Glæsilega vel heppnuð pönkveisla

  IdunnValliHelgi

  Ég var að koma af Pönkhátíðinni á Grand Rock og er virkilega sæll og glaður.  Hljómleikarnir stóðust allar væntingar.  Þeir tókust glæsilega vel í flesta staði.  Lagavalið var eins og best verður á kosið;  Öllum helstu þjóðsöngvum pönksins var gerð góð skil.  Ég saknaði ekki neins lags sérstaklega. 

  Mér telst til að 7 lög hafi verið flutt af fyrstu þremur plötum The Clash.  4 - 5 (eða 6?  Ég var ekki að telja en er að reyna að rifja upp) lög voru flutt úr smiðju eftirtalinna hljómsveita,  hverri fyrir sig:  Sex PistolsThe JamStiff Little Fingers og The Ramones.  Tvö lög eftir The Stranglers og lög frá The DamnedThe BuzzcocksUndertones...

  Samsetningin á lagavalinu náði að fanga og koma bærilega til skila fjölbreytileika pönksins.  Sumir sem upplifðu ekki pönkbylgjuna beint í æð halda ranglega að pönkið hafi verið einhæft músíkform er hafi verið rígbundið við uppskrift laganna Anarchy in UKWhite Riot  og New Rose.  Það vill gleymast að reggí og ska vógu þungt í pönk-senunni.  Sömuleiðis var nýbylgjan stórt fylgitungl pönksins.  Þverskurður af þessu var afgreiddur eins og best var á kosið.

  Fjölbreytninni var jafnframt gerð skil með tíðum innáskiptingum flytjenda.  Valli í Fræbbblunum og Ingunn Magnúsdóttir,  Árni Daníel úr Q4U,  Óskar Þórisson úr Taugadeildinni og Heiða,  kennd við Unun,  skiptu á milli sín forsöng.  Ég ætla ekki að reyna að telja upp hljóðfæraleikarana eða bakraddasöngvara.  Læt nægja að telja upp trommarana:  Stebba í Fræbbblunum,  Komma úr Q4U og Gumma Gunnars úr Tappanum og Das Kapital.  Hver um sig hefur sinn ágæta trommustíl.

  Svo skemmtilega vill til að ég á öll 40 lögin sem flutt voru nema lagið með Blondie.  Ég á enga plötu með Blondie og er ekki aðdáandi þeirrar hljómsveitar.  Samt þótti mér ekkert nema vel við hæfi að hafa það lag með.  Blondie var,  jú,  vinsælasti hlutinn af bandarísku pönksenunni.  

  Smá kurr var í salnum þegar reggí-lag frá Elvis Costello var flutt.  Einhverjir gerðu athugasemd við að Elvis væri ekki pönk.  Lagið smellpassaði samt inn í dagskrána og vissulega var STIFF-gengið - sem Elvis tilheyrði - áberandi hluti af pönksenunni.    

  Hljómleikarnir enduðu á frábæru lagi Sham 69If the Kids Are United.  Betra lokalag á næstum því 3ja klukkutíma langri pönkdagskrá er vandfundið.  Magnað samsöngslag þar sem salurinn tók undir í söng og klappi. 

  Einu hnökrar hljómleikanna voru að söngur var oft of lágt stilltur.  Árni Daníel,  góðvinur minn úr Svarfaðardal og bekkjarbróðir Steina Briem,  kom mér á óvart sem kröftugur öskursöngvari.  Ég vissi að hann er fínn bassaleikari og hljómborðsleikari en vissi ekki af þróttmiklum sönghæfileikum hans.  Söngvararnir - sem og reyndar allir aðrir flytjendur - voru virkilega flottir.  Framan af ferli Fræbbblanna þótti mér Valli vera mistækur söngvari.  Sem svo sem passaði við pönkstemmningu þeirra ára.  Síðan hefur hann vaxið sem söngvari jafnt og þétt.  Og er ágætur gítarleikari líka.  Í kvöld var hann fantagóður söngvari og algjörlega á heimavelli.

  Einn af mörgum kostum flutningsins í kvöld var að ekki var reynt að rígbinda sig við að hljóma alveg eins og frumflytjendur.  Persónulegur stíll flytjenda fékk að njóta sín þó að tryggð væri haldið við frumflutning laganna.  Til að mynda þótti mér gaman að heyra The Clash slagarann "White Man in Hammersmith Palias" hraðað lítillega úr reggítakti yfir í ska takt.  Það kom virkilega vel út.

   Hljómleikarnir voru kvikmyndaðir af tveimur kvikmyndavélum.  Vonandi verða þeir sýndir í sjónvarpinu (og endursýndir þrisvar sinnum) og jafnvel sýndir í erlendum sjónvarpsstöðvum.

  Ég var ekki aldursforsetinn í salnum.  Hrafn Gunnlaugsson og Magnús Pálsson (bróðir Sæma Rokk) voru líka í salnum.  Uppistaðan af áheyrendum voru þó ungt fólk.  Efasemdir um að Grand Rock henti undir svona hljómleika stóðust ekki.  Að vísu var troðið út úr dyrum.  En það var bara hluti af stemmningunni.    

  Smá lókal:  Gaman var að hitta Ágúst sem áður rak tölvufyrirtækið Micro.  Hann er mágur Gumma frá Sölvanesi.  Ég sá um auglýsingar fyrir Micro í gamla daga en hafði ekki hugmynd um að Gústi væri pönkari.  Einnig hitti ég Hreiðar,  sem spilaði á tímabili á bassa með Gyllinæð,  og Einar Loka sem spilaði blús á opnunarhátíð Good Fellas í haust.  Marga fleiri kannaðist ég við.  Svo sem Frikka pönk sem spilaði með Sjálfsfróun á tímabili. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég sé að þetta hefur verið hin besta skemmtun og áhugaverð sammenkomst

Sigurður Þórðarson, 9.3.2008 kl. 07:49

2 identicon

Jens, er þá ekki "Sunday morning nightmare" núna Jimmy Pursey til heiðurs....

Bubbi J. (IP-tala skráð) 9.3.2008 kl. 08:50

3 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Fúll að komast ekki vegna kvöldvinnu....hmm...ekkert lag eftir Killing Joke?

Georg P Sveinbjörnsson, 9.3.2008 kl. 10:55

4 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

*hic*

Var gaman að sjá þig ó Jens vors Guð.

Það vill reyndar oft gleymast að minn aðall í tónlist er pönk og hrátt rokk þó ég hafi fyrst lært að spila blús af menntaðari stefnum tónlistar... 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 9.3.2008 kl. 11:19

5 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég ætlaði að hitta vin minn þarna í gær, en var of seinn og missti af fjörinu.

spurningin sem vaknaði í mínum huga þegar ég kom á staðinn var sú, hvar komust hljómsveitirnar fyrir?

þetta er nú ekki stór staður. eiginlega bara skápur.

Brjánn Guðjónsson, 9.3.2008 kl. 11:57

6 Smámynd: Ómar Ingi

Pönk já Nei Takk

Ómar Ingi, 9.3.2008 kl. 12:13

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta hefur greinilega verið mikið fjör Jens minn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.3.2008 kl. 12:15

8 identicon

Jú jú, Árni Daníel í Q4U og Hjöri á Tjörn, aftari helmingurinn af Hundi í óskilum og fjórðungurinn af Tjarnarkvartettinum, voru bekkjarbræður mínir á Húsabakka. Gestur söngkennari henti mér hins vegar alltaf út úr söngtímunum, því ég söng falskara en Árni Johnsen. Ég þoldi ekki öll þessi ættjarðarlög og þjóðrembu og fannst miklu skemmtilegra að fara í fótbolta. Við Árni Daníel fengum hæstu meðaleinkunn í skólanum, níu, en Hjöri var frekar illa gefinn, seinþroska og illa vaxinn niður.

Ég lærði hins vegar töluvert meira í skólanum en Árni Daníel og naut þess þar að vera á heimavistinni. Kennararnir höfðu ekki við að ná í mig af kvennavistinni og réði þar eðlislæg forvitni kvenna ferðinni. Stelpurnar voru alltaf að ná í mig út af einhverju seint á kveldin og var þetta nú frekar þreytandi til lengdar en í alla staði fróðlegt, eins og hver annar lærdómur.

Eitt sinn náði Heimir skólastjóri í mig þar sem ég kúrði tólf ára gamall með Öllu Möttu frá Skáldalæk, og sagði si svona: "Steini minn. Þú verður að lofa því að gera þetta aldrei aftur." Ég sagði að mér væri jafn mikill ami að þessu og honum, og yrði náttúrlega að hætta að láta svona eftir stelpunum. Og ég hef aldrei gert þetta aftur, enda þótt þetta væri reyndar eina kennslan með viti í skólanum. Ég benti Þorgerði Katrínu á þetta atriði þegar karl faðir hennar kynnti mig fyrir henni í Þjóðleikhússkjallaranum en þá var hann ekki orðinn skátahöfðingi og hún ekki menntamálaráðherra. Leikarinn kenndi mér þó sitthvað í framsögn í grófum dráttum en við Kata fórum út í fínni drætti.

Kristján Jóhannsson, rithöfundur, hlaupari, kennari og bróðir Alexanders í Hlíð í Skíðadal, þar sem ég ólst upp frá sex ára aldri, kenndi Ellý í Q4U í Langholtsskóla þegar hún var orðin pönkari. Þar missti Kristján bæði hárið og tennurnar og Ellý kom honum næstum í gröfina. En Árni Daníel var með Ellý í Q4U og Handan grafar.

Steini Briem (IP-tala skráð) 9.3.2008 kl. 12:15

9 Smámynd: Gísli Hjálmar

Ég hefði nú ekkert verið á móti því að hafa verið þarna. Hvar og hvenær var þessi uppákoma auglýst?

Gísli Hjálmar , 9.3.2008 kl. 12:24

10 Smámynd: Ylfa Lind Gylfadóttir

djös...andsk....heitasta helv..... steingleymaði þessu......á seint eftir að fyrirgefa sjálfri mér það

Ylfa Lind Gylfadóttir, 9.3.2008 kl. 15:28

11 Smámynd: Rannveig H

Steini þú átt engan þinn líka  það ætti að klóna þig.

Rannveig H, 9.3.2008 kl. 16:26

12 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Idunn og Valli - rokka flott!

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 9.3.2008 kl. 16:34

13 Smámynd: Jens Guð

  Siggi,  þetta var frábær skemmtun fyrir mann eins og mig sem upplifði pönktímabilið beint í æð.

  Bubbi,  nú er einfaldlega heildarpakkinn með Sham 69 spilaður. 

 George,  nei,  það var ekkert Killing Joke lag.  Uppistaðan af lögunum voru árgerð ´76 og ´77.  Þó að KJ hafi sent frá sér nokkrar smáskífur ´79 þá fór hróður hennar ekki hátt fyrr en 1980 þegar pönkið hafði gengið í gegnum töluvert þróunarferli.  Ég sjálfur hefði þegið KJ lag eða lög.  En ég átta mig jafnframt á að það hefði ekki passað inn í "konseptið".

  Einar Loki,  ég var einhvernvegin viss um að þú værir pönkari inn við beinið.  Reyndar er það svo að flestir pönkunnendur sem ég þekki hafa jafnframt áhuga á blús.

  Brjánn,  það er nú alveg þokkalegt svið á Grand Rock.  Þar hélt hljómsveitin sig.  Þó að gólfflöturinn á Grand Rock sé ekki stór í fermetrum talið þá má troða ótrúlegum fjölda þangað inn.

  Ómar,  maður á aldrei að afþakka gott pönk.

  Ásthildur,  svo sannarlega var mikið fjör.  Þó ekki eins mikið hjá mér og hópi sem dansaði á fullu - einhverskonar hopp- og "slamm" dans - allan tímann.  Samfleytt í 3 klukkutíma.  Þvílíkt úthald.  Og þvílíkt fjör.

  Steini,  mikið segir þú snilldarlega skemmtilega frá.  Ég skellihló mig í gegnum lesturinn.  Af Árna Daníel er það að segja að hann er að rita sögu íslensks landbúnaðar.  Það er ekkert smá verk.  Hann er þegar búinn að sitja sveittur við ritunina í 2 ár og er rétt að byrja.  Afraksturinn verður mörg hnausþykk bindi.

  Gísli,  ég las í 24 stundum um pönkhátíðina.  Minnir mig.   

  Ylfa Lind,  þessi pönkhátíð verður aftur að ári.    

Jens Guð, 9.3.2008 kl. 16:44

14 Smámynd: Jens Guð

  Rannveig,  ég tek algjörlega undir með þér.

  Kristín Björg,  þau voru flott í gær. 

Jens Guð, 9.3.2008 kl. 16:46

15 identicon

Hálf svekkt að hafa misst af þessu, hefði eflaust skemmt mér vel.

Ragga (IP-tala skráð) 9.3.2008 kl. 20:43

16 identicon

Hugleikur Dagsson er systursonur Hjöra á Tjörn. Ég hef gefið Alexander, syni mínum, allar bækur Hugleiks og farið með Alexander á leikritin hans í Þjóðleikhúsinu. Hugleikur er maður að okkar skapi og heitir líka flottu nafni.

Hundur í óskilum er með fína þætti á Rás 1 í Ríkisútvarpinu á laugardögum klukkan 18.30, þar sem Hjöri og Eiríkur "endurvekja fornar minningar frá 20. öldinni og leika óskalög af fingrum fram fyrir hvers kyns minnihlutahópa".

Jamm, Húsabakkaskóli var of lítill fyrir öll stórmennin, sem í honum voru, og því neyddist sveitarstjórnin til að loka honum. Eða eins og bæjarstjórinn á Dalvík sagði: "Stærðin skiptir öllu máli." Árni Daníel er líka trúr þeirri kenningu. Hann er flottur sagnfræðingur og rifjar jafnvel upp enn eldri minningar en frá 20. öldinni.

Steini Briem (IP-tala skráð) 9.3.2008 kl. 21:41

17 Smámynd: Jens Guð

  Ragga,  þú hefðir skemmt þér vel.  Ég lofa því.  Þú mætir bara að ári og skemmtir þér ennþá betur.

  Steini,  ekki vissi ég að Hugleikur væri af Tjarnarættinni.  Hinsvegar rámar mig í að hafa heyrt að hann sé stjúpsonur Ragnars "skjálfta".   Vel má vera að það sé slúður.  En góður og ferskur húmoristi er strákurinn.  Er Hugleikur ekki listamannsnafn?  Varla heitir hann þessu nafni í þjóðskrá.

  Ég reyni ætíð að hlusta á Hund í óskilum á rás 1.  Þeir félagar eru mjög fyndnir í spjalli á milli laga og matreiða músíkina skemmtilega.  Sæunn systir mín hefur eftir sínum börnum að Hjörleifur sé sömuleiðis mjög vinsæll kennari.

Jens Guð, 9.3.2008 kl. 22:21

18 identicon

Hugleikur er stjúpsonur Ragnars skjálfta, sem býr rétt hjá Tjörn og Húsabakka, eins og Hjöri. Hugleikur heitir fullu nafni Þórarinn Hugleikur Dagsson og Hugleikur er því ekki listamannsnafn. Afi hans á Tjörn hét Hjörtur Eldjárn Þórarinsson, mikill sómakall, en þau Tjarnarsystkin eru sjö talsins og Hjöri yngstur. Hann hefur alltaf verið snillingur, eins og náfrændi hans, Þórarinn Eldjárn rithöfundur.

Steini Briem (IP-tala skráð) 9.3.2008 kl. 23:14

19 Smámynd: Jens Guð

  Steini,  takk fyrir þennan fróðleik.  Gott að ég fór ekki með staðlausa stafi um fjölskyldutengsl Ragnars "skjálfta" og Hugleiks.  Var Kristján Eldjárn frá Tjörn eða hvernig er Þórarinn Eldjárn skyldur Hjöra?

Jens Guð, 10.3.2008 kl. 00:12

20 identicon

Kristján Eldjárn forseti og Hjörtur á Tjörn voru bræður, þannig að Þórarinn Eldjárn rithöfundur og Hjöri eru bræðrasynir. Þórarinn hefur á sumrin búið á sömu torfunni og Ragnar skjálfti, Hjöri og Kristján bróðir hans á Tjörn.

Steini Briem (IP-tala skráð) 10.3.2008 kl. 01:00

21 Smámynd: Jens Guð

  Reikna ég þá dæmið rétt út að Hjörleifur sé Hjartarson og að faðir hans hafi verið bróðir Kristjáns forseta?  Er kona Ragnars "skjálfta" systir Kristjáns Eldjárns eða Hjörleifs?

Jens Guð, 10.3.2008 kl. 01:13

22 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Nú fór Steini örlítið fram úr sjálfum sér í fræðimannsmussunni sinni frá æskuslóðunum. Kristján Eldjárn forseti var vissulega bróðir Hjartar og já faðir Þórarins, (Hjörleifur, Ingibjörg systir hans og Þórarinn Eldjárn þ.a.l. bræðrabörn) en Hjörtur á tjörn bar ekki Eldjárnsnafnið, það vildi hann ekki að því mér hefur verið sagt og hans börn því ekki gert það heldur! En Eldjárnsnafnið þó komið til löngu áður, gæti trúað tveimur ættliðum á undan þeim bræðrum!

og ef ég svo man rétt, þá er Hugleikur sonur DAgs Þorleifssonar blaðamanns með meiru, þú kannat örugglega vel við hann Jens!

Magnús Geir Guðmundsson, 10.3.2008 kl. 01:24

23 Smámynd: Jens Guð

  Ég er hægt og bítandi að ná heildarmyndinni.  Kona Ragnars "skjálfta" er sem sagt umrædd Ingibjörg,  systir Hjörleifs.  Ég man vel eftir Degi Þorleissyni.  Hann skrifaði fróðlegar fréttaskýringar um erlend málefni.  Lengst af í Þjóðviljann en ef ég man rátt þá síðar í Tímann eða Dag-Tímann.

Jens Guð, 10.3.2008 kl. 01:43

24 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Held að hann sé faðir Hugleiks, en fullyrði það ekki. En vara Rannveigu og þig við að ef Steini yrði einræktaður (eins og það heitir víst á íslensku) þá ætti hann sinn líka!

Magnús Geir Guðmundsson, 10.3.2008 kl. 01:50

25 identicon

Já, takk fyrir skemmtilega frásögn. Ef einhver hefur áhuga má sjá lagalista og hver var í hvaða lagi á http://www.valgardur.com/punk/lagalisti.htm - Heiða datt svo óvænt inn í Denis. Við vissum auðvitað að Elvis var kannski meira "Nýbylgja" en "Punk" en við vorum kannski ekki mikið að velta þeim landamærum fyrir okkur á þessum tíma og "Watching The Detectives" er frábært lag í anda þess sem var að gerast. Ég hafði eiginlega meiri fyrirvara á Blondie og Denis var síðasta lag inn. Það var hins vegar fín tilbreyting og á sér líka þá "sögulegu" skýringu að á sínum tíma gekk okkur Stebba ekkert að fá að spila það við vorum að hlusta á - ekki í heimahúsum, hvað þá að reyna að grenja út einhverja tilbreytingu á skemmtistöðum borgarinnar. Ég hélt svo að ég hefði fundið einhverja smá málamiðlun í lögum eins og Denis - en var vinsamlegast beðinn um að vera ekki að angra fólk með þessu helvítis punki!

Valgarður Guðjónsson (IP-tala skráð) 10.3.2008 kl. 10:30

26 identicon

Hjörtur á Tjörn hét fullu nafni Hjörtur Friðrik Eldjárn Þórarinsson en í raun hét hann Hjörtur á Tjörn, rétt eins og Hjöri á Tjörn heitir Hundur í óskilum í Þjóðskránni. Hugleikur Dagsson er sonur Dags Þorleifssonar og Ingibjargar, systur Hjöra. Allt þetta fólk hefur hins vegar mörg járn í eldinum, enda þótt ekki skrifi allir sig Eldjárn. Þeir sem það gera vilja bara ítreka að þeir séu ekki iðjuleysingjar. Hinir þurfa ekki á því að halda.

Ég hef það hins vegar eftir Þórarni Eldjárn að allir af Kjögx-ættinni segi og skrifi sig Kjögx. Sigríður Margrét Árnadóttir Hafstað, móðir Hjöra, heitir hins vegar í raun Sigríður á Tjörn, enda þótt hún hafi stundað innheimtu fyrir blaðið Norðurslóð, sem Hjöri hefur ritstýrt, ítem Bæjarpóstinum á Dalvík, en á Húsabakka gáfum við út blaðið Bleðil.

Á Húsabakka var ég hringjari, ítem stígvélavörður, en það eru mestu ábyrgðarstörf sem ég hef gegnt um ævina. Freygarður, sonur Steina á Uppsölum, var svo mikil písl þegar hann byrjaði í skólanum að ég neyddist til að sjá aumur á honum. Og þetta þótti Læonsklúbbnum á Dalvík svo merkilegt og júnik í sveitinni að klúbburinn gaf undirrituðum Heljarslóðarorrustu eftir Benedikt Gröndal um orrustuna við Solferino árið 1859 til að hefna fyrir þetta atriði. Eða eins og enskumælandi segja: "He was booked for his stupidity." Freygarði tókst hins vegar að verða efnilegur efnaverkfræðingur hér í Reykjavík og Kristján, bróðir hans, fór að búa á Uppsölum með Sæunni, systur Jens Guðs. QED.

Steini Briem (IP-tala skráð) 10.3.2008 kl. 11:47

27 Smámynd: Jens Guð

  Maggi,  mikið væri nú samt gaman að hafa marga Steina Briem.  En hann er reyndar margra manna maki þó að einstakur sé.

  Helgi og Valli,  hafið þið sjálfir bestu þakkir fyrir frábæra skemmtun.  Það eru ár og dagar síðan ég hef skemmt mér jafn vel.  Það er að segja að til viðbótar ánægjunni af að heyra þennan stóra pakka af uppáhaldslögum þá komuð þið á glæsilegan hátt til skila því sem ég vil frekar kalla endurupplifun frá skemmtilegusta tímabili sem ég hef átt í rokksögunni fremur en fortíðarhyggju.  Það sem ég á við er að ég upplifði ekki beinlínis söknuð eftir þessu tímabili heldur gleði yfir að hafa verið þátttakandi í því og verða vitni að því að þessi stemmning lifir ennþá góðu lífi.

  Það var líka smitandi að verða vitni að því hvað þið skemmtuð ykkur vel upp á sviði.  Allt í kringum mig í áhorfendasal var fólk á iði.  Syngjandi með,  dansandi eða hreyfa sig af innlifun með mundandi loftgítar eða trommutakta. 

  Sömuleiðis var gaman að sjá hvað hátt hlutfall áhorfenda var ungt fólk.  Allt niður í börn sem voru vel með á nótunum.  Þið hafið áreiðanlega tekið eftir því eins og ég hvernig salurinn "sprakk" eða kannski réttara sagt fór á flug strax í "Sheena is a Punk Rocker". 

  Hreiðar í Gyllinæð benti mér á að það hafi verið hópur dansandi Spánverja sem  trylltist úr kæti fyrir framan sviðið þegar þið tókuð "Spanish Bombs".  Og dansaði á fullu út alla hljómleikana eftir það.

  Það var góð ákvörðun hjá ykkur að einskorða dæmið við ´76-´78 (og smá ´79).  Það var einmitt þá sem "allt var að gerast".  - Þó að það hafi skilað sér aðeins seinna til Íslands.

  Ég hef stundum verið að uppfræða áhugsamt ungt fólk um pönktímabilið.  Þá hef ég skrifað fyrir það diska með helstu pönklögunum í réttri tímaröð ásamt því að taka saman fróðleik um fyrirbærið.  Yfir 90% af prógrammi ykkar samanstóð af þeim lögum sem ég hef sett á þessa diska.  Í bland við það sem ég hef ólöglega skrifað með Fræbbblunum,  Utangarðsmönnum,  Q4U o.s.frv.

  Að sjálfsögðu mun ég virkja mitt blogg í botn þegar kemur að næstu pönkhátíð.  Og er líka áhugasamur um að virkja "plöggið" yfir í stærri fjölmiðla.  Þar er ég sem menntaður auglýsingafræðingur á heimavelli.

  Ég hef heimildir fyrir því að eitthvað af framtakinu verði sett á netið.  Ég hlakka til.

  Bestu þakkir fyrir að vísa í ljósmyndir og lagalista. 

  Ég set ekkert spurningarmerki við lög Elvisar Costello og Blondie.  Bæði lögin gerðu mjög gott innslag og skerptu á því sem ég upplifði frá þessu tímabili.  Sumir af mínum bestu vinum úr harðlínupönkinu - ég nefni Sigga pönk,  Pésa pönk og Bjarna "Móhíkana" í Sjálfsfróun sem dæmi - hlustuðu á Elvis Costello í bland við The Crass.  Heiða var frábær eins og alltaf.  Og þó að ég sé ekki Blondie aðdáandi þá var ég einungis vel sáttur við að Denis var fléttað inn í prógrammið.

  Steini,  enn og aftur takk fyrir fróðleikinn.  Því er við að bæta að Kristján mágur minn á Uppsölum fer mikinn í landsliði íslenskra bridgespilara.  Og er frábær náungi sem hefur til að bera alla bestu kosti Svarfdælinga.     

Jens Guð, 11.3.2008 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.