17.4.2008 | 19:52
Klippt og skorið í Boston
Miðbær Boston er gjörólíkur úthverfinu sem ég dvaldi í. Í úthverfinu eru hús lágreist svo langt sem auga eygir. Í miðbænum er maður aftur á móti umkringdur skýjakljúfum og öðrum háhýsum, líkt og í New York. Eitt hverfið kallast Kínahverfið. Það ætti frekar að kallast Asíuhverfið. Þarna eru japönsk veitingahús, verslanir og önnur fyrirtæki, tælensk, víetnömsk, indversk og svo framvegis. Í þessu hverfi eru líka veitingahúsakeðjur á borð við McDonalds. Munurinn er bara sá að þarna eru merkingar á kínversku. Og veitir ekki af. Enskukunnáttu fólks í hverfinu er ábótavant. Það var gaman að smakka ýmsa framandi rétti.
Ég lét klippa mig á kínverskri hárgreiðslustofu. Þar talaði enginn stakt orð í ensku. Auglýst verð klippingarinnar var 10 dollarar, eða 720 íslenskar krónur. Það er reyndar ekki alveg að marka bandaríska verðmiða. Þeir eru án virðisaukaskatts. Sama hvort um er að ræða bjór eða bíl. Virðisaukaskatturinn bætist ofan á uppgefið verð. Í Boston er hann aðeins 5%.
Til viðbótar er ætlast til að viðskiptavinurinn greiði fólki í þjónustustörfum þjórfé. Einhverra hluta vegna stóð ég í þeirri trú að hæfilegt þjórfé væri 10% ofan á uppgefið verð. Í flugrútunni á leiðinni frá Keflavík var ég upplýstur um að hæfilegt þjórfé í Bandaríkjunum miðist við 15%.
Þetta þýðir að ofan á uppgefið verð bætast 20% (5% vsk + 15% tips).
Stundum heyri ég Íslendinga hæla sér af því að þeir borgi ekki þjórfé á ferðalögum erlendis. Það er ljótt. Skamm, skamm. Þjórfé er hluti af launum fólks í láglaunastarfi. Þegar svikist er um að borga þjórfé er í raun verið að stela af launum þess.
Ég hafði ekki áhuga á öðrum verslunum en plötubúðum. Ég fann 3 slíkar. Þar af var ein bara með notaðar plötur. Úrvalið í þeim öllum var afskaplega slakt. Samt voru þær allar stórar. Ein meira að segja á 5 hæðum. Gallinn var sá að fátt var að finna með öðrum flytjendum en þeim sem njóta almennra vinsælda. Þarna voru allar plötur með Bítlunum, Stóns, Dylan, Björk og Sigur Rós. En engar plötur með þeim sem ég leitaði sérstaklega eftir.
Ég hef aldrei keypt jafn fáar plötur í utanlandsferð. Venjulega kaupi ég 30 - 40 plötur. Núna voru það bara þessar:
- Revival með John Fogerty (nýjasta sólóplata forsprakka Creedence Clearwater Revival)
- Elgin Avenue Breakdown Revisted með The 101ers (gamla hljómsveit Joes Strummers, síðar söngvara The Clash)
- Singles Going Steady með The Buzzcocks (safnplata með smáskífulögum bresku pönksveitarinnar The Buzzcocks frá ´77 - ´79)
- Cover Up með Ministry (splunkuný krákuplata frá þessum meisturum bandaríska "industrial" metalsins. Þarna eru lög eins og Under My Thumbs frá Stóns, Supernaut eftir Black Sabbath, Space Truckin´ eftir Deep Purple, Roadhouse Blues eftir The Doors, Black Betty eftir Leadbelly o.fl. spennandi). Það er hörkulið á þessari plötu með Al Joergensen og félögum. Meðal annars hljóðfæraleikarar úr Fear Factory, Prong, RevCo og Killing Joke.
- Dread Kennedys - In Dub We Trust með ýmsum reggíflytjendum sem spreyta sig á lögum eftir bandarísku pönksveitina Dead Kennedys. Vel á minnst. Kennedy-slektið er frá Boston.
- Natural með bresku cow-pönk sveitinni Mekons, þeirra nýjasta plata. Mekons byrjuðu sem hreinræktuð pönkhljómsveit á áttunda áratugnum en músík þeirra þróaðist hægt og bítandi í kántrý-átt þó oft eigi hljómsveitin góða rokkspretti í bland.
- Frantic með Bryan Ferry. Ég reikna ekki með að þetta sé merkileg plata. En þarna krákar Ferry lög eftir Dylan, Leadbelly og fleiri. Það er gaman að tékka á þeim.
- Comicopera með Robert Wyatt. Þessi plata var á mörgum listum yfir bestu plötur síðasta árs. Þarna spila með þessum fyrrum trommuleikara og söngvara Soft Machine menn eins Brian Eno á hljómborð, Paul Weller (úr The Jam) og Phil Manzanera (úr Roxy Music) á gítara.
Robert Wyatt syngur á Medúllu-plötu Bjarkar. Og talandi um Björk: Í plötubúðum í Boston er plata sem heitir Ice. Þar spilar strengjasveit einungis lög eftir Björk.
Plöturnar sem ég keypti kostuðu frá 760 til 1440 ísl. kr.
Athugasemdir
Bandaríkin er land snilldar, góðrar tónlistar, besta matarins og bestu tónlistarinnar. Áður en ég fór til Bandaríkjanna árið 2000 elskaði ég menningu og þjóð út af lífinu. Eftir förinna tífaldaðist sú ást, sem hefur aukist jafnt og þétt síðan. Sérstaklega eftir 911. Þá bættist ofaná stuðnings og samúðartilfinning.
En landið hefur að sjálfsögðu sína galla. Það hafa allar þjóðir. Meira að segja Ísland. Ég fer ekki fram hjá því að Bandaríkin er sú þjóð sem ég vil lifa í og bý ég mig undir að flytjast til Oklahoma á allra næstu árum. Boston hljómar skemmtilega, en ég er meira fyrir suðurríkin, þar sem molluhitinn er og kaldi bjórinn.
Guð blessi U.S.A!!!
Siggi Lee Lewis (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 20:11
Kaupirðu 30-40 plötur svona venjulega þegar þú ferð út!!! Vá!
Ég hef einu sinni komið til Boston og fannst hún frekar falleg borg.
Velkominn heim
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 20:27
Frantic er einmitt góð plata! Besta plata sem Ferry hefur gert í kannski 20 ár. Dylan koverin ágæt; alltaf gaman að heyra nýjar útsetningar á It's All Over Now, Baby Blue, og Don't Think Twice hans er mér persónulega að skapi (munur ef sjálf Dylan-platan hefði verið á sama kaliberi). Síðasta lagið, I Thought, vann Ferry svo með Brian Eno, enda er það frábært lag, yndislega dreymandi. Maður er alltaf að vona að þeir tveir fari og geri saman eina alvöru plötu.
Skarpi, 17.4.2008 kl. 21:05
Nokkuð svo athygliverður blendingur Jens! yrði til dæmis gaman að heyra meir af hverslags dæmi þetta er hjá Wyattkarlinum með þessa athygliverðu krafta með sér og svo hhvernig Ministry fara með alla þessa rokkklassík!
Magnús Geir Guðmundsson, 17.4.2008 kl. 21:38
Annar helmingur Bandaríkjamanna talar spænsku. Hinn helmingurinn er bakhlutinn á þeim. Þeir sem tala ensku í Bandaríkjunum eru ferðamenn sem kunna ekki spænsku.
Þorsteinn Briem, 17.4.2008 kl. 22:24
Siggi, það er vatnstankur í Oklahoma sem heitir Woody Guthrie.
Anna, ég fer nú ekki á hverjum degi til útlanda. Í mesta lagi 3 - 4 sinnum á ári. Stundum sjaldnar. Lengst af var verðmunur á plötum í útlöndum og á Íslandi svo mikill (áður en íslenska krónan hrundi). Í útlöndum fékk maður plötu á langt innan við 1000 kall sem á Íslandi kostaði 2399 kall. Þar fyrir utan kaupi ég sjaldnast neitt annað en plötur í utanlandsferðum.
Skarpi, takk fyrir þennan fróðleik.
Maggi, ég á eftir að spila þessar plötur. Ég byrjaði á því að setja John Fogerty í spilarann. Ég er ennþá að spila þá plötu. En ég skal gera grein fyrir þessum plötum þegar ég hef spilað þær.
Steini, þegar ég var í Bandaríkjunum 1987 fór þar fram hávær umræða í kjölfar útreikninga sem sýndu að í upphafi þessarar aldar yrðu spænskumælandi orðnir fjölmennari en enskumælandi þar í landi. Þessi spá hefur ekki ræst vegna þess að spænskumælandi eru ýmist snöggir að læra ensku eða þeir halda sig neðanjarðar í Bandaríkjunum sem ólöglegir innflytjendur og enginn veit af tilveru þeirra.
Jens Guð, 17.4.2008 kl. 23:20
Það var nú líka til country söngvari sem hét Woody Guthrie
Siggi Lee Lewis (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 23:40
Vatnstankurinn er skírður í höfuðið á kántrý-söngvaranum. Í þorpinu Okemah í Oklahoma gnæfir vatnstankurinn yfir svæðið, sem hæsta og stærsta mannvirkið. Með því að merkja tankinn nafni Woodys Guthries vildu sveitungar hans vekja athygli ferðamanna á því að þetta var heimabær kauða.
Á heimasíðu Okemah stendur efst: Welcome to Okemah, OK, home of Woody Guthrie. Um miðjan júlí ár hvert er haldin í Okemah nokkurra daga hátíð sem heitir Woody Guthrie Festival.
Jens Guð, 18.4.2008 kl. 00:12
Gaman að lesa af ferð þinni hingað til Boston og sjá hvernig þú sérð borgina. Mér finnst reyndar smá fyndið að heyra þig tala um háar byggingar hér í borg þegar að ég týnist hreinlega þegar að ég fer til NY, eða hreinlega týni áttum þar sem maður sér fátt annað en stórar og háar byggingar. Í hvaða bæjarhluta var þetta hótel eiginlega sem þú gistir á???
Í sambandi við að gefa þjónustufólki hér "tips" þá er algjört lámark að gefa 15%, oft gefur maður 20 til 25 %, þau fá þetta ekki beint í vasann eins og var hér í denn, þau þurfa að borga skatta af þessu, og ef einhver gefur t.d ekki "tips" þá eru þau í raun að borga með sjálfum sér í vinnunni, ef maður lítur á það þannig.
Talandu um að þú hafir keypt fáar plötur, kíktir þú ekkert í Harvard Square, ég er nokkuð viss um að þar og við það hafi ég séð "öðruvísi" plötubúðir.
Bostonbúi (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 15:43
Bostonbúi, takk fyrir þennan fróðleik. Ég skammast mín fyrir að hafa ekki haft þetta með "tipsið" á hreinu. Ég hef greinilega verið nískur og ókurteis. Á móti kemur að nú veit ég - og væntanlega fleiri - betur.
Hótelið, Rodeway Inn, er í hverfi sem kallast Revere. Mig minnir að lestarstöðin heiti Wonderland.
Plötubúðirnar sem ég keypti í heita F.Y.E. (For Your Entertainment) og Borders. Sú síðarnefnda er jafnframt bókabúð. Upplýsingamiðstöð ferðamanna vísaði mér á þessar búðir. Reyndar láðist mér að upplýsa þar að ég væri frekar að leita eftir jaðarmúsík en "mainstream".
Jens Guð, 18.4.2008 kl. 18:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.