill offitusjúklingur;  étur daglega lófafylli af pillum.  Hann er nánast rúmfastur vegna orkuleysis,  mæði,  blóðþrýstings,  brjóstsviða,  magakveisu og allskonar.

  Hann er mjög einmana.  Fyrir nokkrum árum skráði hann sig á stefnumótavefinn Tinder.  Um leið og hann skráði sig heilsaði upp á hann þrítug fegurðardís í Úkraínu.  Hún sagðist vera forfallin Íslandsaðdáandi.  Hún fagnaði því að ná sambandi við Íslending.  Þau spjölluðu vel og lengi.  Og ítrekað.  Fljótlega samdi daman um að þau myndu skrá sig af Tinder og þróa þeirra samband.

  Stúlkan er í stopulli vinnu og hugsar um veika móðir sína.  Hún er í fjárhagsvandræðum.  Að því kom að hún bað um smá peningalán.  Svo færði hún sig upp á skaftið.  Aldrei er neitt endurgreitt.  Hún fór að ávarpa kallinn sem "kæra eiginmann sinn".  Hann er uppveðraður af því.  Sýnir hverjum sem er ljósmynd af fallegu eiginkonu sinni. 

  Verra er að hann gengur nærri sér til að senda "eiginkonunni" sem mestan pening í hverjum mánuði.  Hann sveltir dögum saman og nær ekki alltaf að leysa út lyfin sín með tilheyrandi afleiðingum.

  Konunni til afsökunar má telja að hún veit ekki af heilsuleysi mannsins.  Á móti kemur að samband þeirra gefur tilveru hans lit.  Það slær á einmanaleikann. 

gamlingimódel 


Ógeðfelld grilluppskrift

  Þessa dagana eru netsíður,  blöð og tímarit uppfull af tillögum um hitt og þetta varðandi grill og matseld.  Lesendur eru hvattir til að brjóta upp hversdaginn og prófa þetta og hitt á grillið.  Fyrirsagnirnar eru:  "Tilvalið að grilla pizzur með banönum og bláberjum!"  "Tilvalið að grilla pizzur með ís og súkkulaði!"  "Tilvalið að grilla pizzur með lifrapylsu!". 

  Ólystugasta uppskriftin birtist fyrir nokkrum árum í dagblaði.  Þar sagði:  "Tilvalið að grilla pizzur með börnunum!"  Ég hef ekki getað hætt að hugsa um þetta.  Að vísu er víða þröngt í búi,  börn dýr í rekstri og það má alltaf búa til fleiri börn.  Samt... 

pizza


Smásaga um hlýjan mann

  Það er ofsagt að Fúsi flatskjár sé ekki eins og annað fólk.  Til að mynda svipar honum mjög til föðurbróður síns:  Sama sljóa augnráðið.  Sama lafandi neðri vör og flæðandi slef í munnviki.  Einhverra hluta vegna forðast fólk drenginn.  Kannski vegna þess að hann þrífur sig ekki.  Hann fer hvorki í sturtu né bað.  Ástæða er til.  Hann hefur séð hrollvekjandi sturtuatriði í bíómynd Alfreds Hitchock.  Veit því að sturtur eru stórhættulegar.

  Fúsi hefur tvívegis farið í bað.  Í bæði skiptin með skelfilegum afleiðingum.  Í annað skiptið var hann næstum drukknaður.  Hann er nefnilega ósyndur.  Honum til lífs varð að baðkarið var vatnslaust.  Vatnsveitan var búin að loka fyrir vatnið til hans vegna vanskila.

  Í hitt skiptið gerði hann vel við sig:  Keypti margar plastendur og leikfangabáta.  Með þetta fór hann í bað.  Það var svo gaman að hann gleymdi sér.  Rumskaði ekki fyrr en eftir langan tíma að síminn hringdi.  Mjög langan tíma því Fúsi er ekki með síma.  Vatnið var orðið ískalt.  Kauði skalf eins og vibrator í hæsta gír.  Hann fékk lungnabólgu og missti matarlyst í tvo daga.  Það var áfall.  Fáir eru gráðugri.  Sósur af öllu tagi sullast yfirleitt yfir peysuna sem hann fer aldrei út.  Þar má sjá fjölbreytt sýnishorn af matseðli síðustu vikna. 

  Fúsi er hlýr maður.  Hann elskar að faðma fólk og skella slefblautum kossi á kinn eða munn.  Hann er oft á vappi til að leita að einhverjum sem hann kannast við.  Þá ljómar hann eins og tungl í fyllingu.  Andlitið verður eitt slefandi bros svo skín í gulan og skörðóttan tanngarðinn.  Glaðbeittur kjagar hann með útbreiddan faðm að fórnarlambinu.  Viðbrögðin eru jafnan að hann horfir á eftir veinandi og hlaupandi fólki út í buskann á hraða sem myndi skila verðlaunasæti á Ólympíuleikum.   Eftir stendur kjökrandi maður.  Slefandi bros breytist í slefandi skeifu.

  Foreldrarnir skipta sér lítið af drengnum.  Þeir hafa aldrei samband að fyrrabragði.  Ekki einu sinni á afmælisdegi hans.  Mamman afsakar sig með því að fyrir handvömm hafi gleymst að skrá afmælisdag hans í afmælisdagabók heimilisins.  Engin hafi því hugmynd um hvenær hann eigi afmæli.  Ef hann eigi þá einhvertímann afmæli.  Og þó mamman vildi hringja í hann á afmælisdegi þá er óhægt um vik út af símleysi hans.     

  Fúsi hringir stundum úr tíkallasíma í mömmuna.  Oftast slitnar símtalið um leið.  Það er ólag á tíkallasímum.  Nema þegar Fúsi pantar sér pizzu.

  Eitt sinn bankaði Fúsi upp hjá nágrannakonu.  Hann kvartaði undan kvenmannsleysi.  Hún tók honum vel en benti á að hann skorti kynþokka.  Ráð væri að fylgjast með fréttum af fræga fólkinu.  Herma síðan eftir klæðnaði þess.  Það var eins og við manninn mælt:  Gullfalleg kona hóf þegar í stað sambúð með kappanum.  Að auki kom hann sér eldsnöggt upp tveimur viðhöldum:  Einni konu og einum karli. 

heppinn 


Anna frænka á Hesteyri - Framhald

  Að því kom að sumarhúsið var fullreist.  Hjónin tilkynntu Önnu áfangann og drógu fána að húni.  Sögðust koma eftir vinnu daginn eftir og sofa þarna um helgina.  Hjónin hlökkuðu til að eiga heila helgi út af fyrir sig.  Þá fyrstu í mörg ár.

  Er þau voru að koma sér fyrir næsta dag birtist Anna og bauð þau velkomin.  Með í för var fullorðin kona.  Anna tilkynnti:  "Þetta er frænka mín.  Hún verður hjá ykkur um helgina."   

   Hjónunum var brugðið.  Konan bað Önnu að tala við sig einslega aftan við húsið.  Þar ávítti hún Önnu fyrir að troða inn á þau gesti.  Anna svaraði:  "Mér hraus hugur við að vita af ykkur aleinum hér alla helgina.  Ég hugsaði mikið um það hvernig ég gæti forðað ykkur frá því að leiðast fyrstu helgi í bústaðnum.  Þess vegna hringdi ég í frænku mína.  Ég þurfti að suða í henni til að koma og vera ykkur til skemmtunar alla helgina.  Hún fer á mánudaginn því hún er í vinnu."

annamarta


Anna frænka á Hesteyri í fasteignabraski

   Fullorðin hjón frá Fáskrúðsfirði brugðu sér í heimsókn til Önnu Mörtu frænku minnar á Hesteyri.  Þau eru náttúruunnendur eins og hún.  Þau þrjú röltu saman um land Hesteyrar og drukku í sig fegurð landsins.  Nokkru fyrir ofan íbúðarhúsið er lítill foss.  Hjónin göntuðust með að þarna væri fullkomið umhverfi fyrir sumarbústað.

  Anna tók þau á orðinu og sagði:  "Þið getið fengið landskika hérna á 43 þúsund kall."

  Maðurinn hváði og spurði undrandi hvort hún væri að tala í alvöru. 

  "Ég skulda símreikninginn,"  útskýrði Anna.  "Hann er 43 þúsund.  Hann má ekki vera í vanskilum.  Þið mynduð alveg bjarga mér."       

  Höfð voru snör handtök.  Pappírar útbúnir,  þinglýstir, gengið frá greiðslu,   símreikningnum bjargað fyrir horn og sumarbústaður reistur.

  Framhald í næstu bloggfærslu...

Hesteyri

  Ps.  Þetta var undir lok síðustu aldar.  Gengi krónunnar var annað.  Hugsanlega má þrefalda verðgildið á gengi dagsins í dag.    


Svangur frændi

  Fötluð kona í hjólastól bjó í kjallara á Leifsgötu.  Dag einn fékk hún upphringingu frá frænku sinni í norðlenskri sveit.  Sú sagði að 17 ára sonur sinn ætlaði til Reykjavíkur kvöldið eftir.  Hann væri að kaupa bíl.  Fengi hann að gista á Leifsgötunni?

  Frænkan fagnaði erindinu.  Frændann hafði hún ekki séð síðan hann var smápatti.  Móðirin sagði hann fá far hjá vörubílstjóra.  Þeir yrðu seint á ferð.  Myndu varla skila sér fyrr en eftir miðnætti.

  Kvöldið eftir bað sú fatlaða heimahjúkkuna um að laga mat handa frændanum og halda honum heitum uns hann mætti.  Er nálgaðist miðnætti sótti syfja að konunni.  Hún bað hjúkkuna um að renna sér inn í stofu.  Þar ætlaði hún að dotta í haustmyrkrinu uns frændi kæmi.

  Hún steinsofnaði en hrökk upp við að frændinn stóð yfir henni.  Hún tók honum fagnandi og bað hann um að renna sér í stólnum fram í eldhús.  Þar biði hans heitur matur.  Stráksi tók hraustlega til matar síns.  Hann var glorhungraður og fámáll.  Umlaði bara já og nei um leið og hann gjóaði augum feimnislega í allar áttir.  Sveitapilturinn var greinilega óvanur ókunnugum.  Skyndilega tók hann á sprett út úr húsinu.  Nokkrum mínútum síðar bankaði annar ungur maður á dyr.  Hann kynnti sig sem frændann.  Ættarsvipurinn leyndi sér ekki.  

  Hver var svangi maðurinn?  Við athugun kom í ljós að stofugluggi hafði verið spenntur upp.  Gluggasyllan og gólfið fyrir neðan voru ötuð mold.  Greinilega var innbrotsþjófur á ferð.  Hlýlegar móttökur og heitur matur hafa væntanlega komið á óvart!

hjólastóll           


Passar hún?

  Á Akureyri býr 94ra ára kona.  Hún er spræk þrátt fyrir að vera bundin í hjólastól.  Hún er með allt sem heyrir undir ADHD og svoleiðis eiginleika.  Fyrir bragðið fer hún stundum skemmtilega fram úr sér.  Oft hrekkur eitthvað broslegt út úr henni áður en hún nær að hugsa.

  Fyrir jólin sendi hún sonarsyni sínum pening.  Honum fylgdu fyrirmæli um að hann myndi fá sér peysu.  Peysan yrði jólagjöfin hans frá henni.

  Eftir jól hringdi hún í strákinn og spurði: 

  - Hvernig peysu fannstu í jólagjöf frá mér?

  - Ég fékk virkilega flotta svarta hettupeysu.

  - Passar hún?

hettupeysa


Furðulegur hundur

  Einu sinni sem oftar spilaði færeyski píanóleikarinn Kristian Blak fyrir dansi í Þórshöfn í Færeyjum.  Úti var grenjandi rigning og kalsaveður.  Fyrir dansleikinn þurfti að bera hljóðfæri og hljómkerfi í hús.  Stór skoskur hundur stillti sér upp við útidyrnar.

  Kristian spurði hundinn hvort hann langaði að koma inn úr rigningunni.  Sá var snöggur að þiggja boðið.  Hann lagði sig á sviðið og fylgdist síðan með fólkinu dansa.  Einn af hljóðfæraleikurunum átti erindi út á gólf.  Hundurinn spratt á fætur og reisti sig upp framan á hann.  Maðurinn steig dansspor með honum.  Er maðurinn ætlaði aftur upp á svið mótmælti hann með frekjulegu gelti og lagðist þétt framan á hann.  Þetta vakti kátínu.  Þeir dönsuðu í smástund uns maðurinn sagði voffa að hann verði að spila með hljómsveitinni.  Það var eins og blessuð skepnan skildi;  stökk upp á svið og lagði sig á ný.

  Er dansleik lauk elti hvutti Kristian heim.  Veður var ennþá svo leiðinlegt að Kristian bauð honum inn.  Útskýrði jafnframt fyrir honum að hann yrði að fara um morguninn áður en húsfrúin vaknaði.  Hún væri kasólétt og andvíg húsdýrum.

  Morguninn eftir vaknaði Kristian snemma og hleypti hundinum út.  Sá virtist alsáttur.  Seint næsta kvöld sá Kristian hundinn bíða við dyrnar.  Þetta endurtók sig.  Að nokkrum dögum liðnum hringdi konan í vinnuna til Kristians;  sagði hund stara inn um glugga hjá sér.   Hana grunaði að um svangan flækingshund væri að ræða.  Kannski ætti hún að gefa honum matarbita.  Kristian tók vel í það.  Eftir það gekk hundurinn út og inn með því að opna og loka hurðinni sjálfur.

  Konan komst að því hver ætti hundinn og Kristian kom honum til síns heima.  Hundurinn strauk strax aftur til hans.  Þetta endurtók sig.  Neyðarráð var að koma voffa út í sveit.  Í lítið þorp,  Kirkjubæ.

  Meira um dýrið á morgun.   

voffi       


Lífseig jólagjöf

  Algengt vandamál með jólagjafir er að þær hitta ekki alltaf í mark hjá viðtakendum.  Öll þekkjum við börn sem andvarpa þegar kemur að mjúkum pökkunum.  Krakkar vilja hörð leikföng.  Mjúkum pökkum fylgir stundum annað vandamál:  Út úr þeim kemur fatnaður sem passar ekki á börnin.  Svo eru það gjafakortin.  Þau eru keypt í litlum verslunum sem hafa ekki upp á neitt girnilegt að bjóða.  Eða þá að upphæðin á kortinu passar ekki nákvæmlega við neitt í búðinni.  Eftir stendur kannski 1000 kall eða 2000.  Peningur sem dagar bara uppi.

  Eitt sinn fékk frænka mín í jólagjöf fallegan og íburðarmikinn náttkjól í gjafaöskju.  Hún átti meira en nóg af náttkjólum.  Hún brá á það ráð að geyma kjólinn til næstu jóla.  Þá gaf hún mágkonu sinni kjólinn í jólagjöf.  Einhverra hluta vegna voru viðbrögð hennar þau sömu:  Kjóllinn varð jólagjöf til systur hennar næstu jól.  Alls varð hann sjö sinnum jólagjöf.  Í síðasta skiptið endaði hann aftur hjá konunni sem upphaflega gaf hann.  Sú var búin að fylgjast með ferðalagi kjólsins og vildi ekki að hann færi annan rúnt.  Hún tók hann í gagnið.  Þetta varð uppáhalds náttkjóllinn hennar.  Enda valdi hún hann þarna í upphafi vegna hrifningar af honum.

 


Anna frænka á Hesteyri hringdi á lögguna

  Fyrir nokkrum árum hringdi Anna Marta á Hesteyri í eldri frænku okkar í Reykjavík.  Það var alvanalegt.  Konan var nýbúin að setja lit í hárið á sér   Hún beið eftir að hann verkaðist áður en hann yrði skolaður.  Hún upplýsti Önnu um stöðuna.  Bað hana um að hringja aftur eftir 10 mínútur.  

  Í þann mund er konan skolaði hárið mundi hún eftir því að kartöflur og mjólk vantaði.  Komið fast að kvöldverðartíma og eiginmaðurinn væntanlegur úr vinnu.  Hún skrapp í matvörubúðina skammt frá.  Aðeins ein stelpa var á afgreiðslukassanum.  Hún var nýbyrjuð og óörugg.  Gerði einhver mistök með tilheyrandi töfum.  Röðin við kassann lengdist.   

  Er konan hélt heim blöstu við blikkandi ljós á sjúkrabíl og lögreglubíl í innkeyrslu  hennar.  Lögreglumaður upplýsti að tilkynnt hafi verið að kona væri steinrotuð og slösuð á baðherberginu.

  Konan sýndi lögreglunni inn í baðherbergi og útskýrði að um misskilning væri að ræða.  Síðan hringdi hún í Önnu fjúkandi reið.  Anna sagðist hafa hringt í hana 10 mínútum eftir að konan bað hana um það.  Síminn hringdi út.  Aftur og aftur.  Hún hafi þá lagt saman 2 og 2 og fengið þá niðurstöðu að konan hefði runnið til við að skola hárið og skollið harkalega á gólfið.  

  Konan bannaði Önnu að senda aftur á sig sjúkrabíl og lögreglu.  Anna svaraði:  "Jú,  ef ég verð vör við að þú liggir slösuð þá hringi ég í neyðarlínuna!  Ef þú hefðir slasast núna þá værir þú að þakka mér en ekki skamma mig."

sjúkrabílllöggubíll


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband