Færsluflokkur: Ferðalög

Aldrei aftur Olís

  Ég átti leið um Mjóddina.  Í hitamollunni langaði mig skyndilega - en ekki óvænt - í ískalt Malt og íspinna.  Til að komast í þær kræsingar renndi ég að bensínstöð Olís,  eins og svo oft áður í svipuðum erindagjörðum.  Um leið og ég sté inn um dyrnar ákvað ég að byrja á því að skjótast á salerni til að pissa - vitandi að Maltið rennur hratt í gegn.  Líka afgreiddur krabbameinssjúklingur í blöðruhálskirtli.  Það kallar á tíð þvaglát. 

  Ég bað afgreiðsludömuna um lykilinn að salerninu.  Hún svaraði með þjósti:  "Salernið er bara fyrir viðskiptavini.  Þú hefur ekki verslað neitt.  Þú ert ekki viðskiptavinur!"

  Hún strunsaði í burtu og fór að sinna einhverju verkefni;  svona eins og til að undirstrika að samskiptum okkar væri lokið.  Sem og var raunin.  Samskiptum mínum við Olís er lokið - til frambúðar. 

 

Uppfært 7.6.

  Fulltrúi Olís hringdi í mig áðan.  Hann baðst ítrekað afsökunar á móttökunum sem ég fékk.  Hann er búinn að funda með starfsfólkinu í Mjódd og útskýrði fyrir mér hvernig á þessum mistökum stóð.  Í stuttu máli var um einskonar misskilning að ræða;  eða réttara sagt þá oftúlkaði afgreiðsludaman fyrirmæli sem henni voru gefin skömmu áður en mig bar að garði.  Ég þáði afsökunarbeiðnina og hef tekið Olís í sátt.  

 

   


Geggjuð rúm

  Allflest rúm eru hvert öðru lík.  Þau eru íburðarlitlar ljósar ferkantaðar dýnur ofan á grind.  Þessi einfalda útfærsla hefur gefist vel í gegnum tíðina.  En eins og með svo margt annað þá sjá einhverjir ástæðu til að gera þetta öðruvísi.

  Hvað með líkamslaga dýnu?  Eða vera vel varinn í jarðskjálfta í svo háu rúmi að stíga þarf upp tröppur til að komast í það og klöngrast ofan í það umlukið traustum veggjum.

  Svo er það hreiðrið. Í það þarf marga púða til að herma eftir ungum og eggjum. 

  Bókaástríða er plássfrek.  En hún getur sparað kaup á rúmi.

  Sjómenn komnir á aldur geta upplifað góða tíma í bátsrúmi.

  Að sofa í líkkistu er varla þægilegt.  Samt er vel bókað í gistihús sem býður upp á Dracúla-þema.   

  Kóngafólki hættir stundum við að fara hamförum í prjáli.  Það fylgir stöðu þess. 

  Í Suðurríkjunum í USA taka margir ástfóstri við pallbílinn sinn.  Svo mjög að þeir breyta honum í rúm. 

  Vatnsrúm eru allavega. 

  Þegar barn hefur horft á kvikmyndina Jaws er freistandi að hræða það með því að hátta það í hákarlsrúm. 

   Smellið á mynd til að hún verði skýrari og stærri.

rúm arúm brúm crúm erúm hrúm irúm jrúm krúm lrúm m

  


Brosleg fjölbreyttni á flugvöllum

  Mannfólkið er (næstum því) eins misjafnt og það er margt.  Það sést oft á skemmtilegan hátt á flugvöllum.  Þar birtist fjölbreytt mannlíf í öllum hornum.  Ekki síst þegar kemur að því að hvílast vel og lengi fyrir langt flug;  nýta tímann sem best.  Þá kemur sér vel að hafa hengirúm í farangrinum. 

  Háaldraðir flugfarþegar gera sér ekki alltaf grein fyrir því hver staða þeirra er á rennibeltinu.  Þeir taka sér plássið sem þarf og hafa ekki hugmynd um að þeir séu að stífla beltið.  Palli er einn í heiminum.

  Mörgum flugfarþegum reynist kúnst að hafa ung börn með í för.  Börn sem eru á ókunnugum slóðum og langar til að fara út um allt.

  Önnur börn leyfa sér að sofna á ferðatöskunni.  Enn önnur dunda sér við að líma miða á sofandi pabba.  Gott á hann.  Það er óábyrgt að halda sér ekki vakandi þegar ferðast er með ung börn.  

  Út um glugga á flugstöðvum má stundum sjá vonda meðferð á flugvélum.  Svona eins og þegar rennihurð slær flugvél niður.  

  Árlega kemst upp um flugfarþega sem tíma ekki að borga fargjald heldur lauma sér í tösku og borga yfirvigt fyrir miklu lægri upphæð.

  Að venju eru myndirnar skýrari og skilmerkilegri ef smellt er á þær.    

 

flugvellir 1flugvellir 2flugvellir 3flugvellir 4flugvellir 5flugvellir 6flugvellir 7flugvellir 8flugvellir 9


Hlálegur misskilningur

  Miðaldra íslensk kona var búsett erlendis.  Einn góðan veðurdag ákvað hún að fljúga til Íslands til að heimsækja vini og ættingja.  Það hafði hún vanrækt í alltof langan tíma.  Aldraður faðir hennar skutlaðist út á flugvöll til að sækja hana.  Hún var varla fyrr komin í gegnum toll og heilsa honum er hún áttaði sig á klaufaskap.

  "Bölvað vesen,"  kallaði hún upp yfir sig.  "Ég gleymdi tollinum!"

  "Hvað var það?" spurði pabbinn. 

  "Sígarettur og Jack Daniels," upplýsti hún.

  "Ég næ í það,"  svaraði hann,  snérist á hæl og stormaði valdmannslegur á móti straumi komufarþega og framhjá tollvörðum.  Hann var áberandi,  næstum tveir metrar á hæð,  íklæddur stífpressuðum jakkafötum,  með bindi og gyllta bindisnælu. 

  Nokkru síðar stikaði hann sömu leið til baka.  Í annarri hendi hélt hann á sígarettukartoni.  Í hinni bar hann Jack Daniels.

  Er feðginin héldu af stað til Reykjavíkur sagði konan:  "Ég skipti gjaldeyri á morgun og borga þér tollinn."

  "Borga mér?" spurði öldungurinn alveg ringlaður.

  Í ljós kom misskilningur.  Hann hélt að dóttir sín hefði keypt tollvarninginn en gleymt að taka hann með sér.  Gamli var svo viss um þetta að hann borgaði ekkert. 


Stórbrotin hrollvekja

 - Titill:  MARTRÖÐ Í MYKINESI - íslenska flugslysið í Færeyjum 1970

 - Höfundar:  Magnús Þór Hafsteinsson og Grækaris Djurhuus Magnussen

 - Útefandi:  Ugla

 - Einkunn:  *****

  Eins og kemur fram í titlinum þá segir bókin frá hræðilegu slysi er íslensk flugvél brotlenti í Færeyjum fyrir hálfri öld.  Hún lenti á lítilli einangraðri og fámennri klettaeyju,  Mykinesi. Um borð voru þrjátíu og fjórir.  Átta létust.  Margir slösuðust illa.  

  Aðstæður voru hrikalegar;  blindaþoka, hávaðarok og grenjandi rigning.  Flak vélarinnar fannst ekki fyrr en mörgum klukkutímum síðar.  Aðstæður við björgunaraðgerðir voru hinar verstu í alla staði.  Að auki höfðu fæstir björgunarmanna reynslu af björgunarstörfum.  Þeir unnu þrekvirki.  Því miður hafa Íslendingar aldrei þakkað þeim af neinum sóma.

  Bókin er afskaplega vel unnin.  Ráðist hefur verið í gríðarmikla heimildarvinnu.  Lýst er tilurð flugfélagsins og öllum aðdraganda flugferðarinnar til Færeyja.  Við fáum að kynnast mörgum sem komu við sögu.  Þar á meðal eru ný viðtöl við suma þeirra. Fjöldi ljósmynda lífgar frásögnina.            

  Forsaga slyssins og eftirmálar gera það sjálft mun áhrifaríkara.  Öllu sem máli skiptir er lýst í smáatriðum.  Þetta er hrollvekja.  Lesandinn er staddur í martröð.  Hann kemst ekki framhjá því að þetta gerðist í raunveruleika.

Martröð í Mykinesi   


Hrikaleg bók

  Haustið 1970 brotlenti íslensk flugvél í Færeyjum.  Af 34 um borð létust átta.  Aðstæður voru afar erfiðar.  Nú er komin út stór og mikil bók um slysið.  Hún heitir Martröð í Mykinesi.  Undirtitill er Íslenska flugslysið í Færeyjum 1970. Höfundar eru Magnús Þór Hafsteinsson og Grækaris Djurhuus Magnussen.  

  Ég er nýkominn með bókina í hendur.  Á eftir að lesa hana.  En er byrjaður að glugga í hana.  Hún er svakaleg.  Ég geri betur grein fyrir henni þegar ég hef lesið hana.  Það verður ekki gert á einum degi.  Letur er frekar smátt og textinn spannar yfir á fimmta hundrað blaðsíðna.

Martröð í Mykinesi  


Lulla frænka í stimpingum

 Lulla föðursystir mín var ekki eins og fólk er flest.  Hennar andlega heilsa var ekki sem best.  Hún sagði og gerði margt óvenjulegt.  Oft var það eitthvað broslegt.  Hún var ljúfmenni og vildi öllum vel.  Okkur í fjölskyldunni þótti vænt um hana.  Það var ætíð gleðiefni að fá hana í heimsókn.

  Lulla ók allra sinna ferða;  hvort sem hún var með ökuskírteini í lagi eða ekki.  Það var allur háttur á.  Og aldrei borgaði hún sektir sem hlóðust upp í þykkum bunkum.  Hún fylgdi ekki alltaf umferðareglum.  Fyrir bragðið var bíll hennar jafnan dældaður á öllum hliðum.  Hún kippti sér ekkert upp við það.  Þess vegna vakti undrun þegar hún tók afar nærri sér að sjá dæld farþegamegin á bíl móður minnar.  Hún var alveg miður sín.  

  Svo bar við að þær mágkonur fóru til Dalvíkur á jarðarför.  Er þær nálguðust kirkjuna gaf Lulla mömmu ströng fyrirmæli um að leggja bílnum þannig að enginn sæi dældina.  Að útför lokinni óskaði kona nokkur eftir að fá far með þeim.  Lulla tók því illa.  Sagði að það væri lykkja á leið þeirra,  þær væru að flýta sér og þetta hentaði ekki.  Mamma hinsvegar tók vel í ósk konunnar og bauð hana velkomna í bílinn.  

  Er konan hugðist ganga að bílnum farþegamegin stökk Lulla í veg fyrir hana.  Var hún þó stirð til gangs.  Lulla tók á henni og hrinti í aftursætið bílstjóramegin.  Mömmu dauðbrá og reyndi að gera gott úr þessu með því að ræða eitthvað skemmtilegt við konuna.  Skutlið var innan Dalvíkur og tók stutta stund.  Er konan hafði yfirgefið bílinn spurði mamma Lullu:  "Hvers vegna í ósköpunum lentuð þið í stimpingum?"  Hún kveikti sér í sígarettu og svaraði síðan sallaróleg:  "Ég vildi akki að hún sæi dældina."    


Skelfileg upplifun í bíl

  Bíllinn minn er 14 ára.  Reyndar eiginlega 13 ára.  Hann á 14 ára afmæli eftir nokkra daga.  Hann ber aldurinn frekar illa.  Hann hefur áráttu til að bila.  Það er eins og þráhyggja hjá honum að komast sem oftast á verkstæði.  Iðulega ljómar mælaborðið eins og jólasería.  Ljósin eru rauð og gul og appelsínugul. Aðallega rauð.  Það er flott yfir jól og áramót. 

  Í dag átti ég erindi í bílinn.  Um leið og ég startaði honum hentist hann til og frá.  Ég sannfærðist þegar í stað um að nú væri sá gamli að gefa upp öndina.  Mér var mjög brugðið.  Maður sem hefur atvinnu af því að selja sólkrem er ekki vel staðsettur í Covid-19 launamálum.

  Mér fannst hamagangurinn standa yfir í hálfa mínútu.  Kannski varði hann skemur.  Síðar kom í ljós að um jarðskjálfta var að ræða.  Þá tókum við bíllinn gleði á ný.  

bíll 

 

 

      


Bíll Önnu frænku á Hesteyri

  Góður frændi okkar Önnu Mörtu heitinnar á Hesteyri í Mjóafirði gaf henni bílpróf og bíl.  Þetta var á níunda áratugnum og Anna á sextugsaldri.  Bílprófið yrði hún að taka í Reykjavík.  Á ýmsu gekk.  Í sjálfu bilprófinu festist hún inni í hringtorgi.  Prófdómarinn sagðist ekki geta hleypt henni út í umferð þegar tæki hana 7 hringi að komast út úr hringtorgi.

  Anna var snögg að semja við hann.  Á Austfjörðum sé ekkert hringtorg.  Hún muni skuldbinda sig til að aka aldrei út fyrir Austfirði.  Þar með verði hringtorg ekkert flækjustig.  Eftir langar samningaviðræður keypti prófdómarinn rök Önnu.  Hún stóð við sitt. 

  Er hún var komin með bílpróf hringdi hún í mömmu.  Mamma hvatti hana til að heimsækja sig á Akureyri.  Anna spurði:  "Er hringtorg á Akureyri?"  Þegar mamma játaði því upplýsti Anna um heiðursmannasamkomulagið.

  Anna ók bílnum eins og dráttarvél.  Hún hélt sig við fyrstu tvo gírana.  Ók óvarlega yfir stokka og steina.  Að því kom að bíllinn pikkfestist í á.  Hún sagði mömmu tíðindin;  að bíllinn væri búinn að vera.  Mamma spurði hvort hann væri ekki bara fastur ofan á steini og mögulegt væri að draga hann af steininum.  Anna hafnaði því.  Sagðist oft hafa ekið bílnum yfir miklu stærri grjót.  Þetta væri alvarlegra.  Bíllinn væri dauður.  "Bílar endast ekki í mörg ár," útskýrði hún skilningsrík. 

  Anna sagði Gauja frænda okkar frá dauða bílsins.  Hún sagði:  "Hann er svo fastur að ég prófaði meira að segja að setja hann í kraftgírinn.  Samt haggaðist hann ekki."  Gauji frændi hefur í hálfa öld unnið með vélar af öllu tagi og átt marga bíla.  Hann veit ekki ennþá hvað kraftgír er.  Því síður ég. 

 

 


Tjónaskýrslur

 Starfsfólk tryggingafélaga heyrir stundum einkennilegar skýringar á tjónum.  Sumar sprenghlægilegar - þó að tjón séu dapurleg fyrirbæri að öllu jafna.  Hér eru dæmi:

  "Ég var með kalkún í ofninum.  Ég ætlaði að pensla hann.  Þegar ég opnaði ofninn var kalkúninn þyngri en ég hélt.  Hann flaug út á gólf.  Sem betur fer var ég búin að ryksuga.  Ég setti hann aftur í ofninn og kláraði matreiðsluna.  Þetta var góð máltíð en teppið er ónýtt."

  "Ég var búinn að keyra bílinn minn í 40 ár þegar ég sofnaði fram á stýrið."

  "Ég gaf syni mínum 75 þúsund kall í jólagjöf sem ég henti í ógáti í ruslatunnuna."

  "Ósýnilegur bíll kom út úr buskanum,  skall á minn bíl og hvarf."

  "Kærastan kyssti mig,  ég missti stjórn á bílnum og vaknaði á sjúkrahúsi."

  "Ég hélt að bílrúðan væri niðri en komst að öðru þegar ég rak hnefann út um rúðuna."

  "Þegar ég kom heim þá keyrði ég inn í vitlaust hús og lenti í árekstri við tré sem ég á ekki."

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband