Deila Bubba og Bigga í Maus

bubbibiggi

  Deila Bigga í Maus og Bubba geisaði hérlendis í fjarveru minni í Fjáreyjum.  Ég náði upphafi deilunnar en veit ekki hvernig hún þróaðist.  Rétt áður en ég fór út las blaðakona frá DV inn á talhólf mitt skilaboð um að hana langaði til að hlera viðhorf mitt til deilunnar.  Þegar ég hringdi í hana alltof seint og síðar meir var umfjöllun hennar um málið komin í prentun og málið afgreitt í DV. 

  Fyrst að skoðun mín á málinu birtist ekki á síðum DV þá gerir hún það hér.  Upphaf málsins er það að Biggi skrifaði í tímaritið Monitor: 

  "Bubbi hefur alltaf fylgt eftir því sem er í gangi í samfélaginu, en hefur aldrei verið leiðandi afl. Hann er eins og svampur sem sýgur umhverfi sitt inn og mótar sig og skoðanir sínar eftir því hvað er í gangi hverju sinni. Hann er símtalið sem þú færð eftir að þú ert búinn að meika það á þínum eigin forsendum."

  Eftir að Bubbi hafnaði þessari söguskoðun þá skrifaði Biggi:

 "Það má samt alveg vera mín skoðun að aðrir hafi staðið betur fyrir það sem pönkið gerði í fæðingu sinni í London á sínum tíma. Nefni bönd á borð við Sjálfsfróun, Vonbrigði, Fræbbblanna og Þeyr sem augljós dæmi."

  Ég var um tvítugt þegar breska pönkbylgjan skall á og fór eins og stormsveipur um heiminn.  En hún náði ekki almennilega upp á strendur Íslands.  Hér réði skallapoppið ríkjum,  auðn og tóm,  metnaðar- og sköpunarleysi.  Tímabilið 1977 til vorsins 1980 var geldasta tímabil íslensku rokksögunnar.  Gamlir þreyttir útlendir kántrýslagarar með íslenskum bulltextum einkenndu markaðinn. 

  Hljómleikar í Laugardalshöll með The Stranglers 1978 kveiktu áhuga fyrir útlendum pönkplötum.  Í kjölfarið varð eitthvað vart við neðanjarðarpönksenu.  Þar fóru Fræbbblarnir fremstir í flokki.  Pönksenan náði ekki upp á yfirborðið fyrr en vorið 1980 þegar Utangarðsmenn stukku með látum inn um dyrnar sem Fræbbblarnir höfðu opnað og snéru íslensku tónlistarsenunni á hvolf. 

  Bubbi og Utangarðsmenn sprengdu markaðinn upp á þann hátt að hann varð ekki samur á eftir.  Þeir settu ný viðmið,  komu með nýjan hljóm,  öðruvísi texta,  ofurkraftmikla stemmningu,  orku og spennu sem smitaði inn í hvern krók og kima. 

  Það er erfitt að útskýra þetta fyrir þeim sem upplifðu ekki beint í æð hvernig Bubbi og Utangarðsmenn umbyltu íslenskri poppmúsík.  Þegar menn heyrðu í og sáu Utangarðsmenn fyrst þá uppljómaðist tilfinning fyrir því að nú væri allt að gerast.  Og allt gerðist.   

  Utangarðsmenn spiluðu á hátt í 300 hljómleikum á einu ári,  sendu jafnframt frá sér 2 Ep-plötur,  eina stóra plötu og Bubbi sendi frá sér 2 sólóplötur.  Bubba-byltingin hreif með sér fjöldann.  Upp spruttu ótal pönksveitir.  Eldri popparar skiptu jafnframt um gír.  Ragga Gísla stökk úr Brimkló og stofnaði GrílurnarPálmi Gunnars skipti úr Brunaliðinu yfir í Friðryk og þannig mætti áfram telja.

  Það er kolröng greining hjá Bigga í Maus að Bubbi hafi aldrei verið leiðandi afl.  Bubbi var ótvíræður leiðtogi nýju bylgjunnar.  Hann var kóngurinn.  Ekki aðeins með Utangarðsmönnum heldur fylgdi hann dæminu eftir með Egói - sem varð ennþá stærra dæmi - og Das Kapital

  Hin fullyrðing Bigga,  um að SjálfsfróunVonbrigðiFræbbblarnir og Þeyr hafi staðið betur fyrir það sem pönkið gerði í fæðingu í London,  er líka ónákvæm túlkun á staðreyndum.  Vissulega hljómuðu þessar hljómsveitir - að Þeysurum undanskildum - líkar ensku pönksveitunum.  Utangarðsmenn voru með bandarískri og blúsaðri hljóm (enda 2 bandarískir gítarleikarar í leiðandi hlutverki).  En það var jafnframt styrkur Utangarðsmanna að hljómsveitin hafði í bland kunnuglegan en samt sjálfstæðan stíl. 

  Á þessum tíma umgekkst ég mikið Sigga PönkaraBjarna Móhíkana og Pésa Pönk sem síðar stofnuðu Sjálfsfróun.  Siggi elti uppi alla pönkhljómleika og var byrjaður að pönka með hljómsveitinni LSD.  Hann var á fyrstu hljómleikum Utangarðsmanna og sagði mér spenntur frá því að nú væri eitthvað stórt að gerast.  

  Utangarðsmenn urðu þessum strákum sú vítamínssprauta sem þurfti til að þeir kæmu út úr bílskúrnum og kýldu á hlutina.  Sjálfsfróun og Vonbrigði hefðu tæplega orðið til án Utangarðsmanna.  Að minnsta kosti hefðu þær hljómsveitir ekki orðið neitt það sem þær urðu.

  Þeysarar tóku U-beygju með tilkomu Utangarðsmanna.  Fram að þeim tíma voru Þeysarar létt-poppsveit með "prog" ívafi.  Þeyr urðu þó aldrei pönk heldur nýrokkarar í anda Killing Joke

  Bubbi hefur sakað Bigga í Maus um að vera falskasta söngvara landsins.  Það þarf ekki að hljóma eins illa og virðist í fyrstu.  Nick CaveKris Kristoferson og margir aðrir dáðir söngvarar eru falskir.  MegasDylan og fleiri eru fagurfræðilega ömurlegir söngvarar.  En frábærlega skemmtilegir söngvarar jafnframt.  Bubbi hefði sjálfur ekki komist langt í Idol - þrátt fyrir að vera dúndurgóður söngvari.  Biggi í Maus hefur sinn söngstíl,  sem gerði Maus að þeirri heillandi hljómsveit sem hún var. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

þeir gömlu góðu tímar. ég fílaði Þeysarana vel

Brjánn Guðjónsson, 22.3.2008 kl. 21:49

2 Smámynd: Halla Rut

Góður pistill sem fyrr.

Að halda því fram að Bubbi hafi ekki haft áhrif á samtímann er algjör fyrra. Hann hafði það svo sannarlega. Hvernig hann fer með það í dag er annað mál.

Bestu kveðjur til þín Jens.

Halla Rut , 22.3.2008 kl. 21:51

3 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Flott greining hjá þér. Alveg eins og ég upplifði þetta sem áhorfandi og áheyrandi á þessum tíma

Magnús Helgi Björgvinsson, 22.3.2008 kl. 21:58

4 Smámynd: Steingrímur Helgason

Dipló, dipló, ný hlið á skúnkinum Jensinum.  En hvað er þetta með að gleyma alltaf Purrkinum í sagnfræðinni?

Steingrímur Helgason, 22.3.2008 kl. 22:00

5 identicon

Það hefði nú verið gott fyrir Bubba ef þú hefðir bara séð um að svara fyrir hann.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 22:01

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

það þarf ekki að ræða þetta! Bubbi stendur upp úr!"

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.3.2008 kl. 22:02

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

...en hann er auðvitað vonbrigði núna...en það breytir ekki mikilvægi hans fyrir okkur ellismelli. Bubbi minn, að koma fram á "omega" er "how low can yopu go?!"

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.3.2008 kl. 22:04

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er samt sem áður sammála þessu með svampinn.  Ég held að Bubbi komi ekki með neitt nýtt, heldur tekur við kyndlum sem þegar eru komnir á loft og ber þá áfram.  Svo sem ekkert slæmt í sjálfu sér.   En frumkvöðull er hann ekki. Það er mín skoðun.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.3.2008 kl. 22:09

9 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

hann VAR frumkvöðull! elsku Ásthildur, en hefur ekki verið lengi! Auðvitað var hann það!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.3.2008 kl. 22:13

10 Smámynd: Jens Guð

  Brjánn,  Þeysarar voru snilld.  Reyndar ekki í upphafi.  Platan  Þagað í hel  er ekki upp á marga fiska.  En þeir tóku heldur betur við sér þegar Killing Joke áhrifin fengu að njóta sín.  Músíklega voru Þeysarar besta hljómsveit rokkbylgjunnar.

  Halla Rut,  takk fyrir kveðjuna og eigðu gleðilegustu páskahátíð.  Ég átta mig ekki á því hvernig Biggi í Maus hefur fengið þá hugmynd að Bubbi hafi einungis "teikað" í pönkbylgjunni.  Biggi er vel greindur náungi,  fínn blaðamaður og á að þekkja rokksöguna betur. 

  En kannski er það hrokafullt af mér að ætlast til að hann hafi jafn góða þekkingu á þessu og ég.  Ég var á fremsta bekk allan tímann.  Alveg frá því á The Stranglers hljómleikunum og út allt tímabilið sem kennt var við  Rokk í Reykjavík

  Magnús,  við munum þetta gömlu mennirnir sem vorum á svæðinu og vitni að atburðarrásinni.

  Steingrímur,  Biggi tiltók ekki Purrkinn þannig að ég sá ekki ástæðu til að blanda honum inn í þetta.  En Purrkurinn og Q4U eru kannski nærtækustu dæmin um hljómsveitir sem Utangarðsmenn beinlínis unguðu út. 

  Óli,  Bubbi er í engum vandræðum með að svara fyrir sig sjálfur.  En mér þykir rétt og skylt að staðfesta að hans túlkun á innkomu hans og Utangarðsmanna í rokkið 1980 er rétt.  Ég skil vel að honum mislíki að gert sé lítið úr jafn glæsilegu og djúpu spori sem hann setti á rokksöguna.

  Anna,  það er auðvelt að gagnrýna eitt og annað sem Bubbi hefur gert á 28 ára ferli.  En það má ekki skyggja á afrek hans.  Þau standa upp úr. 

Jens Guð, 22.3.2008 kl. 22:26

11 identicon

Ég er ósammála, þú gerir það miklu betur en hann. 

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 22:35

12 identicon

Árni Daníel Júlíusson, sagnfræðingur frá Syðra-Garðshorni, meðlimur í Handan grafar og Q4U:

"Kveikiþráður rokksins er einfaldleikinn. Úr honum verður krafturinn, ferskleikinn og spennan sem einkennir helstu augnablik þess. Það er því ýmsum vanda bundið að verða atvinnumaður í rokktónlist, því ferskleikinn vill fljótlega hverfa, og á eins litlum markaði og hér er verða menn að gera fleira en gott þykir til þess að hafa í sig og á. Þetta fengu rokktónlistarmennirnir að reyna á árunum 1973-1979. Rokkið varð að söluvöru og dægurtónlist. ...

Um skeið hafði verið lítil endurnýjun í rokkinu, en 1979-1980 kom fram alveg ný kynslóð, pönk-kynslóðin, með lítil tengsl við hina eldri. Margir úr þessum hópi stefndu hvorki að því að gera tónlist að lífsstarfi sínu, hafandi reynslu kynslóðarinnar á undan fyrir sér, né að spila neitt sérlega vandaða tónlist. Markmiðið var að skemmta sér og ná aftur fram ótugtarskapnum sem einkenndi rokkið á fyrstu árum þess. Pönkið var mjög öfgakennt og ekkert verið að eltast við markaðinn. Áheyrendahópurinn var því ekki mjög stór.

Ísbjarnarblús með
Bubba Morthens kom út árið 1980 og gaf tóninn fyrir nýbylgjuna 1980-1983.

Nokkrar plötur er settu svip á rokkið. Blaðamenn breska tónlistarblaðsins NME ...:

1975 Autobahn - Kraftwerk
1976 Anarchy in the UK - Sex Pistols
1977 Low - David Bowie
1978 Public Image - Public Image Ltd.
1979 Good Times - Chic
1980 Closer - Joy Division
1981 Adventures On the Wheeles of Steel - Grandmaster Flash
1982 Do You Really Want to Hurt Me - Culture Club
1983 Blue Monday - New Order
1984 The Smiths - The Smiths
1985 Psychocandy - The Jesus and Mary Chain
1986 Kiss - Prince"

Steini Briem (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 22:40

13 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur,  Bubba-byltingin hefur kannski ekki skilað sér til Ísafjarðar.  Hehehe!  Þegar Bubbi og Utangarðsmenn komu fram á sjónarsviðið þá gerðu þeir það algjörlega á sínum eigin forsendum.  Þeir hermdu ekki eftir neinum.  Þeir voru með ferskan og sjálfstæðan stíl.  Þess vegna voru þeir ekki beinlínis pönkarar eða neitt annað áður skilgreint fyrirbæri. 

  Sjálfir kölluðu þeir sig gúanórokkara.  Skilgreindu sig sem stráka úr slorinu sem væru ekki að þykjast vera neitt merkilegra.

  Hitt má hafa í huga að þeir reyndu á engan hátt að vera frumlegir eða framsæknir nýrokkarar.  Músík þeirra var að uppistöðu til rythma-blús.  Áhrifum frá Iggy Pop,  MC5,  The Clash,  Bob Dylan og The Rolling Stones var í engu leynt.  En það var ekki verið að "kópera" þessar fyrirmyndir. 

  Þeir sem aldrei sáu Utangarðsmenn á sviði en hafa einungis heyrt Ísbjarnarblús af plötu heyra áreiðanlega bara rythma-blús í anda Creedence Clearwater Rivival og annan gamaldags blús.  Plötur Bubba og Utangarðsmanna skiluðu aldrei nema veikum endurómi af rafþrunginni og spennuhlaðinni "live" stemmningunni. 

  Fræbbblarnir,  Snillingarnir og fleiri voru búnir að kveikja á kyndlum.  Það skal ekki lítið gert úr þeirra mikilvæga hlutverki.  Bubbi og Utangarðsmenn tóku kyndlana og kveiktu í öllu og skópu risabál sem breiddist út með ógnarhraða,  sviðu burtu fúafen þannig að upp spruttu þúsund blóm.  

Jens Guð, 22.3.2008 kl. 22:47

14 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Jens minn, ég hef ekki í hyggju ða skyggja á neitt. Bubbi Morthens var  mikill áhrifavaldur í mínu læifi (og ég ver aldrei verulega "á móti" í den) en það að hann var 20 og ég 26 var auðvitað ótrúlegt!  Enginn hafði komið fram á Íslandi fyrr svona flottur og ögrandi og "sexy"!! Því neitar enginn heivita maður (kona).

Bubbi breytti öllu!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.3.2008 kl. 22:56

15 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

...sorry...hann var 20 og ég var 16 og auðvitað glápti maður á "Jim Morrison" leðurbuxurnar..takk Bubbi!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.3.2008 kl. 22:58

16 Smámynd: Jens Guð

  Óli,  ég reyni að gefa fyllri mynd af ástandinu án þess að söngstíll Bigga flækist fyrir mér.  Ég kann vel við söngstíl hans.

  Steini,  ég geri engan ágreining við sagnfræðinginn frá Syðra-Garðshorni.  Ég fylgdist af mikilli ánægju náið með þátttöku hans í pönk-bylgjunni alveg frá því að ég sá hann spila með Snillingunum á Kampútseu-hljómleikunum í janúar 1980 (fyrir innkomu Bubba og Utangarðsmanna).  Þegar ég svo hreifst með rokkbylgjunni og setti upp pönkplötubúðina Stuð og fór að bjóða upp á pönkhljómleika þá var Árni Daníel snöggur að mæta á svæðið og pönka með Q4U.  Við urðum góðir vinir og samstíga og sammála um flest sem snéri og snýr að pönki.  Í  Poppbókinni  minni,  sem kom út ´82 eða ´83 er viðtal við Árna Daníel.   

Jens Guð, 22.3.2008 kl. 23:00

17 Smámynd: Jens Guð

  Anna,  ég átta mig á hvað þú ert að fara.  En gott að þú minntist á Jim Morrison.  Ég gleymdi að nefna það að Bubbi var mikill The Doors aðdáandi.  Þú kemur jafnframt inn á þá áru sem Bubbi bar:  Hann var ofsalega ögrandi,  árásargjarn og "töff". 

  Ég hafði áður séð nokkrum sinnum til hans fyrir daga Utangarðsmanna í slagsmálum fyrir utan skemmtistaði.  Hann var ógnvekjandi villidýr.  Það skilaði sér á sviði.  Síðar þegar ég kynntist honum þá var/er hann einnig þessi "stóra" persóna.  Hann stelur senunni og er sá sem "dóminerar" vettvanginn.  Líka vegna þess að hann er skemmtilegur og orðheppinn. 

Jens Guð, 22.3.2008 kl. 23:10

18 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk Steini en í mínu lífi eru þetta algerir áhrifavaldar...

1975 Autobahn - Kraftwerk
1976 Anarchy in the UK - Sex Pistols
1977 Low - David Bowie
1978 Public Image - Public Image Ltd.

Bubbi Motrhens- ísbjarnarbús

1980 Closer - Joy Division (ok)

1982 Do You Really Want to Hurt Me - Culture Club
1983 Blue Monday - New Order

  • 1984 The Smiths - The Smiths..(the biggest ...love of my life)

1985 Psychocandy - The Jesus and Mary Chain

Bubbi er á meðal sex pistols, kraftverk, David Bowie, New Order og THE SMITHS! 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.3.2008 kl. 23:12

19 identicon

Árni Daníel:

"1978 Þursaflokkurinn sendir frá sér fyrstu LP-plötu sína. The Stranglers halda hljómleika í Laugardalshöll fyrst pönksveita. Fræbbblarnir stofnaðir og leika opinberlega í fyrsta sinn 25. nóvember.

1979 Um haustið er haldin pönkhátíð í Kópavogi. Þar léku Fræbbblarnir og Snillingarnir við góðar undirtektir Kópavogs-og Reykjavíkurpönkara.

1980 Ísbjarnarblús Bubba Morthens kemur út. Um vorið skjótast Utangarðsmenn upp á stjörnuhimininn með Bubba Morthens, og hituðu upp fyrir Clash í Laugardalshöllinni í júní. Hljómsveitin Þeyr kemur fram á sjónarsviðið. Fræbbblarnir gefa út sína fyrstu LP-plötu, Viltu nammi væna."

1981 Pönkið blómstrar. Hljómsveitir eins og Purrkur Pillnikk, Taugadeildin, Bara flokkurinn, Grýlurnar, Tappi tíkarrass, Vonbrigði, Sjálfsfróun, Grafík, Jonee Jonee og Q4U koma fram. Á fjölsóttum hljómleikum í Laugardalshöll í júní, Annað hljóð í strokkinn, koma fram flestar þessara hljómsveita. Hljómplatan Tilf með Purrk Pillnikk kemur út sem fyrsta plata hjá Gramminu og selst í 1500 eintökum. Taugadeildin og Bara flokkurinn senda einnig frá sér plötur. The Fall spilar á þrennum hljómleikum á Hótel Borg um haustið. Utangarðsmenn hætta eftir utanlandsferð um sumarið. Bubbi Morthens stofnar hljómsveitina Egó, en hinir meðlimirnir hljómsveitina Bodies. Egó slær í gegn, Bodies ekki.

1982 Kvikmyndin Rokk í Reykjavík frumsýnd. Á hljómleikum á Melavellinum í ágúst, Melarokki, koma fram allar helstu hljómsveitir nýbylgjunnar. LP-plata Þeys, Mjötviður mær, kemur út. Stuðmenn og Grýlurnar slá í gegn í kvikmyndinni Með allt á hreinu. Oxsmá stofnuð.

1983 Þreytumerki á rokkinu. Þeyr, Q4U, Tappi tíkarrass og Fræbbblarnir hætta. Kukl stofnað um sumarið. 10. september leika Crass, Vonbrigði, Íkarus, Oxsmá, Egó og Megas á stórhljómleikum í Laugardalshöll, undir vígorðinu Við krefjumst framtíðar. Leikhópurinn Svart og sykurlaust og Oxsmá sjá um glæsilega umgjörð tónleikanna og höllin troðfyllist. Pönktímabilinu lýkur. Mezzoforte nær vinsældum í Bretlandi með Garden Party."

Steini Briem (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 23:25

20 identicon

"1983 Þreytumerki á pönkinu."

Steini Briem (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 23:30

21 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Takk takk elsku Jens minn fyrir flottan pistil

ps.Var Steini Magnússon ekki gítarleikari í Þeyr?

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 22.3.2008 kl. 23:40

22 Smámynd: Jens Guð

  Anna,  ég kvitta algjörlega undir þína góðu áhrifavalda.  Að vísu undanskil ég Culture Club.  Sú hljómsveit var aldrei mín bjórdós.  En hinar plöturnar sem þú telur upp eru allar á mínum lista svo ég bara kvitta undir.  Og af því að þú skreytir The Smiths:  Mikið svakalega sem Morrisey var frá á hljómleikunum í Laugardalshöll.  Ég átti von á góðu en hann var tvöfallt flottari,  rokkaðri og fyndnari.

  Ég hafði lesið umsagnir um hljómleika með honum þar sem hann gerði í því að pirra áheyrendur og ögra þeim.  En þarna var hann í svo góðu skapi og jákvæður að ég skemmti mér mun betur en ég reiknaði með. 

  Steini,  hvar nærðu í þessa merku samantekt sagnfræðingsins úr Svarfaðardal?

  Linda,  ójá,  hann Steini Magg var gítarleikari Þeysara.  Ég gerði síðar fyrir hann plötuumslag sólóplötu.  Jakob Smári,  bassaleikari og vinur minn,  er bróðir hans www.jakobsmagg.blogg.is. Í Þeysurum var annar merkilegur gítarleikari,  Guðlaugur Óttarsson.  Þegar við vorum samtímis nemendur á Laugarvatni var hann í hljómsveit sem hét Lótus og ég í hljómsveit sem hét Frostmark.  Síðar varð trommarinn Sigtryggur Baldursson góður vinur minn og ég aðstoðaði hann við plötu þar sem hann,  undir nafninu Bogomil Font, gerði plötuna Út og suður.  Þar túlkaði hann lög Kurts Weills. 

  Hugmyndafræðingur Þeysara,  Hilmar Örn Hilmarsson, er að auki góður vinur minn og allsherjargoði Ásatrúarfélagsins.       

Jens Guð, 23.3.2008 kl. 00:04

23 identicon

Jens. Þetta er í Íslenska Sögu-Atlasinum, 3. bindi, útg. 1993, í kaflanum Rokktónlist 1955-1992, bls. 152-153.

Steini Briem (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 00:12

24 Smámynd: Jens Guð

  Steini,  ég hef ekki heyrt af þessari merku bók.  Það verður mitt fyrsta verk á þriðjudaginn að leita hana uppi.  Takk kærlega fyrir þessar upplýsingar. 

Jens Guð, 23.3.2008 kl. 00:28

25 identicon

hef aldrei fílað bubba og fíla hann enn síður eftir þennan kjafthátt með maus og hina sveitina, er of fullur til að muna, sorry,en Bubbi sökkar fyrir mér mér, er samt árgerðin sem er rosahrifin af Bubba sem er 1957

haukur (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 00:40

26 Smámynd: Jens Guð

  Haukur,  þetta hefur ekkert með það að gera hvernig einhver "fílaði" Bubba.  Ég man alveg eftir stemmningunni ´82 - ´83 þegar helmingurinn af "senunni" talaði um Bubba og Egó sem "sell out".  Bubbi og Egó tröllriðu öllum vinsældalistum og fylltu alla skemmtistaði.  Plötur Bubba og Egós seldust í bílförmum og þeir sem töldu sig vera alvöru pönkara vældu undan því að vinsældapopp Bubba væri "svik við málstaðinn".  Samt slógu þeir aldrei hendi á móti því að fá að spila fyrir þúsundir á hljómleikum með Bubba.  Og þeir sem dæmdu Bubba ákafast fyrir "sell out" urðu aldrei meira en "no name" í bílskúrum og fámennum kjallaraholuhljómleikum.

  Samt.  Ég skildi þeirra viðhorf.  Þeir töldu sig vera boðbera alvöru pönks og stemmningin var tímabundið að hluta þeim í hag.  Hinir, sem áttuðu sig á tækifærinu sem ofurvinsældir Bubba færði þeim, urðu ofan á.  Þetta var spurning um að vera ofanjarðar eða njóta virðingar þeirra sem voru neðanjarðar.  Þeir sem kusu að vera neðanjarðar urðu hinsvegar aldrei annað en neðanjarðar.  Og eru flestum gleymdir í dag.

  Bubbi stendur með pálma í höndum í dag.  Hann er nánast einsdæmi á heimsmælikvarða með ofurvinsældir sem spanna 28 ár.  Hefur selt upp fyrir 20.000 eintök af stökum plötum (vel að merkja bara plötum sem ég sá um markaðssetningu á).  Ég er ekki ógangrýninn Bubba-aðdáandi.  Ég get alveg sagt honum og öðrum frá plötum hans sem eru mér ekki að skapi.  Eftir stendur umbylting hans á rokki níunda áratugarins.  Og margt fleira flott þá og síðar. 

Jens Guð, 23.3.2008 kl. 01:56

27 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Jamm og svei mér ef Bubbi stendur ekki bara með "Pálma Gunnars" í höndunum Jens minn kæri félagi haha!

Gleðilega páska!

Magnús Geir Guðmundsson, 23.3.2008 kl. 03:31

28 identicon

Laf er skrúfan laus,
í larfi þeim úr Maus,
og heldur ekki haus,
með heljarinnar raus.

Steini Briem (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 13:12

29 identicon

Bubbi gamli að skíta upp á bak gagnvart ungum grænjaxli eins og Bigga. Biggi klárlega mun yfirvegaðari í sinni nálgun og viðbrögðum. Bubbi þarf greinilega að fá sér ný gleraugu eða nýja boxhanska fyrsta hann las bara "diss" út úr leiðara Bigga og þurfti svo að hreita í hann einhverjum svoan "ég er sterkari en þú" kommentum í kjölfarið. Held að Bubbi einn hafi misskilið þetta.

Krakkarnir í félagsmiðstöðinni minni lásu þetta ekki sem diss. Bubba að förlast?

Birkir Viðarsson (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 22:13

30 Smámynd: Jens Guð

  Maggi,  ég er sammála því að Bubbi hafi farið offari í viðbrögðum við gagnrýni Dóra DNA og pistlum Bigga í Maus.  En rifjum samt upp að þetta er sami Bubbi og söng: 

  Ég er löggiltur hálfviti,

hlusta á HLH og Brimkló.

  Ég er löggiltur öryrki,

læt hafa mig að fífli...

  Bubbi var og er kjaftfor,  herskár og,  já, eiginlega pönkari.  Hann söng líka öllum að óvörum níðvísu um Gvend "Jaka" í hátíðlegum afmælisþætti Gvends í sjónvarpinu.  Bubbi er meiri kjaftfor John Lennon en diplómatískur Paul McCartney.  Meiri kjaftfor Johnny Rotten en diplómatískur Glen Matlock. 

  Steini,  skemmtileg staka.

  Birkir,  Biggi í Maus er ekki grænjaxl.  Hann er búinn að vera í framlínu íslensks rokks í áraraðir.  Ég er aðdáandi Bigga og Maus.  Flott hljómsveit og mér líkar vel söngstíll Bigga.  Hann er líka góður penni.  Ég las ekki "diss" út úr texta Bigga heldur virðingu fyrir Bubba.  Samt skil ég - að sumu leyti - viðbrögð Bubba gagnvart þeirri röngu söguskoðun Bigga að Bubbi hafi ekki verið leiðtogi rokkbylgjunnar á fyrri hluta níunda áratugarins.  En það var ekki við hæfi að ráðast að söngstíl Bigga.  Og eiginlega úr hörðustu átt frá Bubba sem hefur ekki farið leynt með aðdáun á Bob Dylan og Megasi. 

Jens Guð, 24.3.2008 kl. 23:33

31 identicon

Má vera að Bubbi hafi eitt sinn verið uppreisnargjarn, kjaftfor og fátækur rokkari í den, sem fyrirleit auðmenn og allt það sem var borgaralegt.  Þá söng hann:

  • Stál og hnífur er merki mitt og farandverkamanna......

Í dag er hann ekki lengur uppreisnargjarn, en mjög ríkur rokkari, sem umgengst auðmenn og tekur þátt í tónleikum sem kallast borgaralegir (sbr. Nýýarstónleika hans), og þar að auki hefur hann selt auðvaldinu og peningahyggjunni sálu sína, en er samt sem áður enn kjaftfor.   Í dag getur hann því allt eins sungið:

  • Range-Rover er merki mitt og annarra auðmanna......

Þvíkík umskipti á einum manni.  Ég fílaði hann í den, en ekki núna eins og hann er í dag..........

Sigurmundur Þorleifsson (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 16:08

32 identicon

Jens: ég meinti að í augum Bubba... sem sagt Bubba 2008 módelsins, þá er Biggi örugglega lítið annað en grænjaxl sem veit ekki betur. Allavega af skrifum kóngsins að dæma.

Biggi er svo sannarlega engin grænjaxl í mínum augum.

Birkir Viðarsson (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 16:42

33 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Eins og svo oft fer uumræðan út um víðan völl og snýst nú minnst um það sem er kjarni málsins, hvernig bubbi sé eða hvernig hann var og hvort Birgir Örn sé svona eða hinseigin, grænjaxl eða ekki. Tilgangurinn helgar meðalið, Ég held nú að Birgi Erni hafi ekkert sérstaklega út af fyrir sig verið það í huga að gera lítið úr bubba, en eins og lfeirum sem eru í hans sporum, verið umhugað að finna nú eitthvert stuðandi umfjöllunarefni að skrifa um til að SELJA BLAÐIÐ SITT og VEKJA Á ÞVÍ ATHYGLI!

Og það tókst honum rækilega, svona rétt eins og Illuga með meintu Múhameðsmyndinni í Sögunni allri, en gekk e.t.v. skrefinu lengra en hann hafði efni á! (meðvitað eða ómeðvitað!?)

Magnús Geir Guðmundsson, 25.3.2008 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband