Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Passar hún?

  Á Akureyri býr 94ra ára kona.  Hún er spræk þrátt fyrir að vera bundin í hjólastól.  Hún er með allt sem heyrir undir ADHD og svoleiðis eiginleika.  Fyrir bragðið fer hún stundum skemmtilega fram úr sér.  Oft hrekkur eitthvað broslegt út úr henni áður en hún nær að hugsa.

  Fyrir jólin sendi hún sonarsyni sínum pening.  Honum fylgdu fyrirmæli um að hann myndi fá sér peysu.  Peysan yrði jólagjöfin hans frá henni.

  Eftir jól hringdi hún í strákinn og spurði: 

  - Hvernig peysu fannstu í jólagjöf frá mér?

  - Ég fékk virkilega flotta svarta hettupeysu.

  - Passar hún?

hettupeysa


Furðulegur hundur

  Einu sinni sem oftar spilaði færeyski píanóleikarinn Kristian Blak fyrir dansi í Þórshöfn í Færeyjum.  Úti var grenjandi rigning og kalsaveður.  Fyrir dansleikinn þurfti að bera hljóðfæri og hljómkerfi í hús.  Stór skoskur hundur stillti sér upp við útidyrnar.

  Kristian spurði hundinn hvort hann langaði að koma inn úr rigningunni.  Sá var snöggur að þiggja boðið.  Hann lagði sig á sviðið og fylgdist síðan með fólkinu dansa.  Einn af hljóðfæraleikurunum átti erindi út á gólf.  Hundurinn spratt á fætur og reisti sig upp framan á hann.  Maðurinn steig dansspor með honum.  Er maðurinn ætlaði aftur upp á svið mótmælti hann með frekjulegu gelti og lagðist þétt framan á hann.  Þetta vakti kátínu.  Þeir dönsuðu í smástund uns maðurinn sagði voffa að hann verði að spila með hljómsveitinni.  Það var eins og blessuð skepnan skildi;  stökk upp á svið og lagði sig á ný.

  Er dansleik lauk elti hvutti Kristian heim.  Veður var ennþá svo leiðinlegt að Kristian bauð honum inn.  Útskýrði jafnframt fyrir honum að hann yrði að fara um morguninn áður en húsfrúin vaknaði.  Hún væri kasólétt og andvíg húsdýrum.

  Morguninn eftir vaknaði Kristian snemma og hleypti hundinum út.  Sá virtist alsáttur.  Seint næsta kvöld sá Kristian hundinn bíða við dyrnar.  Þetta endurtók sig.  Að nokkrum dögum liðnum hringdi konan í vinnuna til Kristians;  sagði hund stara inn um glugga hjá sér.   Hana grunaði að um svangan flækingshund væri að ræða.  Kannski ætti hún að gefa honum matarbita.  Kristian tók vel í það.  Eftir það gekk hundurinn út og inn með því að opna og loka hurðinni sjálfur.

  Konan komst að því hver ætti hundinn og Kristian kom honum til síns heima.  Hundurinn strauk strax aftur til hans.  Þetta endurtók sig.  Neyðarráð var að koma voffa út í sveit.  Í lítið þorp,  Kirkjubæ.

  Meira um dýrið á morgun.   

voffi       


Lífseig jólagjöf

  Algengt vandamál með jólagjafir er að þær hitta ekki alltaf í mark hjá viðtakendum.  Öll þekkjum við börn sem andvarpa þegar kemur að mjúkum pökkunum.  Krakkar vilja hörð leikföng.  Mjúkum pökkum fylgir stundum annað vandamál:  Út úr þeim kemur fatnaður sem passar ekki á börnin.  Svo eru það gjafakortin.  Þau eru keypt í litlum verslunum sem hafa ekki upp á neitt girnilegt að bjóða.  Eða þá að upphæðin á kortinu passar ekki nákvæmlega við neitt í búðinni.  Eftir stendur kannski 1000 kall eða 2000.  Peningur sem dagar bara uppi.

  Eitt sinn fékk frænka mín í jólagjöf fallegan og íburðarmikinn náttkjól í gjafaöskju.  Hún átti meira en nóg af náttkjólum.  Hún brá á það ráð að geyma kjólinn til næstu jóla.  Þá gaf hún mágkonu sinni kjólinn í jólagjöf.  Einhverra hluta vegna voru viðbrögð hennar þau sömu:  Kjóllinn varð jólagjöf til systur hennar næstu jól.  Alls varð hann sjö sinnum jólagjöf.  Í síðasta skiptið endaði hann aftur hjá konunni sem upphaflega gaf hann.  Sú var búin að fylgjast með ferðalagi kjólsins og vildi ekki að hann færi annan rúnt.  Hún tók hann í gagnið.  Þetta varð uppáhalds náttkjóllinn hennar.  Enda valdi hún hann þarna í upphafi vegna hrifningar af honum.

 


Anna frænka á Hesteyri hringdi á lögguna

  Fyrir nokkrum árum hringdi Anna Marta á Hesteyri í eldri frænku okkar í Reykjavík.  Það var alvanalegt.  Konan var nýbúin að setja lit í hárið á sér   Hún beið eftir að hann verkaðist áður en hann yrði skolaður.  Hún upplýsti Önnu um stöðuna.  Bað hana um að hringja aftur eftir 10 mínútur.  

  Í þann mund er konan skolaði hárið mundi hún eftir því að kartöflur og mjólk vantaði.  Komið fast að kvöldverðartíma og eiginmaðurinn væntanlegur úr vinnu.  Hún skrapp í matvörubúðina skammt frá.  Aðeins ein stelpa var á afgreiðslukassanum.  Hún var nýbyrjuð og óörugg.  Gerði einhver mistök með tilheyrandi töfum.  Röðin við kassann lengdist.   

  Er konan hélt heim blöstu við blikkandi ljós á sjúkrabíl og lögreglubíl í innkeyrslu  hennar.  Lögreglumaður upplýsti að tilkynnt hafi verið að kona væri steinrotuð og slösuð á baðherberginu.

  Konan sýndi lögreglunni inn í baðherbergi og útskýrði að um misskilning væri að ræða.  Síðan hringdi hún í Önnu fjúkandi reið.  Anna sagðist hafa hringt í hana 10 mínútum eftir að konan bað hana um það.  Síminn hringdi út.  Aftur og aftur.  Hún hafi þá lagt saman 2 og 2 og fengið þá niðurstöðu að konan hefði runnið til við að skola hárið og skollið harkalega á gólfið.  

  Konan bannaði Önnu að senda aftur á sig sjúkrabíl og lögreglu.  Anna svaraði:  "Jú,  ef ég verð vör við að þú liggir slösuð þá hringi ég í neyðarlínuna!  Ef þú hefðir slasast núna þá værir þú að þakka mér en ekki skamma mig."

sjúkrabílllöggubíll


Erfiður starfsmaður

  Nonni er rafvirki.  Á dögunum bættist á hann stórt verkefni í nýbyggingu.  Hann auglýsti eftir vönum rafvirkja sem gæti hafið störf strax.  Sá fyrsti sem hringdi var ráðinn.  Honum var sagt að mæta til vinnu klukkan 9 næsta morgunn. 

  Klukkan var eitthvað gengin í 11 er starfsmaðurinn,  ungur maður,  mætti.  Hann útskýrði málið:  "Ég lagði af stað á réttum tíma út á strætóstöð.  Þá sá ég að veðrið var svo gott að ég ákvað að ganga."

  Nonni sagði að það væri mikilvægt að starfsmenn séu mættir klukkan 9.  Hann sýndi rafvirkjanum hvar setja átti upp margar innstungur. 

  - Sýndu mér hvernig þú setur upp eina innstungu,  bað drengurinn.

  - Þú kannt að setja upp innstungu,  fullyrti Nonni.

  - Já,  auðvitað.  Mig langar bara að sjá hvernig þú gerir það.

  Nonni setti upp innstungu.  Hinn fylgdist með og tók svo við.  Honum lynti strax vel við vinnufélagana og stimplaði símanúmer þeirra inn í símaskrá sína.  Þeir voru alls sjö. 

  Daginn eftir var hann ekki mættur klukkan 9.  Hálftíma síðar hringdi hann í vinnufélaga.  Bað hann um að sækja sig.  Nonni blandaði sér í símtalið.  Sagði að ekki kæmi til greina að starfsmenn sæki hvern annan í vinnutíma. 

  -  Já,  já.  Ég er sammála því,  svaraði drengur.  Vinnufélaginn hefur misskilið mig.  Ég var að tilkynna veikindi.  Ég er með svaka hausverk.

  Næsta dag mætti hann sprækur klukkan 10.  Sagði að strætóferð hafi fallið niður. 

  Eftir hádegi þurfti Nonni að bregða sér frá í nokkra tíma.  Hann setti starfsmönnum fyrir verkefni.  Þegar hann snéri aftur blasti við að ungi rafvirkinn hafði fátt gert.  Nonni spurði hvað væri í gangi. 

  - Ég er búinn að vinna á fullu,  fullyrti piltur.  Einhvernvegin hefur verkið samt unnist hægt.  

   Verkefnið var komið í tímaþröng.  Ákveðið var að vinna fram á kvöld.  Um kvöldmatarleytið hélt vinnuflokkurinn á veitingastað með heimilismat.  Strákur mótmælti.  Sagðist aldrei borða kartöflumat á kvöldin.  Hann óskaði eftir pizzu.  Honum var boðið að fara á pizzustað á eigin kostnað.  Vinnuflokkurinn væri hinsvegar á samningi við heimilismatstöðina.  Kauði átti ekki pening og snæddi með ólund.

   Ekki bólaði á honum daginn eftir.  Nonni hringdi í hann.  Afsökun hans var:  "Mér er illt í maganum af því að ég fékk ekki pizzu.  Ég varaði þig við að ekki eigi að borða kvöldmat með kartöflum.  Þú tókst ekki mark á því.  Þetta er þér að kanna!"

  Nonni sagði honum að mæta aldrei aftur á staðinn.  Um mánaðarmótin mætti hann þó til að sækja kaupið sitt.  Kennitala hans leiddi í ljós að hann var aðeins 17 ára.  Hann viðurkenndi að vera ekki rafvirki og hefði aldrei komið nálægt rafmagni áður.  


Varð ekki um sel

  Reynsla og upplifanir sjómanna eru margar og mismunandi.  Því oftar sem þeir eru úti á sjó þeim mun líklegra er að þeir verði vitni að margvíslegum ævintýrum.  Þannig var það um helgina hjá honum Hjalta í Klakksvík.  Hann sat í trillunni sinni og fylgdist með hvalvöðu lóna við hliðina.  Þetta voru háhyrningar.  Þeir vita ekkert æti betra en spikfeita seli.

  Skyndilega stökk selur upp úr haffletinum.  Hann hrópaði á hjálp og synti á ofsahraða að bátnum.  Þar skorðaði hann sig við landganginn.

  Hjalti drap á vélinni og horfði skilningsríkur í augu selsins,  eins og til að róa hann.  Hvalirnir skildu ekki upp né niður í því hvað varð um selinn.  Þeir syntu undrandi fram og til baka í góðan hálftíma.  Þá héldu þeir á brott í leit að öðru æti. 

  Hjalti gaf selnum til kynna með leikrænni tjáningu að hættan væri liðin hjá.  Blessuð skepnan skildi og synti varfærnislega frá bátnum.  Í þann mund er hann steypti sér í djúpið þá snéri hann sér við og veifaði sjómanninum í þakklætisskini. 

hvalurKopur


Anna á Hesteyri - undarlegt aksturslag

  Anna frænka á Hesteyri var um sextugt þegar einn frændi okkar gaf henni bíl og bílpróf.  Nýkomin með ökuréttindi brá hún sér upp á Hérað.  Vegurinn upp úr Mjóafirði var einbreiður og lélegur malarruðningur.  Kannski þess vegna vandi hún sig á að keyra aldrei hraðar en í öðrum gír.  

  Er Anna nálgaðist Egilsstaði var hún skyndilega komin á fínan tvíbreiðan malbikaðan veg.  Hún tók upp á því að keyra eftir honum miðjum.  Þetta olli öðrum bílstjórum vandræðum með að taka framúr eða mæta henni. 

  Einhver gerði lögreglunni viðvart.  Hún brunaði á móti Önnu;  stöðvaði hana með blikkandi ljósum og sírenu.  Önnu var illa brugðið.  Lögreglan bað hana að gera grein fyrir þessu undarlega aksturslagi.  Hún sagðist hafa orðið svo ánægð með breiða malbikaða veginn að henni datt í hug að leika sér;  leyfa öðrum ökumönnum að ráða hvoru megin þeir vildu mæta henni eða taka framúr. 

  Laganna vörður benti Önnu á að í gildi væru umferðarreglur sem öllum bæri að fylgja. 

  "Þarna er komin skýring á því hvers vegna allir flautuðu svona mikið á mig," hrökk upp úr Önnu. Síðar játaði hún að hafa skammast sín rosalega mikið.   

anna marta


Staðin að verki!

  Meðfylgjandi mynd tók 22ja ára ensk stelpa er hún greip kærastann og móður sína glóðvolg í bólinu.  Stelpan og strákurinn höfðu verið par í 10 mánuði.  Hún var barþjónn.  Af ótilgreindum ástæðum féll vakt hennar óvænt niður að hálfu eitt kvöldið.  Hún ákvað að nota fríið til að heimsækja móðir sína.

  Er hún gekk inn í íbúð mömmunnar blöstu skór kærastans við.  Frá efri hæðinni barst músík og ástarbrími.  Það fauk í hana.  Hún læddist upp og smellti ljósmynd af því sem mætti henni.  Myndina setti hún á Facebook.  Hún fór eins og stormsveipur um netheima og bresku götublöðin.

  Sumum þótti myndbirtingin ósmekkleg refsing.  Stelpan spurði:  "Er hún ósmekklegri en að vera svikin af kærastanum og móður?"

  Mamman kenndi stráksa um allt.  Hann hafi platað hana með fagurgala og herðanuddi á meðan hún vaskaði upp.  Eiginlega gegn sínum vilja tók hún þátt í að tína af sér spjarirnar og skríða með kauða undir sæng.

  Mamman segist þakklát dótturinni fyrir að bjarga sér úr vondum aðstæðum.  Þær mæðgur séu báðar fórnarlömb tungulipurs loddara. 

  Pilturinn segist aðeins hafa þegið það sem stóð honum til boða.  Hann væri ástralskur skiptinemi og stutt í heimferð.  "Mér gæti ekki verið meira sama," segir hann kotroskinn.

  Dóttirin sættist með semingi við mömmuna.  Sagði auðveldara að henda lélegum bólfélaga í ruslið en afskrifa mömmu. 

  Á myndunum til hægri eru mamman og stráksi fullklædd.

mamman

mamman.

  

  

      


Gleymdi barni

  Ég var úti að aka.  Langaði að hlusta á eitthvað áheyrilegt í útvarpinu.  Tók upp á því - í óeiginlegri merkingu - að sigla á sjóbrettum um öldur ljósvakans.  "Sörfa".  Að því kom að ég heyrði spjall tveggja manna.  Annar spurði hinn um ævi og störf.  Þar á meðal um barneignir.

  - Ég á þrjú börn,  upplýsti hann.

  - Á hvaða aldri eru þau?

  - Nei,  heyrðu,  ég á fjögur börn.  Ég gleymdi yngsta stráknum! 

börn


Brjálaður glæfraakstur Önnu frænku á Hesteyri

  Áratugum saman var vegurinn niður í Mjóafjörð einn brattasti,  versti og hættulegasti vegur landsins.  Ökumenn - með stáltaugar - fóru fetið.  Einu sinni var Vilhjálmur Hjálmarsson í Brekku í Mjóafirði að leggja í hann niður í fjörð.  Það var svartaþoka.  Nánast ekkert skyggni.  Hann kveið ferðalaginu.  

  Hann var ekki langt kominn er bíll Önnu Mörtu frænku á Hesteyri blasti við.  Bíllinn mjakaðist löturhægt niður veginn.  Anna ók reyndar alltaf mjög hægt.  Vilhjálmur fann fyrir öryggi í þessum aðstæðum. 

  Skyndilega gaf Anna hressilega í.  Hún brunaði inn í þokuna.  Vilhjálmi var illa brugðið.  Hann sá í hendi sér að´hún gæti ekki haldið bílnum á veginum á þessum hraða.  Síst af öllu í engu skyggni.  Hann ákvað að tapa ekki sjónum af afturljósum Önnu.  Hann yrði að komast á slysstað þegar - en ekki ef - bíllinn brunaði út af.  Skelfingu lostinn þurfti hann að hafa sig allan við að halda í við Önnu. 

  Greinilega hafði eitthvað komið yfir Önnu.  Hún hélt áfram að auka hraðann. Vilhjálmur þorði ekki að líta á hraðamæli.  Honum var ekki óhætt að líta sekúndubrot af afturljósunum. 

  Þegar þau komu niður í dal létti þoku.  Anna ók út í kant og stöðvaði.  Vilhjálmur gerði það einnig; hljóp til Önnu,  reif upp hurðina og spurði hvað væri í gangi.  Hún kom ekki upp orði um stund.  Hún var í losti;  andaði eins og físibelgur og starði með galopin augu í angist á Vilhjálm.  Loks tókst henni að stynja upp:

  "Ég óttaðist að þú reyndir að taka framúr.  Vegurinn býður ekki upp á framúrakstur.  Í svona svartaþoku er lífshættulegt að reyna það.  Ég varð að gera hvað ég gat til að hindra það!"  

  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband