Færsluflokkur: Vísindi og fræði
2.3.2009 | 21:41
Frábærlega fyndnar ljósmyndir
Það er eitthvað skrítið við þessar myndir. Það er ekki í öllum tilfellum augljóst við fyrstu sýn. En þegar betur er að gáð þá er þetta lúmskt dálítið broslegt. Mér voru sendar þessar myndir og hló. Vonandi laða þær líka fram bros hjá þér.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.2.2009 | 21:55
Náðu góðri andlegri heilsu með einfaldri aðferð
Með þessum auðlærða dansi er hægt að losa sig við kvíða, þráhyggju, ímyndunarveiki, flughræðslu, kynþáttafordóma, streitu og félagsfælni. Áhrifin vara í rúma þrjá daga. Jafnvel fjóra ef sykur og hvítt hveiti eru látin eiga sig og sýnd fyrirlitning. Þessi dans var uppgötvaður og þróaður af blómum. Stuttklippta konan, Kristbjörg, les hugsanir blóma og hefur lært fleira af þeim dansinn. Hin konan getur ekki lesið hugsanir blóma.
Ef fólk er að flýta sér má taka lífsdansinn með pönktrukki.
Vísindi og fræði | Breytt 2.2.2009 kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
25.1.2009 | 17:09
Athyglisverður samanburður á rófustöppum - yfir 100% verðmunur!
Núna er þorramánuður, sem svo er kallaður í höfuðið á Þorra, langafasyni Kára, þess er ræður vindum. Á þorra borðar fólk súran hval, kæstan hákarl, hrútspunga og annan þjóðlegan veislumat í öll mál. Einn af mörgum kostum við þorramat er að það þarf ekki að elda hann. Hann er keyptur tilbúinn úti í búð.
Rófustappa er ómissandi með þorramat. Í byrjun þorra keypti ég allar tegundir af rófustöppu sem ég fann: Frá Íslensku grænmeti, Kjarnafæði, Ora og Stjörnusalati. Það kom mér í opna skjöldu að rófustöppurnar bragðast líkar hver annarri.
Þegar betur var að gáð er uppistaðan í öllum rófustöppunum gulrófur (um eða yfir 90%). Skemmtileg tilviljun. Í öllum rófustöppunum er einnig sykur, kartöflur (eða kartöfluduft) og salt.
Í rófustöppunni frá Ora er að auki mjólkurduft, jurtaolía, bindiefni (E471 og E450) og óskilgreint krydd.
Í rófustöppunni frá Kjarnafæði er líka sítrónusafi, pipar og sorbat.
Í samanburðarsmakki eru rófustöppurnar frá Kjarnafæði og Ora bestar. Það örlar á að hinar séu of sykraðar. Eina rófustappan sem var búin að skilja sig á öðrum degi eftir opnun umbúða var frá Stjörnusalati. Hinar voru alveg eins og nýjar daginn eftir.
Upplýsingar um næringargildi vantar á umbúðir frá Ora. Upplýsingar um meðhöndlun (kælivara og hvað stappan er lengi neysluhæf eftir að innsigli er rofið) vantar á umbúðir frá Íslensku grænmeti.
Vegna þess hvað rófustöppurnar bragðast líkt skiptir verðið á þeim mestu máli. Þar munar nokkru. Stöppurnar frá Ora og Kjarnafæði keypti ég í Hagkaupum en hinar í Nóatúni. Ég ætla að þessar verslanir séu í svipuðum verðflokki. Hagstæðustu kaup eru í þessari röð:
1. Kjarnafæði. 350 gr á 224 kr. Kílóverð 640 kr.
2. Stjörnusalat. 250 gr á 239 kr. Kílóverð 956 kr.
3. Íslenskt grænmeti. 220 gr á 239 kr. Kílóverð 1086 kr.
4. Ora. 300 gr á 399 kr. Kílóverð 1330 kr.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
23.1.2009 | 02:38
Frábærlega fyndnar dýramyndir
Þessar bráðfyndnu myndir skýra sig að mestu sjálfar. Ég er samt ekki alveg að fatta þessa tvo svörtu hunda: Hvers vegna er annar þeirra að bíta í skottið á hinum? Og ofboðsleg viðbrögð þess hunds eru óvenjuleg í meira lagi. Undarleg stelling hans ræðst af því að hinn hundurinn sleppir ekki skottinu.
Það er sjaldgæft að dýr komi líðan sinni svona rækilega vel til skila með augnsvip og andlitsfettum. Þessi kisi er greinilega afar ósáttur við veru sína í vatninu.
Snjallir hundar eiga þetta til: Í stað þess að rölta 3 ferðir eftir jafn mörgum boltum þá sækja þeir alla boltana í einni ferð.
Kattarkonan er dæmi um fegrunaraðgerðir sem fara yfir strikið. Mig minnir að þetta hafi byrjað með því að konan giftist lýtalækni. Hún fékk hann til að gera eina og eina smálega aðgerð til að svipur yrði með henni og ketti hennar. Svo skildu þau hjón en kella var komin á bragðið. Hún hélt áfram að láta breyta andliti sínu í sömu átt.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.1.2009 | 19:35
Gátan leyst
Löng og margkvista horn elgstarfa hafa löngum valdið mönnum, jafnt sem konum og börnum, heilabrotum. Í fljótu bragði hefur mátt ætla að lengd hornanna sé til mikillar óþurftar. En þróun náttúrunnar lætur ekki að sér hæða. Gátan hefur verið leyst, eins og myndin sýnir:
13.1.2009 | 14:08
Bestu þungarokksplötur ársins 2008
Breska tímaritið Classic Rock er málgagn gamla hefðbundna þungarokksins - eins og nafn blaðsins gefur í skyn. Áramótauppgjör blaðsins er til samræmis við það. Þess vegna er alltaf forvitnilegt að sjá val plötugagnrýnenda blaðsins á bestu plötum ársins. Það er pínulítið á skjön við áramótauppgjör annarra músíkblaða. Þessar plötur röðuðu sér í efstu sætin yfir bestu plötur ársins 2008:
1. AC/DC: Black Ice
2. Metallica: Death Magnetic
3. Guns N´ Roses: Chinese Democracy
4. Black Stone Cherry: Folklore & Superstition
5. Airbourne: Runnin´ Wild
Þessar plötur og flestar aðrar á listanum voru fyrirsjáanlegar þar. Meiri athygli vekur að neðar á listanum er plötur sem ekki tilheyra þungarokkinu: Tell Tale Signs með Bob Dylan og Dig, Lazarus, Dig! með Nick Cave & The Bad Seeds. Einnig er á listanum platan Live at Shea Stadium með pönksveitinni The Clash, sem hætti fyrir næstum aldarfjórðungi.
11.1.2009 | 23:10
Jack Bruce hraunar yfir Led Zeppelin
Skoski söngvarinn, bassaleikarinn og lagahöfundurinn Jack Bruce er þekktur fyrir hroka, kjafthátt og frekju. Á árum áður átti hann til að veitast að meðspilurum sínum í hljómsveitum með barsmíðum. Hann hefur víst lagt af þann sið, tæplega sjötugur. Jack er þekktastur fyrir að hafa leitt blús-rokktríóið Cream 1966 - ´68. Meðal annarra sem hann hefur spilað með eru Manfred Mann, Frank Zappa, Michael Mantlier, Ringo Starr og John Mayall´s Bluesbreakers. Bara svo fáir séu nefndir.
Í nýjasta hefti breska rokkblaðsins Classic Rock getur kallinn ekki leynt afbrýði sinni út í Led Zeppelin:
"Allir eru að tala um Led Zeppelin - og þeir komu fram á einum fjandans hljómleikum. Einum lélegum hljómleikum. Á sama tíma túruðum við í Cream vikum saman og héldum hvarvetna góða hljómleika. Ekki lélega eins og Led Zeppelin, sem þurftu að lækka sig um tónhæð og hvaðeina. Við fluttum öll okkar lög í upphaflegri tónhæð.
Fjandinn hirði Led Zeppelin; þið eruð drasl. Þið hafið alltaf verið drasl og þið verðið aldrei neitt annað. Gallinn er sá að fólk gleypir við draslinu sem því er selt. Cream var tíu sinnum betri hljómsveit en Led Zeppelin.
Ætlar einhver að líkja vesalingnum Jimmy Page við Eric Clapton? Svoleiðis samanburður er út í hött. Eric er góður (gítarleikari) en Jimmy er lélegur. Eini frambærilegi náunginn, eini gaurinn sem gat eitthvað í Led Zeppelin er dauður."
Ljósmyndin hér að ofan er af Cream. Jack Bruce er lengst til vinstri. Á myndbandinu hér fyrir neðan flytja Cream eitt sitt þekktasta lag, Sunshine of your Love. Cream var frábær hljómsveit og hafði töluverð áhrif á þróun blúsrokksins yfir í þungarokk. Það breytir engu um að Led Zeppelin var besta hljómsveit rokksögunnar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
7.1.2009 | 00:24
Óvænt uppgötvun. Ekki er allt sem sýnist!
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
31.12.2008 | 22:11
Bráðnauðsynlegt að vita og kunna
Hangikjöt hefur verið þjóðarréttur Íslendinga lengur en elstu menn muna. Ennþá lengra er síðan hangikjöt varð þjóðhátíðarréttur Íslendinga. Samt er það svo að Íslendingar eru rétt nýbyrjaðir að átta sig á hvernig best er að matreiða hangikjöt. Frumskilyrði þess að útkoman heppnist er að hangikjötið sé alvöru hangikjöt. Ekki eitthvað helvítis saltsprautað plat hangikjöt. Gangið úr skugga um að hangikjötið sé kofareykt eða taðreykt.
Hangilæri er best. Frampartur er næst bestur. Þannig er staðið að matreiðslunni:
- Hangikjötið er sett í pott. Potturinn þarf að vera það stór að hangikjötið komist ofan í hann. Hellið með gusugangi ísköldu kranavatni (alls ekki kolsýrðu vatni úr flösku) yfir þar til það hylur kjötið. Setjið pottinn á nálæga eldavélahellu. Stillið á lágan styrk. Látið suðuna koma rólega og æsingslaust upp á klukkutíma og 7 mínútum. Lesið ævisögu Önnu á Hesteyri á meðan. Slökkvið eldsnögg á hellunni um leið og suðan kemur upp.
- Látið kjötið kólna í pottinum undir loki. Látið einhvern annan ganga úr skugga um að vatnið í pottinum sé orðið kalt. Þó ekki kaldara en inni í eldhúsinu. Þá er kjötið tilbúið til neyslu. Reyndar er kjötið best daginn eftir. En svangir magar hafa ekki þolinmæði til að bíða. Síst af öllu þegar ilmandi hangikjötslyktin æsir upp hungrið.
Berið hangikjötið fram og til baka með uppstúf, soðnum kartöflum, grænum baunum, rauðkáli, laufabrauði og 12 kippum af vel kældum jólabjór.
Uppstúf
52 g | smjör |
49 g | hveiti |
1 l | mjólk |
½ tsk | salt |
1-3 msk | sykur (fer eftir því hvað matskeiðarnar eru stórar) |
ögn | hvítur pipar |
- Bræðið smjörið í potti, hrærið hveitinu saman við, þannig að úr verði smjörbolla.
- Bætið mjólkinni ofur varlega í og hrærið uns leðjan er kekkjalaust. Látið sjóða í nokkrar mínútur og hrærið ofsafengið í á meðan.
- Kryddið með salti, sykri og pipar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
31.12.2008 | 17:07
Almenningur styður mótmælendur
Val hlustenda rásar 2 á söngvaranum, gítarleikaranum, söngvaskáldinu og leikstjóranum Herði Torfasyni sem manni ársins er vísbending um að almenningur á Íslandi styðji mótmælafundina sem Hörður hefur staðið fyrir. Atkvæðin dreifðust yfir á 130 manns. Hörður fékk 20% atkvæðanna. Hann hefur alltaf hvatt til þess að mótmælin fari friðsamlega fram.
Í öðru sæti var handboltalið sem líka mætti á útifund. Þar var það blessað af forsetanum, borgarstjóranum og ýmsum stjórnmálamönnum. Þar á meðal menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Hún fékk 1 atkvæði í valinu á manni ársins.
Næstir boltaköllunum í atkvæðamagni voru meðal annars Vilhjálmur Bjarnason, formaður Samtaka fjárfesta; Björk Guðmundsdóttir og Ólafur F. Magnússon, fráfarandi borgarstjóri.
.
.
![]() |
Mótmælin áttu að vera friðsamleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)