Eiga Íslendingar að syngja á íslensku, ensku eða kínversku?

  Eftirfarandi hugleiðingu setti ég inn sem athugasemd í umræðu við færsluna "Smá klúður með Freight Train" hér fyrir neðan.  Meistari Magnús Geir benti mér á að setja þetta inn sem sérstaka færslu.  Ég tek alltaf fullt mark á meistara Magnúsi.  Hér er hugleiðingin:

  Íslendingum er tamt að tjá sig hver við annan á íslensku.  Íslensk leikhús láta þýða erlend leikverk yfir á íslensku svo þau séu boðleg til sýningar.  Íslensk kvikmyndahús og DVD framleiðendur láta þýða útlendar bíómyndir yfir á íslensku af sömu ástæðu.  Íslenskar fréttastofur birta okkur erlendar fréttir á íslensku.  Íslenskir rithöfundar þýða erlendar bækur og ljóð yfir á íslensku. 

  Á sama tíma væla Íslendingar eins og stunginn grís ef afgreiðslumanneskja í matvöruverslun talar ekki kjarnyrta íslensku án hreims. 

  Íslenskum tónlistarmönnum er engin vorkunn að syngja á íslensku fyrir Íslendinga.  Ekki síður þegar þeir kráka erlend lög.  Það er metnaðarleysi að afgreiða erlend lög eins og hvern annan karíókí-slagara.  Síðustu ár - ekki síst í kjölfar Idol - hefur verið offramboð á slíkum karíókí-plötum.  Góðu fréttirnar eru að þær hafa hver um aðra þvera "floppað" í sölu og eru flestum gleymdar í dag.

  Aftur á móti hefur tíminn unnið með metnaðarfullum tónlistarmönnum sem tekið hafa erlend lög og gert að sínum.  Í þeim tilfellum breytir engu þó að frumgerð lagsins sé vel þekkt.

  Gott dæmi um þetta er flutningur Flowers á einu þekktasta lagi Arethu FranklinThink.  Flutningur Flowers á þessu lagi með íslenska textanum Slappaðu af er svo magnaður að ótalinn fjöldi yngri flytjenda - til dæmis KK og PS & Co - hefur síðar einnig spreytt sig á laginu og víkja í fáu frá útgáfu Flowers.

  Hljómsveit Ingimars Eydals gerði mörg lög að sínum með góðum árangri.  Meðal annars hið sívinsæla Sloop John B, sem í þeirra flutningi er Ég er sjóari

  Þannig mætti áfram telja og fara yfir alla írsku slagarana sem Jónas Árnason orti íslenska texta við og Þrjú á palli gerðu að sínum (og Papar síðar endurtekið leikinn).

  Vissulega má finna klaufalega íslenska texta við útlend lög,  rétt eins og við rekumst á lélegar þýðingar á bíómyndum,  bæklingum og öðrum texta.  Þær mega ekki vera ástæða til að íslenska sé afskrifuð á þessum vettvangi.  Þvert á móti eiga þær að vera hvatning til að gera betur.  Sýna reisn og metnað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Þrjú tonn af sandi?

Flottur jakki -tweed-tweed...

Æji, mér þykir þessi Íslenskunarárátta bölvað runk... þó vissulega sé ég hrifinn af ástkæra ilhýra.

Ef ég sem á Íslensku, þá vil ég að lagið sé flutt á Íslensku. Semji ég á Ensku, Dönsku eða afar slakri Spænsku, þá vil ég helst hafa það þannig, ég er viss um að flestir laga og textahöfundar séu sama sinnis... nema auðvitað þeir sem heyja á ábreiðu og jólamarkaðinn og vilja helst að lögin þeirra séu gefin út á 20 tungumálum á hverju ári í tilefni miðsvetrarhátíðar og skili þar með nógu góðum arði til þess að þeir geti legið í leti það sem eftir er.

Annars finnst mér svona ábreiðusull á plötum yfirleitt alveg hörmung, nema um húsganga og þjóðlög sé að ræða, og þá helst í búningi sem er ólíkur nokkrum þeim sem fyrr hefur komið. Oftast nær eru þeir sem neiðast til þess að gefa út ábreiður, eða krák eins og þú kallar það, ófrjóir þegar að lagasmíðum kemur. Áður fyrr voru til menn sem fengu vinnu við að aðstoða svona erkifífl með því að semja fyrir þá. Má þar nefna Bítlana, Leiber & Stoller, Burt Bacharat og Phil Spector sem dæmi um menn sem hafa haft ágætis tekjur af því að selja óútgefin lög til flytjenda sem gætu ekki samið nýtt lag til þess að bjarga sjálfum sér frá drukknun í ófrumleikahafinu.

Freight Train v. Flökku Jói?

Bah.

Á ég ekki bara að biðja um að málverkið 'Gamli Gítarleikarinn' eftir Picasso (eitt af mínum uppáhaldsverkum) sé ummálað og gert grænt í stað blás, því mér geðjast betur að grænum?

Er ekki sama listaverkið lengur þegar því er breytt svona. 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 21.4.2008 kl. 21:15

2 Smámynd: Bárður Örn Bárðarson

Já ég hef nú farið í ótal hringi sjálfur með skoðanir mínar á svona tökulögum. Ég held ég taki bara undir með Ólínu Þorvarðar sem sagði við mig "Besta sem hægt er að gera fyrir lag er að syngja það" Og svo hvort menn velji að syngja á móðurmáli sínu eða upprunalegu tungumáli lagsins verður bara hver og enn að velja. Okkur hinum annaðhvort líkar það eða ekki. Það er með tónlist eins og sjónvarpið ef manni líkar ekki myndin þá bara slekkur maður eða skutlar annarri plötu í spilarann.

Við erum að væla þessa dagana um að taka upp evru, næst skiptum við yfir á ensku og þá er þetta komið. Þið hættið að taka eftir því hvort þið eruð stödd í Berlín eða Reykjavík. Við verðum hvort sem er búin að byggja blokkir á Esjunni

Bárður Örn Bárðarson, 21.4.2008 kl. 21:35

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hver og einn gerir þetta náttúrlega eins og honum finnst best sjálfum, sumum finnst kannski enskur texti hæfa viðkomandi lagi betur en til dæmis íslenska. Og öfugt. Ef enski textinn er góður er allt í besta lagi og sama vers með íslenskuna.

Strákunum í Soundspell fannst enskir textar henta betur sínum lögum og létu Englending fara yfir þá. Gagnrýnendur spá hins vegar sjaldan mikið í textana, sem er mjög miður, en Andrea Jóns gerði það þegar hún gagnrýndi plötu Soundspell, An Ode to the Umbrella, og hún var mjög hrifin af þeim.

Þorsteinn Briem, 21.4.2008 kl. 22:20

4 Smámynd: Jens Guð

  Einar Loki,  þú hittir á þennan veika blett íslenskra dægurlaga:  Grunna texta sem við getum kallað bulltexta.  Færeyska álfadrottningin Eivör,  sem ég tek mikið mark á - ekki síst vegna þess að hún er áhugasöm um færeyska texta - segist umgangast texta eins og hvert annað hljóðfæri.  Sum lög hennar kalla á rafmagnaðan spunagítar.  Önnur á blásturshljóðfæri.  Enn önnur kalla á sænskan texta eða enskan eða færeyskan eða íslenskan.  Hún segir hvert tungumál út af fyrir sig búa til mismunandi stemmningu sem hentar einu lagi betur en öðru. 

  Bárður,  ég fer líka í nokkra hringi þegar ég velti þessu áhugaverða umræðuefni fyrir mér.  Björk er áhugasöm um íslenska texta og syngur helst á íslensku fyrir íslenska áheyrendur.  En hún telur sig eiga erindi við heimsbyggðina með boðskap á borð við baráttu fyrir sjálfstæði þjóða sem eru undir hæl heimsvelda og annað í þá veru.  Þeim boðskap vill hún koma á framfæri á því tungumáli sem margir skilja og hún ræður við,  ensku. 

  Steini,  það eru góð meðmæli með textum Soundspell að Andrea skuli leggja blessun yfir þá.  Hún er mjög næm á ensku og hefur gott eyra fyrir frambærilegum enskum textum.  Dæmið snýst einnig um það hvað menn ætla sér með músík sinni og plötum.  Mjög líkleglega hjálpaði það Soundspell í að vinna lagahöfundakeppnina að Tom Waits og Jerry Lee Lewis heyrðu lög þeirra sungin á ensku.

Jens Guð, 22.4.2008 kl. 00:02

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jamm, að öllum líkindum er það nú rétt hjá þér, Jensinn minn.

Þorsteinn Briem, 22.4.2008 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.