Farið yfir úrslit í skoðanakönnun um bestu íslensku lagahöfundana

  Fyrir nokkrum dögum lauk skoðanakönnun um bestu íslensku lagahöfunda rokkgeirans.  Með orðinu rokkgeiri á ég við lagahöfunda sem hafa starfað í rokkhljómsveitum og eiga heima í sögu rokksins. 

  Upphaflega miðaði ég við að könnunni lyki við 500 greidd atkvæði.  Þar með væri niðurstaðan marktæk.  Frá fyrstu 50 greiddum atkvæðum lá endanleg röð fyrir.  Hún breyttist ekkert.  Nema hvað að Megas og Bubbi skiptust á 1. og 2. sæti alveg upp að 584 greiddum atkvæðum.  Munurinn var svo lítill og þeir skiptust svo reglulega á sætum að ég tók til ráðs að láta kjósa sérstaklega á milli þeirra tveggja.

  Í því tilfelli miðaði ég líka við að könnunni lyki við 500 greidd atkvæði.  Þau hlóðust hinsvegar svo hratt inn að fyrr en varði voru þau orðin 900 og úrslit orðin afgerandi. 

  Niðurstaðan er þessi:

1.  Megas (63,3%)

  Mörgum hættir til að líta framhjá snilli Megasar sem lagahöfundar.  Fólk einblínir í hans mörgu frábæru texta hans og gleymir að hlusta eftir og meta magnaðar laglínur hans.  Þetta sama henti Bob Dylan framan af.  Söngstíllinn er ekki fagurfræðilega góður,  truflar marga,  en textarnir eru slíkt konfekt að þeir skyggðu á flottar laglínur.  Það var ekki fyrr en aðrir fóru að flytja lög Dylans sem menn áttuðu sig á því að lögin eru ekki síðri textunum. 

  Enn í dag átta ýmsir sig ekki á því hvað Megas er góður lagahöfundur.  Það hefur þó verið að opinberast æ betur þegar lögin eru flutt af öðrum.  Þrjár plötur hafa komið út með einungis söngvum Megasar í flutningi annarra.  Þar af tvær í fyrra.  Í fljótu bragði held ég að annar íslenskur lagahöfundur hafi ekki verið heiðraðir jafn oft á þennan hátt.

  Sem lagahöfundur ræður Megas við marga stíla.  Mörg lög hans eru gullfalleg og seyðandi.  Dæmi um það eru Tvær stjörnur og Fílahirðirinn.  Önnur eru grípandi slagarar.  Dæmi:  Spáðu í mig og Fatlafól.  Rútubílasöngvar og vinsæl dansiballalög.  Fyrrnefnda lagið hefur verið "coverað" af Kolrössu krókríðandi og Bjögga Halldórs.

  Megas er vel að titlinum besti íslenski lagahöfundurinn kominn.     

2.  Bubbi (36,3%)

  Sennilega liggja fleiri lög eftir Bubba á plötum en aðra Íslendinga.  Að minnsta kosti síðustu 27 ár. Kannski er Gunni Þórðar á svipuðu róli ef við teljum frá 1964.  Bubbi á afar létt með að hrista fram úr erminni slagara með grípandi krækjum.  Mér er minnisstætt þegar hann skilaði af sér ónefndri plötu.  Útgefandinn nefndi við hann að það vantaði "smelli" á plötuna.  Þeir þyrftu helst að vera tveir.  Bubbi fór heim og samdi tvo slíka um kvöldið.  Daginn eftir voru þeir hljóðritaðir með hraði og slógu rækilega í gegn.

  Að óreyndu reiknaði ég með að Bubbi myndi sigra í þessari skoðanakönnun.  Gífurlegar og stöðugar vinsældir hans vísuðu í þá átt.  Ég ætla ekki að gera lítið úr hans hæfileikum sem góðs lagahöfundar þó að ég lýsi yfir ánægju með að þær hafi ekki ráðið úrslitum í þessum leik.  Enda er það ekki lítill titill að vera annar tveggja bestu íslensku lagahöfunda.

  Til gamans má geta að lög Bubba njóta mikilla vinsælda í Færeyjum.  Þau eru spiluð á þarlendum böllum og hljómleikum.  Ég á sömuleiðis tvær færeyskar plötur þar sem lag hans Talað við glugganner "coverað".  

3.  Magnús Eiríksson (11,7%)

  Ég kaus Magga Eiríks í þessari könnun.  Ég tel hann vera jafnbesta lagahöfund landsins.  Hann sendir aldrei frá sér slöpp lög (en það hafa bæði Bubbi og Megas gert).  Hann semur gríðarlega mörg lög og er allra lagahöfunda mest gagnrýninn á sjálfan sig.  Sonur minn hefur heyrt kassettur með lögum eftir Magga sem hefur verið hent í ruslið.  Fín lög en ekki nógu öflug að mati höfundar.

4.  Gunnar Þórðarson (11,3%)

  Það munar aðeins % broti á Magga og Gunna.  Eins og Ásthildur Cesil benti á hér á öðrum stað á blogginu þá hefur Gunni ekki verið áberandi að undanförnu.  Ég tel þessa fjóra bestu lagahöfunda landsins vera í sérflokki:  Gunna,  Magga,  Bubba og Megas.  Þeir eru toppurinn burt séð frá því í hvaða sæti þeir lentu nákvæmlega.   

5.  Magnús Þór Sigmundsson (4,7%)

  Að óreyndu hélt ég að Jóhann yrði í 5. sæti en Magnús Þór í því 6.  En Magnús Þór leynir á sér.  Ísland er land þitt er klassík.  Það er líka ansi magnað lagið eftir hann sem Ragnheiður Gröndal söng.  Man í augnablikinu ekki hvað það heitir.  Lög Magnúsar Þórs eru ekki beinlínis slagarar heldur þægileg lög sem lifa án þess að fólk fái leiða á þeim.

6.  Jóhann Helgason (4,0%)

  Jói Helga er lunkinn lagahöfundur.  Sum lög hans eru þannig að maður hugsar um þau sem eitthvað sem getur sómt sér vel á alþjóðamarkaði.  Það háir kannski lagasmíðum Jóa að þau "renna" öll ljúflega en rífa ekki verulega í.  Þessi annmarki kemur best fram á sólóplötum hans.  Hvert og eitt lag er fínt út af fyrir sig en ekkert brýtur upp stemmninguna og gargar á mann. 

7.  Jóhann G. Jóhannsson (3,0%)

  Jói G.  samdi mörg góð lög með Óðmönnum og á sólóplötum.  Síðan fór hann að semja misgóð lög fyrir aðra.  Eða öllu heldur mismetnaðarfull lög fyrir aðra.  Eftir stendur að lag hans Don´t Try to Fool Me er tvímælalaust eitt allra besta íslenska lag poppsögunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að lesa þessa samantekt - Get tekið undir allt sem skrifað er hér. ég get alveg unnt Bubba þess að lenda svona ofarlega, þó að hann hafi aldrei höfðað sterkt til mín þá er ekki hægt að horfa framhjá því að hann getur samið góð lög. Hinir eru allir í uppáhaldi hjá mér, get eiginlega varla gert upp á milli þeirra enda á ég mín uppáhaldslög með þeim öllum.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 00:15

2 Smámynd: Jens Guð

  Ég sá í mörg ár um poppsíðu barna- og unglingablað sem hét Æskan og síðan unglingablað sem hét Smellur.  Þar var ég oft með skoðanakannanir og vinsældaval.  Úrslit í svona könnunum eru ekki alltaf í samræmi við minn smekk.  En þá setur maður sig bara í þær stellingar að túlka niðurstöðuna út frá þeim forsendum sem liggja fyrir.  Reyna að átta sig á rökunum fyrir því hvernig atkvæði raðast og sætta sig við að minn persónulegi smekkur er ekki alveg sá sami og niðurstaðan.

  Eftir sem áður þykir mér alltaf gaman að svona könnunum.   

Jens Guð, 31.7.2007 kl. 00:27

3 Smámynd: Jens Guð

  Þarna átti að sjálfsögðu að standa unglingablaðs sem hét Æskan.  Ég held að það sé ekki hægt að leiðrétta athugasemdir í sjálfri færslunni. 

Jens Guð, 31.7.2007 kl. 01:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.