Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Skúbb! Færeysk tónlistarhátíð

  budamangelikaYggdrasil1_0405

  Fyrstu helgina í október verður haldin viðamikil færeysk tónlistarhátíð á Stokkseyri.  Fjöldi helstu færeyskra hljóðfæraleikara,  söngvara og hljómsveita munu troða upp.  Þar á meðal verða djasshljómsveitin Yggdrasil undir forystu píanistans Kristian Blak,  þjóðlagahljómsveitin Kvönn með fiðlusnillinginn Angeliku Nielsen í fararbroddi og rokksveitin Búdam.  

  Eivör og Kári Sverrisson hafa skipst á að syngja með Yggdrasil.  Ég veit ekki hvort þeirra sér um sönginn í þetta skiptið.  Búdam hefur verið líkt við blöndu af Tom Waits og Nick Cave

  Ég reyndi að finna á netinu eitthvað um þessa færeysku tónlistarhátíð á Stokkseyri.  Án árangurs.     

  Plötur með Yggdrasil,  Kvönn og Búdam fást í versluninni Pier í glerturninum við Smáratorg - og eflaust víðar.  Í Pier var líka að koma ný sending af tveimur plötum Viking Bands saman á einni geislaplötu.

  Í tónspilaranum á www.bless.blog.is eru nokkur lög með Búdam.

  Á www.myspace.com/angelikanielsen eru nokkur lög með Angeliku Nielsen.

  Á www.kristianblak.com er heilmikill fróðleikur um Yggdrasil. 

Efsta ljósmyndin er af Búdam.  Fyrir neðan eru myndir af Angeliku Nielsen (til vinstri) og Yggdrasil.


Siggi segir sögur

  siggi_lee

  Píanósnillingurinn knái og fingrafimi,  Siggi Lee Lewis,  er mikill og góður sögumaður.  Hvenær sem maður hittir drenginn renna upp úr kappanum ævintýralegar sögur af kunningjunum eða öðrum.  Nú hefur þessi ungi drengur brugðið á leik á bloggi sínu og er farinn að segja skemmtisögur þar.  Slóðin er www.siggileelewis.blog.is.   Reyndar vantar inn í bloggfærslur Sigga að hann er góður leikari og eftirherma.  Hann getur brugðið sér í hlutverk söguhetjunnar þannig að hún stendur manni ljóslifandi fyrir sjónum. 


Anna á Hesteyri - gestagangur

  anna á hesteyri

  Tveir rígfullorðnir menn heimsóttu Önnu á Hesteyri einn heitan sumardag.  Anna bauð þeim í bæinn að venju og gaf þeim kaffi.  Spjall var hinsvegar þeim annmörkum háð að Anna stillti útvarpið,  rás 1,  á botn skammt frá þeim.  Það var "sinfóníugaul" í útvarpinu,  eins og annar gestanna orðaði það er hann sagði mér söguna.  Þeim þótti þetta óþægilegt og margbáðu Önnu um að lækka í útvarpinu.  Anna sagðist vera að hlusta á útvarpið,  væri farin að tapa heyrn og yrði að hafa útvarpið á hæsta styrk.  Anna sagði þetta vera góða músík.  Enginn sem til Önnu þekkir veit til þess að hún hafi fyrr né síðar haft áhuga á klassískri músík.

  Annað þótti gestunum einkennilegt.  Heitt var í veðri og hlýtt inni í húsinu.  Um leið og gestunum var boðið í bæinn hljóp Anna á milli ofna og hækkaði hita í botn.  Áður en leið á löngu sátu þau þrjú öll í svitakófi eins og í gufubaði.  Þegar gestirnir báðu Önnu um að skrúfa fyrir ofna neitaði hún því.  Sagði að það væri kuldahrollur í sér.  Þó rann svitinn niður andlitið á henni.  Hún er venjulega kappklædd.  Í þetta sinn fækkaði hún fötum og var léttklædd á hennar mælikvarða.

  Vegna hávaðans frá útvarpinu og hitastækjunnar varð heimsóknin styttri en efni stóðu til.

  Nokkru síðar varð Anna uppvís af því að hafa falið kindur sem átti að vera búið að farga vegna riðuveiki á svæðinu.  Mennirnir áttuðu sig þá á því að útvarpið gegndi því hlutverki að jarm frá kindunum heyrðist ekki.  Hitastækjan gegndi því hlutverki að stytta heimsókn gestanna.

  Meira um földu kindurnar hennar Önnu Mörtu síðar.

  Aðrar sögur af Önnu:

- Slóst við mömmu
- Farandssali
- Sendi lögguna
- Einkennilegt aksturslag
- Meira af einkennilegu aksturslagi
- Samanbrotinn konfektkassi
- Nupo létt
- Bílprófið

Afi glímir við draug

 Á næsta bæ við æskuheimili mitt í Hjaltadal bjó maður á aldur við afa,  ásamt sinni fjölskyldu.  Þetta var vandaður maður sem enginn sagði neikvætt orð um.  Ekki heldur afi á meðan maðurinn var á lífi.
  Nokkru eftir fráfall mannsins fór hann að birtast afa í draumi og var með "leiðinda skæting",  eins og afi orðaði það.  Til að byrja með liðu mánuðir og vikur á milli þess sem maðurinn birtist afa í draumi.  En alltaf með leiðindi.  Afi var ósáttur við þetta því hann taldi manninn ekki eiga neitt inni hjá sér.  Verra þótti afa að þetta ágerðist. 
  Í áranna rás fór maðurinn að færa sig upp á skaptið.  Hann tók upp á því að vekja afa á nóttunni - án þess að gera boð á undan sér í draumi.  Framan af varð afi einungis var við manninn án þess að hann væri sýnilegur.
  Síðasta veturinn sem afi lifði fór maðurinn að birtast honum á nóttunni sem draugur.  Það var hvorki mannsmynd né önnur regluleg lögun á draugnum.  Lögunin var síbreytileg.  Henni svipaði helst til þunns reykjamökks sem stækkaði eða minnkaði eldsnöggt.   Þetta sá afi þó niðamyrkur væri í herberginu.  Hann var heldur ekki í vafa um hver var þar á ferð.     
  Við fótagaflinn á rúminum hans afa var skorsteinn.  Neðst á skorsteininum var loka.  Afa tókst ætíð að hrekja drauginn inn um lokuna og út um skorsteininn.
  Einhverra hluta vegna hafði afi hljótt um þessar ofsóknir.  Það er að segja eftir að draugagangurinn hófst.  Ég vissi ekki af draugagangnum fyrr en afi bað mig um að útvega sér spýtu sem hann gæti notað sem barefli á drauginn.  Þá sagði hann mér alla söguna.
  Afi svaf einn heimilisfólks á hálf niðurgrafinni jarðhæð.  Við sem sváfum á efri hæðinni urðum ekkert vör við viðureign afa og draugsins.  Nema pabbi.  Hann fór fyrstur á fætur til að koma mjólkurbrúsum á mjólkurbíl.  Þá kom fyrir - að minnsta kosti í þrígang - að hann heyrði afa lemja ótt og títt með spýtunni og hreyta reiðilega út úr sér:  "Já,  vertu feginn að flýja í skorsteininn,  Páll Þorgrímsson!  Ég tek miklu betur á þér ef þú vogar þér að birtast mér aftur,  helvískur!"
  Þegar afi lést um vorið kom í ljós að hann var búinn að tvíefla bareflið með því að reka stærðar nagla í gegnum annan enda þess.
---------
Fleiri sögur af afa:
- Afi passar sitt fólk

Nemendamótið á Steinsstöðum

  Flest okkar mættu í Steinsstaði á föstudagskvöldinu.  Margir gistu í skólahúsinu og sumir í "gamla fjósinu".  Ýmsir tjölduðu eða gistu í húsbíl.  Við röltum á milli til að kanna hverjir voru hvar.  Víða urðu fagnaðarfundir.  Svo brast á með söng inn á milli.  Nokkuð var liðið á nótt þegar kyrra tók og gengið var til náða.

  Á laugardeginum hófst dagskrá klukkan 1 eftir hádegi.  Veðrið var dásamlegt alla helgina.  Veðurfræðingar höfðu spáð rigningu.  Ég hef aldrei kynnst jafn þurri og sólríkri rigningu.  Guðni ljósmyndari og öryggisvörður í Mjódd hélt glæsilega ljósmyndasýningu fyrir utan skólahúsið.  Síðan var rölt um svæðið og alla leið til Varmalækjar þar sem nývígð reiðhöll Bjössa var skoðuð hátt og lágt.

  Aðal dagskráin hófst með borðhaldi klukkan 8 í Árgarði.  Hópurinn taldi um 100 manns.  Rúnar frá Sölvanesi var veislustjóri.  Hann fór á kostum og rúmlega það.  Reitti af sér brandara og lék á alls oddi.  Einnig las hann sitthvað upp úr blogginu mínu.  Það endaði með því að ég var klappaður upp á svið.  Þar rifjaði ég upp skrítnar minningar úr skólanum. 

  Maturinn,  framreiddur af listakokkum í Lýtingsstaðahreppi,  var alvöru veisla.  Að borðhaldi loknu var slegið upp dansleik og dansað fram á rauða nótt.  Þó að dansleikur tæki enda var haldið áfram að spjalla og rölt um svæðið fram á morgun.  Sunnudagurinn var hvíldardagur.       

ölvunarsvefn2 ölvunarsvefn7

ölvunarsvefn8 ölvunarsvefn14ölvunarsvefn10

ölvunarsvefn1ölvunarsvefn6


Til hamingju með afmælið!

   reyðarfjörður

  Ég hef grun um að Viðar Júlí Ingólfsson sé á góðri leið með að ná 51 árs aldri í dag.  Að minnsta kosti varð hann fimmtugur fyrir sléttu ári.  Viðar er fæddur,  þokkalega vel upp alinn og búsettur í höfuðborg Austursins,  Reyðarfirði.  Hann er í hópi fróðustu manna um popp og rokkmúsík.  Sem slíkur hefur hann landað nokkur hundruð plötum í spurningaleikjum rásar 2 og Bylgjunnar í áranna rás.

  Viðar er ljómandi góður trommuleikari og hefur spilað með ýmsum hljómsveitum,  þar á meðal Frostmarki (sem ég var líka í) og Jörlum.  Hann er einnig víðfrægur og eftirsóttur DJ (plötusnúður) á skemmtistöðum.  Hefur einstakt lag á að koma liðinu út á dansgólfið og ná upp rífandi stemmningu.

  Viðari tókst vel upp með erfingja sína.  Þeir eru trommusnillingurinn og söngvarinn kröftugi Birkir Fjalar (I Adapt,  Stjörnukisi,  Döðlurnar,  Bisund,  Ungblóð og ég man ekki hvað hún heitir níðþunga þungarokkshljómsveitin sem hann er í núna.  Það er eitthvað útlenskt nafn) og útvarpsmaðurinn knái og gítarleikarinn Andri Freyr (Fidel,  Botnleðja,  Bisund).

  Viðar,  gangi þér vel að komast yfir þessi tímamót,  kæri vinur!

------------------------------------------------------------------------------------------------

  Ljósmyndina tók Mats Wibe Lund af Reyðarfirði þegar staðurinn var bara lítið þorp.


Hrikalegar lýsingar á fjölskylduillindum

  Eftirfarandi texta rakst ég áðan á fyrir tilviljun.  Hann er skrifaður af konu sem heitir Fanney.  Bróðir hennar virðist hafa verið í fréttunum að undanförnu og fram kemur að móðir þeirra lét hafa eitthvað eftir sér í DV.  Ég veit ekki hvaða fólk þetta er en þetta er ákall um hjálp.  Ég stytti textann mikið en meðal þess sem Fanney segir er eftirfarandi:


  "Þetta byrjaði þegar að þessi kona,  sem ég vil ekki lengur kalla móður mína,  henti bróður mínum út.  Við (hjónin) vorkenndum honum og gátum ekki hugsað okkur að hann væri á götunni.  Við tókum hann inn til okkar, veittum honum húsaskjól, fæði og þvoðum af honum.  Hjálpuðum honum einnig með peninga.  Ég reyndi að tala við móður okkar um að taka strákinn aftur heim, en hún sagðist aldrei vilja sjá hann aftur og hótaði öllu illu ef hann myndi gista hjá okkur.  Hún gaf í skyn að hún myndi láta skemma bílinn sem hann var á og lét fylgja að ég ætti að vita hvers hún væri megnug.

  Sama kvöld hringdi hún í móður sína (sem ég ólst upp hjá) alveg brjáluð út af því að ég skyldi taka við bróðir mínum og leyfa honum að vera hjá okkur.  Hún sagðist skyldi hefna sín og láta skemma bílinn.
 

  Næsta morgun er bróðir minn ætlaði til vinnu var búið að brjóta afturrúðuna í bílnum. Við hringdum á lögregluna sem sá strax á ummerkjunum að þetta var skemmdarverk.


  Upp frá því höfum við fengið hótanir og ljót sms sem ég geymi öll,  meðal annars morðhótun frá einu systkina minna.

  Við reyndum allt til að hjálpa bróðir mínum.  Í eitt skiptið fór hann til mömmu að ná í eitthvað dót sem hún neitaði honum um.  Hann fór til lögreglunnar sem talaði við mömmu. Svona heldur þetta áfram;  ljót sms og hótanir frá móður minni í gegnum ömmu.  Lýsingarnar eru hrikalegar.  Ömmu leið illa og var hrædd um okkur eins við sjálf. 


  Svo lendir bróðir minn upp á spítala og þá hringir eitt systkinanna og biður mig að koma (þetta var að nóttu til um helgi) og sagði að foreldrarnir neituðu að koma.  Þau voru búin að vera á djamminu . Við vorum sjálf niðrí í bæ með vinum okkur og fórum beint upp á spítala.


  Þar mætir mér góð hjúkrunarkona og segir að móðir drengsins hafi beðið um það að við myndum ekki hitta hann.  En að foreldrarnir ætluðu að koma.  Við kærastinn minn fórum fljótlega heim. Þegar bróðir minn kom af spítalanum var hann farinn að vera í einhverju sambandi við foreldra sína sem var gott mál.  Við ýttum á eftir því við hann að fara heim til þeirra en vorum ekkert að reka hann á dyr.

  Hann fór að umgangast þau meira en hætti að vera eins og hann á að sér að vera.  Það var augljóst að hann var undir áhrifum einhverra efna.  Hann fór að lána öðrum bílinn okkar.  Við höfðum talað um að selja honum bílinn.  Það var hálf milljón áhvílandi á bílnum og bróðir minn var búinn að borga 140 þúsund inn á hann.  Við vildum fá bílinn heim en bróðir minn neitaði.  Þá tilkynntum við bílinn stolinn.

  
  Þetta lagðist illa í bróðir minn.  Hann kom heim til mín eitt kvöldið - þar sem við vorum með vinafólk í mat ásamt börnum okkar.  Hann var að ná í föt og eitthvað dót. Hann var í vondu skapi og hrinti litlu dóttir minni og hún fór að gráta.  Þá vísuðum við honum út.  Hann brást við með hótunum og kjafti og neitaði að skila bílnum.

   Við sögðum að hann mætti taka bílinn til að flytja dótið sitt og koma með hann aftur.  Hann sagðist þá ætla að skemma bílinn,  velta honum og rústa. Svo fór hann út með lyklana.  Kærastinn minn og kunningi okkar fóru á eftir honum.  Þegar út er komið, keyrir bróðir minn á manninn minn með opna hurð, með þeim afleiðingum að hann dettur næstum.  Þeir báðu bróðir minn um að róa sig niður en hann réðist þá á manninn minn.  Kunningi okkar þurfti að taka hann af manninum mínum.  Síðan fóru þeir inn með bíllyklana og við öll í sjokki.  Á meðan við biðum eftir lögreglunni þá heyrum við brothljóð og læti og bróðir minn kemur stökkvandi yfir grindverkið hjá okkur (erum á jarðhæð) og ræðst að okkur þar með kjaft.  Enginn af okkur gerði honum neitt,  öfugt við það sem móðir hans segir á dv.is.


  Bróðir minn braut rúðu fyrir utan heimilið og sparkaði í bílinn fyrir framan lögregluna. Eftir það byrjuðu handrukkarar á vegum mömmu og hans að hringja og hóta okkur. Komið var niður í vinnu til kærasta míns og honum hótað.  Það var ráðist á hann og voru vitni að því.  Hann slapp ómeiddur en með í för voru þessi bróðir minn,  systir mín og vinir þeirra.


  Í eitt skipti var ég stödd fyrir utan vinnuna hjá manninum mínum að bíða með barnið í bílnum.  Við ætluðum að fara saman og fá okkur að borða.  Þá kemur hópur af strákum,  opnaði dyrnar hjá mér og ógnuðu mér.  Barnið mitt var hrætt aftur í bílnum svo ég steig út úr bílnum því ég var hrædd um barnið.  Þá kom maðurinn minn út og þeir hótuðu okkur og voru með skæting.  Ég kallaði á lögregluna og einn af þessum "handrukkurum" - eins og bróðir minn kallaði þá - var handtekinn.


 Fleiri menn voru látnir hringja og hóta og oftar en ekki þurfti ég að hringja á lögregluna. Við erum orðin þreytt á þessum árásum á okkur og að þurfa að vera með annan fótinn inni á lögreglustöð.  Við viljum fá frið.

  Kærastinn minn sagði við bróðir minn frá upphafi að 140 þúsund kallinn fengi hann aftur þegar bíllinn væri seldur. En það er búið að skemma bílinn fyrir hátt í 300 þúsund kall.  Í eitt skipti var ég að keyra ömmu heim af spítalanum og barnið var með í bílnum.  Þá kom þessi bróðir minn á skellinöðru með hótanir og gefur í þannig að bæði amma og barnið urðu svo hrædd að þau hágrétu bæði og hann rak hjólið í fótinn á mér.  Ég hringdi á lögguna.  Þá fór hann og eftir vorum við þarna miður okkar grátandi til skiptist.
 

  Það nýjasta er að bílnum var stolið af bílasölu núna síðasta föstudag.  Gaur á vegum bróðir míns og þeirra fór að reynsluaka bílnum og skilaði honum ekki aftur en hringdi í mig og sagðist vera með bílinn og hann sé að innheimta fyrir þetta fólk.  Ég fengi bílinn ekki fyrr en skuldin væri greidd og núna væri hún orðin 380 þúsund, samkvæmt þeim. Bílinn fannst en þá var búið að skemma skottið/læsinguna og gera brunagöt í innréttinguna.

  Þessi svokallaða móðir mín er búin að hringja í ömmu með svívirðingar, hótanir og stæla og láta hana bera skilaboð/hótanir í okkar garð. Öll fjölskyldan er komin í málið.  Amma og afi eru aldraðir sjúklingar og sárt að horfa upp á þetta og að fá hótanir og fleira.  Reglulega er eitthvað af þessu liði að rúnta fyrir utan heima hjá okkur. Og svo þessar ósönnu yfirlýsingar frá mömmu á dv.is.


  Það er ekki okkar sök hvernig komið er fyrir bróðir mínum og að hann var handtekinn fyrir þjófnað.
Í stað þess að taka á vandanum og vera til staðar fyrir barnið sitt þá er reynt að snúa vandamálinu yfir á okkur og verið að skemmta sér allar helgar og sífellt reynt að gera fólki illt.

  Það er ekki gaman að fá reglulegar hótanir um að einn daginn muni við hverfa eða lýsa því sem á að gera við okkur.
  Við viljum koma þessu á framfæri þar sem búið er ljúga upp á okkur hér og  þar og gera okkur illt. Við viljum engum illt og engan særa.  Bara fá fjölskyldufrið."


Þegar afi breyttist í varðhund - VII

  Þegar við elstu systkinin komust á unglingsár brást afi illa við ef hann hélt að einhver af hinu kyninu væri að sýna okkur áhuga.  Hafði hann þá allt á hornum sér gagnvart viðkomandi.  Eitt atvikið var þannig að ungur námsmaður í Bændaskólanum á Hólum slæddist heim með okkur eftir dansleik á Sauðárkróki.

  Morguninn eftir var afa brugðið er hann varð ókunnuga drengsins var.  Afi kallaði mig á eintal og spurði hver þetta væri.  Ég upplýsti það.

  - Hverra erinda er hann hér?,  spurði afi.

  - Hann er eitthvað eltast við Júlíu systir,  svaraði ég.

  - Ég ætla rétt að vona að hún fari að leggja lag sitt við svona vesaling!

  - Ég held að þetta sé fínn náungi.  Honum gengur vel í skólanum og Halli skólastjóri er búinn að ráða hann sem sumarmann.

  - Það lá að.  Haraldur er aumingjagóður.  Hann vorkennir þessum aumingja og ætlar að taka hann að sér til að reyna að koma honum til manns.  Það verður þrautinni þyngra.  Reyndu að vara Júlíu við þessari liðleskju.   

  Það styttist í hádegismat og afi ákvað að virða sveininn betur fyrir sér.  Sagðist verða fljótur að sjá það út hvort lýsing sín á "mannleysunni" væri ekki rétt.  Hafa skal í huga að afi var kominn hátt á áttræðisaldur og orðinn veikburða.  Vegna brjóskeyðingar í mjöðmum var hann kominn í keng og staulaðist áfram við tvo stafi.

  Við vorum 10 í mat og afi náði með lagni sæti beint á móti drengnum.  Þar hleypti afi brúnum og starði á piltinn sem þótti þetta greinilega óþægilegt.  Hann varð afar vandræðalegur undir illilegu rannsakandi augnráði afa og vissi ekki hvernig átti að bregðast við.  Aðrir vissu það ekki heldur og horfðu í forundran á.  Allir steinþegjandi. Skyndilega hnussaði í afa og hann tautaði fyrir munni sér í hneykslunartóni: 

  "Þvílíkt og annað eins kartöflunef!"

  Við héldum með herkjum aftur af hlátrinum.  Drengurinn kafroðnaði enn vandræðalegri en áður.  Þá reigði afi sig,  þandi út brjóstkassann, sýndi krepptan hnefa og sagði:

  "Þú skalt hafa það í huga,  drengur,  að ég hef slegið niður stærri og sterkari menn en þig!"

   Okkur tókst ekki lengur að halda aftur af hlátrinum þó ókurteislegt væri gagnvart stráksa.  Afi varð hinn ánægðasti með sig,  hlóð mat á diskinn sinn og lék við hvern sinn fingur allan matartímann án þess að yrða frekar á piltinn eða horfa til hans.

  Næstu daga hældi afi sér ítrekað af því að "ónytjungurinn" myndi ekki þora annað en láta Júlíu í friði.  "Ætli maður kunni nú ekki tökin á svona dugleysingjum,"  bætti afi við,  drjúgur með sig. 

  Sveinninn áttaði sig fljótlega á því að best væri að hafa húmor fyrir afa og hélt áfram að kíkja í heimsókn af og til.  Afi sniðgekk hann með öllu.  Fljótlega fór stelpa sem vann á Hólum að kíkja í heimsókn með stráknum.  Fyrr en varði settu þau upp hringa.  Þá kúventi afi í framkomu og varð upp frá því hinn almennilegasti í þeirra garð.

  Fleiri sögur af afa:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/418268


Afi á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki - VI

Afi var á sjúkrahúsi á Sauðárkróki síðustu vikurnar fyrir andlát sitt.  Ég var fluttur suður en gerði mér ferð norður til að heilsa upp á hann.  Afi varð glaður að sjá mig.  Hann hringdi strax á hjúkrunarkonu.  Er hún birtist segir afi skipandi við hana:
  -  Komdu með matarbakka og mjólkurglas.
  -  Þú varst að borða fyrir hálftíma,  segir konan undrandi.
  -  Sérðu ekki að ég er kominn með gest? 
  -  Við erum ekki með mat handa gestum.
  -  Það er til nógur matur á spítalanumEf þú hlýðir ekki þá er óvíst að þú haldir vinnu hérna,  hótaði afi og nafngreindi manneskjur sem hann sagðist ætla að tala við.  En konunni var ekki haggað.
  Er hún var farinn hneykslaðist afi mjög:  "Þessar bévítans stelpuskjátur hérna rífa bara kjaft og hlýða engu."  Þannig hélt hann áfram í nokkra stund.  Skyndilega glaðnaði yfir honum,  hann hnippti í mig og segir í hálfum hljóðum eins og í trúnaði:
  - Þær láta svona af því að laðast að mér kynferðislega.
  - Hvernig dettur þér það í hug?  spurði ég í forundran.
  - Ég er ekki að segja að það eigi við um þær allar.  En sumar þeirra gefa mér hýrt auga.
  -  Af hverju heldurðu það?
  -  Maður skynjar þetta frekar en að hægt sé að benda á einhver atriði.  Þó tek ég eftir því hvernig glaðnar yfir sumum þeirra þegar þær sjá mig.  Sömuleiðis eru þær óeðlilega áfjáðar í að baða mig.  Ég verð var við að það er eins og þær togist á um það hverjar fá að baða mig í það og það skiptið.
  Afi fór í feiknagott skap við þetta spjall og tíminn leið hratt.  Þegar heimsóknartíma lauk hringdi afi aftur á hjúkrunarkonu.
  - Fylgdu gestinum út og komdu svo með svefntöflurnar mínar,  skipaði afi.
  - Gesturinn ratar út og við gefum ekki svefntöflur fyrr en klukkan 11.  Það er ekki einu sinni komið kvöldkaffi,  útskýrði konan.
  - Mig varðar ekkert um það.  Ég vil ekki sjá neitt helvítis kvöldkaffi.  Ég vil bara fá svefntöflurnar mínar.
  - Þú þarft ekkert að drekka kvöldkaffi frekar en þú vilt.  En svefntöflurnar færðu ekki fyrr en klukkan 11.
  - Ef ég fæ ekki svefntöflurnar strax þá sofna ég bara alveg hiklaust án þess að taka þær!
  Að því búnu lokaði afi augunum og gerði sér upp hrotur.  Svo sannfærandi var hann að þó ég kyssti hann á kinnina í kveðjuskini þá sýndi hann engin viðbrögð og hélt áfram að hrjóta.  Er við hjúkrunarkonan yfirgáfum herbergið hans þá hækkaði hrotuhljóðið.
   

Afi - V

  Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort ég var 10 eða 11 ára.   Veðurspá í Hjaltadal í Skagafirði síðsumars benti til langvarandi vætutíðar.  Pabbi vildi koma öllu þurru heyi í hús áður en vætutíðin hæfist.  Til að auðvelda löndun á heybólstrum inn í hlöðu voru hurðar teknar af hjörum.  Þetta voru stórar hurðir.  Hamast var fram í myrkur við að koma heyi í hús.

  Er heimilisfólkið gekk frá heyskap og til náða þá dró ég aðra hlöðuhurðina þétt fyrir glugga á svefnherbergi afa á jarðhæð.  Morguninn eftir laug ég því að foreldrum mínum að afi ætlaði ekki að mæta til morgunverðar né í mat þann daginn.  Það var engin nýlunda.  Afi átti það til að hafa allt á hornum sér varðandi borðhald  og sniðganga kaffi- og matmálstíma.

  Í sveitinni var niðursetningur,  gamall einstæðingur sem kallaðist Siggi póstur.  Honum var skipt á milli bæja í 3 - 4 vikur í senn á hverjum stað.  Afi neitaði að matast samtímis honum.  Taldi það vera fyrir neðan virðingu sína að sitja til borðs með "öðrum eins hálfvita".   Afi tiltók meðal annars að Siggi póstur sötraði úr skeið þegar hann borðaði súpu,  "eins og ódannaður útigangsmaður.  Og á engan hátt samboðinn siðuðu fólki."

  Afi sparaði Sigga pósti,  þeim indæla kalli,  heldur hvergi kveðjur.  Hótaði honum öllu illu og hellti sér yfir hann við hvert tækifæri þannig að foreldrar mínir þurftu að hasta á afa. Sem lét sér þó hvergi segjast.  Mestan þann tíma sem Siggi póstur dvaldi heima sniðgekk afi eldhúsið.  Þess í stað lét hann okkur krakkana lauma inn í herbergi til sín - svo lítið bar á - mjólk,  brauði,  hafragrjónum og fleiru. 

  Sömuleiðis átti afi það til að sinnast við sumarkrakka sem voru á heimilinu.  Ósjaldan með þeim afleiðingum að afi hætti að mæta í matmálstíma til að þurfa ekki að sitja til borðs með "kaupstaðafíflum".

  Það kippti sér því enginn upp við það að afi mætti hvorki í mat né kaffi þann daginn sem hlöðuhurðin var fyrir glugganum á svefnherbergi hans. Hurðin myndaði algjört myrkur í herbergi afa þann daginn og afi svaf í myrkrinu allan daginn því að hann hélt að enn væri nótt.  Afi brúkaði hlandkopp og fór því ekkert út úr herberginu á meðan hann hélt að væri nótt.

  Afi svaf að sjálfsögðu alla nóttina en líka allan næsta dag og þarnæstu nótt.  Fattaði ekkert að dagur kom og önnur nótt.  Að morgni annars dags hafði rigningu slotað tímabundið og ég tók hurðina frá glugga afa og við pabbi komum henni fyrir í hlöðudyrunum.  

  Þegar afi vaknaði til morgunverðar á öðrum degi hafði hann á orði hvað hann hafði sofið illa.  Sagðist ítrekað hafa vaknað til að pissa.  Foreldrar mínir föttuðu ekki um hvað afi var að tala.  Næstu daga var afi stöðugt að ruglast á dagsetningum.  Á mánudegi stóð hann í þeirri trú að það væri sunnudagur og svo framvegis.  Heimilisfólkið var alveg undrandi á ruglinu í afa.  En var þó ýmsu vant í þeim efnum.

  Eldir sögur af afa: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/389916/


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband