11.4.2007 | 00:02
Hrottalegar pyntingar
Það var áhrifaríkt að fylgjast með breskum fjölmiðlum í vikunni. Frétt vikunnar var um hræðilegar pyntingar sem 15 breskir sjóliðar máttu þola í hálfan mánuð í írönskum pyntingabúðum. Þvert yfir forsíðu flestra dagblaða stóð dag eftir dag með risaletri orðið Torture. Frásagnir af pyntingunum teygðu sig yfir margar opnur dagblaðanna dag eftir dag. Mikið var um endurtekningar en nýjar myndir af bresku hetjunum dúkkuðu upp á hverjum degi. Samkvæmt fréttunum voru grófustu pyntingarnar þessar með orðum breskra fjölmiðla:
- Eftir að blóðþyrstir Íranarnir handtóku okkar hugrökku sjóliða voru þeir fluttar í ógeðslegar pyntingabúðir. Þar var bundið fyrir augu bresku hetjanna.
- Í pyntingabúðunum voru bresku hetjurnar látnar standa í röð upp við vegg.
- Okkar hugrökku sjóliðar óttuðust að verða nauðgað og síðan drepnir af illgjörnum glottandi pyntingaböðlum. Sjóliðarnir titruðu og skulfu af hræðslu en hétu sjálfum sér því að láta pyntingameistarana ekki sjá sig gráta.
- Djarfhuga hetjurnar okkar voru látnar taka af sér hermannahúfur og fara úr hermannajökkum. Í staðinn þurftu þeir að vera í borgaralegum írönskum klæðnaði. Eina konan í hópnum fékk höfuðklút. Öll þessi föt voru ljót og klæddu hugrökku sjóliðana illa.
- Allir voru vissir um að blóðþyrstu pyntingaböðlarnir myndu hópnauðga konunni áður en hún yrði tekin af lífi. Þegar hópurinn var tekinn höndum margspurði konan breska liðsforingjann hvort henni verði hópnauðgað. Hann svaraði aldrei spurningunni. Við það varð hún ennþá hræddari vegna þess að hún taldi hann vilja leyna henni þeirri staðreynd.
- Hinni djörfu og hugrökku kvenhetju var meinað að deila klefa með körlunum. Böðlarnir sögðu það stríða gegn írönskum lögum að karlfangar og kvenfangar séu saman í klefa. Við það urðu bæði hún og hinir sjóliðarnir ennþá sannfærðari um að henni yrði hópnauðgað og pyntuð til dauða.
- Um tíma hélt kvenhetjan að búið væri að sleppa hinum sjóliðunum en að hún hefði gleymst. Þá fór hún að gráta. Fékk taugaáfall. Fór að vorkenna dóttir sinni fyrir að eiga eftir að alast upp án móður. Og grét meira og sárara.
- Yngsti sjóliðinn var uppnefndur af írönsku böðlunum Mr. Bean. Hann tók það mjög nærri sér vegna þess að Mr. Bean er ófríður. Af djörfung og miklu hugrekki grét hann ekki fyrir framan pyntingameistarana. Hann grét sig í svefn á kvöldin þegar enginn sá til.
- I 5 daga voru hugrökku sjóliðarnir hafðir aðgreindir í eins manns klefum. það getur enginn nema sá sem reynt hefur áttað sig á því hvað það er rosalega mikið andlegt álag. Þeir fengu allir taugaáfall og grétu sig í svefn.
- Þegar hópurinn fékk að koma saman á ný henti yngsti hugrakki sjóliðinn sér í fang konunnar. Hún grét líka en gerði sitt besta til að hugga hann. Þegar þau hættu að gráta spurði hugrakka konan hvort djarfa hetjan vildi að hún huggaði hann meira. Þá fóru þau bæði aftur að gráta. Bæði fögnuðu að hafa ekki verið nauðgað og vera enn á lífi.
- Maturinn var ógeðslegur. Það var aldrei spælt egg í morgunmat. Bara soðin egg að hætti frumstæðra blóðþyrstra villimanna. Það var aldrei beikon. Aldrei djúpsteiktur fiskur eða franskar kartöflur. Bara kebabb, pítur, kjötsúpur, grillað lambakjöt og dýrafóður (grænmeti).
- Djörfu hugrökku hetjurnar fengu aldrei að gera neitt sér til afþreyingar. Voru bara einangraðar. (Þessi fullyrðing stangast á við myndir úr íranska sjónvarpinu sem sýna sjóliðana spila, tefla, leika borðtennis og spila körfubolta. Bresk hermálayfirvöld hafa bannað sjóliðunum að tjá sig frekar um þetta atriði).
- Jakkaföt sem hugrökku sjóliðarnir fengu frá illgjörnu írönsku pyntingaböðlunum voru grá og ljót. En reyndar með vesti. Þau pössuðu misilla á hetjurnar. Skyrturnar voru lélegar eftirlíkingar af Hugo Boss. Sjóliðunum voru gefnar bækur, geisladiskar, nammi og DVD. Bretar nota annað DVD kerfi en Íranir. Bresku hetjurnar geta þess vegna ekki horft á DVD myndirnar heima hjá sér. En þeir borðuðu nammið.
- Hugdjarfa kvenhetjan fékk dúkku að gjöf frá heimska forseta Írans handa dóttir sinni. Sprengjusérfræðingar breska hersins rannsökuðu dúkkuna. Það var engin sprengja falin í henni. Heimsku blóðþyrstu Íranarnir voru of vitlausir til að fatta að það hefði verið hægt að sprengja barnið í loft upp í leik með dúkkuna.
Hugrakka kvenhetjan og djarfi yngsti sjóliðinn, Mr. Bean, fengu sitthvora 13,5 milljónirnar fyrir að segja bresku götublöðunum sögu sína í samráði við bresk hermálayfirvöld. Útkoman varð þó á þann veg að hermálayfirvöld hafa stöðvað frekari umfjöllun. Frásagnir þeirra tveggja eru taldar hafa skaðað umræðu um meðferð bandaríkjahers á föngum. Ég átta mig ekki á því hvernig það má vera.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.7.2009 kl. 18:10 | Facebook
Athugasemdir
Og fyrir þessa "skelfilegu" frásagnir á fólkið að fá greitt ekki satt? Já margur heldur mig sig. Meiri ranghugmyndirnar sem fólk hefur um múslima og Mið-Austurlönd.
Margrét St. Hafsteinsdóttir (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 00:31
Jú, þegar umfjöllunin um þessa meðferð bresku stríðsfanganna 15 er kölluð pyntingar er það svolítið skammarlegt fyrir Bandarísk stjórnvöld sem héldu 3 breskum borgurum í fangabúðunum á Guantanamo. Þar mátti koma fram við þá eins og hunda því ný skylgreining á pyntingum í Bandaríkjunum, samin af dómsmálaráðherra Bandaríkjanna Alberto Gonzales og samþykkt af fyrrum varnamálaráðherra Donald Rumsfeld, segir illa meðferð á föngum ekki vera pyntingar fyrr en hún hefur í för með sér líffæraskaða eða dauða fangans.
Þetta er allt vel rekið í nýrri heimildarmynd "The Road to Guantanamo"
sjá trailer hér
Jón Þór Ólafsson, 11.4.2007 kl. 01:43
Margrét: Nei, MoD ákvað að breyta fyrri ákvörðun sinni og fá sjóliðarnir ekki leyfi til þess að selja sögurnar sínar.
Ég sé samt ekki alveg hvað er svona fyndið við það að vera haldið í allt að hálfan mánuð og veit ekki hvernig ég hefði höndlað það að vita ekki hvernig þetta myndi allt enda. Ég held að þetta sé án vafa með óþægilegustu lífsreynslu sem nokkur getur lent í. Ekki það, meðferð fanga í Guantanamo er til háborinnar skammar, en ég skil ekki hvernig sú slæma meðferð réttlætir, eða gerir lítið úr, lífreynslu þessarra sjóliða.
Ómar Kjartan Yasin, 11.4.2007 kl. 08:07
Ef til vill vegna þess að þessi svokallaða lífsreynsla er á við góða útilegu á íslenskum fjölllum. Þar var aldrei neitt að óttast. Og hræðslan var vegna þeirra eigin áróðurs. Hræðsla við hræðsluna. Svei því bara. Takk fyrir þennan frábæra pistil Jens Guð. Ég skemmti mér mikið yfir lestrinum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.4.2007 kl. 09:06
Virkilega skemmtileg grein hjá þér, og hún sýnir vel þetta tvöfalda siðferði sem að er í gangi í hjá vestrænum þjóðum. Ég hugsa að flestir fangar í Abu Ghraib dreyma á nóttinni um að fá sömu meðferð og þeir bresku á meðan þeir voru í haldi. Ég hugsa að þessar 2 vikur hafi haft álíka áhrif á mannskapinn einsog einn smugutúr eða svo.
Lokum Abu Ghraib!!!
Kristján B Bragason (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 09:34
Erh... ég held að það sé búið að loka Abu Ghraib...
Engu að síður. Þetta er mjög skemmtileg lesning... ég held að villimennirnir í fangahirðu um þessar mundir sveipi sig hvítum, rauðum og bláum frelsisfánum en ekki grænum einkennislit Íslam.
Grænn... Íslam... Bylting... Voru Spilverk Þjóðanna múslimar? Maður spyr sig...
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 11.4.2007 kl. 10:24
Sé ekki annað út úr þessari ágætu grein, en nú sé og hafi ábyggilega alltaf verið unnið að rógsherferð á hendur Írönum til réttlætingar innrásar. Minnir okkur á hvað gerðist áður en Bandaríkjamenn réðust inn í Írak. Segi bara að lokum. Hvað gætu almennir borgarar í Írak sagt frá mörgum hryllingssögum fyrir blöð í Bandaríkjunum í dag, það tæki ábyggilega marga mánaða pláss í dagblöðum þeirra og ómældar dollara upphæðir.
Þorkell Sigurjónsson, 11.4.2007 kl. 11:27
Getum við ekki farið að tala um okkur sem eitthvað annað en MENNTAÐA ÞJÓð?
Spurning hvað Jón þjóðskólastjóri meinar þegar hann segir að Framsóknarflokkurinn sé gamalgróinn þjóðhyggjuflokkur.
Árni Gunnarsson, 11.4.2007 kl. 11:41
Jaja og myndirnar sem voru syndar af theim hlaegjandi, thau voru natturulega oll ad synast. Voru nefnilega neydd til ad sitja og tjatta og hlaeja saman
Sólrún Þórunn D Guðjónsdóttir, 11.4.2007 kl. 11:56
Þetta er ótrúlegur farsi eins og öll þessi ófrægingarherferð í garð múslima hjá þessari, leyfi ég mér að segja, nautheimsku þjóð Bretum. Nú fór restin af samúð minni til þessara stríðglæpamanna.
Hvað ætli bretar geti sagt um þórsmerkurferðir hér á landi, ef þeir klæða þær í fórnarlambabúning?
Jón Steinar Ragnarsson, 11.4.2007 kl. 12:44
Eitt vandamálið er það að Íranir og Írakar viðurkenna ekki landhelgi hvors annars. Hvor þjóðin fyrir sig hefur ákveðnar meiningar um landhelgi sína og hinnar. Þær skoðanir stangast á. Án þess að ég hafi hugmynd um það þá tel ég líklegt að Bretar viðurkenni túlkun Íraka en ekki Írana á landhelgum þjóðanna. Þess vegna er hugsanlegt að sjóliðarnir hafi samkvæmt sínum skilningi verið fyrir utan íranska landhelgi en samkvæmt skilningi Írana verið innan hennar.
Það er rétt hjá SKH að handtaka bresku sjóliðanna var ekki partur af breskum áróðri. Reyndar eru breskir fjölmiðlar miður sín yfir því að hvað Íranir gjörsigruðu í áróðursstríðinu varðandi þetta mál. Stýrðu atburðarásinni frá A - Ö. Og kvittuðu með því að vera góði kallinn sem var allur af vilja gerður að leysa deiluna og gáfu að lokum bresku þjóðinni sjóliðana í páskagjöf!
Jens Guð, 11.4.2007 kl. 13:17
Á að vorkenna þessu bretum eitthvað? Voru þeir ekki bara í vinnunni sem er áhættusöm en vel borguð. Svo fengu þeir bónus þegar þeir máttu segja frá hvað það var farið vel með þá. Privat fangaklefar í staðinn fyrir að þurfa að dúrsa saman allir í knapp.
Nei þetta var ljóta áróðursstríðið sem átti að miða að því að það væri í lagi að bomba Íran. Það er ekki skrítið að menn skuli vara farnir að gera grín að þessu og að betra sé að bomba litla Ísland í staðinn. Það er miklu auðveldara og ódýrara.
klakinn (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 17:04
Heyrðu bróðir....ég þarf nauðsynlega að ná í þig út af teikniverkefni fyrir efnilega og nokkuð þekkta hljómsveit. Finnst það höfða frekar til þín þetta sem ég er beðinn um að kíkja á. Sendu línu á joncinema@gmail.com
Jón Steinar Ragnarsson, 11.4.2007 kl. 19:25
Velkomin heim kappi.
Sigfús Sigurþórsson., 11.4.2007 kl. 21:53
Takk fyrir það. Ég er að velta fyrir mér hvort ég eigi að fara til Rússlands eða Kanada um hvítasunnuna.
Jens Guð, 11.4.2007 kl. 21:57
Sigfús Sigurþórsson., 11.4.2007 kl. 22:19
Bara gott að viðra sig af og til í útlöndum. Frídagar eru heppilegir til þess.
Jens Guð, 12.4.2007 kl. 01:05
Eitthvað hefur heyrst um að gjafir Akmadínidjads til sjóliðanna fræknu hafi verið komnar í sölu á íbei. Þannig að þrátt fyrir peningana frá the Sun, eru þeir enn of blánkir, að eigin áliti. Þetta er nú ekki gott afspurnar fyrir Brezka heimsveldið. Tímabært að leggja niður þennan Royal army búðing og senda mannskapinn frekar í æfingabúðir í krikket.
Kveðja-
TH
http://www.gitarskoli.com/tryggvi/blogg/
Tryggvi Huebner (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 03:10
Mann fer að gruna að laun breskra sjóliða séu skorin við nögl. Þeir harka á öllum stöðum, greyin, og hafa allar klær úti til að ná sér í aukapening.
Jens Guð, 17.4.2007 kl. 20:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.