Hvernig getum við blóðmjólkað ferðamenn?

  Fyrir örfáum árum aflaði sjávarútvegurinn lungann af gjaldeyristekjum Íslands. Erlendir ferðamenn voru sjaldgæf sjón.  Nema yfir hásumarið.  Þá brá nokkrum bakpokaferðalöngum fyrir sjónir.  Þeir tjölduðu uppi á öræfum og létu lítið fyrir sér fara.  

  Nú er öldin önnur.  Á þessu ári koma 2,3 milljónir ferðamanna til Íslands.  7 sinnum fleiri en íbúar landsins.  Þeir koma með alla vasa fulla af gjaldeyri.  Dreifa honum út um allt land, eins og þegar fræjum er sáð í mold.  Til samans skilja þeir eftir í landinu 560 þúsund milljónir (næstum 7 milljónir á hverja 4ra manna fjölskyldu).  Þetta er næstum því helmingur af öllum gjaldeyristekjum þjóðarbúsins.  Til samanburðar er sjávarútvegurinn lítilfjörleg tómstundariðja.

  Einhverjum gæti dottið í hug að þessar gríðarmiklu nýju gjaldeyristekjur af túrisma - hreinar og klárar viðbótartekjur - gæfu svigrúm til að lækka allskonar skatta,  álögur,  tolla og gjöld á íslenska þegna.  Nýja gjaldeyrisgullnáman gæti niðurgreitt allt svoleiðis um helming.  Allir Íslendingar fengju ókeypis gleraugu og heyrnartæki.  Nei,  slíkt hvarflar ekki að neinum.  Þess í stað keppast landsmenn jafnt sem stjórnmálamenn við að stinga upp á nýjum álögum,  sköttum,  tollum og gjöldum:  Komugjöldum,  vegatollum,  gistináttagjöldum,  reisupössum,  klósettsköttum,  útsýnisgjöldum,  tryggingagjöldum,  flugmiðasköttum,  náttúrupössum og allskonar.

  Keppnin gengur út á að finna sem flestar leiðir til að blóðmjólka ferðamenn - og Íslendinga í leiðinni.  Hugmyndin er sú að ferðamaðurinn muni glaður í bragði borga sömu krónuna aftur og aftur við hvert fótmál.  Eftir því sem hann borgar fleiri gjöld þeim mun dýpra fer hann í vasa sinn og dregur upp sömu krónuna í hvert sinn.  

  Annar ávinningur verður sá að í atvinnuleysiskorti landsins hefjist stórfelldur innflutningur á útlendingum til að rukka fyrir okkur alla sem nálægt landinu koma.  Allt umhverfis höfuðborgarsvæðið verði reistar margar risastórar og gulli slegnar tollheimtustöðvar.  Líka við alla helstu ferðamannastaði landsins.  Prentsmiðjur framleiði dag og nótt glæsilega passa og skírteini af öllu tagi.  Út um allar grundir hlaupi eftirlitsmenn og gæti að því að ferðamenn laumist ekki til að horfa ókeypis á landið.

     


mbl.is Ferðast 334 km til að þrífa kamra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Svo væri hægt að setja á "samfaraskatt" ef ferðamenn gerast svo grófir að ætla að "gera það" á Íslandi.

Sigurður I B Guðmundsson, 9.3.2017 kl. 12:30

2 identicon

Sá nýlega myndir af fyrstu Íslandsferð tveggja ungra Hollendinga sl. sumar. Þar voru m.a. margar myndir af Íslenskum klósettum.

Þeir höfðu heyrt hryllings sögur af kósett aðstöðunni á Íslandi og voru vel undirbúnir með klósettpappír og plastpoka í bakpokanum.

Sem betur fer sögðu þeir aðstöðuna vonum framar og kamar útsýnið yfirleitt á heimsmælikvarða.

Agla (IP-tala skráð) 9.3.2017 kl. 13:35

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ekki skortir hugmyndaflugið hjá ráðamönnum og ferðaþjónustunni við að finna út álögur, ætli græðgin verði þeim ekki að falli.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.3.2017 kl. 13:42

4 identicon

Það er fullyrt við mig af fólki sem hefur starfað í ferðamannabransanum hér, að hvergi sé meira um skattaundanskot en einmitt í þeim bransa. Þar ræður hin sér íslenska græðgisvæðing ríkjum. Græða nógu mikið á sem skemmstum tíma áður en næsta hrun verður. Svína sem allra mest á túristum og allt og öllu. Vegasjoppur á Íslandi hljóta að vera þær allra dýrustu í heimi með sína ómerkilegu hamborgara og sósugums. Er svo ekki þessi bransi að fara fram á gengisfellingu ?

Stefán (IP-tala skráð) 9.3.2017 kl. 16:11

5 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B, góð hugmynd!

Jens Guð, 9.3.2017 kl. 18:07

6 Smámynd: Jens Guð

Agla,  þar sem klósett eru á annað borð hérlendis er sjaldan ástæða til að kvarta undan þeim.  Vandamálið er að víða á og við vinsæla ferðamannastaði eru engin klósett.  

Jens Guð, 9.3.2017 kl. 18:12

7 Smámynd: Jens Guð

Ásthildur Cesil,  ég óttast að græðgin verði þeim og íslensku þjóðinni að falli.  Alveg eins og bankahrunið.

Jens Guð, 9.3.2017 kl. 18:15

8 Smámynd: Jens Guð

Stefán, íslensku vegasjoppurnar eru þær dýrustu í heimi.  Ég held að þær séu ánægðar með stöðu gengisins.  Það eru kvótakóngarnir sem vilja fella gengið.  

Jens Guð, 9.3.2017 kl. 18:25

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já stundum finnst mér landar mínir vera eins og börn í nammibúð. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.3.2017 kl. 00:07

10 identicon

Það vr einmitt ágæt grein eftir Frosta Logason á baksíðu Fréttablaðsins í gær ,, Ruglið á undan hruninu ". ,, Ísland er dýrasta land í heimi ". Þetta gullgrafaraæði hlýtur að enda með nýju hruni, það bara segir sig sjálft. Það er hinsvegar viðkvæmt og nánast bannað að tala um það rétt eins og var 2007 þegar eldrauð viðvörunarljós loguðu út um allt, en spilltir bankamenn, gráðugir fasteignasalar og aðrir úlfar í sauðagærum heilaþvoðu sauðsvartan almúgann jafnóðum rétt eins og nú. Ég heyrði ykkur Pétur Gunnlaugs eiga gott spjall um þetta á Útvarpi Sögu, Jens. Þar nefnduð þið t.d. allt okrið í kring um Bláa Lónið og það sem ég ekki vissi, að þar þurfi eigendur ekki að borga VSK, ekki frekar en Kynnisferðir sem þið nefnduð einnig. Í svona gullgrafaraæði blómstrar spilling best. 

Stefán (IP-tala skráð) 10.3.2017 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband