16.5.2008 | 14:56
Gælunöfn íslenskra poppara
Það er gaman að velta fyrir sér gælunöfnum íslenskra poppara. Þá á ég við gælunöfnum sem þeir hafa ekki tekið upp sjálfir sem listamannsnafn (sbr. Dr. Gunni eða Lay Low) heldur titlar eða gælunöfn sem aðrir hafa gefið þeim og þau nöfn fests við viðkomandi. Hér eru nokkur dæmi og gaman væri að fá fleiri dæmi frá ykkur:
Bubbi kóngur
Þegar Bubbi Morthens kom inn á markaðinn með hávaða og látum var fljótlega farið að tala um hann sem rokkkóng. Það hafði sömuleiðis fylgt Davíð Oddssyni seðlabankastjóra að hann fór með hlutverk Bubba kóngs í leikriti á menntaskólaárum. Ég hef grun um að þetta kunnuglega heiti, Bubbi kóngur, frá leikaraferli Davíðs hafi átt þátt í því að fólki þótti eðlilegt að kalla Bubba Morthens Bubba kóng.
Hr. Rokk
Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort Dr. Gunni var fyrstur til að kalla Rúnar Júlíusson Hr. Rokk eða hvort aðrir voru farnir að tala um Rúnar sem Hr. Rokk áður en Dr. Gunni fór að kalla hann þetta og fékk hann til að syngja hlutverk Hr. Rokks á plötunni Abbababb. En Hr. Rokk hefur fests við Rúna Júl og er vel við hæfi. Maðurinn er holdgerfingur rokksins.
Meistari Megas
Þegar ég var blaðamaður hjá tímaritinu Konfekti um miðjan áttunda áratuginn varð okkur Smára Valgeirs ritstjóra tamt að tala um Meistara Megas. Í mínum vinahópi var talað um Megas sem Meistara Megas. Ég veit ekki hvort að fleiri gerðu það á þessum árum. Ég stend í þeirri trú - þangað til annað kemur í ljós - að ég hafi fyrstur manna talað um Megas á prenti sem Meistara Megas.
Papa Djass
Ekki veit ég hvernig Guðmundur Steingrímsson trommusnillingur fékk þetta gælunafn. Mér dettur í hug að það hafi komið til þegar þessi djassgeggjari fór að spila með yngri rokkurum.
Jón Góði
Einhvernvegin varð að greina hljómborðsleikarinn Jón Ólafsson frá nafna hans kenndum við Skífuna. Hljómborðsleikarinn er ljúfmenni og þetta nafn hefur komið til af sjálfu sér.
Kúreki norðursins
Friðrik Þór Friðriksson kom þessari nafngift á Hallbirni Hjartarsyni þegar hann gerði samnefnda frábæra kvikmynd um Hallbjörn.
Sveiflukóngurinn
Hrynjandinn sem einkennir músíkstíl Geirmundar Valtýssonar hefur verið kölluð skagfirska sveiflan. Í framhaldi af því var farið að tala um Geirmund sem Sveiflukónginn.
Siggi kjötsúpa
Rokksöngvarinn raddmikli Sigurður Sigurðsson er fyrst og fremst þekktur fyrir að hafa sungið lag um íslenska kjötsúpu. Fyrir þann tíma var hann kallaður Siggi píka vegna þess að ungar stelpur drógust að honum er hann söng með hljómsveitinni Eik.
Bassafanturinn
Ekki veit ég hvernig Þröstur, fyrrum bassaleikari Mínusar, fékk þetta gælunafn. Eitthvað fór þó af slagsmálasögum af honum í slúðurblöðum á borð við Séð og heyrt.
Fúsi fallbyssa
Sigfús Óttarsson þótti höggþungur og þaðan er gælunafn hans dregið. Hann kom fyrst fram með Bara-flokknum og síðar spilaði hann með Bubba, Rickshow og fleirum.
Óli taktur
Annar trommari, Ólafur Helgason, kenndur við trommustíl sinn. Óli taktur varð fyrst þekktur með Kvintett Ólafs Helga og síðar hljómsveitinni Tívolí.
Siggi snípur
Enn einn trommarinn en viðurnefnið er mér hulin ráðgáta. Sigurður Hannesson varð fyrst þekktur með hljómsveitinni Árbliki. Síðar trommaði hann m.a. með Rikshaw.
Siggi pönk eða Siggi Pönkari
Fyrst varð gítarleikari og söngvari Sjálfsfróunar þekktur undir þessum nöfnum. Síðar eignaðist hann gælunafna, Sigurð Harðarson, söngvara Forgarðs helvítis og DYS. Pétur heitinn bassaleikari Sjálfsfróunar var jafnframt kallaður Pési pönk.
Bjarni móhíkani
Bjarni heitinn, söngvari og síðar bassaleikari Sjálfsfróunar, fékk þetta nafn vegna klippingar sem einkenndi útlit hans á tímabili.
Pétur kafteinn
Hljómborðsleikari Paradísar, Pétur Kristjánsson, hlaut þetta gælunafn til aðgreiningar frá söngvara hljómsveitarinnar, Pétri Kristjáns. Ekki kæmi mér á óvart ef söngvarinn gaf hljómborðsleikaranum þetta nafn.
Billy Start
Söngvarinn og gítarleikarinn Billy Start - núverandi trúbador - var í slagtogi með hljómsveitinni Start á sínum tíma. Rétt nafn hans er Brynjar Klemensson en Billy Start hefur fests rækilega við hann.
Siggi Lee Lewis
Píanóleikarinn og söngvarinn Siggi Lee Lewis var á yngri árum kallaður Siggi Presley. En vegna þess að píanóleikur hans, söngur, lagaval og útlit svipar meira til Jerry Lee Lewis færðist nafnið yfir í Sigga Lee Lewis.
Athugasemdir
Kæri Jens, alltaf er nú gaman að lesa tónlistartengdu pistlana þína. En þegar þú talar um hljómsveitina Rickshow áttu þá ekki við Rikshaw? Hljómsveitina sem var líkari Duran Duran í útliti en Duran sjálf? Og nefndi sig eftir hjólaapparati sem dregið er af mönnum víða um Asíu með feita farþega innanborðs?
Markús frá Djúpalæk, 16.5.2008 kl. 15:27
Sigurjón Baldursson gítarleikari Lost frá Akureyri var líka alltaf kallaður Siggi punk....þeir hafa greinilega verið nokkrir. Flottur pistill að vanda, þegar þú ert ekki að skrifa um pólitík......
Gulli litli, 16.5.2008 kl. 16:23
Rétt hjá Markúsi.´
Siggi Hannesar er gamall vinur okkar hjónakorna og ég hef aldrei heyrt hann kallaðan sníp. Það var kominn tími á að frétta það. Nú hamast ég í Sigurði með þetta þar til ég dey.
Jenný Anna Baldursdóttir, 16.5.2008 kl. 16:36
Siggi kjötsúpa var í sama gaggó og ég var - þ.e.a.s. þegar við vorum ekki saman á Laugarvatni. Ég get staðfest það að hann þótti með glæslilegri fulltrúum unglingspilta.....
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 16.5.2008 kl. 16:42
Sæll Jens!
Mér finnst ögn ósanngjarnt að tala um gömul gælunöfn tónlistarmanna. Þegar ég var að spila sjálfur á pönktímabilinu þá kölluðu menn hvern annan bara sínum eigin nöfnum vegna þess að þeir báru virðingu hver fyrir öðrum. Mér finnst svona gælunöfn loða gjarnan við fylleríisferðir sveitaballahljómsveita á áttunda áratugnum. Er ekki viss um þeir að hafi sjálfir viljað kannast við það sem þeir sögðu daginn eftir. En auðvitað loða gælunöfn við hæfileikamenn og er það vel. Talandi um gælunöfn þá finnst mér þau oftast sprottin úr hinum þrönga kunningjahópi listamannanna. Kannski vegna einhvers sem þeir gerðu eða sögðu einhverju sinni. Kannski vegna einhvers sem hefur ekkert með málið að gera.
Bara svona smá hugleiðing.
Kveðja.
Kristján P. (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 17:53
P.S.
Kannski líka vegna hinnar óþrjótandi frjósemi íslenskra poppblaðamanna sem töldu sig þá og telja sig enn þann dag í dag vera handhafa sannleikans. Maður gersamlega titrar þegar viska þeirra verður heyrinkunnug !
Kristján P. (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 18:02
Rétt nafn Billa Start er Brynjar Klemensson. Við erum sveitungar og fyrrum vinnufélagar. Öndvegis maður Brynjar!
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 19:32
Jón Góði var alltaf í uppáhaldi hjá mér vegna þess að ég þekki Jón Vonda
Ómar Ingi, 16.5.2008 kl. 20:18
Bassafanturinn er sérdeilis vel heppnað gælunafn.
Hef ávallt bundið vonir við að innan raða Sinfóníuhljómsveitarinnar sé harðsvíraður náungi sem ber viðurnefnið "Flautufautinn"
Haukur Viðar, 16.5.2008 kl. 20:29
Jæja Jensinn minn, nú er ég næstum heimaskítsmát! Þekki bara Bubba og Megas af öllum þessum höfðingjum sem þú telur upp. Annars bara góða helgi kæri bloggvinur.
Ía Jóhannsdóttir, 16.5.2008 kl. 20:35
Markús, bestu þakkir fyrir leiðréttinguna á stafsetningu nafnsins Rikshaw og upplýsingar um hvað orðið þýðir. Ég hafði ekki áhuga á músík þessarar hljómsveit og er óvanur að skrifa nafnið. En nú hef ég lært það og laga það í færslunni.
Gulli, það eru kannski til svo margir Siggar að mönnum hefur þótt upplagt að kennimerkja þá sem spiluðu pönk?
Jenný, ég þekki Sigurð Hannesson ekki. Hinsvegar kynntist ég sumum sem spiluðu með honum í Árbliki, einkum söngvaranum sem var skólabróðir minn í Myndlista- og handíðaskólanum. Ég varð var við að þegar menn þurftu að aðgreina trommarann frá öðrum nöfnum hans þá var hann kallaður Siggi snípur. Rikshaw var frægari hljómsveit og þá heyrði ég þetta gælunafn oftar.
Til að ganga úr skugga um að þetta sé ekki gælunafn sem heyrðist bara innan þröngs hóps fletti ég núna sem snöggvast upp í Rokkbók Dr. Gunna. Þar er upptalning á liðsmönnum pönksveitarinnar Halló og heilasletturnar: "...og trommarinn Sigurður "Snípur" Hannesson...".
Einnig segir þar um hljómsveitina Orghesta: "...mættur á svæðið ásamt Sigurði "sníp" Hannessyni..."
Kristín Björg, er hann ekki ennþá glæsilegur? Mig rámar í að hafa heyrt hann syngja blús á Classic Rock í fyrra. Ég er hinsvegar svo nærsýnn að ég sá hann ekki hvernig menn litu út á sviðinu.
Kristján, ef gælunafn er ekki niðrandi þá getur verið kostur að bera það. Það hljómar vel að vera kallaður kóngur, meistari, góður og svo framvegis. Oft virðast gælunöfn poppara vera notuð í virðingarskini, samanber The Boss (Brúsi Springsteen) eða Bono (stytting á Vox Bono = raddsterkur).
Guðmundur, takk fyrir þessa leiðréttingu minn kæri. Ég hef aldrei heyrt þennan frábæra stuðbolta kallaðan annað en Billa Start þannig að raunverulegt nafn hans er mér framandi. Ég laga þetta í færslunni.
Ómar, ég kannast við þá báða og skil vel hvers vegna fólki þykir eðlilegt að tala um Jón Góða til aðgreiningar frá hinum. Sá hefur sömuleiðis borið fleiri gælunöfn sem eru frekar niðrandi en hitt. Jón bæjó er það jákvæðasta og er stytting á bæjarvillingurinn.
Haukur, bassafanturinn er snilldarnafn. En veistu hvernig það kom til? Ég þarf að grafa það upp.
Ingibjörg, eigðu góða helgi í Tékkó.
Jens Guð, 16.5.2008 kl. 21:24
Ég var ekkert að biðja um svar. Takk samt fyrir að leiða mig í allan sannleika ! Mæli samt með því Jens. Að þú lesir ögn betur það sem kemur fram á vef þessum ! Þú virðist vera afar upptekinn maður.
Kveðja.
Kristján P. (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 21:31
Man eftir einu í viðbót:
Nonni kjuði - Trommari í Dikta
Björn (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 22:02
Kristján, ég fatta ekki hvað þú átt við að ég þurfi að lesa betur það sem fjallað er um á vefnum. Ég er dálítið fattlaus og áreiðanlega fer margt framhjá mér á vefnum þess vegna. En líka vegna þess að ég er aðallega í útkeyrslu fyrir heildsöluna mína og það er háannatími ársins hjá mér núna. Í kvöld var ég að vinna til klukkan rúmlega 9 og verð að vinna töluvert um helgina. Ég er sjaldan við tölvu og mun minna en mig langar til.
Björn, takk fyrir þetta dæmi. Ég bæti Nonna kjuða í safnið.
Jens Guð, 16.5.2008 kl. 22:16
Fúsi Óttars var kallaður Fúsi fallbyssa vegna þess að þegar hann var 15 ára undrabarn í Baraflokknum þá gekk hann jafnan í AC/DC stuttermabol með stórri fallbyssu framan á sér.
friðþjófur Sigurðsson (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 00:32
Eyjó, þú ert þá væntanlega að tala um bassaleikara Pelican. Ég hef reyndar líka heyrt talað um Harald Þorsteinsson bassaleikara sem Klettinn.
Friðþjófur, takk fyrir þetta innlegg. Þarna er komin skýring á því hvers vegna maðurinn fékk viðurnefnið Fallbyssa. Þessi stuttermabolur hefur þó hugsanlega undirstrikað að þessi norðlenski trommari þótti skemmtilega höggþungur.
Jens Guð, 17.5.2008 kl. 01:05
Man enginn eftir bassaleikaranum Sigga rottu? Minnir að hann hafi spilað með Plican og fleirri böndum á þeim tíma.
Jón Arnarr (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 03:33
Ég hef nú heyrt að Bubbi gangi undir nafninu EGO þessa dagana
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 17.5.2008 kl. 06:35
Jón Richter, aka Jonni í Exist, var að sándtékka nýja bassaboxið sitt á Gjánni, Selfossi í gamla daga,
sagan segir að speglar hafi hrunið af veggjunum, slíkur var hávaðinn.
Aðalbjörn Tryggvason (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 12:37
Jón Arnarr, það spilaði aldrei neinn Siggi í Pelikan. En mig rámar í að hafa heyrt Sigurð Árnason, bassaleikara Náttúru, kallaðan þessu nafni. Ég átta mig á því hvernig nafnið er tilkomið.
Tinna, Bubbi skírði hljómsveitina þessu nafni vegna þess að félagar hans í Utangarðsmönnum kölluðu hann Egó.
Eyjó, þetta er áreiðanlega rétt hjá þér.
Aðalbjörn, takk fyrir þessa sögu.
Jens Guð, 17.5.2008 kl. 15:04
Siggi Lee Lewis slær alla Þessa gaura í gegn! Fúsi Fallbyssa MY ASS !
Aggi Magg (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 14:37
Nokkur nöfn til viðbótar:
-- Diddi Fiðla
--- Pétur Jesú(Pétur Örn Guðmunds)
--- Jói Motorhead...trommari..veit ekki meir.
Hljóðmenn mega vera með......Addi 800 og Haffi Tempó, sem dæmi.
Guðmundur Þór (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 19:48
Blessaður Jenni, Stormskerið kallar Jón Góða nú reyndar Jón Gróða!
viðar (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 06:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.