Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
9.12.2023 | 14:03
Jólatiktúrur afa - Fyrsti hluti
Afi var jólabarn. Hann hlakkaði alltaf barnslega mikið til jólanna. Var gífurlega spenntur. Er jólapakkar tóku að berast í hús átti hann erfitt með að hemja sig. Hann bar sína pakka inn til sín. Þar þuklaði hann á þeim fram og til baka. Aldrei leið á löngu uns við krakkarnir urðum varir við að afi hafði gægst í þá. Reyndi hann þó að leyna því.
Þegar við sökuðum hann um þetta varð hann vandræðalegur og bar fyrir sig langsóttar ástæður. Er hann gægðist í ferkantaða pakka sagðist hann hafa orðið að ganga úr skugga um að ekki væri um konfekt að ræða.
"Maður geymir ekki konfekt hvar sem er," útskýrði afi. "Það gæti bráðnað ef pakkarnir eru nálægt ofninum."
Um rifu á mjúkum pökkum var afsökunin: "Ég var að færa hann úr stað. Tók í ógáti of fast á honum. Bréfið brast. Þegar ég skoðaði rifuna betur þá rifnaði hún meir. Jólapappír er orðinn svo aumur nú til dags að það er hneisa!"
Einstaka sinnum fékk afi konfekt í jólagjöf. Hann hafði það út af fyrir sig. Ég spurði af hverju hann biði ekki með sér. Svarið var: "Foreldrar þínir fengu líka konfekt í jólagjöf. Við þurfum þess vegna ekkert að togast á um þessa fáu mola. En ég skal gefa þér brjóstsykurmola." Sem hann gerði.
17.11.2023 | 14:26
Klámmynd Önnu frænku á Hesteyri
Anna frænka á Hesteyri var viðkvæm fyrir nekt. Svo mjög að hún svaf kappklædd. Hún var stór og mikil um sig. Stundum fór hún í megrun. Það breytti litlu.
Einu sinni sem oftar hringdi hún í apótekið á Neskaupstað. Að þessu sinni falaðist hún eftir megrunardufti, Nupo-létt. Henni var illa brugðið er duftið barst með póstinum. Á umbúðunum blasti við mynd af frægu málverki af nakinni konu.
Anna hringdi í geðshræringu í apótekarann. Hún krafðist þess að sölu á duftinu yrði þegar í stað hætt. Ella neyddist hún til að kæra apótekið fyrir dreifingu á klámi.
Apótekarinn tók erindinu vel. Hann þekkti frúna. Hann þakkaði kærlega fyrir ábendinguna. Hann myndi sjá til þess að myndinni yrði umsvifalaust breytt.
Nokkrum vikum síðar hringdi Anna. Hún spurði hvort búið væri að fjarlægja klámmyndina. Apótekarinn játti því. Anna pantaði meira duft. Tússpenni var dreginn fram og svartur síðkjóll teiknaður á nöktu konuna.
Anna var hin ánægðasta með útkomuna. Hún hældi sér af því að hafa forðað apótekinu á Neskaupstað frá dreifingu á klámmynd.
22.10.2023 | 14:07
Bílpróf Önnu frænku á Hesteyri
Anna frænka á Hesteyri í Mjóafirði var komin yfir miðjan aldur er hún tók bílpróf. Góður höfðinglegur frændi okkar gaf henni bíl og bílpróf í Reykjavík. Ökuréttindin og bíllinn veittu einbúanum mikla gleði.
Anna hringdi til Akureyrar í mömmu og færði henni tíðindin. Þær voru bræðradætur. Mamma samgladdist og hvatti hana til að bruna norður í heimsókn.
- Er hringtorg á Akureyri? spurði Anna.
Jú. Mömmu taldist til að þau væru fimm.
- Þá get ég ekki komið til Akureyrar, svaraði Anna döpur í bragði. Ástæðan var heiðursmannasamkomulag sem hún gerði við prófdómarann. Í prófinu festist hún inni í innri hring á hringtorgi. Hann tilkynnti henni að ökumaður sem kæmist ekki út úr hringtorgi fyrr en eftir sjö hringi væri óhæfur í umferðinni.
Anna upplýsti hann um að í Mjóafirði væri ekkert hringtorg. Líkast til ekki á öllum Austfjörðum ef út í það væri farið. Bauðst hún til að gera við hann heiðursmannasamkomulag um að aka aldrei til neinna staða með hringtorg. Hún rétti honum hönd sína upp á það. Hann tók boði hennar. Hún stóð við sitt alla ævi.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.9.2023 | 12:41
Fjölskylduvænt framhjáhald
Frönsk kona, tveggja barna móðir, vann lengst af sem einkaspæjari. Meðal algengra og vinsælla verkefna var að njósna um fólk sem lá undir grun um að halda framhjá maka sínum. Í vinnunni lærði hún hægt og bítandi hver eru helstu mistök fólks sem heldur framhjá og hvers vegna upp um það kemst.
Hún tók æ oftar nærri sér hverjar urðu afleiðingar starfsins. Iðulega kom til harðvítugs uppgjörs, hjónaskilnaðar, upplausnar fjölskyldu og heimilis. Sárast þótti henni að horfa upp á grátandi niðurbrotin börn í áfallastreituröskun.
Að því kom að hún þoldi þetta ekki. Hún ákvað að snúa við blaðinu. Hún lokaði á njósnir og stofnaði fyrirtæki sem býður upp á sérhæfða framhjáhaldsþjónustu. Það skipuleggur framhjáhaldskvöld, nætur eða helgarpakka. Hún afgreiðir platsímtöl, plat-sms, útbýr og sendir út platboðskort eða fundarboð, sviðsetur hverskonar atburði, falsar hótelreikninga, kvittanir frá veitingastöðum, leigubílum; falsar ljósmyndir og önnur "sönnunargögn".
Starfsemin gengur vel. Nú leggst hún til svefns án samviskubits. Ekki hefur komist upp um framhjáhald svo mikið sem eins kúnna. Þetta eru fjölskylduvæn framhjáhöld.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.7.2023 | 13:52
Skipti um andlit og fann ástina
2018 sat Joe DiMeo í bíl í New Jersey í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þetta var ungur og hraustur drengur, 24 ára. Þá lenti hann í hroðalegu bílslysi. Á augabragði breyttist bíllinn í skíðlogandi eldhaf. Joe brenndist illa. 80% líkamans hlaut 3ja stigs bruna. Andlitið varð ein klessa og læknar þurftu að fjarlægja nokkra fingur.
Læknar reyndu hvað þeir gátu að lagfæra andlitið. Þeir sóttu húð, bandvefi og fleira en varð lítið ágengt í 20 tíma aðgerð. Nokkrum árum síðar var afráðið að taka andlit af nýdánum manni og græða á Joe. 140 manns tóku þátt í 23ja tíma aðgerð. Þetta voru skurðlæknar, hjúkrunarfræðingar og allskonar.
Aðgerðin tókst eins og bjartsýnustu menn þorðu að vona. Að vísu er nýja andlitið of stórt og af 48 ára manni. Joe þykir þetta skrýtið. En það venst. Mestu skiptir að vera kominn með andlit.
32 ára hjúkrunarfræðingur í Kaliforniu, Jessy Koby, frétti af aðgerðinni. Starfandi á sjúkrahúsi heillaðist hún af uppátækinu. Til að fá nánari vitneskju af þessu setti hún sig í samband við Joe. Eftir því sem þau kynntust betur kviknuð tilfinningar í garð hvors annars.
Nú er hún flutt inn til hans og ástin blómstrar.
Vinir og fjölskylda | Breytt 17.7.2023 kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.5.2023 | 14:07
Dvergur étinn í ógáti
Þetta gerðist í Norður-Taílandi. Dvergur var með skemmtiatriði í sirkuss. Hann sýndi magnaðar listir sínar á trampólíni. Eitt sinn lenti hann skakkt á trampólíninu úr mikilli hæð. Hann þeyttist langt út í vatn. Næsta atriði á dagskrá var að flóðhestur í vatninu átti að kokgleypa melónu sem var kastað til hans úr töluverðri fjarlægð. Við skvampið frá dvergnum ruglaðist flóðhesturinn í ríminu. Hann gleypti dverginn undir dynjandi lófaklappi 2000 áhorfenda. Þeir héldu að þetta væri hápunktur skemmtunarinnar.
30.4.2023 | 16:33
Fólkið sem reddar sér
Fjórar fjölskyldur í Essex á Englandi urðu heimilislausar eftir að íbúðir þeirra brunnu til kaldra kola. Þetta atvikaðist þannig að húsbóndinn á einu heimilinu tók eftir því að útimálningin var farin að flagna af. Honum hraus hugur við að þurfa að eyða sólríkum degi í að skafa málninguna af. Til að spara sér puð brá hann á ráð: Hann úðaði bensíni yfir húsið og kveikti í. Málningin fuðraði upp eins og dögg fyrir sólu. Líka húsið og nálæg hús.
Orkuboltinum Christina Lamb í Cornwall á Englandi datt í hug að reisa verönd við hús sitt. Hún hófst þegar handa við að grafa grunn. Í ákafa tókst henni að höggva í sundur gasleiðslu bæjarins sem stóð eftir í ljósum loga.
Mike Howel í Bristol á Englandi var ekkert að æsa sig yfir því að festa fingur í smíðabekk sínum. Fingurinn var pikkfastur. En hann var svo sem ekki að fara neitt. Mike hafði fátt betra að gera þann daginnn en rölta með fingurinn og smíðabekkinn 3ja kílómetraleið á sjúkrahús. Það tók aðeins 8 klukkutíma. Hefði tekið styttri tíma ef vegfarendur hefðu ekki stöðugt verið að stoppa og spyrja út í dæmið.
Vinir og fjölskylda | Breytt 3.5.2023 kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.4.2023 | 13:18
Smásaga um trekant sem endaði með ósköpum
Jonni átti sér draum. Hann var um trekant með tveimur konum. Þegar hann fékk sér í glas impraði hann á draumnum við konu sína. Hún tók því illa.
Árin liðu. Kunninginn færði þetta æ sjaldnar í tal. Börnin uxu úr grasi og fluttu að heiman. Hjónin minnkuðu við sig. Keyptu snotra íbúð í tvíbýlishúsi. Í hinni íbúðinni bjuggu hjón á svipuðum aldri. Góður vinskapur tókst með þeim. Samgangur varð mikill. Hópurinn eldaði saman um helgar, horfði saman á sjónvarp, fór saman í leikhús, á dansleiki og til Tenerife.
Einn daginn veiktist hinn maðurinn. Hann lagðist inn á sjúkrahús. Á laugardagskvöldi grillaði Jonni fyrir þau sem heima sátu. Grillmatnum var skolað niður með rauðvíni. Eftir matinn var skipt yfir í sterkara áfengi. Er leið á kvöldið urðu tök á drykkjunni losaralegri. Fólkið varð blindfullt.
Þegar svefndrungi færðist yfir bankaði gamli draumurinn upp hjá Jonna. Leikar fóru þannig að draumurinn rættist loks. Morguninn eftir vaknaði kappinn illa timbraður. Konurnar var hvergi að sjá. Sunnudagurinn leið án þess að málið skýrðist. Á mánudeginum hringdi frúin loks í mann sinn. Tjáði honum að þær vinkonurnar hefðu uppgötvað nýja hlið á sér. Þær ætluðu að taka saman. Sem þær gerðu. Eftir situr aleinn og niðurbrotinn maður. Hann bölvar því að draumurinn hafi ræst.
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.4.2023 kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.1.2023 | 11:33
Sjaldan launar kálfur ofeldi.
Ég þekki konu eina. Við erum málkunnug. Þegar ég rekst á hana tökum við spjall saman. Hún er fátæk einstæð móðir 23ja ára manns. Þrátt fyrir aldurinn býr hann enn heima hjá henni. Hann er dekurbarn. Konan er í vandræðum með að ná endum saman um hver mánaðarmót. Eini lúxus hennar er að reka gamla bíldruslu. Það er eiginlega í neyð. Hún á erfitt með gang vegna astma og fótfúa. Hún kemst ekki í búð án bílsins.
Núna um helgina varð hún á vegi mínum. Hún sagði farir sínar ekki sléttar. Kvöldið áður bað sonurinn um að fá bílinn lánaðan. Honum var boðið í partý. Konan tók vel í það. Sjálf þurfti hún að fara einhverra erinda út í bæ. Það passaði að sonurinn skutlaði henni þangað í leiðinni.
Er hún var komin á leiðarenda tilkynnti hún syninum að hann þyrfti að sækja sig um klukkan 11.
- Ekki séns, svaraði kauði.
- Hvað átt þú við? Ég þarf að komast heim, útskýrði konan.
- Ég er að fara í partý. Það verður nóg að drekka. En það verður enginn ölvunarakstur.
- Ég er að lána þér bílinn minn. Þú skalt gjöra svo vel og sjá mér fyrir fari heim.
- Þú verður að redda þér sjálf.
- Hvernig á ég að redda mér fari? Ég get hvorki tekið strætó né gengið heim.
- Hefur þú aldrei heyrt talað um taxa? hrópaði sonurinn um leið og hann reykspólaði burt.
Vinir og fjölskylda | Breytt 14.1.2023 kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.12.2022 | 12:44
Rökföst
Í gær ræddi ég við unga stúlku um jólin.
- Hvað verður í matinn hjá ykkur á aðfangadag? spurði ég.
- Það er alltaf tvíréttað; lamb og svín, svaraði hún.
- En á jóladag?
- Ég veit það ekki. Enda er það ekkert merkilegur dagur!
- Jú, jóladagurinn er eiginlega skilgreindur sem aðal jóladagurinn.
- Í útlöndum, já. Á Íslandi er aðfangadagur aðal jóladagurinn. Þá bjóðum við hvert öðru gleðileg jól; þá er mesta veislan og við opnum jólapakkana, lesum á jólakort og leikum okkur.
- Það er rétt hjá þér að þetta er misvísandi. En orðið aðfangadagur þýðir að þetta sé dagurinn fyrir jóladag; aðdragandi jóla.
- Hvers vegna heldur þú að í súkkulaðijóladagatalinu sé síðasti dagurinn 24. des? 25. des er ekki einu sinni í dagatalinu.
Ég var mát!
![]() |
Jólunum er aflýst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt 29.12.2022 kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)