Færsluflokkur: Umhverfismál

Góður nágranni

húsamálun - mistök

  Næsta hús við hliðina á mér er skemmtilega afgirt með steyptum vegg.  Ofan á honum er trérimlagirðing.  Í gær og fyrradag stóð eldri kona í ströngu við að sparsla upp í vegginn,  mála hann og trérimlagirðinguna.  Konan á heima í húsinu.  Steypta vegginn málaði hún hvítan en trérimlagirðinguna brúna.  Þarnæsta hús er afgirt með samskonar vegg og trérimlagirðingu.  Í morgun brá svo við að konan var kófsveitt við að sparsla upp í vegg nágrannans.  Er ég gekk framhjá spurði ég konuna hvort hún ætlaði að fara að mála fyrir nágrannana.

  Jú,  hún sagðist ætla að gera það.  

  "Þegar ég var búin að mála hjá mér átti ég eftir nóg af málningu,"  útskýrði hún.  "Ég bankaði upp hjá nágrönnunum og spurði hvort ég mætti ekki mála hjá þeim líka.  Það er skemmtilegt að hafa báðar girðingarnar málaðar í sömu litum.  Nágrannarnir tóku vel í þetta.  Enda ekki vanþörf á að flikka upp á þetta hjá þeim."

  "Það er kraftur í þér,"  varð mér að orði.

  "Mig munar ekkert um þetta,"  svaraði konan.  "Veðrið er svo gott og mér þykir þetta ekkert leiðinlegt." 

  Ljósmyndirnar sem fylgja þessari færslu eru útlenskar.  Ef vel er að gáð sýnir efri myndin mann detta ásamt málningarfötu og annar á jörðu niðri flýja.  Hann virðist ekki vilja fá málningarfötuna yfir sig.  Ég veit ekki af hverju.  Það er hressandi að fá málningarfötu yfir sig.

húsamálun


Furðulegur siður Seltirninga

  Stundum á ég leið um verslunarmiðstöðina á Eiðistorgi.  Ég held að hún heiti ekki neitt en sé kölluð Eiðistorg.  Þar er Hagkaup,  banki,  apótek,  pósthús,  pöbb,  vínbúð,  ritfangaverslun og ýmislegt annað.  Þarna er líka sjoppa.  Fyrir framan sjoppuna,  á gangi verslunarmiðstöðvarinnar,  eru 3 borð og nokkrir stólar.  Eitt borðið er stærra en önnur.  Sennilega ætlað til að fólk standi við það.  Að minnsta kosti eru engir stólar við það.

  Svo gott sem daglega eru á þessu stóra borði nokkrir vettlingar og húfur.  Bæði vettlingapör og stakir vettlingar.  Ég fatta ekki hvers vegna í ósköpunum Seltirningar geyma vetlinga sína og húfur á þessu borði,  stundum dögum saman.

húfa

 


Gleðifrétt um samtakamátt fólks og skuldlausan Ómar

  Fréttin um skuldlausan Ómar er gleðileg um margt.  Í fyrsta lagi vegna þess að Ómar er orðinn skuldlaus.  Í öðru lagi sýnir hún að Íslendingar kunna að þakka fyrir sig;  hvort sem er fyrir framlag Ómars sem skemmtikrafts í hálfa öld eða sem hugsjónarmanns er stendur með náttúrunni;  náttúru landsins.  Þetta geta Íslendingar þegar á reynir.  Magnað.


mbl.is Ómar orðinn skuldlaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona býr íslenski sendiherrann í Færeyjum

Ísl.konsúllinn Dalstigjur_27Íslenski konsúllinn Dalstigjur_27-Íslenski-konsúllinn Dalstigjur_27

  Færeyingar eru áhugasamir um fallegan arkitektúr og fögur húsakynni.  Öfugt við Íslendinga sem sækja mest í ljótan arkitektúr og kunna engan veginn það sem einkennir færeyska byggingarlist:  Að byggingar falli vel að umhverfinu. 

  Íslenski sendiherrann í Færeyjum,  Albert Jónsson,  býr í afar fallegu húsi í Þórshöfn.  Svo skemmtilega vill til að konan hans,  Ása Baldvinsdóttir,  býr í sama húsi.  Ennþá skemmtilegri tilviljun er að sonur þeirra,  Baldvin,  er hljómborðsleikari Lokbrár.   


Kvótakóngur eyðilagði sjóvarnargarð

  kleifarbergið

  Siglingastofnun og bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi hafa skikkað Guðmund Kristjánsson,  aðaleiganda Brims hf.,  til að endurreisa sjóvarnargarð sem Guðmundur lét fjarlægja úr fjörunni við Nesveg.  Garðurinn var reistur á sínum tíma til að afstýra hættu af flóðum.   Flóðavarnagildi garðsins skipti kvótakónginn engu máli.  "Mér fannst hann ljótur," útskýrir kóngurinn uppátæki sitt.

  Það eru fleiri en sá er stendur gegn því að blind kona fái hjálparhund sem hugsa bara um naflann á sjálfum sér.


Útúrsteiktur lax

  Byrjið á að veiða í Elliðaánum 4 væna laxa eða 8 titti.  Komið við í Húsasmiðjunni og Melabúðinni (eða Fjarðarkaupum) á leiðinni heim.  Í þessum verslunum skal kaupa 2 steikarpönnur,  10 lítra pott,  smjörstykki,  kryddið Best á lambið  (ef það er ekki til má með hálfum huga nota salt og pipar í staðinn),  16 litla lauka og 3 kíló af kartöflum.  Þegar heim er komið skal kasta glaðlega kveðju á heimilisfólkið.  Síðan eru kartöflurnar settar í pottinn og soðnar.  Laukurinn er saxaður fantalega en laxinn flakaður snyrtilega og skorinn í nett stykki.

  Laukurinn er smjörsteiktur lítillega á báðum pönnunum áður en laxinn er kryddaður og steiktur með.  Best er að hafa hitann á hæsta styrk til að laxinn brúnist án þess að steikjast um of.

  Rétt áður en kartöflurnar eru fullsoðnar skal flysja þær og skera í þunnar flögur.  Því næst er laxinn og laukurinn færður á fat.  Kartöflurnar eru settar á pönnuna og látnar malla á meðan heimilisfólkinu er smalað eins og köttum inn í borðstofu.

  Með laxinum er best að drekka ískalt klakavatn með sítrónusneið á glasbrúninni.  Eftir matinn er boðið upp á vindla og viskí með klaka.  

 lax7


mbl.is Borgarstjóri veiddi lax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvikmyndarumsögn

 - Titill:  Hafið (Oceans)

 - Flokkur:  Heimildarmynd

 - Einkunn:  *** (af 5)

 - Sýningarstaður:  Háskólabíó

  Ég hef grun um að kvikmyndin  Hafið  (Oceans) hafi tengingu við frönsku mörgæsakvikmyndina sem var svo vinsæl fyrir nokkrum árum.  Það er einhver samhljómur með þessum myndum.  Samt eru þær ólíkar.  Hafið  er ósvífin áróðursmynd.  Hún byrjar sakleysislega.  Er lengi í gang.  Það er allt í lagi að missa af fyrsta korterinu.  Þar sjást bara selir,  hvalir og fleiri skepnur synda í fjarlægð,  fuglar stinga sér í hafið og eitthvað svoleiðis.

  Að nokkrum tíma liðnum birtast nærmyndir af hinum fjölbreyttustu sjávardýrum.  Það er skemmtilegasti hluti myndarinnar.  Sem betur fer er hann einnig lengstur.  Þetta er mikill ævintýraheimur.  Margt fallegt og furðulegt á að líta.

  Undir lokin eru hugljúf myndskeið af vinalegum samskiptum manns og hákarla og hvala.  Skepnurnar eru eins og elskuleg gæludýr sem ekkert aumt mega sjá.  Þetta er yndislegt líf.

  Skyndilega hellist ljótleikinn yfir í formi villimennsku mannsins.  Góðu dýrin eru illa leikin af veiðifærum mannsins.  Sporður og uggar eru skornir af lifandi hákarli.  Honum er hent ósjálfbjarga aftur í sjóinn.  Hann getur lítið synt án þessara sundfæra.  Niðurlægður og örkumla bíður hans hægur dauðdegi á sjávarbotni. 

  Það kemur ekki fram í myndinni hver ástæðan er fyrir þessari villimennsku.  Ég hef óljósan grun um að sporðurinn og uggarnir séu notaðir í lyf. 

  Í myndinni er reynt að hræða fólk frá því að vera á sjó.  Það eru sýndar myndir af skipum í vonsku veðri.  Lítið má út af bregða til að illa fari.

  Myndinni lýkur í svartsýniskasti yfir útrýmingu dýrategunda. 

  Vegna langa miðkafla myndarinnar er ástæða til að mæla með henni sem ágætis skemmtun.  Ég varð var við að krakkar sátu heillaðir undir myndinni og þurftu margs að spyrja fullorðna sessunauta.  Blessuð börnin fara snöggtum fróðari heim af myndinni.  Það þarf bara að segja þeim að það sé ekki bara maðurinn sem er vondur við dýr.  Dýr eru líka vond við dýr þó því sé leynt í myndinni.     

 


Missið ekki af

  Kosningabaráttan hefur verið í daufara lagi.  Það er doði yfir öllu.  Fólk er eins og dofið eftir allar upplýsingarnar um gengdarlausa spillingu,  grófar einkavinavæðingar,  mútur,  keypta stjórnmálamenn,  bankarán,  siðblindu og það allt.  Og sér hvergi fyrir enda á svindlinu og svínaríinu.  - Þó varaformannsefni Sjálfstæðisflokksins,  Ólöf Nordal,  stappi stálinu í flokksbræður sína með hughreystandi ummælum á borð við:  "Þessi Rannsóknarskýrsla og þetta allt saman er að þvælast eitthvað fyrir okkur tímabundið."  Gagnrýni á spillinguna líður hjá eins og hver annar þynnkuhausverkur.  

  Á milli klukkan 4 og 5 í dag verður spennandi dagskrá á Útvarpi Sögu.  Þar munu etja kappi Ólafur F.  Magnússon,  leiðtogi H-lista,  framboðs um heiðarleika og almannahagsmuni,  og Einar Skúlason,  frambjóðandi Framsóknarflokksins.  Mér segir svo hugur að þetta verði hressilegur þáttur.  Ég spái því að Ólafur muni leggja Einar á hné sér og hýða hann á bossann með upprifjunum um margháttaða grófa spillingu Framsóknarflokksins í Reykjavík (eins og víðar). Af nógu er að taka.

olafurfmagnusson_993936.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Fyrir þá sem ekki vita sendir Útvarp Saga út á FM 99,4 á suð-vestur horninu.  Ég veit ekki með aðra landshluta.  Áreiðanlega er hægt að finna upplýsingar um það á www.utvarpsaga.is.  Það er sömuleiðis hægt að hlusta á stöðina beint af þeirri heimasíðu.

.

.  


mbl.is Skattar munu hækka eitthvað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gífurlegur ávinningur af eldgosinu

  Einhverra hluta vegna hefur verið ólund í mörgum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.  Svokallaðir farþegar á flugvöllum hérlendis,  erlendis og víðar hafa vælt eins og bandarískir hnefaleikarar undan eldgosinu.

  Stjórnmálamenn og hagsmunafólk í túrhestaiðnaði hafa vælt undan því að forseti Íslands svari spurningum erlendra fréttamanna um eldgos á Íslandi án þess að ljúga einhverju sniðugu í anda 2007.  Annað eftir því. 

  Það sem gleymst hefur í umræðunni um eldgosið er góða hliðin á málinu.  Út frá umhverfisverndarsjónarmiði er eldgosið happdrættisvinningur.  Flugvélar eru einhver mesti skaðvaldur gagnvart ósonlaginu rétt fyrir neðan himininn og gróðurhúsaáhrifin eru flugvélum að kenna.  Þær menga svo svakalega.  Að auki eru þær frekar á takmarkaðar bensínbirgðir heimsins.

  Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur kyrrsett flugvélarnar þvers og kruss um heim dögum og vikum saman.  Þannig hefur eldgosið dregið stórlega úr mengun,  bensínbruðli og allskonar.  Betra gerist það ekki.

eldgos-22

.


mbl.is Sami gangur í gosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérðu andlitið í skýstróknum?

  Það er fullyrt að ekkert hafi verið átt við þessa mynd.  Hún er reyndar ekki alveg ný.  Og ekki frá Eyjafjallajökli heldur frá Surtsey.  En hún er jafn skemmtileg fyrir því.  Og ennþá skemmtilegri ef rétt er að hún sé ófölsuð.

Hvitur_yfir_surtsey_1963


mbl.is Gígur í sigkatlinum stækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband