Færsluflokkur: Umhverfismál

Meiriháttar flottar ljósmyndir af eldgosinu

  Fyrir tveimur árum (júní 2008) skrapp ég til Boston í Bandaríkjunum.  Svo einkennilega vildi til að á þeim tímapunkti fór þar á hausinn fríblað í eigu Íslendinga.  Mig minnir að það hafi heitið Boston News.  Það var í eigu Baugsfeðga.  Það kom mér á óvart að hljótt hafði farið um þetta blað í íslenskum fjölmiðlum.  Einnig þegar það fór á hausinn.  En í Boston gerðu "lókal"fjölmiðlar mikið úr örlögum þessa fríblaðs.

  Bostonbúar skildu hvorki upp né niður í þessu uppátæki Íslendinga að ryðjast inn á dagblaðamarkað í Boston.  Sögðu það ganga brjálæði næst.  Dæmið væri svo vonlaust. 

  Svo undarlega vildi til að í Boston rakst ég á fjölda Íslendinga.  Ég þekkti þá ekki alla með nafni.  En kannaðist við menn eins og Kára Stefánsson,  Geir Haaarde og Lúðvík Bergsveinsson (eða hvað hann heitir samfylkingargaurinn með öll bankalánin).  Þetta lið rölti um aðal verslunargötuna í Boston ásamt fjölda annarra Íslendinga.

  Áður en ég fór til Boston hef ég aðallega verið í suðurríkjum Bandaríkjanna.  Ólíkt suðurríkjamönnum eru Bostonbúar mjög evrópskir og fylgjast vel með heimsmálum.  Ég held að ég hafi ekki hitt neinn Bostonbúa sem var ekki neikvæður í garð Bush.  Jafnframt kom mér á óvart hvað margir þekktu til Íslands,  áttu plötur með Björk og Sigur Rós og voru bara vel á nótunum.  Töluvert annað en þegar rætt er við suðurríkjamenn.

  Hér er safn frábærra ljósmynda af eldgosunum á Íslandi birtar á boston.com (smelltu á slóðina):    http://www.boston.com/bigpicture/2010/04/more_from_eyjafjallajokull.html


mbl.is Mun stærra íslenskt eldfjall „við það að springa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áríðandi upplýsingar um svefn bænda

  Hér fyrir neðan er póstur sem mér barst í gestabókina á blogginu mínu fyrr í dag.  Í stað þess að bregðast við bóninni með því að endurskrifa athugasemdina tel ég heppilegast að birta póstinn í heilu lagi hér.  Þannig kemst erindið best til skila.  Ljósmyndinni hnupplaði ég af bloggsíðu Ómars Inga.  Hún er þar sögð vera tekin af Ólafi Thorissyni. 

Svefn bændanna !!

Jens vegna þess hve lipur penni þú ert vil ég biðja þig að blogga um pistil einn sem birtist í fréttablaðinu í dag 19.4 er á bls 24 eftir Söru Mcmahon. Þar stendur meðal annars. Ég vona að flóðið í Markafljóti hætti fljótt svo að bændurnir þar í kring fái svefnfrið.!!!! Ekki er skilningurinn mikill á því að það eru bændur yndir Eyjafjöllum Þorvaldseyri og nágrenni sem standa verst vegna ofnakomu ösku sem engu eyrir hvorki skepnunum eða gróðri,eyðileggur jarðirnar ræktað land og bithagann. Eins þarf að kenna blaðamönnum að nota vitræn orð sem gilda til sveita um fénað búsmala gripi úthaga og margt fleira. Mér er hreinlega misboðið að lesa pistil sem þennan. Kveðja margrét.

Margrét Sig (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 19. apr. 2010

sprengigos


mbl.is „Verstu morgnar sem ég hef lifað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarmikill áhugi á landsþingi

  Landsþing Frjálslynda flokksins verður haldið um helgina á Hótel Cabin í Reykjavík.  Það er spenna í loftinu.  Formaður síðustu 7 ára og þingmaður síðan 1999,  Guðjón Arnar Kristjánsson,  gefur ekki kost á til áframhaldandi formennsku en sækist eftir áframhaldandi setu í miðstjórn.  Sigurjón Þórðarson,  fyrrverandi alþingismaður.  hefur látið undan gífurlegum þrýstingi um að gefa kost á sér til formanns.  Svo virðist sem einhugur ríki um framboð Sigurjóns.

  Ásta Hafberg gefur kost á sér til varaformanns.  Grétar Mar,  fyrrverandi alþingismaður,  gefur einnig kost á sér til varaformanns.  Það er spurning hvað sitjandi varaformaður,  Kolbrún Stefánsdóttir,  gerir.

  Formaður fjármálaráðs,  Helgi Helgason,  gefur ekki kost á sér til endurkjörs. 

  Það er mikil stemmning fyrir landsþinginu.  Samkvæmt skoðanakönnun á www.visir.is telja um 30% Frjálslynda flokkinn eiga brýnt erindi í íslenskri pólitík í dag.  Helstu stefnumál flokksins njóta stuðnings meirihluta landsmanna.  Sjá: www.xf.is.   

  Á annað hundrað manns (101) sóttu landsþing Frjálslynda flokksins á Stykkishólmi fyrir ári.  Mér segir svo hugur að ennþá fleiri sæki landsþingið á Hótel Cabin.


Kvikmyndarumsögn

 - Titill:  Avatar

 - Handrit og leikstjórn:  James Cameron

 - Einkunn:  **** (af 5)

  Það hafa ekki allir Íslendingar séð  Avatar.  En margir.  Sumir þeirra hafa hvatt mig til að missa ekki af þessari vinsælu mynd.  Ég hef verið tregur til.  Með vaxandi þrýstingi lét ég loks undan.  Ég var búinn að heyra ýmislegt um myndina og hún kom því ekki á óvart.  Sagan er uppfull af klisjum og aftur klisjum.  Hún gerist á plánetu sem er langt í burtu frá jörðinni.  Þar býr 3ja metra hátt fólk,  blátt að lit með svarta flókalokka (dreadlocks) að hætti jamaískra rastafara. Tengsl þeirra við náttúruna eru sterk.  Þetta eru sönn náttúrubörn.  Talsmenn þeirra tala ensku.  Að sjálfsögðu. 

  Svo óheppilega vill til að á búsetusvæði þessa fólks er verðmætur málmur.  Þann málm ásælast siðblindir og herskáir jarðarbúar.  Þeir eru tilbúnir að beita öllum meðulum til að hrekja blámennina frá heimkinnum sínum.  Og gera það með stæl þó ekki takist ætlunarverkið að öllu leyti.

  Sagan deilir á heimsvaldastefnu,  hernaðarhyggju og virðingarleysi gagnvart náttúrunni.  Hannes Hólmsteinn Gissurarson vældi sáran á pressan.is undan boðskapnum.  Sem þýðir að boðskapurinn er góður og fallegur.

  Myndin er óþarflega löng;  um 3 tímar með hléi.  Það má að skaðlausu stytta hana niður í 2 tíma.  Lengdin þjónar sennilega þeim tilgangi að skerpa á ímynd myndarinnar sem stórmyndar.  James Cameron er fram til þessa þekktastur fyrir stórmyndina væmnu og leiðinlegu,  Titanic.  

 Avatar  er þrívíddarmynd.  Við innganginn fær áhorfandinn í hendur sérstök gleraugu til að ná þrívíddinni.  Margar senur eru rosalega fallegar og þrívíddin nýtur sín í botn.  Sú er ástæðan fyrir því að virkilega gaman er að horfa á myndina.

  Ég hvet fólk til að sjá  Avatar  í kvikmyndahúsi.   Á DVD eða í sjónvarpi án þrívíddarinnar verður hún ekki svipur hjá sjón.  Þrívíddin gerir upplifunina svo sterka að í nokkrum senum fann ég votta fyrir lofthræðslutilfinningu. 

  Varast ber að rugla myndinni saman við sænsku þungarokkshljómsveitina Avatar.


Hvers vegna...?

  Að undanförnu hafa stórmarkaðir,  hver á fætur öðrum,  hækkað verð á innkaupapokum úr 15 krónum í 20.  Þetta er svekkjandi fyrir þá sem safna innkaupapokum.  Öðrum þykir myndarskapur af þessu.  Enn aðrir telja að verðið á pokunum ætti að vera 50 kall til að draga úr óþörfu bruðli á þeim.

  Morgunblaðið hefur tekið afstöðu í málinu.  Þar er slegið upp frétt þess efnis að verð á innkaupapokum í Bónus hafi hækkað um þriðjung.  Fyrirsögnin er tvíræð:  "Hærra verð á plastpokunum í Bónus".  Fyrirsögnin vísar bæði til þess að verðið á pokunum hafi hækkað í Bónus og einnig til þess að verðið í Bónus sé hærra en í Krónunni.

  Hvers vegna er verðhækkunin í Bónus gerð að frétt en ekki minnst á aðra stórmarkaði sem einnig hafa hækkað verð á innkaupapokum í 20 krónur?  Hver er eiginlega ritstjóri Morgunblaðsins? 

  Eigandi Krónunnar,  Kaupás,  er stærsti auglýsandi Morgunblaðsins.  Það er skemmtileg tilviljun.  Enda er tilveran skemmtileg.

bónus


mbl.is Hærra verð á plastpokunum í Bónus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færeyingar mega brúka píkur frá og með þarnæsta sunnudegi

  Margir Færeyingar eru spenntir og fullir tilhlökkunar.  Færeysk yfirvöld hafa sent frá sér tilkynningu þess efnis að daginn eftir að lögmaður Færeyja snýr heim úr Íslandsreisu megi Færeyingar brúka píkur.  Þannig hljómar tilkynningin:  "Frá sunnudegnum 15. oktober er aftur loyvt at brúka píkur.
Tað kann hugsast, at sumir verða freistaðir at seta píkurnar upp undir komandi vikuskiftið, en ikki ráðiligt at seta píkurnar undir til dømis fríggjadagin ella leygardagin, bara frá sunnudegnum."

  
 


mbl.is Lögmaður Færeyja í heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anna á Hesteyri - örfá minningarorð

anna á hesteyri

  Hér fyrir neðan eru nokkrar skemmtilegar sögur af Önnu Mörtu Guðmundsdóttur frænku minni frá Hesteyri í Mjóafirði.  Hún lést aðfaranótt gærdags áttræð að aldri.  Faðir Önnu og faðir mömmu minnar voru bræður.  Anna var einkabarn aldraðra foreldra sinna.  Hún var að ofvernduð af foreldrum sínum og batt sína bagga ekki sömu böndum og aðrir.

  Anna var með góða eðlisgreind en vegna einangrunar kom hún sér upp sérkennilegum skoðunum.  Hún var náttúrubarn fram í fingurgóma og tók ung einarða afstöðu með trúarviðhorfum aðventista. 

  Æskuminningar mínar af Önnu einkennast af bréfum sem voru ítarlegar lýsingar á húsdýrum hennar og foreldra hennar.  Við,  sex systkini,  fengum reglulega frá Önnu löng bréf,  hvert um sig.  Þar tíundaði hún það sem helst hafði á daga húsdýra hennar drifið.  Hún endurtók ekkert frá einu bréfi til annars.  Hún skrifaði um dýrin sín eins og um nána ættingja/vini væri að ræða. 

  Eftir að ég flutti til Reykjavíkur á unglingsárum kynntist ég Önnu í persónu.  Hún heimsótti mig og mína fjölskyldu og samskipti urðu meiri.  Þegar hún heimsótti mig á auglýsingastofuna sem ég vann á lagðist vinna niður og vinnufélagarnir grétu úr hlátri undir frásögnum Önnu af sér og sínum.  Þó var það ekki ætlun Önnu að koma fólki til að hlægja.  Það var bara ekki annað hægt. 

  Eftir að símataxti á Íslandi varð eitt markaðssvæði var Anna dugleg að hringja í mig.  Þau símtöl skildu mig oftar en ekki í hláturkrampa yfir vangaveltum Önnu um lífið og tilveruna.  Hún hafði sterkar skoðanir á öllu og öllum.  Þær skoðanir voru oft frumlegar og hún velti upp flötum sem ég hafði aldrei hugsað út í.

  Eitt sinn barst mér bréf frá Önnu sem innihélt einnig fjölda ljósmynda af mömmu og fleiri ættingjum. Utan á umslaginu stóð:  "Heimilisfólkið á Grettisgötu".  Póstburðarmanneskjan hafði greinilega fært þetta umslag hús frá húsi við Grettisgötu dögum saman.  Á umslaginu var gamall dagstimpill og það hafði verið rifið upp. 

  Anna velti sér aldrei upp úr smáatriðum varðandi póstáritun.  Fyrir síðustu jól hringdi í mig kona.  Henni hafði borist jólakort frá Önnu Mörtu.  Konan þekkti Önnu ekki persónulega og vissi að kortið var ekki til sín.  Á umslaginu stóð aðeins:  "Kristín Jónsdóttir,  Reykjavík".  Sem betur fer vissi ég hver átti að vera viðtakandi kortsins.  Sú býr í Kópavogi,  sem,  jú, er stutt frá Reykjavík.

  Mér þykir líklegt að Anna verði jörðuð í fjölskyldugrafreitnum á Hesteyri.  Þar hvíla foreldrar hennar og afi minn og amma.  Anna var áður búin að gefa út yfirlýsingu þess efnis að vilja verða síðasta manneskja greftruð þar.  Hinsvegar tók hún fram að ef hún félli frá í öðrum landshluta mætti ekki eyða peningum í að flytja kistu hennar til Mjóafjarðar.  Þeim kostnaði ætti frekar að verja til þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. 

  Á seinni árum tók Anna að sér róna frá Reykjavík.  Þar á meðal ýmsa landfræga.  Þegar Anna ámálgaði fyrst við mig að hún vildi fá að taka að sér róna frá Reykjavík sagði hún að rónar væru svo skemmtilegir.  Bogi og Örvar í Spaugstofunni væru hennar uppáhald.  "Rónarnir í Spaugstofunni eru lang skemmtilegastir,"  sagði Anna.

  Hér eru nokkrar sögur af Önnu á Hesteyri:

 

- í heyskap
- fór í bakarí
- gestir
- slóst við mömmu
- Farandssali
- Sendi lögguna
- Leikið við aðra bílstjóra
- Hleypti Villa ekki frammúr
- Konfektkassi
- Ósátt við umbúðir Nupo létt
- Hringtorg 
.
  Í fyrra kom út ævisaga Önnu í bók:
annaáhesteyri - bókarkápa
  Þessi bók hefur einnig verið gefin út á geisladisk.

 


Frábær myndlistaverk á hrísgrjónaökrum

hrísgrjónaakur1hrísgrjónaakur2

  Í Japan er myndlist í hávegum.  Áhugi Japana á myndlist hefur borist út á hrísgrjónaakrana.  Japanir rækta hrísgrjónaplöntur í mismunandi litum (sjá neðstu mynd) til að búa til þessar glæsilegu risamyndir á ökrum sínum.  Það hefur ekki verið átt við þessar myndir í tölvu af listaverkunum.  Myndirnar sýna raunveruleg listaverk.  Þau eru ekki hönnuð af myndlistahneigðum geimverum heldur metnaðarfullum listrænum hrísgrjónabændum.

hrísgrjónaakur3hrísgrjónaakur4hrísgrjónaakur5hrísgrjónaakur6


Áhugaverð ræða Ólafs F. Magnússonar, fyrrverandi borgarstjóra

ólafurf.

  Eins og ég sagði frá á dögunum - og fréttastofur fjölmiðlanna hafa nú einnig sagt frá - hefur Ólafur F.  Magnússon yfirgefið Frjálslynda flokkinn og stofnað nýtt framboð,  H-listann.  Ég hef komist yfir ræðu Ólafs þar sem hann gerði borgarstjórn grein fyrir ákvörðun sinni í gær.  Það er hin fróðlegasta lesning og þess vegna birti ég hana hér í heild:

 

Forseti, góðir borgarfulltrúar.

  Fyrir tíu árum, um vorið 1999, var ég í þeirri sérkennilegu stöðu, að vera borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en gat engan veginn hugsað mér að kjósa flokkinn í Alþingiskosningum þá um vorið. Árið áður hafði ég verið í framboði fyrir flokkinn til borgarstjórnar og kosið hann í síðasta sinn á lífsleiðinni. Því mér hafði smám saman orðið ljóst, og alveg hvellljóst um vorið 1999, að Sjálfstæðisflokkurinn stóð ekki lengur fyrir þeim gildum, sem alla tíð hafa mótað lífsskoðun mína. Gildum umhyggju og réttlætis og baráttunnar fyrir velferð og öryggi þegnanna ásamt óskoruðu eignarhaldi almennings yfir auðlindum til lands og sjávar og rétti ófæddra kynslóða til að erfa landið okkar fagra með einstöku náttúrufari sínu.

  Sjálfstæðisflokkurinn var þá þegar farinn að starfa þvert á þessi gildi með gegndarlausri græðgis- og einkavinavæðingu, spillingu, valdníðslu og niðurgreiddum náttúruspjöllum. Pólitík sem gat með góðu móti kallast öfug Hróa hattar pólitík með rányrkju á auðlindum og eigum almennings, umhverfissóðaskap og stalíniskri stóriðjustefnu.

  Þegar ég gerðist frumstofnandi og ábyrgðarmaður grasrótarhreyfingarinnar Umhverfisvinir um haustið 1999, vissi ég að dagar mínir í Sjálfstæðisflokknum væru taldir. Það var hins vegar sannarlega þess virði að fórna stjórnmálaferli sínum fyrir jafn góðan málstað og þann að bjarga náttúruperlu á borð við Eyjabakka og forða því að þeim væri sökkt fyrir minna en engan efnahagslegan ávinning. En í þeirri baráttu kynntist ég rækilega því valdi óttans sem þáverandi forysta og ráðandi öfl innan Sjálfstæðsisflokksins beittu gegn öllum þeim, sem voguðu sér að efast um ágæti þeirrar ósjálfbæru og óhagkvæmu ofurvirkjanastefnu, sem hefur tröllriðið náttúru landsins og efnahag þjóðarinnar.

  Það var því vonum seinna, að ég sagði mig úr Sjálfstæðisflokknum, hér í pontu borgarstjórnarsalarins, í upphafi borgarstjórnarfundar hinn 20. desember árið 2001, klukkustundu áður en þáverandi umhverfisráðherra felldi úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar um að ekki skyldi ráðist í Kárahnjúkavirkjun, vegna umtalsverðra og óafturkræfra umhverfisáhrifa hennar. Með úrsögn minni úr Sjálfstæðisflokknum var auðvitað og ekki í fyrsta sinn talið fullvíst að pólitískum ferli mínum væri lokið. Rétt eins og allt benti til þegar talningu var að ljúka í borgarstjórnarkosnungunum vorið 2002, þegar ég náði óvænt kjöri sem óháður borgarfulltrúi í samstarfi við Frjálslynda flokkinn. Samstarfi sem nú er komið að leiðarlokum vegna þess einstaka getuleysis , sem núverandi forysta Frjálslynda flokksins hefur sýnt, í einu og öllu, nema að hrekja á brott alla þá sem vilja vinna meintum málstað flokksins gagn. Málstað sem ég hélt að snerist um að vernda auðlindir almennings til sjávar og sveita fyrir þeirri gegndarlausu græðgisvæðingu og auðlindasóun, sem höfuðspillingaröfl íslenskra stjórnmála, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa stundað tiltölulega óáreittir um árabil og hafa alla aðstöðu til að stunda áfram um nokkurt skeið á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur.

  Senn fer þó að fjara undan helmingaskiptameirihlutanum í Reykjavík, þegar tillögur mínar í borgarstjórn frá síðasta ári, um að fjárframlög til frambjóðenda í prófkjörum verði gerð opinber ná fram að ganga. Allir vita að þá kemur fiskur undan steini. Og athygli vekur að einungis fulltrúar vinstri grænna hafa staðið vaktina við hlið mér gegn spillingunni í borgarstjórn Reykjavíkur. Rétt eins og fulltrúar vinstri grænna stóðu einir vaktina í umhverfis-, orku- og auðlindamálum fyrir síðustu Alþingiskosningar, sem og árið 1999, en bæði þá og í vor átti ég ekkert annað val, sem einlægur talsmaður sjálfbærrar umhverfis- og auðlindastefnu en að kjósa einmitt vinstri græna.

  Í Alþingiskosningunum í vor gat ég ekki stutt,eins og ég hefði viljað, allt það ágæta fólk, sem hefur haft hugsjónir Frjálslynda flokksins um að vernda auðlindir í eigu almennings gagnvart eignaupptöku í þágu sérhyggju- og græðgisvæðingar. Því er um að kenna að forysta flokksins boðaði gegndarlitla ofveiði- og ofurvirkjanastefnu, stefnu þar sem auðlindin er hvorki vernduð né nýtt með sjálfbærum hætti og ekkert hugsað um næstu kynslóð á Íslandi. Það samrýmist ekki upphaflegum hugsjónum flokksins, að halda áfram að láta almenning greiða niður orkusölu til erlendra álbræðslurisa, á sama tíma og okrað er á innlendum orkukaupendum. Það samræmist ekki heldur hugsjónum flokksins að fórna náttúruperlum fyrir minna en ekki neitt og nýta aðeins brot af hitaorkunni úr iðrum jarðar við raforkuframleiðsluna. Ég ítreka að ég ber góðan hug til þeirra frambjóðenda og stuðningsmanna Frjálslynda flokksins, sem reyndu að þreyja þorrann fram til hins síðasta, þrátt fyrir slaka frammistöðu formannsins, fyrrverandi þingflokksformannsins og framkvæmdastjórans, sem hafa sett flokkinn málefnalega og fjárhagslega á höfuðið. Þessir þremenningar hafa sýnt dugleysi og óráðsíu og seint verða þeir vændir um hreinlyndi eða að tala vel um félaga sína.

  Á borgarstjórnarvaktinni hef ég oftast staðið einn vörð um verndun umhverfisins og náttúru- og menningarminja, auk þeirrar þungu áherslu sem ég legg á velferðar og öryggismál, enda mótaður af bakgrunni mínum sem heilbrigðisstarfsmaður. Ég vænti engu að síður sívaxandi stuðnings við og samstarfs um mín sjónarmið af hálfu borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa vinstri grænna, sérstaklega gagnvart spillingarmálunum, enda er það einbeittur vilji minn að vinna gegn þeirri rótgrónu spillingu, sem tíðkast hefur hjá helstu valdaflokkum íslenskra stjórnmála, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, sem illu heilli sitja enn að kjötkötlum borgarinnar og nýta það óspart í fyrirgreiðslum, launagreiðslum, ferða- og dagpeningagreiðslum og veislugjörðum sjálfum sér til dýrðar en á kostnað borgarbúa.

Góðir borgarfulltrúar og góðir Reykvíkingar.

  Um leið og ég segi öllu samstarfi borgarstjórnarflokks F-listans við Frjálslynda flokkinn slitið, boða ég nýtt framboð óháðra, sem ég hyggst leiða í næstu borgarstjórnarkosnungum, að líkindum undir merkjum H-lista og með einkunnarorðunum: „Hreinskilni, hæfni, heiðarleiki,“ þó að einkunnarorðin góðu frá 2002 „Umhyggja, hreinskilni, réttlæti“, séu enn í fullu gildi. Á allt þetta skortir hjá núverandi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er brýn þörf á því að venjulegt fólk með eðlileg tengsl við atvinnulíf og mannlíf í borginni láti ekki útsendara á vegum óprúttinna fjárplógsmanna, hagsmunaafla og stjórnmálaflokka hrekja sig frá því að starfa að borgarmálum. Það hefur svo sannarlega verið reynt gagnvart mér en ekki tekist. Með því vil ég sýna öðrum borgarbúum gott fordæmi um leið og ég hvet allan almenning til virkrar þáttöku í borgarlífinu og að gefa duglausum atvinnvinnustjórnmálamönnum reisupassann. Af langri reynslu þekki ég vel þá ríku tilhneigingu atvinnustjórnmálamanna að hugsa fyrst og fremst um eigin velferð og vera ávallt tilbúnir að sveigja frá hugsjónum sínum og fyrirheitum. Ég mun hins vegar sem óháður borgarfulltrúi berjast fyrir velferð og öryggi allra borgarbúa, enda aðeins skuldbundinn af orðum mínum og sannfæringu.


Kvikmyndaumsögn

- TitillDraumalandið
.
 - HöfundarÞorfinnur Guðnason og Andri Snær Magnason
.
 - FramleiðandiSigurður Gísli Pálmason
.
 - Einkunn: ****1/2 (af 5)
.
  Draumalandið er byggt á samnefndri metsölubók Andra Snæs Magnasonar.  Ansi merkilegri bók.  Ég sá líka vel heppnaða sviðsfærslu Hafnarfjarðarleikhússins á Draumalandinu fyrir 2 árum.
.
  Kvikmyndin flaggar öllum bestu kostum heimildarmyndar:  Hún er virkilega skemmtileg,  fræðandi og vekur áhorfandann til umhugsunar.   Hún býður upp á helling af flottum senum af fallegu landslagi í bland við skondin innskot. 
.
  Þetta er áróðursmynd umhverfisverndarsinna.  Sjónarmið virkjunar- og álverssinna fá að koma fram.  Með framsetningunni verður málflutningur þeirra dáldið kjánalegur.  Ég vorkenni sumum sem uppskáru hláturrokur frá áhorfendum í kvikmyndasalnum.  Ég stóð mig að því að hugsa stundum:  "Ó,  þvílíkt fífl!"
.
  Ég hef samúð með fögnuði Austfirðinga og Húsvíkinga yfir að fá álver í túngarðinn.  Sjálfur vann ég sem unglingur í álverinu í Straumsvík í næstum 3 ár á fyrri hluta áttunda áratugarins.  Á þaðan margar ljúfar minningar og hef verið kvefaður og hás síðan.  Það var lærdómsrík reynsla að kynnast þar skarpari stéttaskiptingu en ég hef kynnst á öðrum vettvangi.  Flestir allra hæst settu hjá fyrirtækinu voru þýskir,  ausurískir eða svissneskir.
.
  Það var gaman að sjá glæsilegar loftmyndir af mínum gamla vinnustað.
.
  Ég mæli eindregið með kvikmyndinni Draumalandinu.  Hún á erindi til allra Íslendinga,  hver sem afstaða er til virkjana og álvera.  Þetta er áhrifarík mynd,  falleg,  fræðandi og skemmtileg.  Hún nýtur sín vel á breiðtjaldi.  En ég er ákveðinn í að kaupa hana á DVD.  Þetta er mynd sem ástæða er til að horfa á oftar en einu sinni.
      

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband