Það er alltaf gaman að velta fyrir sér niðurstöðum svona skoðanakönnunar og bera hana saman við eigin viðhorf. Sumt var fyrirséð. Annað kemur á óvart. Jafnvel svo að það kallar fram spurningamerki. Að sumu leyti er þetta ófyrirséða áhugaverðara. En förum yfir listann:
1. Spilverk Þjóðanna
Það lá fljótlega fyrir að Spilverk þjóðanna yrði valið besta íslenska hljómsveitanafnið. Yfirburðir þess komu strax í ljós. Næstum fimmta hvert atkvæði var greitt Spilverki þjóðanna. Ég er afskaplega sáttur við þessa niðurstöðu. Nafnið er frumlegt en þjóðlegt. Það er reisn yfir því. Jafnframt hæfir það vel framúrskarandi góðri þjóðlagakenndri kassagítarhljómsveit sem sótti jafnt í nýskapandi strauma sem gamla hefð.
2. Unun
Nöfn Ununar og Kamarorhesta skiptust á 2. og 3ja sæti nánast frá fyrstu atkvæðum. Oft var dagamunur á því hvort nafnið hefði yfirhönd. Ennþá algengara var að þau væru með jafn mörg atkvæði á bak við sig. Eftir að 500 atkvæði voru í húsi seig Unun lítillega framúr og hélt naumu forskoti til lokaniðurstöðu. Kannski munaði einhverju að yngra fólk þekkir ekki Kamarorghesta á meðan Dr. Gunni og Heiða í Unun eru í sviðsljósinu.
Þessi orð mín má ekki túlka sem óánægju með að Unun sé næst besta íslenska hljómsveitanafnið. Alls ekki. Þetta er flott og jákvætt nafn, stutt og laggott. Í mörgum leturgerðum má einnig lesa nafnið á hvolfi. Ekki síst er þetta heppilegt nafn á pönkaðri rokksveit.
3. Kamarorghestar
Að óreyndu hélt ég að nafn Kamargorghesta yrði númer 2. Mér þykir þetta vera magnað nafn og ef ég man rétt þá gaf ég því mitt atkvæði. Vel á minnst, Kamarorghestar eiga líka mörg flott lög sem oftar mættu heyrast í útvarpi.
4. Hljómsveit Ingimars Eydal
Ég átta mig ekki á sterkri stöðu þessa hljómsveitanafns. Lengst af hélt ég að einkum væru grínarar að kjósa þetta nafn. Og held það reyndar enn. Samt hitti ég fullorðna konu sem sagðist hafa kosið þetta nafn. Hún er enginn grínari og henni var full alvara. Ég spurði hana hvort að Hljómsveit Hauks Morthens eða Sextett Ólafs Gauks væru ekki jafn góð. Hún hélt nú ekki. Hljómfegurð þessa nafns væri svo miklu meiri en hinna nafnanna.
Ég óska eftir rökum þeirra vel á annað hundruð manns sem kusu þetta nafn.
5. Purrkur Pillnikk
Sumir settu spurningarmerki við það hvort að Purrkur Pillnikk væri íslenskt nafn. Nafnið er á gráu svæði sem slíkt. Það er skýrt í höfuðið á stjúpföður Einars Arnar, söngvara Purrksins. Sá var og er aðdáandi skákmeistara sem heitir Pillnikk. Á unglingsárum var stjúpfaðirinn svefnpurka og bróðir hans uppnefndi hann Purrk Pillnikk. Nafnið festist við manninn og Einar Örn henti það á lofti þegar hann stofnaði þessa flottu pönksveit.
6. Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur
Fyndið nafn. Alltof langt. En það er hluti af brandaranum.
7. Tennurnar hans afa
Annað fyndið nafn.
8. Brimkló
Höfundur þessa nafns er Árni Johnsen. Að vísu er nafnið ekki alveg í samræmi við hljómsveit sem gerði út á bandaríska kántrý-slagara. Nafnið hefði hentað betur framsækinni "prog" hljómsveit eða Áhöfninni á Halastjörnunni. Samt gott nafn.
9. Sigur Rós
Gott nafn á frumlegri rammíslenskri hljómsveit sem spilar yfirnáttúrulega fallega músík.
10. Hljómar
Ja, nafnið er ekki eins merkilegt og hljómsveitin. Nafnið er tilbrigði við The Beatles og þau hljómsveitanöfn sem tóku mið af tískubylgju bítlaáranna (Tónar, Mánar, Geislar o.s.frv.).
11. Búdrýgindi
Ljómandi gott nafn fyrir pönkaða hljómsveit er sigraði í Músíktilraunum.
12. Bara-flokkurinn
Bara-flokkurinn var upphitunarhljómsveit Þursaflokksins framan af ferli. Í hógværð sinni og lotningu gagnvart Þursaflokknum var hljómsveitin bara kölluð Bara-flokkurinn. Reynið að komast yfir lagið "Catcher Coming" með Bara-flokknum. Frábært lag.
13. Morðingjarnir
Töff nafn á töff pönksveit.
14. Mínus
Ég hefði viljað sjá þetta nafn ofar á listanum. Gott nafn á harðri rokksveit. Hljómar líka vel erlendis þar sem hljómsveitin nýtur vinsælda.
15. Dátar
Nafn Dáta fellur undir sama flokk og nafn Hljóma. Nafnið er að sumu leyti út í hött vegna þess að hljómsveitin tengdist á engan hátt hernaði. En þetta var svo merkileg hljómsveit að viðskiptavild nafns hennar er stór.
Gaman væri að heyra viðhorf ykkar til niðurstöðu þessarar skoðanakönnunar.
Athugasemdir
TEMPÓ afhverju eru þeir ekki þarna á listanum ha? TEMPÓ.
Númi (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 23:50
Spilverkið er vel að titlinum komið, hefði reyknað með Mínus ofarlega, einfalt og gott hljómsveitarnafn, Hljómsveit Ingimars Eydals er hvorki frumlegt né skemmtilegt nafn og hefði átt að verða í síðasta sæti ef allt er með felldu.
SeeingRed, 6.4.2008 kl. 00:00
Númi, ég man ekki hvort að nafn Tempó var nefnt til sögunnar (og nenni ekki að fletta því upp). En ef að það hlaut tilnefningu þá hefur hún að minnsta kosti ekki hlotið stuðning lesenda.
Seeing Red, ég er þér sammála með að nafn Hljómsveitar Ingimars Eydal er eiginlega út í hött í þessu samhengi. En ég ákvað í upphafi að beita engri ritskoðun og eins ósammála og ég er því að þetta sé gott íslenskt hljómsveitarnafn þá beygi ég mig undir skoðun þeirra sem eru á öndveðri skoðun.
Jafnframt óska ég eftir rökum þeirra sem kusu þetta nafn.
Jens Guð, 6.4.2008 kl. 00:18
Ég veit ekki hvort Íslendingar gera sér grein fyrir hversu Mínus er orðið stórt nafn í músíkheiminum. Maður opnar varla músíkblaðið Kerrang án þess að sjá eitthvað um þá og plássið sem þeir fá verður stærra með hverju tölublaði sem út kemur. (vikulega)
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 6.4.2008 kl. 00:45
Hvar voru Icelandic Seafunk Corporation og Afsakið
Einar Bragi Bragason., 6.4.2008 kl. 01:05
Einar Bragi, Icelandic Seafunk Corportation telst seint vera íslenskt hljómsveitarnafn. En Afsakið. Jú, flott nafn. Hef ekki heyrt það fyrr.
Jens Guð, 6.4.2008 kl. 01:07
Mér finnst þetta æðislegt Jens og gaman að fylgjast með þessu,Dátar skipta mig hjartans máli og voru þeir bara flottir á þessum tíma,en saga þeirra er sorgleg en lögin þeirra lifa enn og þau gefa okkur mikið,fallegur söngur Rúnars míns er bara dásamlegur og bros hans var einlægt og fallegt, eins elsku pabbi hann var gítarleikari og hann var með sinn einlæga og fallega stíl og hans fallega bros var einlægt eins og Rúnars,en með þeim voru Steppi minn á trommur bara yndislegur maður þar á ferð og Jón Pétur á bassan bara flottur,ég man ekki því miður nafnið á þann sem tók við af pabba en hann var flottur en einrænn,mjög dulur,en tónlist þeirra lifir,þó þeir séu farnir allir,nema Jón Pétur og megi hún lifa um aldur og ævi.
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 6.4.2008 kl. 01:30
Helga Guðrún, ég fyglist náið með velgengni Mínusar. Þetta er ein mín allra mesta uppáhaldshljómsveit. Ég gaf út þeirra fyrsta lag á safnplötu sem heitir Rock from the Cold Seas. Ég er aðdáandi Mínusar frá A-Ö. Krummi söngvari er góður vinur minn og sömuleiðis gítarleikarinn Frosti sem hættur er í hljómsveitinni. Það er frábært að fylgjast með velgengni Mínusar í Englandi.
Linda, pabbi þinn var límið sem hélt Dátum saman frá A- Ö. Hann var jafnframt sá eini sem var í Dátum frá fyrsta tóni til þess síðasta. Ég veit ekki til þess að neinn hafi tekið við af Hilmari föður þínum. Eftir því sem ég kemst næst var hann í Dátum allt til enda. Ég kynntist honum aldrei en kynntist þó sumum öðrum sem voru í Dátum, svo sem Kalla Sighvats, mjög lítillega Stebba trommara, en ennþá meira Daða sem var gítarleikari Dáta síðustu ár. Eftir því er mér skilst var Hilmar faðir þinn mjög einrænn og hleypti fólki ekki að sér. En talaðu frekar við Daða á Classic Rock um það svo að ég sé ekki fara með flökkusögur.
Jens Guð, 6.4.2008 kl. 01:56
Ætli menn vilji ekki bara að fólk muni betur eftir Hljómsveit Ingimars Eydal og gefi þeim samúðaratkvæði? Akureyzkt samsæti?
ari (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 02:50
...samsÆri*
ari (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 02:50
Er mjög sátt. Kaus Unun og er alveg sátt við að sjá það nafn í 2. sæti, enda Spilverk Þjóðanna frábært hljómsveitanafn.
Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 07:45
Skemmtilegt eins og margt annað sem þú tekur þér fyrir hendur, Jens. Ég mun segja frá niðurstöðum þessarar merku könnunar í Rödd Alþýðunnar í næstu viku. Ef ég má.
Markús frá Djúpalæk, 6.4.2008 kl. 09:22
Ég las einhvers staðar að Morðingjarnir fengju ekki að spila á rásinni vegna nafnsins. Ótrúlegt ef satt er.
Kamarorghestar eru frábært band. Heyrist of sjaldan.
Jenný Anna Baldursdóttir, 6.4.2008 kl. 10:00
Jens og Linda Linnet !
Í stað Hilmars Kristjánssonar gítarista sem hætti í Dátum, gekk gítaristinn Magnús Magnússon í Dáta á sínum tíma.
Jens !
Ekki skil ég afhverju eyjan Purkey á Breiðafirði gleymist alltaf þegar tilurð hljómsveitarnafnsins Purrks Pilnikks ber á góma !
Með bestu kveðju, Steinn.
Steinn Skaptason (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 11:05
Skil ekki af hverju Sigur Rós er ekki ofar í mínum átti hún að vinna þetta , en sitt sínist hverjum auðvitað
Ómar Ingi, 6.4.2008 kl. 13:23
Ég var einu sinni í hljómsveit sem hét Briminnstunga sem var svona á móti Brimkló
Röggi (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 13:38
Hljómsveit Ingimars heitins kemur svona sterkt inn vegna þess að spilun gengur ekki bara út á spilun. Flutningur gengur einnig út á að skapa stemmningu. Annars var allt mjög vel vandað hjá Ingimar. Allt á nótum og stífar æfingar. Þar fór saman að geta spilað vel og á þjóðarsálina. Kemur mér á óvart að þú áttir þig ekki á þessu.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 14:04
Í gamla daga var ég svo heppinn að Ingimar kenndi mér söng í grunnskóla og sá um kórinnsá maður er engum líkur.ég gleymi aldrei þeim degi þegar hann dó,kallaður burt of snemma.lögin þeirra lifa, og börnin mín hlusta meira að segja líka.í sól og sumaryl.
annars kaus ég jens MÍNUS
ofsalega flott band og nafn.....með kv adda
Adda bloggar, 6.4.2008 kl. 17:11
Gunnar Helgi Eysteinsson, 6.4.2008 kl. 17:51
Sínum augum lítur hver á silfrið. Ef þetta er niðurstaðan þá er ekki um auðugan garð að gresja. Hljómar, Dátar, Brimkló...og versta nafnið á listanum: Sigur Rós?! Furðuleg niðurstaða, algerlega út í hött :0)
Kristján P. (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 18:26
16 Eyrnahlífabúðir er án alls vafa besta nafn rokksögunar.
KFUM and the andskotans fannst mér nú líka gott.
Örn Johnson ´67 (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 21:13
kristján p...hvernig getur þér fundist Sigur Rós slæmt nafn á hljómsveit, eitt flottasta hljómsveitarnafn ever!
Annars finnst mér hljómsveitarnafnið Fásinna mikil snilld og synd að þeir gerðu aðeins eina plötu.
Georg P Sveinbjörnsson, 7.4.2008 kl. 01:19
16 Eyrnahlífabúðir???
Hvers konar bjánanafn er nú þad eiginlega?
Helgi (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 19:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.