Rýnt í niðurstöður skoðanakönnunar um bestu/merkustu hljómsveitina

  Ég minnist þess ekki að hafa áður orðið var við skoðanakönnun um merkustu/bestu hljómsveitir íslensku rokksögunnar.  Þess vegna þótti mér þetta forvitnilegt og spennandi.  Nokkra undrun vakti mér hvað niðurstaðan kom snemma í ljós.  Þegar rétt um 50 atkvæði höfðu verið greidd var röðin orðin sú sama og endanlega útkoman. 

  Niðurstaðan er ekki beinlínis óvænt fyrir mig.  Við forvinnslu á því hvaða nöfnum ég ætti að stilla upp fékk ég sterka tilfinningu fyrir því hvernig leikar myndu fara.

1.  Trúbrot

  Sumarið 1969 sameinuðust tvær vinsælustu og bestu íslensku hljómsveitirnar,  Hljómar og Flowers, í súpergrúppuna Trúbrot.  Sameiningin virkaði eins og ferskur gustur inn í hipparokkið.  Þeir liðsmenn Hljóma og Flowers sem ekki fengu að vera með í Trúbroti stofnuðu nýjar hljómsveitir,  Ævintýri og Tilveru.  Þær hljómsveitir hirtu til sín hljóðfæraleikara úr öðrum hljómsveitum.  Þannig urðu ruðningsáhrifin töluverð.  Uppstokkun sem var nauðsynleg og skapaði ferskari strauma.  Kapp hljóp í marga við að halda í samanburð við Trúbrot,  ef ekki í gæðum þá í vinsældum. 

  Ég spáði Trúbroti sigri og lýsti yfir vantrú á möguleikum Utangarðsmanna að slá súpergrúppunni við.

2.  Utangarðsmenn

  Það sem kom mér mest á óvart við niðurstöðuna er hvað Utangarðsmenn komast nálægt Trúbroti í atkvæðafjölda.  Miklu munar á þessum hljómsveitum hvað færni í hljóðfæraleik varðar.  En Utangarðsmenn bættu allt sem upp á vantaði með gífurlegri keyrslu.  Áhrif Utangarðsmanna urðu meiri á rokkmarkaðinn en tilurð Trúbrots.  Utangarðsmenn einfaldlega stokkuðu rækilega upp í stöðnuðu tónlistarlífi 1980 og þyrluðu upp öflugri sprengju nýbylgju og pönks.

  Plötur Utangarðsmanna náðu því miður aldrei að fanga þann sprengikraft sem var í hljómsveitinni á sviði. 

3.  Sigur Rós

  Annað hvort falla menn kylliflatir fyrir tónlist Sigur Rósar eða þá skilja ekki upp né niður í vinsældum þessarar sérstæðu sveitar.  Þeir sem "ná" tónlist Sigur Rósar komast í sérstakan vellíðunartrans við að hlusta á hana.  Þar fyrir utan er metnaður og sjálfstæði Sigur Rósar aðdáunarverð.  ´Hljómsveitin skartar íslensku nafni,  syngur á íslensku og selur milljónir af plötum út um allan heim. 

4.  Sykurmolarnir

  Ég átti von á sterkari stöðu Sykurmolanna.  Reyndar vissi ég að fyrstu 3 sætin væru bókuð á Trúbrot,  Utangarðsmenn og Sigur Rós.  En ég hélt að bilið á milli Sigur Rósar og Sykurmolanna yrði minna.

5.  Gyllinæð

  Hér eru skekkjumörk.  Í mínum kunningjahópi er Gyllinæð í hlutfallslega meira uppáhaldi en hjá fólki úti í bæ.  Hlutfallslega fleiri úr mínum kunningjahópi en ókunnugir úti í bæ lesa bloggið mitt.  Þar fyrir utan er ég með þetta fína lag,  Djöflakallinn,  með Gyllinæð í tónspilaranum mínum fyrir ofan skoðanakönnunina. 

6.  Þeyr

  Besta hljómsveitin í Rokki í Reykjavík - þó að Sjálfsfróun hafi stolið senunni.  Sjálfsfróun var æðislega flott hljómsveit.  En á öðrum forsendum.  Þeyr hafði alla burði til að ná út fyrir íslenska markaðinn.  Það var þannig ára yfir hljómsveitinni.

7.  Ham

  Uppáhaldshljómsveit Bjarkar.  Það segir sitthvað.  Ímynd hljómsveitarinnar vex jafnt og þétt með árunum.

8.  Mínus

  Fyrst þegar ég heyrði í Mínusi,  1998,  trúði ég því varla að íslensk hljómsveit gæti verið svona hörð og kröftug.  Ég hef verið harðlínuaðdáandi síðan.  Ekki skemmdi fyrir að mér var send kveðja á umslagi plötunnar Hey Johnny

  Eftir öruggan sigur í Músíktilraunum ´99 leiddi Mínus harðkjarnasenuna með stæl.  Hróður Mínusar hefur borist til Bandaríkjanna og Bretlands.  Éinkum hafa bresku þungarokksblöðin verið dugleg að skrifa um Mínus.  Mér skilst að plötur Mínusar seljist í um 30 þúsund eintökum erlendis.    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

 Sigurrós og sykurmolar,sungu Mínus, Ham og Þeyr,Gyllinæð og graðir folar,Garðsutan og Trúbrot heyr!

Vilborg Traustadóttir, 2.7.2007 kl. 22:02

2 Smámynd: Jens Guð

Hehehe! Mér varð á að hlægja.    Flott að redda stuðlasetningunni með Garðsutan.  Bráðfyndið. 

Jens Guð, 2.7.2007 kl. 22:41

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Tilnefningar innantómar

Trúbrot vermir hásætið.

Engir Hjálmar engir Hljómar.

heldur ekki Egóið.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.7.2007 kl. 23:13

4 Smámynd: Jens Guð

  Ég stóð þannig að tilnefningum að eftir að hafa fengið tilnefnd 30 nöfn þá hófst niðurskurður.  Ég vildi lágmarka fjölda nafna.  Helst vildi ég hafa þau bara 4 (Trúbrot,  Utangarðsmenn,  Sigur Rós og Sykrumolar).  En vegna þrýstings lét ég undan og hafði þau 8. 

  Í niðurskurði á nöfnum spurði ég meðal annars:  Hvort telur þú Trúbrot eða Hljóma hafa verið merkustu bestu hljómsveit rokksögunnar?   Eða Utangarðsmenn eða Egó?

  Svörin voru afgerandi varðandi að menn töldu Trúbrot og Utangarðsmenn koma frekar til greina en hinar tvær hljómsveitirnar.

  Eins og ég hef persónulega gaman af Hjálmum þá kom hún aldrei til greina sem besta/merkasta hljómsveit rokksögunnar.  Frábærlega skemmtileg hljómsveit í alla staði.  Ég hef meira að segja elt Hjálma á hljómleika í útlöndum.  En ég verð að vera raunhæfur með það að í köldu mati á hún ekki möguleika á að teljast í hóp 4ra bestu/merkustu hljómsveita rokksögunnar.   

Jens Guð, 2.7.2007 kl. 23:33

5 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Jens, þá er tilganginum náð hjá mér.  Mér finnst gaman að koma fólki til að hlæja!!!

Vilborg Traustadóttir, 3.7.2007 kl. 20:34

6 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Já Hljómar.......... 74 platan er náttúrulega snilld sem var föst á fóninum hjá mér . En dugar kannski ekki. Lifun var fyrsta heavy verkið sem ég reyndi að meðtaka 13 ára gamall þá hlustandi á Uriah Heep, Deep Purple, Zeppelin ofl. Lifun var of þung....

Ævar Rafn Kjartansson, 4.7.2007 kl. 01:51

7 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

svo má ekki gleyma tvöfalda bítinu..... sem ég hef ekki enn fengið útskýringu á.

Ævar Rafn Kjartansson, 4.7.2007 kl. 01:53

8 Smámynd: Jens Guð

  Nafnið útskýrir fyrirbærið:  Tvöfaldur taktur sleginn í stað eins á bassatrommu og sneril.  Það er að segja innan þeirra tímamarka sem hefðbundinn taktur er sleginn.  Þetta er kúnst og ekki á allra færi.  Síst af öllu í hröðum rokklögum. 

Jens Guð, 4.7.2007 kl. 02:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.