Færsluflokkur: Matur og drykkur

Ótrúleg ósvífni

  Kunningi minn,  Nonni,  bætti við sig áfanga í skóla fyrir nokkrum árum.  Til að fagna  ákvað hann að blása til matarveislu.  Sá hængur er á að hann kann ekki að matreiða.  Vandamálið er ekki stærra en svo að á höfuðborgarsvæðinu eru ótal veitingastaðir.  Þar á meðal einn asískur í göngufæri frá vinnustað Nonna. 

  Hann mætti á staðinn og spurði eftir yfirmanni.  Sá birtist brosandi út að eyrum og einstaklega góðlegur á svip.  Hann sagðist heita Davíð og vera eigandi.

  Nonni bar upp erindið;  hann væri að leita tilboða í 20 manna veislu.  Davíð brosti breiðar og sagði:  "Þú þarft ekki að leita tilboða.  Ég gef þér tilboð sem undirbýður öll önnur veitingahús.  Þú velur einn tiltekinn rétt fyrir hópinn og ég gef þér 50% afslátt!  Til að það gangi upp erum við að tala um pappírslaus viðskipti."

  Nonni gekk að þessu.  Þeir innsigluðu samkomulagið með handabandi og Davíð knúsaði þennan nýja vin sinn.

  Nokkrum dögum síðar mætti Nonni með gesti sína.  Þeim var vísað til sætis og matur borinn fram:  Væn hrúga af hrísgrjónum og örfáir munnbitar af svíni í sósu.

  Afgreiðsludaman tilkynnti ítrekað að gestir með sérrétt mættu ekki fá sér af nálægu hlaðborði.

  Í lok máltíðar grínuðust menn með að vera enn glorhungraðir eftir þennan litla "barnaskammt".  Nonni hnippti í afgreiðsludömuna og spurði hvort möguleiki væri á ábót fyrir þá sem væru ennþá svangir.  Hún tók erindinu vel.  Snaraðist inn í eldhús og sótti stóran hrísgrjónapott.  Spurði hvort einhver vildi aukaskammt af hrísgrjónum.  Einhverjir þáðu það en nefndu að löngun væri meiri í kjötbita.  Það var ekki í boði. 

  Með ólund rétti Nonni afgreiðsludömunni 29000 kall.  "Nei,  pakkinn er 58000 kall,"  mótmælti daman.  "Davíð samdi um 50% afslátt,"  útskýrði hann.  Hún fullyrti á móti að það væri aldrei gefinn afsláttur.  Eftir þref bað hann dömuna um að hringja í Davíð.  Nonni skildi ekki asíumálið en þótti undarlegt að konan hló og flissaði.   Eftir símtalið sagði hún Davíð ráma í að hafa boðið 10% afslátt.Nonni þyrfti því að borga "aðeins" 52200 kall.

  Þungt var í Nonna er hann gekk heim.  Hann er sannfærður um að Davíð hafi sviðsett leikrit.  Ekki síst núna þegar Davíð er opinberlega sakaður um mansal og fleiri glæpi. 

hrísgrjón


Anna frænka og hraðsuðuketillinn

  Þegar móðir Önnu frænku,  Lára,  féll frá varð hún einstæðingur.  Faðir hennar féll frá einhverjum árum áður.  Hún sló á einmanaleikann með því að hringja oft og títt í innhringitíma Rásar 2.  Fyrir ofan síma hennar voru spjöld með símanúmerum nánustu ættingja.  Eitt spjaldið var tvöfalt stærra en hin.  Símanúmer Rásar 2 fyllti út í það.

  Lára var jörðuð í fjölskyldugrafreit á Hesteyri,  eins og afi minn og amma.  Að jarðarför lokinni fylgdi Anna presthjónunum inn í kaffi.  Þar setti hún hraðsuðuketil í samband.  Rafmagnsnúran var klædd tauefni.  Einhverra hluta vegna hafði hún slitnað í sundur.  Anna splæsti hana saman með álpappír.   

  Anna bauð prestfrúnni að grípa um álpappírinn. 

  "Það er svo gott að koma við hann þegar ketillinn er í gangi,"  útskýrði Anna og skríkti úr hlátri.  "Hí hí hí,  það kitlar!"

anna á Hesteyri 


Eftirminnilegur jólapakki frá Önnu frænku á Hesteyri

  Móðir mín og Anna Marta á Hesteyri í Mjóafirði voru bræðradætur.  Kannski var það þess vegna sem þær skiptust á jólagjöfum.  Ein jólin fékk mamma frá Önnu langan og mjóan konfektkassa.  Hann var samanbrotinn í miðjunni.  Endarnir voru kyrfilega bundnir saman með límbandi.  Með fylgdi heimagert jólakort.  Anna var ágætur teiknari.  Hún skreytti kortið með teikningum af jólatrjágreinum og fleiru jólaskrauti.  Í kortið voru meðal annars þessi skilaboð: 

  "Láttu þér ekki bregða við að konfektkassinn sé samanbrotinn.  Það er með vilja gert til að konfektmolarnir verði ekki fyrir hnjaski í ótryggum póstflutningum."

  Þegar mamma opnaði kassann blasti við ein allsherjar klessa.  Einmitt vegna þess að hann var samanbrotinn.  Molarnir voru mölbrotnir.  Mjúkar fyllingarnar límdu klessuna saman við pappírinn. 

  Áfast pakkanum hékk límbandsrúlla.  Anna hafði gleymt að klippa hana frá.     

anna martakonfekt   


Páskagaman

  Páskarnir eru allskonar.  Í huga margra eru þeir forn frjósemishátíð með einkennandi frjósemistáknum á borð við kanínur, egg, unga og páskalamb.  Síðar blandaði kristna kirkjan sögunni af krossfestingu Jesú inn í páskana.  Dagsetningin sveiflast til og frá eftir tunglstöðu.

  Fyrir nokkrum árum var Hermann heitinn Gunnarsson með páskaþátt í sjónvarpsseríunni "Á tali hjá Hemma Gunn".  Hann ræddi við börn á leikskólaaldri.  Meðal annars spurði hann dreng hvers vegna væru páskar.  Hann sagði það vera vegna þess að Jesú hafi verið krossfestur. 

  "Hvers vegna var hann krossfestur?"  spurði Hemmi.

  Stráksi svaraði að bragði:  "Menn voru orðnir leiðir á honum!

 

egg

 

 


Klámmynd Önnu frænku á Hesteyri

  Anna frænka á Hesteyri var viðkvæm fyrir nekt.  Svo mjög að hún svaf kappklædd.   Hún var stór og mikil um sig.  Stundum fór hún í megrun.  Það breytti litlu.

  Einu sinni sem oftar hringdi hún í apótekið á Neskaupstað.  Að þessu sinni falaðist hún eftir megrunardufti,  Nupo-létt.  Henni var illa brugðið er duftið barst með póstinum.  Á umbúðunum blasti við mynd af frægu málverki af nakinni konu. 

  Anna hringdi í geðshræringu í apótekarann.  Hún krafðist þess að sölu á duftinu yrði þegar í stað hætt.  Ella neyddist hún til að kæra apótekið fyrir dreifingu á klámi.

  Apótekarinn tók erindinu vel.  Hann þekkti frúna.  Hann þakkaði kærlega fyrir ábendinguna.  Hann myndi sjá til þess að myndinni yrði umsvifalaust breytt. 

  Nokkrum vikum síðar hringdi Anna.  Hún spurði hvort búið væri að fjarlægja klámmyndina.  Apótekarinn játti því.  Anna pantaði meira duft.  Tússpenni var dreginn fram og svartur síðkjóll teiknaður á nöktu konuna. 

  Anna var hin ánægðasta með útkomuna.  Hún hældi sér af því að hafa forðað apótekinu á Neskaupstað frá dreifingu á klámmynd.  

anna frænka

 


Viðbjóðsmatur

  Ég átti erindi í matvöruverslun.  Fyrir framan mig í langri röð við afgreiðslukassann var hávaxinn grannur eldri maður.  Hann hélt á litlu laxaflaki á frauðplastsbakka.  Um hann var vafin glær plastfilma.

  Maðurinn sló takt með bakkanum;  bankaði honum í læri sér.  Við ásláttinn losnaði um plastfilmuna.  Að því kom að laxaflakið hrökk út úr bakkanum og veltist um skítugt gólfið og endaði með roðið upp.  Úti var snjór og slabb.  Fólk bar óhreinan snjó inn með sér.  Á blautu gólfinu flaut blanda af ryki,  sandi og mold.  

  Til að tapa ekki stöðu sinni í röðinni stóð gamlinginn áfram á sínum stað en teygði fót að flakinu.  Honum tókst að krækja skítugu stígvéli fyrir flakið og draga eftir drullunni til sín.  Hann reyndi að strjúka óhreinindin af því.  Kjötið var laust í sér.  Óhreinindin ýttust ofan í það.

  Mér þótti þetta ólystugt og sagði:  "Ég skal passa fyrir þig plássið í röðinni á meðan þú sækir annað flak."

  Það hnussaði í honum:  "Maður hefur látið annað eins ofan í sig án þess að verða meint af.  Maginn á togarajaxlinum er eins og grjótmulningsvél.  Tekur við öllu án þess að slá feilpúst!"  

  Maðurinn náði að troða laxinum á bakkann, leggja plastfilmuna yfir og sagði hróðugur:  "Ég smjörsteiki kvikindið heima.  Bakteríurnar þola ekki hita og drepast!" 

lax 


Frábært ráð gegn matasrsóun

  Fátt er skemmtilegra en hlusta á útvarp.  Enda er eins og útvarpið sé hannað til þess.  Ef maður er iðinn við kolann;  er duglegur við að hlusta á útvarp þá slæðist að hlustandanum margskonar fróðleikur.  Stundum til gagns og gamans.  Oft hvorutveggja.

  Um helgina voru sagðar útvarpsfréttir af matarsóun.  Talin voru upp fjölmörg ráð til að sporna gegn matarsóun.  Til að mynda að fara í matvörubúð með innkaupalista og láta ekki glepjast af tilboðum;  velja smærri pakkningar.  Einnig að sulta mat,  frysta hann og borða afganga.  Helst að lifa bara á afgöngum - skildist mér. 

  Kröftugasta ráðið var:  Að gera við gömul föt.  Ég fatta ekki hvernig það spornar gegn matarsóun.  Enda hef ég ekki lært matreiðslu.   

maturbuxur

  


Maður sem hatar landsbyggðina

  Kunningi minn er um áttrætt.  Hann hefur andúð á landsbyggðinni;  öllu utan höfuðborgarsvæðisins.  Hann er fæddur og uppalinn í miðbæ Reykjavíkur.  Foreldrar hans ráku þar litla matvöruverslun.  Það var hokur. Ungur byrjaði hann að hjálpa til.  Honum þótti það skemmtilegt.  

  Fjölskyldan tók aldrei sumarfrí.  Stráksi stækkaði og tók bílpróf þegar aldurinn leyfði.  1974 var hringvegurinn opnaður.  Yfir því ríkti mikill ævintýraljómi.  Þá keypti hann ódýran bíl og fékk samþykki foreldranna til að taka stutt frí og aka hringinn.

  Hringvegurinn var einbreiður malarvegur,  alsettur holum og "þvottabrettum".  Ökuþórinn fékk hræðslukast af áhyggjum yfir heilsu bílsins.  Auk þess fylltist óþéttur bíllinn af ryki.  Ekki bætti úr skák að framboð á gistirými var lítið en rándýrt.  Sama var með veitingasölu.

  Okkar maður kom hvergi auga á hið rómaða landslag sem hann hafði heyrt af.  Fjöll voru hvert öðru líkt og ekki samkeppnishæf við Esjuna.  Út um allt mátti sjó óspennandi tún, beljur og annað. 

  Á leið frá Skagafirði til Akureyrar hvellsprakk dekk undir bílnum.  Varadekk og önnur dekk voru í bágu ásigkomulagi.  Þetta var um helgi.  Ökuþórinn leitaði uppi eigendur dekkjaverkstæða.  Enginn var til í að opna verkstæði fyrr en á mánudeginum.  Hann sannfærðist um að óliðlegheitin væru vegna þess að hann var utanbæjarmaður. 

  Til að spara pening svaf hann í rykugum bílnum.  Eftir að gert var við dekk hætti hann við við hringferð.  Hann brunaði aftur til Reykjavíkur og sór þess eið að fara aldrei aftur út á land.  Í kjölfar óx andúðin á "sveitavarginum".  Hann liggur ekki á skoðun sinni um að landsbyggðin sé afæta á samfélaginu.  Hann snöggreiðist undir fréttum af fyrirhugaðri gangagerð eða öðrum samgönguúrbótum.

  Eitt sinn var Hagkaupum synjað um innflutning á hollenskum kartöflum.  Kallinn hætti alfarið að borða kartöflur.  Þannig mótmælti hann "ofríki bændamafíunnar".  Síðan borðar hann bara hrísgrjón,  spagettí eða brauð með mat.

  Hann hætti líka að borða mjólkurvörur.  Smyr sitt brauð með smjörlíki og setur útlent mjólkurduft út á kaffið.

reiður      


Rangur misskilningur

  Til margra ára var sjoppulúgan á BSÍ umferðamiðstöðinni fastur áfangastaður á djamminu.  Þegar skemmtistöðum var lokað á nóttunni var notalegt að renna upp að lúgunni og fá sér kjamma með rófustöppu undir svefninn.   Á skemmtistöðunum neytti fólk ekki fastrar fæðu en þeim mun meira af fljótandi vökvum.  Oft áfengum. 

  Á daginn var veitingastaður inni í umferðamiðstöðinni.  Þar var boðið upp á gamaldags heimilismat á ágætu verði.  Líka hamborgara.

  Eitt sinn var ég staddur á veitingastaðnum.  Þangað inn kom par,  á að giska 17-18 ára.  Parið fór skoðunarferð um staðinn.  Svo spurði stelpan:  "Eigum við að fá okkur hamborgara?"  Strákurinn svaraði:  "Við skulum frekar fá okkur hamborgara í bílalúgunni." 

  "Viltu frekar borða út í bíl?" spurði hún undrandi.  

  "Borgararnir eru miklu betri í lúgunni," fullyrti kauði.  

  Stelpan bendi honum á að þetta væru sömu borgararnir.  Strákur þrætti.  Hélt því fram að lúgan væri á allt öðrum stað í húsinu.  Hann gekk út af staðnum en ekki stelpan.  Eftir nokkra stund kom hann aftur inn og spurði afgreiðslumanninn:  "Það eru ekki sömu hamborgarar seldir hér og í lúgunni,  er það?"

  Afgreiðslumaðurinn útskýrði:  "Þetta er sama eldhúsið og sömu hamborgarar."

  Pilturinn horfði undrandi og afsakandi á stelpuna og tautaði:  "Skrýtið.  Mér hefur alltaf þótt borgararnir í lúgunni miklu meira djúsí."

bsí


Dvergur étinn í ógáti

  Þetta gerðist í Norður-Taílandi.  Dvergur var með skemmtiatriði í sirkuss.  Hann sýndi magnaðar listir sínar á trampólíni.  Eitt sinn lenti hann skakkt á trampólíninu úr mikilli hæð.  Hann þeyttist langt út í vatn.  Næsta atriði á dagskrá var að flóðhestur í vatninu átti að kokgleypa melónu sem var kastað til hans úr töluverðri fjarlægð.  Við skvampið frá dvergnum ruglaðist flóðhesturinn í ríminu.  Hann gleypti dverginn undir dynjandi lófaklappi 2000 áhorfenda.  Þeir héldu að þetta væri hápunktur skemmtunarinnar. 

flóðhestur      


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband