10 mest óþolandi dægurlögin

  Hér er listi yfir þau 10 dægurlög sem pirra fólk mest.  Listinn er unninn af blaðamönnum bandaríska tímaritsins Rolling Stone,  með aðstoð 400 lesenda.  Blessunarlega hefur þetta fólk ekki heyrt lag Eyjólfs Kristjánssonar um Nínu - fyrst að það er ekki á listanum.  Gaman væri heyra hvaða íslensk lög þið eigið erfiðast með að þola.

 1.  Black Eyed Peas, “My Humps”
2.   Los Del Rio,         “Macarena”
3.   Baha Men,           “Who Let The Dogs Out”
4.   Celine Dion,        “My Heart Will Go On”
5.   Nickelback,          “Photograph”
6.   Lou Bega,           “Mambo No. 5″
7.   James Blunt,       “You’re Beautiful”
8.   Spice Girls,          “Wannabe”
9.   Sisqo,                 “The Thong Song”
10. Cher,                  “Believe”


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Sammála þessum lista. Man ekki eftir neinum íslenskum lögum í augnablikinu ... en þó hef ég stundum lækkað í útvarpi eða slökkt á því, þá er bara að muna hvaða lög það eru. Hugs, hugs. Kem síðar. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 14.7.2007 kl. 17:01

2 Smámynd: Ragnheiður

ekki alveg sammála listanum en þoli alls ekki hina íslensku Nínu. Þá slekk ég strax

Ragnheiður , 14.7.2007 kl. 17:21

3 identicon

Black Eyed Peas, “My Humps”
Los Del Rio, “Macarena”
Baha Men, “Who Let The Dogs Out”
Lou Bega, “Mambo No. 5?
Sisqo, “The Thong Song”

Sammála með þessa titla, hin eiga ekki að vera þarna. 

Geir Jónsson (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 18:43

4 identicon

Tvö íslensk lög hef ég aldrei þolað, alveg frá því ég var barn (veit reyndar ekki hvort þau eru eftir íslenska höfunda), nebblega Angelía og Kvæðið um litlu Gunnu og litla Jón. Skítamórall og fleiri svipuð frouðbönd síðari tíma skora líka hátt hjá mér. Og júróvisjónlagið Nei eða já. Og flest allt með Geirmundi.

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 18:45

5 identicon

Ég er svo sannarlega sammála. Öll lögin á þessum lista alveg skelfileg í mínum eyrum!

Ragga (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 18:50

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta eru svo "pirrandi"lög að ég verð útfjólublár þegar ég heyri þau og svo er það Íslenska, en ég man ekki eftir neinu eins voðalegu og "3 - svar í viku" með Bítlavinafélaginu og svei mér þá ef Bítlavinafélagið á ekki einhver fleiri lög, man það ekki í augnablikinu.

Jóhann Elíasson, 14.7.2007 kl. 19:53

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta er svona playlisti fyrir Guantaqnammo og Abu Gahrib.  Fékk hroll bara við að lesa þetta.  Það væri gaman að taka saman lista íslenskra laga.  Þau eru mörg hver hrollvekjandi, sérstaklega nýrra blöðrupopp.  Og textarnir...er ekki hægt að nálgast texta íslenskra dægurlaga samtímans?  Það yrði efni í nokkur blogg...versti texti ever samkeppni.  Vara hlusta á einn í bílnum..."Ekki gera neitt því enginn getur engu breytt og allir fíla þaaað..."  Eitthvað í þessa veru.  'Eg fékk nettan nábít.

Algengustu rímorðin eru þér, hér, mér, sér, hver. Það þarf að hringja á lögregluna og láta stoppa þetta.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.7.2007 kl. 20:39

8 identicon

Ágætur og um leið fágætur drasllisti -  og á allt heima í þessari deild úrgangsins.

En af því að fólk hefur verið að tiltaka íslensk lög sem vekja hjá því hroll vil ég endilega nefna í því sambandi "Sagan af Nínu og Geira" en það er eitthvað það voðalegasta sem til er. Þá verð ég að segja að Mugison fer nú nett með að drepa mig - líklega eitt ofmetnasta fyrirbrigði í íslenskri tónlistarsögu hingað til.

GuðmundurB (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 21:22

9 identicon

Þetta lagast allt fyrir westan þegar Westfirðingarnir eru byrjaðir að hreinsa hver annan með olíu í olíuhreinsunarstöðinni:

Lúsí fær alltaf líu o
í líuhreinsunarstöðinni o,
á willtu Westfjörðunum sko,´
mig wotlendi hennar langar að þvo!

Þvo sko þvo! Wotlendi hennar að þvo! Yeah!

Westfirskur hreinsikall (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 22:54

10 Smámynd: Árni Gunnar Ásgeirsson

Flug XXX (man ekki númerið) með Landi og sonum hlýtur að eiga þarna. Að ríma níu og sextíuogníu gefur þeim frípassa á listann. Þá finnst mér undarlegt að enginn hafi nefnt Helgu Möller ennþá. Villi og Lúlla!!!

Árni Gunnar Ásgeirsson, 14.7.2007 kl. 23:57

11 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Freight train sem er ofspilað á Rás 2  þessa daga finnst mér ekki gott og sama má segja um vondar b útgáfur af gömlum Íslenskum dægurflugum eins og  Á móti Sól hafa verið að gera og Sixties.

Einar Bragi Bragason., 15.7.2007 kl. 00:08

12 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

En sama hvað þið tautið og raulið  Nína er gott lag þó að það hafi vissulega verið ofspilað.

Einar Bragi Bragason., 15.7.2007 kl. 00:12

13 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Aaargh... get ekki spilað þessi lög og litla baunin sem ég er með í stað heila í dag kveikir á nöfnunum á öllum lögunum. Poppar einhver lögga upp hjá mér í formi texta og skammar mig fyrir að vera ekki innan Bandaríkjanna og meinar mér þar af leiðandi um að hlusta.

Ég er íslensku-laga-nörd og elska Nínu í vissri stemningu, syng hástöfum með í bílnum þegar Nína og Geiri hljóma (enda sungið af Bjögga). Haldið áfram að koma með íslenskan hryllingslagalista með gömlum lögum og skal syngja þau fyrir ykkur af innlifun. Villi.... og Lúlla..... Villi.... og Lúlla Ekki líta, ekki bíta ekki halda alltof fast... en taktu mig og láttu mér...................

Jóna Á. Gísladóttir, 15.7.2007 kl. 00:33

14 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

þetta átti náttúrlega að vera ...'kveikir ekki á nöfnunum á öllum lögunum''.... Sko... baunin fer minnkandi.

Jóna Á. Gísladóttir, 15.7.2007 kl. 00:34

15 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Jens minn!

Nenni nú ekkert að meinhornast hér, gæti nú alveg strítt þér og nefnt eitt lag með þínum gamla félaga Sævari SVerris, en sleppi því, vil ekki fá þig í heimsókn með nýju hornaboltakylfuna þína, nóg að þú berjir handrukkarann þarna með henni, hahaha!

En við Jónu Á segi ég sérstaklega!

ÞÚ ERT ÆÐISLEG ELSKAN OG HALTU BARA ÁFRAM AÐ SYNGJA, LAAANGFLOTTUST!!!

Magnús Geir Guðmundsson, 15.7.2007 kl. 01:00

16 Smámynd: Jens Guð

  Ég er afskaplega sáttur við listann hjá Rolling Stone.  Tek undir með Jóni Steinari að þetta er góður playlisti fyrir pyntingabúðir. 

  Ég held að Angelia með Dúmbó og Steina sé erlent lag.  Mig rámar í að hafa heyrt það á ensku.  Þori samt ekki að standa við það.

  Kvæðið um Litlu Gunnu og litla Jóner íslenskur orginal.  Og ekki slæmt lag.  Ljóðskáldið Davíð Stefánsson frá Fagraskógi hafði verið að eltast við - og jafnvel dinglast með - Gunnu þessari.  Hún tók hinsvegar saman við Jón.  Davíð varð sár og reiður.  Í svekkelsinu orti hann þessa níðvísu um Gunnu og Jón.  Þau voru bæði lágvaxin og kvæðið gerir út á það. 

  Ég tek undir með þér,  Guðmundur kirkjuvörður,  að Sagan af Nínu og Geiraer viðbjóður - nema með Hvanndalsbræðrum.  Þetta er aftur á móti bandarískur kántrýslagari. 

  Kvæðið um westfirsku olíuhreinsistöðina bætir fáu við í umræðuna um leiðinlegustu lögin.  Nema hvað að kvæðið er skemmtilegt. 

  Sem betur fer hef ég aldrei heyrt Flug XXX með Hlandi & sonum.  Ég fæ flogakast og blóðnasir við það eitt að heyra þá hljómsveit nefnda á nafn. 

  Já,  og erfitt er að gera upp á milli viðbjóðsins sem Þú & ég dúettinn bakaði á áttunda áratugnum.  Ég las einhversstaðar um daginn að tiltekin plata með Þú & ég væri besta íslenska diskóplatan.  Ég geri ekki ágreining um það.  Blessunarlega gerðu ekki fleiri Íslendingar en þau diskóplötur.

  Freight Trainer bandarískt þjóðlag.  En ég er sammála öllu neikvæðu sem skrifað er um Á móti sól og Sixties.  Ég á erfitt með að átta mig á hvor er verri hljómsveit.  Hallast þó þessa stundina á að það sé Sixties. Og þó.  Söngurinn hjá Sixties er slappur og það hentar kannski vondri hljómsveit betur. 

  Nína á það sameiginlegt með ýmsum öðrum vondum lögum að laglínan út af fyrir sig er ekki endilega það sem gerir lag óþolandi.  Það er oftast eitthvað annað.  Flutningurinn/túlkunin öllu frekar. 

  Jóna,  þú ert með þynnku í dag.  Þess vegna gerir þú ekki miklar kröfur til frambærilegra laga. 

Jens Guð, 15.7.2007 kl. 01:08

17 Smámynd: Jens Guð

  Maggi minn,  alveg endilega skulum við ekki blanda honum Sævari frænda mínum og góða vini Sverris inn í þetta dæmi.   Ég umber öll lög sem hann hefur sungið og hef alltaf haft gaman af því sem hann syngur.  Enda er Sævar svo skemmtilegur karakter að það er ekki annað hægt.  Svo er annað mál hvernig þetta myndi hljóma í mín eyru ef aðrir væru að syngja sömu lög.   

Jens Guð, 15.7.2007 kl. 01:31

18 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég reyndi að rifja upp eitthvað af þessum hryllingi, sem maður heyrir daglega á síbyljunni en þetta er greinilega svo óintressant að ég gat hvorki komið fyrir mig lögum né hljómsveitum. En það er nóg til believe you me.

Hér er úrvalstónlist úr heimsranninum:  http://www.youtube.com/watch?v=Os03eNNgurs

http://www.youtube.com/watch?v=YPnGPIMUnus&mode=related&search=  ÞETTA ER EIN SNILLDIN.  - OG ÞETTA fær mann til að hætta að kvarta yfir öðru

Jón Steinar Ragnarsson, 15.7.2007 kl. 01:51

19 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Annars hljóta My Hump, og Wannabe að vera nálægt því allra versta frá því fyrir kristburð

Jón Steinar Ragnarsson, 15.7.2007 kl. 02:26

20 Smámynd: Jens Guð

  Jón Steinar,  ég er 1000% sammála.  Þessi lög etja þó kappi við hin lögin á listanum og má vart á milli sjá hvar rétt er að staðsetja þau á listanum. 

Jens Guð, 15.7.2007 kl. 02:35

21 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Ég var einmitt að hugsa þegar ég sá þennann lista að ég væri búinn að viðurkenna allar mínar syndir á þriðja lagi.

Kristján Kristjánsson, 15.7.2007 kl. 03:11

22 Smámynd: Jens Guð

  Nákvæmlega.  Í pyntingabúðunum myndi ég játa á mig hvað sem væri strax undir lagi númer 2.  Og ef maður vissi af hinum lögunum sem væru handan horns myndi maður strax játa á sig fáranlegustu sakir.

  En núna vantar mig fleiri tillögur um óþolandi íslensk lög.  Ég hef fengið lista frá um 30 kunningjum en tillögurnar dreifast yfir á vel á annað hundrað lög.  Einungis Nína og Villi og Lúlla fá mörg atkvæði.  Ég þarf fleiri lög til að láta kjósa um þannig að þetta verði marktækt. 

Jens Guð, 15.7.2007 kl. 03:38

23 identicon

Stanslaust stuð með Páli Óskari og líka nýja lagið með honum. Fram úr hófi lélegar lagasmíðar.

Anna (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 03:46

24 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Tek undir tillögu um að setja svona lista saman um íslensk lög. Í gærkvöldi heyrði ég í bílnum lag með Eiríki, Seinna meir minnir mig að það heiti. Hrikalegt lag. Rímstaglið í sumum lögum Megasar er verulega ofmetið sem og veinið í Bubba Morthens. Ég tala nú ekki um lagið þar sem þeir sameinuðu krafta sína.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 15.7.2007 kl. 09:06

25 Smámynd: halkatla

úff, horror, það er ekki eitt gott lag á þessum lista. Ég er fegin að þekkja ekki það sem er í fyrsta sæti

#24 Megas er unaðslegur

halkatla, 15.7.2007 kl. 09:51

26 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Íslensk lög? Mér dettur í hug í svona fljótu bragði. Farinn með Skítamóral. Traustur vinur með Upplyftingu. Fyrrnefnt lag Nína, Þrisvar í viku með Bítlavinafélaginu. Jólahjól me' Sniglabandinu. Örugglega fleiri en sem betur fer dvelst maður ekki við leiðinlegu lögin. Það er svo mikið til af góðri tónlist -

Kristján Kristjánsson, 15.7.2007 kl. 11:47

27 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Ég verð sjálfsagt tekin af lífi fyrir að segja þetta en návællinn í Sigur Rós er það allra allra versta sem ég veit. Kemst nálægt því þegar ljósmóðir nokkur á LSH spilaði heilan disk með Celine Dion þegar ég var að koma dóttur minni í heiminn - ekki góðar minningar það 

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 15.7.2007 kl. 11:51

28 identicon

það er nú til alltof mikið af rusli á þessu litla landi t.d.Hann langar í sanseraðan sportbíl með geira sæm,einn dans við mig með Hemma Gunn,Ég fer í fríið með var það ekki þorgeir ástvalds? og svo náttúrulega allt með Geirmundi.

Hilmar Garðars (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 12:30

29 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Einu sinni fór ég á svið og flutti frumsamda.  Það var svona one hit wonder fyrir utan hit-ið.  Þetta var dúettinn Far Out sem samanstóð af mér og Sveini vini mínum frá eyjum.  Þetta átti sér stað í Alþýðuhúsinu á Ísafirði. Við höfðum drukkið 4 lítra af valpolichella og vorum vel heitir. Ég spilaði á munnhörpu og söng en Svenni spilaði á gítar.  Lagið var gert 5 mín fyrir gigg og réðist ekki tími til að semja vitrænan texta. Ég tók því á það ráð að syngja upp úr eðlisfræðibókinni hans svenna um rafgreiningu: "Ef tvö eirskaut eru sett i ker með þynntri brennisteinssýru og straumur tengdur við þau, gerist eftirfarandi: A.:......." 

Þetta var ekki verri texti en margur annar og allavega mjög fræðandi.  Við vorum klappaðir upp og sungum þá lagið aftur, eftir að Svenni hafði skroppiðáð tjaldabaki til að æla, en það var ekki tónlistinni að kenna.  Hann var bara svona Starstruck.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.7.2007 kl. 14:05

30 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Hafa menn aldrei spáð i að Vegbúinn með KK er næstum sama lagið og Snögglega Baldur úr Hryllingsbúðinni.........Var bara að spá í þetta út af Jóa Helga og kærunni sem þar er í gangi.....og enn og afur Nína er gott lag......svo er listahrokinn her á landi alveg magnaður þetta lag sem ég nefndi fyrr Freight Train (eithvað svoleiðis) er spilað út og inn bara af því að það er sungið af (inn) söngvurum hjá sumu útvarpsfólki......Ég efast um að ef að Td. Eyfi og S.Beinteis hefðu sungið það að spilunin væri jafn mikil.

PS Þrátt fyrir að það séu öll tónskáldin flott þarna í könnuninni...þá held ég að G.Þórðarson hljóti að standa upp úr.....

Einar Bragi Bragason., 15.7.2007 kl. 14:06

31 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hvað með "Ég er fráskilin að westan" og "Eldhússtörfin".  Leggur mig í rúmið vegna kjánahrolls.  Takk fyrir frábæran "verstulagalista" en eitthvað er mér hlýtt til "Who let the dogs out"

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.7.2007 kl. 14:26

32 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Hvar er Maggi Kjartans

Einar Bragi Bragason., 15.7.2007 kl. 15:43

33 Smámynd: Jens Guð

  Vegbúinn heitir Top of Old Smokey þegar það er sungið á ensku.  Þetta er gamalt bandarískt þjóðlag.  Hefur verið sungið inn á plötu með ótal mörgum.  Meðal annars The Weavers,  Peter,  Paul & Mary og Harry Belafonte.

  Einn dans við mig er franskt lag,  Ég fer í fríið er ítalskt,  Fráskilin að vestan og Eldhússtörfin eru bandarískir kántrýslagarar. 

  Helvíti hefði verið gaman að sjá dúettinn hjá ykkur,  Jón Steinar. 

Jens Guð, 15.7.2007 kl. 17:07

34 identicon

6.   Lou Bega, “Mambo No. 5?
7.   James Blunt, “You’re Beautiful”
8.   Spice Girls, “Wannabe”
9.   Sisqo, “The Thong Song”
Jessörríbobb.

Maja Solla (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 19:15

35 identicon

...En hafið þið heyrt í "hljómsveitinni" Íkarus??
Ég held að engin hljómsveit hafi nokkru sinni farið eins mikið í taugarnar, enda get ég ómögulega þolað svona new wave og pönk rusl.
Uss, nú verður allt brjálað...

Maja Solla (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 19:23

36 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Haha Jens, þetta er nú orðin löng runan og auðvitað hafa allir rétt fyrir sér er upp er staðið, þetta snýst fyrst og síðast um smekk! En smá viðbót við greininguna á lögunum, Plastic Bertrand kallaði hann sig sem söng lagið þarna, sem Hemmi karlinn gerði svo vinsælt sem "Einn dans við mig" Lagið sem sú góða frú María Baldurs söng til vinsælda, kallaðist nú Eldhúsverkin, ekki störfin og lagið við kvæðið hans Davíðs um litlu hjónin, er eftir Pál Ísólfsson minnir mig.

Annars get ég vel skilið bigga Stórtrommara hvað varðar Angelíu, örugglega reynt að gera út af við hann með því á Skaganum í gamla daga! Sá texti er nú samt vel ortur.Já, Sævar frændi þinn líka, en hef alltaf einhverra hluta vegna tengt hann við Ólafsfjörð! Æ, þetta er lagið þarna á "Ef ég hefði vængi" frekar en "Andartak" skífunni, man bara ekki titilinn, en skal ekki nefna það meir. En varpa einu fram til gamans, muna ekki einvherjir ennþá hvað barnastjarnan Einar "áttavilti" Ólafs fór í taugarnar á mörgum með "ÉG vil ganga minn veg" Hefði einhvern tíman haldið að það myndi skora vel í svona "leiðindavindældavali"!

Magnús Geir Guðmundsson, 15.7.2007 kl. 20:02

37 Smámynd: Svartinaggur

Ég fékk útbrot, tremma og gyllinæð ásamt tónverk í eyrun í hvert skipti sem ég heyrði Traustur Vinur með Upplyftingu á sínum tíma. Sem betur fer hefur þeim skiptum fækkað aðeins. Það lag held ég að hljóta að teljast leiðinlegasta íslenska lag allra tíma.

Svartinaggur, 15.7.2007 kl. 20:41

38 Smámynd: Jens Guð

  Íkarus varð til þegar Tolli hljóðritaði sína ágætu sólóplötu The Boys from Chicago,  svona líkt og Utangarðsmenn urðu til þegar Bubbi hljóðritaði Ísbjarnarblús-plötuna.  En þegar Íkarus varð til sem alvöru hljómsveit fóru menn fram úr sér.  Þetta átti að vera hljómsveit þar sem Tolli væri bara einn af hópnum.  Allir áttu að leggja í pottinn lög og texta.  Gallinn var sá að það voru ekki allir liðsmenn Íkarusar frambærilegir laga- og textasmiðir.  Því fór sem fór.

  Maggi,  takk fyrir fróðleiksmolana.  Sævar er annarsvegar Ólafsfirðingur.  Hinsvegar Skagfirðingur.  Sönghæfileikinn kemur úr Skagafirðinum.  Ég veit hvaða lag þú átt við. 

  Lagið með Einari "áttavilta" hefur farið hringinn.  Fyrst var það óþolandi kjánalegt.  Síðan varð það kjánalegur brandari.  Einskonar grínlag.  Líkt og sumir söngvar Hallbjörns snillings Hjartarsonar.  Hvenær tekst að toppa setninguna "hér á landi á"? 

Jens Guð, 15.7.2007 kl. 22:28

39 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ég held að plata Gunnars Jökuls trommara, blessuð sé minning hans, slái út allt ofangreint. Lögin hundurinn minn og bíllinn minn eru klárlega með verstu tónsmíðum  sem gerðar hafa verið. En hann hafði afsökun. Ég held að Nína og Geiri, Þú og ég dúettinn og jólalög Helgu Möller séu samt vinningshafar miðað við spilun.

Ævar Rafn Kjartansson, 16.7.2007 kl. 00:00

40 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Ég vil ganga minn veg, ... þoli ekki að setja meira af þessum texta inn nema í svörtu, þykku uppþvottahönskunum mínum með sólgeraugu með alvöru rayban.  Mjög ógeðfellt lag sungið af Einari Áttav..... á unga aldri.  Merkilegt að það kæmi ekki inn fyrr en í lokin hjá þér.  Þetta eru alvöru óafturkræf umhverfisspjöll. 

Buttercup kom mér til að kúgast oftar en einu sinni, Geirmundur með sín 1000 og eitthvað keimlík lög. 

Má ég þá frekar byðja um 12 bestu köstin með Gylfa Ægis. 

Lög no. 3 og 10 eiga að mínu mati ekki heima a toppnum þarna - vel hægt að finna verri lög. 

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 16.7.2007 kl. 00:03

41 Smámynd: Jens Guð

  Ævar,  platan með Gunna Jökli er dáldið sér á parti.  Hún er upphaf þess músíkstíls sem kallast hamfarapopp.  Skilgreiningin nær utan um það þegar dómgreindarlaus einstaklingur heldur að hann sé að gera meistaraverk með aðstoð "skemmtara".  En útkoman er í 8 mílna fjarlægð frá því einstaklingurinn heyrir sjálfur og skynjar.   Leoncie blessunin er annað gott dæmi um slíkt.

  Í myndlist kallast þetta nævismi (bersnka).  Þetta er snilld út af fyrir sig og ekki á færi fólks sem gengur á öllum sílindrum.   

  Lög Gunna,  Bíllinn minnHundurinn minnKaffið mitt og Landið mitt eru toppur sem auðvelt er að elska.   Setningar eins og "Ég elska bílinn minn",  "Ég elska hundinn minn",  "Ég elska kaffið mitt" og "Ég elska landið mitt" eru yndislegar í þessu síendurtekna samhengi í sitthverju laginu á sömu plötunni. 

Jens Guð, 16.7.2007 kl. 00:39

42 Smámynd: Jens Guð

  Ég þekki ekki nægilega vel til Buttercups.  Man bara ólóst eftir öllu vondu frá þeirri hljómsveit. 

Jens Guð, 16.7.2007 kl. 00:40

43 identicon

Ekki hafa nú Stuðmenn skilið eftir sig lítinn viðbjóð, ullað útúr afturendanum hverjum hryllingnum á fætur öðrum, lágpunktarnir líklega popplag í g-dúr og íslenskt fönn.

Og svo gleyma menn hversu ömurlegir Greifarnir voru (líklega af því að allir hafa yfirhöfuð gleymt Greifunum), t.d. frystikistulagið.

Guðmundur (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 01:38

44 Smámynd: Jens Guð

  Frystikistulagið er líka til með írskættuðu snillingunum í The Pouges.  Man í augnablikinu ekki hvað það heitir með þeim.  Kannski "How Come".  Svo segir að minnsta kosti í viðlaginu.  Og í tilfelli The Pouges er lagið skemmtilegt. 

Jens Guð, 16.7.2007 kl. 01:45

45 Smámynd: Jens Guð

  Ég þakka góðar uppástungur yfir vond og pirrandi íslensk lög.  Núna set ég uppástungurnar í forvinnslu 30 manna hóps sem sker tillögurnar niður í 5 - 8 dæmi.  Vandamálið er að sumar tillögurnar snúa að lögum með góðum vinum mínum.  Þetta verður því erfitt úrvinnsluefni.  En þegar niðurstaða hefur fengist í skoðanakönnunina um bestu lagahöfundana þá set ég í gang könnun um mest pirrandi íslensku lögin.

  Núna hafa 386 greitt atkvæði um bestu íslensku lagahöfundana.  Það kemur mér pínulítið á óvart að í augnablikinu er Megas þar með vinning umfram Bubba.  Sjálfur kaus ég Magga Eiríks.  Að óreyndu hélt ég að Bubbi yrði efstur í þessu vali.  Frá upphafi hafa hann og Megas skipst á forystu.  En ég læt skoðanakönnuna fara upp að 500 greiddum atkvæðum áður en endanleg niðurstaða er fengin.  Þá er hún klárlega orðin marktæk. 

Jens Guð, 16.7.2007 kl. 01:56

46 Smámynd: Lauja

Undir bláhimni  /  Fráskilin að vestan  /  Kartöflugarðalagið (með Árna Johnsen)  -  Nú er ég léttur (með Geirmundi)

Lauja, 16.7.2007 kl. 12:39

47 Smámynd: Jens Guð

  Undir bláhimni er hawaískt þjóðlag.  Það er til bandarískt tilbrigði við það sem kallast Red River Valley.  Síðan er til bandarískt tilbrigði við Red River Valley er kallast Red River Rock.  Það er hröð "instrumental" útgáfa,  frægust í flutningi Johnny & the Hurricanes.  Villi Guðjóns spilar það í í kvikmyndinni Djöflaeyjan

  Kartöflugarðalagið með Árna Johnsen er eftir bandarískan blússnilling,  Leadbelly,  sem lést 1949.  Hann hafði þann kæk að drepa menn á milli þess sem hann sat á bakvið lás og slá.   Lúdó sextett og Stefán hafa flutt þetta lag inn á plötu með öðrum texta.  Man ekki nafnið á því.  En á ensku heitir það Cotton Fields og er þekktast í flutningi Creedence Clearwater Revival og The Beach Boys.  

  Fráskilin að vestan er bandarískur kántrýslagari. 

  Nú er ég léttur er aftur á móti rammíslensk skagfirsk sveifla. 

Jens Guð, 16.7.2007 kl. 14:14

48 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það má gera greinarmun á því sem skilja má sem aumkunarvert kjánapopp eftir geðveika eða þroskahefta einstaklinga og þeirra, sem halda virkilega að þeir hafi eitthvað fram að færa.  Skilin eru oft óljós þarna og er t.d. Árni Johnsen alveg á landamærunum.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.7.2007 kl. 18:20

49 identicon

Blessaður Jenni, eru menn alveg búnir að gleyma Jóhanni R.Kristjánssyni með plötuna "Er eitthvað að". þar er á ferðinni versta plata Íslandssögunnar, 4lög í fyrstu 4sætin pottþétt. Einnig kemur platan öll til greina með hljómsveitinni Bismark frá Stöðvarfirði, hún heiktir "Ef vill", snilldarviðbjóður 13lög hvert öðru ógeðslegra.

viðar (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 08:16

50 Smámynd: Jens Guð

  Platan með Jóhanni R.  er bara gleðigjafi.  Þú settir hana á disk fyrir mig fyrir 2 árum eða svo.  Diskurinn hefur kætt margt partýið.  Bismark slagar í eitthvað svipað. 

Jens Guð, 17.7.2007 kl. 11:12

51 identicon

svo eru nú heill hellingur af slæmum plötum í viðbót frá austurlandi t.d Fásina minnir mig að bandið heiti,Egla,lola,kongulóarbandið,og safnplatan drengur maður.En svo leinast þarna gersemar eins og döðlurnar og niturbasarnir.

Hilmar Garðars (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 19:10

52 identicon

Mér finnst öll lögin sem hafa verið nefnd vera alveg ágæt. En man einhver eftir laginu Hótel Hungursneið? Ekki að lagið sé slæmt, einmitt ekki, ég man lagið enn, eftir að hafa það heyrt í útvarpinu fyrir 15 eða 20 árum: Ba babba babba babba babba ba hótel hugursneið.

algeir (IP-tala skráð) 18.7.2007 kl. 00:59

53 Smámynd: Jens Guð

  Vissulega er af nógu að taka þegar röðin kemur að austfirsku poppi.  Flest bundið Egilsstöðum og nágrenni.  En almenningur þekki ekki þessar perluir.  Ég kannast ekki við lagið Hótel hungursneið.  Þegar ég set af stað könnun um verstu íslensku dægurlögin verð ég að miða við lög sem almenningur þekkir.  Ég er þegar búinn að setja í gang forvalsnefnd hátt í 30 aðila með aðstoð/innleggi ykkar.  Í fljótu bragði virðist mér sem samhugur sé um Nínu og Villi og Lúlla.  Önnur lög eru meira vandamál.  En sjáum til hver niðurstaðan verður.  llar tillögur eru ennþá vel þegnar.   

Jens Guð, 18.7.2007 kl. 01:28

54 identicon

Nína er alveg gjörsamlega ömurlegt.

Manst´ekk´eftir mér með stuðmönnum er hreinn viðbjóður (man ekki hvað það heitir, en þið vitið hvaða lag ég er að tala um).

sjúbbídú með Önnu mjöll(?) en það er svo sem spurning hvort það fari ekki í hópinn með Gunnari Jökli og Árna Johnsen.

Lífið er yndislegt, eyjalagið fyrir einhverjum árum. Ég sé bara fyrir mér landadrykkju og hópnauðganir þegar ég heyri þetta lag.

Farin með skítamóral, need I say more?

Brotin loforð með Bubba. Yndisleg innkoma bubba í rappheiminn.

Það eru svo mörg fleiri sem ég man ekki í augnablikinu. 

Grétar Amazeen (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 13:15

55 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Nína er og verður topp lag frábær lagasmíð

Einar Bragi Bragason., 22.7.2007 kl. 16:59

56 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Nína og flest það sem Eyjólfur hefur flutt finnst mér afspyrnu leiðinlegt, sama á við Sálina....siðan þegar Eyjólfur og Stefán Hilmarsson leggja saman í púkk er verulega illt í efni.

Fásinna var snilldar band og gerði eina frábæra skífu þar sem meðal annars er að finna hið frábæra lag Gestur og Gæs, minnir að Karl Erlingsson eigi lagið, en hann samdi meðal annars ódauðlega slagar eins og t.d Pamela í Dallas sem Dúkkulísur fluttu.

Vinir mínir í Sú Ellen áttu mörg slæm lög, ég var alltaf að skamma þá fyrir að vera of poppaðir og reyndi án árángurs að hvetja þá til að hætta þessu léttpops væli og gera almennilegt rokk....en allt kom fyrir ekki:/

Georg P Sveinbjörnsson, 28.7.2007 kl. 14:55

57 identicon

Villi og Lúlla/ Hótel Jörð og lagið um litla egyptann sem Björk söng þegar hún var ca. 12 ára. Það eitt og sér slær nú öllum hinum við.

Birna (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 01:12

58 Smámynd: Jens Guð

  Var lag Bjarkar ekki um Arabadreng án þess að þjóðerni hans væri tilgreint?  Ég man eftir því þegar að Björk var að syngja inn á þessa sólóplötu,  11 ára að mig minnir.  Þá átti ég erindi í Fálkann sem að gaf plötuna út.  Strákarnir sem að unnu í Fálkanum voru afar undrandi á þessari stelpu.  Hún hlustaði ekki á léttpopp eins og jafnaldrar heldur var að pæla í Frank Zappa og Genesis.  Á þeim árum var Genesis nokkuð þungmelt hljómsveit og ólík því ógeði sem að hún varð síðar. 

Jens Guð, 25.9.2007 kl. 01:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband