Færsluflokkur: Ferðalög

Smásaga um flugferð

  Haukur var háaldraður þegar hann flaug í fyrsta skipti með flugvél.  Tilhugsunin olli honum kvíða og áhyggjum.  Hann áttaði sig á að þetta var flughræðsla á háu stigi.  Til að slá á kvíðakastið leitaði hann sér upplýsinga um helstu ástæður fyrir flugslysum.  Það gerði illt verra.  Jók aðeins kvíðakastið.

  Áður en Haukur skjögraði um borð deyfði hann sig með koníaki sem hann þambaði af stút.  Það kom niður á veiklulegu göngulagi fúinna fóta.  Hann fékk aðstoð við að staulast upp landganginn.  Allt gekk vel.

  Nokkru eftir flugtak tók hann af sér öryggisbeltið og stóð upp.  Hann mjakaði sér hálfhrasandi að útihurð vélarinnar. Í sama mund og hann greip um handfangið stökk flugfreyja fram fyrir hann og kallaði höstuglega:  "Hvað heldurðu að þú sért að gera?"

  "Ég þarf að skreppa á klósett," útskýrði hann. 

  "Ef þú opnar dyrnar hrapar flugvélin og ferst!" gargaði flugfreyjan æstum rómi.

  Kalli var illa brugðið.  Hann snérist eldsnöggt á hæl og stikaði óvenju styrkum fótum inn eftir flugvélinni.  Um leið hrópaði hann upp yfir sig í geðshræringu:  "Hvur þremillinn!   Ég verð að skorða mig aftast í vélinni.  Þar er öruggast þegar vélin hrapar!"        

flugvél  


Lisa Marie Presley

 Fyrir nokkrum árum var ég á flandri austur í Englandi.  Að mig minnir í Brighton.  Á sama gistiheimili bar að tvo unga menn.  Gott ef þeir voru ekki sænskir.  þeir voru að flakka þvers og kruss um England.  Á einni sveitakrá blasti við þeim kunnugleg bardama.  Þeir tóku hana tali og komust að því að hún væri Lisa Marie Presley,  dóttir Elvis Presley.

  Mér þótti sagan ótrúverðug.  Í fyrsta lagi var Lisa Marie bandarísk.  Allar slúðursögur af henni fjölluðu um hana í Bandaríkjunum með bandarísku fólki.

  Í öðru lagi var hún moldríkur erfingi föður síns.  Hún var auðmaður sem þurfti ekki að dýfa hendi í vatn.  Hvorki kalt né heitt. Hvers vegna ætti hún að strita á kvöldin við að afgreiða bjór á enskri krá?  Þetta passaði ekki.

  Drengirnir bökkuðu ekki með sína sögu.  Þeir sýndu mér ljósmyndir af sér með henni.  Ljósmyndir eru ekki pottþétt sönnunargagn.  Ég leitaði á náðir google.  Í ljós kom að dóttir rokkkóngsins var stödd á þessari sveitakrá.  Ensk vinhjón hennar ráku krána.  Lisu Marie þótti einfaldlega gaman að afgreiða á barnum. 

  Svo féll hún frá,  núna 12. jan,  aðeins 54 ára.

-----------------------

  Allt annað:  Í tilefni af Þorra: 

 

     


Ást í háloftunum

  Ég brá mér á pöbb.  Þar var ung kona.  Við erum málkunnug.  Við tókum spjall saman.  Hún var í flugnámi og ætlaði að taka próf daginn eftir.  Hún var með bullandi prófskrekk.  Sú var ástæðan fyrir pöbbarölti hennar.  Hún var að slá á skrekkinn.  

  Við höfðum ekki spjallað lengi er ungur maður settist við borðið hjá okkur.  Hann þekkti okkur ekki en var hress og kátur.  Hann sagðist vera nýskilinn að Vestan og það væri eitthvað eirðaleysi eða einmannleiki í sér. Tal beindist fljótlega að prófskrekknum.  Maðurinn sagði að prófið væri ekkert mál.  Hann væri flugmaður og gæti leiðbeint konunni daginn eftir.  Tók hún þá gleði sína og skrekkurinn fjaraði út.  Vel fór á með þeim og að lokum leiddust þau út í leigubíl.

  Nokkru síðar sagði bardaman mér að snurða hafi hlaupið á hjá skötuhjúunum.  Konan hafði komið grátandi á barinn og sagt farir sínar ekki sléttar.  Þau höfðu að vísu átt góða nótt.  En að lokinni heimaleikfimi um morguninn flýtti maðurinn að klæða sig.  Hann sagðist vera of seinn út á flugvöll.  Hann þyrfti að sækja konuna sína þangað.

  Bólvinkonan benti honum á að hann hefði sagst vera fráskilinn að Vestan.  "Ég var bara að vitna í dægurlag með Önnu Vilhjálms," svaraði hann hlæjandi.  "En hvað með flugprófið?"  spurði hún.  "Það var spaug,"  svaraði hann.  "Ég veit ekkert um flugvélar.  Ég er strætóbílstjóri!"    

flugvél


Sjaldan launar kálfur ofeldi.

  Ég þekki konu eina.  Við erum málkunnug.  Þegar ég rekst á hana tökum við spjall saman.  Hún er fátæk einstæð móðir 23ja ára manns.  Þrátt fyrir aldurinn býr hann enn heima hjá henni.  Hann er dekurbarn.  Konan er í vandræðum með að ná endum saman um hver mánaðarmót.  Eini lúxus hennar er að reka gamla bíldruslu.  Það er eiginlega í neyð.  Hún á erfitt með gang vegna astma og fótfúa.  Hún kemst ekki í búð án bílsins. 

  Núna um helgina varð hún á vegi mínum.  Hún sagði farir sínar ekki sléttar.  Kvöldið áður bað sonurinn um að fá bílinn lánaðan.  Honum var boðið í partý.  Konan tók vel í það.  Sjálf þurfti hún að fara einhverra erinda út í bæ.  Það passaði að sonurinn skutlaði henni þangað í leiðinni.  

  Er hún var komin á leiðarenda tilkynnti hún syninum að hann þyrfti að sækja sig um klukkan 11.  

  - Ekki séns,  svaraði kauði.

  - Hvað átt þú við?  Ég þarf að komast heim,  útskýrði konan.

  - Ég er að fara í partý.  Það verður nóg að drekka.  En það verður enginn ölvunarakstur.

  - Ég er að lána þér bílinn minn.  Þú skalt gjöra svo vel og sjá mér fyrir fari heim.

  - Þú verður að redda þér sjálf.  

  - Hvernig á ég að redda mér fari?  Ég get hvorki tekið strætó né gengið heim.

  - Hefur þú aldrei heyrt talað um taxa?  hrópaði sonurinn um leið og hann reykspólaði burt.  

taxi 


Óvinafagnaður

  Ég var gestkomandi úti í bæ.  Þar hittust einnig tvær háaldraðar systur.  Þær höfðu ekki hist í langan tíma.  Það urðu því fagnaðarfundir.  Þær höfðu frá mörgu að segja. Þar á meðal barst tal að frænku þeirra á svipuðum aldri.  Þær báru henni illa söguna.  Fundu henni allt til foráttu.  Sögðu hana vera mestu frekju í heimi,  samansaumaðan nirfil,  lúmska,  snobbaða,  sjálfselska,  ósmekklega,  ófríða,  vinalausa,  drepleiðinlega kjaftatík...

  Systurnar fóru nánast í keppni um að rifja upp og segja af henni krassandi sögur.  Í æðibunuganginum hrökk upp úr annarri:  "Það er nokkuð langt síðan ég hef heyrt frá henni."

  Hin tók undir það og bætti við:  "Eigum við ekki að kíkja snöggvast til hennar?"

  Það gerðu þær.  

 


Friðsömustu og öruggustu lönd til að heimsækja

  Íslendingar eru hræddir.  Þeir óttast að fara í miðbæ Reykjavíkur.  Óttinn við að verða stunginn með hnífum er yfirþyrmandi.  Stjórnvöld í löndum fjölmennustu túrista til Íslands vara þegna sína við að fara í miðbæ Reykjavíkur. 

  Hvað er til ráða?  Eitthvert þurfa ferðamenn að fara til að sletta úr klaufunum.  Hver eru hættulegustu lönd til að sækja heim?  Hver eru öruggustu?  

  Það þarf ekki vísindalega útreikninga til að vita að hættulegustu lönd er Afganistan,  Jemen og Sýrland.

  Institute for Economics and Peace hefur reiknað dæmið með vísindalegum aðferðum.  Niðurstaðan er sú að eftirfarandi séu öruggustu lönd heims að ferðast til.  

1  Ísland

2  Nýja-Sjáland

3  Írland

4  Danmörk

5  Austurríki

6  Portúgal

7  Slóvenía

8  Tékkland

9  Singapúr

10 Japan


Stysta heimsreisa sögunnar

  Miðaldra maður í Ammanford á Englandi átti sér draum um að fara í heimsreisu.  Í mörg ár undirbjó hann ferðalagið af kostgæfni.  Sparaði hvern aur og kom sér upp þokkalegum fjársjóði.  Er nær dró farardegi seldi hann hús sitt,  allt innbú og fleira og sagði upp í vinnunni.  Hann undirbjó nákvæma ferðaáætlun.  Endastöðin átt að vera New York.  Þar ætlaði hann að setjast á helgan stein í kjölfar 32.000 kílómetra vel skipulagðrar heimsreisu. 

  Síðustu daga fyrir brottför varði hann í að kveðja sína nánustu og vini.  Á lokakvöldinu sló hann upp kveðjuhófi.  Hann datt rækilega í það.  Skálaði ítrekað við gesti og gangandi.  Hver á fætur öðrum bað um orðið,  flutti honum mergjaðar kveðjuræður og óskuðu góðrar ferðar.  Sjálfur steig hann ítrekað í pontu og kastaði kveðju á viðstadda.  Samkoman stóð fram á nótt og menn voru farnir að bresta í söng.    

  Morguninn eftir lagði hann af stað í nýjum húsbíl.  Tveimur mínútum síðar - eftir að hafa ekið 1 og hálfan km - stöðvaði lögreglan hann.  Áfengi í blóði var þrefalt yfir leyfilegum mörkum.  Húsbíllinn var kyrrsettur.  Ferðalangurinn var sviptur ökuleyfi til hálfs þriðja árs.

 


Bindindismótið í Galtalæk

  Til nokkurra ára vann ég við Bindindismótið í Galtalæk um verslunarmannahelgina.  Þetta var á árunum í kringum 1990.  Þessi mót voru fjölmenn.  Gestir voru tíu til tólf þúsund.  Álíka fjöldi og í Vestmannaeyjum.  Stundum fjölmennari. 

  Sérstaða Bindindismótsins var að þar fór allt friðsamlega fram.  Aldrei neitt vesen.  Aldrei nauðganir eða aðrar líkamsárásir.  Aldrei þjófnaðir eða illdeilur. 

  Uppistaðan af gestum var fjölskyldufólk.  Þarna voru börn og unglingar í öruggu umhverfi. 

  Öll neysla áfengis var bönnuð á svæðinu.  Ég vann sem vörður í hliðinu inn á svæðið.  Allir bílar voru stöðvaðir.  Ökumönnum og farþegum var boðið að geyma fyrir þá áfengi fram yfir mót.  Að öðrum kosti yrði leitað í bílnum og áfengi hellt niður ef það finnist.

  Einhverra hluta vegna reyndu sumir að smygla áfengi inn á svæðið.  Því var skipt út fyrir rúðupiss,  sprautað inn í appelsínur,  falið inn í varadekki...  Á skömmum tíma lærðist hverjir reyndu smygl.  Margir litlir taktar einkenndu þá.  Til að mynda að gjóa augum snöggt í átt að smyglinu,  hika smá áður en neitað var o.s.frv.   

  Fyrir margt löngu hitti ég mann sem sagðist hafa sem unglingur fundið pottþétta leið til að smygla áfengi inn á mótið.  Hann mætti á svæðið nokkrum dögum áður og gróf áfengið ofan í árbakka á svæðinu.  Þegar hann svo mætti á mótið sá hann sér til skelfingar að búið var að hlaða margra metra háum bálkesti ofan á felustaðinn.  Í honum var ekki kveikt fyrr en á sunnudagskvöldinu.  

bindismót  


Aldrei aftur Olís

  Ég átti leið um Mjóddina.  Í hitamollunni langaði mig skyndilega - en ekki óvænt - í ískalt Malt og íspinna.  Til að komast í þær kræsingar renndi ég að bensínstöð Olís,  eins og svo oft áður í svipuðum erindagjörðum.  Um leið og ég sté inn um dyrnar ákvað ég að byrja á því að skjótast á salerni til að pissa - vitandi að Maltið rennur hratt í gegn.  Líka afgreiddur krabbameinssjúklingur í blöðruhálskirtli.  Það kallar á tíð þvaglát. 

  Ég bað afgreiðsludömuna um lykilinn að salerninu.  Hún svaraði með þjósti:  "Salernið er bara fyrir viðskiptavini.  Þú hefur ekki verslað neitt.  Þú ert ekki viðskiptavinur!"

  Hún strunsaði í burtu og fór að sinna einhverju verkefni;  svona eins og til að undirstrika að samskiptum okkar væri lokið.  Sem og var raunin.  Samskiptum mínum við Olís er lokið - til frambúðar. 

 

Uppfært 7.6.

  Fulltrúi Olís hringdi í mig áðan.  Hann baðst ítrekað afsökunar á móttökunum sem ég fékk.  Hann er búinn að funda með starfsfólkinu í Mjódd og útskýrði fyrir mér hvernig á þessum mistökum stóð.  Í stuttu máli var um einskonar misskilning að ræða;  eða réttara sagt þá oftúlkaði afgreiðsludaman fyrirmæli sem henni voru gefin skömmu áður en mig bar að garði.  Ég þáði afsökunarbeiðnina og hef tekið Olís í sátt.  

 

   


Geggjuð rúm

  Allflest rúm eru hvert öðru lík.  Þau eru íburðarlitlar ljósar ferkantaðar dýnur ofan á grind.  Þessi einfalda útfærsla hefur gefist vel í gegnum tíðina.  En eins og með svo margt annað þá sjá einhverjir ástæðu til að gera þetta öðruvísi.

  Hvað með líkamslaga dýnu?  Eða vera vel varinn í jarðskjálfta í svo háu rúmi að stíga þarf upp tröppur til að komast í það og klöngrast ofan í það umlukið traustum veggjum.

  Svo er það hreiðrið. Í það þarf marga púða til að herma eftir ungum og eggjum. 

  Bókaástríða er plássfrek.  En hún getur sparað kaup á rúmi.

  Sjómenn komnir á aldur geta upplifað góða tíma í bátsrúmi.

  Að sofa í líkkistu er varla þægilegt.  Samt er vel bókað í gistihús sem býður upp á Dracúla-þema.   

  Kóngafólki hættir stundum við að fara hamförum í prjáli.  Það fylgir stöðu þess. 

  Í Suðurríkjunum í USA taka margir ástfóstri við pallbílinn sinn.  Svo mjög að þeir breyta honum í rúm. 

  Vatnsrúm eru allavega. 

  Þegar barn hefur horft á kvikmyndina Jaws er freistandi að hræða það með því að hátta það í hákarlsrúm. 

   Smellið á mynd til að hún verði skýrari og stærri.

rúm arúm brúm crúm erúm hrúm irúm jrúm krúm lrúm m

  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband