Færsluflokkur: Tónlist

Bestu hljómsveitirnar

  Allir -  eða allflestir - kunna vel að meta músík af einhverju tagi.  Svo eru það þeir sem hafa ástríðu fyrir músík.  Á ensku eru þeir kallaðir music lovers og eru á bilinu 3 - 5% fólks.  Tilvera þeirra snýst að stórum hluta um músík.  Þeir láta sér ekki nægja að hlusta á músík heldur fræða þeir sig um músík.  Skoða og skilgreina.

  Á dögunum tók einn sig til og stúderaði alla marktæka lista sem hann fann yfir bestu hljómsveitir bresku dægurlagasögunnar.  Listana lagði hann saman og reiknaði út einn sameiganlegan heildarlista.  Listarnir voru reyndar að mestu samstæðir.  Einkum efstu sætin.  Þau eru þessi:

1  Bítlarnir

2  Rolling Stones

3  Led Zeppelin

4  Pink Floyd

5  Clash

6  Who

7  Queen

8  Kinks

9  Black Sabbath

10 Smiths

11 Radiohead

12 Cure

13 Oasis

14 Sex Pistols

15 Genesis


Stórmerkilegur launalisti

Woodstock_poster 

  1969 var haldin merkasta hljómleikahátíð sögunnar.  Hún fór fram í Woodstock í New York ríki.  Yfirskriftin var "3ja daga friður og tónlist".  Þegar á reyndi teygðist dagskráin yfir fjóra daga. 

  Í upphafi var áætlað að hátíðin gæti laðað 15 þúsund manns að.  Er nær dró var ljóst að töluvert fleiri kæmu.  Aðstaða var þá bætt og gerð fyrir 25 þúsund gesti.

  Svæðið og næstu sveitabæir hurfu í mannhafi.  Hátt í hálf milljón mætti (á milli 470 - 480).  Allt fór í klessu:  hreinlætisaðstaða,  matur og drykkir...  Rigning og troðningurinn breyttu jarðvegi í drullusvað. 

  Eitt af mörgu sem gerði hátíðina merkilega er að allt fór friðsamlega fram.  Engar nauðganir eða annað ofbeldi.  Enginn drepinn. 

  Forvitnilegt er að skoða í dag hverjar voru launakröfur tónlistarfólksins:

Jimi Hendrix:  18 þúsund dollarar (7 milljón ísl kr. á núvirði).

Blood, Sweat & Tears15.000 dollarar.

Creedence Clearwater Revival og Joan Baez:  10.000 dollarar hvor.  

Janis Joplin,  Jefferson Airplane og The Band7500 dollarar hver.

The Who, Richie Havens,  Canned Heat og Sly & The Family Stone7000 dollarar hver.    

Arlo Guthrie og Crosby, Stills,  Nash & Young 5000 dollarar hvor.

Ravi Shankar:  4500 dollarar. 

Johnny Winter:  3750 dollarar.

Ten Years After:  3250 dollarar.

Country Joe and the Fish og The Grateful Dead:  2500 dollarar hvor. 

Incredible String Band:  2250 dollarar. 

Tim Hardin og Mountain:  2000 dollarar hvor. 

Joe Cocker:  1375 dollarar.    

Sweetwater:  1250 dollarar.

John Sebastian:  1000 dollarar.

Melanie og Santana:  750 dollarar hvor

Sha Na Na:  700 dollarar.

Keef Hartley:  500 dollarar.

Quill:  375 dollarar.


Gullmolar

  Sagan segir að lagið Good Vibration hafi verið samið í sýrutrippi. Hið rétta er að ég samdi það í hassvímu! (Brian Wilson,  Beach Boys)

  Ég var eina manneskjan á Woodstock sem var ekki á sýrutrippi (Joe Cocker.  Hann var "bara" blindfullur). 

  Ég dópaði aldrei.  Djússaði bara.  Mér gast ekki að hugmyndinni að vera stöðugt í slagtogi með lögreglunni! (Robert Wyatt)

  Það skemmtilega við elliglöp er að maður rekst stöðugt á nýtt áhugavert fólk! (Paul McCartney) 

  Einhver líkti því við kynmök við górillu að prófa dóp.  Þú sleppur ekki fyrr en górillan ákveður það! (Peter Tork,  Monkees)

  Ef þú ert svalur þá veistu ekki af því! (Keith Richards)

  Keith gerir út á vorkunn.  Hann reddar sér oft fyrir horn með því að segjast vera heilaskaddaður! (Ronnie Wood,  Rolling Stones)

  Led Zeppelin keppti ekki við neina.  Við vorum besta hljómsveitin.  Enginn gat keppt við okkur! (Robert Plant).

  Lagasmíðar verða að vera mitt lifibrauð.  Ég kann ekkert annað! (Ray Davis,  Kinks)

  Ég verð að vera bjartsýnn.  Annars yrði ég að semja píkupopp og græða sand af seðlum! (Steve Earle).

  Ef þú verður að setja mig í bás þá er uppáhaldsbásinn minn ásatrú. (Neil Young)

  Í 4000 ár hafa skipulögð trúarbrögð reynt að fela þá staðreynd að tunglmánuðirnir eru 13.  Þau reyna að fela töluna 13 af því þau vilja ekki að náttúran sé samkvæm sjálfri sér. (Björk) 

 björk 


Bítlasynir taka höndum saman

  Það hefur ýmsa kosti að eiga fræga og dáða foreldra.  Því miður hefur það einnig ókosti.  Meðal kosta er að börnin eiga greiðan aðgang að fjölmiðum.  Kastljósið er á þeim.  Af ókostum má nefna að barnið verður alltaf borið saman við það allra besta sem eftir foreldra liggur.  Þetta hafa synir Bítlanna sannreynt.  

  Til samans hafa synirnir spilað og sungið inn á um tvo tugi platna.  Þær standast ekki samanburð við Bítlana.  Og þó.  Sonur Ringos,  Zak,  er virkilega góður trommari.  Hann hefur meðal annars spilað með Oasis og Who.  

  Nú feta Sean Lennon og James McCartney nýja leið.  James hefur sent frá sér lag, "Primrose Hill", sem hann samdi og flytur með Sean.  Lagið er Bítla-Lennon-legt.  Það hefði verið boðlegt sem B-hlið á Bítlasmáskífu en varla ratað inn á stóra Bítlaplötu.  Því síður toppað vinsældalista. Hinsvegar hefði sterk laglína og flottur texti hjálpað.   

  


Ánægjuleg kvikmynd

  -  Titill:  BOB MARLEY: One Love

  -  Einkunn:  **** (af 5)

  Bob Marley ólst upp í mikilli fátækt á Jamaica.  Hann vann sig upp í að verða skærasta,  stærsta og í raun eina ofurtónlistarstjarna þriðja heimsins.  Súperstjarna ofarlega á lista yfir merkustu tónlistarmenn sögunnar. Kvikmynd um 36 ára ævi hans var fyrir löngu tímabær.

  Kvikmyndin stendur undir væntingum.  Í og með vegna þess að músíkin er yndisleg.  Hljóðheimur (sánd) Kringlubíós er frábær.  Sérlega skilar hann bassagítar flottum.

  Einstaka sena er allt að því full róleg.  Þannig er það með myndir sem byggja á raunverulegum söguþræði.  Enski leikarinn Kingslay Deb-Adir túlkar Marley.  Hann er ágætur.  Honum tekst þó ekki fullkomlega að fanga sjarma Bobs.  Það er ómöguleiki.     

  Blessunarlega upphefur myndin Bob ekki sem breyska guðlega veru.  Né heldur ofhleður hana með rasta-trúarbrögðum hans.  Sem samt voru stór þáttur í lífi hans.  

  Margt má segja um myndina gott og misgott.  Eftir stendur að ág mæli með henni sem skrepp í kvikmyndahús og upplifa "feel good").

marley     

 


Illvíg ófærð

  Í vikunni bar til tíðinda að í Færeyjum spólaði bíll í snjó.  Hann var fastur.  Undir stýri var ung kona á leið frá Vestmanna til höfuðborgarinnar,  Þórshafnar.  Henni var komið til hjálpar og fylgt til Þórshafnar.  Engan sakaði. 

  https://www.in.fo/news-detail/kvinna-koyrdi-seg-fasta-oman-fyri-kvivik

 


Frábær bók

 - Titill:  Born to Run - Sjálfsævisaga

 - Höfundur:  Bruce Springsteen

 - Þýðandi:  Magnús Þór Hafsteinsson

 - Útgefandi:  Ugla

 - Einkunn:  *****

  Bandaríski tónlistarmaðurinn Bruce Springsteen er einn af þeim stærstu í rokksögunni.  Hann hefur selt 150 milljónir platna;  margsinnis toppað vinsældalista um allan heim;  hlotið fjölda verðlauna.  Þar af 20 Grammy.  Um hann hafa verið skrifaðir tugir bóka.  Þessi sem hér um ræðir hefur þá sérstöðu að vera sjálfsævisaga hans.

  Bruce ólst upp við fátækt og basl í New Jersey.  Til að mynda var ekki heitt vatn á æskuheimili hans.  Pabbinn var alki sem hélst illa í vinnu.   

  Bruce er maður orðsins.  Söngtextar hans eru með þeim bestu í dægurlagaheimi.  Hann er pennafær.  Skrifar beinskeyttan auðlæsan texta og stutt í ljóðrænan blæ.  Yrkisefnið er jafnan örlög alþýðufólks.  Þar á meðal jafnaldrana sem hann ólst upp með.  

  Alþýðurokkarinn reynir hvergi að fegra sig.  Hann er hreinn og beinn.  Kann best við sig í gallabuxum og vinnuskyrtu.  En á það líka til að klæðast fínum fötum og aka um á dýrum bílum.  Hann hefur átt sína táradali jafnt sem hamingjustundir.  Vegna þess hvað hann geislar af gleði á hljómleikum vakti undrun er hann fór að tjá sig um þunglyndi fyrir nokkrum árum.  Þeim hremmingum gerir hann góð skil.   

  Lesandinn þarf ekki að þekkja tónlist Brúsa til að njóta bókarinnar.  Fyrir aðdáendur er hún gullnáma,   hnausþykk,  670 þéttskrifaðar blaðsíður með litlu letri.  Það tók mig nokkra daga að lesa hana.  Þeim var vel varið.  Jólagjöfin í ár!

  Þýðing Magnúsar Þórs Hafsteinssonar er vönduð og góð.

bruce


Jólagjöfin í ár!

  Út er komin meiriháttar svakaleg bók,  Born to Run - Sjálfsævisaga.  Í henni segir rokkgoðsögnin Bruce Springsteen sögu sína og hljómsveitarinnar E Street Band.  Ég er kominn með bókina í hendur og byrjaður að lesa.  Það er ekkert áhlaupaverk.  Hún er hnausþykkur doðrantur,  hátt í 700 blaðsíður.  Þær eru þétt skrifaðar með frekar smáu letri.  Þýðandi er Magnús Þór Hafsteinsson,  þekktur fyrir góðar og vandaðar þýðingar.

  Ég sé í hendi mér að bókin er ekki lesin á einu kvöldi.  Þetta er margra daga lestur;  margra daga skemmtun.  Ég geri betur grein fyrir henni að lestri loknum. 

bruce

 


Fallegt fólk sem kýs að vera ljótt

  Fólki er ekki sjálfrátt.  Hjarðeðli er manneskjunni tamt.  Gott dæmi er "Bítlahárið" á sjöunda áratugnum.  Einn í hljómsveitinni Bítlunum tók upp á því að greiða hárið niður á enni.  Fljótlega tóku hinir Bítlarnir einnig upp á því.  Jafnframt leyfðu þeir hárinu að vaxa yfir eyrun.  Svo sló hljómsveitin í gegn.  Út um allan heim hermdu ungir menn eftir hárgreiðslu Bítlanna.

  Margir eiga erfitt með að vera fallegri en fólkið í kringum það.  Algengustu viðbrögð eru að leita á náðir lýtalækna.  Helst ófaglærðra.  Þá er fylliefninu botox sprautað í varir,  kinnar og víðar.  Sumir fylla í með steypu eða öðru sem hendi er næst.  Algengt er að farið sé varlega af stað.  Síðan verður þetta árátta,  einskonar kækur.

  Myndirnar sýna fyrir og eftir lýti.  

lýti alýti blýti clýti dlýti elýti kattakonanlýti mj


Furðuvísa

  Í kjölfar Hamraborgarhátíðar,  Menningarnætur Reykjavíkur og Danskra daga í Stykkishólmi rann á mig ósjálfráð skáldagyðja.  Áður en ég vissi af hrökk upp úr mér furðuleg vísa.  Ég botna hvorki upp né niður í henni.  Inn í bullið blandaðist óvænt nafn á 56 ára Bítlalagi af plötunni "Sgt. Peppers...".  Ég kannast ekki við bragfræðina.  Kannski er hún útlend.  Fyrsta orð í annarri línu í báðum hendingum er það sama.  Líka fyrsta orð í þriðju línu.   

  Málhaltir hundar sátu á grindverki.

Þeir sleiktu í sig sólskinið af frímerki.

  Forstjórinn stóð þar hjá og glotti við fót.

Hann heimtaði að fá að fara á þorrablót

í maí

eins og Lucy in the Sky.

 

  Hundarnir þorðu ekki að segja neitt.  

Þeir fóru út í hött eins og yfirleitt.

  Forstjórinn vissi vel að hann fengi sitt.

Jafnvel þó hann þyrfti að gera hitt

í maí

eins og Lucy in the Sky.  

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband