Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
12.8.2024 | 08:56
Anna á Hesteyri - undarlegt aksturslag
Anna frænka á Hesteyri var um sextugt þegar einn frændi okkar gaf henni bíl og bílpróf. Nýkomin með ökuréttindi brá hún sér upp á Hérað. Vegurinn upp úr Mjóafirði var einbreiður og lélegur malarruðningur. Kannski þess vegna vandi hún sig á að keyra aldrei hraðar en í öðrum gír.
Er Anna nálgaðist Egilsstaði var hún skyndilega komin á fínan tvíbreiðan malbikaðan veg. Hún tók upp á því að keyra eftir honum miðjum. Þetta olli öðrum bílstjórum vandræðum með að taka framúr eða mæta henni.
Einhver gerði lögreglunni viðvart. Hún brunaði á móti Önnu; stöðvaði hana með blikkandi ljósum og sírenu. Önnu var illa brugðið. Lögreglan bað hana að gera grein fyrir þessu undarlega aksturslagi. Hún sagðist hafa orðið svo ánægð með breiða malbikaða veginn að henni datt í hug að leika sér; leyfa öðrum ökumönnum að ráða hvoru megin þeir vildu mæta henni eða taka framúr.
Laganna vörður benti Önnu á að í gildi væru umferðarreglur sem öllum bæri að fylgja.
"Þarna er komin skýring á því hvers vegna allir flautuðu svona mikið á mig," hrökk upp úr Önnu. Síðar játaði hún að hafa skammast sín rosalega mikið.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.7.2024 | 08:39
Staðin að verki!
Meðfylgjandi mynd tók 22ja ára ensk stelpa er hún greip kærastann og móður sína glóðvolg í bólinu. Stelpan og strákurinn höfðu verið par í 10 mánuði. Hún var barþjónn. Af ótilgreindum ástæðum féll vakt hennar óvænt niður að hálfu eitt kvöldið. Hún ákvað að nota fríið til að heimsækja móðir sína.
Er hún gekk inn í íbúð mömmunnar blöstu skór kærastans við. Frá efri hæðinni barst músík og ástarbrími. Það fauk í hana. Hún læddist upp og smellti ljósmynd af því sem mætti henni. Myndina setti hún á Facebook. Hún fór eins og stormsveipur um netheima og bresku götublöðin.
Sumum þótti myndbirtingin ósmekkleg refsing. Stelpan spurði: "Er hún ósmekklegri en að vera svikin af kærastanum og móður?"
Mamman kenndi stráksa um allt. Hann hafi platað hana með fagurgala og herðanuddi á meðan hún vaskaði upp. Eiginlega gegn sínum vilja tók hún þátt í að tína af sér spjarirnar og skríða með kauða undir sæng.
Mamman segist þakklát dótturinni fyrir að bjarga sér úr vondum aðstæðum. Þær mæðgur séu báðar fórnarlömb tungulipurs loddara.
Pilturinn segist aðeins hafa þegið það sem stóð honum til boða. Hann væri ástralskur skiptinemi og stutt í heimferð. "Mér gæti ekki verið meira sama," segir hann kotroskinn.
Dóttirin sættist með semingi við mömmuna. Sagði auðveldara að henda lélegum bólfélaga í ruslið en afskrifa mömmu.
Á myndunum til hægri eru mamman og stráksi fullklædd.
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.7.2024 kl. 08:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
24.6.2024 | 08:40
Gleymdi barni
Ég var úti að aka. Langaði að hlusta á eitthvað áheyrilegt í útvarpinu. Tók upp á því - í óeiginlegri merkingu - að sigla á sjóbrettum um öldur ljósvakans. "Sörfa". Að því kom að ég heyrði spjall tveggja manna. Annar spurði hinn um ævi og störf. Þar á meðal um barneignir.
- Ég á þrjú börn, upplýsti hann.
- Á hvaða aldri eru þau?
- Nei, heyrðu, ég á fjögur börn. Ég gleymdi yngsta stráknum!
18.6.2024 | 08:06
Brjálaður glæfraakstur Önnu frænku á Hesteyri
Áratugum saman var vegurinn niður í Mjóafjörð einn brattasti, versti og hættulegasti vegur landsins. Ökumenn - með stáltaugar - fóru fetið. Einu sinni var Vilhjálmur Hjálmarsson í Brekku í Mjóafirði að leggja í hann niður í fjörð. Það var svartaþoka. Nánast ekkert skyggni. Hann kveið ferðalaginu.
Hann var ekki langt kominn er bíll Önnu Mörtu frænku á Hesteyri blasti við. Bíllinn mjakaðist löturhægt niður veginn. Anna ók reyndar alltaf mjög hægt. Vilhjálmur fann fyrir öryggi í þessum aðstæðum.
Skyndilega gaf Anna hressilega í. Hún brunaði inn í þokuna. Vilhjálmi var illa brugðið. Hann sá í hendi sér að´hún gæti ekki haldið bílnum á veginum á þessum hraða. Síst af öllu í engu skyggni. Hann ákvað að tapa ekki sjónum af afturljósum Önnu. Hann yrði að komast á slysstað þegar - en ekki ef - bíllinn brunaði út af. Skelfingu lostinn þurfti hann að hafa sig allan við að halda í við Önnu.
Greinilega hafði eitthvað komið yfir Önnu. Hún hélt áfram að auka hraðann. Vilhjálmur þorði ekki að líta á hraðamæli. Honum var ekki óhætt að líta sekúndubrot af afturljósunum.
Þegar þau komu niður í dal létti þoku. Anna ók út í kant og stöðvaði. Vilhjálmur gerði það einnig; hljóp til Önnu, reif upp hurðina og spurði hvað væri í gangi. Hún kom ekki upp orði um stund. Hún var í losti; andaði eins og físibelgur og starði með galopin augu í angist á Vilhjálm. Loks tókst henni að stynja upp:
"Ég óttaðist að þú reyndir að taka framúr. Vegurinn býður ekki upp á framúrakstur. Í svona svartaþoku er lífshættulegt að reyna það. Ég varð að gera hvað ég gat til að hindra það!"
Vinir og fjölskylda | Breytt 19.6.2024 kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.5.2024 | 08:40
Bráðsniðug uppfinning
Einn kunningi minn er það sem kallast "þúsund þjala smiður". Hann á létt með að gera við alla bilaða hluti; hvort heldur sem er heimilistæki, bíla eða hvað sem er. Allt leikur í höndunum á honum. Sjaldnast þarf hann annað en svissneska hnífinn sinn til að koma hlutunum í lag. Hann grípur það sem hendi er næst og breytir því í varahlut. Þetta getur verið tappi af kókflösku, spýtubrot eða plastpoki.
Maðurinn er frjór í hugsun og stöðugt að finna upp nýja nytjahluti. Eitt sinn hannaði hann dósapressu með teljara. Mjög flott græja. Er hann fór að kanna með að setja hana í fjöldaframleiðslu kom í ljós að samskonar tæki var til sölu í Húsasmiðjunni.
Þá snéri hann sér að því að hanna blaðsíðuteljara. Dögum saman kannaði hann hina ýmsu möguleika. Hann reiknaði og teiknaði. Markmiðið var að tækið yrði ódýrt, einfalt og þyrfti hvorki batterí, rafmagn né aðra orkugjafa.
Eftir margra daga puð mætti uppfinningamaðurinn á bar í Ármúla, Wall Street. Hann sagði viðstöddum frá blaðsíðuteljaranum og vinnunni við að koma honum á koppinn. Gleðitíðindin voru þau að hönnunin var komin á lokastig. Þetta yrði jólagjöf næstu ára því margir fá bækur í jólagjöf. Næsta skref yrði að koma tólinu á heimsmarkað.
"Er ekki einfaldara að fletta upp á öftustu síðu til að sjá blaðsíðufjöldann?" spurði Siggi Lee Lewis.
Aldrei aftur var minnst á blaðsíðuteljarann.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.4.2024 | 09:03
Anna frænka og hraðsuðuketillinn
Þegar móðir Önnu frænku, Lára, féll frá varð hún einstæðingur. Faðir hennar féll frá einhverjum árum áður. Hún sló á einmanaleikann með því að hringja oft og títt í innhringitíma Rásar 2. Fyrir ofan síma hennar voru spjöld með símanúmerum nánustu ættingja. Eitt spjaldið var tvöfalt stærra en hin. Símanúmer Rásar 2 fyllti út í það.
Lára var jörðuð í fjölskyldugrafreit á Hesteyri, eins og afi minn og amma. Að jarðarför lokinni fylgdi Anna presthjónunum inn í kaffi. Þar setti hún hraðsuðuketil í samband. Rafmagnsnúran var klædd tauefni. Einhverra hluta vegna hafði hún slitnað í sundur. Anna splæsti hana saman með álpappír.
Anna bauð prestfrúnni að grípa um álpappírinn.
"Það er svo gott að koma við hann þegar ketillinn er í gangi," útskýrði Anna og skríkti úr hlátri. "Hí hí hí, það kitlar!"
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.4.2024 kl. 08:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.3.2024 | 08:43
Eftirminnilegur jólapakki frá Önnu frænku á Hesteyri
Móðir mín og Anna Marta á Hesteyri í Mjóafirði voru bræðradætur. Kannski var það þess vegna sem þær skiptust á jólagjöfum. Ein jólin fékk mamma frá Önnu langan og mjóan konfektkassa. Hann var samanbrotinn í miðjunni. Endarnir voru kyrfilega bundnir saman með límbandi. Með fylgdi heimagert jólakort. Anna var ágætur teiknari. Hún skreytti kortið með teikningum af jólatrjágreinum og fleiru jólaskrauti. Í kortið voru meðal annars þessi skilaboð:
"Láttu þér ekki bregða við að konfektkassinn sé samanbrotinn. Það er með vilja gert til að konfektmolarnir verði ekki fyrir hnjaski í ótryggum póstflutningum."
Þegar mamma opnaði kassann blasti við ein allsherjar klessa. Einmitt vegna þess að hann var samanbrotinn. Molarnir voru mölbrotnir. Mjúkar fyllingarnar límdu klessuna saman við pappírinn.
Áfast pakkanum hékk límbandsrúlla. Anna hafði gleymt að klippa hana frá.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
13.3.2024 | 10:08
Allir góðir saman!
Fyrir nokkrum árum stálpuðust barnabörn mín. Þau lærðu að lesa og lásu mikið; allskonar blöð, tímarit, bækur og netmiðla. Gaman var að fylgjast með því. Nema að mér varð ljóst að margt í fjölmiðlum er ekki til fyrirmyndar. Þá datt mér í hug að setja sjálfum mér reglu: Að skrifa og segja aldrei neitt neikvætt og ljótt um neina manneskju.
Þetta var U-beygja til góðs. Það er miklu skemmtilegra að vakna og sofna jákvæður og glaður heldur en velta sér upp úr leiðindum. Til viðbótar ákvað ég að hrósa einhverjum eða einhverju á hverjum degi. Svoleiðis er smitandi og gerir öllum gott.
6.3.2024 | 09:39
Kennaramorð
Sex ára frænka mín hóf nám í grunnskólanum. Hún hefur sterkt og afskaplega ríkt hugmyndaflug. Í hennar huga stækka hlutirnir og verða sveipaðir ótrúlegasta ævintýraljóma.
Í aðdraganda skólagöngunnar viðurkenndi pabbi hennar að hann hafi stundum verið óþekkur í skólanum. Hann hafi lent í útistöðum við kennarann. Stelpan rak upp stór augu. Svo kom skólasystir hennar í heimsókn. Þær spjölluðu um skólann. Pabbanum var illa brugðið er hann heyrði dótturina einlæga og alvörugefna segja: "Pabbi var rosalega óþekkur í skóla. Hann steindrap kennarann!"
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
19.1.2024 | 10:53
Vandræði við að rata
Ég átti leið í Costco. Flest þar er á svipuðu verði og í Bónus. Fólk getur þess vegna sparað sér 5000 króna félagsgjald í Costco. Þó má komast í ódýrara bensín og smakk á ýmsum matvælum.
Samferða mér inn í Costco var ungur maður og öldruð kona. Maðurinn gekk greitt. Konan dróst afturúr. Hún kallaði á eftir honum hvellri röddu: "Erum við núna í Keflavík?"
Maðurinn umlaði eitthvað sem ég náði ekki. Rifjaðist þá upp fyrir mér þegar mæðgur á Akureyri þurftu að bregða sér til Reykjavíkur. Þær rötuðu ekkert í höfuðborginni. Þetta var fyrir daga tölvunnar. Þær ákváðu að keyra vel inn í Reykjavík áður en spurt yrði til vegar. Allt gekk vel. Svo komu þær að sjoppu og spurðu afgreiðsludömuna: "Hvert er best að fara í átt að Krummahólum?"
Daman snéri sér að annarri afgreiðsludömu og spurði: "Eru Krummahólar ekki einhversstaðar í Reykjavík?"
Áður en hún náðu að svara spurðu mæðgurnar: "Erum við ekki í Reykjavík?"
- Nei, svaraði daman. Við erum í Hafnarfirði!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)