Hver er söngkonan dularfulla sem borgarstjórinn bauð til þátttöku á Menningarnótt?

 sólvá

  Fyrir nokkrum dögum sló færeyska dagblaðið Dimmalætting (= dimmu léttir = árblik) því upp að borgarstjóri Reykjavíkur,  Ólafur F.  Magnússon,  hafi boðið söngkonunni Sölvu Ford að skemmta á Menningarnótt í Reykjavík ásamt undirleikara hennar.  Í kjölfarið höfðu íslenskir blaðamenn og útvarpsdagskrármenn samband við mig.  Þeir spurðu hver færeyska söngkonan Sölva Ford sé.

  Mér vafðist tunga um fót.  Ég kannaðist ekki við þetta nafni.  Samt sem áður fylgist ég þokkalega vel með færeysku músíksenunni.  Ég á allar helstu færeyskar plötur og hef verið duglegur að sækja færeyskar músíkhátíðir,  allt frá Ólavsvöku og G!Festivali til Asfalt.

  Ég vatt mér í það að rannsaka málið.  Heimildum mínum ber ekki saman um það hvort stúlkan heitir Sölva (sem þýðir föl eða guggin og grá) eða Sólvá (sem er hliðstæða við íslenska nafnið Sólveig).  Þegar leitað er í skriflegum heimildum skilar nafnið Sólvá Ford fleiri niðurstöðum en Sölva Ford. 

  Sölva Ford mun hafa fyrst getið sér gott orð er hún sigraði í keppni sem kallast "Ársins söngrödd 2000".  Eins og nafnið gefur til kynna er það söngvarakeppni og að ég held unglingasöngvarakeppni.

  Sölva keppti í færeysku músíktilraununum Prix Föroyar með hljómsveitinni Tám og einnig í karókíkeppni í Þórshöfn 2006.  Í karókíkeppninni komst hún í endanleg úrslit.  Í kjölfarið var hún fengin til að sitja í 21.  manna dómnefnd sem valdi besta færeyska lagið í keppni sem AME (Atlantic Music Event) stóð fyrir.  Þar bar lag eftir Eivöru sigur úr bítum. 

  Sölva hefur sungið með ýmsum dansiballahljómsveitum.  Ein þeirra er krákubandið (= "cover" lög) Ford Siesta. 

  Sölva er ekki stórt né þekkt nafn í Færeyjum,  eins og sést á því að nafn hennar er á reiki.  Hinsvegar er hún sögð vera góð söngkona með mikla útgeislun á sviði. 

  Borgarstjóri Reykjavíkur,  Ólafur F.  Magnússon,  er mjög áhugasamur um að höfuðborgin okkar sé lifandi borg með iðandi mannlífi.  Hann hefur gengið framfyrir skjöldu með að bjóða borgarbúum upp á lifandi músík,  samanber hljómleika Mezzoforte í Hljómskálagarðinum á dögunum og "hljómleikum aldarinnar" með Björk,  Sigur Rós,  Ghostdigitals og Ólöfu Arnalds í Laugardalnum núna á laugardaginn.  Það er fagnaðarefni að borgarstjórinn sé áhugasamur og vakandi fyrir því hvernig megi gæða Menningarnótt Reykjavíkur sem litríkastri dagskrá.  Það er ekkert kappsmál að dagskráin samanstandi af frægum og þekktum tónlistarmönnum heldur miklu fremur áhugaverðum og áheyrilegum,  eins og tekist hefur svo vel til hjá Airwaves.  Ég fagna því að borgarstjórinn skuli hafa uppgötvað góða færeyska söngkonu sem hann telur eiga erindi á Menningarnótt Reykjavíkur í ágúst.  Það er aldrei nóg af færeyskum söngvurum á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Þetta er sem sagt svipað og Sólrún Tinna Högnadóttir sem söng eitt sinn með hljómsveitinni Spýtur. Komst aldrei neitt áfram í söngnum enn samt ágæt söngkona.

S. Lúther Gestsson, 25.6.2008 kl. 23:31

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jens, bara allur þessi tónlistarpakki Ólafi að þakka?

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.6.2008 kl. 23:42

3 Smámynd: Árni Matthíasson

Bíddu við, er þetta sama söngkona og þú afgreiddir svo í spjalli við Fréttablaðið í dag: "Fín söngkona sem fer létt með að afgreiða "cover"-lög en ekkert meir."

Eða var það annar Jens?

Árni Matthíasson , 25.6.2008 kl. 23:43

4 Smámynd: Haraldur G Magnússon

Er það ekki gott hjá ólofuðum manni að fá stúlku til að syngja fyrir sig á haustkvöldi.

Haraldur G Magnússon, 25.6.2008 kl. 23:48

5 Smámynd: Ómar Ingi

Er Óli ekki meira að pæla í konunni frekar heldur en söngkonunni ?

Ég bara spyr

Ómar Ingi, 25.6.2008 kl. 23:55

6 identicon

Árni Matthíasson,það var Jens Kristján Guðmundsson,sem spjallaði við Fréttablaðið,en sá er með sömu kennitölu og Jens Guð.Þannig er nú það.Svona smá rugl getur alveg ruglað mann sko.Ekki misskilja mig vitlaust.

Númi (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 00:00

7 Smámynd: Jens Guð

  S.  Lúther,  ég veit ekkert um þessa stelpu sem þú segir að hafi sungið með Spýtum.  Kannski þurfti hún bara sitt tækifæri:  Að borgarstjóri uppgötvaði hana.

  Jenný,  allur þessi pakki er Ólafi að þakka.  Án hans stuðnings hefði ekkert orðið af þessu. 

  Árni minn,  ég hef aldrei heyrt í Sólvá.  Ég vitnaði bara í það sem mér var sagt.  Ég hef aldrei verið áhugasamur um karókí-söngvara.  En Ólafur er ágætur söngvari sjálfur og ég treysti honum til að bera skynbragð á hvað þessi söngkona hefur upp á að bjóða.  Látum að minnsta kosti reyna á það.  Hann hefur verið afskaplega áhugasamur um hljómleika Bjarkar og Sigur Rósar í Laugardal.  Það veit á gott.

Jens Guð, 26.6.2008 kl. 00:00

8 Smámynd: Jens Guð

  Haraldur og Ómar,  við skulum reikna með því að borgarstjórinn hafi heillast af sönghæfileikum Sólváar.  Þó væri ekkert að því að hann hafi heillast af persónutöfrum hennar líka.  Ég þekki þessa stúlku ekki.  En ef ég miða við til að mynda Eivöru - og reyndar fleiri færeyskar söngkonur - þá getur þetta tvennt farið saman.

  Númi,  það er rétt hjá þér að ég deili kennitölu með sjálfum mér. 

Jens Guð, 26.6.2008 kl. 00:08

9 identicon

Eigum við ekki að veita Ólafi tilfinningalegt svigrúm?

skúmur (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 00:20

10 Smámynd: Ylfa Lind Gylfadóttir

Er þetta einmitt ekki fín leið fyrir söngkonu að sýna hvað hún getur, þarf ekki að gefa fólki tækifæri, svo getum við bara kennt Óla litla um ef hún er ekki að standa sig

Ylfa Lind Gylfadóttir, 26.6.2008 kl. 01:05

11 identicon

Það er ljómandi falleg mynd af Sólvá og Ólafi á http://bjorgvin.eyjan.is/ Mér sýnist svipurinn á Ólafi benda til að hann hafi einungis áhuga á tónlistarlegri hllið Sólváar. 

Gunni (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 09:07

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Lagleg var úr lagi færð,
lítið var af Jensa mærð,
karl í djóki,
í karaóki,
reri á mið þar rauðhærð.

Þorsteinn Briem, 26.6.2008 kl. 11:57

13 Smámynd: Rannveig H

Jens minn kæri! Ég veit að Ólafur á upp á pallborðið hjá þér Villtu biðja hann frá okkur sem höfum áhyggjur af málum eins og á velferðasviði,barnaverndarmálum,málefnum gamla fólksins og öðrum þeim málum sem þarf að leysa sem varðar aðbúnað fólks. Mig langar svo að útsvarið mitt fari í það.

Rannveig H, 26.6.2008 kl. 13:20

14 Smámynd: 365

Hver ætli kostnaðurinn verði, þegar upp er staðið, við að fá að heyra þetta fljóð opna sig?  Tekur borgarstjóri þetta upp hjá sjálfum sér?

365, 26.6.2008 kl. 15:52

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Dulúðug, rauðhærð, lítt þekkt ung kona og töfrar gestkomandi borgarstjóra með söng!

Lorelei???

Og svo "........í bláum möttli með gullband um sig miðja eins og álfkonan hefur ævinlega verið klædd á Íslandi...." Var það ekki einhvern veginn svona sem Jón Hreggviðsson lýsti Snæfríði Íslandssól útí Köben?

Já! Gefum Ólafi tilfinnangalegt svigrúm.

Árni Gunnarsson, 26.6.2008 kl. 16:58

16 Smámynd: Ómar Ingi

Er Ólafur kynóður eða bara tónelskandi maður ?

Hann Óli littli er búin að fá alveg nóg að svigrúmi nú vill hann bara rúm

Bara grín eða svo gott sem vona að Óli verði mér ekki sár né vondur , mér finnst hann ekkert alvondur bara soldið vondur.

Ómar Ingi, 26.6.2008 kl. 20:54

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Eftir framførsluna var íslendski borgarstjórin, Ólafur F. Magnússon, so mikið væl nøgdur við hennara sang, at hann bjóðaði henni at koma at spæla á íslendsku mentanarnáttini, sum verður í Reykjavík 18. august," segir í Dimmalætting. "Hann kom persónliga yvir og bjóðaði mær við, saman við gittarleikaranum hjá mær, Rúna Eysturlíð," segur Sølva Ford."

Þorsteinn Briem, 26.6.2008 kl. 21:39

18 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

SÖLVA mín, ef þú lest þetta hafðu þá samband!  HelgaEiriksdottir@hotmail.com 

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 26.6.2008 kl. 23:16

19 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Hún heitir jú Sölva Ford, ekki Sólvá.. nema hún hafi alveg nýlega tekið sér það sem listamannanafn.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 26.6.2008 kl. 23:27

20 Smámynd: Jens Guð

  Skúmur,  borgarstjórinn á skilið allt það svigrúm sem hann þarf hverju sinni.

  Ylfa Lind,  eigum við ekki að ganga út frá því sem vísu að stelpan nái að heilla okkur eins og borgarstjórann?

  Gunni,  takk fyrir myndina.  Hún er góð af þeim báðum.

  Nemandinn,  það eru ekki margir sem vita það að færeyska álfadrottningin Eivör er í reynd með rauðleitt hár.  Hún var að minnsta kosti með rauðleitt hár þegar hún var 15 - 16 ára. 

  Steini,  takk fyrir glæsilega limru og tilvitnun í frétt Dimmalætting,  sem vakið hefur mikla athygli í Færeyjum.

  Rannveig mín kæra,  við lifum ekki á brauði einu saman.  Það þarf líka að næra andann.  Menningarnótt fær tiltekna upphæð til ráðstöfunar.  Ég hef grun um að hún skili tekjum í borgarstjóð þegar upp er staðið.  Velferðarsvið fær tiltekna upphæð til ráðstöfunar.  Þar koma allir borgarflokkar til sögu og borgarfulltrúarnir gera sitt besta.  Borgarstjórinn er læknir og mjög áhugasamur um velferðarmál.

  365,  stjórn Menningarnætur hefur fagnað aðkomu og áhuga borgarstjórans á dagskrá Menningarnætur.

  Árni,  þau eru alltaf flott innleggin þín í umræðuna.  Bestu þakkir.  Og við eigum að skilja þetta betur en aðrir því engir kunna að skemmta sér betur en Skagfirðingar.

  Ómar,  borgarstjórinn er bara góður.  Ekki vondur.

  Helga Guðrún,  ég átta mig ekki á þessu með nafn stelpunnar.  Þegar íslenskt fjölmiðlafólk hafði samband við mig talaði það um Sölvu.  Ég hóf upplýsingaleit mína um hana með því að "gúgla" nafnið.  Það skilaði ekki árangri svo ég hringdi í nokkra Færeyinga.  Þeir vísuðu strax á að ég ætti að slá upp nafninu Sólvá og leita frekar á færeyskum heimasíðum.  Þá fór leitin að skila árangri.  Meira veit ég ekki.  Hinsvegar sé ég á myndinni sem ég fann af stelpunni að hún er að syngja á Asfalt,  færeyskri tónlistarhátíð sem ég hef fylgst með.  Þar koma fram um sextíu færeyskar hljómsveitir sem spila á nokkrum stöðum.  Þannig að maður þarf að velja úr hvaða hljómsveitir hlýtt er á hverju sinni.  Ég hef minni áhuga á krákuböndum (cover) en þeim sem flytja frumsamið efni.  Mig rámar í að hafa rölt með bjórinn minn í átt að hljómsveitum sem fluttu frumsamið efni þegar ég varð var við hljómsveitir sem fluttu þekkta útlenda slagara. 

Jens Guð, 27.6.2008 kl. 01:17

21 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Ég þekki Sölvu vel, bjuggum meira að segja saman hérna úti í Nottingham fyrir nokkrum árum. Hún er fantafín söngkona og dró mig stundum með í bæinn til að syngja í karókí og höggva smá skarð í áfengislagerana á þessum ágætu stöðum.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 27.6.2008 kl. 01:31

22 identicon

Það er ekki nóg að gúgla "Sölva Ford". Þú verður að gúgla "Sølva Ford". Þá snýst þetta við.

Kári Sigurðsson (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 17:23

23 identicon

Jens,

Ghostigital, ekki Ghostdigital !

Wim Van Hooste (IP-tala skráð) 28.6.2008 kl. 08:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband