Afi á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki - VI

Afi var á sjúkrahúsi á Sauðárkróki síðustu vikurnar fyrir andlát sitt.  Ég var fluttur suður en gerði mér ferð norður til að heilsa upp á hann.  Afi varð glaður að sjá mig.  Hann hringdi strax á hjúkrunarkonu.  Er hún birtist segir afi skipandi við hana:
  -  Komdu með matarbakka og mjólkurglas.
  -  Þú varst að borða fyrir hálftíma,  segir konan undrandi.
  -  Sérðu ekki að ég er kominn með gest? 
  -  Við erum ekki með mat handa gestum.
  -  Það er til nógur matur á spítalanumEf þú hlýðir ekki þá er óvíst að þú haldir vinnu hérna,  hótaði afi og nafngreindi manneskjur sem hann sagðist ætla að tala við.  En konunni var ekki haggað.
  Er hún var farinn hneykslaðist afi mjög:  "Þessar bévítans stelpuskjátur hérna rífa bara kjaft og hlýða engu."  Þannig hélt hann áfram í nokkra stund.  Skyndilega glaðnaði yfir honum,  hann hnippti í mig og segir í hálfum hljóðum eins og í trúnaði:
  - Þær láta svona af því að laðast að mér kynferðislega.
  - Hvernig dettur þér það í hug?  spurði ég í forundran.
  - Ég er ekki að segja að það eigi við um þær allar.  En sumar þeirra gefa mér hýrt auga.
  -  Af hverju heldurðu það?
  -  Maður skynjar þetta frekar en að hægt sé að benda á einhver atriði.  Þó tek ég eftir því hvernig glaðnar yfir sumum þeirra þegar þær sjá mig.  Sömuleiðis eru þær óeðlilega áfjáðar í að baða mig.  Ég verð var við að það er eins og þær togist á um það hverjar fá að baða mig í það og það skiptið.
  Afi fór í feiknagott skap við þetta spjall og tíminn leið hratt.  Þegar heimsóknartíma lauk hringdi afi aftur á hjúkrunarkonu.
  - Fylgdu gestinum út og komdu svo með svefntöflurnar mínar,  skipaði afi.
  - Gesturinn ratar út og við gefum ekki svefntöflur fyrr en klukkan 11.  Það er ekki einu sinni komið kvöldkaffi,  útskýrði konan.
  - Mig varðar ekkert um það.  Ég vil ekki sjá neitt helvítis kvöldkaffi.  Ég vil bara fá svefntöflurnar mínar.
  - Þú þarft ekkert að drekka kvöldkaffi frekar en þú vilt.  En svefntöflurnar færðu ekki fyrr en klukkan 11.
  - Ef ég fæ ekki svefntöflurnar strax þá sofna ég bara alveg hiklaust án þess að taka þær!
  Að því búnu lokaði afi augunum og gerði sér upp hrotur.  Svo sannfærandi var hann að þó ég kyssti hann á kinnina í kveðjuskini þá sýndi hann engin viðbrögð og hélt áfram að hrjóta.  Er við hjúkrunarkonan yfirgáfum herbergið hans þá hækkaði hrotuhljóðið.
   

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fín saga,afi þinn frábær blessuð sé minning hans.

Númi (IP-tala skráð) 18.1.2008 kl. 23:38

2 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Þessi saga var skemmtileg og það hefur verið ansi mikið fjör í gamla kallinumkv.linda

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 18.1.2008 kl. 23:40

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þá vitum við hvaðan þú erfðir boðháttinn!

Haukur Nikulásson, 18.1.2008 kl. 23:45

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sögurnar af honum afa þínum eru óborganlegar. Hefur einhver skrifað bók um gamla manninn?

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.1.2008 kl. 23:47

5 Smámynd: Fríða Eyland

Hann afi þinn var greinilega óborganlegur persónuleiki þessi saga er enn einn vitnisburðurinn um það

Fríða Eyland, 19.1.2008 kl. 00:01

6 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Afi þinn var stórkostlegur! Mikið hef ég skemmt mér yfir sögunum af honum. Takk fyrir þessa sögu, hún var ferlega fyndin.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.1.2008 kl. 00:05

7 Smámynd: Steingrímur Helgason

Frábær mannleg sagnfræði.  Ég hef kallað þig bjána einn verulega ófríðann, & Ásinn/Guðinn yfir okkur veit að þú plöggar alveg skammlaust þitt & hefur ekki gripsvit á tónlist.

En þú skrifar skemmtilega að mannlegri hlýju um sumt, þess vegna slappst þú í í gegn í síðustu bloggvinatiltekt minni.

Steingrímur Helgason, 19.1.2008 kl. 00:15

8 Smámynd: Jens Guð

  Númi,  afi var sérstakt eintak af manni sem var eins og klipptur út úr Sturlungaöld og staðsettur inn í nútímann.

  Linda,  það var samfellt ævintýri að umgangast afa fyrir okkur barnabörn hans.  En þeim mun meiri vandræði fyrir ýmsa aðra sem umgengust hann.

  Haukur,  allt mitt gallaða hegðunarmynstur í umgengni við aðra skrifa ég á þann þátt sem afi hafði á mitt uppeldi.  Blessaður karlinn ól upp í manni brenglaða mynd af samskiptum við fólk.  Ég er ennþá að vinna úr þeim skilaboðum,  kominn á sextugsaldur.

  Lára,  í ævisögu Steingríms (man ekki hvers son) fyrrum forsætisráðherra (ekki Hermannssonar) eru góðir kaflar um afa.  Ég á bókina en hún er einhversstaðar ofan í kössum í kjölfar búferlaflutninga minna.  Ég hef hugsað mér - meðal annars til fróðleiks afkomenda afa - að birta eitthvað úr þeirri bók.  Steingrímur var nefnilega óvenju opinskár í lýsingum á afa.  Sagði meðal annars að afi hafi ekki stigið í vitið en hefði sómt sér vel á Sturlungaöld.  Afkomendur afa hafa oft rætt um það á ættarmótum að halda til haga frásögnum af kallinum.  Enda er okkur tamt að skiptast á sögum af honum þegar við hittumst.  Þessar bloggfærslur mínar um afa eru í humátt að því að varðveita þessar sögur.  Enda þó að ókunnugir hafi kannski gaman af að lesa þessar bloggfærslur þá eru þær meiri skemmtun fyrir okkur sem þekktum þetta sérkennilega eintak af "orginal" víkingi. 

Jens Guð, 19.1.2008 kl. 00:17

9 Smámynd: Jens Guð

  Fríða,  það er rétt að afi var persónuleiki sem er á skjön við allt annað fólk sem ég hef kynnst.  Kjaftfor og ókurteis úr hófi fram en jafn yndislegur fyrir því.

  Gurrí,  ég á einungis bunka af skemmtilegum minningum um afa.  Ólíkt mörgum öðrum sem áttu samskipti við hann.

  Magnús,  þarna hittir þú nákvæmlega naglann á höfuðið.  Afi var "kúl".

  Steingrímur,  þú lýgur því að ég hafi ekki gripsvit á tónlist.  Ef þú hefðir einangrað gripsvitið við Snata þá gæti ég rökstutt mitt mál.  En á meðan þetta er í svona víðtækri merkingu er það erfiðara.

  Hinsvegar þakka ég það að þú skulir greina hlýju mína í garð afa.  Ólíkt mömmu minni og mörgum öðrum sem áttu náin samskipti við afa þá þótti mér virkilega vænt um kallinn.  En satt að segja held ég að ég deili þeirri væntumþykju ekki með mjög mörgum öðrum,  hvorki ættingjum né öðrum.  Það er eins og flestir hafi öðruvísi viðhorf til afa.

Jens Guð, 19.1.2008 kl. 00:30

10 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Jens, sögurnar af afa þínum kveikja í mér mikla gleði. Þú segir svo skemmtilega og lýsandi frá, að ég get ekki annað en þakkað þér fyrir. Þvílíkur karakter!

Eva Benjamínsdóttir, 19.1.2008 kl. 00:36

11 Smámynd: Jens Guð

  Bara takk fyrir það,  Eva.  Ef að sögurnar af afa ná sem skemmtilesning til fleiri en okkur sem þekktum hann þá er það virkilega gaman.

Jens Guð, 19.1.2008 kl. 00:51

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hann afi þinn er búinn að snúa sér margsinnis við í gröfinni vegna þessara stórlyga þinna um hann.

Það er eins gott að þeir verði búnir að losa hann við stafinn þarna hinum megin þegar þú kemur þangað og spyrð eftir honum.

Árni Gunnarsson, 19.1.2008 kl. 00:59

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

P.s. Þarna fækkaði nú auðvitað bloggvinunum sjálfkrafa um einn!

Árni Gunnarsson, 19.1.2008 kl. 01:00

14 Smámynd: Steingrímur Helgason

Árni, ég held að við sleppum núorðið í gegn um síuna hans Jensa, enda jafn Frjálsundurlyndir & hann, þó að við förum varlegar með ...

Steingrímur Helgason, 19.1.2008 kl. 01:18

15 Smámynd: Jens Guð

  Árni,  það er mér sérstök ánægja að einhver sem þekkti afa og stafina hans skuli lesa upprifjun mína á uppátækjum hans.  Afi var reyndar meira ýkinn en lyginn (sögur hans ýktust eftir því sem hann sagði þær oftar.  Ég stend í þeirri trú að hann hafi sjálfur alltaf trúað sögunum sínum þrátt fyrir að þær ýktust við endurtekningu).  Þar fyrir utan er bloggvinatiltekt minni lokið. 

Jens Guð, 19.1.2008 kl. 01:25

16 Smámynd: Jens Guð

  Steingrímur,  þó að ótrúlegt sé þá sleppur þú í gegnum allar síur hjá mér.  Munurinn á ykkur Árna er þó sá að Árni er virkur í FF á meðan þú ert bara hálfvolgur.  Gengur illa að klippa á naflastrenginn við hinn ofurspillta Sjálfstæðisflokk þrátt fyrir að þú áttir þig á spillingunni. 

Jens Guð, 19.1.2008 kl. 01:35

17 Smámynd: Steingrímur Helgason

Naflastrengur minn við 'flokkinn' minn forna var snöggt klipptur & skorinn fyrir löngu síðan, eiginlega rúmur áratugur að baki í því, sem að þú ættir nú að nema ef að þú læsir mitt auma bloggerí.  Ég fylgdi Ólafi F. Magnússyni jafnaldra mínum & vini í því.

Ég hef því kosið Frjálslynt alla þessa öld, & ef að Hallgrímur eða Sigurjón votta það ekki að það ég sé inni í flokknum, þá förum við við Óli bara í Kristið sérframboð með Kristni, framvegis.

Hálfvelgja er eitthvað sem að þú kennir mig seint við, kúdur..

Steingrímur Helgason, 19.1.2008 kl. 01:56

18 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Ég er greinilega inni ennþá. Langaði aðeins að vitna í Árni Gunn sem talar  um, að þú segir stórlygasögur af honum afa þínum.  Sögurnar eru góðar og skemmtilegar og í guðs bænum haltu því áfram.  Með fyrirfram þökk um fleiri sögur.

Þorkell Sigurjónsson, 19.1.2008 kl. 06:25

19 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Skemmtileg lesning að morgni til!  Á svona tengdapabba heldur enn að hann sé aðal gæinn í bænum 

Ía Jóhannsdóttir, 19.1.2008 kl. 08:04

20 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þeir kunnu að eldast með reisn karlarnir úr Hjaltadalnum. Páll Sigurjónsson frá Ingveldarstöðum, fjölskylduvinur eftir að hann fluttist á Krókinn var einn þeirra.

Páll var einn stálgreindasti maður sem ég hef kynnst; vann lengi hjá Vegagerðinni en síðustu starfsárin hjá Kaupfélaginu. Páll var alvörumaður þegar kom að áfengi og drakk það af karlmennsku. Aldrei keypti hann annað vín en íslenskt brennivín sem hann drakk af stút. Hann var fastmæltur og skýrmæltur og bar þeim mun meira á því eftir því sem meira sveif á hann.

Páll var afdráttarlaus í póitískum skoðunum. Hann var sjálfstæðismaður og hataði Framsóknarflokkinn af lífi og sál ásamt Kaupfélaginu sem hann neyddist þó til að starfa hjá.

Eitt sinn er hann hallaði sér drukkinn og þreyttur upp að húsvegg einnar af byggingum Kaupfélagsins gekk til hans góður kunningi og brá á spaug. "Ertu nú farinn að styðja við Kaupfélagið Páll minn!"

"Hvað er þetta drengur, sérðu ekki að ég er að reyna að velta því," svaraði sá aldraði hárri röddu og skýrri.

Árni Gunnarsson, 19.1.2008 kl. 11:01

21 identicon

Algjörlega frábær saga. Greinilega skemmtilega rough kall hann afi þinn. fannst hjúkkan ekki síðri, kunni lagið á karli.  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 14:45

22 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Ef þið farið í kristið sérframboð förum við Jens í heiðið sérframboð!

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 19.1.2008 kl. 16:27

23 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Frábærar sögurnar af afa þínum  Haltu endilega áfram að skrifa um hann.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 19.1.2008 kl. 22:09

24 identicon

Það toppar þetta náttúrulega ekki neitt!! Vissi hann alveg hver þú varst, fyrst er þú komst inn?

Siggi Lee Lewis (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 22:16

25 Smámynd: Jens Guð

  Steingrímur,  ég hef mislesið út úr þínum texta og biðst velvirðingar á því.  Það eru hinar bestu fréttir að þú sért búinn að fylgja FF út alla þessa öld. 

  Þorkell,  það þarf ekki að ljúga neinu upp á afa.  Hann var nægilega litríkur til að við sem umgengumst hann mest búum að ótal sögum um hann. 

  Ingibjörg,  þú þarft að blogga sögur af tengdó.

  Anna,  ég er sammála.

  Árni,  góð sagan af Páli frá Ingveldarstöðum.  Því miður þá man ég ekki eftir þeim manni.  Þegar ég man fyrst eftir þá var Björn Ragnarsson frá Garðakoti fluttur í Ingveldarstaði.

  Anna,  ein hjúkrunarkona sagði mér að afi hafi látið hafa mikið fyrir sér.  Til að láta það ekki pirra sig þurftu þær að fara í þann gír að sjá kómísku hliðina á frekjunni í afa.

  Einar Loki,  FF mun ekki kúvenda frá kröfunni um fullkomið trúfrelsi og breytast í baráttuflokk fyrir misrétti trúfélaga þó að Kristinn H.  sé skyndilega orðinn talsmaður slíks.   

Jens Guð, 19.1.2008 kl. 22:26

26 Smámynd: Jens Guð

  Margrét,  ég held áfram með sögurnar af afa.  Af nógu er að taka.

  Siggi,  ég hef sterkan grun um að afi hafi þekkt mig.

Jens Guð, 19.1.2008 kl. 22:28

27 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég á náð til í mínu kristna hjarta að fyrirgefa þér þennann lestrarlega breyskleika þinn, sem & aðra skylda, en minni á leiðinni að hægt er að fá tiltölulega ódýr lesgleraugu á mörgum bensínbúllum & þú hefur bæði nef & eyru til að bera ein slík á bloggeríi.

Steingrímur Helgason, 19.1.2008 kl. 23:09

28 Smámynd: Jens Guð

  Steingrímur,  takk fyrir náðina.  Ég er hálf sjónlaus.  En týni stöðugt gleraugunum mínum.  Mér gengur einmitt illa að finna þau vegna sjóndepurðarinnar.  Þannig að ég stauta mig fram úr texta oftast án þeirra.  En fyrir bragðið misles ég margt.  Eins og oft kemur fram á þessum vettvangi.  það er að segja einkum í athugasemdakerfinu.  Mér hættir til að giska of oft á það sem ég er að lesa af því að textinn sem ég les er í móðu.  Þetta er ég ekki að segja í gríni heldur er þetta raunin.   

Jens Guð, 19.1.2008 kl. 23:34

29 Smámynd: Steingrímur Helgason

Mig renndi til þess grun ...

Steingrímur Helgason, 20.1.2008 kl. 00:30

30 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ertu líkur afa þínum í háttum??? ég átti doldið klikkaðan afa, þinn minnir mig á minn.  Góður kallar sem vissu hvað þeir vildu og skipuðu "stúlkunum" fyrir þegar þeim sýndist svo.

Ásdís Sigurðardóttir, 20.1.2008 kl. 01:24

31 identicon

Farðu varlega í að vitna mikið í Steingrímssögu Steinþórssonar. Þar eru rangfærslur margar og marg sagt sem er hreint ósatt. Kallinn var farinn að eldast er hann ritaði þessar bækur og minnið brenglað. Eða manstu ekki eftir varnargrein sr Bolla Gústafssonar sem birt var  í lesbók Mbl.

Hann flokkaði klíka fólkið eftir stjórnmálaflokkum þar voru memm í hvíta eða svarta liðinu,og allt annað eftir því. Þetta rit má ekki nota sem sagnfræðilega heimild í neinu.....

Margrét Sig (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 08:10

32 identicon

Andskoti hef ég gaman af þessum sögum.

Birkir (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband