Færsluflokkur: Umhverfismál
13.2.2012 | 01:36
Töfrar vatnsins
Fólk sækir í náttúruna. Það hefur blóm í gluggakistum og víðar; málverk af landslagi á veggjum; húsgögn og innréttingar úr timbri; blómum skreyttan garð með trjám og runnum. Borgarbörn fá sér sumarbústað uppi í sveit til að komast í ennþá nánari tengsl við náttúruna. Aðrir fá sér snekkju í stað sumarbústaðar og upplifa náttúruna vaggandi á vatni. Enn aðrir sameina þetta tvennt.
Myndin hér að ofan er af veitingastað í Zansibar í Afríku. Hann er byggður á skeri með laufguðum trjám. Sjórinn er svo grunnur þarna að viðskiptavinir vaða í stuttbuxum til og frá staðnum.
Hér er einskonar sumarbústaður á Indlandshafi.
Þeir sem hafa aðgang að peningageymslum banka kúldrast ekki í litlum sumarbústað úti á sjó. Þeir reyna þess í stað að toppa hvern annan með flottustu snekkjunum (ásamt einkaþotum og öðru glingri). Jón Ásgeir lét smíða fyrir sig lúxussnekkjuna á efstu myndinni. Þessi svarthosótta snekkja er 9 svefnherbergja auk setustofu og allskonar annarra rýma. Hin svarthosótta snekkjan var skráð á Kaupþings-Bakkabræður. Síðan er það snekkja Pálma í Fons. Á neðstu myndinni má sjá Björgúlf spóka sig, sólbakaðan og sperrtan.
Bandarískir sveitalúðar (rednecks) spjara sig án þess að láta sérsmíða fyrir sig lúxussnekkjur í Hollandi fyrir 5000 milljónir króna. Rauðhálsarnir klambra saman sínum lúxussnekkjum sjálfir. Enda er það eina sem þarf til lítið hjólhýsi, utanborðsmótor og örfáir spýtuplankar. Bingó! Það er komin 2ja hæða lúxussnekkja.
Sumir kunna betur en aðrir við náttúruna villta og brjálaða. Það er enginn skortur á vitavörðum í þennan franska vita. Ef vel er að gáð glittir í vitavörðinn þar sem hann stendur í dyrunum. Hann ætlar að fá sér að reykja í rosanum. Samkvæmt lögum má hann ekki reykja innan dyra.
Í Montana í Bandaríkjum Norður-Ameríku er vatnið ótrúlega tært. Það myndar einskonar aðdráttarlinsu. Þess vegna sýnist það vera grunnt. Í raun er dýptin 113 metra.
Það ku vera fagurt í Kína. Einkum í Yuntai. Þökk sé spegilsléttu vatninu.
Fleiri stórfenglegar myndir af vatni má sjá með því að smella á þennan hlekk: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1222012/
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2012 | 04:11
Stórkostlegar myndir af vatni (í 3 heimsálfum)
Vatn er besti svaladrykkur í heimi. Einkum ef það er ískalt og íslenskt, svo ekki sé minnst á færeyskt eða grænlenskt. En vatn getur líka glatt augað. Heldur betur svo. Ljósmyndin hér fyrir ofan er af skemmtilegu fyrirbæri sem kallast Þórsbrunnur og er í Oregan í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Það hefur ekkert verið átt við þessa mynd í "fótósjopp" eða öðrum græjum.
Þessi magnaði hellir er í Víetnam. Ef vel er að gáð má greina manneskju á myndinni niðri til hægri. Hún gefur til kynna stærð hellisins. Eins áhrifamikið og þetta listaverk er þá væri hellirinn ekki svipur hjá sjón án lindarinnar.
Hvað væri varið í þetta sólarlag án vatnsöldunnar sem ramma það inn?
Íslenskt landslag skartar mörgu listaverkinu þar sem vatn leikur stóra hlutverkið. Jökulsárlón er gott dæmi.
Íslenskar ár eru ekkert fallegar út af fyrir sig. En þær einkenna íslenska dali. Þær hlykkjast um lægsta punkt fyrir miðju dalsins. Úr fjarlægð setja árnar skemmtilegan svip á landslagið.
Færeyskir lækir setja ennþá skemmtilegri svip á færeyskt landslag:
Færeyskir lækir eru flottir. Þeir dreifa sér yfir breiðar klappir. Þeir úðast léttilega niður eftir klöppunum fremur en að fossa eins og íslenskir lækir. Við minnstu gjólu fjúka færeysku lækirnir í loft upp. það er fögur sjón:
Þegar maður snýr sér við í Færeyjum og lítur út á sjó blasir við fegursta hafsýn:
Hana má einnig sjá á myndinni í "hausnum" á þessari bloggsíðu. Sú ljósmynd var tekin á hljómleikum Týs í ströndinni á Götu á Austurey.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.1.2012 | 04:25
Bráðskemmtilegar myndir af skrautgjörnum beljum
Fólk er glysgjarnt. Það skreytir sig í tíma og ótíma með glitrandi hálsmenum, litríkum hálsbindum og slaufum, setur á sig skrautlegar húfur og hatta. Að þessu leyti - og ýmsu öðru - eiga kýr og mannskepnan samleið. Kýr sækja stíft í að vera með skraut um háls eða höfuð. Sú beljan sem nær að troða sér í glæsilegasta og stærsta hálsmenið eða höfuðfatið er aðal beljan í fjósinu í mörg ár á eftir.
Stundum sést þeim ekki fyrir í kapphlaupinu um að vera flottasta beljan. Það á einkum við er þær troða upp á háls sér naglföstum hlutum á borð við rimlahlið. Heppilegast er að troða léttum álstiga um hálsinn. Þá er hægt að bíta gras og drekka vatn eins og ekkert hafi í skorist á milli þess sem beljan montar sig af hálsskrautinu.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
25.11.2011 | 21:28
Gífurleg eyðilegging og tjón í Færeyjum. Svakalegar myndir
Þarna fór fjárhús í klessu. Ekki fylgir sögunni hvað varð um rollurnar. En næsta víst er að þær hafa orðið hissa. Tryggingafélögum hafa borist á annað þúsund tilkynningar um tjón. Og sér hvergi fyrir enda á. Símkerfi tryggingafélaganna hafa verið rauðglóandi í allan dag. Vegna þess var haldið áfram að svara í síma fram eftir kvöldi (í stað þess að loka á auglýstum lokunartíma). Jafnframt verður, aldrei þessa vant, opið á morgun.
Færeysk tryggingafélög eru frábrugðin þeim íslensku. Meðal annars að því leyti að þau færeysku leitast við að bæta tjón og eigendur þeirra ræna ekki bótasjóð.
Það er kaldhæðnislegt að veðurmælingastöðvar voru á meðal þess sem fauk út um mela og móa. Einnig fauk útvarpsmastur Rásar 2, annarri tveggja útvarpsstöðva í einkaeigu (hin er kristilega stöðin Lindin).
Allra handa hús, skúrar, hjallar og kofar fuku á haf út eða út í móa.
Vegvísar, umferðarmerki, vegrið og þess háttar lögðust á hlið eða færðust lengra úr stað.
Bátar slitnuðu frá bryggju og sumir þeirra ráku upp á land. Neðri myndin sýnir betur veðurhaminn og sjólagið.
Þök rifnuðu upp af húsum. Sum fuku út í buskann. Í verstu tilfellunum rústuðust húsin.
Bílar fuku út um allt; fuku hver á annan og ýmislegt dót fauk á og skemmdi bílana.
Fiskikör fuku út um holt og hæðir eða hlóðust upp í kös í húsaskotum.
Vörubílstengivagn rúllaði um svæðið. Hér er hann á hlið.
Sólskálar smölluðust.
Veðurhamurinn lék gervigrasavelli illa.
Gámar voru á meðal þess sem fór í sjó.
Tré brotnuðu og liggja eins og hráviður um allt. Á ferðalagi þeirra um eyjarnar beygluðu þau handrið og brutu hitt og þetta.
Þök fuku og bátar losnuðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt 26.11.2011 kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
16.9.2011 | 21:56
Færeyski Kínamúrinn
Margir hafa heyrt talað um Kínamúrinn (gætið þess að rugla honum ekki saman við Kínakúrinn). Hann er frægasti múr eða garður í heimi. Miklu frægari en Berlínarmúrinn sálugi og aðskilnaðarmúrinn í Palestínu. Á tímabili var því haldið fram í kennslubókum að Kínamúrinn væri eina mannvirkið sem sæist frá tunglinu. Kínverjar könnuðu málið og fundu út að þetta var þýðingarvilla. Kínamúrinn sést utan úr geimnum en ekki alla leið frá tunglinu.
Á frummálinu heitir Kínamúrinn 長城 eða eitthvað álíka. Á ensku heitir hann The Great Wall of China (gætið þess að rugla nafninu ekki saman við lagið The Great Balls of Fire með Jerry Lee Lewis). Ég kalla hann Stóragarð. Það er vegna þess að í Þórshöfn í Færeyjum er svipaður garður sem heitir Stórigarður. Miðað við höfðatölu er færeyski Kínamúrinn miklu stærri og merkilegri en sá kínverski. Og miklu flottari. Fellur betur að landslaginu og setur sterkan og skemmtilegan svip á Þórshöfn.
Ég er kominn út fyrir umræðuefnið. En það er allt í lagi. John Lennon sagði að lagið Whole Lotta Shakin' Going on með Jerry Lee Lewis væri fullkomnasta lag rokksögunnar:
Umhverfismál | Breytt 17.9.2011 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
2.7.2011 | 20:32
Húfa úr naflaló
Neyðin kennir nakinni konu að spinna, segir gamalt máltæki. Þetta má heimfæra að hluta upp á ungan mann, töluvert loðinn á bringu og maga en ekkert loðinn um lófana. Einhverra hluta vegna safnast daglega í nafla hans vænn hnykill af ló. Kauða þótti blóðugt að henda nafnaló á hverju kvöldi. Hann var viss um að hægt væri að nýta hana til góðs. Þess vegna tók hann að safna naflaló.
Einn dag heimsótti hann ömmu sína á elliheimili. Hún var að dunda sér við einhverskonar prjónavél (hvort það heitir hekluvél?). Drenginn vantaði húfu og spurði kellu hvort hún gæti græjað eina slíka. Það var auðsótt mál. Þá sá hann ljósið. Naflalóna mátti nota í húfuna. Ömmunni tókst að spinna naflalóna saman við húfugarnið. Útkoman varð hin laglegasta húfa.
Næst vildi hann fá sams konar húfu handa kærustunni sinni. Hún vill ekki svoleiðis húfu. Enda sérvitur stelpa í Kent á Englandi.
Umhverfismál | Breytt 3.7.2011 kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2011 | 04:11
Ótrúlegt! Svona er heima hjá Ozzy Osbourne í dag
Fyrir nokkrum árum naut mikilla vinsælda sjónvarpssería að nafni Osbournes. Í henni var fylgst með breska þungarokkssöngvaranum Ozzy Osbourne, Sharon konu hans og tveimur yngstu börnum þeirra. Þetta var svokallað raunveruleikasjónvarp. Fjölskyldan þótti frekar sérkennileg um margt. Einkum Ozzy, sem hefur skaðað sjálfan sig til frambúðar með óhóflegri áfengis- og dópneyslu. Það er betra að nota svoleiðis í hófi. Skemmtilegu hófi.
Heimili fjölskyldunnar, það er að segja húsgögn og annað innbú, vakti ekki sérstaka athygli. Það var ósköp venjulegt. Að minnsta kosti í samanburði við íbúana. Nú hefur heimilið verið tekið í gegn frá A-Ö. Það er óþekkjanlegt frá því sem áður var. Og stingur rækilega í stúf við ímynd djöfladaðrarans Ozzys, prins myrkursins, eins og hann er stundum kallaður.
Svona munum við eftir Osbourne-hjónunum heima hjá sér. Allt voða "kósý", hlýlegt, notalegt og heimilislegt:
Nú hefur allt verið útfært í köldum og óvistlegum litum; húsgögn, skraut og annað haft í hörðum og óþægilegum fyrri alda stíl. Það var Sharon sem tók ákvörðun um þennan vonda stíl og naut liðsinnis fagmanna. Ozzy skipti sér ekkert af þessu. Hann veit sem er að það er ekki hlustað á hann undir svona kringumstæðum.
Kalt, hart, gler, járn, hvítir veggir, hvítar veggflísar, hvítur spegilrammi og það allra versta: Kristalljósakróna í baðherbergi!
Hvítir veggir, hvítir gluggalistar, hvítir hurðarkarmar; ber og ómálaður stál gufugleypir og stál eldavél. Stólarnir eru harðir og óþægilegir. Þeir eru þó haganlega hannaðir að því leyti að undir setunni er hirsla. Þar er hægt að geyma sokkapör og fleira.
Þarna fær ómálaður járnrammi um spegilinn að njóta sín. Sá er heldur betur skrautlegur, eins og útskorinn skenkurinn. Þvílíkt flúr. Og dauðar trjáhríslur í skrautlegum glervösum.
Á þessu speglaborði standa verðlaunagripir Ozzys. Gott ef ekki bæði Grammy og Emmy verðlaun. Stállitur borðlampi. Blómavasinn er hugsanlega silfurhúðaður. Það sést glitta í bera stálarma á stólnum.
Óþægilegur tréstóll prýðir stigaopið á efri hæðinni. Það er eins og ljósakrónan sé gullslegin.
Ég veit ekki hvaða tilgangi þessar gegnsæju glerflöskur þjóna með svona íburðarmiklum járntöppum. Líkast til eru þær aðeins skraut og tapparnir einhvers konar afbrigði af hinum ýmsu krossum.
Uppstillingarnar á dótinu á náttborðahlunkunum er þær sömu. Þær mynda ekki einu sinni spegilmynd. Fyrir bragðið þarf sá/sú sem sefur vinstra megin að fara fram úr til að slökkva á borðlampanum. Þessi kaldi fjólublái ráðandi litur er afskaplega óaðlaðandi í svefnherbergi. Sem og speglandi gráar gólfflísarnar og járnsöplarnir á rúminu. Kuldalegir gráir og fjólubláir draumar. Það er ekkert rokk í þessu.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.12.2010 | 05:35
Níræður maður fraus fastur
Næstum níræður kappi (88 ára), sprækur og hress, brá sér á veiðar á litlu skektunni sinni núna á þriðjudagsmorgun. Hann lét hvorki hörkufrost né veðurspá um ennþá kaldara veður hafa áhrif á sig. Reyndar veitti hann því enga eftirtekt. Hann hafði um annað að hugsa. Honum þykir ekkert skemmtilegra en dúlla í skektunni sinni í Nakskov-firði í Danmörku.
Kallinn var varla fyrr komin um borð en veðurguðirnir tóku stjórnina. Hávaðarok feykti skektunni á miklum hraða þvert yfir fjörðinn. Um 100 metrum frá landi stöðvaðist skektan loks í íshröngli. Ísinn var of þunnur og mjúkur til að hægt væri að ganga á honum. En nógu þéttur til að skektan fraus þar föst umsvifalaust. Alveg pikkföst.
Kallinn var ekki með neinn búnað til að gera vart við sig. Hann neyddist til að húka aðgerðalítill í skektunni í fjóra klukkutíma. Hann hafði ekki einu sinni krossgátublað meðferðis til að stytta sér stundir. Þess í stað starði hann vonlausum augum upp á land. Hann var alveg ráðalaus.
Um klukkan eitt eftir hádegi kom undrandi Dani auga á úr mikilli fjarlægð að maður sat í pikkfrosinni skektu úti á firði. Hann hafði þegar í stað samband við neyðarlínuna. Þar á bæ var ræstur út björgunarbátur, sjúkrabíll og læknir. Sá gamli var orðinn helkaldur, lamaður af hræddur og ræfilslegur þegar björgunarsveitin fiskaði hann upp úr bátnum. Hann skammaðist sín ógurlega og hefur heitið björgunarsveitinni því að gera þetta aldrei aftur. Ekki einu sinni þó hann yrði píndur með flísatöngum og snúið upp á bakið á honum. Hann dvelur nú á sjúkrahúsi þangað til mesti hrollurinn er farinn úr honum.
Útlit fyrir versnandi veður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.11.2010 | 23:03
10 ástæður fyrir því að sumir karlar velja frekar golf
Ef þið áttið ykkur ekki á hvað er hér í gangi þá er mér ljúft að upplýsa að þarna er um dúndur beinbrot að ræða. Kíktu aftur á myndirnar. Þetta er hrikalegt.
Ég er farinn að ruglast í talningunni. Er þetta 9 eða 10?
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
28.10.2010 | 18:48
Þarfar upplýsingar um kýr
Eftirfarandi texti er sagður vera heimildarritgerð um kýr eftir nemanda á miðstigi grunnskóla:
Nytsemi kýrinnar
Kýrin er húsdýr, en hana má líka finna fyrir utan húsið. Hún býr oftast í sveitinni en kemur líka inn í bæinn, en bara þegar hún á að deyja. En það ákveður hún ekki sjálf.
Kýrin hefur sjö hliðar: Efri hliðina, neðri hliðina, fremri hliðina, aftari hliðina, eina hliðina, hina hliðina og innri hliðina. Á framhliðinni er höfuðið og það er til þess að það sé hægt að festa hornin einhvers staðar. Hornin eru gerð úr horni og þau eru bara skraut. Þau geta ekki hreyft sig en það geta eyrun. Þau eru við hliðina á hornunum. Kýrin hefur tvö göt framan á höfðinu. Þau heita kýraugu.
Á afturhliðinni er halinn. Hún notar hann til þess að reka í burtu flugur svo að þær detti ekki í mjólkina.
Á efri hliðinni og einni hliðinni og hinni hliðinni er bara hár. Það heitir kýrhár og er alveg eins á litinn og kýrin.
Neðsta hliðin er mikilvægust því að þar hangir mjólkin. Þegar mjólkurkonan opnar kranana þá rennur mjólkin út. Þegar það er þrumuveður, verður mjólkin súr.
Beinin í kúnni heita kúbein. Það er líka hægt að nota þau til að draga út nagla.
Kýrin borðar ekki svo mikið, en þegar hún gerir það borðar hún alltaf tvisvar. Þegar kúnni er illt í maganum gerir hún ost. Það eru göt í ostinum.
Kýrin er með gott lyktarskyn. Við getum fundið lyktina af henni langar leiðir. Hvolpar kýrinnar heita kálfar. Pabbi kálfanna heitir naut og það heitir maður kýrinnar líka. Nautið gefur okkur ekki mjólk og þess vegna er hann ekki spendýr.
Þegar kúnni er slátrað, hella menn mjólkinni í fernur sem maður kaupir í búðinni. Fæturnir fjórir eru sendir til smiðsins. Það heitir endurvinnsla.
Kýrin er nytsamt dýr. Þess vegna finnst mér mjög vænt um kýrnar.