Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
11.5.2007 | 01:10
Auðjón
Ég heyri ekki betur en að þulur í nýjustu útvarpsauglýsingu frá Freyju segist heita Auðjón. Verið er að auglýsa Freyjudraum (eða er það Freyjustaur?). Þulurinn er leikinn af Steini Ármanni. Áður hef ég lesið í dagblöðum dóm um leikrit þar sem ein persónan bar nafnið Auðjón. Sömuleiðis heyrði ég eitt sinn í leiknu grínatriði í útvarpsþættinum Ungmennafélagið á rás 2 eina persónu kallaða Auðjón. Ætla má að nafnið Auðjón hafi víðar skotið upp kolli þó það hafi farið framhjá mér. Ég á ekki útvarp og heyri bara í útvarpi hér og þar útundan mér.
Raunveruleikinn er sá það er bara til einn Auðjón. Hann er 34ra ára bróðir minn, yngstur 6 systkina. Pabbi valdi handa honum nafnið Guðmundur. Mamma vildi skýra drenginn í höfuðið á Jóni Kr. Ísfeld bróður sínum og Auði mágkonu sinni. Mamma skellti nöfnum þeirra saman í þetta fína nafn. Þetta var fyrir daga hinnar fráleitu óþurftar ríkisnefndar mannanafnanefndar.
Nafn Auðjóns hefur oft heyrst í umræðunni. Einkum á meðan hann raðaði á sig verðlaunum í júdókeppnum á árum áður (ég er samt ennþá sterkari í áflogum. En það er önnur saga). Síðar hefur Auðjón verið í viðtölum hjá fjölmiðlum sem talsmaður markaðsmála á Norðurlandi. Fyrir bragðið er nafnið Auðjón ekki eins sjaldgæft og margir ætla að óreyndu.
Svo skemmtilega vill til - vegna auglýsingar frá Freyju - að ég vann eitt sumar hjá Freyju á námsárum mínum í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Síðar hannaði ég og teiknaði umbúðir fyrir nokkrar sælgætisafurðir Freyju eftir að ég útskrifaðist frá MHÍ sem auglýsingateiknari. Síðan eru liðin mörg ár.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.4.2007 | 17:24
Afi III
Það er ofmælt að afi hafi verið nyrfill. Það var hann ekki. En hann var eins fjarri því að bruðla með hluti og hægt er upp að því marki.
Eftir dvöl á sjúkrahúsi á Sauðárkróki er afi datt á svelli (sjá eldri færslur) uppgötvaði hann heimkominn að nærbuxur höfðu ekki skilað sér. Honum var sárt um að skilja þær eftir á sjúkrahúsinu. Taldi víst að starfsfólk sjúkrahússins hafi með vilja og slóttugheitum haft af sér nærbuxurnar. Hann átti varla til orð til að lýsa ósvífninni. Þótti þetta vera hámark lágkúrunnar; að stöndug stofnun sæti lagi við að ná nærbuxum af öldruðum afdalabónda.
Áður en æsingurinn rénaði ákvað afi að setja frænda okkar á Sauðárkróki umsvifalaust í það verkefni að bjarga nærbuxunum af sjúkrahúsinu og koma þeim í réttar hendur. Skrifaði frænda bréf. Útskýrði fyrir honum vandamálið og óskaði eftir aðstoð við að leysa það.
Við áttum heima á Hrafnhóli, beint á ská gegnt Hólum í Hjaltadal. Á Hólum var á þeim tíma póstþjónusta. Afi neytti allra leiða til að komast hjá því að borga undir póst. Í þessu tilfelli samdi hann við mjólkurbílstjórann um að koma bréfinu til frænda á Króknum.
Verra var að nokkru eftir að afi hafði lokað umslaginu og skrifað utan á það þá uppgötvaði hann að gleymst hafði að setja bréfið ofan í umslagið. Kom þá nokkuð fát á afa. Hann vildi ekki bruðla með fleiri umslög. Hann brá því á það ráð að endurskrifa erindið aftan á umslagið. Lýsti þar fyrir frænda öllum sérkennum nærbuxanna til að örugglega yrðu réttar buxur innheimtar.
Mjólkurbílstjóranum þótti þetta spaugilegt og sýndi umslagið á öllum bæjum. Vakti það kátínu og umtal í sveitinni. En umslagið þjónaði sínum tilgangi. Frændi fann nærbuxurnar á sjúkrahúsinu og afi varð kátastur allra þegar hann fékk þær aftur í hendur. Hældi sér oft af því síðar að hafa með harðfylgi náð að afstýra því að nærbuxurnar yrðu eign sjúkrahússins. Frásögn hans lauk ætíð á þessum orðum, sem voru sögð með þykkju í röddinni, um leið og hann lamdi hnefanum í borðið: "Enda kom aldrei til greina að gefa sjúkrahúsinu uppáhalds nærbuxurnar mínar."
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
3.4.2007 | 03:28
Afi - II
Vinir og fjölskylda | Breytt 22.3.2011 kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.4.2007 | 18:22
Afi
Á gamals aldri ól Stefán afi minn með sér andúð á tiltekinni fjölskyldu í Hjaltadal. Tilefnið var ekki merkilegt. Þannig háttaði til að eitt kvöldið sat heimilisfólkið í eldhúsinu. Einhverra hluta vegna fór afi að herma eftir bónda í sveitinni. Bóndinn reykti pípu. Pípuna tók hann sjaldan út úr sér, hvort sem logaði í tóbaki eða ekki. Fyrir bragðið hafði hann sérkennilegan talanda og hlátur er réðist af samanbitnum tönnum.
Afi var ekki vanur að herma eftir fólki. Enda fjarri því að vera góð eftirherma eða húmoristi. Kannski einmitt þess vegna þótti okkur heimilisfólkinu þetta skoplegt. Við hlógum dátt. Við það fór afi á flug, tvíefldist í eftirhermunni og hækkaði róm til að yfirgnæfa hlátur okkar hinna. Þetta fékk snöggan endi þegar bóndinn, sem afi var að herma eftir, stóð skyndilega í eldhúsdyrunum og bauð gott kvöld.
Afa brá mjög við að sjá hver var kominn. Hann lét sig snögglega hverfa. Kallaði síðan á mig og Stefán bróðir minn inn í herbergi til sín. Hann var alveg miður sín og sagði: "Helvítis kallinn heyrði mig herma eftir sér. Nú verður honum illa við mig. Þetta fyrirgefur hann ekki. En mér er andskotans sama. Ég kunni alltaf illa við foreldra hans..."
Síðan æsti afi sig upp með neikvæðum sögum af bóndanum og ættingjum hans. Á endanum var afi farinn að hrósa happi yfir að þurfa ekki lengur að smjaðra fyrir þessu fólki.
Á næstu mánuðum og árum lagði afi sig í líma við að rifja upp allt það neikvæðasta sem hann gat látið sér detta í hug um þetta fólk og velti sér upp úr því. Hann fór að hallmæla bóndanum, börnum hans, ættingjum, íbúðarhúsi og bíl við öll tækifæri.
Það skal tekið fram að þetta var úrvals fólk í alla staði. Ef foreldrar mínir eða við krakkarnir reyndum að bera í bætifláka fyrir það þá brást afi hinn versti við og kvað ennþá fastar að orði.
Um miðjan vetur í fljúgandi hálku álpaðist afi út á hlað. Þar flaug hann á hausinn og steinrotaðist. Fékk slæman skurð á höfuðið. Fyrir tilviljun kom sonur bóndans - sem afi hafði hermt eftir - að afa þar sem hann lá í blóði sínu. Hafði snögg handtök. Hljóp með afa út í jeppann sinn og brunaði með hann á sjúkrabús á Sauðárkróki. Á þessum árum var um hátt í 40 mínútna leið að fara í vonskufærð. Hugsanlega bjargaði ungi maðurinn lífi afa.
Kominn heim af sjúkrahúsinu hélt afi áfram uppteknum hætti: Að tala illa um þetta sama fólk. Eitt sinn tók hann rispu um unga manninn. Fann honum allt til foráttu. Mamma var orðin þreytt á þessum klisjum og sagði:
- Þú ættir að skammast þín fyrir að tala svona um unga manninn. Þér væri nær að þakka honum fyrir að bjarga lífi þínu þegar þú dast á svellinu.
Afi hnussaði reiðilega og hreytti út úr sér: "Andskotann ætti ég að þakka honum? Hann týndi öðrum vettlingnum mínum!"
Vinir og fjölskylda | Breytt 3.4.2007 kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.3.2007 | 21:23
Hrakfarir konu
Í dag hringdi Þóra í útvarpsþátt Arnþrúðar Karlsdóttur í Útvarpi Sögu.
Þóra sagði farir sínar ekki sléttar. Seinni eiginkona föður hennar, Guðbjörg Magnúsdóttir frá Hvammi í Dölum, hefur stolið frá henni fjölskylduljósmyndum. Einungis vegna þess að þeirri gömlu þykir rammarnir utan um myndirnar svo flottir. Þar fyrir utan var "þetta fólk" (sennileg sú gamla og einhverjir henni nákomnir) að bera út sögur til 2ja ættingja um að 26 ára sonur Þóru sé í dópi. Hún vildi leiðrétta það. Strákurinn er ekki í dópi. Hann er vinnuþjarkur sem tekur sér ekki helgarfrí.
Bandaríkjamenn fundu bróðir Þóru þar sem hann vann í fiski. Þeir "dubbuðu" hann upp í að kenna geimvísindi. Hann hefur líka kennt flugmönnum. Konan hans hefur sömuleiðis kennt í háskóla - þó að hún sé tælensk. Þetta er svo fínt fólk að þegar ættarmót var haldið þá fékk Þóra ekki að mæta. Hún er ekki nógu fín að mati ættingjanna.
Svo þurfti Þóra að fara í bakaðgerð. Eftir langa bið komst hún loks að. Þá var bara fúskað í bakinu á henni, af því að hún er ekki ráðherra. Löngu eftir aðgerðina var Þóra í rólegheitum að ryksuga heima hjá sér. Þá hryggbrotnaði hún upp úr þurru. Allt út af fúskinu í læknunum.
Á milli þess sem Þóra hóstaði hressilega kvartaði hún undan því að talað sé um að undirmálsfólk reyki meira en fína fólkið. Það er sjálfsagt að taka undir umkvörtun hennar.
Vinir og fjölskylda | Breytt 12.5.2007 kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)