Færsluflokkur: Lífstíll

Fermingardrengur dæmdur í fangelsi fyrir stuðning við ISIS

  Fjórtán ára austurískur gutti hefur verið dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar.  Tilefnið er að hann ráðgerði að ganga til liðs við geggjuðu hryðjuverkasamtökin ISIS (Ríki islam).  Ekki nóg með það.  Hann stefndi á að ferðast til Sýrlands og taka þátt í hernaði ISIS gegn sýrlenskum stjórnvöldum.  Ekki nóg með það.  Upp um kauða komst vegna þess hversu áhugasamur hann var um að afla sér upplýsinga um sprengjugerð. Það þykir ekki við hæfi krakka á fermingaraldri.  

  Hann langaði til að sprengja upp járnbrautastöð í Sankt Pölten,  höfuðborg Neðra-Austurríkis.  Stráksi er fæddur í Tyrklandi en flutti sex ára gamall til Austurríkis.  Hann viðurkenndi fúslega að hafa þótt það spennandi tilhugsun að hanna sprengju. Það væri alveg gaman að leika sér í byssó með félögunum;  en meira alvöru að sprengja alvöru sprengju.  

  Þetta er ungt og leikur sér.

  16 mánuðir af dómnum eru óskilorðsbundnir.  8 eru á skilorði.  

 


mbl.is Stúlkurnar í þjálfun í Raqqa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverkasamtök undirbúa hlaup á Færeyjar

Sea-Shepherd-societyssjnypx

  Bandarísku hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd hafa boðað komu til Færeyja 14. júní næstkomandi.  Opinberi tilgangurinn er að hindra hvalveiðar Færeyinga.  Óopinberi tilgangurinn - í bland við opinbera tilganginn - er að safna peningum frá fræga ríka fólkinu,  svo sem heimsfrægum kvikmyndastjörnum,  poppstjörnum og fyrirsætum.  Fólki sem hefur enga þekkingu á raunveruleika veiðimannaþjóðfélaga - en miklar ranghugmyndir.

  Hryðjuverkasamtökin ætla að standa vaktina í Færeyjum fram í október.

  Í fyrra mættu samtökin til Færeyja strax í júníbyrjun. Fátt bar til tíðinda allt sumarið.  Engu að síður lugu SS því blákalt á heimasíðu sinni og víðar að samtökin hafi bjargað lífi á annað þúsund hvala í Færeyjum.   

  Dvöl SS-liða í Færeyjum í fyrra varð besta ferðamálakynning sem Færeyjar hafa fengið.  500 SS-liðar skrifuðu daglega statusa á Fésbók um daglegt líf sitt í Færeyjum,  blogguðu dagbókarfærslur,  tístu á Twitter o.s.frv.  Þeir birtu ljósmyndir af fegurð eyjanna,  sögðu frá elskulegri framkomu Færeyinga við gesti,  sögðu frá færeyskum mat,  list og fleiru.  

pamelapamela_anderson

 Heimspressan mætti hvað eftir annað á blaðamannafundi SS í Færeyjum.  Leikkonan Pamela Anderson mætti líka og hélt blaðamannafund.  Einnig frægur leikari úr sjónvarpsþáttaröðinni Beverly Hills.  Og einhverjir fleiri.  Pamela kolféll fyrir færeyskum neðansjávarljósmyndum.  Kátínu vakti meðal heimamanna er Pamela hélt fram þeirri dellu að fjölskyldan sé hornsteinn hvalasamfélagsins.  Þegar hvalur sé drepinn þá séu hans nánustu harmi slegnir.  Það megi jafnvel sjá tár á hvarmi fjarskyldra ættingja.

  Heimsbyggðin vissi ekki af Færeyjum fyrr en í fyrra.  Í áramótauppgjöri margra stærstu fjölmiðla heimspressunnar voru Færeyjar útnefndar sem staður til að heimsækja 2015.  Það er ferðamannasprengja í Færeyjum.  Eina vandamálið er að framboð á farseðlum með flugi eða Norrænu er ekki nægilegt.  Sömuleiðis er skortur á gistirými.  Færeyingar eru ekki búnir undir þennan nýtilkomna áhuga heimsbyggðarinnar á eyjunum fögru.

  Danska drottningin kemur í opinbera heimsókn til Færeyja á sama tíma og SS.  Líklega er það markaðsbragð hjá SS að mæta á sama tíma,  vitandi að fjölmiðlar fylgja drottningunni hvert fótspor.   

  Einn af þeim sem hrifist hefur af mögnuðu landslagi Færeyja er kvikmyndaleikstjórinn Steven Spielberg (þekktur fyrir m.a. "Jaws",  "Jurassic Park",  "Indiana Jones" og "Schindler´s List").  Hann ætlar að skjóta kvikmynd í Færeyjum í sumar.  Myndin heitir "A big friendly giant".  Það sér því hvergi fyrir enda á heimsfrægð Færeyja.

steven_spielberg 


Hamborgari og danskar

  Ég skrapp á veitingastað í dag.  Á næsta borði sat ungur maður.  Eftir nokkurn tíma kom afgreiðsludama með á diski handa honum hamborgara og nokkrar afskrældar - og sennilega soðnar - kartöflur.  Maðurinn brást hinn versti við.  Hann gargaði pirraður:  "Hvað er eiginlega í gangi?"

  Afgreiðsludaman: "Hvað áttu við?  Er ekki allt í lagi?"

  Maðurinn:  "Allt í lagi?  Ertu vönkuð?"

  Daman:  "Hvað er að?"

  Maðurinn:  "Hvaða rugl er með þessar kartöflur?"

  Daman:  "Þú pantaðir hamborgara og danskar.  Þetta eru danskar kartöflur."

  Maðurinn:  "Ég pantaði hamborgara og franskar.  Franskar en ekki einhverjar djöfulsins danskar kartöflur!"

  Daman:  "Ekkert mál.  Mér heyrðist þú biðja um danskar.  Ég skal sækja franskar."

  Hún skottaðist eftir vænum skammti af frönskum kartöflum.  Og hló mikið er hún lagði þær á borðið hjá manninum.  Hún sagði:  "Þetta er ekki falin myndavél en ég var samt að stríða þér."

  Maðurinn tók gleði sína á ný og fór líka að hlæja.  Ég fékk á tilfinninguna að þau þekktust og þarna hafi verið um kunningjahrekk að ræða.  

soðnar kartöflur


Hverjir eiga Bónus?

  Ég er ekki með það á hreinu hver eða hverjir eiga Bónus í dag. Eða Haga sem á Bónus.  Er það ekki að uppistöðu til lífeyrissjóðir lægst launaða fólks landsins?  Hverjir fara með stjórn Haga?  Er það ekki fólk með 5 - 6 milljón króna mánaðarlaun?  Plús fríðindi af öllu tagi.

  Lægst launaða fólkið borgar hæstu launin.  Það er metnaður.  Eða hvað veit ég?  Á mér ekki að vera sama?  Ekki vinn ég þarna.    

b


mbl.is Loka þyrfti öllum verslunum Bónuss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrottalegar tannlækningar

  Svo bar til fyrir nokkrum áratugum að í kaupstað úti á landi tók til starfa aðfluttur tannlæknir.  Þetta var fyrir daga tímaritsins Séð og heyrt.  Síðar átti hann eftir að birtast þar á blaðsíðum.  Og reyndar víðar.

  Tannlæknirinn fór ekki að öllu leyti troðnar slóðir.  Bróðir minn lét hann gera við tönn í sér.  Á meðan gert var við tönnina rétti tannsi honum af og til sprittbrúsa og sagði honum að súpa á og skola.  Þess á milli tók tannsi sjálfur stóra gúlsopa af sprittinu.  Það gekk hratt á sprittflöskuna.  Það leyndi sér ekki að tannsi var kominn með magabólgur.  Var óstöðugur á fótum og vinnubrögð fálmkennd.  En allt gekk samt þokkalega að mestu.

  Öðru sinni mætti til tannsa lágvaxin og nett kona.  Hún var að sækja til hans gervigóm.  Tannsi hóf að troða gómnum upp í hana.  Hann reyndist vera of stór.  Við það færðist hann allur í aukana og tók kellu haustaki.  Leikar fóru þannig að hann snéri konuna niður í gólfið.  Þar rifnaði út úr munnvikum hennar.  Bar þá að aðstoðarmann eða lærling tannsa.  Hann var að leita að gómi sem verið var að hreinsa fyrir tiltekinn karlmann.  

  Tannsi var að troða upp í konuna þeim tanngómi. Þegar eiginmaður konunnar skammaði hann sagði tannsi honum að þakka fyrir að þetta hafi verið gómurinn eftir hreinsun en ekki fyrir.   

  Grunnskólabörn voru send í skoðun og tannviðgerðir hjá tannsa.  Hann varð uppiskroppa með deyfilyf.  Hann gerði sér lítið fyrir og rotaði börn sem þurftu á deyfingu að halda.  Kunni trixið.  Fagmennska.  En þetta lagðist illa í foreldra.  Spratt upp óvild í garð tannsa sem leiddi til þess að hann var flæmdur burt úr plássinu.  Svo varð hann frægur flugdólgur.  


mbl.is Tannlausir og blóðugir krakkar hjá tannlækninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti veitingastaður af öllum á Norðurlöndunum

færeyskur humar 

  Árlega er við hátíðlega athöfn valinn,  kosinn, útnefndur og krýndur besti veitingastaður á Norðurlöndum.  Leitin að vinningsstaðnum fer fram í nokkrum áföngum.  Í ár enduðu í lokavali Marchal í Kaupmannahöfn í Danmörku,  Ylajali í Ósló í Noregi,  Ask í Helsinki í Finnlandi,  Esperanto í Stokkhólmi í Svíþjóð og Koks í Þórshöfn í Færeyjum.

  Athygli vekur að allir veitingastaðirnir sem náðu eftir harðsnúna keppni í lokaúrslit eru staðsettir í höfuðborgum landanna.  

  Ég hef ekki snætt á neinum af nefndum veitingastöðum öðrum en Koks í Þórshöfn.  Samt kemur það mér ekki á óvart að Koks hafi nú formlega verið sæmdur nafnbótinni "Besti veitingastaður Norðurlandanna".  Þvílíkur sælkerastaður.  Annar eins er ekki fundinn.

75 

  Reyndar veita nokkrir aðrir veitingastaðir í Færeyjum Koks harða samkeppni.  

  Kokkarnir á Koks nota einungis færeyskt hráefni.  Þeir byggja matreiðslu sína að verulegu leyti á færeyskum matarhefðum.  Meðal annars þess vegna er matseðillinn árstíðabundinn.  

  Þegar Færeyjar eru sóttar heim þá er góð upplifun að snæða á Koks.  Vegna ónýtu íslensku krónunnar er það pínulítið dýrt.  En samt hverrar krónu virði.


mbl.is Maturinn skemmist í tollinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfættur hrekkur

  Keith Moon,  tommuleikari bresku rokkhljómsveitarinnar The Who,  var lífsglaður og uppátækjasamur grallari.  Að vísu ekki lífsglaðari en svo að hann fór í keppni við bítlana John Lennon og Ringo Starr,  svo og söngvarann Harry Nilson, um það hver yrði fyrstur til að drekka sig í hel.  Baráttan var hörð og illvíg.  Menn drukku allskonar og ældu yfir margar sætaraðir og viðstadda þegar best lét.  Hvergi dugði til þó að fram kæmu menn sem vottuðu um edrúmennsku þeirra og æluleysi.  Þeir hefðu ekki einu sinni étið túlípana hvað þá meira.  Hinsvegar væru þeir með magabólgur.

  Keith vann keppnina.  Harry Nilson náði 2. sæti.  John Lennon var myrtur.  Ringó er einn eftir.  

  Þrátt fyrir góðar tekjur var Keith alltaf stórskuldugur.  Uppátæki hans voru mörg hver dýr.  Til að mynda að henda sjónvörpum út um hótelglugga og keyra glæsibílum út í sundlaug.

  Eitt sinn fékk Keith vin í lið með sér til að kíkja í vinnugallafataverslun.  Þeir sýndu tilteknum gallabuxum áhuga.  Til að reyna á styrkleika vörunnar tóku þeir í sitthvora skálmina og rykktu samtaka í af öllum kröftum.  Við það rifnuðu buxurnar í sundur í miðju.  Kapparnir héldu á sitthvorum helmingnum.

  Afgreiðslufólk búðarinnar fékk nett áfall og horfði í forundran á.  Áður en hendi var veifað hoppaði inn í búðina einfættur betlari (sem Keith hafði borgað fyrir að taka þátt í sprellinu).  Hann hrópaði:  "Einmitt það sem ég var að leita að.  Ég ætla að fá tvo svona vinstri buxnahelminga!"  


mbl.is Einfættri konu vísað af rauða dreglinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt skilningsleysi stjórnarandstöðunnar á fjarveru forsætisráðherra

sdg snæðir beikon

 

 

 

 

 

 

 

 

  Alveg er með ólíkindum hvað þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa mikið óþol gagnvart fjarveru forsætisráðherra,  hæstvirts Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar,  frá Alþingi.  Við umræðu um rammaáætlun ætlaði allt um koll að keyra vegna fjarveru Sigmundar Davíðs.  Það var gólað,  skammast og gargað í allar áttir.

  Vita þingmenn ekki að í dag er alþjóðlegi djöflatertudagurinn? 

djöflaterta


mbl.is Kvörtuðu yfir fjarveru Sigmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fyrir lofthrædda

  Lofthræðsla er af hinu góða.  Hún er kröftug viðbrögð heila og líkama til að verjast hættu við glannalegar aðstæður í lofthæð upp að 70 metrum.  Þar fyrir ofan er skynjun meira sem fjarlægð.  Þess vegna finna fæstir fyrir lofthræðslu í flugvél,  svo að dæmi sé tekið.

  Sumir nýta lofthræðslu til að fá það sem kallast adrenalín-kikk.  Þeir storka sjálfum sér með því glæfraskap í mikilli lofthæð.  Þeir finna fyrir lofthræðslu með þeim afleiðingum að líkaminn framleiðir mikið magn af adrenalíni.  Það veitir þeim vellíðan eftir að hættan er liðin hjá.  Þetta eru veikir einstaklingar.  Það má flokka þá með fíklum á borð við eiturlyfjaneytendur.  Áhættuhegðun þeirra er ekki til fyrirmyndar.

ekki fyrir lofthrædda - áð á sillu

 

 

 

 

 

 

 

 

  Áhættufíklarnir fá heilmikið út úr því að láta ljósmynda sig utan í þverhníptum klettum.  Þar rölta þeir eftir þröngum klettasillum,  setjast niður og finna adrenalínið streyma um líkamann.

ekki fyrir lofthrædda - byggt utan í klettavegg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Víða um heim gera hótel og gistiheimili út á adrenalínfíkla.  

ekki fyrir lofthrædda - glannaleg jafnvægiskúnst

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sumir láta reyna á nánast yfirnáttúrulega jafnvægiskúnst.  Það má ekki muna um millimetra til að illa fari.  Það gefur kikkið.

ekki fyrir lofthrædda - rölt eftir kaðli

 

 

 

 

 

 

 

 

Vinsælast er að rölta eftir kaðli í mikilli hæð.  Það vekur ætíð athygli.  Fjölmiðlar og almenningur mætir á staðinn og fylgjast með.  

ekki fyrir lofthrædda - rölt um kínverskan dauðadal


mbl.is „Ef þú hrasar, þá deyrðu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mataræði fátækra tekið föstum tökum

  Bandaríki Norður-Ameríku eru allt að því heimsálfa út af fyrir sig.  Þau eru sambandsríki 50 skemmtilega ólíkra ríkja.  Sum líkjast V-Evrópu um margt.  Einkum Norðurríkin og vesturströndin.  Önnur eru okkur verulega framandi.  Einkum það sem kallast biblíubeltið og djúp-suðrið.    

  Wisconsin er mið-vestur Norðurríki.  Þar fá fátækir vesalingar matarmiða upp á 16 þúsund kall á mánuði.  Vandamálið er það að betur stæðir skattborgarar horfa upp fátæklinga kaupa og snæða mat sem er forboðinn í Biblíunni.

  Nú er vilji til að taka það föstum tökum.  Banna á vesalingunum að kaupa fyrir matarmiða skelfisk,  svínakjöt, túnfisk,  hnetur og allskonar. Listinn telur um tvo tugi ókristilegra hráefna.  

  Það er ekkert nema gott um það að segja að skattborgarar passi upp á að vesalingar fari ekki til helvítis.  


mbl.is Kjöt gæti lækkað mikið í verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband